Leita í fréttum mbl.is

Hatursbréf

Mér barst hatursbréf um múslima um daginn. Ég veit ekki hundrað prósent hvort það var þetta sem menn eru að tala um að hafi verið sent á þónokkurn hóp af frambjóðendum og til annarra áhugamanna um stjórnmál. Ég geri þó ráð fyrir að það hafi verið hið sama. Tímasetningin passar. 

Bréfið kom í tiltölulega spennandi umslagi. Ég opnaði það með dulítilli eftirvæntingu. Ég var forvitinn. Maður fær nefnilega svo sjaldan bréf sem ekki eru gluggapóstur eða augljóslega sölutilboð frá fyrirtæki. Það segir auðvitað sitt um samtímann. 

Ó, bróðir.  

Ég kveikti samt auðvitað ekkert á kerti eða neitt slíkt áður en ég mundaði bréfhnífinn.  Ég bara hlammaði mér í skrifborðsstólinn og opnaði dótið með reffilegu handtaki.

Um leið og ég sá glitta í myndskreytingar við þá skoðun sendanda að múslimar grýttu almennt konur sá ég auðvitað undireins um hvað var að ræða. Þetta var sem sagt bréf frá vitleysingi. 

Bréfið fór beint í ruslið, svo til óskoðað, og ég hef ekki séð það síðan.

Fátt finnst mér viðbjóðslegra en svona rasistaáróður. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður kemst í tæri við svoleiðis eða annað ámóta. 

Einhver kvalin sál sendi mér nokkuð þvermóðskufullan, nafnlausan áróður gegn samkynhneigðum fyrr í haust, byggðan á trúarlegu ofstæki, vegna einhvers sem ég hafði skrifað til stuðnings réttindabaráttu þeirra.  Það bréf fór líka beint í ruslið.

A.m.k. tveir menn undu sér upp að mér í prófkjörsbaráttunni í Suðvestri og lýstu þeirri skoðun sinni með blóðheitum einræðum að útlendingar væru vægast sagt ekki velkomnir hingað til lands. Annar þeirra vildi taka upp höggstokkinn aftur og taka erlenda glæpamenni af lífi opinberlega að frönskum sið.

Þetta gjammaði sá framan í kærustuna mína í Fjarðarkaupi, þar sem ég stóð og spilaði á harmonikku daginn fyrir kjördag, og hún dreifði póstkorti með áherslupunktum.

Partur af mér, stór partur, langaði til að grípa til gamalla bragða ættar minnar og leggja þennan ofstopamann með góðum hælkrók þá þegar og spila svo yfir honum liggjandi Nallann í valsútgáfu.  

En maður verður víst að vera kurteis í svona prófkjörsslag, þótt það sé erfitt stundum.

Ef það er eitthvað hægt að læra af þessu þessu þá er það þetta: Ef fólkið sem svo er fullt af hatri, sem hér er lýst, fær ástæðu eða vettvang til þess að fylkja sér í flokk -- út af vanhugsuðum popúlistamálflutningi í aðdraganda kosninga -- þá hjálpi okkur guð, bæði Allah og Búdda.

Vonandi myndi þó í kosningunum kristilegur og kærleiksríkur hælkrókur í þágu umburðarlyndis, víðsýni og almennrar skynsemi nægja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dusilmenni eru bréfritarar vissulega en verðum við ekki varast að leggjast í ræsið með þeim?  Nægja ekki háðsglósur og fyrirlitning á svona fólk?   Það hefði ég haldið.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 15:47

2 identicon

Mér finnst bara þetta bréf bara frábært án þess að hafa lesið það. Það er góðs viti að einhver þorir að lýsa yfir reiði sinni yfir þessum ógeðslegu múslimum. Fólk búið strax að gleyma 11.september?

Ingi (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 16:00

3 Smámynd: Bragi Einarsson

Ingi, þú ert sjúkur!

Bragi Einarsson, 4.12.2006 kl. 17:09

4 identicon

Mér þætti nú gaman að fá að sjá þetta fræga bréf sem fréttað hefur verið svona mikið um. Ég fæ á tilfinninguna að þetta sé annað hvort einhver ringlaður unglingur eða þá einhver mjög einfaldur náungi... Hitt er annað mál að mér finnst svo ömurlegt að að fólk megi ekki tala um hlutina án þess að þið í samfylkingunni froðufellið og kallið fólk rasista. Ég fæ hroll þegar ég les og heyri svona "pólitískt rétthugsandi" 
bull. Ég held að þið ættuð að líta á löndin í kringum okkur og sjá hvernig mál standa þar.. Og svaraðu nú hreinskilningslega, vilt ÞÚ að Ísland lendi í sama vanda??


jón jónsson (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 17:25

5 identicon

Ég fékk þetta bréf líka og það er augljóst að þeir sem senda það eru að reyna að vekja upp hatur á múslímum, enda yfirfæra þeir öfga fáeinna ofsatrúarmanna yfir á alla múslíma (sem eru næstum því einn og hálfur milljarður talsins) og láta að því liggja að allir séu þeir óalandi og ferjandi. Teljist það til pólitískrar rétthugsunar að vera á móti slíku þá er ég pólitískt rétthugsandi.Og svo vil ég mótmæla því að það sé einhver ógurlegur vandi í nágrannalöndum okkar sem stafi af innflytjendum. Það er bara svo oft sem alls kyns ýkjur og æsingur ráða för í þjóðfélagsumræðunni. Einstök tilvik eru blásin upp af vænissjúkum mönnum og látið að því liggja að allt sé að fara til andskotans. Þegar nánar er að gáð kemur hins vegar í ljós að í heildina litið gengur allt stórslysalaust fyrir sig. Annað heyrir til algjörra undantekninga.Látum ekki áróður rasistadólga villa okkur sýn. Ef eitthvað er, þá stafa árekstrar milli fólks af íslenskum ættum og innflytjenda einkum af hatursáróðri rasistanna en ekki meintri tregðu innflytjenda til að aðlagast. Slíkir árekstrar hafa raunar verið mjög fáir á Íslandi og má í því sambandi nefna að múslímar hafa verið til mikillar fyrirmyndar í íslensku samfélagi. Menn á borð við Jón Magnússon og þá nafnlausu rasistaheigla, sem sentu umrætt hatursbréf, mættu hafa þetta í huga. Komi upp einhverjir árekstrar í samskiptum múslíma hér á landi og annarra Íslendinga, þá er áróðri gegn múslímum um að kenna.

Þórður Sveinsson (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 18:02

6 identicon

Ákveði útlendingar, líkt og margir hér í Svíþjóð, að vilja ekki læra tungumálið...ja vegna þess að það sé svo erfitt. Villtu þá meina að það sé rasistunum um að kenna? Draga þeir með sér illdeilur frá heimalöndunum (t.d. varðandi ættlflokka) þá hlítur það að vera rasistunum að kenna? Vilja þeir ekki samlagast vestrænum gildum þá hlítur það náttúrulega líka að vera rasistunum um að kenna... þetta dæmir sig náttúrulega alveg sjálft! 

Daníel (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 18:28

7 identicon

Já, vandamálin eru stundum blásin upp.  Þannig má nefna umræðu um sæmdarmorð sem nýverið skaut upp kollinum á Íslandi.

Hér í Bretlandi eru að meðatali framin 12 sæmdarmorð á ári (ekki bara af múslimum) - en 22.000 manns farast vegna áfengis (sem múslimar láta yfir höfuð ekki inn fyrir sínar varir).
Svo eru margir sem sjá fyrir sér múslima í hvert sinn sem minnst er á sjálfsmorðsárásir - þrátt fyrir að tamíl tígrarnir (ekki múslimar) áttu heimsmetið í þeim geira........a.m.k. síðast þegar ég vissi.

Vissulega geta komið upp vandamál tengd fólksflutningum milli landa - og sjálfsagt að reyna að sjá fram í tímann og læra af öðrum.  Fyrst og síðast þarf þó að skilgreina örlítið hvað menn eru hræddir við; án tilhæfulausra upphrópana og vanhugsaðra athugasemda á borð við þá sem Ingi ritar hér að ofan.
Eitt af því sem einmitt þarf að ræða, er hvernig bregðast megi við "Ingum" þessa heims, sem aldrei munu kynna sér eitt né neitt - heldur æða áfram í blindri vanvisku.

Þeir múslimar sem ég þekki og starfa með eru upp til hópa nákvæmlega eins og aðrir menn sem ég þekki.  Sumir góðir - aðrir verri.  Sumir stórskemmtilegir - aðrir minna.
Ef eitthvað er, treysti ég múslimum betur og þeirra siðferði (afsakið fordómana).  Var fyrir nokkrum mínútum að hlaða niður umsóknareyðublaði í "Islamic Bank of Britain", líkt og þúsundir Breta sem uppgötvað hafa - mitt í öllum "vandamálunum" - að þeir vilja frekar geyma sitt fé hjá múslimum en í týpískum enskum bönkum

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 20:03

8 identicon

Nei, Daníel. Þín afstaða í málinu er fáránleg. Vegna þess að einhverjir innflytjendur í Svíþjóð gera eitthvað rangt, þá yfirfærir þú það yfir á innflytjendur sem hóp í stað þess að líta einfaldlega á þetta sem einstök tilvik. Þetta er svona svipað og ef litið væri á kynferðisbrot gegn börnum sem einhvers konar einkennismerki á Íslendingum í stað þess að líta einfaldlega á brotin sem glæpi tiltekinna einstaklinga. Menn eins og þú, Daníel, hafið tamið ykkur að hugsa alltaf um okkur og hina. Ef einhver af okkur gerir eitthvað rangt, þá er það einstakt tilvik. Ef einhver af hinum gerir eitthvað rangt, þá finnst ykkur hins vegar allt í lagi að fordæma hópinn. Svona hugsunarháttur er af hinu illa og hefur leitt til ólýsanlegra hörmunga í mannkynssögunni. Ég veit að þú vilt ekki fremur en aðrir að þú sjálfur sért gerður hlutdeildarmaður í einhverju sem þú hefur ekki komið nálægt, bara vegna þess að þú fellur undir sömu skilgreiningu á hóp og einhver illvirkinn. Reyndu þá að falla ekki í þá gryfju að yfirfæra eitthvað, sem einn innflytjandi hefur gert rangt, yfir á þá alla, en það er einmitt það sem þú og þínir líkar gera.

Þórður Sveinsson (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 20:06

9 identicon

Þú ert nú sjálfur kominn á grátt svæði í lokaorðunum Þórður, og reyndar ofar líka, rasistar eru væntanlega líka jafn mismunandi og þeir eru margir :)

Andrés Ingason (IP-tala skráð) 4.12.2006 kl. 20:51

10 identicon

Þórður er væntanlega í fullum rétti með að dæma menn byggt á "the content of their character" - þó Daníel megi það ekki á grunni "the colour of their skin" - svo maður parafrasi dr. King.

Eiríkur (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 08:48

11 identicon

Ég var bara að ýja að því, að víðtækar ályktanir byggðar á takmörkuðum upplýsingum virðast vera vandinn í hnotskurn, ég sá ekki að þessi takmarkaða innsýn í hugarheim téðs Daníels gæfi tilefni til svo víðtækra ályktana um meinsemdir hugsanagangs hans.

Andrés Ingason (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 09:35

12 identicon

Hef ekki séð umrætt hatursbréf og hef persónulega ekkert á móti múslímum en,
Það er óþolandi ef fólk má ekki viðra skoðanir sínar og ræða um þessi mál án þess að vera flokkað sem rasistar. 

Vonandi taka fáir mark á þeim sem notar orðalag eins og Ingi hér að framan og en hugsanlega er reiði hans réttlætanleg.

Það skyldi þó ekki vera að téður Ingi hafi meiri reynslu af samskiptum við múslíma en þeir sem hér rita?  Ég veit a.m.k. um einn "Inga" sem þekkir vel til í múslímaheimum.  Skil ég vel reiði hans.  Sá Ingi sem ég vísa til þurfti m.a. að horfa upp á múslíma hrækja á íslenska konu sína.

Í sumum ríkjum telja múslímar sig yfir alla aðra hafna.  Fólk sem ekki er múslímar má til að mynda ekki ferðast um ákveðna borgarhluta í löndum þeirra.  Fólk sem ekki er múslímar þarf að þola framkomu sem okkur hér á landi myndi ekki líðast gagnvart hundunum okkar.

Staða kvenna í ríkjum múslíma er skelfileg.  Ofsatrúarmenn eða ekki er ekki afsökun annarra múslíma fyrir andvaraleysi gagnvart trúbræðrum sínum.  Hver vegna berjast þeir sem ekki eru ofsatrúar ekki fyrir mannréttindum og jafnrétti kynjanna ? Sú barátta hefur a.m.k. ekki farið hátt. 

Ennþá óskiljanlegra þykir mér að vitiborið fólk sem áberandi er í þjóðmálaumræðunni og gefur sig út fyrir að berjast fyrir mannréttindum og jafnrétti kynjanna skuli ekki reyna að kafa ofan í þessi mál, skutla bara bréfinu í ruslið, ólesnu.  Vandamálin hverfa ekki þó við hendum þeim á haugana - eða hvað ?

Af hverju er svona bréf búið til.  Er það ekki umhugsunarefni að hér á þessu skeri sé svo mikil heift og reiði út í ákveðna trúarhópa að menn sjá sig knúna til að dreifa hatursbréfi.

Það þarf að ræða þessi mál opinskátt og leyfa fólki að viðra skoðanir sínar.  Þá fyrst er hægt að leiðrétta fólk þegar í ljós kemur hvaða ranghugmyndir það hefur.

Jóhann (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 10:56

13 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég sé að hér er gagnrýnt að ég hafi hent bréfinu í ruslið. Fyrir fátt skammast ég mín minna. Sjáum nú til: Ég veit vel að til dæmis Talibanar grýttu konur og tóku fólk af lífi opinberlega fyrir litlar sakir. Ég er ekki sérstakur aðdáandi klerkastjórna af neinu tagi. Mér þykir leitt að hrækt hafi verið framan í íslenska konu í múslimalandi. Kvenfrelsisbaráttan almennt á þar vissulega  mjög langt í land, víða.

Ég er  þónokkuð sammála Tony Blair og því sem hann hefur sagt um þessi mál undanfarið: Vesturlönd eiga að einbeita sér að því að höfða til hófsamari múslima, og styðja þá í baráttu þeirra við hina fáu og öfgafullu. Þetta finnst mér rétt og skynsamleg lína. 

Ég fletti vissulega þessu bréfi áður en ég tók þá ákvörðun að henda því í ruslið. Ég hendi engu bara beint í ruslið. Ég er ekki heilalaus.

Svona bréf fara í ruslið á mínu heimili vegna þess að tilgangur bréfritara er ekki að skapa umræðu um mál, ekki að leggja til skynsamlegar lausnir, heldur eingöngu að ala á hatri og fordómum.  

Ég var að klára Flugdrekahlauparann. Ég mæli með þeirri bók. Hún er um múslima. En hún er líka um Talibana og þann viðbjóð sem þeir stóðu fyrir. Ég skora á ritara hatursbréfa og stuðningsmenn þeirra að lesa þá bók. Megi þá augu þeirra opnast fyrir því að öll erum við í grunninn manneskjur, múslimar, kristnir og búddatrúar,  þótt harmleikir okkar séu mismunandi. Sorg Afghana er mikil. Talibanar voru og eru einfaldlega glæpamenn. 

Við bréfbera vil ég jafnframt segja þetta: Ég geri mér einfaldlega ekki grein fyrir um hvað þið viljið ræða. Eruði að reyna að fá menn eins og mig með ykkur í nýtt trúarbragðastríð? Viljiði loka landinu? Viljiði loka Vesturlöndum? Eða eru bréf ykkar kannski bara klunnaleg leið til þess að segja, eins og við tökum öll undir, að þegar kemur að búferlaflutningum fólks til Íslands -- sem nota bene er þrátt fyrir allt mjög takmarkaður utan EES -- er ákaflega mikilvægt að gæta vel að aðlögun fólksins inn í nýjan menningarheim?  

Til þess að segja það eru margar aðrar leiðir en að senda nafnlaus bréf með mynd af glæpaklerkum að grýta konur.  

Guðmundur Steingrímsson, 5.12.2006 kl. 14:51

14 identicon

Bágborin staða kvenna í múslimaríkjum hefur ekkert endilega mest með trúnna að gera. Staða kvenna er líka hörmuleg í flestum öðrum löndum burt séð frá ríkjandi trúarbrögðum. Í því tilliti má nefna ríkjum sunnanverðrar Afríku þar sem eiðni, fátækt, nauðganir og lágt menntastig gerir líf kvenna ekki neitt sérstaklega eftirsóknarvert. Ennfremur mætti nefna Rússland eða Kína. Konur er kúgaðar um allan heim og kúgunin er almennt meiri eftir því sem fátæktin er meiri og menntunin minni!

Jón Skafti (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 17:51

15 identicon

Til hamingju með að hafa klárað þessa bók. Flott hjá þér... En málið hérna snýst ekkert um hversu grimmir talibanar eða tígrarnir eru. Málið snýst um að Íslendingar eru að stórum hluta til hræddir við að sömu innflytjendavandamál skapist hér á landi og eru í öðrum löndum í kringum okkur. Því þetta er einmitt það. Innflytjendavandamál. Vandamál sem koma hafið upp í vestrænum þjóðfélögum sem hafa tekið á móti of stórum hóp innflytjenda. Einfalt.

Ég er einn að þessum rasistum sem samfylkingin og þeir sem eru svo pólitískt rétthugsandi að vilja helst setja í sálgreiningu. Sjálfur vill ég meina að ég hafi bara áhyggjur af því að við Íslendingar séum blindir fyrir því að læra af mistökum annara.

Ég bjó í Osló í tæp 2 ár. Þeir sem hafa komið þangað og vita hvernig mál standa þar hljóta að sjá að svona samfélag viljum við ekki. Þar eru heilu hverfin eru útlensk. Sumir skólar eru orðnir hreinlega útlendingaskólar þar sem norðmenn eru í minnihluta. Norskir siðir og venjur eru lagðir til hliðar til að koma á móts við útlendinga. Þetta eru engar útúr pumpaðar rasískar ýkjur heldur staðreyndir.

Við verðum að fara að átta okkur á því að það er ekki allur heimurinn prógrammeraður eins. Okkar venjur eru ekkert betri eða verri en þeirra. Við erum bara ekki alltaf á sömu braut og þess vegna gengur okkur svona illa að búa saman. Einfalt mál finnst mér.

Til að svara þér Guðmundur um hvað við viljum ræða þá vill enginn fara í trúarbragðastríð, já við viljum loka landinu fyrir óheppilegum innflytjendum, nei við viljum ekki loka Vesturlöndum, og já kannski er þetta klunnaleg leið til að segja við ykkur póliTÍKusa, passið upp á hvað þið eruð að gera, passið upp á að komandi kynslóðir geti notið þess að alast upp í samfélagi þar sem Ísland og Íslenskir siðir koma fyrst...


jón jónsson (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 17:56

16 identicon

Jóhann og Jóhanna. Ég fer alls ekki fram á að umræða um tiltekin þjóðfélagsmál sé bönnuð. Mér finnst hins vegar að fólk eigi að gæta þess að yfirfæra ekki slæmar gjörðir sumra múslíma yfir á alla múslíma. Því miður, þá eru þeir allt of margir sem ekki virðast geta komið því inn í kollinn á sér að slíkt sé rangt. Jóhann er gott dæmi um það, en hann segir að í sumum löndum telji múslímar sig yfir alla hafna. Hann vísar líka til þess að einhver Íslendingur hafi séð múslíma hrækja á íslenska konu sína og virðist með því reyna að réttlæta þá staðhæfingu að íslamskir karlmenn séu upp til hópa vondir við konuna sína (eru þá ekki allir íslenskir karlmenn að sama skapi vondir við konuna sína vegna þess að sumir þeirra hafa ekki aðeins hrækt á konuna sína heldur líka lamið hana í klessu?). Svona málflutningur er bara ekki boðlegur og það er ótrúlega aumt að reyna að verja svona alhæfingar með frösum á borð við: "Það verður að vera hægt að ræða hlutina." Það er enginn að segja að það megi ekki ræða málin og það er enginn að segja að það megi til dæmis ekki gagnrýna það misrétti gagnvart konum sem viðgengst í sumum íslömskum löndum eða að það megi ekki gagnrýna ofsatrúarmenn sem reyna að etja fólki til óhæfuverka. Málið er bara þetta: Hlutirnir eiga ekki að vera ræddir á rasískum nótum og við eigum ekki að dæma alla múslíma út frá einhverju sem aðeins sumir þeirra gera. Það getur einfaldlega ekkert réttlætt slíka umræðu. Daníel virðist ekki skilja það. Jóhann virðist ekki skilja það. Jóhanna virðist ekki skilja það. Og svo margir aðrir virðast ekki skilja það. En þannig er það bara. Punktur.

Þórður Sveinsson (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 18:08

17 identicon

Jón Jónsson, talaði hér um Oslo sem dæmi um samfélag sem við viljum ekki. Það þykir mér frekar undarlegt þar sem norðmönnum hefur í raun tekist einkar vel að taka á "innflytjendavandanum" Ég bjó sjálfur í Oslo og þar er mikið magn af innflytjendum, vandinn þar fellst helst í vanda kerfisins, enda Noregur land möppudýranna með um 900.000 ríkisstarfsmenn. 

Innflytjendur í Noregi tala almennt mjög góða norsku og hafa aðlagast vel, innflytjenda norkskan er í daglegu tali kölluð "Kebab-norsk" líkt og aðrar malýskur í landinu sem allar hafa einhver heiti, en norskan á líklega heimsmet í mallýskum því meira að segja fjölksyldumeðlimir tala ekki sömu mállýskur oft á tíðum ( Norðmenn tala um Skandinavísk sé sú mállýska sem íslendingar tala ).  það er hinsvegar rétt að til eru sérstök innflytjenda hverfi þar t.d. eru Toyen og Gronland mikil innflytjendahverfi, en þau eru bæði talin til mikils menningarauðga í Oslo.

Það er lika alveg magnað að menn tala um að ræða þessi mál og læra af mistökum nágranna okkar, en einu lausnirnar sem komið er með er að apa upp eftir "mistökum" frænda okkar, höft og flokkanir eftir litarhafti.

Atli Þór Fanndal (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 20:42

18 identicon

Ég er þér sammála Jóhann að það sé mikilvægt að ræða málefni sem þessi á málefnalegan hátt. Umræðan í þjóðafélaginu undanfarið hefur greinilega sýnt að þess sé þörf. En Jóhann, ég er þér ósammála að það sé réttlætanlegt að nota orðalag líkt og "Ingi" notaði um milljónir manna vegna þess að hann sé reiður einum manni sem hrækti á konuna hans. Ætli "Ingi" myndi setja þetta tilvik í trúarlegt samhengi hefði kristinn einstaklingur (e.t.v. á Íslandi) gert það. Ekki myndi ég vilja sitja undir slíku orðalagi af því að einhver annar en ég hafi hrækt á konuna hans. Síðan finnst mér athyglisvert að þú skulir tilgreina að konan hans "Inga" sé íslensk. Væri í lagi að hrækja á hana ef hún væri t.d. Pakistani, Tyrki, Íraki, Egypti eða Írani?  Með umfjöllun minni um konuna hans "Inga" þá tel ég mig sýna fram á fáránleika þess að umræðan skuli eiga sér stað á svo einstaklingsbundin hátt. Fyrir utan það þá virðist "Ingi" miða skoðanir sínar einvörðungu út frá vestrænum fréttaflutningi af 11. september (og þá konunni sinni, sé um sama mann að ræða) og er það að mínu mati frekar takmarkaðar upplýsingar til að mynda sér skoðun um heilan trúarhóp og alhæfa um það hvort fólk sem aðhyllist múhameðstrú sé allt ógeðslegt eða ekki!

Björg (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 22:14

19 identicon

Ég þori nú varla að hætta mér inn í þessa umræðu og ég tel mig heldur engann sérfræðing og ætla ekki að slá um mig eitthvað hér. En í ljósi umræðunnar um Osló hér fann ég mig knúinn til að taka þátt, persónulega hef ég ekki búið erlendis en vinir mínir sem hafa búið í Danmörku hafa einmitt komið með nokkuð vafasamar yfirlýsingar um innflytjendur byggðar á sinni reynslu þar. Sama virðist upp á teningnum í Noregi og jafnvel Svíþjóð, en hvernig var málum háttað þegar innflytjendur byrjuðu að flytjast þangað. Var umræðan á jákvæðum eða neikvæðum nótum, fengu þeir einhverja aðstoð við að aðlagast samfélaginu og eru einhverjar staðreyndir sem benda til þess að þeir brjóti t.d. meira af sér en "innfæddir"?

 Á málþingi nokkru sem ég sat fyrir stuttu var einmitt fjallað um málefni þessa fólks hér á landi og var vísað til þess þar að þrátt fyrir mikla aukningu innflytjenda hafi glæpum þar þeir komu við sögu ekkert fjölgað, þ.e. hlutfallið stóð því sem næst í stað.

Þá eru líka margfalt fleiri Íslendingar búsettir erlendis og mér finnst eiginlega ekki stætt að við séum að ræða um að loka landinu í aðra áttina. Við eigum frekar að aðstoða innflytjendur við að aðlagast samfélaginu.  Jólakveðjur.

Jón R. (IP-tala skráð) 6.12.2006 kl. 11:54

20 Smámynd: Bragi Einarsson

já, það voru einmitt svona "rasista" dæmi í gangi þegar Hitler var og hét og Heyr! Þá var engin Samfylking til að kenna um eins og Óskráður jón jónsson talar um, "bara" gyðingar! Gætið ykkar, gott fólk, jólin eru að koma finnið friðin í hjörtum ykkar. Hvort sem þið trúið á jólasveininn, krítarkortið eða bara eitthvað annað!

Bragi Einarsson, 6.12.2006 kl. 17:24

21 identicon

Hafandi búið í Svíþjóð í nokkur ár þá get ég bara alls ekki tekið undir þetta nágrannalandakjaftæði. Það er bara alls ekkert innflytjendavandamál í Svíþjóð, það eru ýmis félagsleg vandamál sem erfitt er að tengja, með nokkrum gáfulegum hætti, við innflytjendur sérstaklega frekar en láglaunafólk. Enda er það eins í Svíþjóð og á Íslandi að innflytjendur eru ýmiskonar fólk; í sömu fjölskyldum geta verið bæði snillingar og vitleysingar. En það ber heldur ekki að ýkja þessi félagslegu vandamál úr samhengi. Þegar talað erum vandamál í Osló er ekki verið að meina það sama og þegar talað erum vandamál í Baghdad. Enda eru innflytjendurnir í Baghdad öllu herskáarri en þeir í Osló. Þannig að þessi vandamál eru einmitt viðleitni félagshyggju þjóðfélaga að bæta sig. Þegar þessu er snúið upp í hræðsluáróður er hætt við að útlendingahatarar skjóti sig í fótinn með því að hafna þeirri þjóðfélagsgerð sem þefaði upp vanda sem í flestum öðrum samfélögum væri falinn undir öllu stærri vandamálum, og hafna þar með lækningunni sem hluta af sjúkdómnum rétt eins og einstaklingar haldnir alvarlegri geðröskun. 

Eða er kannski Norður Kórea, það land með lægst hlutfall innflytjenda í heiminum og minstu fjölbreytnina í litarhafti, eitthvað sem ber að taka sér til fyrirmyndar. Forpokaðra þjóðfélag er erfitt að ímynda sér og held ég að uppspretta þeirra kennda sem þar ráða ferðinni heldur svipaða þeirri sem knýr suma Íslendinga til að taka gjábreið stökk yfir skynsemina vegna hræðslu við hið óþekkta. Það er kannski best að læsa bara að sér og bjóða einstaka hvítingja af góðum ættum í heimsókn... svo lengi sem hann er sammála.

Hvað trúarbrögð varðar þá eru þau alltaf vandamál, hvar svo sem þau eru og hvað svo sem þau heita. Hvort einhver vill vera kalvínisti, kaþólikki, múslími eða eitthvað allt annað er í sjálfu sér gott og blessað, en þegar menn byrja að reyna að maka sinni réttlætistilfinningu út um allt með valdi, þá er voðinn vís og gera flest trúarbrögð sig sek um þetta hvað eftir annað; öfgasinnaðir múslímar eru áberandi í dag, en það gætu orðið kynþáttahyggjuvitleysingar á morgun. Kaþólisminn var engin Guðs gjöf í S-Ameríku á sínum tíma og alþýðan í Evrópu átti ekki upptökin að siðaskiptum. Þetta er allt sama vitleysan, en með auknu menntunarstigi, vonandi, lagast þetta.

Hinsvegar  hef ég oft hitt Íslendinga, og þá sérstaklega Íslendinga sem hafa verið búsettir í Danmörku, sem eru uppfullir af hugmyndum um útlendingavandamál Evrópu. En í Kaupmannahöfn einmitt er ekki þverfótandi fyrir fullum Íslendingum.

Mér finnst þessi umræða satt best að segja bera vott um heimsku í fornum skilningi þess orðs. Vísindin eru lausnin og ef fólk er tilbúið að opna huga sinn fyrir rótum vandans þá er hann auðleystur á 21. öldinni. Ekki frekar en nornir voru vandamál miðalda eru innflytjendur vandamál 21. aldarinnar, en þetta hangir á svipaðri orméttinni spýtu.

Drengur (IP-tala skráð) 6.12.2006 kl. 19:56

22 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Það er frábært að lesa skoðanirnar hér og þetta þarf. Það seina sem vantar er athugasemdir frá "ný- íslendingum". Ég er útlendingur í Svíþjóð og ég get sagt að það er vandamál í landinu gagnvart innflytjendum og stærsta vandamálið er að stjórnmálamenn mega ekki segja eitthvað "neikvætt" um innflytjendur, án þess að þeir séu stimplaðir kynþáttahatarar. Folkpartiet í Svíþjóð (mjög virtur flokkur) vildi setja smá kröfur á innflytjendur. Eins og t.d.: Að þeir verði að læra sænsku áður en þeir fá ríkisborgunarrétt og hvað haldið að hafi skeð… flokkurinn var "dæmdur" sem kynþáttahatari.  Ég kalla fólk eins og Inga (sem skrifaði þarna fyrir ofan) fyrir kynþáttahatari. Ég vil ekki kalla fólk sem vil ræða málin fyrir kynþáttahatari.

Ef fólk fer frá sínu landi til annars, þá finnst mér það sjálfsagt að það fólk verði að aðlaga sig siðum "nýja" landsins... Ég bý í Svíþjóð og ég geri það.

Þegar ég var lítill mætti NIGGARA og varð hræddur... Ég er ekki kynþáttahatari fyrir það.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.12.2006 kl. 20:29

23 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég skrifaði of hratt...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.12.2006 kl. 20:38

24 identicon

Atli Þór talaði um að Norðmönnum hafi í raun tekist vel í innflytjendamálum. Ég get bara ekki verið sammála því. Mér finnst það ekki vel heppnað verk að Norskir siðir og venjur eru látnar víkja til að koma á móts við útlendinga. Heldur ekki að austur evrópskar og arabískar klíkur stunda skipulagða glæpastarsemi þar. Mér finnst ekkert flott við það að það sé kominn hardcore múslima 
grúbba sem ætlar sér á þing til að geta farið að breyta hlutunum sér í hag. Það þarf ekki að bíða lengi þangað til að fleiri og fleiri afkomendur innflytjenda fara að kjósa. Bíðið bara og sjáið hvað gerist. Ég er alveg sammála um að það er rosa skemmtilegt að labba um grænmetismarkaðina á Toyen og Grönland. Það er harðduglegt fólk sem stofnar þessar búðir og rekur þær.

En það er bara svo mikið af fólki sem aðlagast ekki, talar ekki tungumálið, fær ekki vinnu, stundar glæpi, hangir á bótum, ungar sér út og fær borgað eftir því... Ég fæ eflaust svaka ræðu núna en það verður að hafa það.

Einhver spurði hvernig svíar og fleiri stóðu að móttöku útlendinga á sínum tíma. Þeir gerðu það á sama máta og íslendingar gera í dag.. Hrúguðu þeim í sín fell í sínum efru breiðholtum... Útkoman er eins og hún er þar nú. 

Ég skil ekki af hverju við reynum ekki að draga lærdóm af mistökum annarra. Þurfum við virkilega að sparka berfætt í vegg til að skilja að það er vont?

jón jónsson (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband