Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
29.4.2007 | 23:28
Íslenskukennsla fyrir Frjálslynda, biðlistar, Vopnafjörður og fl.
Eftir að kosningabaráttan fór á fullt hefur maður varla tíma til þess að blogga. Því er verr og miður því ef einhvern tímann maður ætti að blogga væri það líklega núna. Tvær vikur í kosningar og heldur betur nauðsynlegt að koma sjónarmiðum á framfæri...
En mér sýnist síðunni minni hafa verið haldið ágætlega við með líflegum umræðum um kaupmátt og kaupmáttaraukningu. Vonandi lærist fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna af þeirri umræðu að betra er að hafa allar tölulegar staðreyndir á hreinu, áður en rokið er af stað með fullyrðingar um að "kaupmáttur hafi aldrei aukist jafnmikið á Íslandi" etc. Auk þess má sjá af umræðunum að klisjan um að vinstri stjórnir séu einhverjar óstöðugleika og glundraðastjórnir hefur fjarað út í sandinn.
Annars hef ég mestmegnis verið í verslunarmiðstöðum, á vinnustöðum, í skólum og að ganga í hús með rósir og bæklinga undanfarið. Edda kom með í dag á Álftanesið að dreifa og fannst það svona líka skemmtilegt. Gekk með mér hús úr húsi með barnastefnuna og XS buff um hausinn.
Svo skrapp ég líka á Vopnafjörð í vikunni, fór í sund við Selá og hélt ræðu. Vopnafjörður var einu sinni höfuðvígi Framsóknarflokksins. Nú var það Samfylkingin sem fyllti samkomuhúsið. Fólk gekk brosandi út og rífandi stemmning á svæðinu. Dúddi staðarhaldari ætlar samt ekki að kjósa okkur. Geri aðra atlögu að honum síðar.
Í gær söng ég svo á söngvakeppni frambjóðenda í Suðvesturkjördæmi á vorhátíð Aftureldingar, með Kötu Júl og Árna Pál í bakröddum. "Það er bara einn flokkur á Íslandi sem talar af einhverri skynsemi um mál" . Lag Mrs Robinson. Við Marshall höfum verið að syngja þetta hér og þar. Fólk tekur undir.
Síðar um kvöldið spilaði svo Ske á rokkhátíð gegn biðlistum, á Nasa. Innlegg Samfylkingarinnar í þá umræðu í dag var ansi hreint ágætt. Það kostar ekki nema um 30 milljónir að eyða biðlistunum á BUGL. Þessi brýnu velferðarmál eru nefnilega ekki peningaspursmál, heldur eru það einfaldlega tregðulögmál, áhuga- og dugleysi sem hafa komið í veg fyrir aðgerðir.
En samt saka Sjallarnir okkur um að vilja auka eyðslu og útgjöld, um leið og við minnumst á velferðarmál. Það er rauði þráðurinn í grein eftir Illuga í dag í Fréttablaðinu. Alveg er það merkilegt að Sjallarnir skuli ekki ennþá skilja að það er hægt að forgangsraða útgjöldum, stunda hagstjórn og taka skynsamlegar ákvarðanir í ríkisbúskapnum, eins og að eyða biðlistum, sem yfirleitt sparar peninga til lengri tíma litið.
Sjálfir hafa þeir lofað núna hátt í 420 milljörðum í alls konar útgjöld á næstu árum. Það ætti því að fara þeim betur að þegja.
Sem þeir og gera reyndar í stórum stíl.
Sigurvegarar vikunnar í pólitískum áróðri eru hins vegar Frjálslyndir: Strætó með auglýsingum frá þeim keyrir núna um borgina með málfarsvillu í stríðsletri:
"Berjumst gegn stéttarskiptingu"
Þetta á að sjálfsögðu að vera stéttaskipting. Ekkert r. Nema frjálslyndir séu að tala um gangstéttina.
Maður veit ekki.
Tvær vikur til stefnu. Fólk er greinilega ennþá að ákveða sig, samkvæmt könnunum. Um 40% óákveðnir ennþá. Allt getur gerst.
Í öllu falli. Ekki kjósa þessa lista þann 12.maí:
Biðlista barna með geðraskanir. 170 börn bíða eftir fyrstu komu á göngudeild BUGL, biðtími allt að eitt og hálft ár. 20-30 mikið veik börn bíða eftir innlögn.
Biðlista aldraðra. 400 bíða í heimahúsum í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og 900 í þvingaðri samvist með ókunnugum. 62 aldraðir sem lokið hafa meðferð bíða inná Landspítala eftir því að komast í varanleg hjúkrunarrými.
Biðlista hjartasjúklinga. 243 hjartasjúklingar eru á biðlista eftir hjartaþræðingu á LSH, þar af 54 sem hafa beðið lengur en í 3 mánuði. 53 bíða eftir opnum hjartaaðgerðum. 170 til viðbótar bíða eftir öðrum hjartaaðgerðum og -rannsóknum.
Biðlisti barna með þroskafrávik. 276 börn með margvísleg þroskafrávik bíða eftir greiningu. Biðtími er allt uppí 3 ár. Greining er skilyrði fyrir því að þessi börn fái stuðning í skólum og aðra þjónustu.
Biðlista geðfatlaðra eftir búsetuúrræðum. 50 geðfatlaðir á Landspítala bíða eftir varanlegri búsetu. Sumir hafa beðið í allt að 15 ár. Auk þess vantar búsetuúrræði fyrir 170 geðfatlaða til viðbótar. Að mati Geðhjálpar eru 60-70 geðfatlaðir á götunni!
Biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. 256 sjúklingar bíða eftir liðskiptaaðgerðum á LSH og þar af hafa 138 beðið í meira en 3 mánuði.
Biðlista eftir sjúkrahúsmeðferð aldraðra. 242 aldraðir bíða eftir að komast í margs konar meðferð á öldrunarsviði LSH.
Biðlista á LSH, sem telja alls 3.145 manns. Hér að ofan er aðeins sá hluti biðlista eftir aðgerðum á Landspítala sem talinn er verulega slæmur, jafnvel hættulegur, en alls eru á biðlistum þar eftir þjónustu um 3.145 manns. Þar af eru 671 sem bíður eftir augasteinaaðgerð og hafa 453 þeirra beðið lengur en í 3 mánuði.
Biðlista þroskaheftra. 142 þroskaheftir bíða eftir því að komast í skammtímavistun.
Biðlista öryrkja. 200 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá Öryrkjabandalaginu.
Biðlista fatlaðra. 100 bíða á biðlistum Svæðisskrifstofa eftir búsetuúrræðum og margir hafa beðið árum saman. Árlega bætast um 15 manns á þann lista.
Biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Á Stór-Reykjavíkursvæðinu eru 1525 manns á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, þar af um 650 námsmenn.
24.4.2007 | 00:26
Lítið skjal um kaupmátt
Nú dynja á landsmönnum fullyrðingar um að kaupmáttur hafi aukist svo og svo mikið á svo og svo mörgum árum. Ég settist niður í morgun og gerði mér glaðan dag með einu tilteknu excel-skjali sem ég náði í á síðu Stjórnarráðsins, nánar tiltekið á gamalli síðu Þjóðhagsstofnunar, sem var lögð niður af Davíð Oddssyni og félögum sælla minningar.
Mér finnst alltaf gaman að nördast pínulítið með excelskjöl. Skjalið sýnir m.a. vöxt kaupmáttar frá ári til árs allt frá 1950 til ársins 2000.
Menn guma sig af því núna að kaupmáttur ráðstöfunartekna, eins og það kallast, hafi aukist um 4.2% á ári að meðaltali frá 1994-2005, og að í heildina hafi hann aukist um 56% á þessu tímabili.
Við í Samfylkingunni höfum ekki mótmælt þessu. Við höfum hins vegar bent á að þetta er auðvitað bara meðaltalsreikningur. Ef skoðaðir eru einstakir hópar, blasir við mynd ójafnaðar. Kaupmáttur þess tíunda hluta þjóðarinnar sem hæstar hafa tekjurnar hefur aukist um 118% á þessum árum en kaupmáttur þess 20% þjóðarinnar sem lægstar hefur tekjurnar hefur einungis aukist um rétt rúm 30%.
Það er talsverður munur á 118% og 30%, þó svo meðaltalið sé sæmó.
En gott og vel. Skoðum nú þetta með kaupmáttinn alveg frá 1950. Þá kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós:
Á árabilinu 1951-1960 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali um 4.27% á ári, sem er svipað og á umræddu tímabili sem ríkisstjórnin gumar sér af nú.
Frá 1961-1970 jókst hann svo um 5.15% að meðaltali á ári, hvorki meira né minna.
Frá 1971-1980 gerðu menn enn betur, en þá jókst kaupmátturinn um 5.67% á ári.
Þess má geta -- fyrir þá sem hafa áhuga á því sérstaklega -- að á tímum vinstri stjórnarinnar 1971-74 jókst kaupmátturinn um 10.6% á ári.
Það er nokkuð gott. :)
Frá 1981 fór dálítið að halla undan fæti hvað varðar vöxt á kaupmætti ráðstöfunartekna samkvæmt excel skjalinu góða. Frá 1981 til 1990 jókst hann einungis um 2% á ári að meðaltali. Enda var verðbólgan talsverð á þessum tíma, eða allt þar til vinstri stjórnin 1988-91 náði henni niður.
Og svo kom Davíð Oddsson. Svo virðist sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi einungis aukist um 1.6% að meðaltali á ári frá 1991 til 2000.
Ja, hérna.
Kannski var það þess vegna sem Davíð lagði niður Þjóðhagsstofnun?
Maður veit ekki. Það er alla vega margt í þessu. Það eru margar tölurnar. Ég sé til dæmis ekki betur en að frá 1950 til 2000 hafi kaupmáttur aukist um þetta 3.75% á milli ára að jafnaði - ef út í það er farið - sem er bara ansi hreint þokkalegt.
Hvað segja Sjallarnir við því? Er það Geir að þakka?
Fæddist hann ekki einmitt á því bili?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
20.4.2007 | 21:13
Mikið traust til Samfylkingarinnar - Könnun
Í hinu nýja og ferska blaði, Kraganum, sem er gefið út í Suðvesturkjördæmi og er dreift í öll hús á föstudögum -- þið getið náð í það hér -- kemur m.a. fram að samkvæmt könnun Capacent Gallup um traust til stjórnmálaflokka í nokkrum lykilmálaflokkum, nýtur Samfylkingin mest trausts allra flokka í brýnum velferðarmálum og réttindamálum. Auk þess treysta kjósendur Samfylkingunni best til þess að ná niður vöxtum og verðlagi.
Þetta var 1900 manna úrtak og könnunin var gerð fyrir Samfylkinguna. M.a. var spurt hvaða flokki kjósendur treystu best til þess að útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum og Samfylkingin kom þar best út.
Já, þið lesið þetta bara. Náið í blaðið.
Svo er þarna útlistun á stefnu Samfylkingarinnar um Nýja atvinnulífið. Við færum fyrir því rök að síðan 2003 hafi ríkt hátæknistopp á Íslandi. Tölurnar sýna það.
Stjórnarflokkarnir tveir, sem mæla mest gegn stóriðjufrestun - sem boðuð er af alls kyns skiljanlegum ástæðum og góðum rökum - hafa í raun staðið fyrir stoppi í öðrum atvinnuvegum, eins og hátækni, með stefnu sinni á undanförnum árum.
Lesið allt um þetta í Kraganum, 2.tbl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.4.2007 | 01:05
Hitti mann
Hitti mann í dag. Við fórum að tala um fylgi Samfylkingarinnar, eins og gerist og gengur, og að það skuli vera á uppleið.
"Iss," sagði hann. "Þetta er bara út af Landsfundinum."
"Aha," sagði ég. "Kannski rétt".
En svo fór ég að hugsa: Hvað er að því? Er fylgi sem kemur út af Landsfundinum eitthvað verra fylgi? Eru einhverjar reglur til um það hvernig fylgi á að koma til flokka?
Auðvitað ekki.
Þetta var í rauninni fáránleg athugasemd hjá manninum. Fylgi er fylgi. Fylgisaukning er fylgisaukning.
Varð bara að deila þessu með ykkur.
Í dag, föstudag, opnar Samfylkingin kosningamiðstöð í Garðabæ. Milli 5 og 7 að Garðatorgi 7. Allir velkomnir. Léttar veitingar.
Ég verð þar sem gallharður fulltrúi jafnaðarmanna af Arnarnesi. Ört stækkandi hópur.
18.4.2007 | 23:52
25% og upp
Könnun Félagsvísindastofnunar fyrir oddvitadebattið í Kraganum á Stöð 2 sýndi Samfylkinguna í 25 prósentum í kjördæminu. Ég verð að játa að mér líður þónokkuð betur með þá tölu heldur en bévítans 18% sem við vorum sokkin niður í um daginn í einhverri Gallup-könnuninni. Þetta er klárlega uppleið, þótt þetta sé vissulega nokkuð minna en við fengum í síðustu kosningum.
Upp miðað við Gallup, niður miðað við kosningar. Svona er upp og niður afstætt. Eins og félagi Gunnar Svavarsson benti á í þættinum erum við núna í nákvæmlega sömu stöðu í mælingum og við vorum fyrir síðustu kosningar á þessum tíma. Þá náðum við flugi á lokasprettinum.
Mér finnst ég skynja meðbyr, en hvað veit maður svosem. Allir segjast finna meðbyr. Það stendur í stjórnmálahandbókinni, 1. kafla: "Alltaf segja að þú finnir meðbyr".
En ég meina það. Það er meðbyr. Í fyrsta skipti núna í nokkurn tíma er fólk farið að koma til mín að fyrra bragði og segjast ætla að kjósa Samfylkinguna og er beinlínis grjóthart á því. Fólk hefur nefnilega núna nokkuð lengi haldið að sér höndum varðandi Samfylkinguna, verið í vafa, efast. Ekkert endilega verið að taka slagi á vinnustöðunum fyrir okkar hönd.
Þetta er að breytast. Samfylkingin er enginn 18% flokkur. Enginn 18% flokkur heldur landsfund eins og þennan sem við héldum síðustu helgi.
Ég hef heyrt mikinn kosningafræðimann spá því að Samfylkingin muni enda í kringum 30%. Annar maður, gamall refur í bransanum, spáir 28%.
Við sjáum til.
Gunnar Svavars stóð sig vel í kvöld. Yfirvegaður og glaðbeittur. Einbeitti sér að því að kynna okkar málefni og stefnu. Þáttturinn var hins vegar almennt ekkert spes. Sex manna pallborð er barasta alls ekki besta uppskriftin að snörpum og upplýsandi rökræðum, svo vægt sé til orða tekið. Eitt svar á mann í hverju máli. Svo tekið fyrir næsta.
Get ekki ímyndað mér að þeir sem eru ekkert inni í málum séu mikið nær. Væri dálítið merkilegt ef lífið væri svona alltaf, og maður fengi alltaf bara 30 sekúndur til að svara spurningu, skýra mál sitt, segja meiningu sína.
Það yrði fáránleg veröld.
Og alltaf einhverjir fimm aðrir ósammála manni.
18.4.2007 | 18:26
Sögufræg hús brenna
Mig minnir að sögukennarinn minn í MR hafi einhvern tímann sagt mér frá því að húsið við Lækjargötu sem brann í dag, þar sem Café Opera er, hafi verið einn fyrsti skemmtistaðurinn í Reykjavík. Að þarna hafi stúdentar komið saman upp úr aldamótum 1900 og gert sér glaðan dag.
Er ekki alveg viss samt.
Um hitt er ég alveg viss að í húsinu sem brann við Austurstræti var skemmtistaður sem ég sjálfur datt stundum inn á fyrir og um síðustu aldamót. Þá hét hann Astró.
Það er fjári dapurlegt að sjá svona gömul hús, sem hafa verið full af lífi í hundrað og eitthvað ár verða eldinum að bráð.
Minnir mann á hversu mikilvægt það er að varðveita svona hús og minjar vel. Sárt að sjá svona hverfa.
Vona bara að það komi ekki einhver grámyglulegur steinkumbaldi í staðinn.
16.4.2007 | 12:48
Skrall, glundroðakenningar og lélegar eftirlíkingar
Landsfundurinn endaði með heljarinnar skralli á laugardaginn á Grand Hótel. Kvöldverður og brjálað partí með eðalplötusnúðunum Gullfossi og Geysi. Ég held ég hafi hlegið nokkurn veginn samfleytt í tvo til þrjá tíma undir borðhaldinu. Sr. Kalli Matt var veislustjóri og fór á kostum. Fyndinn prestur hann Kalli. Ef ég fer að ráðum Séð og heyrts einhvern tímann og gifti mig, þá hugsa ég að hann verði presturinn.
Hallgrímur Helga flutti hátíðarræðuna og jós yfir landsfundargesti sprenghlægilegum pólitískum háðsglósum í allar áttir eins og honum er einum lagið. Maður lá í fjárans krampakasti sem er ekki gott eftir át á kjöti. Í kjölfarið komu svo þeir Hannes og Smári, einnig þekktir sem Ólafía Hrönn og Halldóra Geirharðs og gáfu Ingibjörgu Sólrúnu nokkrar þrælfyndnar ráðleggingar um það hvernig ætti að haga sér í svona kosningabaráttu sko.
Við Róbert Marshall, vopnabræður, stigum líka á stokk, greindum stöðuna og sungum lag. Við lítum svo á að við þurfum sérstaklega að leggja mikið á okkur í þessari kosningabaráttu. Aukinn þungi er á okkur Marshall að við stöndum okkur.
Þegar við gengum í flokkinn í október féll nefnilega fylgið um einhver 10%.
Drifnir áfram af samviskubiti settumst við því niður tveir og settum saman pólitískan baráttusöng með skýrum, ákaflega skýrum skilaboðum, svo ekkert fari á milli mála: Það er aðeins einn flokkur á Íslandi sem talar af einhverri skynsemi um mál. Lag: Mrs Robinson.
Þetta virðist virka. Eftir að við byrjum að syngja þetta er fylgið farið að skríða aftur upp. Og hvílíkar viðtökur í kvöldverðinum. Fólk söng hástöfum, stóð upp og læti. Og svo var sungin Maístjarnan og Vertu til, og undirtektirnar þvílíkar að það var eins og jafnaðarmennskan hefði leysts úr læðingi sem virkjanlegur frumkraftur á við einn og hálfan Kárahnjúk.
Við erum ekki baun að fara að tapa þessum kosningum.
Eftir allt þetta rífandi stuð var síðan óborganlega fyndið að vakna morguninn eftir og lesa Reykjavíkurbréf Moggans, það flaggskip geðvonskunnar. Þar var Samfylkingin bara svo gott sem að splundrast. "Hatrammar deilur" innan flokksins.
Einmitt það já.
Það er nefnilega dálítið merkilegt með þessa mýtu um "hatrammar deilur" innan Samfylkingarinnar. Fyrir utan það að vera bráðfyndið rugl, býr hér annað skemmtilegt sannleikskorn á bak við -- óþægilegt fyrir hægri menn -- sem án efa er kveikjan að þessum öfugsnúna áróðri:
Eins og Hallgrímur Helga benti á í hátíðarræðu sinni: Öll klofningsframboð á Íslandi í dag, Frjálslyndi flokkurinn, Íslandshreyfingin, Nýtt afl og hugsanlegt framboð Aldraðra og öryrkja eru framboð sem skilgreina sig til hægri. Þetta eru framboð óánægðra Sjálfstæðismanna.
Við frábiðjum okkur, Samfylkingarfólk, að Mogginn og aðrir reyni að troða sínum glundroða á hægri væng yfir á okkur. Bara gengur ekki upp. Sorrí.
Það varð svo til þess að toppa þessa frábæru helgi þegar Ingibjörg Sólrún birtist afslöppuð og brosandi í Silfri Egils og svaraði hverri spurningunni á fætur annarri með skýrum líkingum og afdráttarlausum málflutningi. Ég held að fólk sé farið að kveikja á þessu: Norðurlöndin hafa látið jafnaðarmenn koma að stjórn sinna samfélaga í mjög ríkum mæli um áratuga skeið. Niðurstaðan er eitt farsælasta módel að ríkisrekstri og þjóðfélagsgerð sem hugsast getur. Það er einfaldlega stórskrítið ef Íslendingar ætla ekki að kveikja á þessu og kjósa Samfylkinguna sem er systurflokkur hinna norrænu jafnaðarflokka til áhrifa á Íslandi.
Þetta var líka megininntakið í virkilega góðu og innihaldsríku viðtali Egils við þær Monu Sahlin og Helle Thorning-Schmidt, heiðursgesta á landsfundi Samfylkingarinnar, sem fylgdi í kjölfar spjallsins við Ingibjörgu. Hægri menn, sögðu þær Helle og Mona, tala alltaf um jafnaðaráherslur fyrir kosningar. Það er segin saga. En þegar á hólminn er komið, aftur á móti, klúðra þeir síðan framkvæmdinni. Hjarta þeirra slær ekki með þessum hugsjónum. Svo einfalt er það.
Það er náttúrlega átakanlegt ef Sjálfstæðisflokknum tekst að selja kjósendum það eftir 16 ára stanslausan flumbrugang, and-, metnaðar og dugleysi í velferðarmálum að hann sé einhver sérstakur velferðarflokkur allt í einu. En þetta reynir hann.
Sigur okkar hugsjóna -- sem höfundur Reykjavíkurbréfs heldur virkilega að sé krísa -- er einmitt sú að enginn flokkur telur sig geta unnið kosningar nema með því að blekkja kjósendur með málflutningi um að okkar áherslur séu þeirra áherslur líka.
Ég frétti af Hannesi Hólmsteini með fyrirlestur um daginn. Hann mun hafa eytt tveimur klukkutímum í að rökstyðja að hann væri jafnaðarmaður.
Auðitað er þetta bara bull. Kjósum upprunalega vöru. Forðumst eftirlíkingar.
14.4.2007 | 00:31
Glæsilegur landsfundur
Fyrsti dagur landsfundar Samfylkingarinnar var magnaður. Fjölmennasti landsfundur í sögu Samfylkingarinnar og gríðarlega tilkomumikið að finna baráttuandann og samstöðuna í öllu þessu fólki.
Magnaður fjári.
Ræða Ingibjargar var eins og töluð úr mínu hjarta. Vel ígrunduð, beitt, jarðbundin og skynsamleg. No nonsense.
Úrlausnarefnin einfaldlega blasa við í samfélaginu. Í hagstjórninni, í velferðarkerfinu, í umhverfismálum, í jafnréttismálum. Bara hvert sem litið er.
Eftir að hafa hlustað á hana fara yfir þetta lið fyrir lið finnst manni hreinlega undarlegt að konur eins og Dharma og fleiri sem hér skrifa reglulega í athugasemdakerfið mitt af hægri væng skuli ekki sjá þetta. Það er einfaldlega kominn tími á breyttar áherslur í íslenskri pólitík. Að flokkur með aðra sýn og aðrar áherslur -- jafnaðar- og velferðaráherslur -- komist að á Íslandi.
Það er einfaldlega orðið absúrd hvað þetta er átakanlega augljóst. Meira að segja sjálfstæðismenn sem maður talar við samþykkja þetta í lágum hljóðum. Meira að segja þeim finnst þetta orðið gott í bili. Sjálfstæðisflokkurinn verði einfaldlega að fá frí. Að hann stjórni í fjögur ár í viðbót og þar með samfleytt í 20 ár er ekki bara viðurstyggilega þunglyndislegt heldur beinlínis fáránlegt.
Flokkar staðna þegar þeir eru of lengi við völd. Svoleiðis er það bara. Í ofanálag, eins og kom svo afskaplega skýrt og skorinort fram í ræðu Ingibjargar, að þá er Samfylkingin einfaldlega bara það afl í íslenskri pólitík sem er búið að fara dýpst ofan í saumana á verkefnum íslensks samfélags. Sú staðreynd á ekki að koma neinum á óvart: Samfylkingin er tiltölulega nýr flokkur. Og Samfylkingin hefur alltaf verið í stjórnarandstöðu.
Drifkraftur hinnar ungu hreyfingar - sem þó byggir á áratuga gömlum grunni - hefur því nær eingöngu verið notaður í málefnastarf og stefnumörkun, rannsóknir og umræður. Við vitum nákvæmlega hvað við viljum gera. Og við vitum að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er sammála okkur um þessar áherslur sem við leggjum: Áherslur á málefni barna og eldri borgara. Náttúruvernd og frestun stóriðju. Aukinn jöfnuð. Áherslur á menntamál. Skynsamlega hagstjórn þar sem við sköpum skilyrði fyrir nýjar atvinnugreinar til þess að dafna og fyrir heimilin í landinu til þess að ná endum saman.
Nú er bara að kjósa okkur. Láta skynsemina ráða.
Svo verður auðvitað ekki horft fram hjá því að við erum með gríðarlega fína frambjóðendur eins og þessi mynd sýnir. Baráttugleðin, samstaðan, hugsjónaeldurinn skín af hverjum manni.
Ég er þarna einhvers staðar á bak við. Var síðastur upp á svið.
Var að spá í að hoppa til að sjást, en fannst það óviðeigandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
12.4.2007 | 15:01
Umræðurnar
Ég sé að Dr. Gunni skrifar í dag um það í bakþönkum, þeim skemmtilega vettvangi, að stjórnmál séu leiðinleg. Egill Helga kinkar kolli í sínu bloggi. Aldrei sé rætt um neitt sem skiptir máli. Enginn meini neitt með neinu. Allir séu bara að babla. Gjamma. Rugla. Þusa. Reyna að brosa. Velja bindi og svo framvegis.
Jú jú. Sjálfur hef ég oft gert grín að stjórnmálaumræðunni og dæst yfir henni. Sérstaklega finnast mér stjórnmálatýpur fyndnar sem geta talað í marga hringi, á autapilot, um breyttar forsendur og að hitt sé annað mál og að huga beri að því að ekki megi horfa frá þeim mikilvægu grundvallaratriðum sem í þessu máli skapi þann hornstein sem nauðsynlegt er að skynsamleg umræða, með einum eða öðrum hætti, byggi á... etc.
Það er líka alveg rétt að þessar sex til sjö manna stjórnmálaumræður þar sem allir verða að fá að segja eitthvað um allt er ekki beint skemmtilegasta formið sem maður getur hugsað sér að sjónvarpsefni eða öðru.
Fjögurra manna bridge er skemmilegri en sjö manna.
En hins vegar vil ég segja þetta: Ég hef í sjálfu sér, þegar ég skoða hug minn í því máli og þegar ég velti fyrir mér þeim staðreyndum sem liggja eeeee fyrir og þau gögn sem að þessu máli eeee lúta ekki með neinum hætti,... úpps, afsakið.... ég datt í karakterinn.
En sem sagt: Þegar ég spái í það, að þá hef ég ekki oft orðið var við að fjölmiðlamenn sem skrifa um stjórnmál -- oft í sleggjudómastíl -- láti sjá sig úti í kjördæmunum á fundunum og stjórnmálaviðburðum sem þar eru haldnir. Skil það auðvitað mjög vel. Menn hafa margt annað að gera. En þá eru líka fullyrðingar manna um að ekki sé verið að ræða hluti, eins og lengd vinnudags og fjármál heimilanna etc. -- svona mál sem "skipta alla raunverulega máli" eins og menn segja -- ekki reistar á neinum almennilegum vitnisburði, enda eru þær mestmegnis ragnar.
Það er bara víst verið að ræða þessi mál. Um fátt annað talað.
Hins vegar eru það fræði sem mætti skoða betur, hvað ræður því hvaða málefni komast á dagskrá stóru fjölmiðlanna. Stundum er alltof mikið rætt um afmarkaða þætti þjóðfélagsmála á kostnað annarra. Það er alveg laukrétt hjá Agli og doktornum.
En ég skil t.d. málefnaþætti ríkissjónvarpsins sem viðleitni til þess að reyna að komast úr því fari. Gæti tekist. Svo hefur Stöð 2 reynt að beina sjónum að málefnum einstakra kjördæma. Það er viðleitni í sömu átt.
Við Illugi Gunnars verðum í Kastljósi í kvöld. Landsfundur Sjallanna hefst í dag. Okkar hefst á morgun.
Allt að gerast.
Er að velja bindi.
Djók.
Spurning um að binda eitt um hausinn á sér og segja eitthvað rosalega flippað.
Dr. Gummi mættur á svæðið.
10.4.2007 | 08:57
Geir
Mér fannst nett óhuggulegt að heyra Geir H. Haarde tala í Kastljósinu í gær. Maðurinn virðist ekki sjá neina aðra leið fyrir Íslendinga til verðmætasköpunar en orkufrekan iðnað. Á hvaða plánetu er maðurinn? Ítrekað setti hann dæmið þannig upp að einungis ein leið væri fær fyrir Íslendinga til þess að viðhalda velferðarsamfélagi. Álver.
Gott og vel. Er þá t.d. fjármálageirinn, ferðamannaiðnaðurinn, hátæknigeirinn, lyfjaframleiðslan, afþreyingariðnaðurinn, matvælaframleiðsla, verslun og þjónusta bara eithvað hobbí í augum forsætisráðherra? Stendur vöxtur í þessum greinum ekki undir velferð í landinu? Er sá vöxtur einhvern veginn annars flokks?
Þarf endilega að virkja hverja einustu lækjarsprænu fyrir orkufrekan iðnað svo að hér þrífist byggð?
Ég gat ekki skilið Geir öðruvísi. Hann talar með þjósti um þá flokka, eins og Samfylkinguna, sem vilja líta í aðrar áttir. Hin margviðurkennda hagfræðiröksemd um að farsælasta leiðin til atvinnuuppbyggingar og velferðar sé að fjárfesta í menntun virtist hjóm eitt í augum forsætisráðherra.
Geir getur ekki boðið upp á svona málflutning. Þetta er viðkunnalegur maður og allt það, en ég get bara því miður ekki séð betur en að hann sé fullkomlega staðnaður pólitískt. Hann skilaði auðu í þessum þætti. Hvar er víðsýnin? Hvar er skilningurinn? Skynsemin?
Þegar honum var bent á það að stóriðjustefnan hefur skilað sér í 500 þúsund króna ofþenslureikningi inn á hvert heimili einungis á þessu ári, þá muldraði hann bara eitthvað af tómu markleysi út í loftið.
Þegar honum var bent á það að jafnvel sex álver á Íslandi sem myndu framleiða alls 3 milljón tonn af áli myndu þrátt fyrir allt tilstandið einungis gefa um 3000 störf og skaffa litlu meira en 7% af þjóðarframleiðslu, þá sagði hann bara ekki neitt. Og ekki heldur sagði hann neitt yfir því þegar honum var bent á það í framhaldi að afþreyingariðnaður og menning -- Björk og þess háttar -- skaffar um 5%, til samanburðar.
Ekki þarf að virkja Þjórsá fyrir þann vöxt. Ekki þarf að sækja um undanþágur frá samningum um útblástur gróðurhúsalofttegunda. Ekki þarf heldur að senda þenslureikninga, fyrir slíkan vöxt, inn á hvert heimili í landinu og hækka höfuðstólinn út af verðbólguskotum á hverju einasta verðtryggða láni með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjárhag heimilanna nokkra áratugi fram í tímann, fyrir slíkan vöxt.
Það stendur ekki steinn yfir steini hjá Geir og Sjöllunum í þessum málum. Það stendur bara steinn yfir steini hjá einum Sjalla þessa dagana, ef út í það er farið og það er hjá Árna Johnsen eins og frægt er.
Annars fór ég á tónleika með umræddri Björk í gær. Fylltist baráttuanda undir drynjandi teknótakti og blástursleik, ekki síst fyrir hönd þeirrar tegundar verðmætasköpunar sem þarna birtist léttfætt á sviði Laugardalshallar í gylltum kjól.
Annað en nátttröllin sem verða þar á sviðinu eftir nokkra daga.
Ingibjörg Sólrún stóð sig gríðarlega vel í Kastljósinu, btw. Kristaltær málflutningur. Skýr og bar vott um þá víðsýni og skilning sem hverjum stjórnmálaforingja er nauðsynlegur. Hún talaði af skynsemi og yfirvegun. Ákveðin og sposk. Það sat eftir, að loknum þætti, að frjálslyndur, nútímalegur jafnaðarflokkur eins og Samfylkingin er hið stóra afdráttarlausa mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskri pólitík, nú sem fyrr.
Vegna Bjarkartónleikanna hlustaði ég á umræðurnar í heyrnartólum í tölvunni eftir að ég kom heim, án myndar af tæknilegum ástæðum. Tók eftir því að sumir leiðtoganna önduðu furðu hátt í gegnum nefið.
Það dró hins vegar umtalsvert úr því þegar Guðjón Arnar eða stjórnarliðar töluðu. Af þessum athugunum dró ég þá sálarfræðilegu ályktun að þungbúinn málflutningur og andlaus leiði til þykkjuþungrar framkomu.
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 395306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi