Leita í fréttum mbl.is

Prinsipp í panik

Ég botna satt að segja ekki mikið í því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn í borginni rýkur allt í einu upp núna með ægileg prinsipp um það að Orkuveita Reykjavíkur megi ekki eiga fyrirtæki -- eða eiga Í fyrirtæki -- sem er í útrás á sviði jarðvarmavirkjana. 

Guðlaugur Þór Sjálfstæðismaður átti víst frumkvæðið að stofnun REI fyrir nokkrum mánuðum. Engin prinsipp voru höfð gegn því þá. 

Bjarni Ármannsson var ráðinn stjórnarformaður. Enginn sagði neitt.

REI og Geysir Green sameinuðust. Það var almennt talið hið besta mál... 

...þar til að kom í ljós þetta með lokaða hópinn sem átti að fá að maka krókinn á þeim viðskiptum. Það hefur blessunarlega verið dregið til baka, enda siðlaust.

Eftir stendur þessi staða: Orkuveita Reykjavíkur á núna hlut í risastóru fyrirtæki sem ætlar í útrás á heimsvísu. Framlag Orkuveitunnar er að stórum hluta til í formi þekkingar og reynslu. 

Ég get með engu móti séð, að það sé sérstaklega gott prinsipp að Orkuveitan reyni ekki fyrir hönd borgarbúa og í þeirra þágu, að hámarka -- svo maður noti tískuorðið úr bransanum -- arðinn sem hægt er að fá fyrir þessa uppsöfnuðu þekkingu og reynslu á sviði jarðvarma. Það er eins og Sjálfstæðismenn telji það vera eitthvað sérstakt prinsipp að þessari þekkingu megi alls ekki koma í verð. Samt hafa þeir sjálfir átt frumkvæðið að því að koma henni í verð undanfarið...

Ekki er öll vitleysan eins. Maður er að reyna að vera sammála Sjálfstæðisflokknum hérna, en þá þarf hann endilega að snúast í hring í kringum sjálfan sig...

Þekkingu OR verður best komið í verð í samvinnu við einkaframtakið. Þar höfðu Sjálfstæðismenn rétt fyrir sér. Hið opinbera og einkageirinn eru samtvinnuð hvort sem okkur líkar betur eða verr í þessu máli. Einkageirinn er kominn með áhuga á jarðvarmavirkjunum. Í gerð þeirra er hagnaðarvon auk þess sem þær þjóna umhverfismarkmiðum. Nú er það bara spurningin: Hvort viljum við að einkageirinn einfaldlega kaupi þekkinguna --- starfskraftana úr OR -- og skilji eftir hin opinberu orkufyrirtæki rúin inn að skinni, eða að orkufyrirtækin eins og OR taki þátt í þessu útrásarverkefni, leggi til þekkingu og reynslu, og fái arð í staðinn?  Sá arður rennur til borgarbúa.

Ég sé ekkert sannfærandi prinsipp gegn síðari möguleikanum. Og mér sýnist Sjálfstæðismenn ekki heldur hafa séð þau, þar til allt í einu núna. Í einhverri panik út af innri trúnaðarbresti og ýmis háttar klúðri, sem hefði vissulega mátt missa sín, vill Sjallinn hætta við út af prinsippi.

Sjallinn fór í panik út af klúðri og fannst hann sjá prinsipp.

Að sjá prinsipp í panik.  Það er aldrei gott.

Verkefnið núna er að anda djúpt og hugsa hvernig hag borgarbúa og nærsveitarmanna -- eigenda Orkuveitunnar -- verður best borgið í þessari stöðu sem er komin upp. Annað er vitleysa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég skil ekki þetta upphlaup né hina heilögu vandlætingu á mögulegum kauprétti lykilstarfsmanna. Slæ þó þann varnagla hér að ég hef aldrei séð allann listann yfir þá sem áttu að njóta kaupréttarins. En frá  mínum bæjardyrum séð er þetta fyrsta tilraun útrásarinnar til að tryggja sér einhverja sérfræðiþekkingu í jarðhita. Ef REI kaupir þessa menn til sín eftir sölu OR á sínum hlut þá er tap OR tvöfalt.

Bjarni (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 07:37

2 identicon

Smá viðbót. Vilfreð eða Villingi fengu þá hugmynd að fá "the moneymaker" inn í spilið. Hann kemur með bankakúltúrinn inn og allir græða. En...pang... VÞV fattaði ekki að hann er ekki Davíð. Satt best að segja þá hefði DO komist upp með þetta. Orðið prinsipp er ekki til í orðabókum sjallans í Bolholti 1.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 10:48

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sammála sem aldrei fyrr

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 9.10.2007 kl. 11:52

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Hvernig kemst maður á svona lista?

Júlíus Valsson, 9.10.2007 kl. 12:03

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

flott samantekt á þessu skelfilega spillingarmáli..

Óskar Þorkelsson, 9.10.2007 kl. 12:13

6 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þessi prinsipp áttu greinilega ekki við þegar Sjallarnir tóku þátt í sömu gjörningum í LV og Rarik. Þá var allt í lagi að sameina einkaframtakið og "opinbera" þekkingu og reynslu . Fór aðeins yfir það á síðunni minni í gær.

Gestur Guðjónsson, 9.10.2007 kl. 12:29

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Góð bloggfærsla.  Svo má leiðrétta í leiðinni að það voru engir kaupréttarsamningar í þessu máli (en "kaupréttur" virðist af einhverjum ástæðum vera voðalegt bannorð), heldur bauðst tilteknum starfsmönnum að kaupa hlutafé í félaginu og greiða fyrir úr eigin vasa, út í hönd.  Flestum þeirra bauðst að kaupa á genginu 2,77 sem er einfaldlega verðmat hins sameinaða félags og enginn hagnaður í því fólginn nema vonarpeningur ef fyrirtækið blómstrar; 2,77 getur reyndar talist ansi hátt gengi á þessu félagi en það er önnur saga.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2007 kl. 00:19

8 Smámynd: Ingigerður Friðgeirsdóttir

Góð samantekt hjá þér! Það er komin góður maður í borgarstjórastólinn!

Ingigerður Friðgeirsdóttir, 11.10.2007 kl. 20:53

9 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Er ekki stærsta havaríið í kringum þessa tilteknu lykilstarfsmenn og boð um að þeir fengju að kaupa hlut. Það er a.m.k. það sem ég heyrði Svandísi tala um. Enda var spillingarlykt af því öllu saman og mér sýndist á öllu að Björn Ingi ætlaði sér að hossa vinum sínum í því máli.

Ég græt svosem ekki endalok þessa meirihlutasamstarfs, reyndar þótti mér alltaf nokkuð varið í Vilhjálm sem borgarstjóra. En ég held reyndar að nýjum meirihluta sé ekki stórkostlegur sómi af Birni Inga, en lýst vel á nýjan borgarstjóra og alveg stórvel á að VG séu komnir inní meirihlutann með mjög svo frambærilega manneskju. Spurning hver eigni sér síðan Margréti Sverrisdóttur, það var a.m.k. broslegt að sjá viðtalið við Guðjón A. á rúv um stöðuna í borginni.

Guðmundur Örn Jónsson, 11.10.2007 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband