Leita í fréttum mbl.is

Geir

Mér fannst nett óhuggulegt að heyra Geir H. Haarde tala í Kastljósinu í gær. Maðurinn virðist ekki sjá neina aðra leið fyrir Íslendinga til verðmætasköpunar en orkufrekan iðnað. Á hvaða plánetu er maðurinn? Ítrekað setti hann dæmið þannig upp að einungis ein leið væri fær fyrir Íslendinga til þess að viðhalda velferðarsamfélagi. Álver. 

Gott og vel. Er þá t.d. fjármálageirinn, ferðamannaiðnaðurinn, hátæknigeirinn, lyfjaframleiðslan, afþreyingariðnaðurinn, matvælaframleiðsla, verslun og þjónusta bara eithvað hobbí í augum forsætisráðherra?  Stendur vöxtur í þessum greinum ekki undir velferð í landinu? Er sá vöxtur einhvern veginn annars flokks?

Þarf endilega að virkja hverja einustu lækjarsprænu fyrir orkufrekan iðnað svo að hér þrífist byggð? 

Ég gat ekki skilið Geir öðruvísi. Hann talar með þjósti um þá flokka, eins og Samfylkinguna, sem vilja líta í aðrar áttir. Hin margviðurkennda hagfræðiröksemd um að farsælasta leiðin til atvinnuuppbyggingar og velferðar sé að fjárfesta í menntun virtist hjóm eitt í augum forsætisráðherra.

Geir getur ekki boðið upp á svona málflutning. Þetta er viðkunnalegur maður og allt það, en ég get bara því miður ekki séð betur en að hann sé fullkomlega staðnaður pólitískt. Hann skilaði auðu í þessum þætti. Hvar er víðsýnin? Hvar er skilningurinn? Skynsemin?

Þegar honum var bent á það að stóriðjustefnan hefur skilað sér í 500 þúsund króna ofþenslureikningi inn á hvert heimili einungis á þessu ári, þá muldraði hann bara eitthvað af tómu markleysi út í loftið.

Þegar honum var bent á það að jafnvel sex álver á Íslandi sem myndu framleiða  alls 3 milljón tonn af áli myndu þrátt fyrir allt tilstandið einungis gefa um 3000 störf og skaffa litlu meira en 7% af þjóðarframleiðslu, þá sagði hann bara ekki neitt. Og ekki heldur sagði hann neitt yfir því þegar honum var bent á það í framhaldi að afþreyingariðnaður og menning -- Björk og þess háttar -- skaffar um 5%, til samanburðar. 

Ekki þarf að virkja Þjórsá fyrir þann vöxt. Ekki þarf að sækja um undanþágur frá samningum um útblástur gróðurhúsalofttegunda. Ekki þarf heldur að senda þenslureikninga, fyrir slíkan vöxt, inn á hvert heimili í landinu og hækka höfuðstólinn út af verðbólguskotum á hverju einasta verðtryggða láni með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjárhag heimilanna nokkra áratugi fram í tímann, fyrir slíkan vöxt.

Það stendur ekki steinn yfir steini hjá Geir og Sjöllunum í þessum málum. Það stendur bara steinn yfir steini hjá einum Sjalla þessa dagana, ef út í það er farið og það er hjá Árna Johnsen eins og frægt er.

Annars fór ég á tónleika með umræddri Björk í gær. Fylltist baráttuanda undir drynjandi teknótakti og blástursleik, ekki síst fyrir hönd þeirrar tegundar verðmætasköpunar sem þarna birtist léttfætt á sviði Laugardalshallar í gylltum kjól.

Annað en nátttröllin sem verða þar á sviðinu eftir nokkra daga.

Ingibjörg Sólrún stóð sig gríðarlega vel í Kastljósinu, btw. Kristaltær málflutningur. Skýr og bar vott um þá víðsýni og skilning sem hverjum stjórnmálaforingja er nauðsynlegur. Hún talaði af skynsemi og yfirvegun. Ákveðin og sposk. Það sat eftir, að loknum þætti, að frjálslyndur, nútímalegur jafnaðarflokkur eins og Samfylkingin er hið stóra afdráttarlausa mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskri pólitík, nú sem fyrr. 

Vegna Bjarkartónleikanna hlustaði ég á umræðurnar í heyrnartólum í tölvunni eftir að ég kom heim, án myndar af tæknilegum ástæðum. Tók eftir því að sumir leiðtoganna önduðu furðu hátt í gegnum nefið.

Það dró hins vegar umtalsvert úr því þegar Guðjón Arnar eða stjórnarliðar töluðu. Af þessum athugunum dró ég þá sálarfræðilegu ályktun að þungbúinn málflutningur og andlaus leiði til þykkjuþungrar framkomu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfstæðismenn eru ekki mjög hrifnir af menntun enda skilar hún sér illa til Sjálfstæðismanna. Skv. könnunum kjósa flestir menntaðir Íslendingar aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn.

kv.Dísa

Dísa (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 09:27

2 identicon

Er svo innilega sammála þér hvað málflutning Geirs varðar. Þetta var eins og að færast 30 ár aftur í tímann. Hrollvekjandi einstefna. Nei takk.

Alda - www.icelandweatherreport.com 

alda (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 09:51

3 identicon

En Guðmundur, borgar Björk skatta á Íslandi? Nei, sem betur fer er hún ekki með sín laun í okkar hagkerfi því þá myndi hún jú auka enn á "misskiptinguna" sem þinn formaður hefur svo miklar áhyggjur af.

Gústaf (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 10:11

4 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Já Gústaf, þessir andskotans forríku listamenn alltaf hreint að skrúfa upp misskiptingu í þjóðfélaginu!

.. come on.. 

Steinn E. Sigurðarson, 10.4.2007 kl. 10:32

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Sammála.  Ingibjörg var frábær í Kastljósinu og eini frambærilegi frambjóðandinn þar.  En segðu mér eitt.  Hvaða hugmyndir hefur þú um atvinnusköpun?  Prjónastofur? Minnkarækt?  Nefndu eitthvað.  ,,Plís"

Þórdís Bára Hannesdóttir, 10.4.2007 kl. 10:41

6 Smámynd: Þarfagreinir

Já, ég tek undir að mér þótti þessi þráhyggja Geirs gagnvart 'orkufrekum iðnaði' stórfurðuleg. Ég hélt hann væri skynsamari en svo. Svo hrósa menn Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa skapað góðæri og viðhaldið stöðugleika og hvað þetta heitir nú allt saman ... ef eina leiðin sem sá ágæti flokkur sér færa í þeim efnum er virkilega sú að hrúga niður álverum þá er nú afskaplega illa komið fyrir Íslandi, verð ég að segja. Það er ekkert annað en ógeðfelldur hræðsluáróður að hamra á því að allt fari hér til fjandans ef við hrúgum ekki upp álverum í hvert krummaskuð. Þetta eitt er er nóg til að fæla mig frá Sjálfstæðissflokknum, þó þar sé reyndar af nægu öðru að taka.

Þarfagreinir, 10.4.2007 kl. 11:10

7 Smámynd: B Ewing

Missti af þessum umræðuþætti.  Best að kíkja á netið og sjá blessaða frambjóðendurna áður en maður tekur afstöðu...

B Ewing, 10.4.2007 kl. 11:30

8 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þórdís: Þegar maður skoðar tölurnar og sér að fjármálastarfsemin er sá geiri sem er að búa til langtum mestan hagvöxt síðastliðin 5 ár, þá skilur maður ekki afvherju það er verið að kljúfa þjóðina með því að leggja svona mikla áherslu á álver. Orkufrekur iðnaður er bara ekki arðbær fjárfesting, og ríkið á ekki að þurfa að útvega störf fyrir fólkið -- til þess eru fyrirtækin í landinu full fær um.

Því er rangt að spyrja hvaða lausnir aðrar stjórnmálamenn eru með önnur en álver. Það á frekar að spurja þá hvort þeir séu réttu aðilarnir til að standa beint að atvinnuuppbygginu á Íslandi, því í raun eiga þeir bara að vera skapa gott umhverfi fyrir öll fyrirtækin -- í stað þess að drekkja umhverfinu fyrir sum.

Hátæknifyrirtækin hefur orðið eftir; t.d. tölvuleikjafyrirtæki eins og CCP velta meira en kvikmyndaiðnaðurinn í heiminum, en samt fá pródúserar frá Hollywood skattafslátt fyrir að vinna á íslandi ... en CCP fær bara sveiflukennda mynt og alls ekki nógu frjótt umhverfi, því hér á landi eru engar íviljanir, alls ekki nóg um sprotafyrirtæki að þessu tagi og rannsóknarstarfsemi sem skilar hæfu starfsafli af skornum skammti.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.4.2007 kl. 12:12

9 Smámynd: Björn Viðarsson

ISG stóð sig alls ekki vel í gær. Hvernig fá menn það út? Hún stendur fyrir flokk sem hefur engar lausnir og forðast erfið mál.

Stóriðjan er of 50/50 til að taka afstöðu svo að því er vísað frá. Efnahagsmálin eru of flókin svo að best að fara bara í ESB og treysta því að þetta leysist bara einhvern veginn.

Álið er gagnrýnivert en það er þó lausn sem virkar. Menn mættu gjarnan hafa fleiri lausnir en þær eru alls ekki á færibandi.

Björn Viðarsson, 10.4.2007 kl. 12:40

10 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Jæja kæri Guðmundur, mér sýnist að við höfum ekki verið að fylgjast með sama þættinum

Stjórnarandstaðan öll (kannski síst Frjálslyndir) talaði um stóriðju hlé í fimm ár. Ekkert var útilokað eftir þann tíma. Stjórnarflokkarnir bentu á að eina álverið sem hefði haft tækifæri á að rísa á þessum 5 árum var stækkunin í Straumsvík en nú verður ekkert af því.

Munurinn hins vegar á stjórnarflokkunum annars vegar og stjórnarandstöðuflokkunum hins vegar var sá að stjórnarflokkarnir vilja skoða alla möguleika á meðan að stjórnarandstaðan virðist ekki vera að skoða neitt, þau eru ekki með neinar raunhæfar hugmyndir.

Þú segir líka í bloggi þínu að Geir hefði ekki getað svarað neinu þegar nefndir voru ofþennslureikningar heimilanna þá er það ekki rétt frekar en margt í þessu bloggi þínu. Þegar kaupmáttur er reiknaður þá er tekið tillit til vaxta og hann hefur aldrei verið hærri en nú og á það benti Geir í þættinum í gær.

Get verið sammála þér þó með eitt í þessu bloggi og það er að ISG stóð sig alveg með ágætum. Lét reka ofan í sig þetta með stóriðjustoppið og gaf enn og aftur í skin að það væri sjálfstæðisflokknum að kenna hvað henni gengur illa í pólitík en að öðru leit fannst mér hún standa sig mjög vel. Fannst stór góður punktur hjá henni að þó að stóriðjumálin séu mikilvæg þá eru þau ekki mál málanna heldur börnin og fjölskyldurnar í landinu. Þar er ég alveg sammála henni (greinilega ekki þó þú Guðmundur miðað við þetta blogg þitt) og ef fleira fólk sæi það þá myndi fljótt reitast af fylgi Íslandshreyfingarinnar og VG.

Ágúst Dalkvist, 10.4.2007 kl. 12:46

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er rétt að Geir var sláandi hvað þessi atriði varðar, og málefnalega út í hött. En einhversstaðar las ég um rannsókn þar sem höfndur taldi sig sýna fram á að hvað þátttakandi segði, þ.e. orðin sjálf, í svona þætt skýrði aðeins 7% þeirra áhrifa sem hann hefði - megin skýringabreyturnar væru fasið og framsetningin óháð innihaldinu. Í því ljósi er okkur hollt að horfast í augu við að Geir er að "lúkka" betur sem foringi en margir áttu von á.

Helgi Jóhann Hauksson, 10.4.2007 kl. 12:50

12 Smámynd: 365

Mér fannst afur á móti þeir Jón og Geir standa sig vel miðað við þessa fulltrúa hinna flokkanna ég tala nú ekki um Ómar sem var bara vorkunkennarlegur, gjörsamlega óhæfur í hlutverkinu sem hann er að taka að sér.  Það virtist meira að segja koma þeim í opna skjöldu að skattleysismörkin kostuðu eitthvað!  Lesa betur heimaverkefnin áður en komið er í tíma!!  Ég segi nú bara að Guð forði okkur frá þessarri vitleysu þar sem ætlast til að við gefum þeim atkvæðin okkar í næstu kosningum.  Þá er það nú betra sem við höfum nú þegar í hendi.

365, 10.4.2007 kl. 12:54

13 identicon

 

Ekki sérlega málefnalegur Guðmundur.  Rakst á ágætt og mjög málefnalegt innlegg e. Sigurð J. um orkufrekan iðnað hér.

Bjarni M. (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:13

14 identicon

Sæll Guðmundur, það er nú meiri fátæktin hjá ykkur í Samfylk. að geta ekki talað um neitt annað en ál- þetta og ál- hitt í einhverjum heimsendatón.  Þetta svartagalls raus er ekki sæmandi fólki sem vill tala um pólítk á þokkalega vitrænum nótum. Reynið nú að mynda ykkar eigin stefnu og birta hvað þið viljið gera í atvinnumálum.  Það er mikill iðnaður að skapast í kringum áliðnað á Íslandi, og margir hátæknimenntaðir íslendingar hafa störf af þessu og mjög góð laun.  Verkefni eru að koma erlendis frá, hvað varðar hönnun og forritun í álverum í öðrum löndum. 3 verkfræðistofur á Íslandi hafa myndað "regnhlífarsamtök" og geta unnið slík verkefni saman.

yngvith (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 15:18

15 identicon

Mikið voðalega er þetta fyrirsjáanlegur pistill, eins og Góu-páskaegg. Maður kaupir þetta aldrei en fær þetta stundum sem gjöf. 

BinniÓ (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 17:39

16 identicon

Því miður fyrir sf þá stóð Ingibjörg sig ekki vel í þessum umræðum flokksformannanna.
Þessi frammistaða hennar er ekki líkleg til að breyta miklu um stöðu flokksins eða hennar sjálfrar.
Hún náði ekki skýra út eða svara þeim spurningum sem beint var til hennar.
Skoðanakannanir mæla sf aftur og aftur sem 3 stærsta flokk landsins og bendir allt til þess að afturhaldsstoppflokkurinn sé orðin 2 stærsti flokkur landsins.
Nú hljóta margir sem kusu Ingubjörgu í formannskosningunni að velta því fyrir sér að þeir gerðu stór mistök.
Ef niðurstaða kosninganna verður eins og skoðanakannanir hafa sýnt fram á síðustu mán má telja líklegt að formansskipti verði í sf að afloknum kosningum.
Menn verða að muna að Ingibjörg sagði við sitt fólk að hún gæti gert sf jafn stóran stjórnmálaflokk ef ekki stærri en Sjálfstæðisflokkinn, það er hæpið að svo verði.

Óðinn (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 19:36

17 Smámynd: Haukur Kristinsson

en því má ekki hafa stóriðju með öllu hinu sem þið viljið gera? Noregur sem er 3, stærsta olíuríki í heimi hefur líka álver, telja það sjálfsagt góð blanda í atvinnuflórunni, en samt eiga þeir um 1, milljón á hvern norðmann í erlendum fjárfestingum

Haukur Kristinsson, 10.4.2007 kl. 21:58

18 Smámynd: Þarfagreinir

Jújú - álver ásamt öðru er ágætishugmynd, en Ísland er nú þegar stærsti framleiðandi áls í heiminum miðað við höfðatölu - enn eitt 'afrekið' sem ekkert víst er að við eigum að vera stolt af. Að bæta enn frekar við það heitir í minni bók að setja öll eggin í sömu körfu - þetta er steingeldur vitleysisgangur, að geta ekki látið sér detta neitt annað í hug en álver, álver, álver. Það er skömm að þessu, þykir mér, og mér þykir það ekki ofsagt að þetta er stórvarasöm vitleysa.

Þarfagreinir, 11.4.2007 kl. 01:07

19 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er vandrataður meðalvegurinn. Ef stjórnmálamaður hefur ákveðna skoðun er hann á móti íbúalýðræðinu. Ef hann vill íbúalýðræði með kosningu er hann skoðanalaus!

Haukur Nikulásson, 11.4.2007 kl. 07:43

20 Smámynd: Björn Viðarsson

Varðandi 2. efnisgrein pistilsins. Þar eru taldar upp aðrar atvinnugreinar en stóriðja og spurt hvers vegna menn fókusi ekki á þær í byggðamálum.

Gott og vel, þetta hefur allt blómstrað hér á höfuðborgarsvæðinu. Hvers vegna hefur þetta ekki skaffað byggðunum þá meiri atvinnu nú þegar? Hvað vantar upp á? Hvað er það sem ríkið ætti að gera til að svo yrði? Að hætta í álinu? Kæmi þetta þá af sjálfu sér?

Finnst menn tala allt of mikið í frösum en minna í lausnum.

Björn Viðarsson, 11.4.2007 kl. 13:48

21 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ég hvet ykkur öll sem hafið skrifað hér til að koma fundinn í kvöld á Skaga og hitta Drottningu Íslands kl. 20!

http://eddaagn.blog.is/blog/eddaagn/

Kannski mætir Geir hann á mikið tengdafólk á Skaga!

Edda Agnarsdóttir, 11.4.2007 kl. 15:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband