Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Baugsmálið er eins og Twin Peaks

Baugsmálið er farið að minna mig á Twin Peaks, sjónvarpsþáttaröðina alræmdu eftir David Lynch, sem gekk í sjónvarpinu við þónokkrar vinsældir til að byrja með einhvern tímann í kringum 1990.

Morðið á Lauru Palmer og það allt. Fyrstu sex þættirnir voru ofsaspennandi, en svo fór maður að missa þráðinn. Þáttaröðin leystist upp í samhengislausar myndir af einhverjum risa, rauðu draumaherbergi ogtwin-peaks síðhærðum dverg (ekki ósvipuðum Jóni Ásgeir, ef maður spáir í það) sem birtist í herbergishornum, undir rúminu eða undir sófanum og hélt yfirleitt á lurki. 

Örfáir nenntu að horfa á þetta til enda.

Það er heilsíða, ef ekki opna, um Baugsmálið í Mogganum í dag. Málið er orðið svo flókið og mikið rugl að þegar blaðið reynir að taka út aðalatriði málsins í kassa til hliðar, undir fyrirsögninni "Í hnotskurn", þá telur það tuttugu liði.

Málið er tuttugu liðir "Í hnotskurn".

Bráðum fer að birtast í þessu síðhærður dvergur með lurk og allir hætta endanlega að fylgjast með þessu. 

Þetta orkar auðvitað verulega tvímælis, svo vægt sé til orða tekið. Bara það að svo viðamikið dómsmál, rekið af ríkinu, skuli vera orðið svo langdregið og þvælt vekur alvarlegar spurningar um skilvirkni réttarkerfisins og fagleg vinnubrögð. Sakborningarnir sjálfir virðast vera í vafa um það fyrir hvað þeim er stefnt. 

Það er einmitt mjög í anda David Lynch. 


Hægri menn kunna ekki að fara með peninga

Ég las eitt sinn ágæta úttekt í Economist sem fjallaði um það, í grundvallaratriðum, að hægri menn kynnu ekki að fara með peninga. Greinin fjallaði aðallega um Bandaríkin. Í greininni voru færð ágætis rök fyrir því að repúblikanar væru jú ágætir í því að lækka skatta en hins vegar sýndi ferill þeirra að þeir væru afleitir í því að fara skynsamlega með féð. 

Þetta þarf kannski ekkert að koma á óvart. Segir ekki ein helsta trúarsetning hægri manna að menn fari betur með sitt eigið fé en annarra. Þegar hægri menn eru við stjórnvölinn haga þeir sér einmitt gjarnan samkvæmt þessu, og fara illa með fé annarra.

Við sjáum þetta núna í Bandaríkjunum. Útgjöld, einkum til varnarmála, hafa bólgnað út. Hægri menn spandera fé í það sem er þeim mest hugleikið: vopn.

Hér á Íslandi er komin upp merkileg staða. Það er ekki oft sem sá veruleiki blasir við að ríkisstjórnin yfirbjóði stjórnarandstöðuna hvað eftir annað á kosningavetri með fáheyrðu fjáraustri í allar áttir, langt fram í tímann.

Í gær leit dagsljósið 380 milljarða króna kosningaloforð í vegamálum. Áður höfum við séð 20 milljarða renna til sauðfjárbænda, með samningi sem á að ná yfir tvö næstu kjörtímabil. Og hér erum við bara að tala um sauði og vegi. Bara þar eru kosningaloforðin þegar komin upp í 400 milljarða.

Það er Íslandsmet í kosningavíxlum.   

Margt af þessu eru fínir vegir, það vantar ekki.  Og það þarf að ráðast í samgönguátak, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu (sem virðist að mestu undanskilið eins og vanalega fyrir utan Sundabraut). En það þarf líka að efla menntakerfið, framhaldsskólana, heilbrigðiskerfið, öldrunarþjónustu og svo framvegis.

Í ríkissbúskapnum gengur auðvitað ekki að hver ráðherra rjúki um landið með ávísanaheftið. Þetta hefur meira að segja tekið á sig súrrealískar myndir undanfarið. Á dögunum gerðu menntamálaráðherra og utanríkisráðherra samning um að styðja verkefni hjá hvor annarri um nokkrar milljónir. Ráðherrarnir eru semsagt farnir að gera samninga um fjárframlög við hvor annan.

Ég endurtek: Margt af þessu eru góð mál. En á 16 árum hefði líklega verið hægt að setja einhver þeirra á koppinn með yfirvegaðri hætti. Seint er í rassinn gripið, enda asinn svo mikill á lokaspretti í embætti að fjáraustrið gengur á víxl. En það er auðvitað ansi hentugt: Fréttatilkynningarnar geta þá farið inn á bæði ráðuneytin. Lúkkar vel.  

Sú var tíð að vinstri menn voru sakaðir um fara óvarlega með fé úr ríkissjóði, hreint ekki alltaf með réttu að mínu mati. Sú fullyrðing hefur í öllu falli rækilega verið afsönnuð upp á síðkastið og telst innantóm klisja og er reyndar orðin það fyrir löngu.

Það eru hægri menn sem kunna ekki að fara með peninga. 


Álkarlinn

Geir H. Haarde lýsti því yfir í Silfri Egils í gær að hann gæti vel hugsað sér að hér risu þrjú álver á komandi árum. Hann talaði um að álverin myndu rísa á löngum tíma, og nefndi árabilið 2015 til 2020. Ég sé það ekki sem langan tíma. Það er á næstu átta til þrettán árum.

Maðurinn er í raun að að tala um að öll þessi álver séu nánast handan við hornið.

Það er engu líkara en Geir hafi raunverulega verið týndur. Hvar hefur hann verið?

Verðbólgan er komin upp í 7,4%. Þenslukostnaður meðalheimilis, í vöxtum og verðbótum, er farinn að mælast í tugum þúsunda á mánuði. Við erum aðilar að samningi um útblástur gróðurhúsaloftegunda. Hvernig Geir ætlar að koma þremur álverum fyrir innan þeirra skuldbindinga er í meira lagi athyglisverð spurning.

Fátt í efnahagslífinu kallar á öll þessi álver, heldur þvert á móti. Aðrar atvinnugreinar, nýsköpunar- og sprotafyrirtæki kvarta yfir bágum starfsskilyrðum vegna ruðningsáhrifa stóriðju. Margt bendir til að hér sé offramboð af vinnu.

Rammaáætlun um náttúruvernd liggur ekki fyrir. Samfylkingin vill klára hana, enda ekkert vit í öðru. Stór deilumál varðandi virkjunarkosti eru óútkljáð. Stór deilumál varðandi eignarnám og landréttindi eru óútkljáð. Stór álitamál varðandi ríkisábyrgð á lántöku orkufyrirtækja vegna stóriðjuframkvæmda eru óútkljáð.

Geir vill ana áfram. Við viljum stöðva hann. Við viljum innleiða skynsemi í þennan málaflokk. Virða skuldbindingar. Ná sátt um náttúruvernd. Ná jafnvægi í efnahagsmálum. Efla aðrar atvinnugreinar. Fjölga kostunum. Gæta að fjármálum heimilanna. Minnka byrðarnar.

Skýrari getur átakalínan ekki orðið. 

En stóru tíðindin eru auðvitað þau að Sjálfstæðisflokkurinn skuli loksins leggja fram eitthvað sem hægt er að kalla stefnu: "Þenjum hagkerfið - þrjú álver fyrir 2015."

Allt á uppleið: Hærri vextir. Hærra verðlag. Hærri verðbætur. Meiri útblástur.

Minni náttúra.

Margaret Thatcher var járnfrúin. Kollegi hennar í öfgafrjálshyggjunni (með smá sovésku stóriðjutvisti), Geir H. Haarde, er gerður úr öðrum málmi. Hann er álkarlinn.


Samfylking og Vinstri grænir

Sveiflurnar eru ævintýralegar í skoðanakönnunum þessa dagana. Það hefur hingað til ekki þótt líklegt að meirihlutastjórn Samfylkingar og VG gæti verið í spilunum en könnun Fréttablaðsins í morgun sýnir að þessi möguleiki er vel fyrir hendi. 

Ánægjulegt.

En það er ferlega lágt svarhlutfall í þessari könnun. Rétt rúmlega helmingur af 800 manna úrtaki tekur afstöðu til spurningarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn má vera stressaður. Samkvæmt þessu gæti fylgi hans vel farið niður að 30% markinu. Sérstaklega  ef ásókn Frjálslyndra vex í þeirra raðir.

Framsókn er ekki í sókn, svo maður orði það kurteislega. Tveir þingmenn væri tja... óviðunandi niðurstaða fyrir þá...  Líklega yrðu þessi tveir Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Ekki mest samstíga þingflokkur í heimi.  


Til hamingju Röskva

GS og DBE, 230294 DVÉg óska Röskvu hjartanlega til hamingju með sigurinn í Háskólanum. Alltaf sætt að leggja Vöku... Ég datt í smá nostalgíu-kast af þessu tilefni og gróf upp gamalt DV, frá 23.febrúar 1994. Þar erum við á forsíðunni, ég og Dagur B. Eggertsson, en þá um nóttina höfðum við í Röskvu einmitt unnið Vöku í kosningum til stúdenta- og háskólaráðs með sex atkvæðum, ef ég man rétt.  Það varð allt brjálað þegar úrslitin voru tilkynnt, eins og sést á myndinni. Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega þessa gleraugnatísku sem þarna var í gangi. Við Dagur vorum greinilega ekki einir um hana, því Finnur, sem er þarna í bakgrunni (framsóknarmaður) er líka með svona þykkspangagleraugu. Við erum dálítið eins og Harold Lloyd. Brynhildur Þórarinsdóttir fyrrum ritstjóri TMM og barnabókahöfundur er þarna lengst til vinstri.. Á bak við höndina á Degi er Pétur Þ. Óskarsson, núna starfsmaður Íslandsbanka,...afsakið Glitnis.. bróðir Steinunnar Valdísar og... tja framsóknarmaður... held ég. 

Ég leiddi lista Röskvu til Háskólaráðs og Dagur listann til Stúdentaráðs. Hann tók skömmu síðar við sem formaður Stúdentaráðs og ég ári síðar. Gísli Marteinn Baldursson, nokkur, var okkar erkifjandi. Blessaður drengurinn. Við erum líklega dæmdir til að etja kappi fyrir lífsstíð og ég held að við höfum áttað okkur á því snemma að það yrði okkar hlutskipti og því ekkert annað að gera en að hafa gaman af því... 

Þetta var og er Röskvukynslóðin svokallaða. Sameinað félagshyggufólk í Háskólanum. Ragnar Helgi, Pétur Þ., Dagur, Einar Skúla, Kristrún Heimis, Skúli Helga, Maggi Orri, Herdís, Steinunn Valdís, Óli Haralds, Halli, Dalla, Kjartan Örn, Þóra Arnórs, Villi Vill, Kata Júl, Einar Gunnar, Palli Magg, Brynhildur, Kamilla Rún, Sunna, Syngvi.... Svo aðeins örfáir séu nefndir. 

Margt af þessu fólki fór síðan á fullt í það að sameina vinstri menn í Samfylkingunni með stofnun Grósku. Sjálfur fór ég út í nám og hvarf ofan í heimspekiskruddur um nokkurra ára skeið.

Eitt er kristaltært: Þessir sigrar sem Röskvukynslóðin vann í Háskólanum gerðu ekkert annað en að efla okkur öll af sjálfstrausti, skerpa okkar pólitísku hugsjónir og hvetja okkur til dáða. Mörg okkar erum núna mætt til leiks fyrir Alþingiskosningarnar. Minnimáttarkennd gagnvart Sjöllunum er ekki til í okkar orðaforða. Við tókum hægri mennina í nefið ár eftir ár. Þeir sögðu aldrei neitt af viti...  

DV230294bAnnars er nokkuð gaman að skoða þetta blað, DV frá 23.febrúar 1994. Á forsíðunni er greint frá ástandinu á Vestfjörðum.  Kvótinn að fara og byggðirnar að fjara út. Vitnað er í þá kumpána Einar Odd Kristjánsson og Reyni nokkurn Traustason, þá skipstjóra, þessu til vitnis. Reynir átti síðar eftir að flytja suður og hasla sér völl í blaðamennsku. Er núna ritstjóri og búinn að skrifa ævisögur alls konar fallegs kvenfólks eins og Lindu Pé... Með tönn um hálsinn.

Hægt var að kaupa íbuð við Hlemm, með bílskúr, á 3.9 milljónir.  Myndir í bíó voru m.a. Coneheads, Kryddlegin hjörtu, Free Willy og Carlitos Way.

Kalli Th. stóð í erjum við Guðrúnu Guðlaugs blaðamann út af nektarmyndum sem Kalli, þáverandi ritstjóri Pressunnar, hafði birt af áðurnefndri Lindu Pé. Kalli bauðst til þess að koma fram nakinn í sínu blaði með rauða slaufu (athyglisvert) gegn því að Guðrún myndi láta birta ekta mynd af sér með pistlum sínum í Mogganum, en ekki skuggamynd eins og hún gerði alltaf.  

Áhugavert debatt. Guðrún birtir enn skuggamynd. Kalli hefur ekki enn komið nakinn fram.  

16 síðna aukablað um hljómtæki fylgdi blaðinu. Svokallaðir "umhverfishátalarar" voru að koma fram á sjónarsviðið, þýðing á "surround". Núna köllum við það bara heimabíó.

Halldór Blöndal sprengdi síðasta haftið í Vestfjarðargöngunum.  Haukur Hjaltason nokkur stóð í vonlausum deilum við tollstjóraembættið vegna innflutnings á kjúklingabringum.

Er ekki kominn tími til að breyta?

 


Anna Nicole Smith

Fregnir af ótímabæru andláti Önnu Nicole Smith fengu mig í morgun, ásamt öðrum tíðindum vikunnar, til þess að leiða hugann að Bandaríkjunum. Eins og ég er mikill aðdáandi þessa lands og á þar hálfbræður og systur, vini og kunningja, að þá eru á stundum engin takmörk fyrir því hvað ég get ranghvolft augunum yfir ruglinu. 

Anna Nicole Smith deyr og sjónvarpsstöðvarnar rjúka til með útsendibílana sína og fyrr en varir er málið komið á stig íþróttakappleiks. Hvernig dó hún? Hvenær verður krufningin? Verður hún í beinni?

Hver fær kvikmyndaréttinn? Hver er faðir barnsins hennar og fær 400 milljónir bandaríkjadala? Málaferlin við ættingja skrilljónersins, fyrrum mannsins hennar, stóðu nefnilega yfir þegar hún dó. Þau hætta að sjálfsögðu ekki við þetta, heldur færast yfir á barnið. Kapphlaup er hafið milli nokkurra karlmanna um hver er faðirinn. Vitnaleiðslur verða sjálfsagt í beinni. 

Þessi raunveruleikaþáttur mun ekki heita The Bachelor. Þetta er nýtt concept: Barnsfaðirinn. 

Tja, eða Ekkjumaðurinn.  

Þetta er í öllu falli sápa. Færð í hendurnar á fréttastofunum og þær taka við fegins hendi. Raunveruleikasjónvarp beint úr sjálfum raunveruleikanum.

Undir öllu þessu liggur svo einhvern veginn falið, grafið í ruslahaug afþreyingarþjóðfélagsins, þessi alþekkta og einfalda atburðarás sem er alltaf sorgleg og er hægt að lýsa í tveimur orðum:

Manneskja dó.  

Hin tíðindi vikunnar sem fengu mig til að dæsa út af Bandaríkjamönnum voru fregnir þess efnis að Rudy Giuliani ætti erfitt uppdráttar í suðurríkjum Bandaríkjanna í sinni forvalsbaráttu fyrir Repúblikanaflokkinn vegna þess að hann hefði einu sinni komið fram á góðgerðarsamkomu í kvenmannsfötum. 

Ótrúlegt hvað stjórnmál í Bandaríkjunum geta snúist um stundum. Þetta var góðgerðarsamkoma, for crying out loud. Grín. Brandari.

Þótt hitt sé auðvitað ljóst - og ástæða til að leggja á það nokkra áherslu -- að Anna Nicole var töluvert sætari.  


Fagra Ísland og nýja atvinnulífið

Þá er það skjalfært og fært til bókar, kæru vinir, að Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum þar til rammaáætlun um verndun náttúrunnar hefur verið gerð og samþykkt. Þetta hefur reyndar þegar verið sagt í stefnuplagginu Fagra Ísland, en í gær lýsti formaðurinn þessu afdráttarlaust yfir á hinu háa Alþingi, þegar hún einmitt lagði fram Fagra Ísland sem frumvarp að lögum.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um stefnu Samfylkingarinnar í þessum málum. Hún er kristaltær. Eins afdráttarlaus og útlínur Snæfellsjökuls á heiðskýrum himni.

Þetta er skynsamleg stefna. Við eigum að taka í taumana. Það ríkir djúpstætt og stórhættulegt stefnuleysi í stóriðju- og virkjanamálum á Íslandi, þökk sé ríkisstjórninni. Því þarf að breyta hið snarasta. Það þarf að afnema skotveiðileyfið sem ríkir á náttúruna í grænum hvelli. Það er hið mikla lykilatriði. Ég sé til dæmis að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru enn við sama heygarðshornið. Þeir eru um það bil að fara að vaða í Brennisteinsfjöll og Kerlingafjöll í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur.  

Fagra Ísland er öfgalaus stefna. Náttúran er látin njóta vafans, sem er grunnatriði í allri umhverfisvernd, á t.d. rætur að rekja til Rio ráðstefnunnar árið 1992 (...fróðleiksmoli fyrir þá sem standa í þeirri trú að umhverfisvernd sé ný af nálinni...Framtíðarlandsfundur í kvöld og svona...). Samt er nýting orkulinda ekki útilokuð um ókomna tíð. Aðalatriðið er að við stöldrum við. Náum sátt. Pústrum. Ákveðum hvað við ætlum að vernda fyrst. Samþykkjum metnaðarfulla náttúruverndaráætlun. Virðum Kyoto. 

Svo segjum við eins og Kanarnir: Take it from there.  Okkur liggur ekkert á. Ekkert í hagkerfinu kallar á æðabunugang í virkjana- og stóriðjumálum, heldur þvert á móti. 

Samfylkingin bætti svo um betur í dag, þegar hún lagði fram á blaðamannafundi markvissar tillögur um eflingu nýsköpunar og uppbyggingu sprotafyrirtækja. Við köllum þessa stefnu Nýja atvinnulífið.  Hana má lesa í heild sinni hér.

Ég er stoltur af því að vera í Samfylkingunni, svo ég gerist sentimental. Svona viljum við hafa það, svo ég noti kunnan auglýsingafrasa... Við tölum í lausnum. Gagnrýnum ekki bara. Í stað einhliða áherslu á stóriðju, boðum við annað og betra.

Þetta bræðir mitt umhverfis- og nýsköpunarhjarta.

Koma svo.  


Þær eru komnar á trúnó

Tékkið á því. Hér. Andsvar kvenna við reykfylltum bakherbergjum. Reyndar hef ég sem slíkur aldrei verið sérstaklega mikið í þannig herbergjum. Er alinn upp meira eða minna af hópi kvenna, mömmu, ömmu, systur og móðursystur.

Og þær eru flestar berdreymnar í ofanálag. Þannig að ég þekki þetta.

En hvað um það. Þetta er dúndurbloggsíða. truno.blog.is  Jafnaðarkonur í húð og hár, með húðkremi og hárnæringu.

Koma svo. 


Sögustund: Ókeypis togarar og kvóti

Á áttunda áratugnum fengu menn 95% lán frá ríkinu, óverðtryggt, til þess að kaupa skuttogara. Svo kom 100% verðbólga. Lánin hurfu. Menn áttu skyndilega skutttogara, nánast ókeypis. Svo kom 1983 og útgerðarmennirnir – sem rétt þá nýverið voru búnir að fá skuttogara gefins – fengu kvótann gefins líka.

Þessi sögustund í grófum dráttum er í boði frænda míns, vel lesnum stjórnmálahugsuði á besta aldri. Sögð yfir kaffi latte í dag, ég segi það satt. Hvorki meira né minna en á kaffihúsi í 101, þá sjaldan það gerist.

Óréttlætið í hina víða sögulega samhengi sem hér er lýst er nánast yfirþyrmandi, burtséð frá þeim ástæðum sem gefnar hafa verið fyrir þessum ákvörðunum.

Hið sorglega er, að þetta óréttlæti er mikið til orðinn hlutur. Við snúum ekki við klukkunni. Hópi manna voru færðar eignir Íslendinga á silfurfati. Þeir eru flestir búnir að selja þær og kaupa Stoke og fleira fyrir andvirðið.

Allt svona eigum við að láta okkur að kenningu verða. Stjórnmál, og þær ákvarðanir sem þar eru teknar, skipta máli.

Það er holt að rifja upp endrum og eins. Það heldur manni við efnið. Núna sé ég til dæmis ekki betur en að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ætli sér að gera svipaða hluti við þjóðlendur Íslands: Leysa þær til sín með harkalegum málaferlum, til þess að færa þær Landsvirkjun. Svo einkavæða. Bingó.

Sagan endurtekur sig.

Nema við grípum í taumana. 


Listi Óákveðinna á blússandi siglingu

Einhvern tímann lagði ég til í hálfkæringi í góðra vina hópi að árangursríkast í pólitík væri líklega að bjóða fram lista óákveðinna. Óákveðnir myndu rúlla upp hvaða kosningum sem er. Nógu mikið fá þeir alla vega í skoðanakönnunum. Þeir eru með um og yfir 40% fylgi....

Þetta yrði dálítið spaugilegt framboð. Menn fóru til dæmis að velta fyrir sér hvernig stefnuskrá Óákveðinna myndi líta út. Allar framboðsræður myndu enda á efasemdum. Óvissu. Aðrir sögðu að stefnuskráin myndi líklega vera svipuð og Sjálfstæðisflokksins. Semsagt lítil sem engin. Almennt afstöðuleysi.

Skoðanakannanir undanfarið sýna eftirfarandi veruleika: Tökum Blaðið. Af þeim sem hringt er í, 750 einstaklinga, svöruðu 88,8% spurningunni. Þar af tóku 53% afstöðu.  Óákveðnir voru 39% og 8% sögðust ekki ætla að kjósa.

Semsagt: 666 manns (athyglisverð tala í trúarlegu samhengi. Number of the Beast.) svöruðu spurningunni. Þar af reiknast mér til að 259 séu óákveðnir (39%), 160 kjósa Sjálfstæðisflokkinn (24%) , 81 Vinstri græna (12%) , 67 Samfylkinguna (10%), 53 ætla ekki að kjósa (8%), 11 kjósa Frjálslynda (1,6%) og 33 Framsóknarmenn (4,9%).

Þegar maður horfir á þetta svona, sést það auðvitað svart á hvítu að listi Óákveðinna er á blússandi siglingu... Hlutlausir líka.

Stóra spurningin er auðvitað: Hvert fer allt þetta fólk á endanum? Getur það ákveðið sig?

Það er auðvitað engin ástæða til að fagna því gengi Samfylkingarinnar sem þarna birtist. En það er hins vegar langt í frá að hægt að segja eins og Steingrímur J segir í Blaðinu af þessu tilefni, að línur séu að skýrast. 

Þær eru hreint ekki að skýrast. Sjaldan hef ég séð jafn galopið landslag í pólitík. Það stefnir í að kosningabaráttan muni skipta gríðarlegu miklu máli, því úrslitin geta farið á hvaða veg sem er.  Þá staðreynd verðum við Samfylkingarfólk að hafa fasta í huga. Þeim mun meiri ástæða er  til að bretta upp ermarnar. Spýta í lófana. 

Ég held að Samfylkingin eigi mikið inni hjá óákveðnum. Þeir sem ætla sér að kjósa VG eða Sjálfstæðisflokkinn á annað borð eru þegar búnir að gefa sig upp. Það er mín tilfinning. Ef það er rétt er staða þeirra alls ekki beysin í raun.

Munum eftir Hafnarfirði 2002. Í janúar mældumst við með 25%. Í kosningunum í maí fengum við yfir 50%.

Koma svo. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband