Leita í fréttum mbl.is

Gufubaðið (29.11.08)

Á Laugarvatni – hvaðan ég er ættaður – var einu sinni æðislegt, náttúrulegt gufubað. Þetta var einn af uppáhaldsstöðunum mínum á Íslandi. Ég veit að margir deildu þessari aðdáun með mér. Gufubaðið var einstakt. Baðið var einn af föstu punktunum í tilveru margra. Eitthvað sem margir töldu að myndi aldrei breytast. Gufubaðið yrði þarna bæði fyrir og eftir pólskipti, tuttugu heimsstyrjaldir og pestir.

BÚNINGSKLEFARNIR voru í gömlum lágreistum steypuhúsum með bárujárnsþaki, alveg við vatnið. Þessi hús voru sögufræg og höfðu mikið gildi. Gufubaðið sjálft var lítill kofi með tveimur herbergjum, reist ofan á hvernum, þannig að grindargólf hleypti náttúrulegri gufunni upp, misheitri eftir því í hvoru herberginu maður var. Sumir sögðu að gufan hefði hitnað eftir skjálfann árið 2000. Um þetta var jafnan rætt, þegar maður sat í skýlunni á funheitum viðarbekkjunum. Svo var farið út í vatn.

NÚ eru búið að rífa þetta allt. Það var gert fyrir ári eða svo. Gufubaðið hefði kannski getað staðið af sér styrjaldir, en það stóð ekki af sér eitt stykki séríslenskt góðæri. Eftir standa kofar, eins og kamrar, svona rétt yfir hvernum, til þess að passa að enginn fari sér að voða. Stórhuga menn með háleitar hugmyndir fengu lán einhvern tímann, til þess að breyta þessum sælureit í rosalega heilsumiðstöð. Þarna átti allt að gerast. Auðvitað var byrjað á því að rífa gamla dótið, kannski nógu fljótt svo enginn gæti mótmælt.

EN svo hrundi allt. Og nú veit enginn neitt.  Eitt af því sem aðdáendur og fastagestir gufubaðsins spyrja sig núna er hverjir hafi leyft þetta. Hver leyfði að gamla gufubaðið var rifið? Hver ber ábyrgðina?

ENGINN virðist hafa svör á reiðum höndum. Þetta er eins og Ísland. Það kæmi mér ekki á óvart að hver benti á annan. Hinir stórhuga athafnamenn segja kannski að hugmyndin hafi verið ægilega góð. Þarna hefði getað risið heilsumiðstöð á heimsmælikvarða. Kannski ætla þeir sér að byggja hana einhvern tímann seinna.  Sveitastjórnarmenn vöruðu kannski við þessu, eða a.m.k. ætluðu að vara við þessu. Sögðu kannski frá áhyggjum sínum í tveggja manna tali, heima hjá sér. Ætluðu að skrifa grein. En gerðu ekki.

EFTIR stendur átakanlegur vitnisburður um allt það versta í fari okkar Íslendinga. Æðibunugangur og virðingarleysi, hugsjónalaust jarðýtuhugarfar og græðgi varð gamla gufubaðinu á Laugarvatni að falli. Nú þarf að endurreisa það.

Birtist sem bakþankar í Fréttablaðinu 29.nóvember 2008.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband