Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Linkur

Það sem Gauti Eggertsson skrifar um útgáfu bókarinnar Tíu litlu negrastrákar er eins og talað úr mínu hjarta. 

Lesið.  

Vonandi vekja þau mistök, sem endurútgáfa bókarinnar er, sem flesta til umhugsunar. 

 


Yoko

Sagt er að Sjallarnir séu brjálaðir út í Yoko Ono. Fyrst splundrar hún Bítlunum og nú þetta...  

Önnur vinkona benti mér á gott grín: Endurgerð 3G auglýsingar Símans. Sjálfstæðismenn samankomnir í Höfða. Við langborð. Villi hringir í Björn Inga. "Blessaður meistari" segir Björn. "Við erum hér, hvar ert þú?" spyr Villi...   etc. etc.  

Það má hlæja að þessu. 

Ég brosi alla vega.  

Til hamingju með nýjan borgarstjórnarmeirihluta gott fólk!

Ferskir vindar munu blása í Reykjavík. 


Prinsipp í panik

Ég botna satt að segja ekki mikið í því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn í borginni rýkur allt í einu upp núna með ægileg prinsipp um það að Orkuveita Reykjavíkur megi ekki eiga fyrirtæki -- eða eiga Í fyrirtæki -- sem er í útrás á sviði jarðvarmavirkjana. 

Guðlaugur Þór Sjálfstæðismaður átti víst frumkvæðið að stofnun REI fyrir nokkrum mánuðum. Engin prinsipp voru höfð gegn því þá. 

Bjarni Ármannsson var ráðinn stjórnarformaður. Enginn sagði neitt.

REI og Geysir Green sameinuðust. Það var almennt talið hið besta mál... 

...þar til að kom í ljós þetta með lokaða hópinn sem átti að fá að maka krókinn á þeim viðskiptum. Það hefur blessunarlega verið dregið til baka, enda siðlaust.

Eftir stendur þessi staða: Orkuveita Reykjavíkur á núna hlut í risastóru fyrirtæki sem ætlar í útrás á heimsvísu. Framlag Orkuveitunnar er að stórum hluta til í formi þekkingar og reynslu. 

Ég get með engu móti séð, að það sé sérstaklega gott prinsipp að Orkuveitan reyni ekki fyrir hönd borgarbúa og í þeirra þágu, að hámarka -- svo maður noti tískuorðið úr bransanum -- arðinn sem hægt er að fá fyrir þessa uppsöfnuðu þekkingu og reynslu á sviði jarðvarma. Það er eins og Sjálfstæðismenn telji það vera eitthvað sérstakt prinsipp að þessari þekkingu megi alls ekki koma í verð. Samt hafa þeir sjálfir átt frumkvæðið að því að koma henni í verð undanfarið...

Ekki er öll vitleysan eins. Maður er að reyna að vera sammála Sjálfstæðisflokknum hérna, en þá þarf hann endilega að snúast í hring í kringum sjálfan sig...

Þekkingu OR verður best komið í verð í samvinnu við einkaframtakið. Þar höfðu Sjálfstæðismenn rétt fyrir sér. Hið opinbera og einkageirinn eru samtvinnuð hvort sem okkur líkar betur eða verr í þessu máli. Einkageirinn er kominn með áhuga á jarðvarmavirkjunum. Í gerð þeirra er hagnaðarvon auk þess sem þær þjóna umhverfismarkmiðum. Nú er það bara spurningin: Hvort viljum við að einkageirinn einfaldlega kaupi þekkinguna --- starfskraftana úr OR -- og skilji eftir hin opinberu orkufyrirtæki rúin inn að skinni, eða að orkufyrirtækin eins og OR taki þátt í þessu útrásarverkefni, leggi til þekkingu og reynslu, og fái arð í staðinn?  Sá arður rennur til borgarbúa.

Ég sé ekkert sannfærandi prinsipp gegn síðari möguleikanum. Og mér sýnist Sjálfstæðismenn ekki heldur hafa séð þau, þar til allt í einu núna. Í einhverri panik út af innri trúnaðarbresti og ýmis háttar klúðri, sem hefði vissulega mátt missa sín, vill Sjallinn hætta við út af prinsippi.

Sjallinn fór í panik út af klúðri og fannst hann sjá prinsipp.

Að sjá prinsipp í panik.  Það er aldrei gott.

Verkefnið núna er að anda djúpt og hugsa hvernig hag borgarbúa og nærsveitarmanna -- eigenda Orkuveitunnar -- verður best borgið í þessari stöðu sem er komin upp. Annað er vitleysa.


Gott gott

Þetta var fínn dagur. Þingsetningardagur.

Forsetinn hafði lög að mæla. Það verður að passa að þjóðin sundrist ekki út af auðmönnum og vaxandi misskiptingu. Þurfum að leggja rækt við ræturnar, passa sérkenni okkar og menningu. Margur verður af aurum api. Það gildir líka um þjóðir.

Mér fannst líka gott að heyra það frá Sturlu að það standi til að gera breytingar á störfum þingsins. Auðvitað er það löngu tímabært. Þingið þarf að starfa lengur yfir árið, umræður þurfa að vera markvissari með styttri og snarpari ræðum, þingnefndir þurfa aukið vægi. Ég myndi líka vilja sjá í þessu breytingu þess efnis, að þingið geti stofnað tímabundnar nefndir til þess að fjalla um ýmis sérstök mál sem þurfa rannsóknar við.

Nú svo var það fjárlagafrumvarpið. Það eru auðvitað ánægjuleg tíðindi að heyra að gert sé ráð fyrir 31 milljarða afgangi í stað 5 milljarða halla, eins og talað var um fyrir ári. Það er vel hægt að sætta sig við það. 

Ég yrði alla vega mjög ánægður ef viðsnúningurinn í heimilisbókhaldinu væri hlutfallsleg sá sami um þessi mánaðarmót. Lítið sjóðstreymi hér. Viðvarandi hallarekstur... 

Margt hljómar vel í þessu frumvarpi.  Þarna er átak í samgöngumálum og átak í málefnum barna og ungmenna. Og aukin fjárframlög til Landspítalans, svo eitthvað sé nefnt, sem og til byggingu hjúkrunarrýma.

Þá er líklegt að það verði svigrúm til þess á komandi árum að efla velferðarkerfið og gera betur við umönnunarstéttir, kennara og aðrar mikilvægar starfstéttir samfélagsþjónustunnar.  Þetta er eitt mikilvægasta verkefni komandi ára: Að gera þessi störf aftur eftirsóknarverð. Það markmið næst varla  nema með því að færa meira fé eða tekjustofna til sveitarfélaga, sem sjá um þessa þjónustu að miklu leyti.

Hér er ég að hugsa upphátt.  

Og þetta leiðir einmitt hugann að öðrum óvissuþáttum, því kjarasamningar eru vissulega einn þeirra. Í þessu fjárlagafrumvarpi er til dæmis ekki gert ráð fyrir stóriðju á komandi árum. Mín vegna má það gjarnan vera þannig. Ég sé ekki að það sé nokkur þörf á stóriðjuframkvæmdum hér á landi miðað við þetta frumvarp. 

En það er ekki víst að það standist. Það getur orðið erfitt að koma í veg fyrir 80 milljarða kr. álver í Helguvík. Auk þess virðast aðrar framkvæmdir vera talsverðar á teikniborðinu, a.m.k. hér á Reykjavíkursvæðinu, þó svo Sundabraut hafi verið frestað.  Þetta ásamt kjarasamningum getur haft áhrif á hið boðaða jafnvægi. Það verður mikilvægt að halda vel á spöðunum. 

En alla vega: Afgangur er betri en halli. Það er lykilatriðið. Þá er hægt að gera hluti. Og sumt er þegar hafið. Mér sýnist þetta vera nokkuð gott frumvarp, með þeim fyrirvara þó að ég á eftir að lesa það...

Þannig að þetta var bara fínn dagur. Og hann byrjaði líka vel. Í morgun fór ég nefnilega í fyrsta tíma í combat conditioning í Mjölni, hvorki meira né minna.  Vaknaði kl. 06.00 til þess að fara að lyfta lóðum, boxa, sparka og taka armbeygjur. Var eins og hræ eftir þennan fyrsta tíma, auðvitað. Gat varla beðið um Aquarius, ég skalf svo mikið. En eftir síðasta tímann mun ég verða ég eins og grískur guð. Helköttaður og helmassaður.

Það sem hélt mér gangandi í morgun var einkum það að þjálfarnir settu Guns and Roses á fóninn. Welcome to the Jungle fær mann nú alltaf til þess að djöflast aðeins extra.

Spurning hvort fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi notað það trix til þess að komast úr halla yfir í afgang?  

Farinn að sjá Veðramót.  


Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband