Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Aðgerð Strútur

Nú þegar Framsókn er búin að klappa fyrir röngum mistökum sínum er von maður spyrji hvenær Sjálfstæðismenn hafa hugsað sér að viðurkenna að stuðningurinn við Írak hafi verið bull og vitleysa.  Mogginn er búinn að því. Samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni er búinn að því. 

Rumsfeld er horfinn. Bush er búinn að skíttapa kosningum út af þessu. Blair er um það bil að segja bless. En Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi er bara -- svo vitnað sé í Hemma  -- hress.

Þrjóska af þessu tagi virðist vera rauði þráðurinn í málflutningi flokksins um þessar mundir.

Þetta er Aðgerð Strútur. Stingum höfðinu í sandinn. Einn, tveir og Geir. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta yrði taktíkin fyrir kosningarnar í vor. Línan er þegar komin í aksjón hjá fótgönguliðum. 

Fyrir viku sat ég í útvarpsspjalli með Eyþóri Arnalds og ræddi fréttir vikunnar. Talið barst að auðmönnum. Ég sagði af því tilefni að það væri eitt stærsta verkefni í íslenskri pólitík að jafna leikinn í íslensku samfélagi þannig að þorri almennings væri ekki skildur eftir fastur í verðtryggðri okurvaxtasúpu á meðan auðmenn keyptu West Ham fyrir kex. 

"Ég skil þig ekki," sagði Eyþór. Svo bætti hann um betur og líkti málflutningi mínum við kommúnisma.

Ég hugsaði: Hversu langt er sinnuleysið gengið á hægri væng stjórnmálanna ef hófsöm jafnaðarstefna -- sem setur spurningarmerki við það að þjóðfélagið sé orðið eins og Bandaríkin hvað varðar misskiptingu -- er lögð að jöfnu við kommúnisma? 

Í sjálfu sér hefði ég ekki haft áhyggjur af þessu spjalli við Eyþór nema vegna þess að þetta er í hárréttum takti við yfirlýsingar flokksformannsins sem í ræðupúlti á Alþingi sagðist ekki missa svefn út af misskiptingu auðs. 

Þar var Aðgerð Strútur í aksjón. Höfuðið á bólakaf í sand.

Og nú sjáum við þessa  aðferðarfræði í öllu sínu veldi í Íraksmálinu.  "Hvað, er borgarastyrjöld í Írak?" "Ég skil þig ekki." "Ég hef ekki orðið var við neina borgarastyrjöld." "Það er allt í lagi heima hjá mér." "Ég hef  ekki orðið var við nein gróðurhúsaáhrif." "Það er ekkert að aðbúnaði aldraða." "Ég hef ekki heyrt um  neinar ólögleglar hleranir." "Ætlum við að selja Rúv?" "Einkavæða Landsvirkjun?" "Ég hef ekki hitt neinn sem er ósáttur við matvælaverðið, þannig séð." "Er viðskiptahalli?" "Fátækt? Er hún til?" "Er varnarliðið þá virkilega farið?" "Er stóriðjustefna?" "Ég skil þig ekki." "Álvæðing?" "Náttúruspjöll?"

Strúturinn er útspökuleraður.  

Lag dagsins er Something Better Change með Stranglers. 


Klappliðið

Hjálmar Árnason gerði talsvert úr því í rökræðum í Kastljósi við Þórunni Sveinbjarnardóttur að framsóknarmenn hefðu klappað sem aldrei fyrr þegar Jón Sigurðsson lýsti því yfir á miðstjórnarfundinum að stuðningurinn við Íraksstríðið hafi verið mistök. 

Ég var að elda spagettí þegar ég heyrði Hjálmar segja þetta og ég hugsaði: 

Hvað hefur eiginlega gengið á í flokki sem rís upp og klappar þegar nýr flokksformaður lýsir því yfir að ein af örlagaríkustu ákvörðunum í sögu hans hafi verið röng?

Af hverju lýsti þá enginn þingmaður, utan Kidda Sleggju (að vanda), sig ósammála þessari ákvörðun? Af hverju varði þingflokkurinn ákvörðunina, en klappar nú fyrir þeim sem segir hana ranga?

Þetta er þversögn. Margir gamlir framsóknarmenn vildu slíta stjórnarsamstarfinu við Sjallana þegar þessi stuðningur var ákveðinn. Hefði það ekki einmitt verið það eina rétta? Strandaði sú hugmynd kannski bara á því að þingmennirnir þorðu ekki? Vildu frekar bíða upp á von og óvon að nýr formaður myndi kannski hugsanlega mögulega segja eitthvað seinna, ef honum sýndist svo, um að ákvörðunin hafi jú verið röng.

Hvað ef hann hefði ekki sagt það? 

Framsóknarmenn klappa nú fyrir Jóni. Stóra spurningin er hins vegar sú af hverju þeir klöppuðu alltaf fyrir Halldóri líka.

Spagettíið var fínt.  


Bara mistök

Loksins kom að því að annar hvor toppurinn í ríkisstjórninni viðurkenndi að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hafi verið mistök. Um langa hríð hafa blessaðir mennirnir staðið muldrandi fyrir framan þessar rústir og reynt að halda því fram að þeir sæju ekki eftir neinu. Að ekkert rangt hefði verið gert. Allir sáu að þessi málatilbúnaður -- að Ísland hefði átt erindi með Bandaríkjunum inn í þetta stríðsbrölt -- var hruninn fyrir löngu.

Til eru þeir sem segja að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. Sjálfstæðismenn virðast ætla að halda sig við þá línu enn um sinn.  En þetta er undarlegur málflutningur í ljósi þess að svo til allt þjóðfélagið -- ýkjulaust -- reyndi að koma því áliti sínu til skila til stjórnarherranna á sínum tíma að það vildi ekkert með þessa innrás hafa. Þrjóskan var hins vegar svo mikil að þó svo samfélagið hafi nánast farið allt á annan endann út af þessu, þá létu menn sér hreint ekki segjast. 

Skoðanakannanir sýndu að yfir 80% þjóðarinnar voru á móti stuðningi Íslands. Mótmælafundir voru haldnir með reglulegu millibili á Lækjartorgi og víðar. Meira að segja Stjórnarráðið varð fyrir árás manna með málningapensla. Hið merkilega var að Davíð og Halldór -- sem ákváðu þetta að því er virðist upp á sitt einsdæmi -- virtust aldrei ná því hvers vegna andstaðan var svona mikil. Núna þegar þeir hafa báðir þurft að hrökklast frá -- og aðrir ráðamenn annars staðar í heiminum eru í botnlausum vandræðum út af þessu -- held ég að þeir hljóti að hafa lagt saman tvo og tvo og fengið út fjóra. 

Þeir vanmátu hvað það er ríkur þáttur í þjóðarsálinni að vilja ekki styðja styrjaldir. Íslendingar eru að grunni til friðelskandi þjóð sem er stolt af því að hafa engan her. Við hlæjum enn að hugmyndum um íslenska herþjónustu. Þjóðin var klofin út af aðild að hernaðarbandalagi í áratugi. Sáttin sem hafði myndast að lokum var sú, að Íslendingar myndu fara eftir samþykktum Nato og/eða Sameinuðu þjóðanna þegar kæmi að stuðningi við hernaðarumsvif. Þessi sátt var brotin af Halldóri og Davíð.

Einkum og sér í lagi var þetta viðkvæmt í Framsóknarflokknum. Ég held að það sé óhætt að segja að flokkurinn hafi allt frá 1949 byggt sátt um utanríkismál innan sinnan raða á því að Ísland færi ekki lengra en með Nato í mögulegum stuðningi við innrásir. Gömlum og gegnum Framsóknarmönnum hefur því alltaf liðið bölvanlega með þetta klúður. Aldrei hefur nokkur flokkur fyrr eða síðar komist jafnmikið upp á kant við fylgi sitt eins og í þessu máli.  Það fór mestmegnis.

Það er fínt að fá loksins viðurkenninguna upp á borðið um að stuðningur Íslands við Íraksstríðið hafi verið rangur.  Ég veit samt ekki hverju hún breytir. Líklega undirstrikar þetta bara það sem allir vissu, að mjög margir framsóknarmenn studdu þessa innrás gegn eigin samvisku á sínum tíma. Að enginn hafi þorað að segja neitt fyrr en nú er satt að segja dálítið sorglegt. 

En mér finnst líka ágætt að Jón sagði ekki að stuðningurinn hafi verið tæknileg mistök -- eins og sumir hefðu gert -- heldur bara mistök. Punktur. 


Fjári góð bók

images-1.jpg
Ég hef misst svefn undanfarnar tvær nætur út af bókinni hennar Margrétar Frímanns, Stúlkan frá Stokkseyri. Hún greip mig. Var tvö kvöld til klukkan fimm um morguninn að lesa. Það verður að segjast að uppeldi Margrétar og fjölskylduflækjur jafnast á við bestu sápur. Allt er til staðar. Rangfeðrun, berklar, tvær mömmur, þrír pabbar, fóstursystur, hálfsystur, áður óþekktir hálfbræður, ættleiðing á þritugsaldri, skilnaður, ástir, samkynhneigður frændi, verkalýðsbarátta, örlög fátækra og streð hinna vinnandi. Allt er þetta lipurlega skrifað af Þórunni Hrefnu og rennur óaðfinnanlega. Lýsingarnar á Stokkseyri bernskunnar -- með leikjum í fjöruborði og uppátækjum óþolinmóðrar stúlku með ríkara ímyndunarafl en hún gat stundum ráðið við -- hoppa ljóslifandi til manns af síðunum. Svo kemur pólitíkin og bókin missir hreint ekki dramatíkina við það, enda sögusviðið sjálft Alþýðubandalagið -- svo hjálpi okkur guð -- með öllum sínum meintu blokkamyndunum, strákaklíkum, smákóngum, erfðaprinsum, hugsjónum og hugsjónaleysi, uppgjörum, svikum, makki, hlátri, gráti og gnístran tanna. Af sjónarhóli stjórnmálasögunnar er gaman að lesa um tilurð Samfylkingarinnar, sameiningu vinstri manna, og allt það sem gekk á í aðdraganda hennar. Margrét var ljósmóðirin. Steingrímur J. ríður ekki feitum hesti frá þessari frásögn. Margrét vandar þeim vinstri græna og vopnabræðrum hans ekki kveðjurnar af mörgum orsökum og frásögnin oft óborganleg. Í lokin kemur svo krabbameinið, eins og allt hitt sem á undan var gengið hafi ekki verið nóg. Einna áhrifaríkasti kaflinn í bókinni er frásögnin um skallann (á Margréti, ekki Steingrími...) og hvernig fólk brást við því að þessi landsþekkta stjórnmálakona skyldi voga sér að vera ekki með hatt eða hárkollu í veikindum sínum. Lýsingarnar á viðbrögðum eru vægast sagt ótrúlegar. Ég mæli sterklega með þessari bók. Margrét Frímannsdóttir er án efa einn merkasti stjórnmálaleiðtogi síðustu áratuga á Íslandi og bókin er með betri ævisögum slíkra. Opinská, fróðleg, áhrifarík og umfram allt skemmtileg.

Það má sætta sig við West Ham

images.jpg
Frá blautu barnsbeini hef ég haldið með Manchester United í ensku knattspyrnunni. Tvisvar bað ég foreldra mína sem patti að kaupa handa mér Man U búning þegar þau fóru til Bretlands í einhverjum erindagjörðum. Í fyrra skiptið komu þau til baka með West Ham búning. Í síðara skiptið með Tottenham treyju. Ég veit ekki hvað þau voru að spá. (Um þetta tímabil í lífi minu má lesa nánar í pistli á gras.is) Fyrir kurteisis sakir, enda afskaplega vel upp alinn, ákvað ég að ganga stoltur í þessum búningum og ákvað að ég skildi þá reyna að halda aðeins með þessum liðum líka. Það hefur haldist alla tíð síðan. Ég hef sem sagt haldið aðallega með Man U, en smá -- bara smá -- líka með Tottenham og West Ham. Nú þegar fregnir bárust af því að Eggert Magnússon hefði keypt West Ham, hvorki meira né minna, rifjaðist þetta allt saman upp fyrir mér -- þessi misheppnuðu búningakaup öll -- og ég brosti með sjálfum mér að sorgum og sigrum bernskunnar. Útrásin var þá fólgin í því að fólk fór til útlanda og keypti fótboltabúninga handa börnum sínum. Nú fara menn til útlanda og kaupa fótboltafélög. Hvort það er handa börnum sínum veit ég ekki, en ég veit alla vega að ef ég hefði beðið pabba minn um að fara út til þess að kaupa handa mér fótboltafélag, en ekki bara treyju, hefði ég sem fyrr beðið um Manchester United. En ætli ég hefði þó ekki kurteislega sætt mig við West Ham.

Ferð á Ölkelduháls

img_2684_1.jpg
Íslenskir fjallaleiðsögumenn buðu stjórnmálamönnum í ferð á Ölkelduháls á sunnudaginn. Samfylkingarfólk fjölmennti. Þetta var hressandi göngutúr. Áformað er að virkja á svæðinu, sem er í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar og Nesjavallavirkjunar. Ferlið er farið af stað og íslenskir fjallaleiðsögumenn reyna að spyrna við fótum. Þarna gefur að líta mikil náttúruundur, bullandi hveri af öllum stærðum og gerðum. Fjallaleiðsögumenn benda á að svæðið er á miðri vinsælli gönguleið og nýtur sívaxandi áhuga ferðamanna. Það er hins vegar dæmigert fyrir æðibunuganginn í virkjanamálum að eina könnunin á áhuga ferðamanna, sem liggur til grundvallar virkjunaráformum á Ölkelduhálsi nú, var gerð fyrir fimm árum og þá í tengslum við Hellisheiðarvirkjun. Fjallaleiðsögumenn telja réttilega óviðunandi að hún verði látin næga. Í henni var jafnframt bannað að spyrja útlenska ferðamenn, sem verður að teljast nokkuð merkilegt. Þegar er búið að lauma tveimur borholum á svæðið á forsendum tilrauna, og virkjunin komin á teikniborðið, á leið í umhverfismat. Það er einmitt þetta sem fer í taugarnar á mönnum eins og mér: Það er alltaf verið að laumast í virkjanaframkvæmdir í skugga nætur, bakdyramegin, og áður en maður veit af er allt búið og gert. Mega því Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa þökk fyrir ferðina á sunnudaginn. Hún opnaði augu.

Hugtak helgarinnar

Tæknileg mistök Árna Johnsen voru umræðuefni helgarinnar, hvar sem borið var niður. Á Sykurmolatónleikum í Höllinni notaði Einar Örn hvert tækifæri til þess að skjóta hugtakinu að, við mikla kátínu. Sagði Sykurmolana vera tæknileg mistök. Bubbi Morthens talaði um sín tæknilegu mistök í ræðustól á Eddunni. Fólk hló. Í samtölum helgarinnar leið aldrei á löngu þar til talinu var einhvern veginn beint að einhvers konar tæknilegum mistökum og hlegið hrossahlátri í kjölfarið. Þetta var aðalumræðuefnið í laufabrauðsbakstrinum hjá mömmu á laugardaginn. Sumar kökurnar voru sagðar tæknileg mistök og voru borðaðar á staðnum. Ég spái því að þetta hugtak, tæknileg mistök, verði mikið tekið í vetur. Einna bagalegast verður það auðvitað fyrir Sjálfstæðisflokkinn að þurfa að búa við það núna í marga mánuði að háðsglósum um tæknileg mistök verður klínt á flokkinn við hvert einasta tilefni. Þar er Árni karlinn búinn að gera flokknum enn eina skráveifuna. Mesta skaðann gerði hann þó sjálfum sér. Ég hef kenningu: Ég held að stór þáttur í því að Árni landaði öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi hafi verið sá, að stór hluti kjósenda var búinn að gleyma í hverju glæpir hans fólust nákvæmlega. Flestir mundu óljóst eftir atburðarásinni. Enginn hafði lagt sig fram við að rifja hana sérstaklega upp. Það sem Árni gerði hins vegar með hinni mjög svo umdeilanlegu notkun sinni á hugtakinu tæknileg mistök (í kjölfar notkunar Ísraelsmanna á sama hugtaki, sem er athyglisvert) var einkum fólgið í því að hann beindi sjónum almennings skilmerkilega og af alkunnum krafti að glæpum sínum enn á ný. Ekkert bindi, sama hversu flott, mun bæta fyrir þá katastrófu sem hér hefur orðið út frá sjónarmiðum almannatengsla. Allt hefur verið rifjað upp, lið fyrir lið. Og það sem meira er: Ýmislegt annað, í umræðum helgarinnar, rifjaðist upp líka af þessu tilefni. Þegar ég stóð úti í sal á Sykurmolatónleikunum og skemmti mér konunglega rifjaðist til dæmis upp fyrir mér og viðmælanda mínum-- undir tali Einars Arnar um Árna -- að Árni hefur hvorki meira né minna en gengið í skrokk á þremur tónlistarmönnum af litlu tilefni á undanförnum árum: XXXRotweilerhundum, Hreimi og Páli Óskari. Svona er maður fljótur að gleyma. Þann síðasttalda sló Árni vegna þess að hann var kyssa kærasta sinn (líklega út af tæknilegum mistökum að mati ÁJ). Auðvitað eru allir menn breyskir og allt það. Leiðindahlutir gerast. En nýjasta hugtakanotkun hins skapbráða trúbadors hjálpaði sem sagt mjög mörgum að muna að Árni er vissulega með þeim breyskari. Engan annan stjórnmálamann þekki ég sem fengi að komast upp með það að hafa slegið til yfirlýsts homma vegna samkynhneigðar hans. Ekki beint talandi dæmi um víðsýni. Það gamla almannatengslafíaskó getur Árni þó hugsanlega bætt fyrir: Hann gæti farið um kjördæmið með gítar og sungið hið alkunna baráttulag samkynhneigðra: I will survive. Oft er þörf, nú er nauðsyn.

Orkumálastjóri gefur í

Fyrrverandi orkumálastjóri, Jakob Björnsson, er ekki af baki dottinn. Í gær skrifaði þessi harðduglegi málsvari virkjunarstefnu og álvæðingar grein í Mogga. Þeir sem lesið hafa Draumaland Andra Snæs Magnasonar hafa væntanlega hóstað upp múslíinu sínu þegar þeir lásu þessa málsgrein í grein Jakobs: "Við skulum hugsa okkur að álframleiðsla á Íslandi verði komin í 2,5 milljónir tonn á ári eftir svo sem aldarfjórðung. Til þess þyrfti um 40 TWh/a (terawattstundir á ári), reiknað í orkuveri, t.d. 30 úr vatnsorku og 10 úr jarðhita." Í bók sinni sýndi Andri fram á að 30 terawattstundir þýddu virkjun svo til allra vatnsfalla á Íslandi. Hér bætir Jakob 10 stundum við í jarðhita án þess að hika. Reyndar eru til opinberar tölur sem segja að Ísland geti skaffað 50 terawattstundir, 30 í vatnsorku og 20 í jarðhita. Nú þurfa allir góðir menn að leggjast á eitt til að stöðva þetta brjálæði, því annars er framtíðin skýr: Pípur upp úr hverju háhitasvæði á Íslandi, stífla á hvert einasta vatnsfall og raflínuflækjur út um öll fjöll og firnindi. Landsvirkjun er að drepast úr háspenningi. Blauti draumurinn er að verða að veruleika as we speak.

Ertu þá farinn?

cold_weather_maintenance-suellen_in_snowsuit2.jpg
Þegar ég var í morgun að reyna að binda niður ruslatunnuna fyrir utan heimili mitt í þvílíkum nístandi norðanstormi að ég hélt ég yrði úti þá þegar, poppaði upp í heilahvelið eftirfarandi hugsun sem hefur valdið mér þónokkrum ugg síðan: Er Golfstraumurinn farinn? Er það svona sem það gerist? Verða Íslendingar dæmdir til að vafra um í heimatilbúnum snjógöllum (sjá mynd) næstu þúsund árin? Ein kveikjan að því að ég ákvað að vinda mér (viðeigandi orðalag) í prófkjör voru umhverfismál. Ég sá myndina hans Al Gore. Bókin hans er á náttborðinu. Ég hafði líka kynnt mér málið lítillega áður. Þó svo ég efist auðvitað um að Golfstraumurinn sé raunverulega farinn að þessu sinni -- þótt nægur sé andskotans skítakuldinn -- að þá breytir það ekki því að loftslagsbreytingar eru eitt mest aðkallandi, ef ekki bara langmest aðkallandi viðfangsefni sem jarðarbúar hafa staðið frammi fyrir. Ég sá að Kofi Annan var að tala um þetta. Hann lýsir áhyggjum af því að enginn ætli að taka frumkvæðið í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin. Ég held að Íslendingar ættu að gera það. Fimbulkuldinn sem nú ríkir, í nóvembermánuði sem stefnir í að verða sá kaldasti frá því mælingar hófust, ætti að vekja okkur til umhugsunar. Svona viljum við ekki hafa það. Kenningin er skýr, studd afdráttarlausum vísbendingum: Hlýnandi lofthjúpur getur beint Golfstraumnum annað og bingó: Við verðum rennandi á rassinn ofan á íshellu áður en við vitum af. Öllu flugi aflýst. Í alvöru talað: Við eigum að ganga í þetta mál af fítonskrafti. Boða til alþjóðlegra ráðstefna í massavís sem lyktar með raunverulegum niðurstöðum og efna til rannsókna (eins og forseti vor vill og er byrjaður að vinna að) sem miða að því að finna lausnir á þessu vandamáli. Þetta er vel hægt. Að öðrum kosti getum við alveg eins farið að tálga lurkana okkar og safna spreki fyrir væntanlega ísöld. Verst hvað maður er mikill klaufi við að kveikja eld með steinum.

Tæknileg mistök Árna

250px-_rni_johnsen.jpg

Í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var birt enn eitt tímamótaviðtalið við Árna Johnsen. Þar var Árni spurður að því hvort hann iðraðist gjörða sinna hér um árið. Hann svaraði því til að auðvitað gerði hann það, því annars væri hjarta hans gert úr steini. Nú hef ég alls ekki hugsað mér að hrauna yfir Árna. Óska honum bara til hamingju. Mér finnst ágætt að Sjálfstæðisflokkurinn leiti sem víðast fanga í uppstillingu á lista sína. En eitt má Árni alls ekki komast upp með, eins og hann gerði í viðtalinu í gær. Hann sagði að hann hefði gert tæknileg mistök. Út af tæknilegum mistökum sem hann gerði fór hann í fangelsi. Í ofanálag bætti Árni því við, sér til málsbóta, að enginn annar hefði verið saksóttur út af þessu og hann, með sitt breiða bak, hefði axlað þessa sök einn. Hér fer Árni beinlínis með rangt mál, og ekki traustvekjandi að hann hefji sitt pólitíska framhaldslíf með slíku. Lítum á: Árni var ákærður á sínum tíma í 27 töluliðum fyrir fjárdrátt, rangar skýrslur til yfirvalda, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi. Þá voru tveir menn að auki sakaðir um mútur og þrír um hlutdeild í umboðssvikum Árna. Árni var sakfelldur í bæði héraðsdómi og Hæstarétti í 22 liðum, en sýknaður í fimm. Hann játaði sjálfur í upphafi brot sín í 12 liðum. Fyrir þetta var hann dæmur í tveggja ára fangelsi og annar maður var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir að greiða honum mútur. Niðurstaða Hæstaréttar hljómaði svona: "Ákærði Árni brást trausti sem honum var sýnt er hann var skipaður til að sinna þeim opinberu störfum sem lýst er í ákærunni. Brotin framdi hann í opinberu starfi, sbr.  138. gr. almennra hegningarlaga, og er það virt til refsiþyngingar eins og lýst er í því lagaákvæði.  Brot ákærða eru mörg og alvarleg." (http://www.haestirettur.is/domar?nr=1221&leit=t) Nú þarf góður blaða- eða fréttamaður að vinda sér að Árna og spyrja hann hvað hann eigi við með "tæknilegum mistökum" í þessu samhengi og jafnframt hvað hann meinar þegar hann segist hafa borið sökina einn. Ég get ekki séð annað en að hér hverfi sakamaður aftur til fyrra lífernis og hagræði sannleikanum í beinni. Að auki -- svo ég bæti því við í hálfkæringi-- finnst mér það efni í stórbrotna rannsóknarblaðamennsku hvað þetta er með Árna og steina. Ég er heillaður. Hann segist iðrast sinna "tæknilegu mistaka" vegna þess að annars væri hjarta hans gert úr steini. Þetta er athyglisvert orðalag. Hann fór einmitt í steininn fyrir að stela steinum, kom svo út með fullt af steinum, sagði í viðtali við Fréttablaðið af því tilefni að hann elskaði steina, og nú segist hann EKKI hafa hjarta úr steini. Ég efast.


Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband