18.5.2007 | 16:42
Uppstigningarstjórnin
Jæja, ekki er neitt útlit fyrir að mér verði að ósk minni um R-lista stjórn, en ósk mín var þó færð til bókar með færslu hér á síðunni í gærmorgun, rétt áður en tilkynning barst um að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hefðu hafið viðræður.
Ég áskil mér auðvitað allan rétt til þess að dæsa af krafti yfir þeim flumbrugangi leiðtoganna yst á vinstri væng sem kom í veg fyrir R-lista stjórnina strax á upphafsmetrunum. Eins og Róbert vinur minn Marshall orðaði það svo skemmtilega: Steingrímur J. virðist líta á sig eins og Múhameð spámann. Það má ekki teikna af honum skopmynd.
Nú er bara að vona að málefnasáttmáli nýrrar ríkisstjórnar verði okkur jafnaðarfólki ásættanlegur. Um það veit ég ekki neitt. Hér er tillaga að nafni, og ég er væntanlega ekki einn um hana: Uppstigningarstjórnin.
Stofnað var til viðræðna á uppstigningardag.
Ekki kannski þjálasta nafn í heimi en á móti kemur að samstarf við Sjallana er heldur ekki þjálasta hugmynd í heimi í huga margs Samfylkingarfólks.
En það má sjálfsagt gera gott úr þessu ef menn halda vel á spöðunum. Kannski uppstigningarstjórn vísi þá til ákveðinnar vegferðar upp á við fyrir íslenskt samfélag á næstu árum í kjölfar áhrifa okkar.
Hver veit.
Kveðja úr sveitinni.
17.5.2007 | 12:33
Stjórnarmyndun
Ég er einn af þeim sem vona enn þótt vonin verði vissulega veikari með degi hverjum að félagshyggju- og velferðaröflin í landinu setjist niður og myndi svokallaða R-lista stjórn.
Í fyrsta skipti í lýðveldissögunni eru forsendur fyrir því að mynda slíka ríkisstjórn undir forsæti annars flokks en framsóknar. Það er sögulegt tækifæri eitt og sér.
Ingibjörg Sólrún leiddi slíkt samstarf farsællega í borginni í fjölda ára. Í slíkri stjórn á landsvísu yrði hún ekki bara fyrsti kvenforsætisráðherra Íslandssögunnar, sem yrði mikill áfangi, heldur yrði einstaklingur vinstra megin við miðju í fyrsta skipti forsætisráðherra í mjög langan tíma á íslandi.
Umboðið er líka skýrt: Samfylkingin státar af næst besta árangri vinstri flokks á Íslandi frá upphafi. Samanlagt fylgi vinstri flokkanna hefur líka sjaldan verið meira.
Það urðu mér því talsverð vonbrigði, sem frjálslyndum jafnaðar- og félagshyggjumanni, að sjá hversu herská Vinstri græn voru út í hinn lemstraða Framsóknarflokk strax að afloknum kosningum. Ég sá ekki betur en að VG legði sig fram um að skjóta þessa hugmynd niður eins fljótt og auðið var.
Mér fannst það sárt að horfa upp á slíkar aðfarir, ekki síst í ljósi þess að ég er m.a. alinn upp pólitískt í Röskvu og Reykjavíkurlistanum, þar sem umrædd öfl áttu og eiga enn í tilviki Röskvugott og árangursríkt samstarf.
Menn eins og Steingrímur J. sem vissulega vantar ekki mælskuna verða að passa sig, að láta ekki heiftina ráða för í pólitík á kostnað hugsjóna. Slík hegðan er heldur ekki ungu stjórnmálafólki á vinstri væng til góðrar eftirbreytni.
Lítum á hvað R-lista stjórn myndi gera, að mínu viti:
- Ísland yrði tekið af lista hinna staðföstu með þingsályktunartillögu. Ef ég þekki grasrót Framsóknarflokksins rétt yrði þetta ekki síst stór stund fyrir þann flokk og tímabært uppgjör á leiðindamáli.
- Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra yrði rækilega endurskoðað.
- Rammaáætlun um náttúruvernd yrði gerð. Þá þegar yrði tekin ákvörðun um verndun ýmissra náttúruperla eins og Langasjós.
- Tekin yrðu upp fagleg vinnubrögð við ráðningu í embætti á vegum hins opinbera.
- Þjóðareign auðlinda yrði sett í stjórnarskrá, og núna EKKI með illskiljanlegum undirgreinum.
- Biðlistum yrði eytt. Ráðist yrði í uppbyggingu hjúkrunarrýma.
- Heilbrigðiskerfið yrði kostnaðargreint og tregðulögmálum varanlega komið fyrir kattarnef.
- Laun umönnunarstétta yrðu leiðrétt til að koma í veg fyrir skort á starfsfólki. Þetta var gert í Reykjavík.
- Samráð í efnahagsmálum yrði stóreflt, við bæði verkalýðshreyfingu og atvinnulífið, með það að markmiði að ná niður verðbólgu og koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hagrannsóknir yrði að sama skapi efldar, t.d. með endurreisn Þjóðhagsstofnunar.
- Aðhald í ríkisrekstri yrði kærkomin nýjung sem og fagleg vinnubrögð að öllu leyti. Frávik frá áætlunum var innan við 1% öll árin sem R-listinn réði ríkjum í borginni.
- Ráðist yrði í menntaátak til þess að minnka brottfall í framhaldsskólum, með ókeypis námsbókum og fleiri aðgerðum.
- Nýsköpun yrði efld sem og hátækniiðnaður.
- Stimpilgjöld yrðu afnumin.
- Ráðist yrði í aðgerðir í skattkerfinu til að bæta hag hinna lægst launuðu, með endurreisn barnabóta, vaxtabóta og hækkun skattleysismarka. Þetta myndi leiða til þess að láglaunafólk hefði úr meiru að spila, sem aftur myndi skila sér út í hagkerfið (svo ég tali tungumál sem jafnvel hægri menn skilja).
Svona mætti lengi telja. Þetta yrði umbótastjórn. Félagshyggju- og velferðarstjórn. Og það sem meira er: Umhverfismálum yrði borgið í þessari stjórn, með tvo græna flokka og einn fyrrum grænan (sem vill gjarnan verða grænn á ný).
Áróður Sjálfstæðismanna hefur alla tíð, og ekki síst núna undanfarið, snúist um það að telja fólki trú um að ekki sé hægt að stjórna landinu án þeirra.
Það hryggir mína félagshyggjusál meira en orð fá lýst að til séu leiðtogar á vinstri væng íslenskra stjórnmála sem virðast vilja fátt annað í sinni pólitísku tilvist en að styrkja þá þvælu í sessi.
Ég skora á félagshyggjuöflin að setjast niður og ná samkomulagi um R-lista stjórn. Meirihlutinn er fyrir hendi. Málefnasamhljómurinn er fyrir hendi. Margt segir mér jafnframt að vilji tveggja flokka af þremur sé fyrir hendi.
Ef þetta tekst ekki og nú verð ég af augljósum ástæðum að beina orðum mínum sérstaklega til VG, því þar strandaði hugmyndin um liðna helgivil ég halda því fram að einn stærsti ósigur félagshyggjufólks á Íslandi og vinstri hugsjóna í þessu landi muni þarmeð líta dagsins ljós.
Enginn er betri dagur til þess að koma í veg fyrir slíkt en uppstigningardagur. Setjist nú niður, kæra félagshyggjufólk, hættið þessu dómsdagsrugli og rifrildi um tittlingaskít og klárið málið.
Ég er farinn upp í sveit.
Góðar stundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.5.2007 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.5.2007 | 17:19
Hroki hvað?
Núna er ég búinn að lesa það tvisvar í Mogganum, á tveimur dögum, að Ingibjörg Sólrún hafi verið svo rosalega hrokafull þegar hún talaði við Sjálfstæðisflokkinn daginn eftir kosningar að Sjálfstæðismenn margir gætu bara alls ekki hugsað sér að starfa með henni, út af þessum hroka.
Ég get ekki neitað því að ég á afskaplega erfitt með að sjá fyrir mér hvernig þessi hroki á að hafa átt sér stað. Og nú er það líka svo, að ég þekki Ingibjörgu, þannig að ég á tvisvar sinnum erfiðara með að sjá þetta fyrir mér.
Ég spyr: Getur Mogginn vinsamlegast verið aðeins nákvæmari? Hvað gerðist?
Fór Ingibjörg fram á að vera þéruð?
Var hún í frönskum hefðarklæðum, með hvítt púður, og lét þjóna sína sjá um að tala?
Skellihló hún að öllu sem Geir sagði?
Gerði hún lítið úr menntun hans? Vaxtalagi? Skeggrót?
Hvað í ósköpunum á Mogginn við? Og hvurslags eiginlega fréttaflutningur er þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
15.5.2007 | 01:22
Hugmynd
Ein hugmynd að spinni fyrir Sjallana í vondri stöðu: Þessar útstrikanir á Birni Bjarna og Árna Johnsen voru í raun ekki útstrikanir heldur undirstrikanir. Kjósendur vildu leggja sérstaka áherslu á þessa menn.
Pæling.
Gæti virkað.
13.5.2007 | 12:27
Inn og út
Jæja, kæru vinir. Mér telst svo til að ég hafi farið inn á þing fjórum eða fimm sinnum í nótt, í samtals klukkutíma, einn og hálfan, og náði meira að segja að fella ríkisstjórnina tvisvar, sem var mikill heiður.
Meira spennandi gat líklega ekki kosninganótt orðið. Spurningar vakna vissulega um þetta jöfnunarsætakerfi. Ég verð að játa að ég var farinn að missa þráðinn. Spurning um að endurskoða þetta. Líklega ekkert vit í öðru en að hafa landið eitt kjördæmi.
Þetta ætti að verða fyrsta ályktun félags jöfnunarþingmanna. Ég gaf kost á mér í það embætti í nótt. Óvíst hvort ég held því embætti samt, utanþings.
Sárt þótti mér að sjá, þegar ég vaknaði í morgun, að félagi minn og vopnabróðir Róbert Marshall var dottinn út í Suðrinu. Því trúði ég ekki og þurfti nokkrum sinnum að ýta á refresh.
Ótrúlegur andskoti.
Við Árni Páll duttum á tímabili inn og út í kippum. Það var nokkuð ljóst að Árni þurfti að verða kjördæmakjörinn til þess að ég ætti sjens. Þegar síðustu tölur komu úr kjördæminu var niðurstaðan sú að Árni varð ekki kjördæmakjörinn.
Það munaði 156 atkvæðum, skilst mér.
Ég ætla að sjá til þess persónulega að þau atkvæði skili sér næst....
En það voru gleðitíðindi að Árni datt inn sem jöfnunarþingmaður undir morgunsárið. Annað hefði bara verið rugl.
Og þar með er ég orðinn 1.varaþingmaður. Það þýðir að ég verð, eins og í nótt, væntanlega, meira og minna, inni og úti á þingi...
Kominn með lag á heilann: Inn og út um gluggann, inn og út um gluggann.
Merkilegt: Mamma sagði við mig í gær, fyrir kosningavöku, að hana hefði dreymt töluna 26 18. Og hverjar urðu svo niðurstöður kosninganna fyrir Samfylkinguna: Jú. 26% og 18 þingmenn.
Berdreymnin í kvenpeningnum í minni móðurætt er nánast óhugguleg á köflum. Mér líður stundum eins og í Húsi andanna. Fljúgandi konur með grænt hár...
Sumarið er komið. Engin kosningabarátta lengur, þannig að ég get hætt að gyrða skyrtuna ofan í buxurnar. Látið hana flaksa.
Nei, ég segi svona.
Takk fyrir stuðninginn í þessu öllu saman, þið öll! Baráttan heldur áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
7.5.2007 | 14:24
Baráttusætið
Hér í horninu á síðunni í dálknum um höfundinn hef ég látið standa alveg síðan í nóvember að undirritaður sé í baráttusæti í Suðvesturkjördæmi. Núna loksins eru kannanir farnar að sýna að þetta er semsagt raunverulegt og satt. Ég er í baráttusætinu í Kraganum.
Stór könnun Gallup í kjördæminu mældi okkur með rétt tæplega 30% fylgi. Það þýðir að ég get farið að detta inn sem jöfnunarmaður.
Kannanir hingað til hafa nefnilega oft verið ansi óþægilegar út frá þessari pælingu með baráttusætið. Á tímabili voru nokkuð margar kannanir sem sýndu okkur með tvo til þrjá. Fimmta sætis maðurinn ég virtist utan leiksins.
En nú hefur þetta breyst. Og nú þarf ég alla aðstoð, kæru vinir!
Og líka frá þér, Dharma mín. Þið Sjallarnir þurfið góðan, glaðbeittan og harðvítugan andstæðing á þingi. Annars verður þetta bara leiðinlegt. Ég er viss um makar ykkar allra, foreldrar og vinir eru til í að kjósa mig ef þið bara hafið orð á því.
Hringja, segja frá, láta orðið berast!
Strákinn á þing.
1.5.2007 | 23:49
Maður á aldrei að taka undir Reykjavíkurbréf
Viðtalið við Ástu Möller á Stöð 2 í kvöld var eitthvað það neyðarlegasta sem ég hef heyrt við stjórnmálamann lengi.
Ég heyri frá heimildarmönnum innan Sjálfstæðisflokks að það sé létt krísa út af þessu dásamlega viðtali.
En Ástu er auðvitað vorkunn:
Svona fer fyrir þeim sem reyna að taka undir það sem Reykjavíkurbréf Moggans segir. Maður á aldrei að taka undir Reykjavíkurbréf. Sá bálkur er líklega sá vitlausasti sem er skrifaður á Íslandi í dag.
Nú ætluðu þeir að sá tortryggni í garð forsetans. Að hann myndi hafa "óeðlileg afskipti" eins og það heitir, af stjórnarmyndunarviðræðum. Þetta er liður í þeirri áróðursherferð Moggans að vinstri stjórn á Íslandi verði þá aðeins mynduð vegna þess að einhver ógnarspilling leiði til þess eða svívirðilegt plott í bakherbergjum. Ekki vegna þess að fólkið vilji það.
Þetta skrifar Moggi til þess eins að renna á bossann, eins og vanalega. Þingmaður lepur þetta upp og er rekinn á gat í viðtali á leið úr sundi.
En maður veit ekki: Kannski hefur samúðarfylgið aukist? Líklega er það strategían.
29.4.2007 | 23:28
Íslenskukennsla fyrir Frjálslynda, biðlistar, Vopnafjörður og fl.
Eftir að kosningabaráttan fór á fullt hefur maður varla tíma til þess að blogga. Því er verr og miður því ef einhvern tímann maður ætti að blogga væri það líklega núna. Tvær vikur í kosningar og heldur betur nauðsynlegt að koma sjónarmiðum á framfæri...
En mér sýnist síðunni minni hafa verið haldið ágætlega við með líflegum umræðum um kaupmátt og kaupmáttaraukningu. Vonandi lærist fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna af þeirri umræðu að betra er að hafa allar tölulegar staðreyndir á hreinu, áður en rokið er af stað með fullyrðingar um að "kaupmáttur hafi aldrei aukist jafnmikið á Íslandi" etc. Auk þess má sjá af umræðunum að klisjan um að vinstri stjórnir séu einhverjar óstöðugleika og glundraðastjórnir hefur fjarað út í sandinn.
Annars hef ég mestmegnis verið í verslunarmiðstöðum, á vinnustöðum, í skólum og að ganga í hús með rósir og bæklinga undanfarið. Edda kom með í dag á Álftanesið að dreifa og fannst það svona líka skemmtilegt. Gekk með mér hús úr húsi með barnastefnuna og XS buff um hausinn.
Svo skrapp ég líka á Vopnafjörð í vikunni, fór í sund við Selá og hélt ræðu. Vopnafjörður var einu sinni höfuðvígi Framsóknarflokksins. Nú var það Samfylkingin sem fyllti samkomuhúsið. Fólk gekk brosandi út og rífandi stemmning á svæðinu. Dúddi staðarhaldari ætlar samt ekki að kjósa okkur. Geri aðra atlögu að honum síðar.
Í gær söng ég svo á söngvakeppni frambjóðenda í Suðvesturkjördæmi á vorhátíð Aftureldingar, með Kötu Júl og Árna Pál í bakröddum. "Það er bara einn flokkur á Íslandi sem talar af einhverri skynsemi um mál" . Lag Mrs Robinson. Við Marshall höfum verið að syngja þetta hér og þar. Fólk tekur undir.
Síðar um kvöldið spilaði svo Ske á rokkhátíð gegn biðlistum, á Nasa. Innlegg Samfylkingarinnar í þá umræðu í dag var ansi hreint ágætt. Það kostar ekki nema um 30 milljónir að eyða biðlistunum á BUGL. Þessi brýnu velferðarmál eru nefnilega ekki peningaspursmál, heldur eru það einfaldlega tregðulögmál, áhuga- og dugleysi sem hafa komið í veg fyrir aðgerðir.
En samt saka Sjallarnir okkur um að vilja auka eyðslu og útgjöld, um leið og við minnumst á velferðarmál. Það er rauði þráðurinn í grein eftir Illuga í dag í Fréttablaðinu. Alveg er það merkilegt að Sjallarnir skuli ekki ennþá skilja að það er hægt að forgangsraða útgjöldum, stunda hagstjórn og taka skynsamlegar ákvarðanir í ríkisbúskapnum, eins og að eyða biðlistum, sem yfirleitt sparar peninga til lengri tíma litið.
Sjálfir hafa þeir lofað núna hátt í 420 milljörðum í alls konar útgjöld á næstu árum. Það ætti því að fara þeim betur að þegja.
Sem þeir og gera reyndar í stórum stíl.
Sigurvegarar vikunnar í pólitískum áróðri eru hins vegar Frjálslyndir: Strætó með auglýsingum frá þeim keyrir núna um borgina með málfarsvillu í stríðsletri:
"Berjumst gegn stéttarskiptingu"
Þetta á að sjálfsögðu að vera stéttaskipting. Ekkert r. Nema frjálslyndir séu að tala um gangstéttina.
Maður veit ekki.
Tvær vikur til stefnu. Fólk er greinilega ennþá að ákveða sig, samkvæmt könnunum. Um 40% óákveðnir ennþá. Allt getur gerst.
Í öllu falli. Ekki kjósa þessa lista þann 12.maí:
Biðlista barna með geðraskanir. 170 börn bíða eftir fyrstu komu á göngudeild BUGL, biðtími allt að eitt og hálft ár. 20-30 mikið veik börn bíða eftir innlögn.
Biðlista aldraðra. 400 bíða í heimahúsum í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og 900 í þvingaðri samvist með ókunnugum. 62 aldraðir sem lokið hafa meðferð bíða inná Landspítala eftir því að komast í varanleg hjúkrunarrými.
Biðlista hjartasjúklinga. 243 hjartasjúklingar eru á biðlista eftir hjartaþræðingu á LSH, þar af 54 sem hafa beðið lengur en í 3 mánuði. 53 bíða eftir opnum hjartaaðgerðum. 170 til viðbótar bíða eftir öðrum hjartaaðgerðum og -rannsóknum.
Biðlisti barna með þroskafrávik. 276 börn með margvísleg þroskafrávik bíða eftir greiningu. Biðtími er allt uppí 3 ár. Greining er skilyrði fyrir því að þessi börn fái stuðning í skólum og aðra þjónustu.
Biðlista geðfatlaðra eftir búsetuúrræðum. 50 geðfatlaðir á Landspítala bíða eftir varanlegri búsetu. Sumir hafa beðið í allt að 15 ár. Auk þess vantar búsetuúrræði fyrir 170 geðfatlaða til viðbótar. Að mati Geðhjálpar eru 60-70 geðfatlaðir á götunni!
Biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. 256 sjúklingar bíða eftir liðskiptaaðgerðum á LSH og þar af hafa 138 beðið í meira en 3 mánuði.
Biðlista eftir sjúkrahúsmeðferð aldraðra. 242 aldraðir bíða eftir að komast í margs konar meðferð á öldrunarsviði LSH.
Biðlista á LSH, sem telja alls 3.145 manns. Hér að ofan er aðeins sá hluti biðlista eftir aðgerðum á Landspítala sem talinn er verulega slæmur, jafnvel hættulegur, en alls eru á biðlistum þar eftir þjónustu um 3.145 manns. Þar af eru 671 sem bíður eftir augasteinaaðgerð og hafa 453 þeirra beðið lengur en í 3 mánuði.
Biðlista þroskaheftra. 142 þroskaheftir bíða eftir því að komast í skammtímavistun.
Biðlista öryrkja. 200 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu.
Biðlista fatlaðra. 100 bíða á biðlistum Svæðisskrifstofa eftir búsetuúrræðum og margir hafa beðið árum saman. Árlega bætast um 15 manns á þann lista.
Biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru 1525 manns á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, þar af um 650 námsmenn.
24.4.2007 | 00:26
Lítið skjal um kaupmátt
Nú dynja á landsmönnum fullyrðingar um að kaupmáttur hafi aukist svo og svo mikið á svo og svo mörgum árum. Ég settist niður í morgun og gerði mér glaðan dag með einu tilteknu excel-skjali sem ég náði í á síðu Stjórnarráðsins, nánar tiltekið á gamalli síðu Þjóðhagsstofnunar, sem var lögð niður af Davíð Oddssyni og félögum sælla minningar.
Mér finnst alltaf gaman að nördast pínulítið með excelskjöl. Skjalið sýnir m.a. vöxt kaupmáttar frá ári til árs allt frá 1950 til ársins 2000.
Menn guma sig af því núna að kaupmáttur ráðstöfunartekna, eins og það kallast, hafi aukist um 4.2% á ári að meðaltali frá 1994-2005, og að í heildina hafi hann aukist um 56% á þessu tímabili.
Við í Samfylkingunni höfum ekki mótmælt þessu. Við höfum hins vegar bent á að þetta er auðvitað bara meðaltalsreikningur. Ef skoðaðir eru einstakir hópar, blasir við mynd ójafnaðar. Kaupmáttur þess tíunda hluta þjóðarinnar sem hæstar hafa tekjurnar hefur aukist um 118% á þessum árum en kaupmáttur þess 20% þjóðarinnar sem lægstar hefur tekjurnar hefur einungis aukist um rétt rúm 30%.
Það er talsverður munur á 118% og 30%, þó svo meðaltalið sé sæmó.
En gott og vel. Skoðum nú þetta með kaupmáttinn alveg frá 1950. Þá kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós:
Á árabilinu 1951-1960 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali um 4.27% á ári, sem er svipað og á umræddu tímabili sem ríkisstjórnin gumar sér af nú.
Frá 1961-1970 jókst hann svo um 5.15% að meðaltali á ári, hvorki meira né minna.
Frá 1971-1980 gerðu menn enn betur, en þá jókst kaupmátturinn um 5.67% á ári.
Þess má geta -- fyrir þá sem hafa áhuga á því sérstaklega -- að á tímum vinstri stjórnarinnar 1971-74 jókst kaupmátturinn um 10.6% á ári.
Það er nokkuð gott. :)
Frá 1981 fór dálítið að halla undan fæti hvað varðar vöxt á kaupmætti ráðstöfunartekna samkvæmt excel skjalinu góða. Frá 1981 til 1990 jókst hann einungis um 2% á ári að meðaltali. Enda var verðbólgan talsverð á þessum tíma, eða allt þar til vinstri stjórnin 1988-91 náði henni niður.
Og svo kom Davíð Oddsson. Svo virðist sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi einungis aukist um 1.6% að meðaltali á ári frá 1991 til 2000.
Ja, hérna.
Kannski var það þess vegna sem Davíð lagði niður Þjóðhagsstofnun?
Maður veit ekki. Það er alla vega margt í þessu. Það eru margar tölurnar. Ég sé til dæmis ekki betur en að frá 1950 til 2000 hafi kaupmáttur aukist um þetta 3.75% á milli ára að jafnaði - ef út í það er farið - sem er bara ansi hreint þokkalegt.
Hvað segja Sjallarnir við því? Er það Geir að þakka?
Fæddist hann ekki einmitt á því bili?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
20.4.2007 | 21:13
Mikið traust til Samfylkingarinnar - Könnun
Í hinu nýja og ferska blaði, Kraganum, sem er gefið út í Suðvesturkjördæmi og er dreift í öll hús á föstudögum -- þið getið náð í það hér -- kemur m.a. fram að samkvæmt könnun Capacent Gallup um traust til stjórnmálaflokka í nokkrum lykilmálaflokkum, nýtur Samfylkingin mest trausts allra flokka í brýnum velferðarmálum og réttindamálum. Auk þess treysta kjósendur Samfylkingunni best til þess að ná niður vöxtum og verðlagi.
Þetta var 1900 manna úrtak og könnunin var gerð fyrir Samfylkinguna. M.a. var spurt hvaða flokki kjósendur treystu best til þess að útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og Samfylkingin kom þar best út.
Já, þið lesið þetta bara. Náið í blaðið.
Svo er þarna útlistun á stefnu Samfylkingarinnar um Nýja atvinnulífið. Við færum fyrir því rök að síðan 2003 hafi ríkt hátæknistopp á Íslandi. Tölurnar sýna það.
Stjórnarflokkarnir tveir, sem mæla mest gegn stóriðjufrestun - sem boðuð er af alls kyns skiljanlegum ástæðum og góðum rökum - hafa í raun staðið fyrir stoppi í öðrum atvinnuvegum, eins og hátækni, með stefnu sinni á undanförnum árum.
Lesið allt um þetta í Kraganum, 2.tbl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 395306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi