Leita í fréttum mbl.is

Spark í rass

Því meira sem ég hugsa um þetta Byrgismál verð ég alltaf meira og meira undrandi á því af hverju þessari skýrslu um fjármál Byrgisins var haldið leyndri. Það þarf einhver fréttamaður að fara í saumana á því. Ég hef ekki séð fullnægandi skýringar neinstaðar. 

Komið hefur fram að m.a. Birkir Jón Jónsson núverandi formaður fjárlaganefndar vann að skýrslugerðinni. Hann var þá aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem var Páll Pétursson. Utanríkisráðherra var Halldór Ásgrímsson. Skýrslan var gerð á vegum hans ráðuneytis, sem vekur vissulega spurningar líka. Af hverju var hún unnin þar? Var það vegna þess að Byrgið var þá í Rockville? 

Og hvurnig er það: Er þá bara haft eftirlit með meðferðarstofnunum ef þær eru í Rockville? Það er dálítið tilviljanakennd stjórnsýsla, myndi ég segja. Stefnulaus.  

Þessi meðferðarstofnun þáði opinbert fé. Margir alþingismenn töluðu máli hennar inni á þingi, svo hún fengi meira fé. Þeir gerðu það væntanlega í góðri trú. Á meðan sátu þá aðrir að svartri skýrslu um fjármál stofnunarinnar og sögðu ekki múkk. Það er ótrúlegur andskoti.

Og síðan er það hitt. Í Kompási kom fram að einn af vitnunum um misnotkun forstöðumannsins á aðstöðu sinni hefði sent bréf til allra alþingismanna og greint frá reynslu sinni, að vísu undir dulnefni. 

Kannski fá alþingismenn oft svona nafnlaus bréf um alla skapaða hluti. Það vekur samt furðu að enginn þingmaður skyldi hafa kveikt á þessu máli. Svo virðist sem enginn hafi til dæmis sent bréfið áfram til einhvers sem hefði getað athugað málið betur.

Einn þráður málsins er BDSM. Mér sýnist, svo maður noti þá viðeigandi orðalag, að nú þurfi að flengja allt kerfið duglega svo að svona gerist ekki aftur.

Megi málið alla vega vera okkur, og ekki síst yfirvöldum sem eiga að vera vakandi og hafa eftirlit -- og ekki LEYNA SKÝRSLUM --  spark í rass. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo þú ætlar að verða þessi týpa í bransanum  Þú veist mæta vel eða ÆTTIR að vita að öll starfsemi á varnarsvæðinu er á könnu utanríkisráðuneytisins, og það er ástæðan fyrir því að skýrslan var unnin þar. Það er ekki stjórnvaldsákvörðun heldur LÖG sem segja til um það, ekki stjórnleysi. Það sem ætti að vekja fólk í þessari umræðu er meint misnotkun fostöðumanns meðferðarheimilis á skjólstæðingum sínum, en merkilegt hvað þú Guðmundur og margir aðrir sjá sér leik á borði og hika ekki við að halda áfram að vaða í Framsóknarflokkinn, enda kosningar í nánd. Það finnst mér virkilega ósmekklegt því þetta mál sem hófst á "fréttastofu" stöðvar tvo fjallar meira um mannlegan harmleik og fullt af fólki sem á um sárt að binda, sem aðstandendur eða kannski fórnarlömb Guðmundar Jónssonar OG "fréttastofu" stöðvar 2. Sýnum háttvísi, þrátt fyrir kosningarnar í nánd   Sem stjórnmálamaður á uppleið áttu að kynna hugmyndir og lausnir en ekki stunda BARA kvörtunarpólitík og benda á hvað sé að í kringum þig !

Össur M. (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 16:31

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég er hreint ekki að gera lítið úr harmleiknum. Skil ekki hvernig þú færð það út. Mér finnst það hins vegar vera stór spurning af hverju viðvörunarljós blikkuðu ekki fyrr, sérstaklega þegar það var búið að gera skýrslu um málið og nafnlaus bréf höfðu verið send.  Ég er að sjálfsögðu að benda á þetta sem mikilvægt umhugsunarefni, algert burtséð frá flokkapólitík -- þótt þú haldir annað. Spurningin er: Hvernig komum við í veg fyrir svona? Hvernig grípum við inní? Og mér sýnist að hér hafi kerfið brugðist, ef það er eitthvað kerfi.  Og það er að sjálfsögðu réttmætur málflutningur, ekki nöldur. Hér beitir þú nöldurstimpli af fullmiklum ákafa. Í gagnrýni minni felast auðvitað lausnir líka. Hverjar eru þær? Jú, að fylgjast betur með með meðferðarstofnunum. Gera upplýsingar um þær aðgengilegar (a.m.k. löggjafarvaldinu) ef þær eru til, og afla þeirra ef þær eru ekki til. Svona týpa er semsagt ég. Gleðileg jól.

Guðmundur Steingrímsson, 19.12.2006 kl. 16:59

3 Smámynd: Bragi Einarsson

2 plús

Bragi Einarsson, 19.12.2006 kl. 17:26

4 identicon

Lausnin er augljós og hefur alltaf verið augljós.  Menn vilja hins vegar ekki hlusta.

Með því að koma á hefð ábyrgðar í íslenskt kerfi, líkt og í flestum nágrannalöndunum, fá menn fram vandvirkni. 
Ráðherra sem veit að hann verður látin fjúka ef eitthvað kemur upp á, mun ekki nota svarta skýrslu sem stólsessu.  Hann mun bregðast við henni þegar í stað og leggja til hverjar þær breytingar sem auka vandvirkni kerfisins!

Ábyrgð er lausnarorðið - en þekkist varla á Íslandi. 

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 18:00

5 identicon

Já, athyglisvert. Ég hef samt gríðarmiklar áhyggjur af fréttaflutningnum, hvernig getur það bara verið í lagi að ráðast svona á manninn? Kompás hefur unnið fréttina í 3 mánuði, skella svo fréttinni með ofstopa framan í smettið á alþjóð og maðurinn fær ekki tíma til að verja sig. Það eiga ALLIR rétt á að verja sig, fréttaflutningurinn í fréttum Stöðvar 2, til kynningar þættinum, var með öllu óafsakanlegur, ruddalegur og í ógeðslegum æsifréttastíl. Á svo að byggja þetta allt á vitnisburði veikra, hugsanlega helsjúkra einstaklinga? Mér finnst óþverralykt af þessu máli öllu og ekki er lyktin lítil frá Kompásmönnum. Vonandi kemur hið sanna í ljós og þá verður hægt að sækja þá til saka sem það eiga skilið en fréttaflutningurinn verður eftir sem áður skammarlegur, ég hef ekki lengur mikið álit á Sigmundi Erni og hans félögum.

Þráinn Árni Baldvinsson (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 23:03

6 identicon

Heyrðu Guðmundur minn. Yfirleitt finnst mér þú skrifa af sæmilegri skynsemi og vera  góður penni. Nú finnst mér að dómstóll götunnar sé mættur á svæðið og það finnst mér alvarlegt mál. Ætlastu ekki til að þú sért tekinn alvarlega sem stjórnmálamaður? Er ekki betra að kynna sér málin áður en við rjúkum fram á ritvöllinn og tölum um fórnalömb og misnotkun á opinberu fé. Hvernig var þetta aftur Guðmundur? Sekur þar til sakleysi sannast? Eða hvað?  Ég held að við verðum að sjá til hvernig þetta mál þróast og mér finnst þú heldur betur hlaupa á þig. Nema að þú vitir eitthvað meira en við hin sem höfum séð bara brot af fréttaflutningnum. Það svo ekkert um hversu áreiðanlegur fréttaflutningur Kompás er að þeir hafi haft  'fréttina' í vinnslu í þrjá mánuði. Spyrjið bara the Sun og fleiri 'áreiðanlega'  fjölmiðla.

Haraldur Benediktsson (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 23:47

7 identicon

“Í gagnrýni minni felast auðvitað lausnir líka. Hverjar eru þær? Jú, að fylgjast betur með með meðferðarstofnunum.” Hér dregur þú kannski ranga ályktun Guðmundur. Auðvitað þarf að hafa virkt og stöðugt eftirlit með meðferðarstofnunum. Landlæknir hefur með þetta eftirlit að gera. Það er alveg ljóst. Kannski hefur hann brugðist eða yfirmaður hans. Einnig ráðherra félagsmála  og svo utanríkisráðherra líka, eins furðulegt og það er nú.   Mörgum þykir sem stjórnmálamenn starfi eftirlitslausir. Amk sést á þessu máli að fársjúkt fólk hefur verið selt undir mjög vafasama og ólöglega starfsemi. Það er pólitísk ákvörðun. Með samningi félagsmálaráðuneytis og Tryggingastofnunar getur Guðmundur smalað fársjúku fólki í Byrgið og látið það undirrita afsal á tekjum sínum tímabundið. Þegar fólkið vaknar úr vímunni er það fast í neti þessara manna. Byrgið er orðið áskrifandi að tekjum fólksins sem fær á móti húsaskjól og útrunnin mat. Í Kompásþættinum kom fram að húsaleiga væri ca kr 60 þúsund pr mánuð á mann. Þar er fólki þröngvað til að sitja messur sturlaðra Ésúhoppara sem þykast geta læknað fólk með handayfirlagningu og gott ef ekki sæðinu úr sér líka. Ekki myndi ég vilja vakna upp á slíkum stað og komast ekki burtu. Ennfremur hefur komið fram að ríkið kaupir eignir undir þessa starfsemi fyrir 120 mkr og afhendir forstöðumanninum endurgjaldslaust. Af hvaða gjaldalið komu þessir peningar? Af hverju eru sjúklingar látnir greiða 60 þúsund kr á mánuði í húsaleigu ef Byrgið greiðir sjálft enga húsaleigu og fær matinn frítt? Hvaða ráðherrar og embættismenn bera ábyrgð á þessu? Hver hefur eftirlit með þeim?  Hefur einhver þurft að greiða fyrir þessa þjónustu með lífi sínu?

Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 00:37

8 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég sé ekki alveg hvernig þú færð það út að ég  fullyrði þarna eitthvað um fjármál Byrgisins frá eigin brjósti. Ég er að tala um skýrslu sem var gerð um fjármál Byrgisins. Þar var dregin upp dökk mynd. Skýrslunni var haldið leyndri, af einhverjum orsökum.  Mér finnst það  undarlegt, og um ÞAÐ fjallar færslan. Einnig fjallar færslan um það afhverju nafnlausa bréfið til þingmanna vakti engin viðbrögð. Mér finnst það líka umhugsunarvert, eins og svo margt annað í þessu máli, ekki síst þáttur Kompás.

Ég eiginlega skil ekki hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu að ég hlaupi á mig með því að velta upp þessum flötum.  En þannig er nú það. Gleðileg jól.

Guðmundur Steingrímsson, 20.12.2006 kl. 00:59

9 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Mín athugasemd átti semsagt við hann Harald hér að ofan.

Guðmundur Steingrímsson, 20.12.2006 kl. 01:01

10 identicon

Mér sýnist nú ef eitthvað er að Guðmundur sé að draga athyglina frá hinum persónulega þætti málsins, meðvitað eða ekki, og beina kastljósinu að því sem snýr að pólitíkinni og embættismönnum. Mér fannst einmitt að Kompás hefði frekar átt að einblína á það, þessa skýrslu og fjármálin frekar kynlíf forstöðumanns. Einhver staðar las ég bloggfærslu þar sem spurt var hvort einhverjar siðareglur væru til um Byrgið eða stöðu Guðmundar og væri fróðlegt að vita það. Kynlífið sem slíkt hefði ekkert átt að vera umfjöllunarefni í fréttaþætti sem þessum.

 Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að gera mér grein fyrir því að þingmenn sátu í raun allir á þessu bréfi frá "Lot" og er það umhugsunarvert - hvort sem þingmenn eru í grænum, rauðum eða bláum þingjökkum.

Það sem ég myndi þó vilja sjá er umræðu um það hvort stjórnun meðferðarheimila sé ekki best borgið í höndum fagaðila, sumir vilja meina að það se nóg að vera óvirkur fíkill til að geta sinnt meðferð. Auðvitað getur slík reynsla komið sér vel en það er margt annað sem spilar inn. En það er alveg óþolandi að vita til þess að miklum fjármunum var veitt þarna í starfið og þeim eiginlega sólundað, þarna fór gott tækifæri forgörðum og ef einhver fagaðili hefði verið stjórn hefði útkoman líklega verið önnur. 

Jón (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband