Leita í fréttum mbl.is

SMS frá Dómínós og Standard og Poor´s

Jú, ég er einn af þeim sem fékk jólakveðju frá Dómínós. Ég hef stundum pantað mér pizzu með pepperóni, sveppum og blönduðum ólífum. Þessi jólakveðja reyndist ekki vera það tundurskeyti inn í jólahaldið mitt, eins og ég heyrði í fréttum að hún hafi orðið í jólahald annarra. Ég brosti bara út í annað og eyddi skilaboðunum. 

Hélt svo áfram að hneppa skyrtunni áður en ég fór í jólaboðið.

Mér varð meira hugsað til annarrar jólakveðju sem forsætisráðherra fékk í sms rétt áður en hann hneppti sína skyrtu og fór í boð. Hún var frá Standard og Poor´s. Lækkað lánshæfismat er auðvitað áfellisdómur yfir stjórn ríkisfjármála, en staðfestir viðvaranir sem margir hafa látið í ljós.

Sagan endurtekur sig. Fyrir síðustu kosningar skrifaði ég til dæmis sem blaðamaður frétt um Tómas Inga Olrich, þáverandi þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokks. Í henni kom fram-og voru ekki gerðar neinar athugasemdir við það - að maðurinn fór um norðausturkjördæmi fyrir þær kosningar og gaf loforð um samtals 1.3 milljarða í alls konar verkefni í kjördæminu. Hann beinlínis fór um með heftið og skrifaði tékka í allar áttir. Á nokkrum mánuðum.

SogP vita hvað þeir syngja: Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að fara með peninga. Sérstaklega ekki á kosningaári. Og við þessa yfirlýsingu er eins víst að einhverja reki í rogastans. Eru það ekki vinstri menn sem kunna ekki að fara með peninga? Ha? Hvernig er það? 

En nei, Hemmi minn. Það er gömul klisja. Löngu afsönnuð. Þetta með Sjallana er hins vegar sífellt að koma betur og betur í ljós. Meira um það síðar.

Kveðja frá Búðardal.


Gleðileg jól

Í mínum huga hafa jólin alltaf á sér dálítið súrrealískan blæ sem fær mig til að brosa í kampinn. Auðvitað snúast þau um kærleika, trú og svoleiðis, svo ég tali í hálfkæringi, en jólin snúast líka um það að ganga yfir sjó og land og hitta einn gamlan mann, segja svo og spyrja svo hvar hann eigi heima. Þetta er fyndið. Hvers vegna að ganga alla þessa leið, yfir sjó (síðan hvenær var það hægt?!) og land, til þess eins að spyrja svo einfaldrar spurningar? Og maðurinn svarar út og suður. Segist eiga heima í Klapplandi eða Stapplandi eða Grátlandi eða Hlælandi. Jafnvel á Íslandi. Er maðurinn að ganga af göflunum? Hvað amar að? Nú skal segja.

JÓLIN snúast um jólasveininn sem situr við gluggann í kofanum í skóginum og lítið héraskinn sem kemur þar að og segir að veiðimaður ætli að skjóta það. Héraskinn? Hverjum datt það í hug? Á meðan stendur Adam á akrinum, átti syni sjö, og hann sáir. Hann sáir.  Kannski sáði hann í tvöfaldri merkingu? Jólin eru frjósamur tími. Varð ekki einhver vitni að mömmu kyssa jólasvein? Gamli refurinn. Jólagjöfin mín í ár ekki metin er til fjár. Jólagjöfin er ég. Pökkuð/pakkaður inn í sellófón kannski? Erótísk jól.

NÚ skal segja. Upp á stól stendur mín kanna. Níu nóttum fyrir jól kem ég til manna. Hvert er samhengið í þessu? Einhverjir vilja syngja frekar “Upp á hól stend ég og kanna”, en rannsóknir á gömlum handritum sýna að hið fyrra er rétt. Kvæðið er bara svona skrýtið og ekkert meira með það. Jólasveinarnir ganga virkilega um með gylltan staf, en ekki gildan, og hafa könnu sína upp á stól en ekki á borði einsog tíðkast. Svona eru jólin. Súrrealísk.

ÞANNIG vil ég meina að vísurnar sem Íslendingar hafa sungið áratugum og jafnvel öldum saman á jólunum séu til þess fallnar að sýna okkur að jólin eru ekki bara tími hátíðleika, ljóss og friðar heldur líka tími léttleika, æðruleysis og jafnvel grallaraskapar. Eða hver er annars pælingin með því að setja tré inn í stofu til sín, ganga svo í kringum það og herma eftir gömlum körlum að taka í nefið?

OG hver tekur í nefið, ef út í það er farið, og snýr sér svo í hring? Enginn svo ég viti til. En svona er þetta líka með Adam. Hann sáir, en svo fer hann allt í einu að dansa eins og John Travolta. Klappar saman höndunum, stappar niður fótunum og ruggar sér í lendunum. Þetta má. Svona er andi jólanna víðsýnn. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil og er þá ekki átt við jeppavarahluti, eða hvað? Ég segi bara góða ferð yfir sjó og land, kæru lesendur, vinir, vopnabræður, andstæðingar , og gangi ykkur vel að fá svör frá gamla manninum um það hvar hann eigi heima. Hann mun svara út í hött, sem er bara fyndið og skemmtilegt, því jólin eru jú um fram allt, og hvernig sem á það er litið, gleðileg.

(Þessi pistill birtist, nokkurn veginn í þessari mynd, sem bakþanki í Fréttablaðinu á aðfangadag í fyrra. Um svipað efni - jólalögin -- má líka lesa í mun ítarlegri grein sem ég skrifaði í TMM fyrir jólin 2001. Ég sá líka í morgun að Pétur Gunnarsson rithöfundur var að skrifa grein í Moggann um "Jólasveinar ganga um gólf" þar sem hann skýrir af hverju talað er um að kannan sé upp á stól. Könnur voru oft upp á svokölluðum stól áður fyrr. Þetta breytir samt ekki því að kvæðið er súrrealískt og samhengið skringilegt. (Hvað kemur þessi kanna til dæmis yfirleitt málinu við?) Það held ég nú. Ég er farinn að skreyta jólatréð, klára að kaupa jólagjafir (í fárviðrinu), borða rjúpu, hangiket, lesa bækur, útskýra fyrir dóttur minni hver Grýla, jólasveinarnir og Jesús eru, etc. Semsagt jólafrí. Sjáumst eftir tvö til þrjú kíló.) 


Íslenska leyniþjónustan

Á forsíðu Blaðsins í dag er greint frá enn einni vísbendingunni um það að á Íslandi sé starfrækt einhvers konar leyniþjónusta án þess að við vitum af því. Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli er semsagt director of IIS (Icelandic Intelligence Service) á bréfum sem hann sendir til kollega sinna erlendis.  

Það getur vel verið að þetta eigi sér eðlilegar skýringar og sjálfur er ég ekki að fara úr límingunum út af þessu. En mér er þó farið að þykja þetta nokkuð grunsamlegt, í heildina litið.  Það er greinilegt að það er til fólk í embættismannakerfinu og á meðal stjórnmálamanna sem vill mjög mikið stofna leyniþjónustu. Vísbendingar um þessa löngun dúkka upp með reglulegu millibili. 

Heyrst hefur af mönnum með sólgleraugu á fjöldasamkomum, sem tala inn í úlnliðinn á sér, svipbrigðalausir. Loðin tíðindi hafa borist af samstarfi Íslendinga við CIA. 

Ég held reyndar að það séu til ágæt rök fyrir því að stofna leyniþjónustu en um slíka leyniþjónustu verða að gilda skýrar reglur og ramminn í kringum svoleiðis batterí verður að vera alveg á hreinu. Hvað á hún að gera? Undir hverja heyrir hún?

Það má ekki reyna að lauma leyniþjónustunni inn í íslenskt samfélag að aftan. Og það er líka reginmisskilningur að leyniþjónstan eigi að vera svo leynileg að enginn viti af henni. Við þurfum auðvitað að vita af henni (já og samþykkja að stofna hana, kannski, svona lýðræðislega).   

Ég legg til að það verði fyrsta verkefni íslenskrar leyniþjónustu að reyna að finna út hvort hér hafi verið leyniþjónusta áður.  Það yrði örugglega mikið hasarverkefni og spennandi. 

Að sumu leyti minnir þetta dæmi mig á Mafíu Íslands (MÍ) úr Sódómu Reykjavík. Nú heitir þetta IIS.  Allt að gerast.

Ég er farinn að kaupa jólagjafir, í rokinu.  


Blörraður sannleikur

Eftir nýjasta tvistið í Byrgismálinu er algerlega óvíst að maður hætti sér í frekara blogg um það, enda málið allt orðið hið eldheitasta og margir ásakandi fingur á lofti.

Kompás sakar forstöðumann um kynlífs- og fjármálaóreiðu. Forstöðumaður sakar Kompás um að díla með dóp. 

Blörraðir karlmannslimir dingla á báðum sjónvarpsstöðvum. 

Maður veit ekki hvað maður á að halda, þótt vissulega telji maður sumt líklegt og annað ekki. Ég held samt það sé óhætt að segja að á þessu stigi sé sannleikurinn eins og limirnir. Blörraður.


Spark í rass

Því meira sem ég hugsa um þetta Byrgismál verð ég alltaf meira og meira undrandi á því af hverju þessari skýrslu um fjármál Byrgisins var haldið leyndri. Það þarf einhver fréttamaður að fara í saumana á því. Ég hef ekki séð fullnægandi skýringar neinstaðar. 

Komið hefur fram að m.a. Birkir Jón Jónsson núverandi formaður fjárlaganefndar vann að skýrslugerðinni. Hann var þá aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem var Páll Pétursson. Utanríkisráðherra var Halldór Ásgrímsson. Skýrslan var gerð á vegum hans ráðuneytis, sem vekur vissulega spurningar líka. Af hverju var hún unnin þar? Var það vegna þess að Byrgið var þá í Rockville? 

Og hvurnig er það: Er þá bara haft eftirlit með meðferðarstofnunum ef þær eru í Rockville? Það er dálítið tilviljanakennd stjórnsýsla, myndi ég segja. Stefnulaus.  

Þessi meðferðarstofnun þáði opinbert fé. Margir alþingismenn töluðu máli hennar inni á þingi, svo hún fengi meira fé. Þeir gerðu það væntanlega í góðri trú. Á meðan sátu þá aðrir að svartri skýrslu um fjármál stofnunarinnar og sögðu ekki múkk. Það er ótrúlegur andskoti.

Og síðan er það hitt. Í Kompási kom fram að einn af vitnunum um misnotkun forstöðumannsins á aðstöðu sinni hefði sent bréf til allra alþingismanna og greint frá reynslu sinni, að vísu undir dulnefni. 

Kannski fá alþingismenn oft svona nafnlaus bréf um alla skapaða hluti. Það vekur samt furðu að enginn þingmaður skyldi hafa kveikt á þessu máli. Svo virðist sem enginn hafi til dæmis sent bréfið áfram til einhvers sem hefði getað athugað málið betur.

Einn þráður málsins er BDSM. Mér sýnist, svo maður noti þá viðeigandi orðalag, að nú þurfi að flengja allt kerfið duglega svo að svona gerist ekki aftur.

Megi málið alla vega vera okkur, og ekki síst yfirvöldum sem eiga að vera vakandi og hafa eftirlit -- og ekki LEYNA SKÝRSLUM --  spark í rass. 


Gagnrýni bar árangur

Það var gott hjá Óskari Bergssyni að fara fram á það að samningi hans við Faxaflóahafnir verði rift. Þar með situr Óskar ekki lengur beggja megin borðs. Þetta sýnir líka að gagnrýni á embættisfærslur getur borið árangur og hversu mikilvægt það er að hafa skelegga og athugula stjórnarandstöðu.

Óskar setur að vísu upp smá hundshaus í yfirlýsingu sinni og segir gagnrýni á sig hafa verið ómaklega og af pólitískum rótum sprottna og svo framvegis. Það er hefð fyrir því á Íslandi að menn hafi svona málsgreinar inni í yfirlýsingum sínum þegar þeir segja af sér. Það verður bara að hafa það.

Við eigum enn dálítið í land, Íslendingar, að vera svona þjóðfélag þar sem fólk bara viðurkennir mistök og ekki fleiri orð um það. Samanber Árni Johnsen. Hann er enn að bögglast við að viðurkenna mistök sín og gengur ekki vel. 

En það breytir ekki því að þetta var rétt ákvörðun hjá Óskari. Sjálfstæðismenn í borginni hljóta líka að anda léttar nú, en þeir voru farnir að fara undan í flæmingi þegar þessi mál báru á góma. Illugi Gunnars samþykkti það til dæmis í Silfrinu um helgina að ráðning Óskars til Faxaflóahafnar orkaði tvímælis. Borgarstjóri þagði í fréttum, en sagði örugglega eitthvað bak við tjöldin. Ég geri því fastlega ráð fyrir að gagnrýni á þessa embættifærslu hafi ekki bara komið frá stjórnarandstöðunni...

Þrýstingurinn hefur verið mikill. Óskar sá að sér. Hann fær prik fyrir það.

En það verður auðvitað nauðsynlegt að hafa stjórnvöld, hvort sem er í bæ eða borg, áfram undir smásjá hvað allt svona varðar. Píreygð og ísköld stjórnarandstaða fylgist með hverju skrefi. Þannig á það að vera.

Ég óska Óskari gleðilegra jóla. 


Kompás villtist

Umfjöllun Kompás um Guðmund Jónsson í Byrginu var vissulega sláandi. Ég get þó ekki komist að annarri niðurstöðu en að efnistökin hafi verið ákaflega furðuleg, svo ekki sé meira sagt.

Fyrir það fyrsta: Af hverju kaus Kompás að leggja svona gríðarlega áherslu á það að útlista fyrir áhorfendum hvað BDSM stendur fyrir og lýsa þar með meintum kenndum og hvötum mannsins?  Mér finnst þær, sem slíkar, ekki koma mér við.  Það  var eins og Kompás héldi að BDSM sem slíkt væri glæpurinn.

Ég efast um að Kompás hefði varið jafnmiklum tíma í umfjöllun um kenndirnar ef þær hefðu verið aðrar. Til dæmis ef maðurinn væri klæðskiptingur eða hefði kynferðislega gaman af því að hlaupa um í Batmanbúning.

Þarna villtist Kompás af leið og óð þar af leiðandi af dálitlum flumbrugangi inn í auðsýnilega mjög viðkvæmt mál, sem varðar fólk og fjölskyldur

Dramatíkin draup vissuleg af hverju strái, en það breytir ekki því að í mínum huga vöknuðu fleiri  spurningar en ég fékk svör við.

Ef það er rétt, að Byrgið er að hluta til eða í heild einhvers konar miðstöð fyrir kynlífsathafnir forstöðumannsins og að hann misnoti stöðu sína gagnvart fíkniefnaneytendum í bágri stöðu til þess að fullnægja kenndum sínum, í hvaða farveg fer þá það mál? Hver rannsakar? Og hver er refsingin?  Hver kærir?

Þetta kom ekki fram í Kompási. Ég hefði viljað vita þetta, því þetta finnst mér einkar mikilvæg spurning, sem varðar stöðu þessarar stofnunar og annarra slíkra.

Segjum sem svo að maðurinn hefði til dæmis verið skólastjóri í háskóla og hefði orðið vís að því að stunda kynlíf (með eða án búninga) með fullorðnum nemendum sínum. Er það sambærilegt? Ég er til dæmis nokkuð viss um að sá yrði látinn taka pokann sinn sem skólastjóri þá þegar, en ég veit ekki hvort að hann yrði sóttur til saka. Auk þess efast ég um að Kompás hefði beitt ámóta efnistökum í svoleiðis tilviki.

Eftir stendur þó, að Kompás færði verulega sannfærandi rök fyrir því að forstöðumaðurinn sé óhæfur og hafi farið illa með skjólstæðinga sína í skjóli aðstöðu sinnar.   Það hefði verið nóg að sýna fram á bara þetta, af þeirri fagmennsku og nærgætni sem Kompás hefur sýnt í öðrum málum, en sleppa því til dæmis að birta myndir af bundnu fólki á nærbuxunum við undirleik dramatískrar píanótónlistar. 

Einnig náði Kompás að afhjúpa gögn sem sýna að þarna hafi verið illa með opinbert fé. Það er hitt aðalatriði málsins, sem hefði þurft meiri fókus. 

Þar vaknaði til dæmis önnur spurning: Af hverju var skýrslu, sem varnarmálaskrifstofa Utanríkisráðuneytisins, um bága meðferð fjármuna í Byrginu, á meðan það var starfrækt í Rockville, haldið leyndri? Á svipuðum tíma voru alþingismenn niðri á þingi að tala fyrir auknum fjárveitingum til stofnunarinnar. Hefðu þeir ekki átt að hafa þessa skýrslu undir höndum?

Hvaða leynimakk var þar á ferðinni? Var einhver að halda verndarhendi yfir Byrginu?

Kompás hefði frekar átt að einbeita sér að því að reyna að svara einverjum þessara spurninga sem vöknuðu, en leggja minni áherslu á að velta sér upp úr aukaatriðum málsins, þótt þeim kunni að hafa fundist þau krassandi. 

Þetta háði annars sláandi þætti.


Hvað svo?

Það er óhætt að segja að síðasta færsla hér á síðunni, um málflutning og embættisveitingar Björns Inga Hrafnssonar og annarra framsóknarmanna í borginni hafi fengið sterk viðbrögð. Þegar þetta er skrifað hafa borist 43 athugasemdir. Í svo til öllum er mjög eindregið tekið undir efnisatriði færslunnar, sem hlýtur að vera sjaldgæfur samhljómur í jafn sviptivindasömu umhverfi og bloggheimum.

Það finnst mér fallegt að sjá.

Stundum nefnilega hef ég fyllst ákveðnu vonleysi, þegar ég hef orðið vitni að þjóðfélagsumræðunni og ítrekað séð hvernig svona háttalagi, eins og Björn Ingi sýndi, er  hampað. Því er stundum haldið fram að svona málflutningur – þar sem reynt er að beina sjónum frá aðalatriðum máls með því að þyrla upp ryki og drullu --  beri vott um einhvers konar klókindi eða töffaraskap.

Dómsmálaráðherra til að mynda er fullur aðdáunar á málflutningnum.  Ráðherra mun þá væntanlega leitast við að beita svipuðum meðulum og nafni sinn á kosningavetri og verður athyglisvert að sjá hans útfærslu. 

Mér finnst verst þegar því er haldið fram að pólitík þurfi endilega að vera svona. Ég er fullkomlega ósammála því. 

En nú stendur auðvitað eftir spurningin, hvort að Birni Inga hafi lukkast ætlunarverk sitt, og náð að beina umræðunni frá hinni réttmætu gagnrýni á sig og vini sína. Margt bendir til þess. Óskar Bergsson situr enn sem fastast beggja megin borðs og unir sér vel, þegar síðast var vitað, með sínar hundruðir þúsundir á hvorum stað.  Það er vonandi að hann klúðri ekki þeim miklu samskiptum sem hann mun þurfa að hafa við sjálfan sig fyrir hönd borgarinnar á komandi mánuðum.

Fær hann til þeirra samskipta tvo síma eða einn? Þegar stórt er spurt… 

En kannski er von. Það er vert að hafa í huga að reynt var að beina spurningum um þetta mál að borgarstjóra. Hann spilaði út fáviskuspilinu, sem er önnur þekkt aðferð í pólitík og þónokkuð mikið tekin. Hann sagðist ekkert vita um mannaráðningar framsóknarmanna í borginni á sjálfum sér.

En næsta mál fyrir fréttamann er auðvitað að spyrja borgarstjóra hvenær hann muni vita eitthvað, en ekki hvort. Þar á eftir þarf borgarstjóri að svara hvað honum finnst. Er það stefna borgarinnar að ráða pólitíska fulltrúa í launuð verkefni hinum megin borðs?

Ef hann svarar með smjörklípuaðferðinni brjálast ég.  


Brúnn Ingi

Málflutningur Björns Inga Hrafnssonar í Kastljósi í gær var líklega sá óskammfeilnasti og ósvífnasti sem ég hef séð í sjónvarpi um langt árabil.

Umræðuefnið var einfalt: Framsóknarmenn í borginni eru gagnrýndir fyrir það að skipa óhóflega sitt fólk í launuð embætti á vegum borgarinnar.

Svívirðilegasta tilvikið er auðvitað dæmi Óskars Bergssonar. Hann hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Faxaflóahafna, til þess að undirbúa framkvæmdir við Mýrargötu og fær fyrir það 390 þúsund krónur á mánuði.  Verkefnið felst einkum í því að gæta hagsmuna Faxaflóahafna gagnvart framkvæmdaráði og skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Óskar er formaður annars ráðsins og varaformaður hins og fær fyrir það ásamt því að vera varamaður í borgarstjórn 377 þúsund krónur á mánuði.

Óskar hefur semsagt verið ráðinn í vinnu við að gæta hagsmuna Faxaflóahafna gagnvart ráðum sem hann er sjálfur formaður og varaformaður í. Og fær laun á öllum stöðum.

Ég fullyrði að aldrei hafi nokkur maður í sögu íslenskra stjórnmála setið jafn augljóslega beggja megin borðs. Aldrei hefur jafnaugljóslega verið reynt að maka krókinn.

Siðleysið er yfirgengilegt. Virðingin fyrir lögmálum góðrar stjórnsýslu er engin.  Núll.

Um frekari ráðningar framsóknarmanna á sjálfum sér vísa ég í umfjöllun Kastljóssins. Ég hef reyndar traustar heimildir fyrir því að sá listi sem þar birtist sé ekki tæmandi.

En víkjum þá að málflutningi Björns Inga í rökræðunni við Dag Eggertsson. Birni tókst vitaskuld ekki, enda ekki hægt, að réttlæta ráðningu Óskars.  Þess í stað setti Björn skítadreifarann á fullt og dreifði í allar áttir og varð vitaskuld, eins og svo oft vill verða með þá aðferð, skítugastur sjálfur.

Þarna birtist okkur smám saman réttnefndur Brúnn Ingi. Drullugur upp fyrir haus.

Lítum á.

Hér er ein gullin tilvitnun:  “Ég veit að það er áfall fyrir Samfylkinguna að geta ekki lengur raðað fólki inn í stjórnsýsluna en það verður að viðurkennast að þannig urðu úrslit kosninganna.”

Hvar á maður að byrja gagnvart svona málflutningi?  

Í fyrsta lagi: Í  ljósi þess að fólk er almennt farið að líta á Framsóknarflokkinn í seinni tíð sem atvinnumiðlun en ekki stjórnmálaflokk, að þá kemur svona yfirlýsing auðvitað ekki á óvart.  Tíðindin eru þau, að Björn gengst semsagt við því að það sé hlutverk stjórnmálaflokka, að hans mati, að “raða fólki inn í stjórnsýsluna”.  

Björn Ingi reyndi auðvitað, í samræmi við sinn hugsanagang, að klína svona aðferðum upp á aðra flokka og þá einkum R-listann, sem er einkar drengilegt auðvitað af honum í ljósi þess að hans flokkur var hluti af því bandalagi .

Staðreyndin er sú að eitt af aðalsmerkjum R-listans voru faglegar ráðningar, byggðar á mati. Birni Inga hefði verið hollt að læra af þeim aðferðum.

Verkefnaráðningar komust þó í umræðuna fyrir kosningar 2002. Það er vissulega athyglisvert í ljósi nýjustu tíðinda að aðeins ein ráðning R-listans orkaði þá tvímælis. Þáverandi borgarfulltrúi framsóknar, Sigrún Magnúsdóttir, réði einn tiltekinn mann í úttekt á einsetningu grunnskólanna og síðar í eftirlitsverkefni hjá byggingardeild. Við þetta voru gerðar athugasemdir.

Og hvað hét sá maður?

Óskar Bergsson.

Staðreyndin er sú að nú lítur Björn Ingi greinlega svo á að hann sé kominn að kjötkötlunum og geti iðkað þessar aðferðir, að raða sínu fólki í stjórnsýsluna, eins og hann orðar það, óhindrað.

Björn bætir um betur í síðari hluta áðurnefndrar tilvitnunar: “...þannig urðu úrslit kosninganna,” segir hann.

Afsakið mig. Þannig urðu úrslit kosninganna?  

Björn Ingi Hrafnsson puðaðist inn í borgarstjórn á fullkomnum lágmarksfjölda atkvæða. Hann er sex prósent maðurinn í íslenskri pólitík.  Er hann virkilega svo veruleikafirrtur og virðingarlaus gagnvart lýðræðinu að hann telji þessi úrslit kosninganna veita honum rétt til þess að “raða sínu fólki í stjórnsýsluna”?  

Í þokkabót nefndi hann það í framhjáhlaupi að framsókn ætti hvorki meira né minna en 80 manns í nefndum og ráðum borgarinnar, eins og það væri dæmi um heilbrigt skipulag og þætti flott.

Venjulegt fólk hugsar auðvitað strax í ljósi kannnana hvort Framsóknarmenn í Reykjavík séu yfirleitt mikið fleiri.

Annað var einnig fullkomlega átakanlegt í málflutningi Björns Inga. Ein skítapillan lenti á stjórnanda þáttarins. Helgi Seljan var vissulega ráðinn auglýsingalaust. En um það snýst ekki debattið. Málið snýst um það að Óskar Bergsson var ekki bara ráðinn auglýsingalaust heldur var hann ráðinn til að sitja á launum BEGGJA VEGNA BORÐSINS.

Það er siðleysið.  Helgi, for crying out loud, situr bara sín megin borðsins.  Einnig liggur munurinn vitaskuld í því Helgi var ráðinn vegna hæfileika sinna, mats á þeim, og ekki vegna neins annars.

Þetta var aumkunarverð tilraun Björns Inga til þess að beina sjónum sjónvarpsáhorfenda frá aðalatriðum málsins.  Og fleiri slíkar tilraunir voru gerðar.  Björn Ingi kvaðst hafa ráðið Árna Pál Árnason verðandi þingmann Samfylkingarinnar til þess að gera skýrslu um fjármál stjórnmálaflokka. Þetta átti að vera dæmi um það að borgarfulltrúinn gæti jú ráðið aðra menn en samflokksmenn sína í embætti og störf.

Stórtíðindi auðvitað ef rétt væri. En þetta dæmi fellur auðvitað á orðalaginu “Ég réði”.  Þessi vinna var á vegum forsætisráðherra og skipað í hana af honum. Var Björn Ingi forsætisráðherra?

Hér syndum við hákarlarnir, sagði sandsílið.

Í lokin kom svo skítapilla ársins frá drullugum Brúni Inga upp fyrir haus.  Að halda því fram að Dagur Eggertsson hafi verið ráðinn sem kennari við HR vegna þess að HR fékk lóð í Reykjavík er ásökun sem Björn Ingi mun þurfa að svara fyrir fyrst og fremst gagnvart stjórn og forsvarsmönnum HR, sem og eigin samvisku.

Er borgarfulltrúinn að halda því fram að Háskóli Reykjavíkur múti fólki með kennarastöðum?  Og hefur borgarfulltrúinn eitthvað út á það að setja, að borginni tókst eftir nokkurn slag að halda Háskólanum í Reykjavík innan Reykjavíkur, að tilstuðlan Dags B. Eggertssonar og þáverandi borgarmeirihluta?  

Eftir stendur svo ein tiltekin vangavelta, áhugaverð fyrir stjórnmálaskýrendur. Ég sé á bloggsíðum að sumir eru ánægðir með frammistöðu Björns Inga. Virkilega ánægðir. Þar fer fremstur í flokki Björn Bjarnason.

Það var og. Hér hefur myndast Bjarnabandalag, en það kallast það þegar tveir menn eða fleiri gera hvor öðrum bjarnargreiða.  Ég er nefnilega ekki viss um að það henti Birni Inga vel að eiga bandamann í Birni Bjarnasyni, sérstaklega ekki þegar kemur að málefnum Reykjavíkur og HR.  Eins og frægt er orðið vildi dómsmálaráðherra og fyrrum oddviti sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn helst hafa Háskólann í Reykjavík í Garðabæ og barðist fyrir því af nokkurri hörku.

Hins vegar er þetta bandalag slæmt fyrir Björn Bjarnason vegna þess að ég er nokkuð viss um -- í ljósi nýjustu frétta -- að hann fær ekki mikið klapp á bakið frá samflokkskonu sinni Guðfinnu Bjarnadóttur, fyrrum rektor HR, fyrir að taka undir þennan skammarlega málflutning nafna síns um að sú stofnun sem hún veitti forstöðu hafi staðið í mútumálum.

En þannig eru örlög skítadreifara í pólitík. Það er aldrei hægt að segja hvar skíturinn lendir.

Hver hefði getað séð það fyrir að eftir þessa atrennu sætu þeir saman í djúpum skít birnirnir tveir, Bjarnason og Ingi?

Vert er að minna á það í lokin, að öllum spurningum um Óskar Bergsson er auðvitað ósvarað eftir sem áður.






Ingibjörg vs. Geir

Kappræður Ingibjargar Sólrúnar og Geirs Haarde í Kastljósi á þriðjudagskvöld mörkuðu, að því er ég best veit, ákveðin tímamót.

Ef ég man rétt hafa formaður Samfylkingarinnar og formaður Sjálfstæðisflokksins aldrei mæst áður í tveggja manna rökræðum í fjölmiðlum. Nú mega menn leiðrétta mig ef ég fer rangt með, en ég er samt nokkuð viss.

Ég man ekki betur en Davíð hafi haft það fyrir reglu að koma aldrei í debatt við formann Samfylkingarinnar. Hann kom bara einn eða þegar allir komu, daginn fyrir kjördag og í Kryddsíldina.

Á þeim stutta tíma sem Geir hefur verið formaður hefur hann ekki mætt Ingibjörgu svo að ég viti til.

Þannig að þetta var vissulega merkilegur áfangi í sögu Sjálfstæðisflokksins, ef rétt er. Í fyrsta skipti á síðari árum hætti formaður flokksins sér í rökræður við formann stærsta stjórnarandstöðuflokksins, einn og óstuddur í sjónvarpssal.

Það verður hins vegar að segjast að frammistaða Geirs var sem slík ákveðin röksemd fyrir því að sú strategía Sjálfstæðisflokksins að formaður hans eigi ekki að mæta formanni Samfylkingarinnar kann að hafa verið skynsamleg.

Geir fór halloka.

Hann náði ekki að sýna fram á að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar nú væru annað og meira en einfaldlega leiðrétting – og meira að segja ófullnægjandi leiðrétting – á því að skattleysismörk hafa ekki fylgt verðlagi um árabil. Af þeim sökum hefur skattbyrðin á millitekju- og lágtekjufólk aukist óhóflega.

Hann náði ekki að sýna fram á að hækkun barnabóta nú væri annað en ófullnægjandi leiðrétting á gríðarlegri skerðingu þeirra áður.

Hann náði ekki að útskýra hvers vegna ríkið hefur blásið út á undanförnum árum og hlutdeild þess í þjóðartekjum aukist úr 32% í 42%. Slíkt ætti einmitt að vera andstætt hugsjónum hans sem hægri manns og því einstaklega vandræðalegt.

Hann náði ekki að útskýra vegna hvers vegna hann vill ekki byrja strax á því að afnema tollavernd á landbúnaðarvörum í áföngum í samráði við bændur. 

Hann freistaði þess að gera lítið úr skýrslu um fátækt barna á Íslandi með því að segja að hún byggði á gömlum og úreltum upplýsingum. Það er sérlega bagalegt í ljósi þess að skýrslan er unnin í hans eigin ráðuneyti.

Þegar talið barst að hvalveiðum varpaði Geir fram þeirri ótrúlegu yfirlýsingu að hinar umdeildu veiðar á níu langreyðum – sem samráðherra hans og samflokksmaður veður nú eld og brennistein til þess að verja – væru bara "í tilraunaskyni" og að örlög þessa máls færu "mikið eftir því hvort að það tekst að selja þetta kjöt eða ekki".

Þar með fauk hvalveiðimálið sem prinsippmál - sem hefur verið lykilatriði í málflutningi sjávarútvegsráðherra - út um gluggann á einu andartaki.

Í lokin fannst mér Geir vera orðinn fúll. Það finnst mér alltaf veikleikamerki.

Ég er nokkuð viss um að Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki leggja aftur í svona rökræðu við Ingibjörgu Sólrúnu, heldur hverfa aftur til fyrri strategíu og þegja sem mest.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband