Leita í fréttum mbl.is

3G og Jesús

Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega þessa viðkvæmni kirkjunnar manna gagnvart nýjum auglýsingum Símans. Þessar auglýsingar eru fantasía, ósköp smekklega gerðar, um það hverju það hefði breytt fyrir gang veraldarsögunnar ef hinir og þessir, eins og Jesús og Júdas, hefðu haft myndsíma.

Þetta er alþekkt form. Svona "hvað ef?" spurningar. Og þetta getur oft verið fyndið og skemmtilegt og leitt til hugleiðinga um veraldarsöguna og hvernig hún hefði getað farið öðruvísi og þar fram eftir götunum. Ég geri ráð fyrir að Síminn ætli sér að koma með fleiri auglýsingar af svipuðum meiði. Armstrong að ganga á tunglinu með myndsíma. "Það er ekki nokkur skapaður hlutur hérna!" Saddam Hussein ofan í holunni. 

Líklega mun Kaninn finna Osama bin Laden á þenna hátt. Hann hringir óvart úr myndsíma.

Annars segi ég nú bara: Mikið var að þetta 3G dót er loksins komið á markað.  Það er búið að vera að tala um þetta síðan um aldamótin. Í öllu þessu fári kringum auglýsinguna, hefur Símanum hins vegar ekki alveg gefist nægilega mikill kostur á því að útskýra fyrir fólki hvað þetta dót er. 

Ég heyrði að fulltrúi frá samkeppnisaðila notaði tækifærið og fór í viðtal til þess að útskýra einmitt það. Þetta er jú gott fyrir svona myndsímtöl, þannig að maður geti sýnt fólki hvar maður er og svona, og svo er þetta fínt til þess að tengja tölvuna við og fara á netið, og svo mun þessi aðili hafa greint frá því líka, heyrði ég, að það væri meira að segja hægt að hringja í ísskápinn sinn úr svona síma.

Ég veit ekki alveg hvernig það fer fram, en það er þá væntanlega til þess að tékka á því hvað er í honum. "Er jógúrt?" "hversu mörg?" "Jarðarberja eða karamellu?" "o.k. bæ"

Hér geri ég ráð fyrir að ísskápurinn hafi ekki rödd -- því það finnst mér hálf óhuggulegt -- heldur svari á einhvern óræðan hátt, en hvað um það.

Mér finnst þetta æðislegt. Mig hefur alltaf langað til þess að hringja í ísskápinn minn. 

Af hverju? Jú, mig hefur alltaf langað til þess að vita hvort það er ennþá ljós í honum eftir að maður lokar.


Að ráðast aðeins á Íran

Hún heyrist reglulega sú hugmynd að vestan að rétt sé að ráðast aðeins á Íran. Núna ku George Bush vera dálítið svag fyrir því að fara í "þriggja daga leifturárás" eins og það er kallað á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Stríð fyrir Bush er eins og borgarferðir fyrir aðra. 

"Ég væri til í að gera smá árás núna um helgina, Laura. Á Íran. Hvað finnst þér?"

Ég veit ekki hvað svona stríð kostar, en það kostar nokkrum dollurum og nokkrum mannslífum meira en helgarhopp. Auk þess sýnist mér að Bush sé nokkuð gjarn á að kaupa bara miða aðra leiðina, eins og þegar hann fór til Írak. Hann ætlaði bara smá að steypa Hussein og koma svo aftur, en ferðin stendur enn. 

Mig minnir að fyrir rúmu ári eða svo hafi hernaðarfræðingar verið búnir að finna það út að það hentugasta fyrir svona helgarinnrás væru svokallaðar staðbundnar, takmarkaðar kjarnorkusprengjur. Svona littlir djöflar sem sprengja bara smá í kringum sig. Sprengjur sem sprengja mikið eru svo rosalega eighties eitthvað. Alveg búnar. 

Lítil kjarnorkusprengja er allt sem þarf. 

Ég veit ekki með ykkur, en ég er farinn að telja dagana þar til George Bush lætur af embætti. Það liggur við að mér sé orðið sama um hver tekur við. Bara að þessi maður hætti.  

Þetta er komið gott.

Svona var sumarið

Jæja, nú er mál til komið að byrja að blogga aftur. Sumarið er búið. Komin rigning. Þjóðfélagið er að ranka við sér. Fólk farið að slást á Stuðmannaböllum. Allt eins og það á að vera.

Ég átti hið ágætasta sumar. Byrjaði á því að fara til Ítalíu í frí. Svo fór ég líka í vikuferð á pallbíl með pallhýsi tengdaforeldra minna hringinn í kringum Ísland ásamt fjölskyldu systur minnar, sem leigði hjólhýsi til þess arna. Trailer-trash lífernið átti bara ágætlega við mig, satt að segja.

Í ágúst fór ég svo sem kosningaeftirlitsmaður til Kazakstan á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Í Kazakstan var verið að kjósa til neðri deildar þingsins og í þeim kosningum fékk flokkur Nursultans Nasarbayevs forseta um 88% atkvæða og öll þingsætin. Æsispennandi. Við kosningaeftirlitsmennirnir fundum ýmislegt að framkvæmdinni, einkum talningunni. 

Annars segi ég bara eins og Borat: Kazakstan, greatest country in the world. All other countries are run by little girls. Þetta er textinn í þjóðsöng Kazakstan samkvæmt Borat. Ég er með hann á heilanum því þetta er hringingin á símanum hennar Alexíu. 

Very nice. Við Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður og Högni Kristjánsson sendifulltrúi í Brussel vorum fulltrúar Íslands á meðal kosningaeftirlitsmanna. Við Ingólfur vorum sendir til borgarinnar Kokshetau í norður Kazakstan. Áhugavert. Ég stefni á að segja ferðasögunna í sérstakri færslu, með myndum og svoleiðis, í góðu tómi bráðum.  

Þannig var sumarið hjá mér sumsé. Í gær eignaðist ég svo nýjan föðurbróður. Hljómar dálítið eins og plott í Arrested Development, ég veit, eða ekta gamaldags íslensku útvarpsleikriti...

Ég segi bara eins og ein persónan í sögu eftir Einar Kárason:

Ég skal segja þér það, skal ég segja þér. 


Flaksandi hörföt og Le Monde

Ég hef komist að því að blogg er ekki sumariðja.

Á sumrin ætti maður frekar að grípa sér baguette, rauðvínsflösku, setja Le Monde undir hendina og ganga niður í bæ í flaksandi hörjakkafötum.

Vera dálítið continental, þið fattið.

Spila svo boccia með strákunum niðri á Ylströnd.

En ég ætla reyndar ekki að hafa það alveg þannig, þótt ég hafi vissulega gælt nokkuð við þennan stíl þegar sólin skín. Þessa stundina er ég að skrattast við að klára að skrifa bók, svo ætla ég að skreppa í smá ferðalag um Norðausturland, vera slatta uppi í sumarbústað, fara í fjallgöngur, hjólreiðatúra og svo framvegis. 

Auk þess mun freelance-harkið sem færir salt í grautinn taka sinn tíma eins og alltaf. Varaþingmennskan borgar ekki mikið í aðra hönd... En ég kvarta ekki. Harklífernið (skriftir, auglýsingar, tónlist etc) hefur alltaf átt ágætlega við mig. Vissulega dálítið óöryggi, en meira frelsi.

En ég myndi svosem ekki fúlsa við fastri vinnu svona með haustinu, ef samningar nást. 

Þangað til segi ég bara eins og afi minn:

Betra er að vera klakaklár

og krafsa snjó til heiða 

en lifa mýldur öll sín ár

undir hnakk og reiða.

Hafið það gott í sumarblíðunni. Ég ætla að hvíla bloggið um stundarsakir. Mæti svo fílefldur til leiks á þessum vettvangi eða annars staðar. Það verður af nógu að taka í þjóðfélagsmálunum þegar líða tekur að hausti, og reyndar er af nógu að taka nú þegar. (Spítalarnir, byggðirnar, orku- og umhverfismálin etc)  Úrlausnarefnin blasa við á öllum sviðum... 


Kökur á 700 þúsund

Hlæ enn nokkuð með sjálfum mér að uppátæki þeirra félaga Jón Páls Eyjólfssonar og Jóns Atla Jónassonar á 17.júní í gær, en þar kynntu þeir félagar drög að uppsetningu eldflaugavarnarkerfis fyrir Ísland og öfluðu stuðnings við það í hermannagrænu tjaldi með þar til gerðum dreifiritum.

Auðvitað löngutímabært málefni. Ísland er gjörsamlega án eldflaugavarnarkerfis.

Þarna var auðvitað kökubasar. Verð á marensköku var 700.000, en aðrar kökur voru á bilinu 300 til 500 þúsund. Kaffið var hins vegar ókeypis.

Eitthvað fyndið við þetta.

Annars var skemmtilega rólegt yfirbragð yfir 17.júní. Dáldið eins og að vera niðri í bæ kl. 05.00 á laugardagsnótt nema bara allir edrú. Og aðeins meira af börnum.

Það er vel til fundið að hafa handboltaleiki á þjóðhátíðardaginn. Það var eiginlega fyrst þá um kvöldið að einhver vottur af þjóðerniskennd gerði vart við sig.

Annars var fríið mitt fínt.  Í Mílanó varð ég var við að gengið féll. Evran fór í 85 kall.Þegar ég kom heim sá ég ástæðuna: Tillögur Hafrannsóknarstofnunar.  Sem betur fer keypti ég mér ekki Armani jakkaföt þann daginn.

Á 700 þúsund.  


Held suður á bóginn

Að aldagömlum sið hef ég ákveðið ásamt spúsu minni að halda suður á bóginn um skeið til þess að safna kröftum og endurnærast í þægilegra loftslagi. 

Blogga því mest lítið fyrr en tja, ca. 13.júní eða svo.

Nema eitthvað rosalega merkilegt gerist.

Hafið það gott.  


Gúrka og kjöt

Ég er ekki frá því að það sé skollin á gúrka í fréttum og að gúrkan sé því óvenju snemma í ár. Vanalega er gúrkan í júlí.

Viðskiptanám er vinsælt. Íslensk erfðagreining fann gen.

Dulitlar gúrkufréttir, þannig séð.

Uppáhaldsgúrkufréttin mín fyrr og síðar var um reykhnoðra sem bóndi sá yfir Heklu. Bóndinn taldi eldgos hafið, en þegar nánar var að gáð var einungis um ský að ræða.

Aldrei hafði ég áður lesið frétt um ský. Þær mættu vera fleiri. Kannski kemur ein á næstu dögum.

Sjálfur er ég búinn að borða alltof mikið kjöt undanfarið, svo ég segi nú eina gúrkufrétt af sjálfum mér. Föstudagskvöld: grillveisla. Laugardagskvöld: lamb í brúnni hjá tengdó. Sunnudagseftirmiðdagur: Fermingarveisla. Kjötiðnaðarmaður sá um veitingarnar (innbakað kjöt, reykt kjöt, kjötbollur...) . Sunnudagskvöld: Partíveisla í sjoppu Sigga Halls. Kjöt-tvenna í matinn. Mánudagur: Hamborgarabúllan.

Í dag myndi ég deyja fyrir cous-cous. 

("I would die for a cous-cous". Þessi setning kemur fyrir í einum þætti South Park seríunnar og er þar lögð í munn Hollywood-leikstjóra sem kemur um stundarsakir til Southparks og ætlar að panta sér eitthvað að éta hjá skeggjaða hamborgarasölumanninum.  Óborganlega fyndin sena að mínu viti og hefur orðið mér tilefni til asnalegra hláturroka upp úr eins manns hljóði í gegnum tíðina við hin ólíklegustu tilefni.)

Stefni á ræktina.


Málefnasáttmálinn

Þegar málefnasamningurinn hafði verið kynntur flokkstjórn á þriðjudaginn var höfðu nokkrir góðir og gegnir Samfylkingarmenn á orði að þeim þætti ótrúlegt að þetta væri sami málefnasamningurinn og hefði verið lagður fyrir Sjálfstæðismenn. Samhljómurinn við stefnu Samfylkingarinnar í öllum helstu málaflokkum hljómaði bara svona afskaplega skýr í eyrum þessa fólks, og þar á meðal í mínum verð ég að viðurkenna. 

En svo hitti í Sjálfstæðismenn á förnum vegi. Ég bjóst alveg eins við að þeir myndu kannski dæsa smá yfir örlögum sínum. En annað koma auðvitað á daginn. Þeir voru svona líka afskaplega ánægðir með þennan málefnasamning, og ekkert nema gott um það að segja. 

Málefnasamningur er dálítið skrítið plagg. Ekki er beinlínis um heimsbókmenntir að ræða eða prósa á háu stigi. Afdráttarleysinu í textanum er ákveðin takmörk sett. Fullyrðingagleðin er innan allra marka hófsemdar... Það er mikið af "áfram skal tryggja", "gæta þarf að", "stefnt skal að" og svo framvegis og fyrir þá sem ekki hafa fylgst með málefnavinnu flokka sinna og síðan með málefnavinnu ríkisstjórnar kann svona texti að virka andskoti þunnur. 

En það, eins og margir vita, eru aldrei tíðindi í málefnasamningi, að orðalag hans og stíll kunni að virka sem lapþunn slepja. Því má halda fram, að til þess sé beinlínis ætlast.  Þetta er í eðli sínu stofnanaplagg. 

Kúnstinn við að lesa málefnasamning felst hins vegar í því að kunna að sjá tíðindin sem falin eru í textanum. Að gerð hans koma afskaplega margir. Hvert orð skiptir máli. Munurinn á "tryggja skal stöðugleika" og "tryggja skal áframhaldandi stöðugleika" verður til dæmis afskaplega mikill í þessari vinnu svo eitt dæmi af handhófi sé tekið. 

Og nú ætla ég að nefna það í textanum sem ég tel vera afskaplega gott og gerir mig ánægðan, svona við fyrsta lestur.  

Ég kann vel við að þetta sé "frjálslynd umbótastjórn" eins og segir í sáttmálanum. Áhersla á jafnvægi í efnahagslífinuu, lága vexti og verðbólgu er mikil og svo yljar það mér um hjartarætur hversu mikil áherslan er strax í upphafi samningsins á menningu og nýsköpun. Hið kristaltæra markmið um eflingu hátækniiðnaðar glóir t.d. þarna sem gimsteinn í textaflóðinu, óumdeilt. 

Og það gerir líka endurskoðun almannatryggingakerfisins, sem var auðvitað baráttumál sem Samfylkingin setti á oddinn í síðastliðnum kosningum, sem og áherslan á málefni barna annars vegar og eldri borgara hins vegar. Þessu er öllu saman borgið í sáttmálanum og vel það.

Svo er skattastefnan í takt við okkar hugmyndir, með hækkun persónuafsláttar og barnabóta og afnámi stimpilgjaldanna. Tannvernd verður ókeypis og komið verður á stuðningi við kaup framhaldsskólanema á skólabókum. Jafnréttiskaflinn er líka ansi hreint merkilegur og felur í sér mikil framfaraskref. 

Það er enginn spurning að þessi málefnasáttmáli gefur færi á því að ráðast í það af fullum krafti að bæta hag heimilanna, koma á meiri jöfnuði og meira réttlæti á Íslandi. Allt tal um að þetta sé "hægristefna" er ósannfærandi.  Þarna blása vissulega frjálslyndisvindar, en það er kærkomið.

Svo eru það umhverfismálin. Beinlínis er kveðið á um vernd vissra mikilvægra svæða og svo á að klára rammaáætlun um náttúruvernd og skipa henni lögformlegan sess. Þetta eru allt saman mikil tíðindi. Og Langasjó og Þjórsárverum er bjargað. 

Ekki er talað um stóriðjustopp, en kannski féllst okkar fólk á það, vegna þess að Samfylkingin mun jú fara með framkvæmdavaldið í þessum málaflokki og hafa þar með sitt um það að segja hvað verður gert á næstu árum. Umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið eru bæði á okkar könnu.  

Svo getur maður tekið nokkrar setningar í heild sinni sem hljóma líkt og úr munni Bastíans bæjarfógeta í lokin á Kardimommubænum: 

"Trúfélögum verði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra." 

"Tryggður verði réttur launafólks til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs."

"Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verða nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu."

"Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak". 

Allar þessar setningar fela í sér mikil tíðindi. 

En auðvitað er það rétt að svona málefnasamningur er almennt plagg. Báðir flokkarnir eru ánægðir með það, sem er gott.  En nánari útfærslur á öllum þessum málum er svo að finna í stefnuskrám flokkanna.

Við förum með samgöngumál, byggðamál, iðnaðar-, umhverfis, sveitastjórnar-, neytenda-, samkeppnis- og verðlagsmál, utanríkismál,  málefni eldri borgara og almannatryggingakerfisins, sem og velferðarmál í sinni víðustu mynd í þessari ríkisstjórn. 

Málefnasáttmálinn er fyrirtaks grunnur, frá sjónarhóli Samfylkingarinnar, til þess að koma okkar mikilvægu baráttumálum í framkvæmd, og við erum einnig með ráðuneytin til þess. 

Þá er bara að hefjast handa.

Til hamingju með nýja frjálslynda umbótaríkisstjórn. Hún er líklega að setjast til borðs á Bessastöðum nákvæmlega núna.  


Vel að málum staðið

Ég verð að segja að ég er nokkuð ánægður með hvernig flokkarnir tveir hafa staðið að stjórnarmyndunarviðræðunum. Ekki nokkur skapaður hlutur hefur lekið út þótt báðir þingflokkar séu stórir og mögulegir lekar því víða fyrir hendi. Þetta er nefnilega dálítið mikilvægt í svona ferli. Brosandi leiðtogarnir hafa haldið vel á spöðunum. Það er góður grundvöllur fyrir traust.

Þetta gengur líka þvert á þann hola málflutning Moggans, sem hann hefur haldið nokkuð á lofti undanfarið, að Samfylkingunni sé ekki treystandi.  Dómsdagsvitleysa það.

Nú bíð ég bara spenntur eftir málefnasamningnum sem verður lagður fyrir flokksstjórn í kvöld.

Mun lesa hann spjaldanna á milli sem metsölubók væri.


Nöfnin

Á meðan viðræðuhóparnir ræða saman á Þingvöllum og slípa orðalag stjórnarsáttmála fer fram mikið stríð í bloggheimum um hið mikilvæga úrlausnarefni áður en lengra er haldið: Hvað á stjórnin að heita? 

Þingvallastjórnin sýnist mér hafa yfirhöndina.  Það er ágætt nafn. Að sjálfsögðu er ég þó særður dýpra sári en orð fá lýst út af þeirri höfnun sem ég upplifði er mér varð ljóst að tillaga mín um nafngift hér í fyrri færslu hlaut litlar sem engar -- ég endurtek -- litlar sem engar undirtektir.

Ekki það ég sé eitthvað bitur út af því, en mig grunar auðvitað að nafngift sú -- uppstigningarstjórnin -- hafi reynst riddurum netheimanna, sem allir eru auðvitað meira og minna málhaltir út af áratuga löngum samvistum við lyklaborðið í daufri lampabirtu einsemdar sinnar, of óþjált í munni. En ímyndið ykkur til dæmis mann eins og Gunnar Eyjólfsson leikara og fyrrum skátahöfðinga segja þetta orð með tilþrifum: Uppstigningarstjórnin. 

Ging gang gúlí gúlí.  

Allt í lagi. Ég játa mig sigraðan. Þingvallastjórnin er þjálla. En fyrst menn eru farnir að spá í þetta svona mikið á annað borð, þá get ég ekki látið hjá líða að koma með ögn fleiri hugmyndir að heitum. Það er algengt að stjórnir öðlist nöfn sín út af kringumstæðum, staðsetningu viðræðna eða einhverju sem einkennir aðdraganda eða framkvæmd viðræðnanna. 

Þannig vill Sigurður G. Tómasson skíra stjórnina Bleikjan, út af því að hann var að veiða í Þingvallavatni svoleiðis fisk á dögunum. Þetta finnst mér ekki sannfærandi. Af hverju á ríkisstjórnin að draga nafn sitt af fisktegund sem Sigurður var að veiða? Sé ekki tenginguna. Ef hins vegar formenn flokkanna hefðu brugðið sér út til þess að veiða í soðið hefði þetta steinlegið. Í því sambandi vil ég þó vekja athygli á því að í Þingvallavatni er önnur fisktegund líka mjög algeng: Murtan. 

Það kann því augljóslega að fylgja því nokkur áhætta að ætla sér að nefna stjórnina eftir þeim fiski sem kæmi á stöngina. Urriðinn yrði heldur ekki gott nafn, þótt Össurri fyndist það kannski, enda hefur hann skrifað um það óhuggulega kvikindi bók. 

Það má velta upp öðrum möguleikum. Taka smá brainstorm. Kasta upp nokkrum boltum: Í morgun var greint frá því í blöðunum að Samfylkingin hefði komið til viðræðna um helgina á Landcruiser.  Landcruiser-stjórnin? Jafnframt var greint frá því að hann hefði verið leigður hjá Hertz. Gæti þá ekki Hertzstjórnin verið málið? Hljómar dáldið alþjóðlegt. Eitthvað töff við það. Skemmtilega þýskt, sem er alltaf traustvekjandi.  Nú, og viðræðuhóparnir fengu sér kjúklingasamloku í hádegismat. Samlokustjórnin? Þorgerður Katrín kom með nammi. Nammistjórnin hljómar kannski of léttvægt fyrir ríkisstjórn, en það má kannski íhuga það samt.

Greint var frá því að Geir hefði séð kafara á göngu sinni og konu sinnar á sunnudagsmorgun. Kafarastjórnin meikar hins vegar ekki mikinn sens. Koss Ingibjargar og Geirs á tröppum Þingvallabústaðarins virkaði hins vegar meira sannfærandi sem undirstaða nafngiftar af myndum Fréttablaðsins að dæma.  Kossstjórnin er hins vegar alveg afleitt nafn. Gjörsamlega afleitt.

Þannig að það er margt í þessu.  Baugsstjórnin finnst mér út úr kú. Miðað við búsetu er mun líklegra að Ingibjörg og Geir versli í Melabúðinni.  Melabúðarstjórnin væri hins vegar fáránlegt nafn líka. 

Þingvallastjórnin. Ég sætti mig við það.

End of story. 

Hins vegar er athyglisvert, fyrst það er verið að ræða þetta á annað borð, að fráfarandi ríkisstjórn bar ekkert nafn.  Hvernig stendur á því? Hér eru tillögur: Íraksstjórnin væri nafngift sem andstæðingum hennar myndi hugnast, en svo gæti hún líka heitið í höfuðið á einum eftirminnilegasta frasanum sem ráðherra hennar lét út úr sér: Barn síns tíma.

Eða bara í anda Sigurrósar: Nafnlausa stjórnin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband