Leita í fréttum mbl.is

Sögustund: Ókeypis togarar og kvóti

Á áttunda áratugnum fengu menn 95% lán frá ríkinu, óverðtryggt, til þess að kaupa skuttogara. Svo kom 100% verðbólga. Lánin hurfu. Menn áttu skyndilega skutttogara, nánast ókeypis. Svo kom 1983 og útgerðarmennirnir – sem rétt þá nýverið voru búnir að fá skuttogara gefins – fengu kvótann gefins líka.

Þessi sögustund í grófum dráttum er í boði frænda míns, vel lesnum stjórnmálahugsuði á besta aldri. Sögð yfir kaffi latte í dag, ég segi það satt. Hvorki meira né minna en á kaffihúsi í 101, þá sjaldan það gerist.

Óréttlætið í hina víða sögulega samhengi sem hér er lýst er nánast yfirþyrmandi, burtséð frá þeim ástæðum sem gefnar hafa verið fyrir þessum ákvörðunum.

Hið sorglega er, að þetta óréttlæti er mikið til orðinn hlutur. Við snúum ekki við klukkunni. Hópi manna voru færðar eignir Íslendinga á silfurfati. Þeir eru flestir búnir að selja þær og kaupa Stoke og fleira fyrir andvirðið.

Allt svona eigum við að láta okkur að kenningu verða. Stjórnmál, og þær ákvarðanir sem þar eru teknar, skipta máli.

Það er holt að rifja upp endrum og eins. Það heldur manni við efnið. Núna sé ég til dæmis ekki betur en að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ætli sér að gera svipaða hluti við þjóðlendur Íslands: Leysa þær til sín með harkalegum málaferlum, til þess að færa þær Landsvirkjun. Svo einkavæða. Bingó.

Sagan endurtekur sig.

Nema við grípum í taumana. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Gummi.

Jeremías minn einasti ....

Það atriði að óréttlæti sé fyrir hendi gerir það ekki að verkum að við eigum bara að gefast upp á að breyta því.

 Mestu stjórnmálalegu mistök allrar síðustu aldar eru framsalsheimildir í kvótakerfi sjávarútvegs.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 7.2.2007 kl. 02:39

2 identicon

Ég vil benda á að það högnuðust ekki allir sem fengu þennan kvóta í upphafi.  Heilu útgerðirnar urðu að engu þegar úthlutað var kvóta eftir léleg fiskveiðiár (já, ríkið úthlutaði kvótanum árlega fyrst í stað og byggði á veiði síðasta árs) og leifarnar voru síðan gleyptar af stórum útgerðum að norðan.  En þetta breytir engu núna, það verður ekki aftur snúið.  Má ég leggja til við frjálsynda að þeir snúi sér að verndun geirfuglastofnsins?

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 08:21

3 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég er ekki bjartsýnn á að ég muni á mínum fyrstu metrum í pólitík koma með svar við því hvernig hægt sé að leiðrétta það óréttlæti sem framseljanlegur kvóti hafði í för með sér, sérstaklega svo löngu eftir að sú aðgerð var framkvæmd. 

En einn tilgangurinn með svona bloggsíðu er að heyra hugmyndir annarra. Það er ómetanlegt fyrir ungan frambjóðanda.

Færslan hér að ofan er hugleiðing, ekki síður um atburði sem eru að eiga sér stað þessa stundina.  Færsla almannaeigna, þjóðlenda, er mögulega að eiga sér stað yfir til einkaaðila. Nokkuð svipað og átti sér stað í sjávarútvegi, sýnist mér. 

Ég vil ekki að ungir frambjóðendur klóri sér í höfðinu yfir því gígantíska verkefni eftir 20 ár, hvernig færa megi verðmæt landsvæði sem þá verða komin í einkaeign og ganga þar kaupum og sölum, aftur til þjóðarinnar.

En um sjávarútvegsmál vil ég þó segja þetta, þótt ekki sé um mitt sérsvið beinlínis að ræða: Ég tel að markmiðið eigi að vera, eins og Helga Vala bendir á, að nýtt fólk geti haslað sér völl í greininni án þess að steypa sér í milljónaskuldir. Þetta er spurning um atvinnufrelsi og nýliðun. Brýnt hagsmunamál fyrir ungt fólk og byggðir.

Svo held ég að við getum nýtt auðlindir hafsins mun betur. Hálf Evrópa er til dæmis að háma í sig kræklinga, eins og Karl Matthíasson, séra og samflokksmaður minn, benti mér á um daginn. Hvers vegna ættum við ekki að græða á tá og fingri á því? 

Svo held ég að sterk króna og gengissveiflur hafi farið illa með mörg útflutningsfyrirtæki í sjávarútvegi.

Varpa þessu fram. Viðbrögð vel þegin... 

Guðmundur Steingrímsson, 7.2.2007 kl. 14:55

4 identicon

Eina ástæðan fyrir því að sjávarútvegur á Íslandi heldur velli er sú að menn hafa getað hagrætt í greininni, fækkað og stækkað.  Það eiga sömu lögmál við hér og annarsstaðar.  

Það að segja að menn geti ekki farið út í greinina án þess að steypa sér í skuldir er mikil einföldun.  Ef þú ætlar að gerast bóndi þarftu að kaupa land, hús, vélar og kvóta.  Ef þú ætlar að stofna verslun þarftu að kaupa/leigja húsnæði, lager ofl. ásamt því að fara í samkeppni við Baug, Kaupás og álíka félög.  Það sama gildir í útgerð.  Bátur kostar frá tugum uppí hundruði miljóna, veiðarfæri eru dýr, ásamt nauðsynlegu viðhaldi ár hvert. 

Það má ekki gleymast að í dag er auðlindagjald lagt á sjávarútveg sem er ekkert annað en landsbyggðarskattur.  Gjaldið skilar í ríkissjóð um 800 - 1100 miljónum á ári.  Ólíkt íslenskum landbúnaði eða sjávarútvegi annarsstaðar í Evrópu er íslensk útgerð ekki á ríkisspenanum heldur skilar gríðarlegum verðmætum inní þjóðarbúið. 

Ungir frambjóðendur mega ekki fara í þann farveg að taka grein eins og sjávarútveg og leggja hann út eins og þú gerðir í grein þinni hér að ofan.  Hvet ég þig til að fara og kynna þér málin betur og sjá hvernig hlutirnir virkilega ganga fyrir sig.  Nærtækast fyrir borgarbúa eins og þig er að fara niður í HB Granda og ræða þar við menn um þessi mál og fá þeirra sýn sem virkilega eru að starfa í greininni en ekki á kaffihúsaspjalli útí bæ.  Annars ertu alltaf velkominn í vísindaferð á Eskifjörð og get ég lofað þér því að eftir að hafa kynnt þér þetta betur þá breytast viðhorf þín til þessa málaflokks.

Með tali eins og þessu eru menn að gera lítið úr dugnaði og þreki þeirra útgerðarmanna sem í blíðu og stríðu hafa barist við að halda úti útgerð og vinnslu í áratugi.  Það er hvorki einfalt, ódýrt eða létt að gera út og menn eiga að bera virðingu fyrir störfum þess fólks sem í þessu stendur.

Jens (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 11:19

5 identicon

Steingrímur Jónsson.  "Í beinni þjónustu við íslenska útgerð"....í beinni þjónustu við íslenska þjóð og hagsmuni okkar allra frekar.  Útgjöld til Hafró 2007 samkvæmt fjárlögum eru 1.213 mkr. sem má segja að jafnist út með auðlindagjaldinu sem útgerðir út á landi borga í stofnun sem veitir Reykvíkingum vinnu ef út í það er farið.   Ég hef aldrei skilið þennan neikvæða málflutning sem rekinn er út í útgerð og útgerðarmenn.  Sú verðmætaaukning og hagræðing sem þessir aðilar hafa staðið fyrir er góðra gjalda verð og hefur skilað mér, þér og öðrum landsmönnum betri lífskjörum undanfarin ár.  Hvað hafa þessir aðilar gert rangt?  EKKI NEITT !  Er það glæpur að reka fyrirtæki sín með hagnað og arð að markmiði ?  Það er óþolandi þegar þessum fyrirtækjum er stillt upp sem einhverjum illum glæpabatteríum sem eru allt að drepa. 

Ég get alveg sagt þér það að ástæðan fyrir fólksflótta utan af landi hefur EKKERT með kvótakerfið að gera.  Farðu inní frystihús útá landi.....allt útlendingar nema kannski verkstjórinn.  Heldur þú virkilega þó það væri útgerð á kópaskeri eða Raufarhöfn með 10.000 tn þorskkvóta að það væru eitthvað fleiri Íslendingar sem byggju þar. Nei, Verbúðin væri bara stærri.....Sá staður sem hafði einna mestu fólksfækkunina á Austurlandi í mörg ár var Neskaupstaður eitt sterkasta sjávarplássið á Austurlandi.  Þar er líka Framhaldsskóli og Fjórungssjúkrahús en samt fækkaði fólki.  Allt þetta neikvæða kvótatal fer í taugarnar á mér og lýsir einhverskonar bland af öfund og vanþekkingu.......

 Hvað varðar sjómannaafsláttinn þá er ég fylgjandi honum. Punktur..!

Jens (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 09:25

6 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég held að það sé ekki rétt, Jens, að menn vilji gera glæpamenn úr útgerðarmönnum. Og það er rétt að það varð hagræðing út úr kvótakerfinu. En það má ekki horfa fram hjá hinu: Einungis útgerðarmenn fengu kvótann. Hinir -- fólk í vinnslu, sjómenn, byggðirnar -- fengu ekki neitt. Það er óréttlætið. Sjávarútvegsmálin hafa um tuttugu ára skeið eða svo einkennst af þessari mótsögn, sem er sár og sorgleg: hagræðingu (plús) og óréttlæti (mínus). 

Guðmundur Steingrímsson, 9.2.2007 kl. 23:23

7 identicon

Strákar mínir.  Þið eruð á algjörum villigötum með þessa nýliðunarumræðu ykkar. 

1.  Við höfum takmarkaða auðlind.  Það er í okkar verkahring að sú auðlind sé nýtt á sem hagkvæmastann hátt.  Þar kemur kvótakerfið inní.  Þið verðið að athuga það að í sjávarútvegi er svokallað kvótaþak sem miðast við að engin útgerð má eiga meira en 12% heildarþorskígildistonna.  Hvað myndu Jón Ásgeir eða Dominos (fyrst þeir voru nefndir) segja ef þeir mættu aðeins vera með 12% markaðshlutdeild í sínum geira en ekki 60 - 70%...!!!  Þætti bisnessmönnum í Reykjavík það eðlilegt viðskiptaumhverfi.  Ég held ekki en þetta býr sjávarútvegurinn við. 

2. Hvernig hefur útgerð þróast undanfarin ár?  Í dag veiðum við nánast alla uppsjávarfiska (loðnu,síld og kolmunna) í troll á stórum öflugum skipum, ca. 1,5 - 2,.5 miljarður stykkið.  Eitt troll kostar 15 - 20 miljónir og það koma ár þar sem ein útgerð getur misst 1 - 3 troll sem sagt ca. 35 - 55 miljónir á ári í veiðarfærakostnað.  Sama á við um skip sem veiða bolfisk þó þau séu eitthvað ódýrari.  Þróunin hefur verið sú að veiðar hafa alltaf verið að færast lengra út.  Fyrst menn voru að tala um Landhelgisgæsluna (með mjög hæpnum rökum um að hún sé meira og minna fyrir útgerðina) hvernig væri þá staðan ef ungir menn eins og við keyptum okkur tryllur og færum að skaka hér meðfram allri strandlengjunni.  

3.  Eitt mega menn ekki gleyma að útgerðin er undir fulltrúa þjóðarinnar komin með veiðar.  Ef ég myndi kaupa mér á morgun 1.000 tn af þorski, ca 2,3 ma.kr. og ætlaði að fara að gera út gæti ég átt von á því að fulltrúi fólksins í landinu, sjávarútvegsráðherra, skerti kvótann um svo og svo mikið þannig að þessi 1.000 tn mín væru kannski bara 700....

4.  í allri þessarri umræðu um sjávarútvegsmál gleymast alltaf þeir sem hafa farið á hausinn og ekki getað rekið sín fyrirtæki þrátt fyrir kvóta eða annað.  Einnig skulu menn athuga það að í því umhverfi sem við lifum í í dag, þ.e. flökt á krónu, hækkandi launakostnaður, hátt olíuverð ofl. þá þurfum við stórar og sterkar útgerðir til að standast slíkar sveiflur til styttri og lengri tíma.  Við verðum að bera gæfu til þess að setja málin í samhengi og gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að ná þessum fáu fiskum úr sjó á sem hagkvæmastan og bestan hátt - fyrir okkur öll.....

Jens (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband