Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

18 gul spjöld

Sumir segja, og hafa nokkuð til síns máls, að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans séu í raun ekkert annað en gul spjöld á ríkisstjórnina. Efnahagsstjórnin sé ekki í lagi. 

Ríkisstjórnin er þannig búin að fá 18 gul spjöld frá Seðlabankanum síðan 2004. Stýrivextir hafa verið hækkaðir 18 sinnum til þess að slá á þenslu.

Í fótboltaleik fá menn auðvitað aldrei 18 gul spjöld. Menn fá rautt.

Í pólitíkinni eru það bara kjósendur sem geta gefið rautt. Þeir geta gert það 12. maí.

Góða helgi!


Urgur í Sjálfstæðismönnum - Fréttaskýring

Heimildarmenn mínir innan Sjálfstæðisflokksins, sem eru þónokkrir, hafa ítrekað bent mér á þá þversögn sem í því felst fyrir flokkinn að hann skuli vera á móti aðild að Evrópusambandinu, á meðan margir helstu forkólfar í viðskiptum og atvinnulífi eru fylgjandi. Sjálfstæðisflokkurinn eigi á hættu að missa tengsl sín við atvinnulífið ef hann standi fast við einstrengingslega afstöðu sína til ESB-aðildar.  

Forsíðufrétt Blaðsins í dag er athyglisverð í þessu ljósi. Þar er það rifjað upp, að í kringum 1990 hafi Davíð Oddsson verið fylgjandi aðildarumsókn. Í nýrri bók Eiríks Bergmanns er reynt að festa hendur á orsökum fyrir því að Davíð snérist síðar hugur. Leitt er að því líkum að afstöðubreytingin eigi rætur að rekja til persónulegrar óvildar milli Davíðs og Jóns Baldvins. 

Í öllu falli er ljóst að margir Sjálfstæðismenn kunna formanni sínum, Geir Haarde, litlar þakkir fyrir að standa fast við umdeilda línu fyrrum formanns, sem beitti sér -- þrátt fyrir sína upphaflegu afstöðu -- af þunga gegn því að málið yrði svo mikið sem rætt. Áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins eru farnir að tala opinskátt um aðildarumsókn, eins og sannaðist t.d. á ræðu Þorsteins Pálssonar á Iðnþingi á dögunum. 

Heimildarmenn mínir halda því fram að uppgjör um Evrópumál sé óumflýjanlegt innan Sjálfstæðisflokksins á komandi árum. 

Raunar hefur því verið haldið fram í mín eyru, af innanbúðarmönnum, að uppgjörið muni ekki einungis varða Evrópumálin. Margir spá því hreinlega að næsta stórviðri í íslenskri pólitík verði allsherjar uppgjör í Sjálfstæðisflokknum, varðandi efnahagsstjórn, and-frjálshyggjuáherslur, sjávarútvegsmál, atvinnumál, afskipti af viðskiptalífinu, byggðamál, stóriðjustefnu, umhverfismál og margt fleira, auk Evrópumála. Þeir hinir sömu benda á, að saga hatrammra innanflokkserja sé löng í Sjálfstæðisflokknum. Á níunda áratugnum hafi hann logað stafnanna á milli í erjum sem voru svo miklar og langvarandi að allt tal um mögulegt sundurlyndi annarra flokka nú á dögum sé hjal eitt í samanburði. 

Þessi eldur logi enn undir niðri. Gjárnar hafi ekki verið brúaðar. "Davíð," sagði einn viðmælandi minn við mig, "hélt flokknum saman með því að skipa fólki að halda sér saman. Geir er að reyna þetta líka núna, en það mun ekki takast lengi. Hann er einfaldlega ekki jafnsterkur karakter." 

Ekki þarf að tala lengi við sjálfstæðismenn, á öllum vígstöðvum, til þess að finna óánægjuna. Einn áhrifamaður, í framlínunni, tjáði mér til dæmis á dögunum að hann hefði ekki hugmynd um hvað flokkurinn ætlaði að tala um í komandi kosningabaráttu. Hann kvaðst mjög óánægður með skipulag komandi baráttu og sagðist vera "í lausu lofti" varðandi áherslur flokksins í helstu málaflokkum.

Annar var bálvondur út í flokkinn í Hafnarfirði, enda á móti stækkun, eins og svo fjölmargir flokksbræður hans og systur. "Af hverju heldur flokkurinn ekki opinn fund um málið svo maður geti alla vega sagt skoðun sína?" sagði þessi tiltekni heimildarmaður. 

Sá þriðji sagðist ganga úr flokknum ef forystan færi -- eins og hinir íhaldssömu Sjálfstæðismenn vilja -- í samstarf við Vinstri græna eftir kosningar. Sá fjórði vildi hins vegar fátt frekar en að ganga til liðs við VG, í því augnamiði að "koma böndum á frelsið" eins og hann orðaði það. Dreki gengi laus. Koma yrði böndum á viðskiptalífið. 

Sá fimmti, frammámaður í atvinnulífi, hristi einfaldlega hausinn og dæsti yfir stefnu flokksins í Evrópumálum og endalausum skærum hans við viðskiptalífið. Svipurinn sagði meira en þúsund orð.

Sá sjötti var æfur yfir afstöðu borgarstjóra til klámráðstefnunnar á Hótel Sögu. "Erum við ekki talsmenn frelsis?" tuldraði sá og gekk fýldur út í suddann. Og sá sjöundi var ekkert að skafa ofan af því: "Sjálfstæðisflokkurinn er ófær um að stýra efnahagsmálunum. Hann hefur ekki lengur þá festu sem til þarf." Hann kvað gegndarlaust fjáraustur flokksins í allar áttir: Hátæknisjúkrahús (með Alfreð), sauðfjársamning og mjólkuriðnað -- svo nokkur dæmi séu tekin -- vera dæmi um djúpstætt ístöðuleysi í ríkisfjármálum. Hann sagði það skandal, að á þenslutímum eins og nú skyldi ríkið -- undir forystu hægriflokks -- aldrei hafa verið stærra. "Hvað varð um gamla slagorðið, báknið burt?" spurði þessi.  

Sá áttundi kvaðst staðráðinn í því að strika út Árna Johnsen. Hann sagði fjölmarga ætla að gera slíkt hið sama. Óánægjan væri djúpstæð í því máli. 

Niðurstaða?  

Geir situr á sjóðandi pottloki. 

 

Glöggir lesendur hafa e.t.v. séð að færslan er skrifuð þónokkuð í stíl og anda umtalaðra fréttaskýringa Morgunblaðsins, sem birst hafa á forsíðu blaðsins undanfarnar vikur og vakið eftirtekt. Ég vil þakka blaðinu fyrir að veita mér með þeim hætti nauðsynlegan og mikilvægan innblástur að þessari.


Mun fólk ruglast?

Nú standa kjósendur frammi fyrir því að tveir sköllóttir menn, rauðbirknir, hyggjast tala aðallega um umhverfismál í kosningunum, og þar að auki eru þeir báðir fyrrverandi íþróttafréttamenn. Munu kjósendur ruglast?  Í öllu falli sýna kannanir að Steingrímur J. er sá sem helst má vera nervös yfir framboði Ómars. Líkur eru á að Íslandshreyfingin nagi af Vinstri grænu og að gallhart umhverfisverndarfylgi muni tvístrast á þessa tvo flokka. 

Annars finnst mér þessi umræða um umhverfismál vera komin að mörgu leyti út og suður og farin að taka á sig súrrealískar myndir. 

Lítum bara á Hafnarfjörð: 

Í Hafnarfirði er verkalýðsforkólfur VG, innan Hlífar, fylgjandi stækkun í Straumsvík. Fulltrúi VG í Orkuveitu Reykjavíkur greiddi atkvæði með orkusölusamningi til Alcan út af mögulegri stækkun. Hugsanlega er það af þessum sökum að VG hefur ekki blásið til mikilla opinna fundahalda innan sinna raða í Hafnarfirði um þessi mál. Ágreiningurinn gæti komið upp á yfirborðið. 

Svipað er upp á teningnum í Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn var á móti því að setja málið í atkvæðagreiðslu en snérist svo blessunarlega í þeirri afstöðu sinni. Hann segist opinberlega vera með stækkun, en allir vita að fjölmargir Sjálfstæðismenn eru gallharðir á móti. Kannski af þessum sökum hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði ekki heldur haldið marga opna fundi um málið innan sinna raða. Ágreiningurinn gæti komið upp á yfirborðið. 

Af Framsóknarmönnum í Hafnarfirði er lítið að segja. Ég hef heyrt að þeir séu tveir og heiti báðir Siggi.

Varðandi Íslandshreyfinguna er athyglisvert að einn af forsprökkunum þar lýsti sig fylgjandi "hóflegri stækkun" í Straumsvík þegar hann var spurður í október, sem var ágætlega rökstutt af honum og allt það, en sú afstaða gæti vissulega komið illa út núna þegar áherslan í hinni nýju hreyfingu er alfarið gegn allri stækkun. Spurningar vakna. Óvíst er hvort Íslandshreyfingin muni halda marga fundi um málið í Hafnarfirði. Ágreiningur gæti komist upp á yfirborðið. 

Punkturinn er þessi: Mér sýnist menn vera að keppast við að mála sig græna í framan um þessar mundir, nema sjálfstæðisflokkurinn sem er grár en málar fuglinn sinn grænan.

Það er ágætt.

Staðreyndin er hins vegar sú að innan allra flokka blasir við saga misræmis, mótsagna og skiptra skoðana í málaflokknum. Hvert sem litið er. 

Allir vita að innan Samfylkingarinnar eru skiptar skoðanir um stækkun í Straumsvík. Þetta er meðal annars vitað vegna þess að Samfylkingin hefur lagt sig fram um að halda ótal opna fundi um málið. Þar hefur ágreiningurinn komið upp á yfirborðið, eins og við var að búast, og verið ræddur. Samfylkingin setur málið stolt í dóm kjósenda, eins og sex ára samþykktir bæjarins gera ráð fyrir. 

Og allir vissu að skiptar skoðanir voru innan Samfylkingarinnar í málefnum umhverfis og stóriðju almennt. Þær voru hins vegar ræddar og enduðu í stefnuplaggi sem allur þingflokkurinn er ánægður með og skrifar undir. Flokkurinn hefur gert betur og sett líka fram stefnu um annars konar atvinnuáherslur, sem fela í sér tillögur að því hvað koma eigi í staðinn, a.m.k. að hluta, eftir að dregið hefur verið úr stóriðju. Nýja atvinnulífið, gjörið svo vel.

Menn geta haft sínar skoðanir á þessum áherslum. Ég trúi á þær. Ég tala fyrir þeim. Sama gera flokksystkini mín. En punkturinn minn er hins vegar þessi: Mér finnst að við eigum að hætta þessari sífelldu umhverfisverndarkeppni, þessum metingi um stærsta geislabauginn. Menn eru stormandi fram á sjónarsviðið eins og the only gay in the village, hver á fætur öðrum, með yfirlýsingar um að þeir og bara þeir séu Umhverfisverndarflokkurinn á Íslandi. 

Á meðan vita allir sem hafa eitthvað fylgst með málaflokknum, að umhverfisverndarumræðan er einfaldlega á fleygiferð, með nýjum upplýsingum í hverjum mánuði. Að menn hafi sagt eitthvað áður, sem þeir segja ekki nú, er því mjög skiljanlegt. Að skiptar skoðanir séu í öllum flokkum - enginn undanskilinn - í stórum grundvallarmálum á sviði náttúruverndar er ósköp skiljanlegt líka.  Steingrímur J. var með Þjórsárvirkjun í fyrra. Núna er hann á móti. Og það er bara allt í lagi. 

Mikilvægi umhverfismála mun vaxa, það er engin spurning. Framsýnt fólk sá það fyrir þegar það barðist fyrir stofnun umhverfisráðuneytisins á sínum tíma, svo dæmi sé tekið -- við megna andstöðu Sjálfstæðisflokksins, aðallega, og ekki endilega við óslitinn fögnuð þeirra sem hæst tala í málaflokknum nú. Það hvort flokkar nái að fanga umhverfismál innan sinnar stefnu - og nái að setja fram sannfærandi tillögur í þeim efnum -- mun skera úr um það hvort flokkar eigi erindi við nútímann eða ekki.  Þar eiga vissulega sumir flokkar lengra í land en aðrir, að mínu mati. Samfylkingin finnst mér hafa unnið heimavinnuna sína og ég er ánægður með það. 

Við gerum málflokknum hins vegar lítinn greiða með með fullyrðingum um að sumir séu "grænir í gegn" og aðrir ekki, og svo framvegis og svo framvegis. Ég er umhverfisverndarsinni. Mér finnst ég hins vegar ekki þurfa að æpa það á hverjum degi. Stundum finnst mér líka vera tvær hliðar á þessum málum, eins og gerist og gengur. Ég er á móti stækkun í Straumsvík, en fagna kosningunni af hug og hjarta. Birti grein um málið í dag.

En svo myndum við líka, að mínu mati,  gera landi og þjóð talsvert gagn ef við færum að tala af jafnmikilli áfergju um önnur mál, svo ég segi það bara hreint út. Í efnahagsmálum, heilbrigðismálum, samgöngumálum, verðlagsmálum, menntamálum og málefnum barna og fjölskyldna í þessu landi blasa við brýn úrlausnarefni sem þurfa athygli stjórnmálaflokka á kosningaári ekki seinna en núna. 

Við erum þegar byrjuð


Nýtt framboð til stuðnings stefnumálum Samfylkingarinnar

Það var ekki að heyra á Íslandshreyfingarmönnum (úff langt orð) að framboði hópsins sé beint á nokkurn hátt gegn Samfylkingunni. Margrét Sverris mun t.d. hafa lýst því yfir að Samfylkingin væri með "mjög góða græna stefnuskrá".

Það er alveg rétt.  Hana má lesa hér. Það er auðvitað á ákveðinn hátt ánægjulegt að blásið skuli til nýs framboðs til stuðnings stefnumálum Samfylkingarinnar, eins og mér sýnist hér verið að gera:

Íslandshreyfingin leggur áherslu á uppstokkun í landbúnaði, eins og Samfylkingin, og á eflingu hátækniiðnaðar, eins og við. Auk þess að vera sem sagt á okkar línu í náttúruverndar- og loftslagsmálum. 

Hættan er hins vegar sú, að þetta framboð verði til þess að dreifa fylgi sem er umhugað um náttúruvernd og loftslagsmál, nýjar lausnir í atvinnulífi og þess háttar, þannig að atkvæði kjósenda sem styðja þessi mál falli dauð í hrönnum.  

Það yrði fjárans klúður, ef Ómar, sem vill bjarga landinu, endaði með að bjarga ríkisstjórninni, erkifjandanum, stefnulausri, andlausri og rúinni trausti. 

 


Svar til Dúu dásamlegu

Hún Dúa dásamlega spurði mig í gær hver væri stefna Samfylkingarinnar í heilbrigðis- og félagsmálum. Svarið er  langt, enda spurningin viðamikil og málefnið brýnt. Ég birti það hér til hliðar, undir Síður. Þið sjáið það þar. 

Heilbrigðis og félagsmál eru auðvitað hjartans mál Samfylkingarinnar. Við setjum endurreisn velferðarsamfélagins á oddinn í þessum kosningum. Úrlausnarefnin eru einfaldlega það aðkallandi. 

En svarið er semsagt í heild sinni hér til hliðar.

Getið líka prentað það út og haft það á náttborðinu... Bundið það inn kannski. Gluggað í það í rólegheitum.

Nei ég segi svona. 


Athyglisvert...

Ég var að glugga í blöðin og sá m.a. fregnir af þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem var lögð fram í gær. Þar gefur að líta athyglisverða framsetningu í meira lagi.

Þar stendur að markmiðið sé að draga úr langtímaskuldum.

Svo les maður aðeins lengra og þá sér maður að gert er ráð fyrir að skuldir hækki um 50 milljarða á árabilinu 2007 til 2010.

Svona reyna menn stundum að breiða yfir vandræðalegar staðreyndir með því að segja nógu ákaft hið gagnstæða. Hér eru skuldir að aukast, og sjálfsagt af einhverjum ástæðum. En þá er reynt að setja í fyrirsagnir að markmiðið sé að draga úr skuldum.

Allt spurning um að fegra hlutina. Villa um.


Tvö góð já og eitt leiðinda nei

Það er skemmst frá því að segja að hin ódýra og snjalla lausn -- þó ekki allsherjarlausn -- á atvinnuvanda á landsbyggðinni sem ég bloggaði um hér á dögunum, og ber heitið Störf án staðsetningar, var samþykkt sem þingsályktunartillaga á Alþingi um helgina. Flutningsmaður var Össur Skarphéðinsson.

Þetta verður þá semsagt að veruleika. Hér eftir verða auglýst sérstaklega störf á vegum ríkisins, sem hægt er að vinna hvar sem er, og landsbyggðarfólk verður hvatt sérstaklega til að sækja um. Þannig geta allt að 4000 störf farið áreynslulaust út á land á 10 árum, sem er þónokkuð. 

Annar sigur Samfylkingarinnar á lokadegi þingsins fólst í því að baráttumál Ágústar Ólafs var samþykk og sett í lög, um að fyrningarfrestur á kynferðisbrotum gegn börnum skyldi afnuminn. Hér er auðvitað um að ræða mikinn sigur réttlætisins og ástæða til að óska Ágústi til hamingju með að ná þessu í gegn á þolinmæðinni, en fyrsta þingmálið sem Ágúst flutti á Alþingi fyrir fjórum árum laut að einmitt þessu. 

Þetta er fyrirtak. Tvö góð já í þágu lands og þjóðar. 

Mín frjálslyndisbrá hefði lyftst ef þingið hefði líka samþykkt þá þverpólitísku tillögu þingmanna flestra flokka um að leyfa bjór og léttvínssölu í matvöruverslunum. 

En VG stöðvaði það.

Ætli þau hafi ekki farið á Mímisbar á eftir og skálað í bjórlíki...


"Fréttaskýringar" Moggans

Svokallaðar “fréttaskýringar” Moggans á forsíðu, skrifaðar af háttsettum blaðamönnum, eru eitt aðal aðhlátursefnið í mínum vinahópi þessa dagana. Stórskemmtilegt krydd í tilveruna. Þessar “fréttaskýringar” (je sjur ræt) eru einhver augljósasta tilraun og barnalegasta sem ég hef séð í íslenskum fjölmiðlum fyrr og síðar, held ég bara, til þess að lauma pólitískum áróðri inn á morgunverðarborð landsmanna undir fölsku flaggi.

Af hverju kallar Mogginn þetta ekki bara pistla og málið er dautt?  

Núna í morgun telur Agnes Bragadóttir sig hafa komist á snoðir um það með mikilli gagnaöflun væntanlega að sundurlyndi ríki innan Samfylkingarinnar – nema hvað. Það er ákveðið leiðarstef í þessum skýringum.  Hún hefur fyrir víst að Össur hafi spilað sóló í auðlindamálinu á Alþingi og svo klikkir hún út með því að leiða að því líkum að það hafi jú víst verið sjórnarandstöðunni að kenna að stjórnarskrárákvæðið rann út í sandinn í þingsölum. Og hvað dregur hún fram til vitnis um að sú athyglisverða kenning sé rétt?

Jú. Orð Geirs og Jóns.

Þannig lýkur fréttaskýringunni. Glæsileg sigurför hinnar hlutlausu og upplýsandi blaðamennsku.

Á fimmtudaginn birti Ólafur Stephensen svipaða “fréttaskýringu” á forsíðu um eldhúsdagsumræður. Hinn vandaði og ósérhlífni greinandi fór þar í saumana á málflutningi flokkanna. Niðurstöður hans um Samfylkinguna voru tvær.

Í fyrsta lagi: Það að Samfylkingin skyldi ekkert tala um umhverfismál lýsir þeim “mismunandi skoðunum sem ríkja á málaflokknum  þar á bæ”. Hér ætlaði blaðamaður væntanlega að nota orðið “sundurlyndi” en hefur gleymt því.  

Hvað getur maður sagt?

Fyrir það fyrsta er þetta rangt. Víst var talað um umhverfismál.  En vissulega var þunginn ekki lagður á umhverfismál, heldur velferðarmál, en ég spyr: hvað með það? Er það ekki allt í lagi? Á Mogginn í vandræðum með það? “Mismunandi skoðanir”, segir hann. Hefur Mogginn ekki orðið var við það að þingflokkur Samfylkingarinnar er búinn að kynna sína umhverfisverndarstefnu undir nafninu Fagra Ísland – sem hann stendur einhuga að – á blaðamannafundi fyrir löngu, sem og leggja fram frumvarp á þingi á grundvelli þess? Auk þess eru umhverfismál eitt meginþemað í stofnsamþykkt Samfylkingarinnar frá því árið 2000. Fyrir áhugasama: lesið hér.  

Ég finn lykt af Moggaspinni. Þau eru alltaf fyndin, vegna þess að þau eru alltaf svo skemmtilega augljós. Fyrirsögnin á þessari tilteknu “fréttaskýringu” var Grænt eldhús á þingi. Þessi fyrirsögn var væntanlega skrifuð fyrirfram því Mogginn vissi að Geir Haarde ætlaði að tala um umhverfismál núna, vegna þess að það eru að koma kosningar, og Mogginn hefur jú lýst þeirri skoðun sinni - í einmitt "fréttaskýringu" - að það gæti verið “gott fyrir flokkinn” (ekki landið, n.b.) að sýna smá grænan lit. Af því tilefni var fálkinn gerður grænn.

Þannig að nú á að spinna flokkinn grænan. Mér er hins vegar heiður og ánægja að segja Mogga frá því að nánast allt sem Geir sagði um umhverfismál í ræðu sinni á eldhúsdegi var annað hvort orðrétt eða nokkurn veginn samhljóða grein Ingibjarg Sólrúnar frá því á laugardeginum á undan um umhverfismál á 21.öld. Lesið hér.

Hin fullyrðingin um málflutning Samfylkingarinnar í hinni ákaflega vönduðu “fréttaskýringu” á fimmtudag -- sem var álíka meistarastykki og "fréttaskýringin" í morgun -- var svo þessi, og skulum við nú vitna í sjálf lokaorðin í þessu minnismerki faglegra vinnubragða: “Samfylkingin var dugleg að lofa nýjum ríkisútgjöldum, en greindi ekki frá því hver skattastefnan yrði.”

Hér sé ég fyrir mér sposkan svip hins skarpskyggna blaðahauks.

Skoðum þetta. Hefur Samfylkingin lofað yfir 400 milljörðum í kosningavíxlum eins og ríkisstjórnin undanfarið? Hvað á fréttaskýrandi við?

Ingibjörg talaði um að eyða biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og það strax. Er það það sem blaðamaður á við?  Er krafan um að fjárfestingarsjóður aldraðra sé notaður í það sem hann á að vera notaður í, semsagt í uppbyggingu hjúkrúnarrýma, bara eins og hver önnur upphrópun um ríkisútgjöld að mati blaðamanns?   Er þetta ekki brýnt réttlætismál? Og hefur ekki í ofanálag verið margsýnt fram á það að uppbyggingin hjúkrúnarrýma er í raun sparnaðaraðgerð til lengri tíma litið? 

Eða átti blaðamaður við orð Ingibjargar um nauðsyn þess að mæta kröfum um meðferðarúrræði barna og unglinga með geðraskanir, sem fjölgar ár frá ári? 

Eða er mögulegt að Ólafur hafi þarna farið fram úr sjálfum sér og látið pólitískar skoðanir sínar og blaðsins ráða lokaorðum “fréttaskýringarinnar”?

Guð sé oss næstur!  Það getur ekki verið!  Ó, bróðir!

Ég bara trúi því ekki, í svona vönduðu blaði eins og Mogganum, að blaðamaður geti mögulega hafa misstigið svona hrottalega í jafnmikilvægum efnisdálki og fréttaskýringu og látið pólitík ráða skrifum sínum!

Og það á forsíðu.

Er Mogginn að missa það?

Nei. Ég held ekki.

Hann hefur alltaf verið svona.  Breytist aldrei.


Stjórnin flæktist í eigin spuna

Tilraunir stjórnarflokkanna - eða öllu heldur formanna stjórnarflokkanna - til þess að pota illa útfærðu auðlindaákvæði inn í sjálfa stjórnarskrána á síðustu metrum þinghalds eru runnar út í sandinn. Það er lýsandi fyrir útúrsnúningana sem tíðkast í bransanum að núna skuli stjórnarandstöðunni kennt um þetta klúður. Hún er sögð víkjast undan merkjum og hvað eina.

Bíddu við. Var þetta ekki nógu skýrt? Samfylkingin tók því fagnandi þegar auðlindaákvæði barst í tal fyrst. En svo þegar orðalagið og útfærslan kom í ljós var alveg kristaltært að þetta ákvæði var alls ekki hægt að samþykkja. Það var ekki hægt að lesa annað út úr þessu, en að þvert á yfirlýstan tilgang svona ákvæðis skyldi hér séreignarréttur á auðlindum festur í sessi.  Í versta falli með klækjabrögðum. Í besta falli óvart. 

Samfylkingin getur bara því miður ekki samþykkt svoleiðis, mín kæru.

Og ef út í það er farið: Síðan hvenær er það stjórnarandstöðu að kenna að ríkisstjórn skuli flækjast svona fyrir sjálfri sér? Hún rauk af stað fullkomlega af eigin frumkvæði í þessa stjórnarskrárbreytingu á lokaviku þings til þess eins að lenda upp á kant við nánast alla helstu lögspekinga þjóðarinnar. 

Og svo vélræn er klisjan um vinsti glundroðan orðin í munni stjórnarliða að enginn þeirra virtist, þegar hæst lét, fatta á nokkurn hátt kaldhæðnina í því að þeir skyldu virkilega beita þeirri klisju að þessu sinni í varnarviðbrögðum sínum.

Á sama tíma skiptust stjórnarliðar á skotum í fjölmiðlum um annað af tvennu: möguleg stjórnarslit eða afsagnir ráðherra.

Stundum fer ég bara að hlæja.  


Ingibjörg á eldhúsdegi

Samflokksfólk mitt í eldhúsdagsumræðum lagði höfuðáherslu á velferðarmál - málefni fjölskyldunnar, aldraðra, barna og heimilanna - í sínum ræðum. Þessi áhersla er engin tilviljun og lætur einkar vel í mínum eyrum.

Í þessum málaflokkum slær hjarta sérhvers jafnaðarflokks, sama hvar í veröldinni hann starfar. Velferðarmál eru hjartans mál Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.

Velferðarkerfið á einmitt rætur að rekja til vinstri stjórnar, sem gekk undir því fróma heiti Stjórn hinna vinnandi stétta.  Boðskapur Ingibjargar Sólrúnar í ræðustól í kvöld var einfaldur: Nú þarf jafnaðarstefnan aftur að komast að á Íslandi, til þess að endurreisa velferðarkerfið.

Það er hið brýna verkefni jafnaðar- og félagshyggjufólks. Mér finnst þetta kristaltært: Upphaflega hugsunin með velferðarkerfinu var sú að þar væri um almannatryggingakerfi að ræða. Semsagt: fólk borgaði skatt og þar með átti það rétt á ákveðinni þjónustu.

Þegar aldrað fólk fær ekki hjúkrunarrými þegar það þarf á því að halda, eða foreldrar fá ekki úrræði fyrir veik börn sín, þá er brotinn réttur á því fólki sem skattgreiðendum. Svo einfalt er það. Tökum samanburð við tryggingafélag: Ég borga iðgjald. Ef húsið mitt brennur þá fæ ég það bætt. Ég fer ekki á biðlista.

Þetta kann einhverjum (les: hauki) að finnast róttæk hugsun, en svona er jafnaðarstefnan: Hún byggir á hugsuninni um skyldur annars vegar, og rétt hins vegar.

Norrænir jafnaðarflokkar hafa staðið vörð um þessa hugsun eins og urrandi hundar alla tíð. Þeir hafa líka farið með stjórnartaumana í sínum löndum. Þess vegna innleiða þeir hugtök og úrræði eins og þjónustutryggingar, til þess að mæta þessari réttlætiskröfu í nútímasamfélagi. Slík trygging gengur út á einfaldan hlut: Ef ríkið sjálft getur ekki séð þér fyrir því úrræði sem þú átt rétt á sem þegn, þá tryggir ríkið þér þau úrræði eftir öðrum leiðum.  Þetta er samningur við fólkið. 

Íslendingar, með borgaraleg íhaldssöfl við völd undanfarin áratug, hafa gefið afslátt af þessari réttlætishugsjón. Tökum nærtækt dæmi: Fé sem á að renna samkvæmt lögum til uppbyggingar hjúkrunarheimila – samkvæmt þessari upphaflegu réttlætishugsun – er látið renna í eitthvað allt annað. Þar á ég að sjálfsögðu við framkvæmdasjóð aldraða. Og menn láta sér slík lögbrot í léttu rúmi liggja, sem lýsir andrúmsloftinu.

Af þessum sökum – og hversu brýnt mér þykir að til valda komist á Íslandi jafnaðarflokkur sem tekur velferðarkerfið og hugsunina á bak við það alvarlega – fundust mér lokaorð Ingibjargar Sólrúnar í elduhúsdagsumræðunum í kvöld, eins og reyndar ræðan öll, svona líka ansi hreint glimrandi:

“Samfylkingin er reiðubúin að taka við stjórnartaumunum og endurreisa velferðarkerfið á Íslandi.”

Þetta er hið fullkomna grundvallaratriði.


Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband