Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Afslappelsi

Þetta verða blogglausir páskar af minni hálfu. Friður og ró. Bannað að blogga á föstudaginn langa, segir guðstrúin eða er það ekki annars? Ef það er bannað að spila og vera fyndinn (samanber deilur út af keppni um fyndnasta mann Íslands..) hlýtur að vera bannað að blogga.

Ætla að fara upp í sveit, slappa af. Hafa það gott. Kannski á skíði.

Þessu markmiði mínu má lýsa með orðskrípinu: Afslappelsi.

Auðvitað freistandi að rífa hár sitt og skegg yfir auglýsingum og ógeðfelldum málfutningi Frjálslyndra sem og gegndarlausum útúrsnúningum nokkurra ráðherra í kjölfar íbúakosningar í Hafnarfirði. Fjármálageirinn er ánægður og talar um mjúka lendingu ofþanins hagkerfis, en frammarar og sjallar eru með upphrópanir eins og að nú eigi að "stöðva alla iðnþróun í landinu"??!!! 

Ég gæti sagt: Eru mennirnir að missa það? Er ekkert sem heitir? Á bara að virkja allt til andskotans í grænum hvelli? Ekkert að staldra við? Ekkert að hlusta á vilja fólksins? Ekkert að beina sjónum eitthvað smá aðeins, oggulítið, annað? Ekkert að hugsa um loftslagsmál? Ekkert að huga að náttúruvernd? Menn segja að Langisjór sé næstur. Er það í lagi?

Skýrar markalínur eru að myndast í pólitíkinni. 

En sumsé: Ég ætla ekkert að vera að æsa mig yfir þessu núna.

Og ég held að fleiri en ég ættu að slaka vel á yfir páskana.  

Og svo hefst brjálæðið...

Já, og ég gæti líka bloggað um ánægju mína með stefnuna Unga Ísland, sem minn flokkur var að kynna á dögunum. Ágætt lesefni yfir páskana. Ferskur vindur inn í umræðuna. Tímamótaplagg og gríðarleg vinna þar að baki.

Hafið það gott! 

 


Auglýsingar streyma II

Allt að gerast. Kosningabaráttan er greinilega hafin. Hér koma fleiri auglýsingar í fjölmenningarlegum og uppbyggilegum anda... Ein um framsókn. Önnur um launamun. Og svo ein um utankjörstaðakosningu. Og ein um óhuggulegt plott. Og ein um sætustu stelpuna... Og svo þessi um 90% lánin. Og ein í viðbót um framsókn aftur. 

Gaman að þessu.  Vil taka það fram að ég er ekki höfundur, bara milligöngumaður. Þetta streymir inn. Ég er því tja... eins konar umboðsmaður Bollywood. 

Njótið.


Auglýsingar streyma

Eftir að stjórnmálaflokkarnir gerðu samkomulag um þak á auglýsingakostnaði er ljóst að barist verður með óhefðbundnum aðferðum.  Hægt er að gera áróðursefni í hvelli á netinu, ódýrt. Allir geta skellt í auglýsingu.  Og ekki verra að þær séu með yfirbragði sem oftsinnis hefur sannað gildi sitt sem áhrifamikið og vinsælt, beint úr indverskum afþreyingariðnaði eins og hann gerist bestur.  

Hér er eitt klipp frá Íslandshreyfingunni.

Og annað um ráðabrugg D-listans í Suðurkjördæmi.

Þessi bútur finnst mér bestur. Þarna er fjallað um stjórnmálin eftir 35 ár.   

Þetta er allt saman töluvert betra en auglýsing Frjálslynda flokksins um helgina. Sorglegur fjári. Lesið þetta um hana. 


David Bowie í miðbænum

David Bowie er staddur í miðbænum núna. Ég sá hann áðan inni í Eymundsson við Austurstræti. Talaði ekki við hann. Félagi minn sagði mér að hann yrði til morguns, fer sjálfsagt á Óliver og þessa staði. 

Hann er minni en ég hélt.


Tímamót

Íbúakosningin í Hafnarfirði mun fara í sögubækurnar. Um 77% kosningaþátttaka segir allt sem segja þarf. Fólk vill kjósa um hitamál í sínu samfélagi. 

Ég er afskaplega ánægður með að tilheyra stjórnmálaafli sem setur lýðræðið í öndvegi og spyr íbúana álits. Lýðræðishugsjónin eru ekki sjálfsagður hlutur. Það þarf að stunda hana. 

Úrtölumenn voru orðnir ansi háværir á lokasprettinum. "Skrumskæling lýðræðisins" var dæmi um fyrirsagnir greinahöfunda. Gagnvart slíkum bölsýnisbænum er niðurstaðan einkar ánægjuleg: Lýðræðið vann. Fólk mætti og kaus. Og fólk kaus eftir sannfæringu sinni.

Til voru nefnilega þeir sem héldu að stórfyrirtækið væri búið að kaupa Hafnarfjörð. Að sjálfsögðu kaupir engin Hafnarfjörð. Alcan kynnti bara sitt mál, og gerði það eftir þeim leiðum sem fyrirtækið mat bestar. Mér fannst kosningabaráttan málefnaleg. Mér fannst  líka málstaður Sólar í Straumi vel kynntur, þótt samtökin auglýstu ekki mikið.

Fólk verður að læra að treysta fólki. Hafnfirðingar kusu. Málið var rætt í þaula og niðurstaða liggur fyrir. Hingað til hefur aðferðin í íslensku samfélagi verið sú að fyrst eru ákvarðanir teknar og svo er deilt. Núna var þessu snúið við: Fyrst var deilt, svo var ákvörðun tekin.

Mjótt var á mununum. Stækkunarsinnar mega  ekki líta svo á að þessi niðurstaða sé dauði og djöfull, þótt hugsanlega hafi þeir margir tilhneigingu til þess. Þessi niðurstaða er tímamót, krossgötur. Markar straumhvörf. Hún er skilti á leið okkar sem vísar okkur í nýja átt. Hún er nýtt upphaf.

Ég fagna þessum tímamótum frá mínum dýpstu hjartarótum.  

Álverið í Straumsvík hefur notið talsverðrar velvildar. Mjög margir vilja að það starfi áfram. Meirihlutinn vill hins vegar ekki að það stækki. Fyrir því liggja málefnalegar ástæður. Um það var kosið. 

Niðurstaðan í Hafnarfirði felur í sér skýrar vísbendingar um að þjóðin er að vakna til vitundar um það að til eru aðrar leiðir til atvinnuuppbyggingar en þær sem fela í sér virkjun fallvatna og mengun. Nú eigum við að horfa í aðrar áttir. Orkan fer ekki neitt. Ný og betri tækni til að afla hennar er handan við hornið. Fleiri munu þurfa hana. Hún mun bara vaxa í verði. Ekkert liggur á. Við eigum að nota tímann til að ákveða hvar við viljum vernda -- hvaða svæðum við ætlum ekki að fórna -- og hvar við viljum virkja. Og hvernig.

Fagra Ísland, stefna Samfylkingarinnar, er hinn skynsamlegi kostur sem þjóðinni býðst í framhaldi af þessari niðurstöðu. 

Möguleikar þessarar þjóðar eru óþrjótandi. Framtíðin er full af möguleikum. Við ÞURFUM ekki að gera það sem við viljum ekki. 

Ég segi eins og frænka mín Silvía: Til hamingju Ísland.  


« Fyrri síða

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband