Leita í fréttum mbl.is

Málefnasáttmálinn

Þegar málefnasamningurinn hafði verið kynntur flokkstjórn á þriðjudaginn var höfðu nokkrir góðir og gegnir Samfylkingarmenn á orði að þeim þætti ótrúlegt að þetta væri sami málefnasamningurinn og hefði verið lagður fyrir Sjálfstæðismenn. Samhljómurinn við stefnu Samfylkingarinnar í öllum helstu málaflokkum hljómaði bara svona afskaplega skýr í eyrum þessa fólks, og þar á meðal í mínum verð ég að viðurkenna. 

En svo hitti í Sjálfstæðismenn á förnum vegi. Ég bjóst alveg eins við að þeir myndu kannski dæsa smá yfir örlögum sínum. En annað koma auðvitað á daginn. Þeir voru svona líka afskaplega ánægðir með þennan málefnasamning, og ekkert nema gott um það að segja. 

Málefnasamningur er dálítið skrítið plagg. Ekki er beinlínis um heimsbókmenntir að ræða eða prósa á háu stigi. Afdráttarleysinu í textanum er ákveðin takmörk sett. Fullyrðingagleðin er innan allra marka hófsemdar... Það er mikið af "áfram skal tryggja", "gæta þarf að", "stefnt skal að" og svo framvegis og fyrir þá sem ekki hafa fylgst með málefnavinnu flokka sinna og síðan með málefnavinnu ríkisstjórnar kann svona texti að virka andskoti þunnur. 

En það, eins og margir vita, eru aldrei tíðindi í málefnasamningi, að orðalag hans og stíll kunni að virka sem lapþunn slepja. Því má halda fram, að til þess sé beinlínis ætlast.  Þetta er í eðli sínu stofnanaplagg. 

Kúnstinn við að lesa málefnasamning felst hins vegar í því að kunna að sjá tíðindin sem falin eru í textanum. Að gerð hans koma afskaplega margir. Hvert orð skiptir máli. Munurinn á "tryggja skal stöðugleika" og "tryggja skal áframhaldandi stöðugleika" verður til dæmis afskaplega mikill í þessari vinnu svo eitt dæmi af handhófi sé tekið. 

Og nú ætla ég að nefna það í textanum sem ég tel vera afskaplega gott og gerir mig ánægðan, svona við fyrsta lestur.  

Ég kann vel við að þetta sé "frjálslynd umbótastjórn" eins og segir í sáttmálanum. Áhersla á jafnvægi í efnahagslífinuu, lága vexti og verðbólgu er mikil og svo yljar það mér um hjartarætur hversu mikil áherslan er strax í upphafi samningsins á menningu og nýsköpun. Hið kristaltæra markmið um eflingu hátækniiðnaðar glóir t.d. þarna sem gimsteinn í textaflóðinu, óumdeilt. 

Og það gerir líka endurskoðun almannatryggingakerfisins, sem var auðvitað baráttumál sem Samfylkingin setti á oddinn í síðastliðnum kosningum, sem og áherslan á málefni barna annars vegar og eldri borgara hins vegar. Þessu er öllu saman borgið í sáttmálanum og vel það.

Svo er skattastefnan í takt við okkar hugmyndir, með hækkun persónuafsláttar og barnabóta og afnámi stimpilgjaldanna. Tannvernd verður ókeypis og komið verður á stuðningi við kaup framhaldsskólanema á skólabókum. Jafnréttiskaflinn er líka ansi hreint merkilegur og felur í sér mikil framfaraskref. 

Það er enginn spurning að þessi málefnasáttmáli gefur færi á því að ráðast í það af fullum krafti að bæta hag heimilanna, koma á meiri jöfnuði og meira réttlæti á Íslandi. Allt tal um að þetta sé "hægristefna" er ósannfærandi.  Þarna blása vissulega frjálslyndisvindar, en það er kærkomið.

Svo eru það umhverfismálin. Beinlínis er kveðið á um vernd vissra mikilvægra svæða og svo á að klára rammaáætlun um náttúruvernd og skipa henni lögformlegan sess. Þetta eru allt saman mikil tíðindi. Og Langasjó og Þjórsárverum er bjargað. 

Ekki er talað um stóriðjustopp, en kannski féllst okkar fólk á það, vegna þess að Samfylkingin mun jú fara með framkvæmdavaldið í þessum málaflokki og hafa þar með sitt um það að segja hvað verður gert á næstu árum. Umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið eru bæði á okkar könnu.  

Svo getur maður tekið nokkrar setningar í heild sinni sem hljóma líkt og úr munni Bastíans bæjarfógeta í lokin á Kardimommubænum: 

"Trúfélögum verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra." 

"Tryggður verði réttur launafólks til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs."

"Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu."

"Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak". 

Allar þessar setningar fela í sér mikil tíðindi. 

En auðvitað er það rétt að svona málefnasamningur er almennt plagg. Báðir flokkarnir eru ánægðir með það, sem er gott.  En nánari útfærslur á öllum þessum málum er svo að finna í stefnuskrám flokkanna.

Við förum með samgöngumál, byggðamál, iðnaðar-, umhverfis, sveitastjórnar-, neytenda-, samkeppnis- og verðlagsmál, utanríkismál,  málefni eldri borgara og almannatryggingakerfisins, sem og velferðarmál í sinni víðustu mynd í þessari ríkisstjórn. 

Málefnasáttmálinn er fyrirtaks grunnur, frá sjónarhóli Samfylkingarinnar, til þess að koma okkar mikilvægu baráttumálum í framkvæmd, og við erum einnig með ráðuneytin til þess. 

Þá er bara að hefjast handa.

Til hamingju með nýja frjálslynda umbótaríkisstjórn. Hún er líklega að setjast til borðs á Bessastöðum nákvæmlega núna.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta verður hægristjórn-dauðans. Samfylking tapaði fylgi til VG því þið töpuðuð trausti sem vinstriflokkur. Þá héldu flestir vinstrimenn að þið væruð, eins og svo kom í ljós, eins og þið eruð: Hægriflokkur með rautt lógó.

Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 14:52

2 Smámynd: Þórbergur Torfason

Sæll Guðmundur. Þú eins og allir aðrir frambjóðendur samfylkingar, sóruð að afmá nafn Íslands af lista hinna viljugu þjóða. Fyrsta verk nýráðins utanríkisráðherra er að svíkja þetta margsvarða loforð úr hvopti ykkar allra, þar með talið þínum. Ef efndir kosningaloforða ykkar verða ekki beisnari en þetta, getið þið eins kvatt stjórnarráðið strax því kjörnum þingmönnum ykkar verður einfaldlega sagt upp störfum fyrirvaralaust. Þeir fengu þessa vinnu tímabundið vegna fjálglegra loforða í kosningabaráttunni og er eins gott að standa við þau. Ekki meiri svik við kjósendur ykkar, ekki meiri framsóknarpólitík í bili 12 ár er yfrið nóg. Kjörnir þingmenn samfylkingar verða að átta sig á, hvers vegna þeir fengu þó þetta mörg atkvæði. Verða efndirnar á loforði formannsins um endurskoðun eftirlaunalaganna í þessum takti?

Þórbergur Torfason, 24.5.2007 kl. 15:13

3 identicon

Þú ert allt of gagnrýnislaus á þennan stjórnarsáttmála Guðmundur. Þú ættir að setja þig svolítið í heimspekilegar pælingar þá ert þú á heimavelli.Málið er að stjórnarsáttmálin er mjög óljós. En ef  reynt er að finna einhverja ljósa punkt, í þessari ríkisstjórn þá er Jóhanna og endurreisn velferðakerfisins kannski það eina sem er hægt er að réttlæta. Jóhanna hefur sterka réttlætiskennd og betri manneskju er varla hægt að finna í embætti félagsmálaráðherra. Nú utanríkisráðherra fer með atkvæði okkar á þingi Sameinuðu þjóðanna. Það væri tilbreyting að við hættum að verða aftaníossar kanans á þeim vettvangi. Þó má kannski nefna það að karl föður þinn reyndi að sýna smá sjálfstæði sem vakti upp hörð viðbrögð frá íhaldinu. Mátti ekki einu sinni tala við Arafat.

En annað virðist óbreytt og finnst mér Samfylkingin ekki fara vel út úr ráðuneytisskiptingunni. Og hvorki tókst að taka okkur af lista hina viljugu þjóða og stóriðjuvitleysan á að halda áfram. En þér til upplýsingar vil ég benda þér á að 80% starfsmanna álvers eru ófaglærðir og strípuð grunlaun verkamanns í álveri eru 145 þúsund krónur. Og aukin einkavæðin í heilbrigðiskerfinu liggur í loftinu.

En ég skal taka ofan af fyrir stjórninni ef það verður fyrsta mál á dagskrá þingsins í næstu viku að byggðar verði 500 íbúðir fyrir aldraðra. Ekki á morgun eða stefnt skal að, eða gert er ráð fyrir heldur strax. Þá veit ég að eitthvað er að gerast. Og þá veit ég að jafnaðrmenn eru komnir í stjórn. Fyrsta prófið sem stjórnin fer í verður í næstu viku það verður fylgst vel með.

Sigurður H. Einarson (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 18:35

4 Smámynd: 365

Guðmundur, forsætisráðherra og utanríkisráðherra eru ekki á sama máli um Norðlingaölduveitu, hvað er að ske?  Allt í loft upp á fyrstu klukkutímunum í samstarfi?

365, 24.5.2007 kl. 21:15

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Stjórnarsáttmálin er fínn.  Alveg óþarfi að þrasa um hvert einasta atriði i margar daga eins og gert var í gamla daga í stjórnarmyndunarviðræðum. Formennirnir voru reglulega sniðugir að hafa þetta svona almennt.  Það verður spennandi að sjá hvernig vinnst úr spilunum.  

Þórdís Bára Hannesdóttir, 24.5.2007 kl. 23:08

6 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Rétt hjá þér Gísli. Og ég skrifaði hér einmitt líka langa færslu um það að ég vildi frekar R-lista stjórn, þannig að ég sagði þetta nú ekki bara við þig persónulega.

Það varð hins vegar ekki R-lista stjórn af kunnum örsökum. Og þannig er það bara.

"Himinlifandi með stjórnina". Mér finnst hún byrja vel já, og framar mínum vonum. Það segi ég ekki síst vegna þess að ég sé forsendur fyrir því að við getum komið okkar stefnumálum í framkvæmd með glans, eins og ég útlista hér að ofan. Fátt í stjórnarsáttmálanum ætti að koma í veg fyrir það. Mér finnst sáttmálinn fínn, og á köflum barasta afskaplega fínn. 

En þetta er að sjálfsögðu bara sáttmáli. Orð, setningar. Stundum full loðið allt saman, já já. Rétt er það. En svona eru sáttmálar. Nú er að láta verkin tala og það verður að sjálfsögðu á endanum stóri dómurinn yfir okkar frammistöðu.

Varðandi þína athugasemd, 365, hér að ofan, um Norðlindaöldu.  Ég treysti henni Þórunni vinkonu og náttúruverndarfólki í báðum flokkum til þess að vernda Þjórsárver frammí ystu votlönd, eins og stendur blessunarlega  í stjórnarsáttmálanum.

Og varðandi Írak: Flokkarnir eru ósammála um þetta. Það lá fyrir og liggur fyrir. Samfylkingin vill taka Ísland af lista hinna staðföstu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað það.

Ríkisstjórnin varð til þrátt fyrir þennan ágreining. 

Það má hins vegar alls ekki, og bara hreint ekki, gera lítið úr því, að einmitt í ljósi þessara skiptu skoðana er hér stigið mjög mikilvægt skref: Fyrri stjórn studdi stríðsreksturinn. Þessi stjórn harmar hann. 

Það er breytingin. Og mér finnst það góð breyting. 

Og Sveinn Elías: Mér sýnist þú svara meintu kjaftæði, sem þú kallar svo, með nýju meti  hvað einmitt slíkt varðar. 

Góðar stundir og slakið nú á, kæru vinir og njótið lífsins! Hin frjálslynda umbótastjórn lofar góð og engin ástæða til að vera í fýlu, nema kannski maður sé í VG eða í framsókn, en þá eru menn líka í fýlu út af öðru. Hvorugur flokkur vill nefnilega vera með hinum í stjórnarandstöðu. 

Hvílík meinhæðni örlaganna þar. 

Guðmundur Steingrímsson, 25.5.2007 kl. 01:53

7 Smámynd: Ólafur Örn Ólafsson

"Tryggður verði réttur launafólks til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs"

Er einhver furðulegasta setning sem ég hef séð lengi. Gerir ekki mikið til þess aðafnema launaleynd líkt og samfylkingin lofaði fyrir kosningar. Þetta er svona í dag, það er undir hverjum og einum komið hvort hann deilir launakjörum sínum með öðrum og það eru, og verða áfram, þeir sem eru að fá hærri laun sem ræða þau ekki við aðra. Ég sé ekki mikil tíðindi þar.

Ólafur Örn Ólafsson, 25.5.2007 kl. 08:38

8 identicon

Ólafur Örn

Þessi setning er grundvallaratriði sem þýðir að það verður ólöglegt að meina launafólki að segja frá launakjörum sínum. Í dag þurfa fjölmargir að undirrita trúnaðarklásúlur um launin sín í ráðningarsamningum og mega þá væntanlega sæta afleiðingum þess ef þeir rjúfa þann trúnað. Meðan heimilt er að skerða tjáningarfrelsi launafólks á heilu vinnustöðunum með slíkum hætti er það fjarri því undir hverjum og einum komið hvort hann deilir launakjörum sínum með öðrum.

Eftir að ríkisstjórnin hefur framfylgt ákvæðinu í stefnuyfirlýsingu sinni hafa svona ákvæði ekkert gildi því óheimilt er að meina launafólki að tala opinskátt saman um sín launakjör ef það svo kýs.

Þá gæti t.d. komið upp úr dúrnum að sá sem beðinn var að ræða ekki launin sín við aðra og hélt að það væri svo aðrir færu ekki að öfundast út í hans háu laun, gæti verið með lægstu launin á staðnum án rökstuðnings.

Arnar (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 10:20

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Loksins sérð þú, að við Íhaldsmenn erum ekki nien helvítis skrímsli.

Við erum í raun afar þjóðlegur umbótaflokkur, með eðlilegar áherslur á hjálp við  þá sem minna mega sín.

Menning okkar krefst ákveðins jöfnuðar og svo höfum við unnið í alla þá áratugi, sem við höfum verið til.

Síðast þurfti þáverandi formaður okkar að líða stórfelldar árásir, vegna þess, að hann taldi ástæður til, að staldara við og athuga fákeppni á markaði.

Við höfum ætíð farið eftir þeirri grundvallarhugsjón, að frelsi eins mætti aldrei verða helsi annars.

Erum frelsiselskandi flokkur en vitum að stundum getur frelsi eins takmarkað verulega frelsi annars.  Þarna verða stjórnvöld ætíð að halda vöku sinni.

Orwell benti á þá staðreynd, að Sósarnir vilja oft gleyma þessu og þa´verða sumir jafnari en aðrir.

Kærar kveðjur

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 25.5.2007 kl. 11:59

10 identicon

Hvernig tekið verður á eftirlaunaforréttindum alþingismanna og ráðherra verður hægt að hafa til marks um gæfu eða gæfuleysi þessarar ríkisstjórnar.

Alþingismenn eiga ekki að krafsa undir sig forréttindi í lífeyrismálum, ekki frekar en þeir ættu að njóta sérstakra réttinda í heilbrigðiskerfinu eða skattkerfinu. Þeir eiga að búa við sömu lífeyrisréttindi og aðrir opinberri starfsmenn. BASTA.

Verði einhverjar hundakúnstir hafðar uppi í þessum efnum, þá verða hinir nýju ráðherrar Samfylkingarinnar afskrifaðir snimmendis. Þá er Samfylkingin ekki jafnaðarflokkur heldur ójafnaðar og forréttindahyggju.

Margir bíða spenntir, og þingmenn Samfylkingarinnar þurfa sannarlega aðhald í þessum efnum.

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 12:22

11 identicon

Ólafur Örn, þú misskilur launaleynd. Afnám launaleyndar felst ekki í því að vinnuveitendum verði gert skylt að gefa upp laun allra starsmanna sinna, heldur einmitt að þeim verði meinað að setja það sem skilyrði í ráðningarsamninga að launþegi verði að þegja um laun sín. Það er nákvæmlega það sem segir í málsgreininni "Tryggður verði réttur launafólks til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs."

Stígur Helgason (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 13:58

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér sem íhaldsmanni hefur oft sárnað ómálefnaleg gagnrýni stjórnarandstöðuflokkanna, en ég held að svo sé bara eðli stjórnarandstöðuflokka að krydda eins vel og hægt er. Ég ætla ekki að erfa neitt við Samfylkinguna, tel að þetta geti orðið ágætis stjórn.

Þessi söngur í VG-fólki verður sjálfsagt þreytandi til lengdar og þá áttar Samfylkingarfólk sig væntanlega á því hvað Framsóknarmenn máttu þola. Við Sjálfstæðismenn stöndum íhugulir hjá en skerumst í leikinn ef þurfa þykir. Ég held að Samfylkingin muni standa betur af sér glefsið í stjórnarandstöðunni en Framsóknarflokknum auðnaðist, enda fjölmennari þingflokkur með stærri hluta þjóðarinnar á bak við sig, sérstaklega af Suð-Vesturhorninu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.5.2007 kl. 22:42

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég stend við það sem ég sagði í Speglinum daginn sem stjórnarsáttmálinn var birtur: Það vantar í sáttmálann þessi fjögur orð: Hætt verði við Norðlingaölduveitu.

Engu er að treysta meðan þetta liggur ekki fyrir, Geir Haarde getur vitnað í það að ekkert standi um um Norðlingaölduveitu í sáttmálanum og Landsvirkjun hampar virkjunarleyfinu.

Ég tek hins vegar undir orð þín um Þórunni Sveinbjarnardóttur sem ég mun ævinlega dá fyrir það hugrekki að láta ekki beygja sig til hlýðni við Kárahnjúkavirkjun á þeim tíma sem það var talið lífsnauðsyn fyrir Samfylkinguna til þess að verða "stjórntæk."

Þegar tímar líða fram mun sá viðsnúningur vindhanans sem obbinn af Samfylkingunni viðhafði í þessu máli verða talinn sá botn sem flokkurinn náði á vegferð sinni.

En nú er bara að horfa fram á við og ég óska nýrri og öflugri ríkisstjórn velfarnaðar af heilum hug. Ég held að stjórn Sjallanna og VG hefði ekki náð meira fram í umhverfismálum.

Í því sambandi nægir að minna á hin örvæntingarfullu ummæli Steingríms J. Sigfússonarar í viðtali á Stöð tvö miðvikudaginn í stjórnarmyndunarvikunni að auðvitað myndi VG sætta sig við málamiðlun í stóriðjumálunum og samþykkja það sem komið væri af stað.

Sem sagt: Álver á Bakka og í Helguvík. Nú er bara að treysta á að Þórunn láti Össur ekki lúffa eins og hann gerði 2002.

Ómar Ragnarsson, 26.5.2007 kl. 01:19

14 identicon

Ég er þeirrar skoðunar að öll sú barátta í umhverfismálum sem staðið hefur linnulítið frá upphafi Kárahnjúka ,þar sem valtað var yfir allt og alla sem ekki fylgdu stjórnvaldslínunni, hafi skilað miklum árangri.

Það er alveg ljóst í þessum málefnasamningi ríkisstjórnarflokkanna að þá er þungamiðjan að skapa þjóðarsátt um verndun og nýtingu orkuauðlinda okkar. Það má öllum ljóst vera að þær þrjár meginauðlindir okkar þ,e sjávarauðlindin, mannauðlindin og orkuna verðum við að hagnýta okkur... það þarf bara að vanda vel til verka . Síðasta ríkisstjórn fór offari en barátta umhverfissinna, sem eiga heima í öllum stjórnmálaflokkum ,hefur skapað gjörbreitt hugarfar... Þau 15 þúsund sem gengu með Ómari og frú Vigdísi niður Laugaveginn og á Austurvöll sl haust eru minnivarði um þessa baráttu ...þjóðarsálinni var misboðið og mótmælti kröftuglega og hafði sigur.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 22:42

15 Smámynd: Kristján Pétursson

Þar sem sjávarútvegsmálin hafa fengið lítið rými hjá stjórnarfl.hef ég talið áhugavert að mynna á , að þessi atvinnuvegur er enn okkar stærsti.Hef boggað tvær greinar um þennan málaflokk,sem ég hvet menn að lesa og gefa álit sitt á.Hér er um nýjar leiðir til að brjóta þessi spillingarmál upp.

Kristján Pétursson, 27.5.2007 kl. 23:09

16 Smámynd: Björn Viðarsson

Sævar, hvað varð um þennan mikla fjölda sem ofbauð á kjördag? Af hverju nær Ómar ekki inn? Og hvernig var valtað yfir allt og alla? Lýðræðislega kjörin ríkisstjórn leggur málið fyrir alþingi sem samþykkir.

Hvar var valtað yfir einhvern?

Á háværi minnihlutinn að geta hnekkt öllum ákvörðunum með tímabundinni múgæsingu í 101? Hefði þá ekki verið valtað allhressilega yfir meirihlutann og byggðirnar?

Þegar ákvörðun er lýðræðislega tekin þá á að fylgja henni á meðan forsendunar hafa ekki breyst. Annars er lítill tilgangur með þessu.

Tilfinningar virðast loka á alla rökhugsun hjá sumu fólki. 

Björn Viðarsson, 29.5.2007 kl. 11:34

17 identicon

Sæll Björn

Þú spyrð hvað varð um þennan mikla fjölda sem ofbauð,á kjördag :

Sú mikla barátta umhverfisvendarfólks sem staðið hafði linnulítið í rúmt ár og hafði drifkraftinn frá Kárahnjúkamálinu og nánast einskorðaði umræðuna í þjóðfélaginu við umhverfismálin, það fékk ákveðna útrás og sigurtilfinningu þegar úrslitin um stækkun Alcan í Straumsvík lágu fyrir... eftir það fór svona hver til" síns heima",nema framsóknarmenn ... og snéri sér að því að sinna almennum kosningamálum.

Var valtað yfir einhvern :

Fjöldi virtra og mætra vísindamanna sem að undirbúningi Kárahnjúka kom getur og hefur vitnað um þau vinnubrögð sem viðhöfð voru , að valtað hafi verið yfir mál sem snéru að grundvallarþáttum sem virkjanagerð af þessum toga á að hafa í hávegum... sem dæmi nefni ég skýrslu sem stungið var undir stól í Iðnaðarráðuneytinu og fjallaði um eldvirkni og sprungusvæði..það var ruðst áfram og tilgangurinn helgaði meðalið. Þessari skýrslu var haldið frá alþingismönnum.

Þegar 15 þúsund mann finna ríka þörf hjá sér til að mótmæla þér er það ekki neinn lítill mannsöfnuður. Ég sá í þessum hópi m.a þungavigtarfólk frá stóriðjuflokkunum sem svo voru nefndir, mjög virtir borgarar. Auðvitað hafði mótmælaganga Ómars og frú Vigdísar sterk og öflug áhrif um það þarf ekki að deila. Fólki var misboðið.

Nú eru breyttir tímar og það er vel... Ég vona Björn að við getum verið sammála um það að ætíð skuli vanda til verka. Það er bjart framundan

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 12:53

18 Smámynd: Þórbergur Torfason

Ég sé að hér fara skoðanaskiptin fram. Talað er um lýðræðislegar aðferðir við ákvarðanatökur o.s.frv. Það hlýtur að teljast til merkari viðburða seinni tíma hvernig Ingibjörg Sólrún getur komð fram eftir að búið er að semja einhverskonar texta við lag samið af sjálfstæðismönnum og er kallað stjórnarsáttmáli. Ég gæti trúað að þessi texti hefði fengið nafnið öfugmælavísa í Suðursveit fyrr á árum. Ómerkilegri aðferð við að fiska atkvæði og hía svo á stuðningsaðilana hefur ekki verið stunduð í íslenskri pólitík svo lengi sem ég hef fylgst með. Ég bíð spenntur eftir frumvarpinu frá samfylkingunni um afnám eftirlaunalaganna sem eiga sér ekki líka norðan Miðjarðarhafs. Glamúrræður frambjóðenda samfylkingar fyrir kosningarnar gáfu þeim þau atkvæði sem dugðu til að koma þeim á þann stall sem þeir eru á í dag. Ekkert annað afl varð til þess að þeir voru kosnir. Það að byrja ferilinn sem ráðherra á að gefa kjósendum sínum langt nef er mjög þungbært og verður hvorki gleymt né grafið. Af lista viljugra, margtuggið af öllum þeim frambjóðendum samfylkingar sem ég heyrði í fyrir kosningarnar. Guðmundur, ég las flesta ef ekki alla bakþanka þína og man marga þeirra nokkuð orðrétt. Mundu þegar þú kemst á atkvæðatakkana á hinu háa alþingi, hvor takkinn þýðir já og hvor nei.

Þórbergur Torfason, 29.5.2007 kl. 18:59

19 identicon

Ágæti Jón Kristófer

Nú er vor í lofti og vorinu fylgir von og eftirvænting . Við vinnum vorverkin og sáum í trausti þess að uppskera ríkulega að hausti, en það þarf samt að sinna vextinum og viðganginum allan tímann.

Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í landinu. Vorverkin hafa verið unnin, málefnasamningur hefur verið samþykktur og stefnt er á góða uppskeru á kjörtímabilinu. Allar ríkisstjórnir  á Íslandi eru samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka. Ljóst má vera að við þær aðstæður nær enginn öllu sínu fram hvaða nafni sem þeir kenna sig við. 

Þetta þýðir að ítrustu óskir innan flokka ná ekki allar fram að ganga. Þannig er nú bara lýðræðið hvort sem okkur líkar það betur eðe verr.

Mér finnst þú, Jón Kristófer, vera full óþolinmóður  þegar þú segist ekki sjá fyrir þér neina breytingu á gjörðum þessarar nýju ríkisstjórna og þeirrar sem var að skilja við. Hún er nú aðeins búin að sitja í fáeina daga.

Varðandi nýtingu orkuauðlinda okkar þá hefur okkur þegar á heildina er litið tekist mjög vel til..ég nefni upphitun húsa með heitu vatni.

Framleiðsla raforku var í upphafi mjög veikburða, en með Búrfellsvirkjun var blotið blað, samið var við stórnotanda til kaupa á raforku til langstíma þannig að við sjálf gætum fengið nægjanlegt rafmagn fyrir okkur með miklu öryggi.. Þetta var nú upphaf stóriðju.

Nú malar Búrfellsvirkjun "gull" í ríkiskassan dag og nótt.

Auðvitað verðum við að nýta orkuauðlindirnar okkar í vaxandi þjóðfélagi. En meginágreiningurinn hefur verið ...hvernig við gerum það.  Við byggingu Kárahnjúkastíflunnar urðu kaflaskil, þjóðin skiptist í tvær andstæðar fylkingar með og á móti... það var stríð.

Við myndun þessarar ríkisstjórnar er í málefnasamningi tekið á þessum vanda...  Þeir sem vilja virkja allt sem virkjanlegt er, ná ekki sínu fram og þeir sem ekkert vilja virkja ná heldur ekki öllu sínu fram. Gerð verður rammaáætlun þar sem skilgreind verða virkjanaheimildir og hvar náttúran vegur þyngra... Góð byrjun sem sýnir breytinguna er tafalaus friðun á Langasjó svo dæmi sér tekið . Það er svona vorverk.

Ekki verður framhjá því horft að nokkur virkjanaáform eru langt komin og ekki skynsamlegt að kasta þeim verðmætum fyrir róða, en það sem öllu skiptir er að ný rikisstjórn er ákveðin í því að taka upp ný vinnubrögð og athafnir í orkunýtingu...Jón Kristófer, spyrjum við lok kjörtímabilsins...hvernig er uppskeran 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 19:15

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Neitar þú því Jón Kristófer að Steingrímur J. hafi boðið afslátt á stóriðjustoppinu, bara ef hann kæmist í ríkisstjórn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.5.2007 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband