Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
29.5.2007 | 11:27
Gúrka og kjöt
Ég er ekki frá því að það sé skollin á gúrka í fréttum og að gúrkan sé því óvenju snemma í ár. Vanalega er gúrkan í júlí.
Viðskiptanám er vinsælt. Íslensk erfðagreining fann gen.
Dulitlar gúrkufréttir, þannig séð.
Uppáhaldsgúrkufréttin mín fyrr og síðar var um reykhnoðra sem bóndi sá yfir Heklu. Bóndinn taldi eldgos hafið, en þegar nánar var að gáð var einungis um ský að ræða.
Aldrei hafði ég áður lesið frétt um ský. Þær mættu vera fleiri. Kannski kemur ein á næstu dögum.
Sjálfur er ég búinn að borða alltof mikið kjöt undanfarið, svo ég segi nú eina gúrkufrétt af sjálfum mér. Föstudagskvöld: grillveisla. Laugardagskvöld: lamb í brúnni hjá tengdó. Sunnudagseftirmiðdagur: Fermingarveisla. Kjötiðnaðarmaður sá um veitingarnar (innbakað kjöt, reykt kjöt, kjötbollur...) . Sunnudagskvöld: Partíveisla í sjoppu Sigga Halls. Kjöt-tvenna í matinn. Mánudagur: Hamborgarabúllan.
Í dag myndi ég deyja fyrir cous-cous.
("I would die for a cous-cous". Þessi setning kemur fyrir í einum þætti South Park seríunnar og er þar lögð í munn Hollywood-leikstjóra sem kemur um stundarsakir til Southparks og ætlar að panta sér eitthvað að éta hjá skeggjaða hamborgarasölumanninum. Óborganlega fyndin sena að mínu viti og hefur orðið mér tilefni til asnalegra hláturroka upp úr eins manns hljóði í gegnum tíðina við hin ólíklegustu tilefni.)
Stefni á ræktina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.5.2007 | 14:12
Málefnasáttmálinn
Þegar málefnasamningurinn hafði verið kynntur flokkstjórn á þriðjudaginn var höfðu nokkrir góðir og gegnir Samfylkingarmenn á orði að þeim þætti ótrúlegt að þetta væri sami málefnasamningurinn og hefði verið lagður fyrir Sjálfstæðismenn. Samhljómurinn við stefnu Samfylkingarinnar í öllum helstu málaflokkum hljómaði bara svona afskaplega skýr í eyrum þessa fólks, og þar á meðal í mínum verð ég að viðurkenna.
En svo hitti í Sjálfstæðismenn á förnum vegi. Ég bjóst alveg eins við að þeir myndu kannski dæsa smá yfir örlögum sínum. En annað koma auðvitað á daginn. Þeir voru svona líka afskaplega ánægðir með þennan málefnasamning, og ekkert nema gott um það að segja.
Málefnasamningur er dálítið skrítið plagg. Ekki er beinlínis um heimsbókmenntir að ræða eða prósa á háu stigi. Afdráttarleysinu í textanum er ákveðin takmörk sett. Fullyrðingagleðin er innan allra marka hófsemdar... Það er mikið af "áfram skal tryggja", "gæta þarf að", "stefnt skal að" og svo framvegis og fyrir þá sem ekki hafa fylgst með málefnavinnu flokka sinna og síðan með málefnavinnu ríkisstjórnar kann svona texti að virka andskoti þunnur.
En það, eins og margir vita, eru aldrei tíðindi í málefnasamningi, að orðalag hans og stíll kunni að virka sem lapþunn slepja. Því má halda fram, að til þess sé beinlínis ætlast. Þetta er í eðli sínu stofnanaplagg.
Kúnstinn við að lesa málefnasamning felst hins vegar í því að kunna að sjá tíðindin sem falin eru í textanum. Að gerð hans koma afskaplega margir. Hvert orð skiptir máli. Munurinn á "tryggja skal stöðugleika" og "tryggja skal áframhaldandi stöðugleika" verður til dæmis afskaplega mikill í þessari vinnu svo eitt dæmi af handhófi sé tekið.
Og nú ætla ég að nefna það í textanum sem ég tel vera afskaplega gott og gerir mig ánægðan, svona við fyrsta lestur.
Ég kann vel við að þetta sé "frjálslynd umbótastjórn" eins og segir í sáttmálanum. Áhersla á jafnvægi í efnahagslífinuu, lága vexti og verðbólgu er mikil og svo yljar það mér um hjartarætur hversu mikil áherslan er strax í upphafi samningsins á menningu og nýsköpun. Hið kristaltæra markmið um eflingu hátækniiðnaðar glóir t.d. þarna sem gimsteinn í textaflóðinu, óumdeilt.
Og það gerir líka endurskoðun almannatryggingakerfisins, sem var auðvitað baráttumál sem Samfylkingin setti á oddinn í síðastliðnum kosningum, sem og áherslan á málefni barna annars vegar og eldri borgara hins vegar. Þessu er öllu saman borgið í sáttmálanum og vel það.
Svo er skattastefnan í takt við okkar hugmyndir, með hækkun persónuafsláttar og barnabóta og afnámi stimpilgjaldanna. Tannvernd verður ókeypis og komið verður á stuðningi við kaup framhaldsskólanema á skólabókum. Jafnréttiskaflinn er líka ansi hreint merkilegur og felur í sér mikil framfaraskref.
Það er enginn spurning að þessi málefnasáttmáli gefur færi á því að ráðast í það af fullum krafti að bæta hag heimilanna, koma á meiri jöfnuði og meira réttlæti á Íslandi. Allt tal um að þetta sé "hægristefna" er ósannfærandi. Þarna blása vissulega frjálslyndisvindar, en það er kærkomið.
Svo eru það umhverfismálin. Beinlínis er kveðið á um vernd vissra mikilvægra svæða og svo á að klára rammaáætlun um náttúruvernd og skipa henni lögformlegan sess. Þetta eru allt saman mikil tíðindi. Og Langasjó og Þjórsárverum er bjargað.
Ekki er talað um stóriðjustopp, en kannski féllst okkar fólk á það, vegna þess að Samfylkingin mun jú fara með framkvæmdavaldið í þessum málaflokki og hafa þar með sitt um það að segja hvað verður gert á næstu árum. Umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið eru bæði á okkar könnu.
Svo getur maður tekið nokkrar setningar í heild sinni sem hljóma líkt og úr munni Bastíans bæjarfógeta í lokin á Kardimommubænum:
"Trúfélögum verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra."
"Tryggður verði réttur launafólks til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs."
"Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu."
"Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak".
Allar þessar setningar fela í sér mikil tíðindi.
En auðvitað er það rétt að svona málefnasamningur er almennt plagg. Báðir flokkarnir eru ánægðir með það, sem er gott. En nánari útfærslur á öllum þessum málum er svo að finna í stefnuskrám flokkanna.
Við förum með samgöngumál, byggðamál, iðnaðar-, umhverfis, sveitastjórnar-, neytenda-, samkeppnis- og verðlagsmál, utanríkismál, málefni eldri borgara og almannatryggingakerfisins, sem og velferðarmál í sinni víðustu mynd í þessari ríkisstjórn.
Málefnasáttmálinn er fyrirtaks grunnur, frá sjónarhóli Samfylkingarinnar, til þess að koma okkar mikilvægu baráttumálum í framkvæmd, og við erum einnig með ráðuneytin til þess.
Þá er bara að hefjast handa.
Til hamingju með nýja frjálslynda umbótaríkisstjórn. Hún er líklega að setjast til borðs á Bessastöðum nákvæmlega núna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
22.5.2007 | 14:45
Vel að málum staðið
Ég verð að segja að ég er nokkuð ánægður með hvernig flokkarnir tveir hafa staðið að stjórnarmyndunarviðræðunum. Ekki nokkur skapaður hlutur hefur lekið út þótt báðir þingflokkar séu stórir og mögulegir lekar því víða fyrir hendi. Þetta er nefnilega dálítið mikilvægt í svona ferli. Brosandi leiðtogarnir hafa haldið vel á spöðunum. Það er góður grundvöllur fyrir traust.
Þetta gengur líka þvert á þann hola málflutning Moggans, sem hann hefur haldið nokkuð á lofti undanfarið, að Samfylkingunni sé ekki treystandi. Dómsdagsvitleysa það.
Nú bíð ég bara spenntur eftir málefnasamningnum sem verður lagður fyrir flokksstjórn í kvöld.
Mun lesa hann spjaldanna á milli sem metsölubók væri.
21.5.2007 | 14:14
Nöfnin
Á meðan viðræðuhóparnir ræða saman á Þingvöllum og slípa orðalag stjórnarsáttmála fer fram mikið stríð í bloggheimum um hið mikilvæga úrlausnarefni áður en lengra er haldið: Hvað á stjórnin að heita?
Þingvallastjórnin sýnist mér hafa yfirhöndina. Það er ágætt nafn. Að sjálfsögðu er ég þó særður dýpra sári en orð fá lýst út af þeirri höfnun sem ég upplifði er mér varð ljóst að tillaga mín um nafngift hér í fyrri færslu hlaut litlar sem engar -- ég endurtek -- litlar sem engar undirtektir.
Ekki það ég sé eitthvað bitur út af því, en mig grunar auðvitað að nafngift sú -- uppstigningarstjórnin -- hafi reynst riddurum netheimanna, sem allir eru auðvitað meira og minna málhaltir út af áratuga löngum samvistum við lyklaborðið í daufri lampabirtu einsemdar sinnar, of óþjált í munni. En ímyndið ykkur til dæmis mann eins og Gunnar Eyjólfsson leikara og fyrrum skátahöfðinga segja þetta orð með tilþrifum: Uppstigningarstjórnin.
Ging gang gúlí gúlí.
Allt í lagi. Ég játa mig sigraðan. Þingvallastjórnin er þjálla. En fyrst menn eru farnir að spá í þetta svona mikið á annað borð, þá get ég ekki látið hjá líða að koma með ögn fleiri hugmyndir að heitum. Það er algengt að stjórnir öðlist nöfn sín út af kringumstæðum, staðsetningu viðræðna eða einhverju sem einkennir aðdraganda eða framkvæmd viðræðnanna.
Þannig vill Sigurður G. Tómasson skíra stjórnina Bleikjan, út af því að hann var að veiða í Þingvallavatni svoleiðis fisk á dögunum. Þetta finnst mér ekki sannfærandi. Af hverju á ríkisstjórnin að draga nafn sitt af fisktegund sem Sigurður var að veiða? Sé ekki tenginguna. Ef hins vegar formenn flokkanna hefðu brugðið sér út til þess að veiða í soðið hefði þetta steinlegið. Í því sambandi vil ég þó vekja athygli á því að í Þingvallavatni er önnur fisktegund líka mjög algeng: Murtan.
Það kann því augljóslega að fylgja því nokkur áhætta að ætla sér að nefna stjórnina eftir þeim fiski sem kæmi á stöngina. Urriðinn yrði heldur ekki gott nafn, þótt Össurri fyndist það kannski, enda hefur hann skrifað um það óhuggulega kvikindi bók.
Það má velta upp öðrum möguleikum. Taka smá brainstorm. Kasta upp nokkrum boltum: Í morgun var greint frá því í blöðunum að Samfylkingin hefði komið til viðræðna um helgina á Landcruiser. Landcruiser-stjórnin? Jafnframt var greint frá því að hann hefði verið leigður hjá Hertz. Gæti þá ekki Hertzstjórnin verið málið? Hljómar dáldið alþjóðlegt. Eitthvað töff við það. Skemmtilega þýskt, sem er alltaf traustvekjandi. Nú, og viðræðuhóparnir fengu sér kjúklingasamloku í hádegismat. Samlokustjórnin? Þorgerður Katrín kom með nammi. Nammistjórnin hljómar kannski of léttvægt fyrir ríkisstjórn, en það má kannski íhuga það samt.
Greint var frá því að Geir hefði séð kafara á göngu sinni og konu sinnar á sunnudagsmorgun. Kafarastjórnin meikar hins vegar ekki mikinn sens. Koss Ingibjargar og Geirs á tröppum Þingvallabústaðarins virkaði hins vegar meira sannfærandi sem undirstaða nafngiftar af myndum Fréttablaðsins að dæma. Kossstjórnin er hins vegar alveg afleitt nafn. Gjörsamlega afleitt.
Þannig að það er margt í þessu. Baugsstjórnin finnst mér út úr kú. Miðað við búsetu er mun líklegra að Ingibjörg og Geir versli í Melabúðinni. Melabúðarstjórnin væri hins vegar fáránlegt nafn líka.
Þingvallastjórnin. Ég sætti mig við það.
End of story.
Hins vegar er athyglisvert, fyrst það er verið að ræða þetta á annað borð, að fráfarandi ríkisstjórn bar ekkert nafn. Hvernig stendur á því? Hér eru tillögur: Íraksstjórnin væri nafngift sem andstæðingum hennar myndi hugnast, en svo gæti hún líka heitið í höfuðið á einum eftirminnilegasta frasanum sem ráðherra hennar lét út úr sér: Barn síns tíma.
Eða bara í anda Sigurrósar: Nafnlausa stjórnin.
18.5.2007 | 16:42
Uppstigningarstjórnin
Jæja, ekki er neitt útlit fyrir að mér verði að ósk minni um R-lista stjórn, en ósk mín var þó færð til bókar með færslu hér á síðunni í gærmorgun, rétt áður en tilkynning barst um að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hefðu hafið viðræður.
Ég áskil mér auðvitað allan rétt til þess að dæsa af krafti yfir þeim flumbrugangi leiðtoganna yst á vinstri væng sem kom í veg fyrir R-lista stjórnina strax á upphafsmetrunum. Eins og Róbert vinur minn Marshall orðaði það svo skemmtilega: Steingrímur J. virðist líta á sig eins og Múhameð spámann. Það má ekki teikna af honum skopmynd.
Nú er bara að vona að málefnasáttmáli nýrrar ríkisstjórnar verði okkur jafnaðarfólki ásættanlegur. Um það veit ég ekki neitt. Hér er tillaga að nafni, og ég er væntanlega ekki einn um hana: Uppstigningarstjórnin.
Stofnað var til viðræðna á uppstigningardag.
Ekki kannski þjálasta nafn í heimi en á móti kemur að samstarf við Sjallana er heldur ekki þjálasta hugmynd í heimi í huga margs Samfylkingarfólks.
En það má sjálfsagt gera gott úr þessu ef menn halda vel á spöðunum. Kannski uppstigningarstjórn vísi þá til ákveðinnar vegferðar upp á við fyrir íslenskt samfélag á næstu árum í kjölfar áhrifa okkar.
Hver veit.
Kveðja úr sveitinni.
17.5.2007 | 12:33
Stjórnarmyndun
Ég er einn af þeim sem vona enn þótt vonin verði vissulega veikari með degi hverjum að félagshyggju- og velferðaröflin í landinu setjist niður og myndi svokallaða R-lista stjórn.
Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni eru forsendur fyrir því að mynda slíka ríkisstjórn undir forsæti annars flokks en framsóknar. Það er sögulegt tækifæri eitt og sér.
Ingibjörg Sólrún leiddi slíkt samstarf farsællega í borginni í fjölda ára. Í slíkri stjórn á landsvísu yrði hún ekki bara fyrsti kvenforsætisráðherra Íslandssögunnar, sem yrði mikill áfangi, heldur yrði einstaklingur vinstra megin við miðju í fyrsta skipti forsætisráðherra í mjög langan tíma á íslandi.
Umboðið er líka skýrt: Samfylkingin státar af næst besta árangri vinstri flokks á Íslandi frá upphafi. Samanlagt fylgi vinstri flokkanna hefur líka sjaldan verið meira.
Það urðu mér því talsverð vonbrigði, sem frjálslyndum jafnaðar- og félagshyggjumanni, að sjá hversu herská Vinstri græn voru út í hinn lemstraða Framsóknarflokk strax að afloknum kosningum. Ég sá ekki betur en að VG legði sig fram um að skjóta þessa hugmynd niður eins fljótt og auðið var.
Mér fannst það sárt að horfa upp á slíkar aðfarir, ekki síst í ljósi þess að ég er m.a. alinn upp pólitískt í Röskvu og Reykjavíkurlistanum, þar sem umrædd öfl áttu og eiga enn í tilviki Röskvugott og árangursríkt samstarf.
Menn eins og Steingrímur J. sem vissulega vantar ekki mælskuna verða að passa sig, að láta ekki heiftina ráða för í pólitík á kostnað hugsjóna. Slík hegðan er heldur ekki ungu stjórnmálafólki á vinstri væng til góðrar eftirbreytni.
Lítum á hvað R-lista stjórn myndi gera, að mínu viti:
- Ísland yrði tekið af lista hinna staðföstu með þingsályktunartillögu. Ef ég þekki grasrót Framsóknarflokksins rétt yrði þetta ekki síst stór stund fyrir þann flokk og tímabært uppgjör á leiðindamáli.
- Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra yrði rækilega endurskoðað.
- Rammaáætlun um náttúruvernd yrði gerð. Þá þegar yrði tekin ákvörðun um verndun ýmissra náttúruperla eins og Langasjós.
- Tekin yrðu upp fagleg vinnubrögð við ráðningu í embætti á vegum hins opinbera.
- Þjóðareign auðlinda yrði sett í stjórnarskrá, og núna EKKI með illskiljanlegum undirgreinum.
- Biðlistum yrði eytt. Ráðist yrði í uppbyggingu hjúkrunarrýma.
- Heilbrigðiskerfið yrði kostnaðargreint og tregðulögmálum varanlega komið fyrir kattarnef.
- Laun umönnunarstétta yrðu leiðrétt til að koma í veg fyrir skort á starfsfólki. Þetta var gert í Reykjavík.
- Samráð í efnahagsmálum yrði stóreflt, við bæði verkalýðshreyfingu og atvinnulífið, með það að markmiði að ná niður verðbólgu og koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hagrannsóknir yrði að sama skapi efldar, t.d. með endurreisn Þjóðhagsstofnunar.
- Aðhald í ríkisrekstri yrði kærkomin nýjung sem og fagleg vinnubrögð að öllu leyti. Frávik frá áætlunum var innan við 1% öll árin sem R-listinn réði ríkjum í borginni.
- Ráðist yrði í menntaátak til þess að minnka brottfall í framhaldsskólum, með ókeypis námsbókum og fleiri aðgerðum.
- Nýsköpun yrði efld sem og hátækniiðnaður.
- Stimpilgjöld yrðu afnumin.
- Ráðist yrði í aðgerðir í skattkerfinu til að bæta hag hinna lægst launuðu, með endurreisn barnabóta, vaxtabóta og hækkun skattleysismarka. Þetta myndi leiða til þess að láglaunafólk hefði úr meiru að spila, sem aftur myndi skila sér út í hagkerfið (svo ég tali tungumál sem jafnvel hægri menn skilja).
Svona mætti lengi telja. Þetta yrði umbótastjórn. Félagshyggju- og velferðarstjórn. Og það sem meira er: Umhverfismálum yrði borgið í þessari stjórn, með tvo græna flokka og einn fyrrum grænan (sem vill gjarnan verða grænn á ný).
Áróður Sjálfstæðismanna hefur alla tíð, og ekki síst núna undanfarið, snúist um það að telja fólki trú um að ekki sé hægt að stjórna landinu án þeirra.
Það hryggir mína félagshyggjusál meira en orð fá lýst að til séu leiðtogar á vinstri væng íslenskra stjórnmála sem virðast vilja fátt annað í sinni pólitísku tilvist en að styrkja þá þvælu í sessi.
Ég skora á félagshyggjuöflin að setjast niður og ná samkomulagi um R-lista stjórn. Meirihlutinn er fyrir hendi. Málefnasamhljómurinn er fyrir hendi. Margt segir mér jafnframt að vilji tveggja flokka af þremur sé fyrir hendi.
Ef þetta tekst ekki og nú verð ég af augljósum ástæðum að beina orðum mínum sérstaklega til VG, því þar strandaði hugmyndin um liðna helgivil ég halda því fram að einn stærsti ósigur félagshyggjufólks á Íslandi og vinstri hugsjóna í þessu landi muni þarmeð líta dagsins ljós.
Enginn er betri dagur til þess að koma í veg fyrir slíkt en uppstigningardagur. Setjist nú niður, kæra félagshyggjufólk, hættið þessu dómsdagsrugli og rifrildi um tittlingaskít og klárið málið.
Ég er farinn upp í sveit.
Góðar stundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.5.2007 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.5.2007 | 17:19
Hroki hvað?
Núna er ég búinn að lesa það tvisvar í Mogganum, á tveimur dögum, að Ingibjörg Sólrún hafi verið svo rosalega hrokafull þegar hún talaði við Sjálfstæðisflokkinn daginn eftir kosningar að Sjálfstæðismenn margir gætu bara alls ekki hugsað sér að starfa með henni, út af þessum hroka.
Ég get ekki neitað því að ég á afskaplega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig þessi hroki á að hafa átt sér stað. Og nú er það líka svo, að ég þekki Ingibjörgu, þannig að ég á tvisvar sinnum erfiðara með að sjá þetta fyrir mér.
Ég spyr: Getur Mogginn vinsamlegast verið aðeins nákvæmari? Hvað gerðist?
Fór Ingibjörg fram á að vera þéruð?
Var hún í frönskum hefðarklæðum, með hvítt púður, og lét þjóna sína sjá um að tala?
Skellihló hún að öllu sem Geir sagði?
Gerði hún lítið úr menntun hans? Vaxtalagi? Skeggrót?
Hvað í ósköpunum á Mogginn við? Og hvurslags eiginlega fréttaflutningur er þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
15.5.2007 | 01:22
Hugmynd
Ein hugmynd að spinni fyrir Sjallana í vondri stöðu: Þessar útstrikanir á Birni Bjarna og Árna Johnsen voru í raun ekki útstrikanir heldur undirstrikanir. Kjósendur vildu leggja sérstaka áherslu á þessa menn.
Pæling.
Gæti virkað.
13.5.2007 | 12:27
Inn og út
Jæja, kæru vinir. Mér telst svo til að ég hafi farið inn á þing fjórum eða fimm sinnum í nótt, í samtals klukkutíma, einn og hálfan, og náði meira að segja að fella ríkisstjórnina tvisvar, sem var mikill heiður.
Meira spennandi gat líklega ekki kosninganótt orðið. Spurningar vakna vissulega um þetta jöfnunarsætakerfi. Ég verð að játa að ég var farinn að missa þráðinn. Spurning um að endurskoða þetta. Líklega ekkert vit í öðru en að hafa landið eitt kjördæmi.
Þetta ætti að verða fyrsta ályktun félags jöfnunarþingmanna. Ég gaf kost á mér í það embætti í nótt. Óvíst hvort ég held því embætti samt, utanþings.
Sárt þótti mér að sjá, þegar ég vaknaði í morgun, að félagi minn og vopnabróðir Róbert Marshall var dottinn út í Suðrinu. Því trúði ég ekki og þurfti nokkrum sinnum að ýta á refresh.
Ótrúlegur andskoti.
Við Árni Páll duttum á tímabili inn og út í kippum. Það var nokkuð ljóst að Árni þurfti að verða kjördæmakjörinn til þess að ég ætti sjens. Þegar síðustu tölur komu úr kjördæminu var niðurstaðan sú að Árni varð ekki kjördæmakjörinn.
Það munaði 156 atkvæðum, skilst mér.
Ég ætla að sjá til þess persónulega að þau atkvæði skili sér næst....
En það voru gleðitíðindi að Árni datt inn sem jöfnunarþingmaður undir morgunsárið. Annað hefði bara verið rugl.
Og þar með er ég orðinn 1.varaþingmaður. Það þýðir að ég verð, eins og í nótt, væntanlega, meira og minna, inni og úti á þingi...
Kominn með lag á heilann: Inn og út um gluggann, inn og út um gluggann.
Merkilegt: Mamma sagði við mig í gær, fyrir kosningavöku, að hana hefði dreymt töluna 26 18. Og hverjar urðu svo niðurstöður kosninganna fyrir Samfylkinguna: Jú. 26% og 18 þingmenn.
Berdreymnin í kvenpeningnum í minni móðurætt er nánast óhugguleg á köflum. Mér líður stundum eins og í Húsi andanna. Fljúgandi konur með grænt hár...
Sumarið er komið. Engin kosningabarátta lengur, þannig að ég get hætt að gyrða skyrtuna ofan í buxurnar. Látið hana flaksa.
Nei, ég segi svona.
Takk fyrir stuðninginn í þessu öllu saman, þið öll! Baráttan heldur áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
7.5.2007 | 14:24
Baráttusætið
Hér í horninu á síðunni í dálknum um höfundinn hef ég látið standa alveg síðan í nóvember að undirritaður sé í baráttusæti í Suðvesturkjördæmi. Núna loksins eru kannanir farnar að sýna að þetta er semsagt raunverulegt og satt. Ég er í baráttusætinu í Kraganum.
Stór könnun Gallup í kjördæminu mældi okkur með rétt tæplega 30% fylgi. Það þýðir að ég get farið að detta inn sem jöfnunarmaður.
Kannanir hingað til hafa nefnilega oft verið ansi óþægilegar út frá þessari pælingu með baráttusætið. Á tímabili voru nokkuð margar kannanir sem sýndu okkur með tvo til þrjá. Fimmta sætis maðurinn ég virtist utan leiksins.
En nú hefur þetta breyst. Og nú þarf ég alla aðstoð, kæru vinir!
Og líka frá þér, Dharma mín. Þið Sjallarnir þurfið góðan, glaðbeittan og harðvítugan andstæðing á þingi. Annars verður þetta bara leiðinlegt. Ég er viss um makar ykkar allra, foreldrar og vinir eru til í að kjósa mig ef þið bara hafið orð á því.
Hringja, segja frá, láta orðið berast!
Strákinn á þing.
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi