Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Gleðilegt ár!

IMG_1477 Ég óska vinum og vandamönnum, landsmönnum öllum, samherjum og andstæðingum, ríkum og fátækum, ungum og öldnum gleðilegs árs og friðar! Megi komandi ár verða okkur öllum farsælt og gifturíkt í lífi og starfi. Megi okkur til dæmis öllum ganga vel að koma börnum okkar í bað, svo notað sé nærtækt dæmi úr persónulegu lífi undirritaðs... Ég segi bara að öðru leyti ræktum sálina og kærleikann og sprengjum nokkrar púðursprengjur  í kvöld fyrir heimsfriði. Sjáumst á nýju ári! 

Svona var 2006 (nokkurn veginn)

Árið 2006 hafði yfir sér nokkuð sérkennilegan blæ og einkenndist ekki síst af nokkuð spaugilegum – svona eftir á litið – móðgunum á millilandastigi, skæting og ólund. Þetta var árið sem danskir skopteiknarar gerðu bókstafstrúaða Múslimi snælduvitlausa, DV var breytt í helgarblað út af dónaskap, Silvía Nótt móðgaði Grikki, Danir voru með derring út í íslenska viðskiptamógúla (hvað var málið með Dani á árinu?) og Zidane stangaði Matarazzi á sjálfum úrslitaleiknum á HM og var rekinn af velli með rautt.

Þetta var ár hins reiða bókstafstrúarmúslima. Rétt þegar þeir voru farnir að anda rólega aftur eftir Danina tók páfinn sig til og móðgaði þá alla á einu bretti í ræðu í Þýskalandi. Kirkjur voru brenndar.

Þetta var ár málaferla. Baugsmáli var vísað frá, tekið upp aftur, vísað frá og tekið upp aftur, vísað frá, og tekið upp aftur… vísað frá…. Jóhannes í Bónus boðaði gerð bíómyndar um málið í viðtali við Sirrý. Menn rifnuðu ekki af spenningi. Á sama tíma á annarri stöð lýsti Davíð Oddsson smjörklípuaðferðinni í fyrsta skipti. Hann boðaði ekki bíómynd um hana.  Frá því var greint í fréttum að maðurinn sem var settur í að rannsaka olíusamráðið fór í sumarfrí.

Jón Ólafs og Hannes Hólmsteinn stóðu í áframhaldandi skærum fyrir rétti í Bretlandi.  DeCode fór í mál við Jesús.

Mogginn fór í fýlu út í Bandaríkjamenn fyrir að fara með Varnarliðið og Geir Haarde sagði af því tilefni eitthvað – var það brandari? Fullyrðing? Athugasemd? -- sem verður að teljast setning ársins: “Maður getur ekki alltaf farið með sætustu stelpuna heim af ballinu en stundum kannski eitthvað sem gerir sama gagn.” Vakin var athygli á orðalaginu "eitthvað". Nokkrum mánuðum síðar saup landinn hveljur þegar myndir birtust af því að Varnarliðið hellti niður öllu gosi og bjór í ræsið áður en það fór. Og Fréttablaðið birti lengsta orð í fyrirsögn á Íslandi fyrr og síðar:  Kakkalakkafaraldurshætta.

Verðbólgudraugurinn vaknaði og heimsmet var sett í viðskiptahalla. Krónan féll. Húsvíkingar fögnuðu í beinni útsendingu út af hugsanlegu álveri Alcoa og landsmenn klóruðu sér í kollinum nokkrum mánuðum síðar þegar nýkrýndur iðnaðarráðherra lýsti því yfir að hér ríkti samt engin stóriðjustefna. Ómar myndaði mannhaf gegn Kárahnjúkavirkjun og Andri Snær gaf út bók um vor, sem – viti menn -- seldist. Vitundarvakning í umhverfismálum, sögðu menn. Hver hefði séð það fyrir að ein vinsælasta myndin á kvikmyndahátíð yrði mynd eftir Al Gore um gróðurhúsaáhrif?  

Fuglaflensan kom ekki. Tvær álftir fundust dauðar á Suðurlandi og hrollur fór um fólk. Rétt þótti að slátra hænunum í Húsdýragarðinum.

Þetta er árið sem borgin var myrkvuð og fólk átti að horfa á stjörnurnar. Þær mættu hins vegar ekki. Fregnir bárust af konu sem keyrði hjóli sínu hastarlega út í vegarkant í myrkrinu og hlaut litla aðstoð.

Mest pirrandi fyrirbrigði ársins var verðtryggingin.

Formaður Framsóknarflokksins ársins var Finnur Ingólfsson.

Bíll ársins var Hummer og tískufyrirbrigði ársins var einkaflugvél.

Árni Johnsen fékk uppreist æru meðan forsetinn var í útlöndum. Á sima tíma var greint frá því að Plútó væri ekki reikistjarna. Tæknileg mistök. Unglingur pissaði á hraðbanka í Skeifunni og úr urðu mikil slagsmál. Árni fór í prófkjör og nafni hans í klippingu á Selfossi. 

Þetta er árið sem Íslendingar sátu límdir fyrir framan sjónvarpið á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum yfir hásumarið og horfðu á Rockstar Supernova og hina sígildu Magnavöku, sérþátt um Magna Ásgeirsson. Margir spurðu sig AF HVERJU þeir sætu um miðja nótt og horfðu á poppspekinga rökræða um það hvort hlómsveitin Á móti Sól væri góð eða ekki. Deilumálið er enn óútkljáð. Orð ársins var “MAGNIficent” af vörum  Tommy Lee. Orðasamband ársins á ensku var “awsome, dude.”

Leyndardómur árins var þessi: Er til eða var einhvern tímann til leyniþjónusta á Íslandi? Græjur ársins voru að sama skapi hlerunarbúnaður fyrir síma.

Ísraelsmenn hampa óhikað titlinum hrottar ársins út af fólskulegri innrás sinni í Líbanon. Klasasprengjum var beitt gegn borgurum. Alþjóðasamfélagið fordæmdi, en ný tegund af stríði leit dagsins ljós: Nú fá ríki leyfi til að ráðast aðeins, í nokkra daga inn í önnur ríki og sprengja þar allt í spað, að því tilskyldu að þau komi sér burt aftur innnan settra tímamarka.

Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson íhuguðu að gerast múhameðstrúarmenn og hefja nýtt líf í hellum í Afghanistan.  Skýrsla ársins var eftir Grím Björnsson og fjallaði um Kárahnjúkavirkjun og sprungusvæði. Næstbesta skýrslan var gerð af varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins um Byrgið. Hvorugar voru skrifaðar á árinu, en lágu báðar faldar og teljast því jafnframt til handritafunda ársins.

Árið hafði á sér þónokkurn fortíðarblæ.  Gorbaschov kom, Sykurmolarnir stigu á svið, hvalveiðar hófust, Paul Watson boðaði komu sína, Jón Baldvin var mikið í fréttum, Jón Páll Sigmarsson í bíó og Hemmi Gunn í sjónvarpinu. Svona var 1986.

Allt var sveipað dulúð. NFS kom og fór. Líkt og draumur sem aldrei varð. Svona viljum við hafa það söng Orkuveita Reykjavíkur og hlaut að launum kæru frá femínistum. Sigurrós róaði fólkið niður á Miklatúni svo það hefur aldrei sofið jafn vel síðan.

Ungfrú heimi var bannað að blogga. Blaðið greindi frá því maður hefði byrjað aftur að reykja í svefni og að strætóbílstjórar væru orðnir leiðir á því að borða alltaf 1944 – Rétt fyrir sjálfstæða Íslendinga. Mogginn breytti útlitinu með pompi og prakt án þess að margir tækju eftir því, skrifaði um það leiðara og færði Staksteina inn í blaðið, lagði niður sunnudagstímaritið og prentaði heilt sérrit um Björgólf Thor.

Natascha Kampusch fannst í Austurríki.  Castró veiktist en lifir enn. Bin Laden var sagður látinn, en lifir enn. Donald Rumsfeld sagði af sér.

Þrjóturinn sá.

Sjálfum leið mér alveg ágætlega.


Alcan og Bó

Það fer ekki milli mála að fyrirtækið Alcan er byrjað í kosningabaráttu um hylli Hafnfirðinga. Auglýsingarnar streyma í miðlana um það hversu gott það þykir að vinna hjá fyrirtækinu. Í ímyndarauglýsingum (að vísu líka í tilefni 40 ára afmælis) syngja kórar við álkerin í fallegri birtu.  Hafnfirðingum er boðið á handboltaleik og nú síðast var þeim öllum sendur geisladiskur með Bó og Sinfóníuhljómsveitinni.

Álrisinn hefur greinilega áttað sig á hinu fornkveðna: Það er ekki gó fyrr en Bó segir gó.  Og nú vonar semsagt Alcan að stækkun í Straumsvík fái gó út á Bó. 

Einu sinni las ég bók um kosningastragedíu, skrifaða af kosningastjórum Bills Clintons, þeim James Carville og Paul Begala. Í einum kafla bókarinnar fjölluðu þeir um almenna gagnrýni fólks á kosningabaráttu, eins og svo oft gerir vart við sig. Fólk hneyklast á þeim. Finnst þær fyrir neðan sína virðingu etc. 

En þeir tóku dæmi: Segjum sem svo að Coke og Pepsi þyrftu allt í einu að berjast um hylli almennings í kosningabaráttu. Sá gosdrykkur sem fengi meirihluta atkvæða yrði drukkinn næstu fjögur árin. Hinn ekki. Og ímyndið ykkur svo hversu djöfullega hatrömm slík barátta yrði. Allar gjafirnar sem myndu dynja á kjósendum, allir geisladiskarnir, boðsmiðarnir, auglýsingarnar. Það yrði ólíft í landinu. Kosningabarátta stjórnmálaflokka yrði eins og afslöppuð ferð í Húsdýragarðinn til samanburðar við slíka kosningabaráttu fjársterkra fyrirtækja.

Þegar ég sé hvernig þessi kosningabarátta Alcan fer af stað get ég ekki annað en hugsað til þessa dæmis um Coke og Pepsi. Ég sæi í anda stjórnmálaflokk senda á alla kjósendur Bó, til að fá gó. 

 
(Bókin heitir: "Buck Up, Suck Up . . . and Come Back When You Foul Up: 12 Winning Secrets from the War Room" Mæli með henni.)


SMS frá Dómínós og Standard og Poor´s

Jú, ég er einn af þeim sem fékk jólakveðju frá Dómínós. Ég hef stundum pantað mér pizzu með pepperóni, sveppum og blönduðum ólífum. Þessi jólakveðja reyndist ekki vera það tundurskeyti inn í jólahaldið mitt, eins og ég heyrði í fréttum að hún hafi orðið í jólahald annarra. Ég brosti bara út í annað og eyddi skilaboðunum. 

Hélt svo áfram að hneppa skyrtunni áður en ég fór í jólaboðið.

Mér varð meira hugsað til annarrar jólakveðju sem forsætisráðherra fékk í sms rétt áður en hann hneppti sína skyrtu og fór í boð. Hún var frá Standard og Poor´s. Lækkað lánshæfismat er auðvitað áfellisdómur yfir stjórn ríkisfjármála, en staðfestir viðvaranir sem margir hafa látið í ljós.

Sagan endurtekur sig. Fyrir síðustu kosningar skrifaði ég til dæmis sem blaðamaður frétt um Tómas Inga Olrich, þáverandi þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokks. Í henni kom fram-og voru ekki gerðar neinar athugasemdir við það - að maðurinn fór um norðausturkjördæmi fyrir þær kosningar og gaf loforð um samtals 1.3 milljarða í alls konar verkefni í kjördæminu. Hann beinlínis fór um með heftið og skrifaði tékka í allar áttir. Á nokkrum mánuðum.

SogP vita hvað þeir syngja: Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að fara með peninga. Sérstaklega ekki á kosningaári. Og við þessa yfirlýsingu er eins víst að einhverja reki í rogastans. Eru það ekki vinstri menn sem kunna ekki að fara með peninga? Ha? Hvernig er það? 

En nei, Hemmi minn. Það er gömul klisja. Löngu afsönnuð. Þetta með Sjallana er hins vegar sífellt að koma betur og betur í ljós. Meira um það síðar.

Kveðja frá Búðardal.


Gleðileg jól

Í mínum huga hafa jólin alltaf á sér dálítið súrrealískan blæ sem fær mig til að brosa í kampinn. Auðvitað snúast þau um kærleika, trú og svoleiðis, svo ég tali í hálfkæringi, en jólin snúast líka um það að ganga yfir sjó og land og hitta einn gamlan mann, segja svo og spyrja svo hvar hann eigi heima. Þetta er fyndið. Hvers vegna að ganga alla þessa leið, yfir sjó (síðan hvenær var það hægt?!) og land, til þess eins að spyrja svo einfaldrar spurningar? Og maðurinn svarar út og suður. Segist eiga heima í Klapplandi eða Stapplandi eða Grátlandi eða Hlælandi. Jafnvel á Íslandi. Er maðurinn að ganga af göflunum? Hvað amar að? Nú skal segja.

JÓLIN snúast um jólasveininn sem situr við gluggann í kofanum í skóginum og lítið héraskinn sem kemur þar að og segir að veiðimaður ætli að skjóta það. Héraskinn? Hverjum datt það í hug? Á meðan stendur Adam á akrinum, átti syni sjö, og hann sáir. Hann sáir.  Kannski sáði hann í tvöfaldri merkingu? Jólin eru frjósamur tími. Varð ekki einhver vitni að mömmu kyssa jólasvein? Gamli refurinn. Jólagjöfin mín í ár ekki metin er til fjár. Jólagjöfin er ég. Pökkuð/pakkaður inn í sellófón kannski? Erótísk jól.

NÚ skal segja. Upp á stól stendur mín kanna. Níu nóttum fyrir jól kem ég til manna. Hvert er samhengið í þessu? Einhverjir vilja syngja frekar “Upp á hól stend ég og kanna”, en rannsóknir á gömlum handritum sýna að hið fyrra er rétt. Kvæðið er bara svona skrýtið og ekkert meira með það. Jólasveinarnir ganga virkilega um með gylltan staf, en ekki gildan, og hafa könnu sína upp á stól en ekki á borði einsog tíðkast. Svona eru jólin. Súrrealísk.

ÞANNIG vil ég meina að vísurnar sem Íslendingar hafa sungið áratugum og jafnvel öldum saman á jólunum séu til þess fallnar að sýna okkur að jólin eru ekki bara tími hátíðleika, ljóss og friðar heldur líka tími léttleika, æðruleysis og jafnvel grallaraskapar. Eða hver er annars pælingin með því að setja tré inn í stofu til sín, ganga svo í kringum það og herma eftir gömlum körlum að taka í nefið?

OG hver tekur í nefið, ef út í það er farið, og snýr sér svo í hring? Enginn svo ég viti til. En svona er þetta líka með Adam. Hann sáir, en svo fer hann allt í einu að dansa eins og John Travolta. Klappar saman höndunum, stappar niður fótunum og ruggar sér í lendunum. Þetta má. Svona er andi jólanna víðsýnn. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil og er þá ekki átt við jeppavarahluti, eða hvað? Ég segi bara góða ferð yfir sjó og land, kæru lesendur, vinir, vopnabræður, andstæðingar , og gangi ykkur vel að fá svör frá gamla manninum um það hvar hann eigi heima. Hann mun svara út í hött, sem er bara fyndið og skemmtilegt, því jólin eru jú um fram allt, og hvernig sem á það er litið, gleðileg.

(Þessi pistill birtist, nokkurn veginn í þessari mynd, sem bakþanki í Fréttablaðinu á aðfangadag í fyrra. Um svipað efni - jólalögin -- má líka lesa í mun ítarlegri grein sem ég skrifaði í TMM fyrir jólin 2001. Ég sá líka í morgun að Pétur Gunnarsson rithöfundur var að skrifa grein í Moggann um "Jólasveinar ganga um gólf" þar sem hann skýrir af hverju talað er um að kannan sé upp á stól. Könnur voru oft upp á svokölluðum stól áður fyrr. Þetta breytir samt ekki því að kvæðið er súrrealískt og samhengið skringilegt. (Hvað kemur þessi kanna til dæmis yfirleitt málinu við?) Það held ég nú. Ég er farinn að skreyta jólatréð, klára að kaupa jólagjafir (í fárviðrinu), borða rjúpu, hangiket, lesa bækur, útskýra fyrir dóttur minni hver Grýla, jólasveinarnir og Jesús eru, etc. Semsagt jólafrí. Sjáumst eftir tvö til þrjú kíló.) 


Íslenska leyniþjónustan

Á forsíðu Blaðsins í dag er greint frá enn einni vísbendingunni um það að á Íslandi sé starfrækt einhvers konar leyniþjónusta án þess að við vitum af því. Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli er semsagt director of IIS (Icelandic Intelligence Service) á bréfum sem hann sendir til kollega sinna erlendis.  

Það getur vel verið að þetta eigi sér eðlilegar skýringar og sjálfur er ég ekki að fara úr límingunum út af þessu. En mér er þó farið að þykja þetta nokkuð grunsamlegt, í heildina litið.  Það er greinilegt að það er til fólk í embættismannakerfinu og á meðal stjórnmálamanna sem vill mjög mikið stofna leyniþjónustu. Vísbendingar um þessa löngun dúkka upp með reglulegu millibili. 

Heyrst hefur af mönnum með sólgleraugu á fjöldasamkomum, sem tala inn í úlnliðinn á sér, svipbrigðalausir. Loðin tíðindi hafa borist af samstarfi Íslendinga við CIA. 

Ég held reyndar að það séu til ágæt rök fyrir því að stofna leyniþjónustu en um slíka leyniþjónustu verða að gilda skýrar reglur og ramminn í kringum svoleiðis batterí verður að vera alveg á hreinu. Hvað á hún að gera? Undir hverja heyrir hún?

Það má ekki reyna að lauma leyniþjónustunni inn í íslenskt samfélag að aftan. Og það er líka reginmisskilningur að leyniþjónstan eigi að vera svo leynileg að enginn viti af henni. Við þurfum auðvitað að vita af henni (já og samþykkja að stofna hana, kannski, svona lýðræðislega).   

Ég legg til að það verði fyrsta verkefni íslenskrar leyniþjónustu að reyna að finna út hvort hér hafi verið leyniþjónusta áður.  Það yrði örugglega mikið hasarverkefni og spennandi. 

Að sumu leyti minnir þetta dæmi mig á Mafíu Íslands (MÍ) úr Sódómu Reykjavík. Nú heitir þetta IIS.  Allt að gerast.

Ég er farinn að kaupa jólagjafir, í rokinu.  


Blörraður sannleikur

Eftir nýjasta tvistið í Byrgismálinu er algerlega óvíst að maður hætti sér í frekara blogg um það, enda málið allt orðið hið eldheitasta og margir ásakandi fingur á lofti.

Kompás sakar forstöðumann um kynlífs- og fjármálaóreiðu. Forstöðumaður sakar Kompás um að díla með dóp. 

Blörraðir karlmannslimir dingla á báðum sjónvarpsstöðvum. 

Maður veit ekki hvað maður á að halda, þótt vissulega telji maður sumt líklegt og annað ekki. Ég held samt það sé óhætt að segja að á þessu stigi sé sannleikurinn eins og limirnir. Blörraður.


Spark í rass

Því meira sem ég hugsa um þetta Byrgismál verð ég alltaf meira og meira undrandi á því af hverju þessari skýrslu um fjármál Byrgisins var haldið leyndri. Það þarf einhver fréttamaður að fara í saumana á því. Ég hef ekki séð fullnægandi skýringar neinstaðar. 

Komið hefur fram að m.a. Birkir Jón Jónsson núverandi formaður fjárlaganefndar vann að skýrslugerðinni. Hann var þá aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem var Páll Pétursson. Utanríkisráðherra var Halldór Ásgrímsson. Skýrslan var gerð á vegum hans ráðuneytis, sem vekur vissulega spurningar líka. Af hverju var hún unnin þar? Var það vegna þess að Byrgið var þá í Rockville? 

Og hvurnig er það: Er þá bara haft eftirlit með meðferðarstofnunum ef þær eru í Rockville? Það er dálítið tilviljanakennd stjórnsýsla, myndi ég segja. Stefnulaus.  

Þessi meðferðarstofnun þáði opinbert fé. Margir alþingismenn töluðu máli hennar inni á þingi, svo hún fengi meira fé. Þeir gerðu það væntanlega í góðri trú. Á meðan sátu þá aðrir að svartri skýrslu um fjármál stofnunarinnar og sögðu ekki múkk. Það er ótrúlegur andskoti.

Og síðan er það hitt. Í Kompási kom fram að einn af vitnunum um misnotkun forstöðumannsins á aðstöðu sinni hefði sent bréf til allra alþingismanna og greint frá reynslu sinni, að vísu undir dulnefni. 

Kannski fá alþingismenn oft svona nafnlaus bréf um alla skapaða hluti. Það vekur samt furðu að enginn þingmaður skyldi hafa kveikt á þessu máli. Svo virðist sem enginn hafi til dæmis sent bréfið áfram til einhvers sem hefði getað athugað málið betur.

Einn þráður málsins er BDSM. Mér sýnist, svo maður noti þá viðeigandi orðalag, að nú þurfi að flengja allt kerfið duglega svo að svona gerist ekki aftur.

Megi málið alla vega vera okkur, og ekki síst yfirvöldum sem eiga að vera vakandi og hafa eftirlit -- og ekki LEYNA SKÝRSLUM --  spark í rass. 


Gagnrýni bar árangur

Það var gott hjá Óskari Bergssyni að fara fram á það að samningi hans við Faxaflóahafnir verði rift. Þar með situr Óskar ekki lengur beggja megin borðs. Þetta sýnir líka að gagnrýni á embættisfærslur getur borið árangur og hversu mikilvægt það er að hafa skelegga og athugula stjórnarandstöðu.

Óskar setur að vísu upp smá hundshaus í yfirlýsingu sinni og segir gagnrýni á sig hafa verið ómaklega og af pólitískum rótum sprottna og svo framvegis. Það er hefð fyrir því á Íslandi að menn hafi svona málsgreinar inni í yfirlýsingum sínum þegar þeir segja af sér. Það verður bara að hafa það.

Við eigum enn dálítið í land, Íslendingar, að vera svona þjóðfélag þar sem fólk bara viðurkennir mistök og ekki fleiri orð um það. Samanber Árni Johnsen. Hann er enn að bögglast við að viðurkenna mistök sín og gengur ekki vel. 

En það breytir ekki því að þetta var rétt ákvörðun hjá Óskari. Sjálfstæðismenn í borginni hljóta líka að anda léttar nú, en þeir voru farnir að fara undan í flæmingi þegar þessi mál báru á góma. Illugi Gunnars samþykkti það til dæmis í Silfrinu um helgina að ráðning Óskars til Faxaflóahafnar orkaði tvímælis. Borgarstjóri þagði í fréttum, en sagði örugglega eitthvað bak við tjöldin. Ég geri því fastlega ráð fyrir að gagnrýni á þessa embættifærslu hafi ekki bara komið frá stjórnarandstöðunni...

Þrýstingurinn hefur verið mikill. Óskar sá að sér. Hann fær prik fyrir það.

En það verður auðvitað nauðsynlegt að hafa stjórnvöld, hvort sem er í bæ eða borg, áfram undir smásjá hvað allt svona varðar. Píreygð og ísköld stjórnarandstaða fylgist með hverju skrefi. Þannig á það að vera.

Ég óska Óskari gleðilegra jóla. 


Kompás villtist

Umfjöllun Kompás um Guðmund Jónsson í Byrginu var vissulega sláandi. Ég get þó ekki komist að annarri niðurstöðu en að efnistökin hafi verið ákaflega furðuleg, svo ekki sé meira sagt.

Fyrir það fyrsta: Af hverju kaus Kompás að leggja svona gríðarlega áherslu á það að útlista fyrir áhorfendum hvað BDSM stendur fyrir og lýsa þar með meintum kenndum og hvötum mannsins?  Mér finnst þær, sem slíkar, ekki koma mér við.  Það  var eins og Kompás héldi að BDSM sem slíkt væri glæpurinn.

Ég efast um að Kompás hefði varið jafnmiklum tíma í umfjöllun um kenndirnar ef þær hefðu verið aðrar. Til dæmis ef maðurinn væri klæðskiptingur eða hefði kynferðislega gaman af því að hlaupa um í Batmanbúning.

Þarna villtist Kompás af leið og óð þar af leiðandi af dálitlum flumbrugangi inn í auðsýnilega mjög viðkvæmt mál, sem varðar fólk og fjölskyldur

Dramatíkin draup vissuleg af hverju strái, en það breytir ekki því að í mínum huga vöknuðu fleiri  spurningar en ég fékk svör við.

Ef það er rétt, að Byrgið er að hluta til eða í heild einhvers konar miðstöð fyrir kynlífsathafnir forstöðumannsins og að hann misnoti stöðu sína gagnvart fíkniefnaneytendum í bágri stöðu til þess að fullnægja kenndum sínum, í hvaða farveg fer þá það mál? Hver rannsakar? Og hver er refsingin?  Hver kærir?

Þetta kom ekki fram í Kompási. Ég hefði viljað vita þetta, því þetta finnst mér einkar mikilvæg spurning, sem varðar stöðu þessarar stofnunar og annarra slíkra.

Segjum sem svo að maðurinn hefði til dæmis verið skólastjóri í háskóla og hefði orðið vís að því að stunda kynlíf (með eða án búninga) með fullorðnum nemendum sínum. Er það sambærilegt? Ég er til dæmis nokkuð viss um að sá yrði látinn taka pokann sinn sem skólastjóri þá þegar, en ég veit ekki hvort að hann yrði sóttur til saka. Auk þess efast ég um að Kompás hefði beitt ámóta efnistökum í svoleiðis tilviki.

Eftir stendur þó, að Kompás færði verulega sannfærandi rök fyrir því að forstöðumaðurinn sé óhæfur og hafi farið illa með skjólstæðinga sína í skjóli aðstöðu sinnar.   Það hefði verið nóg að sýna fram á bara þetta, af þeirri fagmennsku og nærgætni sem Kompás hefur sýnt í öðrum málum, en sleppa því til dæmis að birta myndir af bundnu fólki á nærbuxunum við undirleik dramatískrar píanótónlistar. 

Einnig náði Kompás að afhjúpa gögn sem sýna að þarna hafi verið illa með opinbert fé. Það er hitt aðalatriði málsins, sem hefði þurft meiri fókus. 

Þar vaknaði til dæmis önnur spurning: Af hverju var skýrslu, sem varnarmálaskrifstofa Utanríkisráðuneytisins, um bága meðferð fjármuna í Byrginu, á meðan það var starfrækt í Rockville, haldið leyndri? Á svipuðum tíma voru alþingismenn niðri á þingi að tala fyrir auknum fjárveitingum til stofnunarinnar. Hefðu þeir ekki átt að hafa þessa skýrslu undir höndum?

Hvaða leynimakk var þar á ferðinni? Var einhver að halda verndarhendi yfir Byrginu?

Kompás hefði frekar átt að einbeita sér að því að reyna að svara einverjum þessara spurninga sem vöknuðu, en leggja minni áherslu á að velta sér upp úr aukaatriðum málsins, þótt þeim kunni að hafa fundist þau krassandi. 

Þetta háði annars sláandi þætti.


Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband