Leita í fréttum mbl.is

Gleðileg jól

Í mínum huga hafa jólin alltaf á sér dálítið súrrealískan blæ sem fær mig til að brosa í kampinn. Auðvitað snúast þau um kærleika, trú og svoleiðis, svo ég tali í hálfkæringi, en jólin snúast líka um það að ganga yfir sjó og land og hitta einn gamlan mann, segja svo og spyrja svo hvar hann eigi heima. Þetta er fyndið. Hvers vegna að ganga alla þessa leið, yfir sjó (síðan hvenær var það hægt?!) og land, til þess eins að spyrja svo einfaldrar spurningar? Og maðurinn svarar út og suður. Segist eiga heima í Klapplandi eða Stapplandi eða Grátlandi eða Hlælandi. Jafnvel á Íslandi. Er maðurinn að ganga af göflunum? Hvað amar að? Nú skal segja.

JÓLIN snúast um jólasveininn sem situr við gluggann í kofanum í skóginum og lítið héraskinn sem kemur þar að og segir að veiðimaður ætli að skjóta það. Héraskinn? Hverjum datt það í hug? Á meðan stendur Adam á akrinum, átti syni sjö, og hann sáir. Hann sáir.  Kannski sáði hann í tvöfaldri merkingu? Jólin eru frjósamur tími. Varð ekki einhver vitni að mömmu kyssa jólasvein? Gamli refurinn. Jólagjöfin mín í ár ekki metin er til fjár. Jólagjöfin er ég. Pökkuð/pakkaður inn í sellófón kannski? Erótísk jól.

NÚ skal segja. Upp á stól stendur mín kanna. Níu nóttum fyrir jól kem ég til manna. Hvert er samhengið í þessu? Einhverjir vilja syngja frekar “Upp á hól stend ég og kanna”, en rannsóknir á gömlum handritum sýna að hið fyrra er rétt. Kvæðið er bara svona skrýtið og ekkert meira með það. Jólasveinarnir ganga virkilega um með gylltan staf, en ekki gildan, og hafa könnu sína upp á stól en ekki á borði einsog tíðkast. Svona eru jólin. Súrrealísk.

ÞANNIG vil ég meina að vísurnar sem Íslendingar hafa sungið áratugum og jafnvel öldum saman á jólunum séu til þess fallnar að sýna okkur að jólin eru ekki bara tími hátíðleika, ljóss og friðar heldur líka tími léttleika, æðruleysis og jafnvel grallaraskapar. Eða hver er annars pælingin með því að setja tré inn í stofu til sín, ganga svo í kringum það og herma eftir gömlum körlum að taka í nefið?

OG hver tekur í nefið, ef út í það er farið, og snýr sér svo í hring? Enginn svo ég viti til. En svona er þetta líka með Adam. Hann sáir, en svo fer hann allt í einu að dansa eins og John Travolta. Klappar saman höndunum, stappar niður fótunum og ruggar sér í lendunum. Þetta má. Svona er andi jólanna víðsýnn. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil og er þá ekki átt við jeppavarahluti, eða hvað? Ég segi bara góða ferð yfir sjó og land, kæru lesendur, vinir, vopnabræður, andstæðingar , og gangi ykkur vel að fá svör frá gamla manninum um það hvar hann eigi heima. Hann mun svara út í hött, sem er bara fyndið og skemmtilegt, því jólin eru jú um fram allt, og hvernig sem á það er litið, gleðileg.

(Þessi pistill birtist, nokkurn veginn í þessari mynd, sem bakþanki í Fréttablaðinu á aðfangadag í fyrra. Um svipað efni - jólalögin -- má líka lesa í mun ítarlegri grein sem ég skrifaði í TMM fyrir jólin 2001. Ég sá líka í morgun að Pétur Gunnarsson rithöfundur var að skrifa grein í Moggann um "Jólasveinar ganga um gólf" þar sem hann skýrir af hverju talað er um að kannan sé upp á stól. Könnur voru oft upp á svokölluðum stól áður fyrr. Þetta breytir samt ekki því að kvæðið er súrrealískt og samhengið skringilegt. (Hvað kemur þessi kanna til dæmis yfirleitt málinu við?) Það held ég nú. Ég er farinn að skreyta jólatréð, klára að kaupa jólagjafir (í fárviðrinu), borða rjúpu, hangiket, lesa bækur, útskýra fyrir dóttur minni hver Grýla, jólasveinarnir og Jesús eru, etc. Semsagt jólafrí. Sjáumst eftir tvö til þrjú kíló.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gæðapistlar hjá þér og skemmtilegir - Gummi á þing!

Gleðileg Jól! 

Skraddi (IP-tala skráð) 21.12.2006 kl. 23:25

2 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Já, gleðileg jól.

Hlakka til að hjálpa þér á þing eftir áramót.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 22.12.2006 kl. 01:50

3 identicon

BWAahahahahahahahaha!!! Jólunum reddað með brjálæðislega fyndnum pistli.
Takk fyrir mig og Gleðileg Jól!!:)

Anna (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 14:53

4 identicon

Fjöldi heimsókna á þessa "bloggsíðu" sýnir að fólk er spennt fyrir nýjum hugmyndum og nýjum viðhorfum í þjóðfélagsmálum...framsetning Guðmundar Steingrímssonar í þá veru að nálgast mál og kryfja þau er verulegt nýmæli þar sem saman tvinnast hárbeittur húmor ,glöggskyggni og almenn skynsemi... það er ekki öllum okkar stjórnmálamönnum þessi gæði gefi

Allt  verður skiljanlegra  í víðu samhengi, með auðveldum hætti.

Ég held að það sé alveg ljóst að Guðmundur Steingrímsson á alveg

sérstakt erindi á Alþingi okkar Íslendinga.

Vinnum að kjöri hans nú í vor

Samfylkingin hafi sigur nú í vor..oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 17:03

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Góður pistill hjá þér!  Sakna þín úr sjónvarpinu.  Sirkús þættirnir voru frábærir.  Vertu bara ekki að eyða tímanum í heimskulega pólitík.  Gleðileg  Jól á  sjóoglandi!

Júlíus Valsson, 22.12.2006 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband