Leita í fréttum mbl.is

Hvalasala ríkisins

Whole Foods í Bandaríkjunum er hætt að markaðssetja íslenskar vörur út af hvalveiðum Íslendinga. Mogginn greinir frá þessu. 

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mörg ársverk framsýnna Íslendinga hafa farið í þá óeigingjörnu vinnu að koma íslenskum landbúnaðarvörum á framfæri á stórum mörkuðum erlendis. Þegar Whole Foods keðjan tók íslenskt skyr og lambakjöt upp á arma sína urðu mikil tímamót. Margir ráku upp stór augu.

Fyrir níu langreyðar er þessu fórnandi að mati Einars K.  Níu skitnar. 

Innar í sama Mogga er síðan frétt af því að Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hafi átt fund með ráðamönnum í Japan. 

Erindi hennar var að ræða við japanska ráðamenn um sölu á hvalkjöti frá Íslandi.

Semsagt: Frjálsir íslenskir markaðsaðilar með vörur sem njóta vaxandi vinsælda verða fyrir bakslagi dauðans í Bandaríkjunum út af aðgerðum ríkisstjórnar Íslands. Á sama tíma er ríkisstjórn Íslands að reyna að selja óvinsæla og hugsanlega ólöglega - jafnvel óæta - vöru í Japan með viðræðum við þarlenda ráðamenn.

Hvalasala ríkisins, góðan daginn. Get ég aðstoðað. Nei, við seljum ekki skyr. Því miður. Bara hval.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trúir þú þessari útskýringu Whole Foods??

Kristján Sig. Kristjánsson (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 11:19

2 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Þetta mál er náttúrulegra tragískara en tárum taki - það er búið að verja miklum tíma, peningum og fyrirhöfn í að kynna og staðfæra íslensk matvæli sem afurðir geislandi af fersk- og hreinleika. Svo skutlum við níu skitna hvali - sem eru áratuga gömul dýr, gætið að því - dröslum þeim upp á drulluskítugt og olíubrákað malbiksplan hvar molbúar á gírugum bomsum troða á hræinu meðan þeir rista það sundur og saman ... Síðast þegar ég vissi var ekki hægt að vera svona vitlaus. 

Jón Agnar Ólason, 7.12.2006 kl. 11:29

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Sú ágæta  þjóð, Bandaríki Norður Ameríku,sem drepur flesta hvali af öllum þjóðum, er uppfull af hræsni.  

Það má alveg deia um keisarans skegg í þessu máli, en engu að síður er þetta ákaflega óeðlilegt að sjálfstæð þjóð megi ekki nýta sínar auðlindir án viðskiptaþvinganna annara þjóða, eða í þessu tilviki fyrirtækja.

Hver er munurinn á því að veiða hval eða kalkúna????

Eiður Ragnarsson, 7.12.2006 kl. 14:35

4 Smámynd: Elfur Logadóttir

Í mínum huga snýst þetta alls ekki um hvort eða hversu mikinn tvískinnun Bandaríkjamenn sýna í málinu.

Aðalatriðið er að hér er um ágætlega vel heppnaða markaðssetningu að ræða, á vörum sem við verjum með þjóðarstolti við hvert tækifæri. Þessum vörum er hent út á hafsauga fyrir, eins og Guðmundur orðar það, "Níu skitnar".

Þetta er spurning um hagsmunagæslu eða sérhagsmunagæslu - hvort við viljum ofar á forgangslistann. 

Elfur Logadóttir, 7.12.2006 kl. 17:01

5 Smámynd: Elfur Logadóttir

tvískinnung, elfur - tvískinnunG :)

Elfur Logadóttir, 7.12.2006 kl. 17:02

6 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Það fer um mig hrollur þegar ég les orðin "Hvalasala Ríkisins". Maður sér þetta alveg sem næsta skref. Fyrst fer ráðherra á sjá, svo verður skipuð hvalasölunefnd (Kvalasölunefnd) og að lokum verður sett á laggirnar sérstök stofnun sem er ætlað að fara með öll þau mál er varða sölu á hvalkjöti - Hvalasala Ríkisins.

Eða jafnvel Hvalsölustofnun Ríkisins. Sem þróast svo yfir í Hvalsöluráðuneytið - svona svo það sé nú hægt að bæta við fleiri stólum í stjórnina. Fleiri á spenann. Meiri fitu á Ríkið. VEI!

Jónas Björgvin Antonsson, 7.12.2006 kl. 17:31

7 Smámynd: Björn Barkarson

Ég bið þig Guðmundur um að tala varlega um óeigingjarna vinnu við markaðssetningu landbúnaðarvara því ríkið er búið að verja tugum milljóna í það mál allt saman. En ég er hins vegar alveg sammála þér að öðru leyti um hina furðulegu ákvörðun Einars að heimila hvalveiðar án þess að skoða hagræna og félagslega hlið málsins. Aldrei þessu vant var einblínt á hið vistræna. 

Björn Barkarson, 7.12.2006 kl. 19:21

8 identicon

Við ættum kannski bara að stofna "Whale Foods"?

Júlíus Valsson (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 20:54

9 Smámynd: Júlíus Valsson

Við ættum kannski bara að stofna "Whale Foods"?

Júlíus Valsson, 7.12.2006 kl. 21:41

10 identicon

Það er ekki eins og það hafi ekki gerst áður að ráðherra hafi farið utan til að liðka fyrir viðskiptasamböndum en nú þegar það er vara sem hefur vakið viðbrögð fáfróðra manna þá er það ekki í lagi. Við höfum fullan rétt til að veiða hval og fullan rétt til að selja hann.

Sveinn Gíslason (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 23:35

11 identicon

Eru menn virkilega svo barnalegir, að þeir telji Íslendinga geta rökstutt sig inn á Bandaríkjamarkað?  Rökstutt rétt sinn til veiða og sölu hvalkjöts?

Sannleikurinn er það sem Greenpeace ákveður, sama hversu mikil lygi það er.  Rök skipta þar engu, frekar en álit Íslendinga.

Menn geta endalaust rifist við gangstéttina um hræsni Bandaríkjamanna og stundað samanburðarfræði frá öllum vinklum.  Það mun engu breyta.  Í þessu máli stendur valið einfaldlega milli þjóðrembu eða markaða. 
Ykkar er valið.

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 11:11

12 identicon

Þetta er alveg rétt, og ég skrifa reyndar um þetta einnig á www.johann.is , en ég tel að þarna sé verið að fórna skitnum 9 hrefnum fyrir svo miklu, miklu stærri hagsmuni. Þetta er eiginhagsmunapólitík sem ég tel að alþingi ætti að laga hið snarasta Þá þarf að fá markaðsfræðinga til að vinna aftur upp þá stöðu  sem vörumerkið Ísland hafði áður en við fórum að veiða hval. Ef það gerist ekki fljótlega mun vörumerkið Ísland fara "fjand..." til.

Jóhann Már Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 13:10

13 identicon

Miðað við yfirlýsingar hvalafriðunarsinna og dýraverndunasamsteypanna og hvalaskoðunarmógúla þá er ég hreinlega hissa á því að Ísland er ekki komið á lista með Íran og Norður Kóreu. Um leið og við ákváðum að byrja að veiða þessa fáeinu hvali sem til stendur að skjóta (sem eru litlu fleiri en þeir Íslendingar sem látast úr bílslysum ár hvert) þá rauk ég í Bónus (án þess þó að taka afstöðu í Baugsmálinu) og keypti niðursoðna tómata. Ég var auðvitað skíthræddur við að viðskiptum okkar við hinn siðmenntaða heim væri lokið og hér tæki við tíð torfkofa, eymdar og þverskorinnar ýsu. Ég á reyndar nokkrar góðar bækur í húslesturinn þannig ég hefði nú eflaust þraukað.

Ég á mjög erfitt með að sjá muninn á kúk og skít í þessu máli. Það hafa margir bent á að hvalir eru ekkert endilega merkilegri skepnur en krabbar, hross eða framsóknarmenn. Eini munurinn liggur í máttlausum 'þrýstingi' nokkra mussuhippa um að í lagi sé að borða eitt en ekki annað, þetta er reyndar örugglega bara byrjunin hjá þeim. Það að einhver fyrirtæki hafna alfarið vörum frá einu landi út af 20-30 hvölum bendir til þess að um sé að ræða aðrar ástæður en þær sem nefndar eru.

Þið munið kannski hversu erfitt það var að fá fyrirtæki heimsins til að hætta viðskiptum við Suður Afríku út af aðskilnaðarstefnunni þar á bæ. Þegar allt kemur til alls þá eru það peningar sem koma til með að ráða þessu. Einhverjum mussuhippum hefur fundist töff að kaupa Skyr from the land of the midnight sun en hafa fengið svakalegt samviskubit þegar þeir sáu að baby whales voru myrtir af gömlum köllum á ryðuguðum bátum í sama landi.

Þetta á eftir að lagast. Fólk er að verða upplýst um að veiðar við Ísland eru ekki í ætt við fjöldaútrýmingar sögubókanna. Einnig virðast menn farnir að þora að benda á að höfrungar séu ekkert gáfaðri en mýs og að líkaminn hafi gott af kjöti og að sellerí sé vont.

Mér er reyndar nett sama hvort við veiðum hval eða ekki. En mér finndist frekar slappt að gefa sig undan ekki merkilegri kúgunum en þetta. Einnig finnst mér þessar göfugu skepnur góðar á bragðið þannig að helst vildi ég geta keypt þetta í Nettó áfram. 

Drengur (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 13:20

14 identicon

Guðmundur Steingrímsson?

Það er ekki mikið í þér vitið....
Hvar væri Ísland án fiskveiðanna? Eimskip, Samskip og fleiri útflutningsfyrirtæki væru 0 og nix ef ekki væri fyrir sjávarútveginn, svo mikið er öruggt. Ekki væri eins mikið um peninga á Íslandi og nú er því allir heilvita menn að vita það að peningar verða ekki til í bönkum.
Hvalir eru of margir í hafinu... og þeim þarf að fækka. Þótt við getum ekki selt kjötið hendum því þá bara!!! skiptir okkur andskotans engu máli. Margir fiskistofnar við landið eru að fara hríðminkandi og hvölum fer alltaf fjölgandi, við erum að tala um að hvalir éti meira en við leifum okkur að veiða af fisk, já sanngjarnt? Langreyðurinn og fleirri skíðishvalir eru t.d. að éta alla átuna gjörsamlega af Íslandsmiðum, þannig Þorskurinn okkar góði (æi fiskurinn sem þið rvk pakkið sjáið bara á krónupeningnum) hann líður við fæðuskort og fer stofnin hríðminnkandi. Ef við drepum ekki hvalina þá getum við kannski selt fiskinn okkar örlítið betur..... en ef við drepum þá ekki þá höfum við engan fisk til að segja þegar uppi er staðið, STOFNARNIR HVERFA...

Hvalveiði... Já
Bubbi - Er nauðsynlegt að skjóta þá?
Klárlega segi ég ásamt vísindamönnum....

skoðið þessar tölur: http://www.liu.is/template1.asp?Id=245&sid=98&topid=394
sláandi sannleikur og við töpum peningum á hverjum einasta degi sem hvalirnir lifa í offjölgun.....

Við erum Íslendingar!!!!!!!
Kveðja Haraldur

Haraldur (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 16:40

15 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Bandaríkjamenn drepa hundruðir hvala á hverju einasta ári vegna veiða sinna á túnfisk, við hér á skerinu köllum þetta víst meðafla.

Eiður Ragnarsson, 8.12.2006 kl. 17:02

16 identicon

Var að kíkja á þessa L'I'U síðu sem Haraldur bendir á www.liu.is/template1.asp?Id=245&sid=98&topid=394 .

Það er athyglisvert að Haraldur (og líú) vill meina að það sé nauðsynlegt að veiða hvali vegna mikilla áhrifa hvalastofnsins á fiskistofninn. Að hóflegar veiðar á hval styrki fiskinn. En bíðum aðeins. Þýða þá hóflegar veiðar ekki hófleg áhrif af þeim. Eða jafnvel enginn áhrif hmmm.

Sigurjón Njarðarson (IP-tala skráð) 8.12.2006 kl. 18:55

17 Smámynd: FreedomFries

Þar sem við fjölskyldan gerum stærstan hluta allra innkaupa okkar í Whole Foods finnst mér þetta mál þeim mun sorglegra. Okkur íslendingum hefur einhvernveginn tekist að sannfæra Bandaríkjamenn um að við séum alveg hreint sérstaklega umhverfisvæn, að á Íslandi sé hreinasta loftið og tærasta vatnið, og að íslenskar kýr fái að skoppa um tún og heiðar og séu mjólkaðar af litlum álfum sem klappi þeim líka og strjúki, þ.e. þegar þeir eru ekki að syngja bakraddir hjá Björku og Sigurrós... Upplýstir og velmeinandi Bandaríkjamenn, en viðskiftavinir Whole Foods eru þesskonar upplýst og velmeinandi fólk sem hefur nægar tekjur, hafa nefnilega ótrúlega rómantískar hugmyndir um Ísland, hreinleika íslenskrar náttúru og göfuglyndi íslenskrar þjóðar. Þetta er líka fólk sem hefur miklar áhyggjur af umhverfisvernd.

Þessi hálfvitalega hvalaþráhyggja sumra íslendinga - að það sé einhverskonar meiriháttar prinsippmál að fá að veiða hvali - er í augum þess fólks sem verslar í Whole Foods mjög alvarlegt mál.  Þetta snýst ekki um "kúganir" eða Greenpeace...

Kær kveðja!

Magnús

FreedomFries, 8.12.2006 kl. 22:47

18 identicon

Ég held einmitt að Bubbi hafi (eins og oft áður) hitt naglann á höfuðið, er virkilega nauðsynlegt að skjóta kvikindin, hvað er upp úr því að hafa? Það er rökleysa að ætla að skjóta hvali til að fjölga fiski, en segjast jafnframt ekki hafa áhrif á hvalastofna með skjótingnum. Seinni gjörningur EKG hvað botnskrap varðar er þó hálfu verri, verndun umhverfisins krefst fórna, líka af okkar hendi. Þætti okkur málflutningur EKG ekki undarlegur ef hann væri auðlindaráðherra Brasilíu að vernda réttindi þarlendra til að brytja niður regnskóginn? Aumkunarvert af honum að reyna að skapa einhvern þjóðrembing í kringum þetta allt saman.

Andrés (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 01:27

19 identicon

Með fullri virðingu fyrir síðustu athugasemd.

Þú ert annað hvort vel upplýstur og áttar þig á stöðunni, eða þú ert illa upplýstur og hefur rómantískar hugmyndir.  Þetta tvennt fer nefnilega alls ekki saman.

Vandamálið er, að þorri Íslendinga hafa sömu rómantísku viðhorfin hvað viðkemur hvalveiðum.  Spá ekkert í áratuga starfi við að byggja upp markaði, heldur ana áfram í blindri þjóðrembu.
Ekki dugðu færri en 6 upphrópunarmerki á eftir innleggi Haraldar, hvar hann segir "við erum Íslendingar".

Guði sé lof að ég geti afneitað þeim bagga

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 01:40

20 identicon

Fyrirgefið þið Andrés og Magnús.  Andrés kom þarna á milli.  Mitt innlegg hér að ofan átti við innlegg Magnúsar.

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 01:43

21 Smámynd: Egill Óskarsson

Ég held að sú staðreynd að ein af stærri matvælakeðjum BNA skuli vera að hugleiða stöðu sína gagnvart íslenskum vörum sé merki þess að ekki sé einungis um nokkra afdanka mussuhippa að ræða þegar kemur að andstöðu við þessar hvalveiðar okkar.

Það er örugglega hægt að finna ógeðslega flottar röksemdir fyrir því að við MEGUM veiða alla þá helvítis hvalhlunka sem við finnum á miðunum. En flokksfélaga mínum sjávarútvegsráðherra hefur, ásamt öllum öðrum styðjendum þessara tilteknu veiða, mistekist að sýna fram á af hverju við EIGUM að veiða þessa hvali. 

Hvað græðum við á því að veiða þessa hvali, fjárhagslega og pólitískt? Hefur einhver svarað því?

Egill Óskarsson, 9.12.2006 kl. 03:27

22 identicon

það er ekkert vit í að bera saman tapaða skyrsölu við "9 skitnar [langreyður]". þær verða fleiri á næsta ári og aftur fleiri árið eftir það. hafró reiknaði að stofnin bæri það að um 200 dýr væru veidd á ári.

réttari samanburður er milli skyrsölumöguleikanna annars vegar og hvalsölumöguleikanna í framtíðinni.

ég er ekki að þykjast þekkja svarið.

mér finnst það bara óþolandi þegar andstaða gegn hvalveiðum er röklaus eða byggð á tilfinningarökum. íslendingar mættu alveg standa sig betur í því auglýsa og rökstyðja sinn málstað. ef umræðan færi fram á rökrænum grundvelli, kannski gætum við þá bæði selt skyr og hvalkjöt?

p.s.: í hvert sinn sem ég kíki í í whole foods (í kaliforníu, og einu sinni í chicago), leita ég að skyri eða einhverjum íslenskum vörum, en hef ekkert fundið ennþá. hinsvegar varð ég mjög þjóðlegur einn daginn og splæsti á mig rándýru íslensku jöklavatni úr trader joes. svo fannst mér ég vera mikill kunnáttumaður á vatn þegar ég stóðst "pepsí" prófið sem vinkona mín setti fyrir mig: ég þekkti auðveldlega íslenska vatnið frá "venjulegu" bandarísku flöskuvatni!

oskar holm (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 07:08

23 identicon

Jahérna,

Eigum við ekki líka að banna feitt og ljótt fólk. Það passar ekki heldur við markaðsetninguna: Hraust og heilbrigð þjóð í fallegu landi.

Kristján T. Einarsson (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 10:53

24 identicon

Samkvæmt nýjustu fréttum eru Whole Foods hreint ekkert hættir við. Þeir hafa líklega komist að því að mussuhipparnir eiga engan pening hvort eð er.

Drengur (IP-tala skráð) 9.12.2006 kl. 14:06

25 Smámynd: Brissó B. Johannsson

"Við erum Íslendingar!!!!!!" ? 

Allir sem fæðast hérna eru óspurðir gerðir að Íslendingum, og það þýðir ekki að "við" séum í einhverju bræðralagi hérna, þótt svo að flestum kann að þykja svo. 

Ég held að Whole Food sé ekkert að styðja hvalveiðar Bandaríkjamanna heldur, þannig að ég efast um að það sé hægt að kalla Bandaríkjamenn hræsnara vegna þessa, þeir eru þó kannski hræsnarar á öðrum sviðum. Ég virði Whole Food fyrir það að pæla í svona málum, við hvern þau eru að versla.

Ólíkt nýburum á Íslandi fær hvalurinn ekki íslenskan ríkisborgararétt, hann virðir enginn landamæri, og er ekki Íslendinur. Þess vegna finnst mér leyfilegt að önnur ríki gagnrýni Ísland fyrir veiðarnar, þau hafa rétt á að tala fyrir hvalinn eins og hver annar, aldrei að vita nema hann hafi verið að synda við strendur Kanada síðasta vor... hvalurinn er allra og um leið engra, aðallega þá sinn eigin herra. 

Þetta er s.s. það sem ég held að hvalurinn vildi sagt hafa. 

Brissó B. Johannsson, 9.12.2006 kl. 21:40

26 Smámynd: óskar holm

"Ég held að Whole Food sé ekkert að styðja hvalveiðar Bandaríkjamanna heldur, þannig að ég efast um að það sé hægt að kalla Bandaríkjamenn hræsnara vegna þessa..."

_ef_ whole foods hefðu hætt að selja íslenskan varning vegna þess að íslendingar veiði hvali, þá hefði verið hræsni að sumra mati að selja bandarískan varning þegar vitað er að bandaríkjamenn veiða hvali.

en þetta á ekki við lengur, því whole foods vildu bara ekki draga athygli að íslensku vörunum. þeir selja þær enn. enda er það bara ein spurning sem ræður því hvað stórfyrirtæki gera: "græðum við á þessu?"

óskar holm, 12.12.2006 kl. 19:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband