15.1.2007 | 23:19
Myndum ríkisstjórn, núna!
Ég er einn af þeim sem hef nokkuð gaman af því að spá í ríkisstjórnarmynstur að loknum kosningum og hverjir verði ráðherrar og svo framvegis, ég skal alveg viðurkenna það. Ég reyni þó að segja sjálfum mér reglulega að slíkar vangaveltur séu bull og vitleysa, því hvernig sem á það er litið stendur alltaf eftir sú óhjákvæmilega staðreynd, að við verðum að kjósa fyrst.
Og svo myndum við ríkisstjórn.
Getur Samfylkingin hugsað sér að fara með Sjálfstæðisflokknum? Mun kaffibandalagið mynda ríkisstjórn? Fara Vinstri grænir með Sjálfstæðisflokknum? Eða verður kannski R-lista stjórn?
Ég veit það ekki. Enginn veit það, skinnin mín. Við verðum víst bara að bíða og sjá. Það er bara svo afskaplega margt í mörgu, eins og konan sagði. Margt getur gerst.
En eitt veit ég: Ég persónulega, baráttusætismaður fram á vor (urrrr!) hyggst berjast eins og hungraður rakki. Það þýðir að ég mun leggja mig fram við það, í komandi kosningabaráttu, að gera veg Samfylkingarinnar sem mestan. Og hið sama ætla félagar mínir að gera.
Við segjum eins og Cohen: First we take Manhattan. Svo myndum við ríkisstjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
12.1.2007 | 03:25
Nýtt lag með Ske, gjörið svo vel (ókeypis)
Á þessum vetrarlega föstudegi er mér sönn ánægja að bjóða netverjum upp á spánýtt lag með Ske, í hverri undirritaður spilar á hljómborð. Í þágu ódýrara Íslands og lægra vöruverðs er því hér með dreift ókeypis. Megi það sparka fólki -- burtséð frá pólitískum áherslumálum og afstöðu til helstu deilumála -- í stuð fyrir helgina. Lagið heitir Svartur köttur og er titillag á samnefndu leikriti sem Leikfélag Akureyrar mun frumsýna 20.janúar. Hið fyrsta sem hljómsveitin flytur á íslensku... Hössi syngur, Paul er á trommum, Eiki á bassa, Frank og Hrannar á gítara og svo ég.
Njótið vel.
11.1.2007 | 00:30
Verðbarin þjóð á norðurhjara
Fyrir jólin var greint frá því í fréttunum að eitt tiltekið barnaleikfang sem bar það fróma nafn Skelfirinn, og er sjálfsagt komið ofan í skúffu á flestum heimilum nú þegar, hafi kostað 15.000 krónur á Íslandi en einungis 3.500 krónur í Danmörku.
Dæmin um óheyrilegt verðlag á Íslandi eru mýmörg. Verlagið hækkar bara og hækkar. Skelfirinn er bara eitt dæmi um verðlag í skýjunum.
Tíu prósent tollar og 15% innflutningskostnaður ná að sjálfsögðu ekki að útskýra til fulls svona verð. Virðisaukaskatturinn gerir það ekki heldur. Hér er eitthvað annað og meira að, sem löngu er orðið tímabært að rannsaka ofan í kjölinn.
Leikfangasalar hljóta til dæmis að hafa komist að þeirri niðurstöðu við verðlagninu sína -- þegar þeir margfölduðu heildsöluverðið eftir innflutning með ca 5 -- að Íslendingar væru almennt tilbúnir til þess að borga himinhátt verð, enda rokseldist græjan: Fjarstýrt vélmenni með klær.
Það er alþekkt í bransanum að hár verðmiði getur skapað þá ímyndun í huga neytenda að þar með sé varan verðmæt. Fólk getur af þeim sökum ákveðið að kaupa frekar dýrari hlutinn, jafnvel þótt munurinn á honum og öðrum ódýrari sé enginn.
Ég held að stór ástæða fyrir háu verðlagi á Íslandi sé sú að stór hópur neytenda hér á landi virðist vera reiðubúinn að borga nánast hvaða verð sem er. Því hærra því betra. Verðskyn er með öðrum orðum ákaflega lítið.
Fólk sem fer til sólarlanda segir frá því að sölumenn leðurjakka séu farnir að læra íslensku sérstaklega, vegna þess að þeir geti selt Íslendingum jakkana á þreföldu verði. Þeir tæla þá til sín með því að segja "Góðan daginn" á hinu ástkæra. Könnun í London leiddi í ljós að Íslendingar eyða þar þjóða mest.
Spurningin sem blasir við er hins vegar þessi: Hvað ætlum við að gera til að ná verðlagi niður? Ekki er hægt að senda þann hluta þjóðarinnar sem hefur lítið verðskyn -- og heldur þar með verðinu uppi -- í sálfræðimeðferð? Það eru líka takmörk fyrir því hvað hægt er að sakast við kaupmenn fyrir að reyna að græða. Ef varan selst nægilega vel á því verði sem þeir setja upp, að þá er það bara þannig. That's the name of the game, eins og Kaninn segir.
Hið ótrúlega er hversu fáir virðast sjá hag sinn í því að bjóða Íslendingum upp á lágt verð. Kannski borgar það sig ekki? Kannski hefði enginn keypt Skelfinn ef hann hefði verið of ódýr?
Það þarf að ná niður verðlagi. Það er stóra verkefnið á Íslandi í dag. Fátt yrði meiri kjarabót fyrir allan almenning, háa sem lága. Þetta er ekki heimsmet sem við viljum eiga, þótt það sé vissulega eitt af fáum sem við eigum án þess að miðað sé við höfðatölu, sem vissulega er alltaf á ákveðinn hátt tímamót.
Þetta verkefni er margslungið. Það þarf að lækka tolla og álögur, það þarf að auka verðeftirlit og verðsamanburð af öllu tagi, það þarf að TALA um vöruverð signt og heilagt, benda á verðmiðana, skapa stemmningu í þjóðfélaginu fyrir vörulækkunum. Það þarf að efla samkeppni og síðast en ekki síst: Ísland þarf að verða hluti af stærra markaðssvæði, en ekki eyland sem setur sífellt hærri verðlagsmet í einangrun sinni.
Við erum verðbarin þjóð á norðurhjara.
Enginn flokkur er betri í íslenskri pólitík til að takast á við þetta stóra verkefni en Samfylkingin, með allri sinni áherslu á lífskjaramál og málefni neytenda. Ódýrara Ísland. Það er markmiðið. Einfalt og augljóst.
8.1.2007 | 01:03
Krónan í evruleikum
Núna þegar bankar og stórfyrirtæki eru farin að gera upp í evrum leikur mér hugur á að vita hvenær sá veruleiki gæti knúið dyra, að launþegar hér á landi færu að krefjast þess að fá borgað í evrum. Þetta er þegar að gerast. Fregnir af Marel bárust fyrir nokkru. Þeir borga sínu fólki að hluta til í evrum.
Þetta er auðvitað gert vegna þess að launþegunum bjóðast líka húsnæðislán í erlendum gjaldmiðli og með því að fá launin -- a.m.k. sem nemur afborgunum af lánum -- greidd í evrum er allri gengisáhættu útrýmt. Bara þetta felur í sér mikla kjarabót fyrir launþegann og aukið öryggi.
Það kæmi mér ekki á óvart ef fleiri fyrirtæki með mikla starfsemi erlendis tækju upp þessa launastefnu. Í kjölfarið gæti krafa íslenskra launþega almennt eflst til muna, um að slíkar greiðslur ættu yfir þá alla að ganga.
Og þá held ég að krónan myndi eiga í verulegum evruleikum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.1.2007 | 00:53
30 dagar
Ég horfði á Morgan Spurlock og spúsu hans áðan á Skjá einum í raunveruleikaþættinum -- já, já enn einn slíkur -- Þrjátíu dagar. Morgan, sem margir þekkja sem manninn sem drap sig næstum því á MacDonalds hamborgara-áti, prófar alls konar hluti og lætur tilraunina vara í þrjátíu daga.
Fínn þáttur. Núna prófaði hann að lifa á lágmarkslaunum ásamt konu sinni í einhverju krummaskuði í Bandaríkjunum í þrjátíu daga. Niðurstaðan var auðvitað sú að það var ekki hægt.
Það ætti að gera íslenska útgáfu af þessum þáttum, segi ég. Þáttur um það hvernig einhverjum gengi að lifa á lágmarkslaunum á Íslandi í þrjátíu daga ætti augljóslega erindi og myndi örugglega enda á sömu niðurstöðu og ytra.
Svo þyrfti auðvitað að prófa margt, margt fleira, eins og til dæmis hvernig gengi á þrjátíu dögum að hefja fiskveiðar við Íslands strendur með tvær hendur tómar og engan kvóta, eða hvernig væri að vera á Engey við strendur Afríku í þrjátíu daga, eða hvernig gengi að græða peninga í kauphöllinni á þrjátíu dögum, etc. Vinna við Kárahnjúka. Eða á barnum á Ölstofunni.
Ég held að margir bloggarar (Egill Helgason þar með undanskilinn) gætu orðið fyrirtaks íslenskir Morgan Spurluck og gætu stjórnað svona þætti af mikilli list. Auglýsi eftir tillögum.
5.1.2007 | 11:55
Álverið í Straumsvík
Forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun um að Alcan íhugi -- eða hafi jafnvel ákveðið (þetta var óljóst í fréttinni) -- að hætta starfsemi álversins í Straumsvík ef það verður ekki af stækkun, styrkti mig enn frekar í afstöðu minni gegn þessari stækkun.
Ég er semsagt á móti stækkuninni, svo því sé haldið til haga. Álverið í Straumsvík var mjög mikilvægt á sínum tíma -- fyrir fjörutíu árum -- til að skapa störf og fjölbreyttara atvinnulíf. Það hefur síðan verið stór hluti af atvinnulífi Hafnfirðinga og nærsveitarmanna. Ég vil ekki gera lítið úr þessu. Hreint ekki. En nú er öldin önnur. Hvort það eigi beinlínis að stækka álverið verður að skoðast í samhengi við annað í þjóðfélaginu.
Álverin eru núna orðin nokkuð fleiri á Íslandi. Eitt risa er að rísa á Austfjörðum. Búið er að stækka Norðurál. Húsvíkingar vilja álver. Suðurnesjamenn vilja álver. Heyrst hefur af tilburðum manna á Suðurlandi um að reisa þar álver.
Nú verðum við einfaldlega að fara að staldra við og draga djúpt andann. Í fyrsta lagi getum við ekki byggt öll þessi álver nema að þverbrjóta Kyotosáttmálann. Í öðru lagi liggur alls ekki fyrir nein sátt um það hvar eigi að sækja orku í öll þessi álver, í þriðja lagi liggur fyrir að atvinnuástandið (sem er gott) kallar ekki á öll þessi störf, í fjórða lagi felst í því mjög óskynsamleg efnahagsstefna á þenslutímum að ráðast í svo gríðarlega stóriðjuuppbyggingu og í fimmta lagi -- og þetta varðar einmitt frétt Fréttablaðsins og það hvernig ég styrktist í afstöðu minni við að lesa hana -- við verðum að gæta þess að verða ekki of háð starfsemi erlendra álfyrirtækja.
Því hvað er einmitt að gerast í Straumsvík samkvæmt þessum fréttum? Álverið vill stækka með tilheyrandi orkuþörf og auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hvað ef öll álverin á Íslandi vilja stækka eftir 10 til 20 ár með tilheyrandi orkuþörf og útblæstri, en annars fara af landi brott? Og ef við höfum þá gert (eins og blasir við) efnahagslífið of háð þessari álframleiðslu, í hvaða stöðu verðum við þá komin sem "sjálfstæð" þjóð?
Undir álhæl, segi ég.
Allt er þetta spurning um skynsemi og ábyrga atvinnu-, efnhags- og umhverfisstefnu. Viljum við/getum við farið lengra í átt að álversuppbyggingu eða eigum við að fara að líta í aðrar áttir?
Ég segi aðrar áttir. Hikstalaust. Það geri ég bæði sem umhverfisverndarsinni og vegna skoðunar minnar á því hvað sé skynsamleg atvinnu- og efnahagsstefna. Og ég vona þess vegna að hreyfing í þessa nýju átt hefjist með því að Hafnfirðingar noti lýðræðislegt neitunarvald sitt og hafni stækkuninni.
Ég tel mig eiga samleið með Samfylkingunni í þessum efnum, já. Í engum flokki hefur þetta mál -- stóriðja og umhverfismál -- verið jafn kerfisbundið rætt og skýr stefna hefur verið mótuð. Hún heitir Fagra Ísland.
4.1.2007 | 00:57
Skaupið etc.
Jæja.
Ég byrjaði árið á tómum flensuleiðindum þó ekki fuglaflensu -- og hef legið fyrir framan sjónvarpið og sötrað Panodil Hot á meðan helstu ákvarðanir hafa verið teknar í bloggheimum um grafalvarlega hluti eins og það hvort að skaupið hafi verið gott.
Mér fannst skaupið stórfínt. Hló upphátt um og yfir 10 sinnum sem telst mjög gott á mínum bæ. Meðalskaup hjá mér er fjórir hlátrar. Þetta var því nokkuð yfir meðallagi. Baugstrailerinn stóð upp úr. Magnagrín var líka gott og Þorsteinn Guðmunds alltaf fyndinn. Innslag útvarpsstjóra og undrunarsvipur á Pétri Jóhanni og fjölskyldu, teiknimyndir og útúrsnúningar úr auglýsingum eins og Góð hugmynd frá Íslandi og Orkuveituauglýsingunni var líka allt saman stórfínt. Já og Jón Gnarr líka. Alltaf fyndinn.
Og meðan ég man: Einn útúrsnúningur á Toyota auglýsingu hefði getið ratað í skaupið líka, í boði vinar míns Arnar Úlfars sem laumaði þessu sposkur út úr undir lok sumars, við nokkra kátínu viðstaddra: "Framsóknarflokkurinn. RisaSmár. Skráið það í orðabókina ykkar." Dáldið fyndið. En það hefði verið skuggalegt ef höfundar skaupsins hefðu kveikt á þessu líka. Beinlínis skuggalegt.
Um önnur mál sem ég hef misst af út af flensu vil ég segja þetta:
- Aftaka Saddams: viðbjóðsleg og gerir illt verra.
- Kryddsíldin: Var fremur dauf þetta árið. Allir að vara sig. Athyglisvert samt hvað leiðtogarnir voru í raun með allt opið varðandi stjórnarmynstur á alla kanta. Þetta verða líklega þar með einna opnustu -- og þar með að mörgu leyti mest spennandi -- kosningar um langt árabil.
- Alcan: Mega slaka á í gjöfum og sponsi. Nú þarf bara að ákveða kjördag, setja upp fundi, útgáfur, leyfa öllum sjónarmiðum að njóta sín og halda kosningu. Málefnalega.
- Og svo síðast en ekki síst. Umræðuefni í nánast öllum partíium og boðum sem ég hef farið í undanfarið, mér til ómældrar undrunar. Ekki spyrja mig af hverju (hvað er málið með fólk?): Kjóllinn hennar Dorritar á forsíðu Nýs Lífs. Tja, hvað skal segja? Mér fannst hann bara fínn. Stórglæsilegur.
31.12.2006 | 18:03
Gleðilegt ár!

29.12.2006 | 13:27
Svona var 2006 (nokkurn veginn)
Árið 2006 hafði yfir sér nokkuð sérkennilegan blæ og einkenndist ekki síst af nokkuð spaugilegum svona eftir á litið móðgunum á millilandastigi, skæting og ólund. Þetta var árið sem danskir skopteiknarar gerðu bókstafstrúaða Múslimi snælduvitlausa, DV var breytt í helgarblað út af dónaskap, Silvía Nótt móðgaði Grikki, Danir voru með derring út í íslenska viðskiptamógúla (hvað var málið með Dani á árinu?) og Zidane stangaði Matarazzi á sjálfum úrslitaleiknum á HM og var rekinn af velli með rautt.
Þetta var ár hins reiða bókstafstrúarmúslima. Rétt þegar þeir voru farnir að anda rólega aftur eftir Danina tók páfinn sig til og móðgaði þá alla á einu bretti í ræðu í Þýskalandi. Kirkjur voru brenndar.
Þetta var ár málaferla. Baugsmáli var vísað frá, tekið upp aftur, vísað frá og tekið upp aftur, vísað frá, og tekið upp aftur
vísað frá
. Jóhannes í Bónus boðaði gerð bíómyndar um málið í viðtali við Sirrý. Menn rifnuðu ekki af spenningi. Á sama tíma á annarri stöð lýsti Davíð Oddsson smjörklípuaðferðinni í fyrsta skipti. Hann boðaði ekki bíómynd um hana. Frá því var greint í fréttum að maðurinn sem var settur í að rannsaka olíusamráðið fór í sumarfrí.
Jón Ólafs og Hannes Hólmsteinn stóðu í áframhaldandi skærum fyrir rétti í Bretlandi. DeCode fór í mál við Jesús.
Mogginn fór í fýlu út í Bandaríkjamenn fyrir að fara með Varnarliðið og Geir Haarde sagði af því tilefni eitthvað var það brandari? Fullyrðing? Athugasemd? -- sem verður að teljast setning ársins: Maður getur ekki alltaf farið með sætustu stelpuna heim af ballinu en stundum kannski eitthvað sem gerir sama gagn. Vakin var athygli á orðalaginu "eitthvað". Nokkrum mánuðum síðar saup landinn hveljur þegar myndir birtust af því að Varnarliðið hellti niður öllu gosi og bjór í ræsið áður en það fór. Og Fréttablaðið birti lengsta orð í fyrirsögn á Íslandi fyrr og síðar: Kakkalakkafaraldurshætta.
Verðbólgudraugurinn vaknaði og heimsmet var sett í viðskiptahalla. Krónan féll. Húsvíkingar fögnuðu í beinni útsendingu út af hugsanlegu álveri Alcoa og landsmenn klóruðu sér í kollinum nokkrum mánuðum síðar þegar nýkrýndur iðnaðarráðherra lýsti því yfir að hér ríkti samt engin stóriðjustefna. Ómar myndaði mannhaf gegn Kárahnjúkavirkjun og Andri Snær gaf út bók um vor, sem viti menn -- seldist. Vitundarvakning í umhverfismálum, sögðu menn. Hver hefði séð það fyrir að ein vinsælasta myndin á kvikmyndahátíð yrði mynd eftir Al Gore um gróðurhúsaáhrif?
Fuglaflensan kom ekki. Tvær álftir fundust dauðar á Suðurlandi og hrollur fór um fólk. Rétt þótti að slátra hænunum í Húsdýragarðinum.
Þetta er árið sem borgin var myrkvuð og fólk átti að horfa á stjörnurnar. Þær mættu hins vegar ekki. Fregnir bárust af konu sem keyrði hjóli sínu hastarlega út í vegarkant í myrkrinu og hlaut litla aðstoð.
Mest pirrandi fyrirbrigði ársins var verðtryggingin.
Formaður Framsóknarflokksins ársins var Finnur Ingólfsson.
Bíll ársins var Hummer og tískufyrirbrigði ársins var einkaflugvél.
Árni Johnsen fékk uppreist æru meðan forsetinn var í útlöndum. Á sima tíma var greint frá því að Plútó væri ekki reikistjarna. Tæknileg mistök. Unglingur pissaði á hraðbanka í Skeifunni og úr urðu mikil slagsmál. Árni fór í prófkjör og nafni hans í klippingu á Selfossi.
Þetta er árið sem Íslendingar sátu límdir fyrir framan sjónvarpið á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum yfir hásumarið og horfðu á Rockstar Supernova og hina sígildu Magnavöku, sérþátt um Magna Ásgeirsson. Margir spurðu sig AF HVERJU þeir sætu um miðja nótt og horfðu á poppspekinga rökræða um það hvort hlómsveitin Á móti Sól væri góð eða ekki. Deilumálið er enn óútkljáð. Orð ársins var MAGNIficent af vörum Tommy Lee. Orðasamband ársins á ensku var awsome, dude.
Leyndardómur árins var þessi: Er til eða var einhvern tímann til leyniþjónusta á Íslandi? Græjur ársins voru að sama skapi hlerunarbúnaður fyrir síma.
Ísraelsmenn hampa óhikað titlinum hrottar ársins út af fólskulegri innrás sinni í Líbanon. Klasasprengjum var beitt gegn borgurum. Alþjóðasamfélagið fordæmdi, en ný tegund af stríði leit dagsins ljós: Nú fá ríki leyfi til að ráðast aðeins, í nokkra daga inn í önnur ríki og sprengja þar allt í spað, að því tilskyldu að þau komi sér burt aftur innnan settra tímamarka.
Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson íhuguðu að gerast múhameðstrúarmenn og hefja nýtt líf í hellum í Afghanistan. Skýrsla ársins var eftir Grím Björnsson og fjallaði um Kárahnjúkavirkjun og sprungusvæði. Næstbesta skýrslan var gerð af varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins um Byrgið. Hvorugar voru skrifaðar á árinu, en lágu báðar faldar og teljast því jafnframt til handritafunda ársins.
Árið hafði á sér þónokkurn fortíðarblæ. Gorbaschov kom, Sykurmolarnir stigu á svið, hvalveiðar hófust, Paul Watson boðaði komu sína, Jón Baldvin var mikið í fréttum, Jón Páll Sigmarsson í bíó og Hemmi Gunn í sjónvarpinu. Svona var 1986.
Allt var sveipað dulúð. NFS kom og fór. Líkt og draumur sem aldrei varð. Svona viljum við hafa það söng Orkuveita Reykjavíkur og hlaut að launum kæru frá femínistum. Sigurrós róaði fólkið niður á Miklatúni svo það hefur aldrei sofið jafn vel síðan.
Ungfrú heimi var bannað að blogga. Blaðið greindi frá því maður hefði byrjað aftur að reykja í svefni og að strætóbílstjórar væru orðnir leiðir á því að borða alltaf 1944 Rétt fyrir sjálfstæða Íslendinga. Mogginn breytti útlitinu með pompi og prakt án þess að margir tækju eftir því, skrifaði um það leiðara og færði Staksteina inn í blaðið, lagði niður sunnudagstímaritið og prentaði heilt sérrit um Björgólf Thor.
Natascha Kampusch fannst í Austurríki. Castró veiktist en lifir enn. Bin Laden var sagður látinn, en lifir enn. Donald Rumsfeld sagði af sér.
Þrjóturinn sá.
Sjálfum leið mér alveg ágætlega.
28.12.2006 | 01:32
Alcan og Bó
Það fer ekki milli mála að fyrirtækið Alcan er byrjað í kosningabaráttu um hylli Hafnfirðinga. Auglýsingarnar streyma í miðlana um það hversu gott það þykir að vinna hjá fyrirtækinu. Í ímyndarauglýsingum (að vísu líka í tilefni 40 ára afmælis) syngja kórar við álkerin í fallegri birtu. Hafnfirðingum er boðið á handboltaleik og nú síðast var þeim öllum sendur geisladiskur með Bó og Sinfóníuhljómsveitinni.
Álrisinn hefur greinilega áttað sig á hinu fornkveðna: Það er ekki gó fyrr en Bó segir gó. Og nú vonar semsagt Alcan að stækkun í Straumsvík fái gó út á Bó.
Einu sinni las ég bók um kosningastragedíu, skrifaða af kosningastjórum Bills Clintons, þeim James Carville og Paul Begala. Í einum kafla bókarinnar fjölluðu þeir um almenna gagnrýni fólks á kosningabaráttu, eins og svo oft gerir vart við sig. Fólk hneyklast á þeim. Finnst þær fyrir neðan sína virðingu etc.
En þeir tóku dæmi: Segjum sem svo að Coke og Pepsi þyrftu allt í einu að berjast um hylli almennings í kosningabaráttu. Sá gosdrykkur sem fengi meirihluta atkvæða yrði drukkinn næstu fjögur árin. Hinn ekki. Og ímyndið ykkur svo hversu djöfullega hatrömm slík barátta yrði. Allar gjafirnar sem myndu dynja á kjósendum, allir geisladiskarnir, boðsmiðarnir, auglýsingarnar. Það yrði ólíft í landinu. Kosningabarátta stjórnmálaflokka yrði eins og afslöppuð ferð í Húsdýragarðinn til samanburðar við slíka kosningabaráttu fjársterkra fyrirtækja.
Þegar ég sé hvernig þessi kosningabarátta Alcan fer af stað get ég ekki annað en hugsað til þessa dæmis um Coke og Pepsi. Ég sæi í anda stjórnmálaflokk senda á alla kjósendur Bó, til að fá gó.
(Bókin heitir: "Buck Up, Suck Up . . . and Come Back When You Foul Up: 12 Winning Secrets from the War Room" Mæli með henni.)
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.4.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi