Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

751.448 kr.

img_2606.jpg
Þá er ég búinn að fara í gegnum reikningana út af prófkjörsbaráttunni. Hún kostaði 751.448 krónur, sem er í takt við það sem ég áætlaði. Stærsti kostnaðarliðurinn var prentvinna, annars vegar á póstkorti (44.696 kr.) og hins vegar á dreifiriti (316.729 kr.). Það dreifirit fór á öll heimili í Suðvesturkjördæmi, dreift af Íslandspósti. Kostnaður við dreifingu nam 143.470 krónum. Það er algengur misskilningur að dreifingarkostnaður rokki á milljónum. Til dæmis heldur Sigríður Andersen því fram í Fréttablaðinu í dag að dreifing í öll hús kosti á við margar heilsíðuauglýsingar. Hún gætir ekki að því að óflokkaður póstur í öll hús í póstnúmeri er mun ódýrari en flokkaður póstur í massavís á útvalda (markpóstur). En áfram með smjörið: Ég lét gera áróðursspjald utan á kosningamiðstöðina mína (1.30 x 2.50). Það kostaði 49.800 kr. Auk þess borgaði ég 15.000 krónur fyrir ljósmyndatöku hjá ágætum kunningja mínum. Alexía sá um förðun. Alls nam því kostnaður við gerð áróðursefnis (póstkort, dreifirit, skilti, ljósmynd), eftir að ég hafði borgað Samfylkingunni 25.000 krónur í sérstakt kynningargjald út af útgáfu á sameiginlegu efni, 594.695 krónum. Öll grafísk hönnun var unnin ókeypis af miklum snillingi vini mínum og kann ég honum miklar þakkir fyrir. (Þess má geta að ég á enn nokkur eintök af dreifiritinu og póstkortinu ef einhverjir eiga enn eftir að fá... Skiltið varð ég hins vegar að brjóta í tvennt (sjá mynd). Slagorðahlutinn fór á Sorpu en hlutinn með myndinni af frambjóðandanum verður varðveittur til minningar, að vísu laskaður. Hann nýtist án efa í eitthvað glens í framtíðinni. Þess má geta að skiltið fór á flug í óveðrinu sem gerði á kjördag, en því var sem betur fer bjargað inn af eigendum húsnæðisins áður en það fauk út um allar götur. Það hefði verið andskoti léleg byrjun á pólitískum ferli ef áróðursskilti frá mér hefði fokið ofan á hausinn á Hafnfirðingi í vonskuveðri og rotað hann.) En víkjum þá að öðrum kostnaðarliðum. Við opnun kosningamiðstöðvar var boðið upp á snittur frá Jóa Fel og drykki (léttvín, bjór, 7up og djús), auk ýmiss heimatilbúins góðgætis. Alls nam kostnaður við veitingar, og eru þá kaffiveitingar síðar í prófkjörsvikunni, vatnsbrúsar og þrjár pizzur meðtaldar, 85.558 kr. Húsnæðið sjálft fengum við leigt fyrir slikk, en ég lofaði að ég skyldi leggja mitt að mörkum til þess að selja það. Hér er um að ræða íbúð á besta stað við Strandgötu, tilbúna undir tréverk í nýju bárujárnsklæddu húsi, með útsýni yfir höfnina. Frábær fyrir einstakling eða barnlaust par. Ekkert rennandi vatn var á svæðinu, en rafmagn. Teppi á gólfið var nauðsynlegt, því annars hefðu öll börn orðið útötuð í ryki. Það kostaði 25.537 kr. Eftir stendur þá ýmiss kostnaður, eins og dúkar og kerti, ritföng og þess háttar. Í öllu var sparnaðarhugsjónin höfð í fyrirrúmi. Ég á eftir að fá einn reikning frá Símanum, vegna notkunar á fjórum GSM símum sem ég leigði þaðan. Sá kostnaður verður ekki verulegur. Símhringingar á mínum vegum fóru þannig fram að vinir og vandamenn hringdu í þá sem þeir þekktu, yfirleitt úr eigin símum, en ekkert var hringt blint, eins og kallað er, af flokksskrá í flokksmenn Samfylkingarinnar eða aðra. Hins vegar sendi ég hóp-SMS einu sinni. Ég réði ekkert starfsfólk. Ég hefði ekki komist hænufet án ósérhlífinnar aðstoðar fjölskyldu minnar og góðra vina. Án minnar heittelskuðu hefði ég líklega brotnað saman strax í upphafi og lægi enn í fósturstellingunni í einu horninu á þessari óinnréttuðu íbúð við Strandgötu, í felum undan álagi. Enginn fer einn í stjórnmál. En þá er von að spurt sé hvernig herligheitin verða greidd. Samskot vina og fjölskyldu fara langleiðina upp í kostnaðinn. Hvað afganginn varðar mun ég bara líta svo á að ég hafi farið í ansi hreint skemmtilegt ferðalag með fullt af frábæru fólki og nú sé ég kominn heim, heilu og höldnu, en að visareikningurinn sé - eins og alltaf í þannig tilvikum - á leiðinni.

Kjósa, kjósa

"Í dag er 12.maí" fannst mér skemmtilegasta fyrirsögnin á prófkjörsauglýsingum dagsins. Hana átti Helgi Hjörvar. Alexía kærasta, meðan hún las blaðið, sagði fyrirsögnina fyrirvaralaust upphátt, úr eins manns hljóði og hló. Ég stóð annars hugar og var að vaska upp. Ég mótmælti auðvitað strax. "Nei, nei nei, það er 11.maí" sagði ég, eins og vitleysingur. 11.maí? Í hvaða veröld var ég? Ég áttaði mig svo og leiðrétti: "Ég átti við 11.nóvember." Já, nei, nei. Svo sá ég um hvað málið snérist. Snjallt. Í dag er 12.maí. Í dag kjósum við endanlega liðið sem á að standa í framvarðarsveitinni í Alþingiskosningunum 12.maí. Síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar í þessari atrennu lýkur í dag, í Reykjavíkurkjördæmunum. Nú eiga allir sem vettlingi geta valdið að drífa sig á kjörstað. Við Alexía, Lúlli og Edda Liv (sem getur því miður ekki kosið því hún er tveggja og hálfs) erum á leiðinni út úr dyrunum. VIð ætlum að sækja ömmu og drífa okkur niður í Þróttarheimili. Helst vildi amma samt kjósa á netinu -- þegar ég sagði henni að það væri hægt -- en hún hefur því miður ekkert net, enda orðin 97 ára, í fullu fjöri, en setur yfirleitt upp spurningarmerki þegar ég reyni að útskýra fyrir henni hvað netið er. Hún kallar skyr.is alltaf skyrís. Ég nenni ekki að leiðrétta hana lengur. Hún fékk sér hins vegar digital island um daginn út af NFS, en að er allt önnur saga. Kjósa, kjósa!

Að faðma eða ekki faðma

brezhnev.jpg
Ég er búinn að hlæja talsvert að fréttinni sem ég las í Blaðinu í dag um viðskipti þeirra Jens Stoltenbergs forsætisráðherra Noregs og Trond Giske menningarmálaráðherra. Giske átti afmæli á dögunum og Stoltenberg kom í veisluna. Vesalings Giske ætlaði að faðma Stoltenberg og bjóða hann velkominn. Það gekk ekki betur en svo að Stoltenberg stífnaði allur upp og tók skrefið aftur á bak. Hið neyðarlegasta mál. Neitaði að faðma Giske. Síðan hefur Stoltenberg gefið þá yfirlýsingu að hann faðmi ekki karlmenn. Sannur norskur karlmaður. Ég get ímyndað mér að Giske hafi liðið gjörsamlega eins og hálfvita. Annars hef ég oft pælt í þessu, satt að segja. Hvenær faðmar maður og hvenær ekki? Hvenær smellir maður kossi á kinn kvenna og hvenær ekki? Hversu margir eiga kossarnir að vera? Einn eða tveir? Jafnvel þrír? Ég svitna oft á efri vörinni út af svona spurningum á mannamótum, en ég hef þó skánað með aldrinum. Stoltenberg faðmar ekki, segir hann. Sagt er að Bush geri það ekki heldur. Kannski eiga þeir í vandræðum með það eftir að þeir sáu Brokeback Mountain. Ég veit ekki. Ég á alla vega í engum vandræðum með að faðma karlmenn á gleðistundum, en kossinn kemur hins vegar sjaldnar til álita. Sem er annað en Brezhnev, eins og meðfylgjandi mynd sýnir glöggt. Rússarnir beinlínis smelltu á munninn á hvor öðrum eins og ekkert væri.

Stríðsmenn Bush

david_og_bush.jpg
Það er ekki hægt að segja annað en að George Bush hafi verið flengdur í kosningunum í Bandaríkjunum á þriðjudaginn. Stríðsbrölti hans og Rumsfelds var hafnað af bandarísku þjóðinni. Á sama tíma birtast svör frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í Fréttablaðinu. Allir frambjóðendur nema tveir svara afdráttarlaust að stuðningur Íslands við stríðið í Írak hafi ekki verið mistök. Þeir eru gallharðir stuðningsmenn innrásarinnar. Það er eitthvað verulega óviðkunnanlegt við það að einhverjir hörðustu stuðningsmenn Bush og stríðsins í Írak á heimsvísu skuli vera Sjálfstæðismenn á Íslandi. Af hverju? Rumsfeld er búinn að segja af sér. Skýrslur í massavís streyma fram í dagsljósið þar sem sýnt er fram á hvernig þessi stríðsrekstur hefur verið sveipaður blekkingarvef alveg frá upphafi. Blair er að fara að hætta út af þessu brölti. Innanbúðarmenn Bush eru hundóánægðir. Sjallarnir á Íslandi eru hins vegar alltaf jafn gallharðir. Ég skora á Sjallanna að drífa sig suðureftir fyrst þeir eru svona fylgjandi þessu ennþá og reyna að sýna stuðning sinn í verki. Heimurinn er betri eftir að við réðumst inn í Írak, sagði Davíð Oddsson nokkurn veginn á frægum fundi sínum með Bush (sjá mynd). Sjaldan hefur einn maður haft jafnátakanlega mikið rangt fyrir sér á jafnskömmum tíma. Var ekki nýjasta skýrslan einmitt um það að hættan á hryðjuverkum hefur aldrei verið meiri? Hvað þarf til, svo að Sjálfstæðismenn sjái ljósið í þessu máli? Ég held það sé orðið nokkuð skýrt hvaða hljóð þetta er sem heyrist sífellt úr röðum Sjálfstæðismanna þegar þeir berja höfðinu hvað eftir annað í steininn og lýsa aftur og aftur yfir stuðningi við þessa innrás: Það er tómahljóð.

Ný könnun

Skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag er athyglisverð. Frjálslyndir fimmfalda fylgi sitt frá síðustu könnun og eru komnir upp í 7 þingmenn. Samfylkingin eykur líka fylgi sitt og virðist vera komin upp í kjörfylgi á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. Það er prýðilegt, þó svo markið sé auðvitað sett hærra. Hinir flokkarnir tapa allir. Í gærkvöldi spáði ég því í vitna viðurvist að innflytjendaútspil Frjálslynda flokksins myndi ekki minnka fylgi Samfylkingarinnar heldur þvert á móti. Í ljósi þessarar könnunar er ég auðvitað mjög stoltur af mínu pólitíska nefi, jafnvel rogginn. Greinilegt er að stór hluti fylgismanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna eru líka svag, eins og Frjálslyndir, fyrir takmörkunum á komu útlendinga hingað til lands. Framhaldið verður athyglisvert. Munu forystumenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna reyna að ná fylgi sínu aftur með því að slá svipaða tóna og Frjálslyndir? Ef það gerðist yrði sérstaða Samfylkingarinnar óneitanlega umtalsverð í þessu nýja hitamáli í íslenskri pólitík. Mér líkar sú tilhugsun ágætlega. Ég er fylgismaður þess að Íslendingar einbeiti sér að því að nýta sér til fullnustu komu erlends vinnuafls hingað til lands, taki vel á móti því fólki með góðri íslenskukennslu og aðstoð af öllu tagi, og leyfi því að auðga og fróvga íslenskt atvinnulíf og menningu, ekki ósvipað og Íslendingar gera í öðrum samfélögum (þótt Ekstrablaðið sé á öðru máli). Talandi um Íslendinga í útlöndum. Ég bíð spenntur eftir næsta útspili Frálslyndra (og hugsanlega þá hinna flokkanna líka), sem yrði rökrétt framhald á þeirra málflutningi hingað til: Íslendingana heim! Ísland fyrir Íslendinga.

Blaðrið

Það er dáldið fyndið að skoða Blaðið í dag. Á forsíðu er slegið upp þriggja daga gamalli frétt um nýjasta þjóðarpúls Gallup. Búið er að fjalla um þetta í öllum helgarblöðunum og öllum ljósvakamiðlum um helgina. Könnunin staðfestir það sem áður hefur komið fram. Sjálfstæðisflokkurinn er stór, Samfylkingin þarf að bretta upp ermar, Vinstri grænir sækja á, etc etc. Þannig að þetta er í sjálfu sér engin frétt, þó svo skoðanakannanir séu alltaf tíðindi. Á sama tíma og þjóðarpúls Gallups fór fram var hins vegar efnt til hvorki meira né minna en þriggja prófkjöra í þremur kjördæmum á landinu á vegum Samfylkingarinnar. Prófkjörsins í Suðvesturkjördæmi, svo dæmi sé tekið, er getið í lítilli einsdálkafrétt innarlega í blaðinu. Ég hefði gjarnan viljað hlera, með nýjustu græjum, þann ritstjórnarfund þar sem það var ákveðið með einhverjum snilldarrökum að slá mánaðarlegum þjóðarpúlsi Gallup, þriggja daga gömlum, upp á forsíðu með fréttaskýringu, en segja í rælni frá niðurstöðum þriggja prófkjöra sem hátt í 15.000 manns tóku þátt í. Ég þori að veðja að Andrés Magnússon er heilinn á bak við þetta, enda frábær blaðamaður, eða eins og það kallast á færeysku: Frábær blaðrari.

Frjálslyndir og innflytjendur

Það skýtur skökku við að það skuli vera afl í íslenskri pólitík sem kennir sig við frjálslyndisstefnu sem nú hefur upp raust sína og vill aðgerðir til þess að sporna við straumi erlends vinnuafls til landsins. Ég hef reyndar aldrei skilið í hvaða skilningi Frjálslyndi flokkurinn er frjálslyndur (ensk. liberal) og lengi haft á tilfinningunni að flokkurinn hafi bara stokkið, við stofnun flokksins, umhugsunarlaust á þá pólitísku kategóriu. Hún var sú fyrsta sem þeim datt í hug. Margir vilja kenna sig við frjálslyndi og hugtakið verður fyrir vikið fullinnihaldslaust á köflum. Ég dreg í öllu falli mörkin við það að menn vilji ganga á hólm við frelsi -- sem við samþykktum við inngöngu í EES -- á flutningi vinnaafls innan Evrópulanda. Þá geta menn einfaldlega ekki lengur kallað sig frjálslynda. Verst að hugtakið þjóðleg félagshyggja (ensk. national socialism) er frátekið. Formaður Framsóknarflokksins eignaði sér og sínum flokki það hugtak með tilþrifum -- og væntanlega umhugsunarlítið -- í sumar, og hefur reyndar reynt að fínisera -- ef svo kurteislega má að orði komast -- ummæli sín síðar. Sá merkingarþrungni pólitíski kyndill hafði lengi legið rykfallinn og ónotaður í skúmaskotum Evrópulandanna. Líklega myndi hann í ljósi nýjustu ummæla Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um innflytjendamál henta frjálslyndum betur. Meira innan skamms.

Takk fyrir!

Ég þakka kjósendum í glæsilegu prófkjöri í Kraganum kærlega fyrir traustið og stuðninginn. Ég er að sjálfsögðu himinlifandi með fimmta sætið. Ég fékk örugga kosningu og var með þriðja mesta atkvæðafjölda í heild sinni, á eftir Katrínu og Þórunni. Þetta var æsispenndi prófkjör, fram á síðustu stundu. Frábær hópur. Listinn er virkilega sigurstranglegur að mínu mati. Fimmta sætið er baráttusæti, þannig að ég ákvað að hvíla mig í dag, svo ætla ég að taka upp gluggapóst síðustu vikna á morgun, hugsanlega opna Einkabankann ef ég þori, og taka til heima hjá mér. Laga sjónvarpið hennar Ömmu. Svo er bara að bretta upp ermarnar og hefjast handa. Fletta ofan af blekkingarleikjum Sjallanna. Sannfæra kjósendur um að Samfylkingin er eina aflið á Íslandi sem getur tekist almennilega á við verkefnin sem blasa við í íslensku þjóðfélagi. Nú megum við aðeins! Sigur í vor!

Koma svo!

Prófkjörið er hafið. Nú verða allir þeir sem vilja endurnýjun í stjórnmálum, nýja rödd á þing, umhverfissinna, lýðræðissinna og frjálslyndan félagshyggjumann í pontu á Alþingi að drífa sig á kjörstað og kjósa mig í fjórða sætið. Kosið er í Valhúsaskóla, Hamraborg 11, Gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði, Þverholti 3 í Mosfellsbæ, Garðatorgi 7 í Garðabæ, Skátaheimilinu Skátakoti á Álftanesi og Kaffi Kjós í Kjósinni. Þetta er allt saman prýðilegur laugardagsbíltúr með börnin. Og svo er alltaf gaman að hitta annað fólk í þágu lýðræðisins... Og síðast en ekki síst: Kosningavakan verður á Fjörukránni í kvöld. Fyrstu tölur koma kl. 20.00. Drífið ykkur að kjósa og komið svo í kaffi og vöfflur á kosningamiðstöðinni minni á Strandgötu 43 í Hafnarfirði. Líf og fjör í allan dag.

Mín svör

Fréttablaðið birtir í dag spurningar og svör frambjóðenda í prófkjörinu sem fer fram á morgun. Blaðið ákveður að spyrja einungis þá frambjóðendur sem óska eftir 1. til 3.sæti. Það er auðvitað út í hött. Mér finnst að sjálfsögðu mikilvægt að kjósendur viti svör mín við þessum spurningum. Þau koma því hér á eftir: Var rétt að ráðast í gerð Kárahnjúkavirkjunar? Nei. Ég er yfirlýstur andstæðingur þeirrar virkjunar, út frá umhverfissjónarmiðum, atvinnustefnu og efnahagssjónarmiðum. ----- Þarf að efla starf stjórnvalda gegn hugsanlegum slæmum áhrifum vegna loftslagsbreytinga? Já. Loftslagsbreytingar verða stærsta viðfangsefni stjórnmála og alls þjóðlífsins næstu áratugina. ----- Á Ísland að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru? Ég er ekki talsmaður þess, nei. Ég get því sagt að ég mun tala röddu efasemdarmanna innan Samfylkingarinnar í því máli. ----- Á að samþykkja stækkun álvers Alcan í Straumsvík? Nei. Ég held að Hafnfirðingar myndu gera vel, ef þeir höfnuðu þessari stækkun. Þar með myndi ný sókn Íslands og vakning í átt til nýrra og nútímalegri atvinnuhátta, sem ekki hafa mengun og náttúruspjöll í för með sér, hefjast í Hafnarfirði. ----- Var rétt að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni? Nei. Miklum hagsmunum er hér mögulega fórnað fyrir fáránlega litla. Það er lotterí sem stjórnmálamenn eiga ekki að spila. ----- Á að stytta nám til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú? Mér sýnist ekki hafa náðst nein sátt um það. Mér finnst önnur markmið mikilvægari, eins og til dæmis að auka sveigjanleika og valmöguleika, og bæta gæði menntunarinnar í heild sinni. ----- Á að breyta skattlagningu á fjármagnstekjum? Þeir sem lifa af fjármagnstekjum eiga að borga hærri skatt en nú, já. Annnað er einfaldlega ekki sanngjarnt. En það verður að undanskilja almennan sparnað frá þessari aðgerð. ----- Á að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag? Nei. Við eigum að gera eins og Bretar. Eiga öflugt ríkisútvarp- og sjónvarp sem er ekki á auglýsingamarkaði og sinnir skýrum skyldum. ----- Ertu hlynntur frekari nýtingu orkuauðlinda vegna uppbyggingar álvera? Nei, ég er ekki hlynntur því. Við verðum að fara að beina sjónum okkur í aðrar áttir en að stóriðju. ----- Myndir þú beita þér fyrir breytingu á lögum um eftirlaun þingmanna og ráðherra? Já. Það eru einhver fáránlegustu lög sem sett hafa verið á Íslandi um langt árabil.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband