Leita í fréttum mbl.is

Nöfnin

Á meðan viðræðuhóparnir ræða saman á Þingvöllum og slípa orðalag stjórnarsáttmála fer fram mikið stríð í bloggheimum um hið mikilvæga úrlausnarefni áður en lengra er haldið: Hvað á stjórnin að heita? 

Þingvallastjórnin sýnist mér hafa yfirhöndina.  Það er ágætt nafn. Að sjálfsögðu er ég þó særður dýpra sári en orð fá lýst út af þeirri höfnun sem ég upplifði er mér varð ljóst að tillaga mín um nafngift hér í fyrri færslu hlaut litlar sem engar -- ég endurtek -- litlar sem engar undirtektir.

Ekki það ég sé eitthvað bitur út af því, en mig grunar auðvitað að nafngift sú -- uppstigningarstjórnin -- hafi reynst riddurum netheimanna, sem allir eru auðvitað meira og minna málhaltir út af áratuga löngum samvistum við lyklaborðið í daufri lampabirtu einsemdar sinnar, of óþjált í munni. En ímyndið ykkur til dæmis mann eins og Gunnar Eyjólfsson leikara og fyrrum skátahöfðinga segja þetta orð með tilþrifum: Uppstigningarstjórnin. 

Ging gang gúlí gúlí.  

Allt í lagi. Ég játa mig sigraðan. Þingvallastjórnin er þjálla. En fyrst menn eru farnir að spá í þetta svona mikið á annað borð, þá get ég ekki látið hjá líða að koma með ögn fleiri hugmyndir að heitum. Það er algengt að stjórnir öðlist nöfn sín út af kringumstæðum, staðsetningu viðræðna eða einhverju sem einkennir aðdraganda eða framkvæmd viðræðnanna. 

Þannig vill Sigurður G. Tómasson skíra stjórnina Bleikjan, út af því að hann var að veiða í Þingvallavatni svoleiðis fisk á dögunum. Þetta finnst mér ekki sannfærandi. Af hverju á ríkisstjórnin að draga nafn sitt af fisktegund sem Sigurður var að veiða? Sé ekki tenginguna. Ef hins vegar formenn flokkanna hefðu brugðið sér út til þess að veiða í soðið hefði þetta steinlegið. Í því sambandi vil ég þó vekja athygli á því að í Þingvallavatni er önnur fisktegund líka mjög algeng: Murtan. 

Það kann því augljóslega að fylgja því nokkur áhætta að ætla sér að nefna stjórnina eftir þeim fiski sem kæmi á stöngina. Urriðinn yrði heldur ekki gott nafn, þótt Össurri fyndist það kannski, enda hefur hann skrifað um það óhuggulega kvikindi bók. 

Það má velta upp öðrum möguleikum. Taka smá brainstorm. Kasta upp nokkrum boltum: Í morgun var greint frá því í blöðunum að Samfylkingin hefði komið til viðræðna um helgina á Landcruiser.  Landcruiser-stjórnin? Jafnframt var greint frá því að hann hefði verið leigður hjá Hertz. Gæti þá ekki Hertzstjórnin verið málið? Hljómar dáldið alþjóðlegt. Eitthvað töff við það. Skemmtilega þýskt, sem er alltaf traustvekjandi.  Nú, og viðræðuhóparnir fengu sér kjúklingasamloku í hádegismat. Samlokustjórnin? Þorgerður Katrín kom með nammi. Nammistjórnin hljómar kannski of léttvægt fyrir ríkisstjórn, en það má kannski íhuga það samt.

Greint var frá því að Geir hefði séð kafara á göngu sinni og konu sinnar á sunnudagsmorgun. Kafarastjórnin meikar hins vegar ekki mikinn sens. Koss Ingibjargar og Geirs á tröppum Þingvallabústaðarins virkaði hins vegar meira sannfærandi sem undirstaða nafngiftar af myndum Fréttablaðsins að dæma.  Kossstjórnin er hins vegar alveg afleitt nafn. Gjörsamlega afleitt.

Þannig að það er margt í þessu.  Baugsstjórnin finnst mér út úr kú. Miðað við búsetu er mun líklegra að Ingibjörg og Geir versli í Melabúðinni.  Melabúðarstjórnin væri hins vegar fáránlegt nafn líka. 

Þingvallastjórnin. Ég sætti mig við það.

End of story. 

Hins vegar er athyglisvert, fyrst það er verið að ræða þetta á annað borð, að fráfarandi ríkisstjórn bar ekkert nafn.  Hvernig stendur á því? Hér eru tillögur: Íraksstjórnin væri nafngift sem andstæðingum hennar myndi hugnast, en svo gæti hún líka heitið í höfuðið á einum eftirminnilegasta frasanum sem ráðherra hennar lét út úr sér: Barn síns tíma.

Eða bara í anda Sigurrósar: Nafnlausa stjórnin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Murtan er flott!

Þingvallastjórnin gengur ekki að mínu mati - því það nafn var örlítið notað um stjórn Davíðs og Halldórs. Annar koktleill.

Svo er það bara "Önnur ríkisstjórn Geirs Haarde"?

Nei - Murtan miklu flottari!

Hallur Magnússon, 21.5.2007 kl. 14:22

2 identicon

"Almannagjáin" er bæði tengd fundarstað og málefnum

Ólafur (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 16:36

3 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég frétti eftir áreiðanlegum heimildum að Össur hefði læðst út með Geir og Sollu og fengið nokkra fiska þannig að ...

Pálmi Gunnarsson, 21.5.2007 kl. 16:47

4 Smámynd: Gísli Hjálmar

Ég ætla að stinga uppá: Ríkisstjórn Íslands.

... hljómar ekki illa, ha?

Gísli Hjálmar , 21.5.2007 kl. 17:14

5 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Með hliðsjón af uppruna Geirs Haarde mætti endilega reyna að tengja nafn

nýrrar ríkisstjórnar við Gamla sáttmála...1262 þið munið.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 21.5.2007 kl. 21:55

6 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Ég var sérstaklega hrifin af þessu nafni, Uppstigningarstjórnin, og ræddi það sérstaklega í mínu bloggi. Leitt að það nafn skyldi ekki hljóta betri undirtektir. Hins vegar rakst ég á annað gott nafn á ágætri bloggsíðu: RiseSSan. Það vísar til menningarviðburðar sem átti sér stað um svipað leyti og viðræður hófust og svo hefur það sterka skírskotun í samanlagt fylgi flokkanna sem báðir byrja á S.

Sigþrúður Harðardóttir, 21.5.2007 kl. 22:59

7 Smámynd: haraldurhar

  Nýtt afl, nýtt fólk, nýjar hugsanir,  Gamla gengið valdlaust.

Nýaldarstjórn

haraldurhar, 21.5.2007 kl. 23:17

8 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Krútt stjórnin -- fyrsta stjórnin kosin á þing eftir að "krútt kynslóðin" fékk kosningarétt?

Annars er þetta glötuð umræða, svona umræða bara til að hafa umræðu, því allir eru í spennufalli eftir kosningarnar.

Steinn E. Sigurðarson, 22.5.2007 kl. 01:20

9 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Skammastu þín bara fyrir að kalla þann göfuga fisk, urriðann, óhuggulegt kvikindi. Urriðadansinn hans Össurar er gott rit. Hann ætti að skrifa meira um þann fisk og segja sig strax úr þessum ömurlega stjórnmálaflokki sem hann tilheyrir þessa stundina.

Sigurður Sveinsson, 22.5.2007 kl. 05:55

10 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég biðst hér með innilegrar afsökunar á því að hafa kallað urriðann óhuggulegt kvikindi!

(En þegar um er að ræða upp undir 25 punda fisk í felulitum með vígtennur... tja hvað getur maður sagt??)

Auðvitað er þetta bla bla umræða, Steinn, rétt er það, um það hvað stjórnin á að heita. En það má hafa gaman af þessu.

Heyrði nýja hugmynd áðan. Þegar maður blandar saman rauðum og bláum kemur fjólublár.

Fjólan skal hún því heita.

Ekki vitlaust.

Guðmundur Steingrímsson, 22.5.2007 kl. 14:24

11 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Góð hugmynd Gummi, með murtuna. Annars eru fleiri fiskar í Þingvallavatni, en bleikjan, urriðinn og murtan. Þar má nefna gjámurtuna, lítinn og ljótan fisk, og tvær hornsílategundir. Ljótustu fiskar sem komu í net í mínu ungdæmi, voru kallaðir ölfusingar, en það er sennilega ekki tegund. En af hverju þarf hún að heita eitthvað?

Sigurður G. Tómasson, 22.5.2007 kl. 16:37

12 identicon

Ég læt mér detta í hug að best sé að skíra stjórnir þegar afleiðingar þeirra liggja fyrir. Þannig á ég vil þá nefna fráfarandi stjórn Útrásarstjórnina. Það er alveg við hæfi. 

Jón Halldór (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 17:15

13 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Jón Halldór, eins sammála þér og ég er með að dæma eftirá, þá í ljósi sl. mánaða þá getur fráfarandi stjórn vart heitið annað en stóriðjustjórnin í hugum fólks held ég..

Steinn E. Sigurðarson, 23.5.2007 kl. 07:03

14 Smámynd: TómasHa

Stóra spurningin er auðvitað hvað var verið að þvælast á bílaleigubíl. Eru menn ekki bílandi í fylkingunni?

TómasHa, 23.5.2007 kl. 22:06

15 identicon

Hvað lit fær maður þegar maður blandar saman dökkbláu og fölbleiku eins og hér er verið að gera?

Davíð Þór (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband