Leita í fréttum mbl.is

Stjórnarmyndun

Ég er einn af þeim sem vona enn – þótt vonin verði vissulega veikari með degi hverjum – að félagshyggju- og velferðaröflin í landinu setjist niður og myndi svokallaða R-lista stjórn.

Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni eru forsendur fyrir því að mynda slíka ríkisstjórn undir forsæti annars flokks en framsóknar. Það er sögulegt tækifæri eitt og sér.

Ingibjörg Sólrún leiddi slíkt samstarf farsællega í borginni í fjölda ára. Í slíkri stjórn á landsvísu yrði hún ekki bara fyrsti kvenforsætisráðherra Íslandssögunnar, sem yrði mikill áfangi, heldur yrði einstaklingur vinstra megin við miðju í fyrsta skipti forsætisráðherra í mjög langan tíma á íslandi.

Umboðið er líka skýrt: Samfylkingin státar af næst besta árangri vinstri flokks á Íslandi frá upphafi. Samanlagt fylgi vinstri flokkanna hefur líka sjaldan verið meira.

Það urðu mér því talsverð vonbrigði, sem frjálslyndum jafnaðar- og félagshyggjumanni, að sjá hversu herská Vinstri græn voru út í hinn lemstraða Framsóknarflokk strax að afloknum kosningum. Ég sá ekki betur en að VG legði sig fram um að skjóta þessa hugmynd niður eins fljótt og auðið var.

Mér fannst það sárt að horfa upp á slíkar aðfarir, ekki síst í ljósi þess að ég er m.a. alinn upp pólitískt í Röskvu og Reykjavíkurlistanum, þar sem umrædd öfl áttu – og eiga enn í tilviki Röskvu—gott og árangursríkt samstarf.

Menn eins og Steingrímur J. – sem vissulega vantar ekki mælskuna – verða að passa sig, að láta ekki heiftina ráða för í pólitík á kostnað hugsjóna. Slík hegðan er heldur ekki ungu stjórnmálafólki á vinstri væng til góðrar eftirbreytni.

Lítum á hvað R-lista stjórn myndi gera, að mínu viti:

- Ísland yrði tekið af lista hinna staðföstu með þingsályktunartillögu. Ef ég þekki grasrót Framsóknarflokksins rétt yrði þetta ekki síst stór stund fyrir þann flokk og tímabært uppgjör á leiðindamáli.
- Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra yrði rækilega endurskoðað.
- Rammaáætlun um náttúruvernd yrði gerð. Þá þegar yrði tekin ákvörðun um verndun ýmissra náttúruperla eins og Langasjós.
- Tekin yrðu upp fagleg vinnubrögð við ráðningu í embætti á vegum hins opinbera.
- Þjóðareign auðlinda yrði sett í stjórnarskrá, og núna EKKI með illskiljanlegum undirgreinum.
-  Biðlistum yrði eytt. Ráðist yrði í uppbyggingu hjúkrunarrýma.
- Heilbrigðiskerfið yrði kostnaðargreint og tregðulögmálum varanlega komið fyrir kattarnef.
- Laun umönnunarstétta yrðu leiðrétt til að koma í veg fyrir skort á starfsfólki. Þetta var gert í Reykjavík.
- Samráð í efnahagsmálum yrði stóreflt, við bæði verkalýðshreyfingu og atvinnulífið, með það að markmiði að ná niður verðbólgu og koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hagrannsóknir yrði að sama skapi efldar, t.d. með endurreisn Þjóðhagsstofnunar.
- Aðhald í ríkisrekstri yrði kærkomin nýjung sem og fagleg vinnubrögð að öllu leyti. Frávik frá áætlunum var innan við 1% öll árin sem R-listinn réði ríkjum í borginni.
- Ráðist yrði í menntaátak til þess að minnka brottfall í framhaldsskólum, með ókeypis námsbókum og fleiri aðgerðum.
- Nýsköpun yrði efld sem og hátækniiðnaður.
- Stimpilgjöld yrðu afnumin.
- Ráðist yrði í aðgerðir í skattkerfinu til að bæta hag hinna lægst launuðu, með endurreisn barnabóta, vaxtabóta og hækkun skattleysismarka. Þetta myndi leiða til þess að láglaunafólk hefði úr meiru að spila, sem aftur myndi skila sér út í hagkerfið (svo ég tali tungumál sem jafnvel hægri menn skilja).

Svona mætti lengi telja. Þetta yrði umbótastjórn. Félagshyggju- og velferðarstjórn. Og það sem meira er: Umhverfismálum yrði borgið í þessari stjórn, með tvo græna flokka og einn fyrrum grænan (sem vill gjarnan verða grænn á ný).

Áróður Sjálfstæðismanna hefur alla tíð, og ekki síst núna undanfarið, snúist um það að telja fólki trú um að ekki sé hægt að stjórna landinu án þeirra.

Það hryggir mína félagshyggjusál meira en orð fá lýst að til séu leiðtogar á vinstri væng íslenskra stjórnmála sem virðast vilja fátt annað í sinni pólitísku tilvist en að styrkja þá þvælu í sessi.

Ég skora á félagshyggjuöflin að setjast niður og ná samkomulagi um R-lista stjórn. Meirihlutinn er fyrir hendi. Málefnasamhljómurinn er fyrir hendi. Margt segir mér jafnframt að vilji tveggja flokka af þremur sé fyrir hendi.

Ef þetta tekst ekki –og nú verð ég af augljósum ástæðum að beina orðum mínum sérstaklega til VG, því þar strandaði hugmyndin um liðna helgi—vil ég halda því fram að einn stærsti ósigur félagshyggjufólks á Íslandi og vinstri hugsjóna í þessu landi muni þarmeð líta dagsins ljós.

Enginn er betri dagur til þess að koma í veg fyrir slíkt en uppstigningardagur. Setjist nú niður, kæra félagshyggjufólk, hættið þessu dómsdagsrugli og rifrildi um tittlingaskít og klárið málið.

Ég er farinn upp í sveit.

Góðar stundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigtryggur Karlsson

Þetta er allt bæði gott og blessað.  Á það verður þó að líta að allt er betra en áframhaldandi samstjórn íhalds og framsóknar. Eða hvað?

Mál standa þannig núna að ef:

-framsókn fer í stjórn með íhaldinu mun hún þurrkast út af hinu póitíska landakorti sem er mjög gott. Ekkert mun breytast að öðru leyti og íhaldið mun reisa burstir og gera flest sem því sýnist og vinnumiðlun framsóknar mun þegja þunnu hljóði fyrir  ráðningarmöguleikana í gegnum stjórnarráðið og ráðherrana.

-vinstrigrænir fara með íhaldinu eru þeir komnir í sömu framtíðarstöðu og framsókn er í nú.  Þeir munu þurfa að henda mestu af umhverfismálum sínum fyrir róða og munu tapa stórum hluta kjósenda sinna til lengri tíma litið. Það mun koma Samfylkingunni til góða í framtíðinn en -því miður- líka framsóknarflokknum og líklega lengja líf hans um ófyrirséða framtíð.

-Samfylkingin fer með íhaldinu þá mun hún geta sett málefni barna, fjölskyldna og aldraðra í farveg sem verður bærilegri en verið hefur undanfarin þrjú kjörtímabil.  Það mundi líka eins og ef vinstrigrænir fara með íhaldinu lengja líf framsóknar.

Spurningin er því sú hvort betra sé að bæta úr í velferðarmálum, skólamálum og hugsanlega utanríkismálum eða láta slag standa og leyfa framsókn eða vinstrigrænum að fara sér að voða.

Líklega er þó betra að vera við völd og hafa áhrif en sitja í áhrifalítilli stjórnarandstöðu og hafa enga möguleika á að bæta þetta samfélag sem er býsna þrúgað af vanköntum hekmingskiptum núverandi stjórnarflokka.

Sigtryggur Karlsson, 17.5.2007 kl. 13:13

2 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Bíddu nú við, VG að eyðileggja möguleika á "R-lista samstarfi", hvenær hefur þetta nú gerst áður?

Steinn E. Sigurðarson, 17.5.2007 kl. 13:42

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er ljóst, að Geir þarf að slíta samstarfinu við B og velja á milli S og V. Kjósendur hafa hafnað B og þeir verað einungis til vandræða þegar til lengri tíma er litið.  Geir velur sér væntanlega samstarfsflokk, sem hefur heilsteypta og samhenta forystu og sem hefur formann, sem stendur að öllum líkindum við orð sín. Mér sýnist valið ekki vera erfitt? 

Júlíus Valsson, 17.5.2007 kl. 14:06

4 Smámynd: Óttarr Makuch

Þú segist vona að "að félagshyggju- og velferðaröflin í landinu setjist niður og myndi svokallaða R-lista stjórn"  - Ég segi hinsvegar Guð forði okkur frá því.

Hvernig geturðu kallað R-lista stjórn félagshyggju og verlferðaröfl þegar R-listinn gleymdi akkúrat að hugsa um það í Reykjavík eins og dæmin sanna í félagsíbúðakerfinu þar sem biðlistinn lengdist um helming fór úr 500 í 1000 íbúðir.  R-listinn byggði ekki eina þjónustuíbúð fyrir aldraða í borginni í valdatíð sinni, ekki eina!  og svona væri lengi hægt að telja.

En samt koma aðilar tengdum þessum lista með faðminn útbrieiddan og hrópa og klappa hver öðrum á bakið og þykjast vera félagshyggju og velferðaflokkar..... þvílík hneysa! 

Óttarr Makuch, 17.5.2007 kl. 14:29

5 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Er hjartanlega sammála þér nafni um þetta mál. Framkoma VG er þeim flokki ekki til framdráttar því Framsóknarmenn eru ekki þekktir fyrir að erfa harða kosningabaráttu á þennan hátt við menn. Með þessu útspili VG er Steingrímur að neyða Geir að velja milli flokkanna og það virðist vera sem Geir langi ekkert til að ræða við vinstri flokkana. Ekki frekar en Vilhjálm í borginni.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 17.5.2007 kl. 14:30

6 Smámynd: Júlíus Valsson

Björgvin Þór! Það er löngu sannað, að lýðræðið með öllu sem því fylgir er eðlilegt afsprengi skipulagðrar óreiðu (organized chaos). Það skýrir málið. 

Júlíus Valsson, 17.5.2007 kl. 14:57

7 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Því miður Guðmundur, þá er draumaríkisstjórnin þín ekki í samræmi við úrslit kosninganna.  Ég skil ekki hvers vegna maður sem telur sig vera frjálslyndan jafnaðarmann (sem ég tel mig líka vera) kýs fremur samstarf með tveimur gamaldags og afturhaldssömum flokkum frekar en með flokki sem er tiltölulega frjálslyndur og stendur Samfylkingunni næst hvað málefni varðar.

Helgi Viðar Hilmarsson, 17.5.2007 kl. 15:36

8 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Helgi, þú hlýtur að eiga við Framsóknarflokkinn er það ekki? Íhaldið er eðli málsins samkvæmt afturhald og það er engum blöðum að fletta um VG. 

Guðmundur Ragnar Björnsson, 17.5.2007 kl. 16:03

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er engin spurning um að enginn myndi fremur vilja slíka stjórn undir foræsti Ingibjargar Sólrúnar en Ingibjörg Sólrún en fyrst Jón Sigurðsson stóð ekki strax upp og sleit stjórnarsamstarfi þeirra Geirs Haarde var trúlegast eina einasta leiðin til að koma í veg fyrir að sama stjórn sæti áfram og Samfylkingin kæmist að til að hafa áhrif að freista frjálslyndra jafnaðarmanna í þingliði Sjálfstæðisflokksins í burtu frá Jóni Sig sem auk þess er án þingsætis og því arvinnulaus þegar hann missir ráðherrastólinn. 

Það er síðan fráleitt að Samfylkingin geti hafið raunhæfa þátttöku sína í ríkisstjórnarmyndun með neinskonar svikum gagnvart þeim sem þurfti að lokka í burtu frá Jóni Sig. - Það myndi markera það fólk og flokkinn alltaf. - Jón Sigurðsson einn gat gefið visntrstjórn séns með því að standa strax upp, fyrst hann gerði það ekki og það þurfti að lokka Sjálfstæðisflokkinn frá Framsókn þá á Geir Haarde sviðið og leikinn.

Helgi Jóhann Hauksson, 17.5.2007 kl. 16:39

10 Smámynd: Hommalega Kvennagullið

Bíddu?? Lýðræðislegt?? Er ekki þjóðin búin að segja BLESS við framsókn? Hverskonar lýðræði er það að hafa slíkan flokk við völd hvort sem það er með D eða "R" lista vitleysu??

Hommalega Kvennagullið, 17.5.2007 kl. 18:04

11 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ég er sammála þér Guðmundur með Stengrím J. Þann ánnars ágæta mann. VG liðar eru of herskáir og ósveigjanlegir til að geta komið nokkru í verk, þannig að atkvæði þeim greidd eru í sjálfu sér ekki til mikils. Því miður.

Tilboð Steingríms til framsóknar var móðgun og ekkert annað, og viðbrögðin eftir því. Og talandi um viðbrögð þá er grátbroslegt að horfa upp á viðbrögð, eða kannski öllu heldur skýringar framsóknarmanna á því af hverju stjórnarmyndunarviðræðum sjálfstæðisflokks og framsóknar var hætt. Jón Sigurðsson virðist pirraður á því að aðrir flokkar skuli hafa leyft sér að setja sig í samband við Geir og Guðni Ágústsson virðist ekki sáttur heldur. Nota bene sama Guðni og sagði fyrir 3 vikum að það væri alveg morgunljóst að framsókn færi ekki í ríkisstjórn ef flokkurinn fengi ekki nema 6-7 þingmenn! Þetta eru dálítið undarleg viðbrögð flokks sem hefur lýst því yfir að þeir muni ekki sækjast eftir að setjast í ríkisstjórn undir þessum kringumstæðum og láta öðrum eftir frumkvæðið að stjórnarmyndun.

Heimir Eyvindarson, 17.5.2007 kl. 19:03

12 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Gleymdir þú nokkuð tekjuöfluninni?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.5.2007 kl. 20:47

13 identicon

Ótrúlega barnaleg viðbrögð framsóknar að taka tilboði Steingríms Joð sem móðgun. Minnihlutastjórnir hafa reynst vel í nágrannalöndum okkar, og eru reyndar býsna algengar. Reynslan hefur meira að segja sýnt að þær kalla á lýðræðislegri vinnubrögð í þinginu. Og flokkurinn sem veitir stjórninni stuðning sinn án beinnar aðildar fær töluvert mikil áhrif. Mér er þetta áhyggjuefni. Snýst íslensk pólitík bara um ráðherraembætti og einstaklingsframa? Er þingið bara framlenging á framkvæmdavaldinu, þar sem lög eru keyrð í gegn í krafti aflsmunar? Það kom fram í máli eins stjórnarandstöðuþingmanns nú fyrir kosningar að á síðasta þingi voru samþykkt 112 stjórnarfrumvörp en einungis 2 frá stjórnarandstöðu (og annað þeirra um bílastæði). Kannski er minnihlutastjórn einmitt það sem við þurfum til að hér læri menn að praktísera lýðræði. Mæli með því að framskóknarmenn skelli sér í bændaferð til Noregs. Hugsanlegt að þeir myndu fatta Steingrím Joð þegar þeir kæmu heim.

Bjarni Gunnarsson (IP-tala skráð) 17.5.2007 kl. 23:04

14 Smámynd: Steinríkurkrati

Guðmundur Nefndu dæmi þar sem hægt hefur verið að treysta á VG. R listinn væri sennilega enn við völd ef VG hefði ekki sprengt hann. Í Mosfellsbæ eru þeir í samstarfi með D. Allstaðar þar sem þeir hafa tækifæri þá sniðganga þeir okkur. Svona er þetta og hefur alltaf verið með flokkanna lengst til vinstri. Þetta eru dauðu atkvæði okkar jafnaðarmanna sem hafa haldið öðrum flokkum við völd ansi lengi. Hvað Röskvu varðar þá eru flestir róttækari á námsárunum en þegar komið er út í lífið sjálft. Erftirr er að yfirfæra sameiginlega baráttu hagsmunasamtaka í landspólitíkina. Ef ég man rétt þá voru flestir (utan eins)Röskvumenn á móti EES en vilja í dag ganga í ESB:-)

Steinríkurkrati, 18.5.2007 kl. 00:45

15 identicon

þetta verður HÆGRI STJÓRN-- Heibrigðiskerfið einkavæt

leeds (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 07:07

16 Smámynd: Kristján Pétursson

Guðmundur ég er sammála þér í einu og öllu um að koma á félagshyggju og velfarðarstjórn í landinu.Þessar umræður við íhaldið eru mjög umdeildar þó ekki sé nú meira sagt.Langflestir sem ég hef rætt við eru mótfallnir samstarfi við íhaldið.Ef ISG ætlar að keyra þetta í gegn án nokkurs undirbúning,þá stöndum við andspænis illdeilum í flokknum.

Kristján Pétursson, 19.5.2007 kl. 01:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband