Leita í fréttum mbl.is

Aðgerð Strútur

Nú þegar Framsókn er búin að klappa fyrir röngum mistökum sínum er von maður spyrji hvenær Sjálfstæðismenn hafa hugsað sér að viðurkenna að stuðningurinn við Írak hafi verið bull og vitleysa.  Mogginn er búinn að því. Samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni er búinn að því. 

Rumsfeld er horfinn. Bush er búinn að skíttapa kosningum út af þessu. Blair er um það bil að segja bless. En Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi er bara -- svo vitnað sé í Hemma  -- hress.

Þrjóska af þessu tagi virðist vera rauði þráðurinn í málflutningi flokksins um þessar mundir.

Þetta er Aðgerð Strútur. Stingum höfðinu í sandinn. Einn, tveir og Geir. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta yrði taktíkin fyrir kosningarnar í vor. Línan er þegar komin í aksjón hjá fótgönguliðum. 

Fyrir viku sat ég í útvarpsspjalli með Eyþóri Arnalds og ræddi fréttir vikunnar. Talið barst að auðmönnum. Ég sagði af því tilefni að það væri eitt stærsta verkefni í íslenskri pólitík að jafna leikinn í íslensku samfélagi þannig að þorri almennings væri ekki skildur eftir fastur í verðtryggðri okurvaxtasúpu á meðan auðmenn keyptu West Ham fyrir kex. 

"Ég skil þig ekki," sagði Eyþór. Svo bætti hann um betur og líkti málflutningi mínum við kommúnisma.

Ég hugsaði: Hversu langt er sinnuleysið gengið á hægri væng stjórnmálanna ef hófsöm jafnaðarstefna -- sem setur spurningarmerki við það að þjóðfélagið sé orðið eins og Bandaríkin hvað varðar misskiptingu -- er lögð að jöfnu við kommúnisma? 

Í sjálfu sér hefði ég ekki haft áhyggjur af þessu spjalli við Eyþór nema vegna þess að þetta er í hárréttum takti við yfirlýsingar flokksformannsins sem í ræðupúlti á Alþingi sagðist ekki missa svefn út af misskiptingu auðs. 

Þar var Aðgerð Strútur í aksjón. Höfuðið á bólakaf í sand.

Og nú sjáum við þessa  aðferðarfræði í öllu sínu veldi í Íraksmálinu.  "Hvað, er borgarastyrjöld í Írak?" "Ég skil þig ekki." "Ég hef ekki orðið var við neina borgarastyrjöld." "Það er allt í lagi heima hjá mér." "Ég hef  ekki orðið var við nein gróðurhúsaáhrif." "Það er ekkert að aðbúnaði aldraða." "Ég hef ekki heyrt um  neinar ólögleglar hleranir." "Ætlum við að selja Rúv?" "Einkavæða Landsvirkjun?" "Ég hef ekki hitt neinn sem er ósáttur við matvælaverðið, þannig séð." "Er viðskiptahalli?" "Fátækt? Er hún til?" "Er varnarliðið þá virkilega farið?" "Er stóriðjustefna?" "Ég skil þig ekki." "Álvæðing?" "Náttúruspjöll?"

Strúturinn er útspökuleraður.  

Lag dagsins er Something Better Change með Stranglers. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bragi Einarsson

Aðgerð Strútur  þennan verð ég að muna! Flott færsla hjá þér!

Bragi Einarsson, 30.11.2006 kl. 09:50

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Glæsileg færsla... ég las hana tvisvar, því ég hélt að það væri bara "lítla" fólkið sem gat séð þessa vitleysu.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.11.2006 kl. 11:33

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gott mál. Gangi þér sem best í framtíðinni.

Villi Asgeirsson, 30.11.2006 kl. 17:24

4 identicon

Æi, enn einn stjórnarandstæðingurinn með niðurrifsbloggsíðu.  Hvernig stendur á því að enginn í þessu duglausa liði getur skrifað um hugsjónir sínar, talað opinskátt um það hvernig draga eigi þjóðina úr (að því er virðist á skrifum þessara vesalinga) því volæði gnístandi fátækt (bæði andans og vasans) sem yfirkeyrir okkur dag hvern.

Hver ætli ástæðan sé fyrir stöðugt lækkandi fylgi samfylkingarinnar? Gæti hugsast að hún sé sú að þegar fólk veltir fyrir sér hver stefnumál fylkingarsinna sé að þá komi það að tómum kofanum?  Allavega veit ég ekki hver stefnan er, jú ekki nema auðvitað sú að vera á móti öllu sem ríkisstjórnin hefur gert, mun gera eða lætur sér detta í hug á nk. áratugum.

Kommon, gefðu okkur nú smá mola af því sem þú stendur fyrir.  Já og ekkert svona kjaftæði um jafnaðarstefnuna blah blah, komdu bara með það sem þú vilt gera, þín fyrstu action á þingi.

Snæþór S. Halldórsson (IP-tala skráð) 1.12.2006 kl. 12:39

5 identicon

Eða 'No more heroes' kannski...?

Drengur (IP-tala skráð) 1.12.2006 kl. 13:12

6 identicon

Vala.  Varstu spurð áður en lögum um fæðingarorlof var breytt? Eða áður en virðisaukaskatturinn var lækkaður? Nú eða hvert það góða mál sem þessi ríkisstjórn hefur lagt fram? Bara einföld spurning, á semsagt alltaf að spyrja þig áður en eitthvað er gert sem ekki samræmist þínum skoðunum? Veistu, ég skal segja þér svolítið sniðugt, þú ert spurð.  Jibbs, það er gert á fjögurra ára fresti í svokölluðum þingkosningum.

Snæþór S. Halldórsson (IP-tala skráð) 2.12.2006 kl. 15:59

7 Smámynd: Villi Asgeirsson

Kæri Snæþór. Það er eitt að breyta vaskinum eða öðrum lögum. Að styðja stríð sem byggt er á lygum og röngum upplýsingum í nafni manns er allt annað mál. Það að upplýsingarnar hafi verið til staðar er bara bull. Þetta var augljóst frá upphafi. Ég sá það, svíar, norðmenn, þjóðverjar, frakkar og fleiri sáu það. Meirihluti íslensku þjóðarinnar sá það. Hvað var ríkisstjórnin að hugsa?

Villi Asgeirsson, 2.12.2006 kl. 23:15

8 identicon

Kærasti Villi Ásgeirs.  Þarna hittirðu naglann á höfuðið: "..styðja stríð sem byggt er á lygum og röngum upplýsinum.." Þú segir að það hafi verið ljóst frá upphafi að upplýsingarnar hafi verið rangar og ekki til staðar og að fjöldi þjóðríkja að auki þín hafi séð það.  En bíðum við, hvað með gögnin sem Powell sýndi á sínum tíma á fundum öryggisráðsins og þings sameinuðu þjóðina?  Það að gögnin hafi verið röng skal ég tvímælalaust taka undir, en að þau hafi ekki verið til staðar og að það hafi ríkjum og Villa verið ljóst er staðhæfulaus fullyrðing.

Þú spyrð líka hvað ríkisstjórnin hafi verið að hugsa? Seg þú mér, hvað voru ríkisstjórnir þessara 30 ríkja sem voru á listanum að hugsa? Þér kannski finnst kallinn hann Saddam líka bara hafi verið fínasti gaur, sérlega jollý í partýum?

Snæþór S. Halldórsson (IP-tala skráð) 3.12.2006 kl. 11:58

9 identicon

Sælt veri fólkið, mig langar bara að skjóta smá hér inn. Þú berð fyrir þig Snæþór, að Colin Powell hafi komið með gögn fyrir Sameinuðu Þjóðirnar sem hafi réttlætt stríðið á sínum tíma, þó seinna kæmi í ljós að þau væru röng.

En bíddu nú við, ef þessi gögn (hvort sem þau eru eða voru röng eða ekki) voru svona mögnuð og greinileg sönnun þess að innrás í Írak væri nauðsynleg til þess að mannkynið yrði ekki þurrkað út á svipstundu af kjarnorkuvopnabúri Saddams Hussein, af hverju voru SÞ þá ekki sammála Powell og aðstoðuðu BNA í innrásinni? Af hverju voru SÞ á móti innrás í Írak og fordæmdu hana? Af hverju þurftu BNA og co. að ganga gegn fyrirmælum aljþóðasamfélagsins (utan UK og Íslands og Míkrónesíu) til þess að bjarga okkur hinum frá hinum varhugaverða heimsvaldasinna Hussein?

Ef þessi gögn voru jafn rétt á sínum tíma og margir vilja halda fram, af hverju í ósköpunum voru Kofi Annan og stærstur hluti heimsbyggðarinnar ekki samstíga BNA í þessum aðgerðum. Það að halda því fram að þetta hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma er slík sinnuleysa og þvermóðska að það hlýtur að þurfa alveg hreint magnaðan þrjóskubelg til að geta ekki horfst í augu við það að þessi ákvörðun var, er og mun ávallt verða röng, hvaða rök sem menn reyna að nota til að réttlæta hana og þurfa ekki að horfast í augu við það að hinir óskeikulu leiðtogar Íslands, Davíð og Halldór hafi þarna gert "uppá bak sér", eins og sagt er.

Þetta var gert á þeim forsendum að afvopna Hussein og forða þannig þjóðum heims frá því að hann réðist með gjöreyðingarvopnum á heimsbyggðina. Samt vissu BNA-menn það þjóða best að Saddam og Írak hafði verið algerlega tanndregið 10 árum fyrr. Ef hann gat í fyrra Flóastríðinu vart komið Scud-flaugum sínum út fyrir eigin landamæri, hverjar voru þá líkurnar á því að eftir nánast gjöreyðileggingu herafla hans og 10 ára viðskiptabann væri hann búinn að koma sér upp getu til að ráðast með gjöreyðingarvopnum á heimsbyggðina.

Ef menn geta ekki sæst á það að þetta hafi verið jafn röng ákvörðun þá og hún er nú þá eru menn bara að neita að horfast í augu við staðreyndirnar. Ef menn ætla síðan að standa við það að þetta hafi þó verið réttlætanlegt til að koma Saddam frá þá er það eintóm hræsni því ekki er ráðist á Kim Jong Il eða Kína sem líka fremja mannréttindabrot í sama klassa og Saddam. Ég er ekki að segja að mér hafi fundist eða finnist Saddam jolly gaur heldur það að það þarf engan sagnfræðing með ofurmannlega stærðfræðigetu til að sjá það að innrás í annað land er nánast undantekningalaust ekki góð hugmynd!

 Með kveðju,

Páll Guðbrandsson (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband