Leita í fréttum mbl.is

Inn og út

Jæja, kæru vinir. Mér telst svo til að ég hafi farið inn á þing fjórum eða fimm sinnum í nótt, í samtals klukkutíma, einn og hálfan, og náði meira að segja að fella ríkisstjórnina tvisvar, sem var mikill heiður. 

Meira spennandi gat líklega ekki kosninganótt orðið. Spurningar vakna vissulega um þetta jöfnunarsætakerfi. Ég verð að játa að ég var farinn að missa þráðinn. Spurning um að endurskoða þetta. Líklega ekkert vit í öðru en að hafa landið eitt kjördæmi.

Þetta ætti að verða fyrsta ályktun félags jöfnunarþingmanna. Ég gaf kost á mér í það embætti í nótt. Óvíst hvort ég held því embætti samt, utanþings. 

Sárt þótti mér að sjá, þegar ég vaknaði í morgun, að félagi minn og vopnabróðir Róbert Marshall var dottinn út í Suðrinu. Því trúði ég ekki og þurfti nokkrum sinnum að ýta á refresh. 

Ótrúlegur andskoti.  

Við Árni Páll duttum á tímabili inn og út í kippum. Það var nokkuð ljóst að  Árni þurfti að verða kjördæmakjörinn til þess að ég ætti sjens. Þegar síðustu tölur komu úr kjördæminu var niðurstaðan sú að Árni varð ekki kjördæmakjörinn. 

Það munaði 156 atkvæðum, skilst mér.

Ég ætla að sjá til þess persónulega að þau atkvæði skili sér næst....

En það voru gleðitíðindi að Árni datt inn sem jöfnunarþingmaður undir morgunsárið. Annað hefði bara verið rugl. 

Og þar með er ég orðinn 1.varaþingmaður. Það þýðir að ég verð, eins og í nótt, væntanlega, meira og minna, inni og úti á þingi...

Kominn með lag á heilann: Inn og út um gluggann, inn og út um gluggann.

Merkilegt: Mamma sagði við mig í gær, fyrir kosningavöku, að hana hefði dreymt töluna 26 18. Og hverjar urðu svo niðurstöður kosninganna fyrir Samfylkinguna: Jú. 26% og 18 þingmenn.

Berdreymnin í kvenpeningnum í minni móðurætt er nánast óhugguleg á köflum. Mér líður stundum eins og í Húsi andanna.  Fljúgandi konur með grænt hár...

Sumarið er komið. Engin kosningabarátta lengur, þannig að ég get hætt að gyrða skyrtuna ofan í buxurnar. Látið hana flaksa. 

Nei, ég segi svona.  

Takk fyrir stuðninginn í þessu öllu saman, þið öll!  Baráttan heldur áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða  Þórðar

Til lukku, þú tókst þig rúmlega flott út

Heiða Þórðar, 13.5.2007 kl. 13:05

2 Smámynd: Depill

Já það þarf að gera landið að einu kjördæmi. Sé næstum soldið eftir því að hafa flutt ekki lögheimilið mitt upp í sveitina okkar. Hún er í norðvesturkjördæmi.

Þar þurfti rúmlega 2020 atkvæði á bakvið hvern mann

En það þurfti 3830 atkvæði á bakvið hvern mann í mínu kjördæmi í suðvesturkjördæmi.

Er það í alvörunni eðlilegt að atkvæði þeirra sem búa í Norðvestur kjördæmi gilda rúmlega tvöfalt á við mitt?

 Ennfremur finnst mér þetta jöfnunarmanna kerfi alltof flókið fyrir venjulegt fólk til að skilja. Eitt kjördæmi næst.

Depill, 13.5.2007 kl. 13:42

3 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Já, svona fór það og maður þarf að kyngja því. Tekur tíma..en hefst að lokum. Kannski hristir xS upp í XD..kannski ekki?

Rúna Guðfinnsdóttir, 13.5.2007 kl. 14:03

4 Smámynd: Gísli Hjálmar

Já Guðmundur ... mikið skelfing finnst manni lífið stundum ósanngjarnt.

Mér finnst það ósanngjarnt að þú og Róbert komust ekki á þing fyrir okkur jafnaðarmenn - kannski eigum við að þakka Ómari og félögum það ..?

Ég reyndar skildi það framboð aldrei almennilega. Hvers vegna var ekki hægt að nota kraftana í einhverjum flokknum og styrkja þannig stjórnarandstöðunna. 

Nei! Heldur var hlaupið til handa og fóta og stofnaður flokkur sem að öllum líkindum bjargaði ríkisstjórninni - sem átti upphaflega að vinna gegn!

Við tökum þetta bara næst ...

Gísli Hjálmar , 13.5.2007 kl. 14:35

5 Smámynd: Linda

Hvað sem skeður þá börðust þið góðri barátta. Ætli sjálfstæðisupparnir  vilji fara í stjórnarsamstarf við samfó? og ef svo verður ætli samfó sé nógu sterkt til þess að fá lykil ráðherra stöður?.  Enn allt kemur þetta í ljós.  Þú stóðst þig frábærlega

Linda, 13.5.2007 kl. 15:03

6 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Sæll Guðmundur, þrátt fyrir að vera Framsóknarkona vil ég segja að það hefði verið sómi að þér á þingi því þú ert og verður afburða stjórnmálamaður að mínu mati. Þú hefur það nú ekki langt að sækja enda hefur faðir þinn alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér frá því ég var mjög ung. Það hefði verði betra að þú hefðir haldið inni en margur annar í nótt því sem persóna átt þú fullt erindi á Alþingi.

Kristbjörg Þórisdóttir, 13.5.2007 kl. 16:03

7 identicon

Ég sé að Dharma er kominn á fætur og bara rogginn...enn sem komið er.

Hvað með samstjórn Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar ? Það gekk vel í Reykjavík forðum 12 ár samfellt og gerði marga góða hluti... þessir flokkar eru með 34 alþingismenn.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 16:04

8 Smámynd: Magnús Már Guðmundsson

Sæll félagi Gummi.

Mögnuð kosningavaka. Hefði gjarnan viljað sjá þig inni sem og Marshall. Það er líf eftir kosningar. Þar af auki verður kosið á nýjan leik eftir fjögur ár - jafnvel fyrr.

Bestu þakkir fyrir brilliant kosningabaráttu og góð kynni. Sjáumst í baráttunni.

Magnús Már Guðmundsson, 13.5.2007 kl. 16:43

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Dharma !  Að tala svona um annað fólk, og þora ekki að koma fram undir nafni, er ofboðslega lítilmannlegt.  Skammastu þín ! 

Anna Einarsdóttir, 13.5.2007 kl. 16:48

10 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Guðmundur, mikið andsk. er það fúlt að þú og Marshall skulið ekki hafa verið inni, það er náttúrulega eitthvað alvarlegt að þessu kosningakerfi. Breytingin frá 8 kjördæmum yfir í 6 átti að verða til þess að jafna atkvæðamagn á bak við hvern þingmann en enn og aftur þurfum við í Suðvestur, að líða fyrir það að hafa helmingi fleiri atkvæði á bak við okkar þingmenn heldur en kjósendur í norðvestur kjördæmi. Það sama var uppi á teninginum í fyrra kerfi þar sem kjósendur í Reykjaneskjördæmi þurftu helmingi fleiri atkvæði á bak við hvern þingmann heldur en t.d. kjósendur á Vestfjörðum og gott ef ekki á Norðurlandi vestra líka! 

Landið á að vera eitt kjördæmi og ekkert rugl!

Mér fannst Samfylkingin standa sig vel í kosningabaráttunni, það var jákvæður andi í hópnum, þið voruð ákaflega málefnaleg og áttuð góðar rispur í flestum ef ekki öllum þeim umræðuþáttum sem ég sá í baráttunni. Auglýsingarnar og auglýsingaefni Samfylkingarinnar var líka jákvætt og greinilegt að þau málefni sem Samfylkingin lagði áherslu á eru þau mál sem varða fólkið í landinu. Það kristallaðist líka í baráttu hinna flokkanna sem sóttu stöðugt meira til hugmynda jafnaðarmanna í sinni baráttu.

Guðmundur, þú átt nóg eftir, þessa reynslu setur þú í reynslubankann og kemur síðan í næstu baráttu hress, kátur og reynslunni ríkari.

Áfram Gummi - "Það er aðeins einn flokkur á Íslandi!"

Ingibjörg Hinriksdóttir, 13.5.2007 kl. 17:30

11 identicon

Til hamingju með varaþingmannssætið Guðmundur, þó þú hefðir að sjálfsögðu mátt ná inn!

Þessi jöfnunarþingmannasirkus í nótt sannar hversu hræðilega brenglað kosningakerfið er. Ef nýtt Alþingi beitir sér ekki fyrir því að landið verði gert að einu kjördæmi, hvet ég félag jöfnunarþingmanna til róttækra byltingaraðgerða! 

Bjarni Þór Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 18:20

12 identicon

Ekki ertu nú hrifinn af þessari tillögu minni Dharma

96,127 kosningabærir Íslendingar kusu þessa 3 flokka til Alþingis. Þessir kjósendur verðskulda meiri virðingu en Dharma sýnir þeim með þeim ummælum sem hann viðhefur hér á síðunni... ekki bæta þau stöðu Sjálfstæðismanna í hugum fólksins

Sjálfstæðisflokkur er líka inni í myndinni, en ekki með einokunnarstöðu til stjórnarmyndunar... Hann verður bara að sætta sig við lýðræðið.

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 18:46

13 Smámynd: Haukur Viðar

Láttu hana flaksa Guðmundur!!

Haukur Viðar, 13.5.2007 kl. 19:28

14 identicon

Já ég er sammála þér dharma..Ekki neitt kaffibandalagt takk fyrir!  Ef ég hefði viljað sjá einhvern úr samfylkingunni á þingi þá vast það þú guðmundur.

Þuríður (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 19:51

15 Smámynd: Magnús Þorlákur Lúðviksson

"Það munaði 156 atkvæðum, skilst mér.

Ég ætla að sjá til þess persónulega að þau atkvæði skili sér næst...."

Íslenskir jafnaðarmenn taka þig á orðinu Guðmundur. Þrátt fyrir að þú hafir ekki komist inn í þetta skiptið þá áttu bjarta framtíð fyrir þér í pólitík... 

Magnús Þorlákur Lúðviksson, 13.5.2007 kl. 19:53

16 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll félagi.

Slæmt að þú skyldir ekki komast inn  - gengur vonandi betur næst.

Baráttukveðjur að vestan.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 13.5.2007 kl. 22:04

17 Smámynd: Benedikt Halldórsson

...góð tilraun, það gengur bara betur næst!

Benedikt Halldórsson, 13.5.2007 kl. 22:12

18 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

4 sinnum inn sem alþingismaður?  Ertu þá ekki kominn á feitann bita úr  lífeyrissjóð alþingismanna og ráðherra?

Hlynur Jón Michelsen, 13.5.2007 kl. 23:23

19 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Styð minn forna félaga, Bjarna Harðarson, í þeirri afstöðu að það sé kominn tími á að skoða vel möguleika á samvinnu- og samræðustjórnmálum eftir ofríkis og valdastjórnmál íhaldsins í 16 ár. Þar sem málatilbúnaður fer að stærstum hluta fram í ráðuneytum og keyrð í gegn með hollusta við meirihlutavald. Það voru bara tvö sára ómerkileg mál stjórnarandstöðu sem fengu brautargengi á síðasta kjörtímabili. Það þarf að efla lýðræðisvitund á Alþingi og til þess er Sjálfstæðisflokkurinn algjörlega ónothæfur.

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.5.2007 kl. 00:14

20 Smámynd: Óðinn Þórisson

Gunnlaugur.
Bjarni Harðar talaði af sér í silfri egils, þetta var óábyrgt hjá honum og honum ekki til framdráttar.
Þetta ætti ekki að gerast aftur eftir að Jón talar við hann.

Óðinn Þórisson, 14.5.2007 kl. 09:46

21 identicon

Óðinn ertu virkilega að halda þessu fram, að það sé rétt af jóni að skamma Bjarna fyrir að vera hann sjálfur og tala af sinni eigin sannfæringu.

Ég er nú af suðurlandinu og er alls ekki sáttur við það að samfylkingin fékk aðeins tvö, en mikið er það þó bót í sári að Bjarni Harðar skuli hafa komist inn. Hann er maður sem talar af sinni eigin sannfæringu, er framsóknarmaður af gamla skólanum og lætur ekki segja sér fyrir verkum.

Óðinn þú verður að átta þig á því að það eru ekki allir í sjálfstæðisflokknum, þar sem stuttbuxnadeildin er beitt heraga og má alls ekki tjá sig samkvæmt sinni eigin sannfæringu. Þetta er bara ekki svoleiðis í lýðræðislegum flokkum.

En áfram með baráttuna Guðmundur, hún hófst í gær, við skulum ekki láta það gerast að þetta komi fyrir aftur, til þess þarf baráttan um byltinguna að hefjast ekki seinna en í gær. Sama hvort samfylkingin sitji í stjórn eða stjórnarandstöðu þá þarf hún að berjast fyrir bættu samfélagi.

Hlynur Bárðarson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 11:39

22 Smámynd: Óðinn Þórisson

Hlynur
Framsókn þarf ekki á nýjum Kristni H. Gunnarssyni að halda, Halldór náði ekki tökum á Kristni og Jón verður að tala við piltinn og gera honum strax ljóst að svona gera bara menn ekki enda minnti Þorgerður Katrín hann á að hann væri nú þingmaður en ekki blaðamaður.
Varðandi suðurlandið trúði ég því aldrei að ykkar 3 maður yrði inni enda nýbúin að sigla nfs skútunni í strand og henni lagt.

Óðinn Þórisson, 14.5.2007 kl. 13:58

23 identicon

Gullkorn kosninga vökunnar fannst mér Ingibjörg Sólrún eiga þegar hún sagði: "Það er nú einu sinni þannig að annaðhvort eru menn inni eða úti." Þvílík lína, því jú, menn eru alltaf inni eða úti, það er einfaldlega staðreynd þrívíðs raunveruleika, nema þeir séu í kafi.

Þetta var of tæpt, stjórnin átti að falla.

Loftur (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 22:54

24 identicon

Ég er sammála öðrum hér að þú værir verðugur fulltrúi inni á þingi Guðmundur. Það sem pirrar mig er að menn komi hér fram með blammeringar og skrifa ekki undir nafni. Mönnum er sjálfsagt að hafa skoðanir en að skjóta svona úr launsátri er ekki við hæfi. Ef ég væri sjálfstæðismaður mundi ég skammast mín fyrir svona félaga.

Óðinn Helgason (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 11:00

25 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Færðu ekki biðlaun, Guðmundur?

Ingvar Valgeirsson, 15.5.2007 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband