Leita í fréttum mbl.is

Hleranir og aðrar meinsemdir

Í nýju bókinni hans Guðna Th. kemur fram að tilskipanir um 33 hleranir voru gefnar á árabilinu 1949 til 1976. Hér var aðallega verið að hlera alls konar áhrifafólk, eins og alþingismenn og ritstjóra.

Þrátt fyrir að Sjálfstæðismenn hafi brugðist ókvæða við þegar talað var um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins við upphaf þessa máls að þá verður ekki framhjá því horft að hér voru aðallega hægri menn að hlera vinstri menn.

Svo langt gekk paranojan á hægri vængnum að gögn voru brennd sem vörðuðu Nato áður en vinstri stjórnin 1956 tók við völdum. Gögn um hleranir voru brennd í tunnu uppi í Borgarfirði.

Í gær hitti ég gamlan ref af vinstri væng sem glotti út í annað þegar talið barst að hleranamálum. Hann sagði það hafa verið á allra vitorði í þá tíð að símar væru hleraðir. Enginn hafi því sagt neitt af viti í símana. 

Annar benti á að Íslendingar hefðu verið vanir því að tala aldrei um neitt mikilvægt í síma, vegna þess að um langt árabil hefðu þeir búið við sveitasímana, þar sem allir gátu hlustað á hver annan innan sveitar.

Ég hef jafnframt bent á það í pistli að Íslendingar hafi alla tíð verið skyggnir og því alltaf vitað upp á hár hvort sem er hvað nágranninn er að sýsla.

Stóra spurningin í ljósi alls þessa er því auðvitað sú af hverju Sjálfstæðismenn þurftu sérstakar græjur til þess að hlera fólk...

Auðvitað eru þessi hlerunarmál stóralvarleg. Ég vil skoða þau í víðara samhengi. Þetta varðar meðferð valds í langan tíma. Á kaldastríðsárunum myndaðist andrúmsloft þar sem stjórnmálamenn á hægri væng ákváðu að andstæðingar þeirra, sem voru annarrar skoðunar en þeir, væru óvinir ríkisins og ógnuðu öryggi landsins. Það er sláandi að vita til þess að þeir sem voru taldir til slíkra manna voru menn eins og Hannibal Valdimarsson sem ekki bara var stjórnmálaleiðtogi þegar hleranirnar áttu sér stað heldur einnig forseti ASÍ. 

Framkvæmdavaldið undir stjórn íhaldsins beitti dómsvaldinu hikstalaust til þess að fá heimildir til hlerana á pólitískum andstæðingum sínum. Slíkar aðferðir bera vitni um djúpstæða en alþekkta meinsemd í stjórnmálasögunni: Ríkið, það er ég.  

Þetta hugarfar er ennþá til staðar. Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að alls konar dæmum um það að sá háttur Sjálfstæðisflokksins að beita ríkisvaldinu eins og þeir eigi það lifir góðu lífi. 

Við höfum séð dæmi um það að forystumenn hans sætti sig illa við að forsetinn komi ekki úr þeirra röðum. Þeir virða ekki stjórnarskrárbundið neitunarvald hans. Þeir skipa í Hæstarétt eftir flokkslínunni, hringja í forsvarsmenn sjálfstæðra eftirlitsstofnanna og halda yfir þeim reiðilestur í síma, fara í stríð án þess að spyrja, liggja undir allsannfærandi grunsemdum um að þeir sigi lögreglunni á andstæðinga úr viðskiptalífinu, leggja niður stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun ef hún þóknast þeim ekki og halda upplýsingum eins og heilum varnarsamningi og öðru sem varðar grunnhagsmuni þjóðarinnar fyrir sjálfa sig og vini sína. 

Dæmin tala sínu máli. Nú eru þeir byrjaðir í Reykjavík, þar sem fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins fær að selja lóð til borgarinnar fyrir svimandi háa upphæð. Engin þörf er á fagmennsku eða sanngirni í verðmati, því nú er borgin þeirra. 

Eitt stærsta verkefni íslenskrar pólitíkur er að breyta þessu. Það þarf að hreinsa burt þetta landlæga viðhorf, sem varð til í Kalda stríðinu, að það sé í lagi að hafa óljós mörk, að virða ekki sjálfstæðar stofnanir, að beita dómsvaldinu í þágu framkvæmdavaldsins, að beiti ríkinu gegn pólitískum andstæðingum og í þágu flokksvina. Og það alvarlegasta: Að virða ekki mannréttindi.

Arnar Jónsson var hleraður. Hann bendir á að hann og hans líkar hafi verið friðarsinnar og fáránleg vænisýki að vera að standa í að hlera þá. En svona hugsaði hægrið. Ólíklegustu menn voru tortryggðir. Verkefnið í dag er að velta við öllum steinum til þess að komast að því hvers vegna var hlerað og hversu viðamiklar þessar hleranir voru. 

Slík rannsókn mun jafnframt þjóna þeim tilgangi að breyta áðurnefndu hugarfari.   

Ég sé fyrir mér að löggan hafi heyrt friðarboðskap í græjunum þegar hún hleraði Arnar. Make love , not war.

Í ljósi þess er lag dagsins auðvitað Do You Want To Know a Secret með Bítlunum. Arnar er George Harrison. Syngur til Bjarna Ben.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf góðar greinar hjá þér, Guðmundur.

Tvennt sem mig langar til að koma á framfæri varaðandi þessi hleranamál og þá sérstaklega þátt okkar ágæta dómsmálaráðherra - en þessi mál heyra beint undir hann.  Ég vona að ég sé ekki að misnota þetta skemmtilega blogg þitt til að koma því á framfæri.

Í fyrsta lagi af hverju er maðurinn ekki fyrir löngu búinn að lýsa sig vanhæfan í að fjalla og tjá sig um hlerunarmál um og eftir síðustu öld þar sem ein aðalsögupersónan er faðir hans - Bjarni Benediksson dóms- og forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins.  Ekki það, ég treysti þér, Guðmundur, betur þó þú sért af sömu ástæðu jafnvel enn vanhæfari þar sem bæði faðir og afi gengdu (ef ég man rétt) sömu stöðum.  Af hverju það skyldi vera - tja....

Í öðru lagi - fyrst maðurinn er að tjá sig og er að reyna að klóra í bakkan að það sé bara verið að tala um heimildir til hlerana en reynir að halda því fram að þær heimildir hafi ekki verið nýttar (sem að sjálfsögðu hefur verið bent á að standist ekki skoðun)  En getur ekki einhver bent Birni á að það orsakasamhengið geti líka verið öfugt - hvað um allar þær hleranir sem voru viðhafðar án allra heimilda - eru það ekki það sem við þurfum að vera hrædd um?

En þessi hleranamál verða að upplýsast og það má bera það fyrir sig að þarna séu um að ræða mál og menn sem eru horfnir á braut.  Menn sem eru að vinna í dag mega ekki hafa þá friðþægingu fyrir athöfnum sínum að það sé hægt að halda gjörðum þeirra leyndum þangað til að þeir séu horfnir á braut upphefðar sögunnar þar sem ekki má eiga við mannorði manna.

Steingrímur Jónsson - engin tengls

Steingrímur Jónsson (IP-tala skráð) 3.12.2006 kl. 21:35

2 identicon

Allt ber þetta að sama brunni og sýnir okkur hversu mikilvægt það er fyrir þjóðina í þessu landi að nýjir stjórnarhættir verði hafnir hér til vegs og virðingar.

Það sýndi sig þegar R-listinn komst til áhrifa í Reykjavík og stýrði málum í samfellt 12 ár , að þörfin á að hvíla Sjálfstæðisflokkinn frá þeim ofurvöldum sem hann hafði haft þar í marga áratugi ,var mikil.

Þá fengu ferskir vindar að blása um feyskna innviði sem löng valdaseta Flokksins hafði gert að sýnu aðalvaldaaððarati.

Nú er komið að sjálfri landsstjórninni, að gera þar sambærilega tiltekt.

Fyrir því verkefni er Samfylkingunni best treystandi , að hafa forystu.

Það er afarmikilvægt að Samfylkingin taki við stjórnarforystu nú í vor og haldi þeirri forystu  a.m.k næstu 12 árin..það dugar ekki minna til... reynslan frá Reykjavík sýnir það og sannar..áfram með baráttuna Guðmundur...höfum sigur í vor

Sævar Helgason, Hafnarfirði 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 3.12.2006 kl. 22:11

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er einmitt málið að þessar hleranir voru mannréttindabrot, ekki aðeins gagnvart þessum 33 heldur líka gagnvart þeim óþekktu sem þeir hringdu til og hringdu í þá og annars heimilisfólks sem notaði viðkomandi síma. Það á ekki, eins og alltaf er verið að gera, að afsaka þessar hlerarnir í ljósi pólitísks andrúmslofts kalda stríðsins, heldur á að líta á þær út frá stöðu einstaklinganna gagnvart ofríki yfirvalda, sem er nokkurn vegin samt við sig á öllum tímum. Og þetta ætti að leiða hugann að  hugmyndum um öryggis-og greiningardeild sem nú eru á döfinni. Jú, þær eiga að beinast að "glæpastarsemi" og það mun einmitt leiða beint til þess að "óvinir ríkisins" verða einfaldlega settir í flokk með hryðjuverkamönnum, dópsölum og mansölum. Þetta er víst það sem koma skal. Og flestir láta sér vel líka. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.12.2006 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband