Leita í fréttum mbl.is

Nokkrar sögur

Hér á síðunni hafa skapast miklar og athyglisverðar umræður um innflytjendamál út af færslu um hatursbréf.

Umræða um innflytjendamál leiðist oft út í reynslusögur einstaklinga. Sumir segjast hafa búið í Osló og að þar séu innflytjendur mikið vandamál. Aðrir segjast hafa ferðast um lönd múslima og kynnst miklum hryllingi.  

Það er allt í lagi að skiptast á sögum. Ég ætla að nota tækifærið og segja mínar sögur.

Einu sinni bjó ég í Leuven í Belgíu. Einn mikill kunningi minn, sem ég ræddi oft við um daginn og veginn, var Tyrki neðar í götunni. Hann hafði farið í hótel- og veitingaskóla í Tyrklandi og nú var hann kominn til Belgíu ásamt konu sinni til þess að stofna kebab-söluturn.  Ég gleymi aldrei gleðisvipnum á andliti þessa manns þegar hann opnaði staðinn og gaf mér - fyrsta kúnnanum - fyrsta kebabið. Það var besta kebab sem ég hef smakkað. Viku síðar kom ég aftur. Ég held ég hafi sjaldan séð þreyttari mann. Hann hafði unnið dag og nótt við að afgreiða stúdenta um kebab. Þetta var sem sagt Tyrki í Belgíu. Innflytjandi. Ég held honum hljóti að hafa vegnað vel.  

Leigusalinn minn var Írani. Hann seldi uppblásna glermuni á jarðhæðinni. Íbúðin mín var á þriðju hæð. Ég hljóp oft niður í verslunina, fyrir daga ADSL, til þess að tengja tölvuna mína við símann svo ég gæti náð í tölvupóst. Þá spjölluðum við oft mikið. Hann keyrði mig í Ikea til að kaupa rúm og fleira. Mér fannst hann alltaf vera dálítill hippi. Konan hans líka. Mér hafði ekki dottið í hug áður að Íranir gætu verið hippar. Ég gaf fjölskyldu minni uppblásna glermuni í jólagjöf. Sumir brotnuðu á leiðinni heim.

Svo bjó ég í Amsterdam. Þar var alltaf skemmtilegt að fara upp í Pijp, þar sem Pakistanarnir, Súrinamarnir og Tyrkirnir voru og eru með veitingastaði sína og markaði. Ég hef sjaldan skemmt mér jafnvel og þegar við fórum nokkrir Íslendingar af eintómri rælni á tyrkneskan veitingastað í Pijp eitt kvöldið. Staðurinn leystist upp í partí eftir ljúffenga máltíð og kokkarnir, eigendurnir, þjónustufólkið og við gestirnir fórum öll saman á tyrkneskt diskótek. Þau voru örugglega öll múslimar, en þau drukku nú samt... Hvað ætli Allah segi við því? Ég man að margar sögurnar sem eigandinn sagði mér af afa sínum voru óborganlegar. 

Í Uppsala í Svíþjóð bjó ég um skeið. Helstu vinir mínir í heimspekideildinni voru innflytjendur, þó sá besti hafi verið - nokkrum vinum mínum (Svíahöturum!) á Íslandi til ævarandi undrunar - innfæddur. Einn var aðfluttur Ítali, annar frá Transilvaníu, heimaslóðum Drakúla, með skalla og yfirvaraskegg. Mér fannst hann ógnvekjandi fyrst, en svo reyndist hann hið besta skinn. Vinur systur minnar, en hún bjó líka í Svíþjóð á þessum tíma, var Tyrki. Duglegri mann hef ég sjaldan hitt. Ekki bara var hann læknir heldur rak hann líka matvöruverslanir. Nú græðir hann hár á skalla, ekki síst Íslendinga, á sérstöku klíniki í Stokkhólmi sem hann stofnaði ásamt íslenskri konu sinni, æskuvinkonu systur minnar. Þau eiga þrjú börn.  

Þegar ég var í Svíþjóð varð ég ekki var við annan innflytjendavanda en þann, að stundum bárust fregnir af því að nokkrir nýnasistar börðu Tyrki. Þá greip jafnan um sig mikil reiði, eins og gefur að skilja. 

Sömu sögu var raunar að segja frá Bretlandi, en þar bjó ég í þrjú ár, þar af tvö í London og eitt í Oxford. Oxford er háskólasamfélag, þar sem úir og grúir auðvitað af alls konar fólki, eins og sæmir öllum alvöru þekkingarsamfélögum. London er eitt stærsta fjölmenningarsamfélag í heimi. Indversku staðirnar á Brick Lane voru í sérstöku uppáhaldi. Þar kom maður með sitt eigið vín og gæddi sér á Tandoori kjúkling sem aðeins fæst þar og á himnum. Ég bjó í blokk sem var jafnan kölluð Íslendingablokkin. Þar bjuggu, eins og nafnið gefur til kynna, mikið til Íslendingar og héldu margir hópinn á pöbbunum. Harðduglegt fólk allt saman, Íslendingar, harðduglegt. 

Líklega voru þó fáar samkomur furðulegri en Þorrablót Íslendinga í London.

Ég man hvað það fór um mig þegar fregnir bárust af því að nokkrir hryðjuverkamenn hefðu sprengt sprengjur í neðanjarðarlestum í London nokkrum árum eftir að ég var fluttur heim. Ein sprengjan sprakk í kallaranum á Íslendingablokkinni, en hún stendur ofan á lestarstöð. Ég missti neðri kjálkann niður á bringu þegar ég sá mitt gamla íbúðarhús á Sky News í þessu óhuggulega samhengi. Ég kenndi ekki múslimum um. Þetta voru einfaldlega glæpamenn.

Einn maður, innflytjandi, var skotinn af lögreglu nokkrum dögum síðar grunaður um aðild. Það reyndist vera mikill og skelfilegur misskilningur. Maðurinn var saklaus sem lamb. Hann leit bara svona út. Fordómar urðu honum að falli í formi byssukúlu frá taugastrekktri lögreglu.

Ákvarðanir um innflytjendamál verða ekki teknar á grunni sagna. Samt er allt í lagi að segja þær og skiptast á þeim. Þetta voru mínar sögur. Þær móta afstöðu mína. Ég er talsmaður umburðarlyndis, víðsýni, samræðu ólíkra hópa og fjölmenningar. Ég held líka, burtséð frá sögum, að fræðigreinarnar hafi sýnt fram á með nokkuð sannfærandi hætti að með slíkar hugsjónir til grundvallar auðgist samfélög best. 

Svona almennt talað.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki eina sem þarf að vera með hopin hug og jákvæðni.

Við erum nú öll eins og með sömu þarfir.

Þóra Kristín (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 07:39

2 identicon

Skrifar þú á nóttunni líka sem sagt? Ágætt að heyra jákvæðar sögur einmitt á móti. Ætla ekki að hafa þetta langt, en ég tek heilshugar undir síðustu málsgreinina, ef tekið er rétt á málunum er óþarfi að hafa nokkrar áhyggjur. Í minni vinnu verð ég nokkuð var við innflytjendur og nýbúa og vinn nokkuð með þeim og þó svo að þarna séu misjafnir sauðir eins og alls staðar, hef ég engar sögur að segja, ekki neikvæðar allavega.

En það væri reyndar gaman að fá nákvæmlega fram, hvað það er sem fólk óttast varðandi innflytjendur? Hvað heldur fólk að þeir geti haft í för með sér sem er svona slæmt?

Jón R. (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 09:05

3 identicon

Ég starfa á heimili fyrir unglinga sem flúið hafa hörmungar og ofsóknir heima fyrir og leita skjóls í Bretlandi.
Nokkuð eftirsótt staða meðal Social Workers, þar sem þessi hópur er einn af fáum hvar ofbeldi og svíðvirðingar í garð starfsmanna er að mestu óþekkt.

Ég tek undir með Jóni (sjá ofar).  Fyrsta skrefið hlýtur að vera að skilgreina óttann og vinna svo í því að byrgja þá brunna sem sannarlega þarf að byrgja.

Forvinnan gæti falist í að lesa ágæta grein sem José Tirado, búddaprestur á Íslandi, ritaði á vefinn OpEdNews.com 6. nóvember síðastliðinn.  Eiginlega skyldulesning, að mínu mati.

The Muslims I Know

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 09:57

4 identicon

Fordómar=Þekkingaleysi... þetta vita allir en fólk virðiist ekki geta sett það í neitt samhengi við eigin fordóma, því svo sannarlega höfum við öll fullt af fordómum, suma erum við meðvituð um og aðra ekki. 

Þeir sem mynda sér skoðanir um múslima í heild sinni út frá fréttum af einstaka neikvæðum uppákomum,eigin reynslu af örfáum eða jafnvel einum einstaklingi hlýtur að vera afskaplega takmarkaður einstaklingu.... fáfróður svo það jaðrar við heimsku. 

Okkur væri nær að hafa það fyrir reglu að kafa dýpra í þau mál sem vekja upp reiði, óhug og hræðslu ÁÐUR en við tjáum okkur um þau af ástríðu. Sækja þekkingu með opnum huga og henda rörinu sem við skoðum lífið í gegnum án þess að gera okkur grein fyrir því.  

Björk (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 10:44

5 identicon

Alveg sammala Bjork med: Fordomar = Thekkingarleysi.  Eg by i London og thekki thessa Islendingablokk sem thu talar um (by thar samt ekki).  Synir thessi blokk ekki ad Islendingar eru ekkert odruvisi en Indverjarnir, Tyrkirnir, Pakistanarnir ofl: viljum hellst bua saman / nalaegt okkar eigin folki?  Eg ferdast mjog mikid um Mid-Austurlond og hef ekki lent i neinum serstokum vandraeum thar sem vestraen kona (oftast) ein a ferd.  Thad eftir minnilegasta voru Bandariskir hermenn a hoteli i Kuwait sem villdu tjatta mig upp i liftunni! Og kannski Kuwaisku karlmennirnir i mollinu sem vildu bjoda mer i kaffi.  Eitt af thvi sem ad eg nyt vid ad bua i borg eins og London er fljolbreytnin i vinahopnum og thad er eh sem eg myndi sakna mikid ef eg eh flytti aftur til Islands.

Gudmudur, kannski er thessi haelkrokur ekki svo slaem hugmynd, hann myndi thagga nidur i folki a medan ad thad naedi ser a sjokkinu og kannski getad hlustad a medan.  Eg thykist vita ur hvorri aettinni hja ther su haefni kemur, eg er ur henni lika

Inga Hjartar (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 13:14

6 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Gott innlegg. Ég tek líka í sama streng. Á nokkrar svona sögur og þær eru allar frekar ljúfar og góðar bara. Enda vill svo skemmtilega til að við erum öll fólk. Einstaklingar. Fjölbreytilegir og allt eftir því.

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 7.12.2006 kl. 17:40

7 Smámynd: Kristján Gunnarsson

Flott innlegg. Mér datt í hug í þessu samengi hvað það fer í taugarnar á manni þegar maður sér/heyrir  bandaríkjamenn setja Evrópu undir einn hatt í oft furðulegu samhengi. Ætli það sé ekki svipað fyrir múslima, eða jafnvel verra þar sem trúin á sér engin landamæri.

Svo eru "allir" að andskotast útí Ameríkana fyrir að vera heimskir og vita ekkert hvað Evrópa er. Maður ætti kannski að líta aðeins í eigin barm og velta fyrir sér þessari samlíkingu þegar fjallað eru um innflytjendur og innflytjendamál eins og það sé ekkert mál að setja bara einhver lög og skikka innflytjendur til að gera hitt og þetta, svo við þurfum ekki að líta á þá sem vandamál lengur.  

Við erum rétt að slíta barnskónum í þessum efnum og í stað þess að rembast við að líkja okkur endalaust við önnur lönd sem eru búin að nóta góðs af erlendu vinnuafli í áraraðir, væri nær að velta vöngum yfir því hvar í ferlinu við erum í raun. Megnið að vinnu sem snýst að móttöku útlendinga á íslandi er unnin í sjálfboðavinnu og af einskærri góðmennsku. Og það hefur gegnið ágætlega hingað til. Nú virðist hinsvegar fjöldin orðin slíkur að sjálfboðaliða er farið að skorta.  

Það er engin Integrationsráðherra á Íslandi (tillögur óskast á íslensku orði), þrátt fyrir að yfir 5% af þjóðinni sé stimpluð í þennan flokk. Það vita allir hversu jákvæðan stimpil það hefur að leita sér aðstoðar hjá Féló. En það gildir fyrir þá sem eiga hvergi heima eða þegar vandi steðjar að þá þarf að leita til Féló.  Munurinn er svo bara sá að útlendingar heyra undir Féló þegar þeir mæta á svæðið vegna þess að það er engin móttökunefnd, við erum ekki með neitt plan, heldur nefnd sem leysir félagsleg vandamál og lög sem við þýddum úr dönsku án þess að spá neitt í því hvort þau hentuðu eður ei. 

Kristján Gunnarsson, 8.12.2006 kl. 14:41

8 identicon

Mér virðist að Gumundur sé einn þeirra ágætu manna sem eru tilbúnir að fullyrða að það hefði engin áhrif á mannlíf ef að það flyttu þrjúþúsund manns af öllum þjóðum til Bolungarvíkur allt yrði eins og áður.

 Svo eru það hinir sem sjá allt fara til andskotans ef að einn útlendingur flytti til Bolungarvíkur og skrifa "hatursbréf".

Var einhver að tala um "AÐGERÐINA STRÚTUR".

Kristján Sig. kristjánsson (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband