13.12.2006 | 02:18
Jóla jóla
Ég hitti mann í fyrradag sem var að brotna saman út af jólunum. Hann þoldi ekki jólalögin sem dundu á honum með sínum maníska bjöllutakti, barnakórum og klukknaspili. Hann þoldi ekki stressið.
Hann hafði farið í Kringluna á sunnudaginn með börnin og tók síðan þá óskynsamlegu ákvörðun að grípa kjúklingabita á American Style á leiðinni heim. Þar inni lá við stríðsástandi. Fullt af útjöskuðu fjölskyldufólki með úrvinda krakka hafði fengið sömu hugmynd. Að grípa kjúkling í hvelli.
Á sama tíma var fólk að hella sér yfir lögregluna upp við Þingvallaafleggjara. Líklega var eitthvað í loftinu. Kannski er jólastressið farið að gera okkur geðveik.
Beta rokk sá ég að skrifaði grein í Fréttablaðið í gær um að Íslendingar væru orðnir ruddar upp til hópa. Öll hjálpsemi gleymd og náungakærleikur. Hún eyddi þremur tímum í að fá einhvern til þess að hjálpa sér að skipta um dekk í miðjum Vesturbænum á dögunum. Fólk lyfti ekki litla fingri. Strunsaði bara framhjá.
Kannski var það jólastressið líka.
Ég sjálfur er í góðu jafnvægi. Til þess að komast í heilbrigt og rólegt jólaskap mæli ég með þremur diskum: Majónes Jól með Bogomil Font er upplagður í bílinn, til þess að koma manni í hið nauðsynlega jólaswing sem þarf inni í Miðbæ, Kringlu, Skeifu eða Smáralind.
Heima á kvöldin er svo upplagt að hlusta á Jólin eru að koma með KK og Ellen. Ég ætla samt ekki að setja hann á fyrr en í næstu viku. Svo verður hann meira eða minna á fóninum yfir hátíðirnar. Góður til að skreyta jólatréð við.
Svo eru það Sálmar með Ellen. Hana set ég á þegar jólin bresta á, á aðfangadag, svo maður skrattist nú í hátíðarskap í tæka tíð.
Fjórða diskinn stóla ég á, en á eftir að hlusta. Ég er viss um að hann er fundamental. Jól og blíða með Baggalúti. Eina lagið sem ég hef heyrt er lagið um Jesú Kr. Jósefsson.
Ég er ennþá að hlæja.
Held að fólk hefði átt að hafa einhvern af þessum diskum í bílnum þegar það beið við Þingvallaafleggjarann. Þá hefði enginn hellt sér yfir lögguna.
Annars er uppáhaldsjólalagið -- og ég er ekki einn um það -- Fairytale of New York með The Pouges og Kirsty MacColl. Það er komið í spilarann hér til hliðar. Njótið vel.
Kannski maður seti svo fleiri góð og uppbyggjandi jólalög inn næstu daga. Hugsanlega gætu þau veitt einhverjum pirruðum sálarró og stressuðum líkn, þó ekki væri nema um stund.
11.12.2006 | 14:44
Hljómsveitin Íhaldið
Undanfarið hef ég orðið var við að gamalt lag er komið aftur í spilun á öldum ljósvakans. Það heitir "Þeim er ekki treystandi" og er með hljómsveitinni Íhaldið.
Þessi hljómsveit er nýbúin að skipta um söngvara en að öðru leyti er hún eins. Lagið er líka alltaf eins.
Hljómsveitin Íhaldið er úr Reykjavík. Hún hefur gefið út nokkrar plötur en einhverra hluta vegna er það bara þetta eina lag sem náð hefur einhverjum vinsældum meðal áhangenda hennar.
Íhaldið er því nokkuð skýrt dæmi um það sem kallað er "one hit wonder" í bransanum.
Önnur lög hljómsveitarinnar hafa einhvern veginn alveg fallið dauð niður og vakið litla hrifningu.
Þetta eru lög eins og "Tæknileg mistök", "Hlerum, hlerum", "Bombum Írak", "Þegar ég vaknaði um morguninn og Varnarliðið var farið" , "Rándýra Ísland", "Biðröðin við Mæðrastyrksnefnd", "Ég missi ekki svefn út af misskiptingu", "Bush var vinur minn", "Sætasta stelpan á ballinu," "Verðbólgudraugurinn gengur aftur", "Þenslan er komin", "Hæstu vextir í heimi", "Við þurfum enga stefnu (því við erum bara við, gamla Íhaldið...)", "Ó, Friedman!", "Hver er þessi Whole Foods?", "Saman á ný í herbergi - óður til aldaðra", "Muniði Falun Gong?", "Mér var víst mútað af Baugi", "Ég skipa þig í Hæstarétt, vinur", "Aldrei fór ég til Kárahnjúka", "Kolkrabbabúggí", "Fjölmiðlalögin (syrpa)" og síðast en ekki síst "Keyrum upp húsnæðisverð með 90% lánum og breytum þeim svo aftur í 70%, hey!"
Þetta síðasta var arfaslakt -- um það eru flestir sammála, bæði gagnrýnendur og almenningur -- en það má segja það Íhaldinu til málsbóta að það var samið af upphitunarhljómsveitinni.
Eitt uppáhaldslagið mitt, persónulega, um þessar mundir með Íhaldinu er hin hugljúfa ballaða "Hvers vegna ert aldrei kjur?" sungin af Selfosshnakkanum Árna Matthíesen, draumkennd vangavelta um krónuna, stöðugleikann og efnahagslífið almennt.
11.12.2006 | 10:50
6,6% fátækt
Nýjustu tölur um þann mikla fjölda barna sem teljast lifa undir fátæktarmörkum á Íslandi ættu að kenna okkur alla vega eina lexíu: Það er ekki sífellt hægt að tala um fjárhagslegt ástand þjóðarinnar með meðaltalsreikningi.
Allt of lengi höfum við mátt búa við það að stjórnarþingmenn ryðjast fram á sjónarsviðið með tölur sem sýna vaxandi almennan kaupmátt. Í umræðu um ójöfnuð, vaxandi misskiptingu á Íslandi, vaxandi fátækt, er þetta auðvitað einhver fáránlegasti útúrsnúningur sem hægt er að hugsa sér.
Vaxandi fjöldi ríkra dregur upp meðaltalið. Fjöldi fátækra mun hins vegar seint hafa áhrif á meðaltalið með sama mætti. Meðaltalsumræður eru því besta leiðin sem stjórnarþingmenn búa yfir til þess að fela hinn raunverulega vanda.
Tölum um fjölda fátækra er sópað undir teppi meðaltalsútreikninga. Ég er nokkuð viss um að það verður línan hjá stjórnarliðum í aðdraganda kosninga
Það eru til fleiri tölur sem benda til þess að vandinn sé mikill. Tölur um vanskil meðlagsgreiðslna benda til dæmis til þess að stór hópur ungra, einhleypra karla búi við fátæktarmörk. Kjör þeirra koma heldur ekki ekki fram í umræðum um almennan kaupmátt.
Prósentutölur um vaxandi almennan kaupmátt eiga vissulega erindi inn í umræðuna. En þær segja ekki einu sinni hálfa söguna. Undir slíkum málflutningi eru alltaf kirfilega falin hin raunverulega sannindi, hin raunverulegu viðfangsefni: Á fimmta þúsund fátæk börn.
Ríkisstjórnin hefur litlar sem engar áhyggjur af þessu. Þegar umræða um fátækt barna kom upp á yfirborðið fyrir nokkrum árum með skýrslu Hörpu Njáls man ég ekki betur en að þáverandi forsætisráðherra hafi brugðist við með því að draga í efa að Harpa Njáls væri til.
Síðan þá hefur ríkisstjórnin látið nægja að setja alltaf sömu plötuna á fóninn þegar talið berst að þessum málum: "Kaupmáttur hefur aukist, kaupmáttur hefur aukist!"
En um það snýst bara ekki málið, heldur hitt, að til eru fjölskyldur í landinu sem hafa ekki einu sinni efni á salernispappír samkvæmt fréttum. Þetta er með ólíkindum , en frá þessu greinir Moggi.
Í þannig stöðu eru pappírar með útreikningum um almennan kaupmátt auðvitað vita gagnslausir.
Og þó. Það er kannski helst þá að þeir geti komið til áþreifanlegra nota.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2006 | 10:34
Hvalasala ríkisins
Whole Foods í Bandaríkjunum er hætt að markaðssetja íslenskar vörur út af hvalveiðum Íslendinga. Mogginn greinir frá þessu.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mörg ársverk framsýnna Íslendinga hafa farið í þá óeigingjörnu vinnu að koma íslenskum landbúnaðarvörum á framfæri á stórum mörkuðum erlendis. Þegar Whole Foods keðjan tók íslenskt skyr og lambakjöt upp á arma sína urðu mikil tímamót. Margir ráku upp stór augu.
Fyrir níu langreyðar er þessu fórnandi að mati Einars K. Níu skitnar.
Innar í sama Mogga er síðan frétt af því að Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hafi átt fund með ráðamönnum í Japan.
Erindi hennar var að ræða við japanska ráðamenn um sölu á hvalkjöti frá Íslandi.
Semsagt: Frjálsir íslenskir markaðsaðilar með vörur sem njóta vaxandi vinsælda verða fyrir bakslagi dauðans í Bandaríkjunum út af aðgerðum ríkisstjórnar Íslands. Á sama tíma er ríkisstjórn Íslands að reyna að selja óvinsæla og hugsanlega ólöglega - jafnvel óæta - vöru í Japan með viðræðum við þarlenda ráðamenn.
Hvalasala ríkisins, góðan daginn. Get ég aðstoðað. Nei, við seljum ekki skyr. Því miður. Bara hval.
7.12.2006 | 02:11
Nokkrar sögur
Hér á síðunni hafa skapast miklar og athyglisverðar umræður um innflytjendamál út af færslu um hatursbréf.
Umræða um innflytjendamál leiðist oft út í reynslusögur einstaklinga. Sumir segjast hafa búið í Osló og að þar séu innflytjendur mikið vandamál. Aðrir segjast hafa ferðast um lönd múslima og kynnst miklum hryllingi.
Það er allt í lagi að skiptast á sögum. Ég ætla að nota tækifærið og segja mínar sögur.
Einu sinni bjó ég í Leuven í Belgíu. Einn mikill kunningi minn, sem ég ræddi oft við um daginn og veginn, var Tyrki neðar í götunni. Hann hafði farið í hótel- og veitingaskóla í Tyrklandi og nú var hann kominn til Belgíu ásamt konu sinni til þess að stofna kebab-söluturn. Ég gleymi aldrei gleðisvipnum á andliti þessa manns þegar hann opnaði staðinn og gaf mér - fyrsta kúnnanum - fyrsta kebabið. Það var besta kebab sem ég hef smakkað. Viku síðar kom ég aftur. Ég held ég hafi sjaldan séð þreyttari mann. Hann hafði unnið dag og nótt við að afgreiða stúdenta um kebab. Þetta var sem sagt Tyrki í Belgíu. Innflytjandi. Ég held honum hljóti að hafa vegnað vel.
Leigusalinn minn var Írani. Hann seldi uppblásna glermuni á jarðhæðinni. Íbúðin mín var á þriðju hæð. Ég hljóp oft niður í verslunina, fyrir daga ADSL, til þess að tengja tölvuna mína við símann svo ég gæti náð í tölvupóst. Þá spjölluðum við oft mikið. Hann keyrði mig í Ikea til að kaupa rúm og fleira. Mér fannst hann alltaf vera dálítill hippi. Konan hans líka. Mér hafði ekki dottið í hug áður að Íranir gætu verið hippar. Ég gaf fjölskyldu minni uppblásna glermuni í jólagjöf. Sumir brotnuðu á leiðinni heim.
Svo bjó ég í Amsterdam. Þar var alltaf skemmtilegt að fara upp í Pijp, þar sem Pakistanarnir, Súrinamarnir og Tyrkirnir voru og eru með veitingastaði sína og markaði. Ég hef sjaldan skemmt mér jafnvel og þegar við fórum nokkrir Íslendingar af eintómri rælni á tyrkneskan veitingastað í Pijp eitt kvöldið. Staðurinn leystist upp í partí eftir ljúffenga máltíð og kokkarnir, eigendurnir, þjónustufólkið og við gestirnir fórum öll saman á tyrkneskt diskótek. Þau voru örugglega öll múslimar, en þau drukku nú samt... Hvað ætli Allah segi við því? Ég man að margar sögurnar sem eigandinn sagði mér af afa sínum voru óborganlegar.
Í Uppsala í Svíþjóð bjó ég um skeið. Helstu vinir mínir í heimspekideildinni voru innflytjendur, þó sá besti hafi verið - nokkrum vinum mínum (Svíahöturum!) á Íslandi til ævarandi undrunar - innfæddur. Einn var aðfluttur Ítali, annar frá Transilvaníu, heimaslóðum Drakúla, með skalla og yfirvaraskegg. Mér fannst hann ógnvekjandi fyrst, en svo reyndist hann hið besta skinn. Vinur systur minnar, en hún bjó líka í Svíþjóð á þessum tíma, var Tyrki. Duglegri mann hef ég sjaldan hitt. Ekki bara var hann læknir heldur rak hann líka matvöruverslanir. Nú græðir hann hár á skalla, ekki síst Íslendinga, á sérstöku klíniki í Stokkhólmi sem hann stofnaði ásamt íslenskri konu sinni, æskuvinkonu systur minnar. Þau eiga þrjú börn.
Þegar ég var í Svíþjóð varð ég ekki var við annan innflytjendavanda en þann, að stundum bárust fregnir af því að nokkrir nýnasistar börðu Tyrki. Þá greip jafnan um sig mikil reiði, eins og gefur að skilja.
Sömu sögu var raunar að segja frá Bretlandi, en þar bjó ég í þrjú ár, þar af tvö í London og eitt í Oxford. Oxford er háskólasamfélag, þar sem úir og grúir auðvitað af alls konar fólki, eins og sæmir öllum alvöru þekkingarsamfélögum. London er eitt stærsta fjölmenningarsamfélag í heimi. Indversku staðirnar á Brick Lane voru í sérstöku uppáhaldi. Þar kom maður með sitt eigið vín og gæddi sér á Tandoori kjúkling sem aðeins fæst þar og á himnum. Ég bjó í blokk sem var jafnan kölluð Íslendingablokkin. Þar bjuggu, eins og nafnið gefur til kynna, mikið til Íslendingar og héldu margir hópinn á pöbbunum. Harðduglegt fólk allt saman, Íslendingar, harðduglegt.
Líklega voru þó fáar samkomur furðulegri en Þorrablót Íslendinga í London.
Ég man hvað það fór um mig þegar fregnir bárust af því að nokkrir hryðjuverkamenn hefðu sprengt sprengjur í neðanjarðarlestum í London nokkrum árum eftir að ég var fluttur heim. Ein sprengjan sprakk í kallaranum á Íslendingablokkinni, en hún stendur ofan á lestarstöð. Ég missti neðri kjálkann niður á bringu þegar ég sá mitt gamla íbúðarhús á Sky News í þessu óhuggulega samhengi. Ég kenndi ekki múslimum um. Þetta voru einfaldlega glæpamenn.
Einn maður, innflytjandi, var skotinn af lögreglu nokkrum dögum síðar grunaður um aðild. Það reyndist vera mikill og skelfilegur misskilningur. Maðurinn var saklaus sem lamb. Hann leit bara svona út. Fordómar urðu honum að falli í formi byssukúlu frá taugastrekktri lögreglu.
Ákvarðanir um innflytjendamál verða ekki teknar á grunni sagna. Samt er allt í lagi að segja þær og skiptast á þeim. Þetta voru mínar sögur. Þær móta afstöðu mína. Ég er talsmaður umburðarlyndis, víðsýni, samræðu ólíkra hópa og fjölmenningar. Ég held líka, burtséð frá sögum, að fræðigreinarnar hafi sýnt fram á með nokkuð sannfærandi hætti að með slíkar hugsjónir til grundvallar auðgist samfélög best.
Svona almennt talað.
4.12.2006 | 15:21
Hatursbréf
Mér barst hatursbréf um múslima um daginn. Ég veit ekki hundrað prósent hvort það var þetta sem menn eru að tala um að hafi verið sent á þónokkurn hóp af frambjóðendum og til annarra áhugamanna um stjórnmál. Ég geri þó ráð fyrir að það hafi verið hið sama. Tímasetningin passar.
Bréfið kom í tiltölulega spennandi umslagi. Ég opnaði það með dulítilli eftirvæntingu. Ég var forvitinn. Maður fær nefnilega svo sjaldan bréf sem ekki eru gluggapóstur eða augljóslega sölutilboð frá fyrirtæki. Það segir auðvitað sitt um samtímann.
Ó, bróðir.
Ég kveikti samt auðvitað ekkert á kerti eða neitt slíkt áður en ég mundaði bréfhnífinn. Ég bara hlammaði mér í skrifborðsstólinn og opnaði dótið með reffilegu handtaki.
Um leið og ég sá glitta í myndskreytingar við þá skoðun sendanda að múslimar grýttu almennt konur sá ég auðvitað undireins um hvað var að ræða. Þetta var sem sagt bréf frá vitleysingi.
Bréfið fór beint í ruslið, svo til óskoðað, og ég hef ekki séð það síðan.
Fátt finnst mér viðbjóðslegra en svona rasistaáróður. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður kemst í tæri við svoleiðis eða annað ámóta.
Einhver kvalin sál sendi mér nokkuð þvermóðskufullan, nafnlausan áróður gegn samkynhneigðum fyrr í haust, byggðan á trúarlegu ofstæki, vegna einhvers sem ég hafði skrifað til stuðnings réttindabaráttu þeirra. Það bréf fór líka beint í ruslið.
A.m.k. tveir menn undu sér upp að mér í prófkjörsbaráttunni í Suðvestri og lýstu þeirri skoðun sinni með blóðheitum einræðum að útlendingar væru vægast sagt ekki velkomnir hingað til lands. Annar þeirra vildi taka upp höggstokkinn aftur og taka erlenda glæpamenni af lífi opinberlega að frönskum sið.
Þetta gjammaði sá framan í kærustuna mína í Fjarðarkaupi, þar sem ég stóð og spilaði á harmonikku daginn fyrir kjördag, og hún dreifði póstkorti með áherslupunktum.
Partur af mér, stór partur, langaði til að grípa til gamalla bragða ættar minnar og leggja þennan ofstopamann með góðum hælkrók þá þegar og spila svo yfir honum liggjandi Nallann í valsútgáfu.
En maður verður víst að vera kurteis í svona prófkjörsslag, þótt það sé erfitt stundum.
Ef það er eitthvað hægt að læra af þessu þessu þá er það þetta: Ef fólkið sem svo er fullt af hatri, sem hér er lýst, fær ástæðu eða vettvang til þess að fylkja sér í flokk -- út af vanhugsuðum popúlistamálflutningi í aðdraganda kosninga -- þá hjálpi okkur guð, bæði Allah og Búdda.
Vonandi myndi þó í kosningunum kristilegur og kærleiksríkur hælkrókur í þágu umburðarlyndis, víðsýni og almennrar skynsemi nægja.
3.12.2006 | 21:01
Hleranir og aðrar meinsemdir
Í nýju bókinni hans Guðna Th. kemur fram að tilskipanir um 33 hleranir voru gefnar á árabilinu 1949 til 1976. Hér var aðallega verið að hlera alls konar áhrifafólk, eins og alþingismenn og ritstjóra.
Þrátt fyrir að Sjálfstæðismenn hafi brugðist ókvæða við þegar talað var um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins við upphaf þessa máls að þá verður ekki framhjá því horft að hér voru aðallega hægri menn að hlera vinstri menn.
Svo langt gekk paranojan á hægri vængnum að gögn voru brennd sem vörðuðu Nato áður en vinstri stjórnin 1956 tók við völdum. Gögn um hleranir voru brennd í tunnu uppi í Borgarfirði.
Í gær hitti ég gamlan ref af vinstri væng sem glotti út í annað þegar talið barst að hleranamálum. Hann sagði það hafa verið á allra vitorði í þá tíð að símar væru hleraðir. Enginn hafi því sagt neitt af viti í símana.
Annar benti á að Íslendingar hefðu verið vanir því að tala aldrei um neitt mikilvægt í síma, vegna þess að um langt árabil hefðu þeir búið við sveitasímana, þar sem allir gátu hlustað á hver annan innan sveitar.
Ég hef jafnframt bent á það í pistli að Íslendingar hafi alla tíð verið skyggnir og því alltaf vitað upp á hár hvort sem er hvað nágranninn er að sýsla.
Stóra spurningin í ljósi alls þessa er því auðvitað sú af hverju Sjálfstæðismenn þurftu sérstakar græjur til þess að hlera fólk...
Auðvitað eru þessi hlerunarmál stóralvarleg. Ég vil skoða þau í víðara samhengi. Þetta varðar meðferð valds í langan tíma. Á kaldastríðsárunum myndaðist andrúmsloft þar sem stjórnmálamenn á hægri væng ákváðu að andstæðingar þeirra, sem voru annarrar skoðunar en þeir, væru óvinir ríkisins og ógnuðu öryggi landsins. Það er sláandi að vita til þess að þeir sem voru taldir til slíkra manna voru menn eins og Hannibal Valdimarsson sem ekki bara var stjórnmálaleiðtogi þegar hleranirnar áttu sér stað heldur einnig forseti ASÍ.
Framkvæmdavaldið undir stjórn íhaldsins beitti dómsvaldinu hikstalaust til þess að fá heimildir til hlerana á pólitískum andstæðingum sínum. Slíkar aðferðir bera vitni um djúpstæða en alþekkta meinsemd í stjórnmálasögunni: Ríkið, það er ég.
Þetta hugarfar er ennþá til staðar. Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að alls konar dæmum um það að sá háttur Sjálfstæðisflokksins að beita ríkisvaldinu eins og þeir eigi það lifir góðu lífi.
Við höfum séð dæmi um það að forystumenn hans sætti sig illa við að forsetinn komi ekki úr þeirra röðum. Þeir virða ekki stjórnarskrárbundið neitunarvald hans. Þeir skipa í Hæstarétt eftir flokkslínunni, hringja í forsvarsmenn sjálfstæðra eftirlitsstofnanna og halda yfir þeim reiðilestur í síma, fara í stríð án þess að spyrja, liggja undir allsannfærandi grunsemdum um að þeir sigi lögreglunni á andstæðinga úr viðskiptalífinu, leggja niður stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun ef hún þóknast þeim ekki og halda upplýsingum eins og heilum varnarsamningi og öðru sem varðar grunnhagsmuni þjóðarinnar fyrir sjálfa sig og vini sína.
Dæmin tala sínu máli. Nú eru þeir byrjaðir í Reykjavík, þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins fær að selja lóð til borgarinnar fyrir svimandi háa upphæð. Engin þörf er á fagmennsku eða sanngirni í verðmati, því nú er borgin þeirra.
Eitt stærsta verkefni íslenskrar pólitíkur er að breyta þessu. Það þarf að hreinsa burt þetta landlæga viðhorf, sem varð til í Kalda stríðinu, að það sé í lagi að hafa óljós mörk, að virða ekki sjálfstæðar stofnanir, að beita dómsvaldinu í þágu framkvæmdavaldsins, að beiti ríkinu gegn pólitískum andstæðingum og í þágu flokksvina. Og það alvarlegasta: Að virða ekki mannréttindi.
Arnar Jónsson var hleraður. Hann bendir á að hann og hans líkar hafi verið friðarsinnar og fáránleg vænisýki að vera að standa í að hlera þá. En svona hugsaði hægrið. Ólíklegustu menn voru tortryggðir. Verkefnið í dag er að velta við öllum steinum til þess að komast að því hvers vegna var hlerað og hversu viðamiklar þessar hleranir voru.
Slík rannsókn mun jafnframt þjóna þeim tilgangi að breyta áðurnefndu hugarfari.
Ég sé fyrir mér að löggan hafi heyrt friðarboðskap í græjunum þegar hún hleraði Arnar. Make love , not war.
Í ljósi þess er lag dagsins auðvitað Do You Want To Know a Secret með Bítlunum. Arnar er George Harrison. Syngur til Bjarna Ben.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2006 | 19:23
Gaman að þessu

Halldór Baldursson byggði teikningu sína í Blaðinu í gær á bloggi mínu um Aðgerð Strút. Gaman að því. Ég hló.
Nýverið fékk ég bókina hans Halldórs í hendur, "Í grófum dráttum." Hún liggur á stofuborðinu og ég gríp í hana með reglulegu millibili og hlæ eins og rotta. Ég hef sagt það áður og segi það enn, að með Halldóri hafa Íslendingar eignast alvöru skarpan og fyndinn skopmyndateiknara sem hittir hvað eftir annað naglann á höfuðið.
Svo eru karakterarnir líka bara svo andskoti fyndnir, þ.e.a.s í útliti. Bara svipbrigðin fá mann til að hlæja.
Það er þess vegna heiður og ánægja að Halldór skuli sækja innblástur í bloggið mitt. Ég er djúpt snortinn.
Hér eru tvær konkret ástæður til að næla sér í bókina hans: Maður heldur að maður hafi séð allar þessar myndir, en kemst fljótt að því að það er langt í frá. Smáatriðin í myndunum koma miklu betur fram í þessari prentun og mörg þeirra eru guðdómleg. Og síðast en ekki síst: Bókin er skemmtilegasta upprifjunin á atburðum ársins sem hægt er að finna.
Þetta voru reyndar þrjár ástæður.
30.11.2006 | 01:07
Aðgerð Strútur
Nú þegar Framsókn er búin að klappa fyrir röngum mistökum sínum er von maður spyrji hvenær Sjálfstæðismenn hafa hugsað sér að viðurkenna að stuðningurinn við Írak hafi verið bull og vitleysa. Mogginn er búinn að því. Samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni er búinn að því.
Rumsfeld er horfinn. Bush er búinn að skíttapa kosningum út af þessu. Blair er um það bil að segja bless. En Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi er bara -- svo vitnað sé í Hemma -- hress.
Þrjóska af þessu tagi virðist vera rauði þráðurinn í málflutningi flokksins um þessar mundir.
Þetta er Aðgerð Strútur. Stingum höfðinu í sandinn. Einn, tveir og Geir. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta yrði taktíkin fyrir kosningarnar í vor. Línan er þegar komin í aksjón hjá fótgönguliðum.
Fyrir viku sat ég í útvarpsspjalli með Eyþóri Arnalds og ræddi fréttir vikunnar. Talið barst að auðmönnum. Ég sagði af því tilefni að það væri eitt stærsta verkefni í íslenskri pólitík að jafna leikinn í íslensku samfélagi þannig að þorri almennings væri ekki skildur eftir fastur í verðtryggðri okurvaxtasúpu á meðan auðmenn keyptu West Ham fyrir kex.
"Ég skil þig ekki," sagði Eyþór. Svo bætti hann um betur og líkti málflutningi mínum við kommúnisma.
Ég hugsaði: Hversu langt er sinnuleysið gengið á hægri væng stjórnmálanna ef hófsöm jafnaðarstefna -- sem setur spurningarmerki við það að þjóðfélagið sé orðið eins og Bandaríkin hvað varðar misskiptingu -- er lögð að jöfnu við kommúnisma?
Í sjálfu sér hefði ég ekki haft áhyggjur af þessu spjalli við Eyþór nema vegna þess að þetta er í hárréttum takti við yfirlýsingar flokksformannsins sem í ræðupúlti á Alþingi sagðist ekki missa svefn út af misskiptingu auðs.
Þar var Aðgerð Strútur í aksjón. Höfuðið á bólakaf í sand.
Og nú sjáum við þessa aðferðarfræði í öllu sínu veldi í Íraksmálinu. "Hvað, er borgarastyrjöld í Írak?" "Ég skil þig ekki." "Ég hef ekki orðið var við neina borgarastyrjöld." "Það er allt í lagi heima hjá mér." "Ég hef ekki orðið var við nein gróðurhúsaáhrif." "Það er ekkert að aðbúnaði aldraða." "Ég hef ekki heyrt um neinar ólögleglar hleranir." "Ætlum við að selja Rúv?" "Einkavæða Landsvirkjun?" "Ég hef ekki hitt neinn sem er ósáttur við matvælaverðið, þannig séð." "Er viðskiptahalli?" "Fátækt? Er hún til?" "Er varnarliðið þá virkilega farið?" "Er stóriðjustefna?" "Ég skil þig ekki." "Álvæðing?" "Náttúruspjöll?"
Strúturinn er útspökuleraður.
Lag dagsins er Something Better Change með Stranglers.
27.11.2006 | 23:57
Klappliðið
Hjálmar Árnason gerði talsvert úr því í rökræðum í Kastljósi við Þórunni Sveinbjarnardóttur að framsóknarmenn hefðu klappað sem aldrei fyrr þegar Jón Sigurðsson lýsti því yfir á miðstjórnarfundinum að stuðningurinn við Íraksstríðið hafi verið mistök.
Ég var að elda spagettí þegar ég heyrði Hjálmar segja þetta og ég hugsaði:
Hvað hefur eiginlega gengið á í flokki sem rís upp og klappar þegar nýr flokksformaður lýsir því yfir að ein af örlagaríkustu ákvörðunum í sögu hans hafi verið röng?
Af hverju lýsti þá enginn þingmaður, utan Kidda Sleggju (að vanda), sig ósammála þessari ákvörðun? Af hverju varði þingflokkurinn ákvörðunina, en klappar nú fyrir þeim sem segir hana ranga?
Þetta er þversögn. Margir gamlir framsóknarmenn vildu slíta stjórnarsamstarfinu við Sjallana þegar þessi stuðningur var ákveðinn. Hefði það ekki einmitt verið það eina rétta? Strandaði sú hugmynd kannski bara á því að þingmennirnir þorðu ekki? Vildu frekar bíða upp á von og óvon að nýr formaður myndi kannski hugsanlega mögulega segja eitthvað seinna, ef honum sýndist svo, um að ákvörðunin hafi jú verið röng.
Hvað ef hann hefði ekki sagt það?
Framsóknarmenn klappa nú fyrir Jóni. Stóra spurningin er hins vegar sú af hverju þeir klöppuðu alltaf fyrir Halldóri líka.
Spagettíið var fínt.
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi