Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Ef Flensborg fengi að ráða

Samfylkingin er með 42 prósenta fylgi í Flensborg, samkvæmt skoðanakönnun sem var gerð þar á meðal nemenda í vikunni. Úrtakið var 363 nemendur, 183 stúlkur og 180 strákar. Einn nemandi var óákveðinn. 

Þessar  tölur voru gerðar opinberar í skólanum á framboðsfundi flokkanna sem fór fram þar í dag, á þemadögum í skólanum. Ég, Bjarni Ben, Magnús Þór Hafsteinsson, Guðfríður Lilja og Samúel Örn stóðum fyrir máli okkar. 

Hinn hressilegasti fundur. Ég vona að umræðurnar hafi hjálpað þessum eina að ákveða sig...

Samfylkingin er samkvæmt könnunni stærsti flokkurinn í Flensborg, sem þarf kannski ekki að koma á óvart. Hafnarfjörður er stærsta vígi flokksins í kjördæminu.  Sjálfstæðismenn mældust með 31% fylgi, Vinstri grænir 14%, Framsókn með 6% og Frjálslyndir 4%. 

Eitt vakti athygli mína í málflutningi Magnúsar Þórs, sem spilaði út innflytjendaspilinu, eins og við var að búast. Hann sagðist vilja takmarka aðgang að landinu. Ég benti honum á að við værum aðilar að EES og innan þeirra aðildarlanda ríkti frjálst flæði vinnuafls. 

Þá sagði Magnús að hann útilokaði ekki að beita bókunum sem fyrir hendi eru í EES samningnum, að hans sögn. Á grundvelli þeirra gætu Íslendingar takmarkað aðgang fólks frá EES löndunum að Íslandi.

Þetta fannst mér ótrúlegt að heyra. Við græðum ógrynni fjár á EES samningnum, milljarða út af frelsi í viðskiptum. Erum að leggja undir okkur hálfa Kaupmannahöfn. Við flytjum óhikað til EES landanna, sækjum þangað menntun og nýtum okkur alls konar réttindi sem okkur bjóðast þar.

Það ætti því að vera eðlilegt að við einbeittum okkur að því, að sama skapi, að taka vel á móti þeim sem vilja nýta sér þennan sama rétt og flytja hingað.

En nei, ó nei. Magnús virðist bara alls ekki taka alvarlega þessa hugmynd um gagnkvæm réttindi þjóðanna. Við megum fara þangað sem við viljum innan EES. En hins vegar mega ekki allir koma hingað frá EES.

Ég átta mig bara alls ekki á þessum málflutningi.  Það kæmi mér verulega á óvart ef hinn óákveðni Flensborgarstúdent, sá hinn eini, hefur ákveðið að kjósa Magnús. 

Kynjaboð og bönn

Hér hefur mikið verið skrafað á síðunni um netlöggu VG. Hugmyndin fær vægast sagt ekki góðar undirtektir...

Ekkert í svörum VG-liða finnst mér eyða á sannfærandi hátt þeim áhyggjum af öfgakenndri forræðishyggju sem tillagan skapar. Mér finnst Gunnar nokkur Theódór koma með ágætis hugmynd hér í athugasemdakerfinu að frekari tillögum handa VG á þessu sviði. Hann leggur til að í tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli verði sérstaklega þefað uppi klám á ferðamönnum við komuna til landsins og að til þess verði notaður sérstakur klámhundur.  

Hef hlegið dálítið að þessari hugmynd. 

Það er fleira frá þingi VG um helgina sem ég furða mig á, satt að segja, enda samrýmist sú forræðishyggja á mörgum sviðum sem þar kom fram alls ekki mínum grunnhugsjónum í pólitík. Enda er ég ekki í VG, þannig að það á ekki að koma neinum á óvart. Það er líka fínt að skil komi kristaltær í ljós á milli fólks og flokka, eins og mér sýnist vera að gerast hér. Slík ætti að auðvelda kjósendum að gera upp hug sinn á kjördag.

Ég er til að mynda frjálslyndur. Það er grunnþráður í minni nálgun á pólitík. Netlöggan hugnast mér þar af leiðandi alls ekki sem og önnur slík forræðishyggja þar sem réttindum borgaranna er mögulega fórnað.

Og nú verð ég að játa líka að ég skil ekki almennilega hvernig VG sér það fyrir sér að það sé hægt að setja það inn í stjórnarskrá að kynjahlutfall skuli vera jafnt á Alþingi. Þetta var ein meginhugmyndin á þingi flokksins.

Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hversu öfgakennd þessi hugmynd um stjórnarskrárbundið kynjajafnrétti er. Ætla menn virkilega að hlutast til um niðurstöður lýðræðislegra kosninga eftir að þær hafa farið fram? 

Eftir hvaða reglum eiga flokkarnir að skipta út konum eða körlum í sínum röðum til þess að jafna kynjahlutföllin? Segjum að fimm flokkar bjóði fram. Þrjátíu og þrír karlar ná kjöri og þrjátíu konur. Til þess að jafna hlutföllin (sem er reyndar ekki hægt miðað við að talan sé 63) er eðlilegt að spurt sé: Hvaða flokkur á að láta karl víkja? Hver verður reglan? 

Kosningar eiga að vera gagnsæjar. Hér er VG að boða flókið reglugerðarvirki með flóknum formúlum um það hverjir nái í raun inn á þing eftir að þjóðin hefur kosið. Þetta er eins og segja að niðurstaða Landsbankadeildarinnar í fótbolta skuli vera háð flóknum skilyrðum og ekki verði hægt að krýna sigurvegara fyrr en flóknar formúlur hafi verið reiknaðar, til þess að mæta alls kyns sjónarmiðum um góða knattspyrnu.  

Annað í þessu særir nefnilega mína viðkvæmu lýðræðissál: Hið lýðræðislega kosningaferli til Alþingiskosninga felur í raun í sér fullkomið jafnrétti kynjanna, hvað sem menn segja. Allir fá jú eitt atkvæði, algerlega burtséð frá kyni.  Af þessu leiðir, að niðurstaða kosninga sprettur ekki af óréttlæti hvað kynjahlutföll varðar. 

Þetta er mjög mikilvægt.  

Þetta er nefnilega ekki eins og í fyrirtækjaheiminum. Þar liggja karlar undir ámæli um að ráða öllu og að nota völd sín til að skipa einungis kynbræður sína. Í Alþingiskosningum er það hins vegar alveg kristaltært að konur kjósa til jafns við karla.

Það að niðurstaðan, úrslit kosninganna, endurspegli ekki þetta -- og þar af leiðandi blasir sú staðreynd við að konur kjósa ekki endilega konur -- er auðvitað dálítið athyglisvert.

En ráðið við því (ef fólk vill ráð við því á annað borð) er ekki það sem VG stingur upp á. Tillaga VG er atlaga að gagnsæju og sanngjörnu lýðræðisferli. Niðurstaða Alþingiskosninga verður að fá að standa. Það er að mínu mati algjört grundvallaratriði. Ef fólk sættir sig ekki við niðurstöðuna, út frá kynjasjónarmiðum eða öðru, verður það einfaldlega að safna liði og gera betur næst. 

VG vill líka setja í lög að kynjahlutfall verði jafnt í stjórnum fyrirtækja. Það er ekki atlaga að lýðræðinu, eins og hin tillagan, en hún er álíka flókin. Eftir hvaða reglum eiga þeir aðilar sem eiga sæti í stjórn að skipta kynjunum?

Mér hugnast ekki svona leiðir. Mér hugnast betur leiðin sem Reykjavíkurlistinn fór. Þar sátu konur á endanum í helmingi af stjórnunarstöðum innan borgarinnar, en höfðu áður verið tvær í slíkum stöðum.

Þetta náðist með einörðum ásetningi, hvatningu, stefnu og sanngirni.  Ekki boðum og bönnum.


Netlögregla?

Steingrímur J. og Vinstri grænir vilja setja á stofn netlögregluembætti

Þetta er líklega ein óhuggulegasta hugmynd sem ég hef heyrt í stjórnmálum á Íslandi. Björn Bjarnason með sínar leyniþjónustur fölnar í samanburði.

Kína, anyone?


Smá staksteinar

Þegar Morgunblaðið fjallar um skiptar skoðanir Samfylkingarfólks í Hafnarfirði um stækkun álversins er greint frá því með pistli á forsíðu undir fyrirsögninni "Sundurlyndi Samfylkingar". Reyndar er ekkert fjallað í pistlinum, sem birtist á föstudaginn, um meint sundurlyndi, en hvað um það. Samfylkingarfólk í Hafnarfirði er líka búið að tækla það,  eins og góðum flokki sæmir. 

••••••

Þegar blaðið fjallar svo daginn eftir um skiptar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum um umhverfismál og um vaxandi urg í flokksmönnum út af grænu málunum, er greint frá því á forsíðu í sams konar pistli -- svokallaðri fréttaskýringu -- undir fyrirsögninni "Út um græna grundu". 

••••••

Ákaflega skáldlegt, og hæfilega merkingarlaust. En af hverju ekki að segja það hreint út og hafa fyrirsögnina í þessu tilviki frekar "Sundurlyndi Sjálfstæðisflokksins"? Mun slík fyrirsögn einhvern tímann birtast í Mogganum? 

•••••• 

Mun sá tími renna upp? Þrátt fyrir að tilefnin séu ærin.

••••••

Þegar Sjálfstæðismenn eru ekki sama sinnis heitir það að "flokkurinn rúmi margar skoðanir" eða eitthvað slíkt, en þegar  Samfylkingarfólk er ekki sama sinnis þá heitir það að "hver höndin sé uppi á móti annarri" eða "sundurlyndi".

••••••

Þetta er undarleg skekkja í umræðunni.


Vísa

Í framhaldi af síðasta pistli mínum í Fréttablaðinu fékk ég senda vísu. Nokkuð góð. Höfundur heitir Hallmundur og vísan er svona: 

 

Ég vil hér á okkar stað

öllum banna að dvelja

sem afhafst gætu eitthvað það

sem óheppilegt má telja.

 

Enn ein undarleg vika er liðin á skerinu. Nafnlaust bréf og mögulegir hótelgestir. Hvort tveggja er dæmi um eitthvað sem þjóðfélög í eðlilegu jafnvægi eiga ekki að gera mikið mál út af... 


Nú, nú, er ég að fara að gifta mig?

Við Alexía sáum á forsíðu Séð og heyrt í dag að brúðkaup okkar væri í aðsigi. Athyglisvert. Þetta væru auðvitað bara ánægjuleg tíðindi, ef brúðkaup stæði raunverulega til, en gallinn á þessari frétt er sá að brúðkaup hefur barasta ekki neitt staðið til og hefur ekki einu sinni verið rætt okkar á milli.

Í okkar augum er þetta svakalegt skúbb hjá Séð og heyrt. Við sjálf vissum ekki einu sinni af þessu.  

Við erum alveg hamingjusöm og allt það. En við erum bara alls ekkert að fara að gifta okkur.

Það er auðvitað Eiríkur Jónsson sem skrifar þetta. Hver annar.

Þannig er mál með vexti að Alexía varð þrítug um síðustu helgi. Við héldum grímupartí (þess vegna lítum við svona út á forsíðunni, sko) og Eiríkur hringdi og spurði hvort hann mætti senda ljósmyndara. 

Við sögðum jú jú, svosem allt í lagi, já já, o.k. fyrst þú endilega vilt og allt það. Ljósmyndari kom. Hann tók myndir og allt í góðu. Svo hringdi Eiríkur í Alexíu eftir helgina. Spyr um nöfnin á fólkinu á myndunum og fær þau.  Og svo spyr hann, frakkur en lævís:

"Eruði ekki að fara að gifta ykkur?"

Alexía hlær. Gerir grín. Og segir nei.

"Hva, viltu ekki giftast honum?" spyr þá Eiríkur áfram.

"Jú jú, kannski þegar ég verð sjötug" svarar Alexía.

Og þar með er þessi hugumstóri riddari sannleikans kominn með efnið sem hann vantaði.

Fyrirsögn: "Brúðkaup í vændum!"

Fyrirsögn inni í blaðinu: "Ég vil giftast honum!"

Ég þekki Eirík. Hef unnið með honum. Ég þekki líka Mikka Torfa ágætlega. Hef unnið með honum. Hann er ritstjóri Séð og heyrt.

Ég hef heyrt að þeir tveir séu að fara að gifta sig í Danmörku. Svaka hamingjusamir. Gengur ofsa vel hjá þeim. Eru jafnvel að spá í að ættleiða.

Til hamingju, strákar! Þið eruð perfect match.


Var þetta kannski kiwi?

Ég geri mér grein fyrir að ég er dálítið seinn inn í umræðuna um það hvort að fyrirbrigðið í Bónus á bak við Sölva fréttamann hafi verið mýs eða kartöflur, en ég sá margumrædda fréttaskýringu rétt áðan. Ég heyri á öllum að niðurstaðan sé sú að þetta hafi verið karftöflur sem þarna rúlluðu yfir gólfið og undir kassa. 

Ég vil þó leyfa mér að spyrja: Erum við alveg viss um þetta? Er ekki hugsanlegt að þetta hafi verið kiwi?

Ég fagna auðvitað þessari umræðu. Hún er mjöööög mikilvæg. Ég vil stinga upp á fleiri slíkum gátum fyrir fréttaáhugafólk.

Fyrirbrigðið sem tók trén upp í Heiðmörk. Var það skurðgrafa eða Gunnar Birgisson?

Skoðum upptökuna einu sinni enn...  

Fréttaskýring Sölva fjallaði um hátt verðlag á Íslandi, sem er mikið alvörumál. Ég ætla ekki að fella neina dóma um þjóðarsálina eða hneykslast á því á nokkurn hátt að umræðan um fréttaskýringuna skyldi hafa snúist á endanum um tja... aukaatriði málsins. Ég ætla fremur að leyfa mér að halda því fram að nokkuð svipuð efnistök tíðkist mjög almennt í umræðu um þjóðfélagsmál hér á landi. 

Dæmi 1: Umræða um fátækt.  "Fólk er miklu fátækara á Grikklandi".  

Dæmi 2: Umræða um vaxandi ójöfnuð.  "Kaupmáttur hefur aukist."

Þessi svör í alvarlegri umræðu eru dæmi um svokallaðar "kartöflur" (stundum kallað "kiwi"), sem við getum kallað svo í ljósi nýjustu tíðinda. Hér er boðið upp á svokallað "kartöflukarp", eða "karp um kartöflur", en það kallast það þegar umræða um alvarleg mál snúast upp í umræðu um ótengd aukaatriði.

Dæmi um kartöflur eru fjölmörg í íslenskum stjórnmálum.  Þetta stílbrigði er nátengt svokallaðri "smjörklípu". Kartöflur og smjörklípa fer oft saman í umræðunni. 


Framsæknasti flokkurinn

Það eru góð tíðindi að Reynir Harðarson stofnandi CCP og stjórnarmaður í Framtíðarlandinu sé genginn til liðs við Samfylkinguna og muni taka sæti ofarlega á lista í Reykjavík. "Ég tel Samfylkinguna vera framsæknasta flokkinn á Íslandi í dag,"  er haft eftir Reyni í Mogganum í morgun af þessu tilefni.  

"Það er margt, nýtt, ungt og flott fólk í flokknum, með ferskar hugmyndir sem ég sé ekki hjá hinum flokkunum ,” segir Reynir og nefnir sérstaklega áherslur Samfylkingarinnar í grænu málunum, eins og þær birtast í stefnunni Fagra Ísland.

Þetta er allt saman eins og talað úr mínum munni. Nokkurn veginn nákvæmlega af þessum sömu ástæðum ákvað ég að ganga til liðs við Samfylkinguna í október og vinda mér í prófkjör. Ég á samleið með þessu fólki, ferskum hugmyndum og lýðræðislegum vinnubrögðum. 

Í mínum augum er Samfylkingin umbótaflokkur með hjarta sígildrar jafnaðar- og mannúðarstefnu. Og þannig vil ég hafa það.

Sá eini sinnar tegundar hér á landi á, eins og kantrískáldið söng.

Ííííha.  

Farinn að sækja dóttur á leikskólann. Hún er klædd sem ballerína með vængi.  


Skóflustungustjórnmál

Á dögunum birtist frétt um það að heilbrigðisráðherra hefði tekið skóflustungu að hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut. Lúkkaði vel. Mynd var tekin af viðburðinum og fréttatilkynning send út til fjölmiðla. Allt að gerast.

Þá er gott að á þingi sitji manneskja eins og Ásta Ragnheiður sem man lengra en sólarhring í stjórnmálum, og þá ekki síst þegar kemur að málefnum aldraðra og velferðarmálum almennt. Hún er ein af fjölmörgum þungavigtarmanneskjum í þeim málaflokki sem Samfylkingin á niðri á Alþingi. 

Ásta hefur bent á það, að þessu sama hjúkrunarheimili var lofað af ríkisvaldinu árið 2002 og aftur fyrir kosningar 2003. Á miðju kjörtímabilinu var svo skrifað undir samning, með pompi og prakt, við eldri borgara þar sem kveðið var á um að þetta hjúkrunarheimili ætti að rísa. Og núna átti það að vera risið.  

Skóflustungan á dögunum var því í raun dapurlegur gjörningur, til áminningar um brotin fyrirheit. Í stað hjúkrunarheimilis, sem sárvantar, er þarna  ein vandlega falin hola í jörð. Gerð af ráðherra. Og í ofanálag, til þess að kóróna ruglið, hefur verið bent á það, að ekki finnast neinar fjárveitingar til þessa heimilis nein staðar í fjárlögum fyrir árið 2007.

Skóflustungan er því eina verklega framlag ríkisvaldsins til þessa marglofaða hjúkrunarheimilis hingað til. Þetta er auðvitað skammarleg frammistaða í ljósi þess að ekkert -- ekki neitt -- hjúkrunarrými bætist við á öllu höfuðborgarsvæðinu árið 2006, eins og Ásta Ragnheiður bendir á. Ekki eitt einasta.

Velferðarmálin eru í hönk. Þær sorgarsögur sem úr velferðarkerfinu berast eru smánarblettur á þjóðinni. Það væri glapræði að láta stjórnarflokkana sitja áfram að þeim málum eftir 12 ára samfleytt klúður. Fjölbýli aldraðra og biðlistar eftir hjúkrun sýna ekkert annað en siðblindu ríkrar þjóðar eins og okkar. Um 400 aldraðir og aðstandendur þeirra bíða í brýnni þörf eftir hjúkrunarrými. Þúsund manns búa í þvingaðri sambúð.

Þetta eru afar minnar kynslóðar og ömmur. Aðskilin hjón á gamals aldri og rétt rúmur tuttuguþúsund kall á mánuði í vasapening. Á mannamáli heitir þetta niðurlæging. 

Aðgerðarleysi ríkisvaldsins hefur verið margítrekað. Ef þessar skóflustungur sýna eitthvað í raun og veru þá er það þetta: Velferðarkerfið -- og sú hugsun um réttlæti sem það byggir á -- er að deyja í höndunum á okkur. Ráðherrarnir eru byrjaðir að taka gröfina. 

Þetta eru stjórnmál hinna innantómu loforða, sem einkennast af samningum inn í framtíðina sem merkja ekki neitt, fréttatilkynningum án innistæðu.  Milljarðar í þetta og milljarðar í hitt, án fjárveitinga. Við sjáum þetta á öllum sviðum. Ráðherrar með allt niðrum sig hlaupa nú um allar jarðir með skóflur, í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu, og grafa holur.

Þetta er skóflustungustjórnmál. Frá og með 12.maí verður tími þeirra vonandi liðinn í íslenskri pólitík. 


380 milljarðar og sami hnúturinn

Ég get ekki séð af hinni ofurmetnaðarfullu samgönguáætlun að það sé ætlunin að eyða miklu fé til þess að koma til móts við ömurlegar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Hjálpa á fólki að komast út úr borginni, sem er auðvitað á ákveðinn hátt ánægjulegt, og inn í hana aftur með Sundabraut (fjármögnun reyndar í óvissu) og tvöföldun Suðurlandsvegar. En innan borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins verður jafnerfitt og þreytandi að keyra, ef þessi 12 ára áætlun gengur eftir (sem fáir gera reyndar ráð fyrir að hún geri, miðað við fyrri reynslu).

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru orðnir langþreyttir á hnútum við Smáralind, Ikea, á Hringbraut, í Öskjuhlíð, á Hafnarfjarðarveginum og víðar.

Vandamálið er æpandi:  Það vantar fleiri umferðaræðar um höfuðborgarsvæðið. Dreifa þarf umferðinni.

Það þarf Öskjuhlíðargöng, og ef við ætlum virkilega að tækla þetta mál, þarf Skerjafjarðarbraut. Þá getum við loksins farið að ferðast innan höfuðborgarsvæðisins án þess að verða gráhærð á meðan (sem aftur leiðir til þess að Umferðarstofa þarf að fara í auglýsingaherferðir beinlínis til þess að segja okkur að hætta að blóta...). Þetta er beinlínis velferðarmál. Eitt það stærsta á svæðinu.

En það er lítið um þetta í samgönguáætlun. Öskjuhlíðargöng eru ekki á dagskrá fyrr en eftir 2018. Þá verð ég liklega hættur að nenna þessu og farinn alfarinn á hjólið. Verst að samgönguáætlun gerir ekki ráð fyrir neinum styrkjum til hjólreiðastíga og hvað þá almannasamgangna. Það væri þá alla vega einhver stefna. Til marks um einhverja áherslu.

Þetta er metnaðarlaust plagg fyrir höfuðborgarsvæðið. Það fer lítið fyrir athafnastjórnmálunum margboðuðu. Og spyrja má: Reyna tæplega tuttugu þingmenn höfuðborgarsvæðisins, sem sitja í þingmeirihluta, ekkert að gera til þess að koma þessum brýnu hagsmunamálum höfuðborgarsvæðisins, þar sem flestir búa, inn í samgönguáætlun?

Eða eru þeir bara svona lélegir?

Þetta er alfarið þeirra mál. Stjórnarandstaðan var ekki spurð.


Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband