Leita í fréttum mbl.is

Til hamingju Röskva

GS og DBE, 230294 DVÉg óska Röskvu hjartanlega til hamingju með sigurinn í Háskólanum. Alltaf sætt að leggja Vöku... Ég datt í smá nostalgíu-kast af þessu tilefni og gróf upp gamalt DV, frá 23.febrúar 1994. Þar erum við á forsíðunni, ég og Dagur B. Eggertsson, en þá um nóttina höfðum við í Röskvu einmitt unnið Vöku í kosningum til stúdenta- og háskólaráðs með sex atkvæðum, ef ég man rétt.  Það varð allt brjálað þegar úrslitin voru tilkynnt, eins og sést á myndinni. Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega þessa gleraugnatísku sem þarna var í gangi. Við Dagur vorum greinilega ekki einir um hana, því Finnur, sem er þarna í bakgrunni (framsóknarmaður) er líka með svona þykkspangagleraugu. Við erum dálítið eins og Harold Lloyd. Brynhildur Þórarinsdóttir fyrrum ritstjóri TMM og barnabókahöfundur er þarna lengst til vinstri.. Á bak við höndina á Degi er Pétur Þ. Óskarsson, núna starfsmaður Íslandsbanka,...afsakið Glitnis.. bróðir Steinunnar Valdísar og... tja framsóknarmaður... held ég. 

Ég leiddi lista Röskvu til Háskólaráðs og Dagur listann til Stúdentaráðs. Hann tók skömmu síðar við sem formaður Stúdentaráðs og ég ári síðar. Gísli Marteinn Baldursson, nokkur, var okkar erkifjandi. Blessaður drengurinn. Við erum líklega dæmdir til að etja kappi fyrir lífsstíð og ég held að við höfum áttað okkur á því snemma að það yrði okkar hlutskipti og því ekkert annað að gera en að hafa gaman af því... 

Þetta var og er Röskvukynslóðin svokallaða. Sameinað félagshyggufólk í Háskólanum. Ragnar Helgi, Pétur Þ., Dagur, Einar Skúla, Kristrún Heimis, Skúli Helga, Maggi Orri, Herdís, Steinunn Valdís, Óli Haralds, Halli, Dalla, Kjartan Örn, Þóra Arnórs, Villi Vill, Kata Júl, Einar Gunnar, Palli Magg, Brynhildur, Kamilla Rún, Sunna, Syngvi.... Svo aðeins örfáir séu nefndir. 

Margt af þessu fólki fór síðan á fullt í það að sameina vinstri menn í Samfylkingunni með stofnun Grósku. Sjálfur fór ég út í nám og hvarf ofan í heimspekiskruddur um nokkurra ára skeið.

Eitt er kristaltært: Þessir sigrar sem Röskvukynslóðin vann í Háskólanum gerðu ekkert annað en að efla okkur öll af sjálfstrausti, skerpa okkar pólitísku hugsjónir og hvetja okkur til dáða. Mörg okkar erum núna mætt til leiks fyrir Alþingiskosningarnar. Minnimáttarkennd gagnvart Sjöllunum er ekki til í okkar orðaforða. Við tókum hægri mennina í nefið ár eftir ár. Þeir sögðu aldrei neitt af viti...  

DV230294bAnnars er nokkuð gaman að skoða þetta blað, DV frá 23.febrúar 1994. Á forsíðunni er greint frá ástandinu á Vestfjörðum.  Kvótinn að fara og byggðirnar að fjara út. Vitnað er í þá kumpána Einar Odd Kristjánsson og Reyni nokkurn Traustason, þá skipstjóra, þessu til vitnis. Reynir átti síðar eftir að flytja suður og hasla sér völl í blaðamennsku. Er núna ritstjóri og búinn að skrifa ævisögur alls konar fallegs kvenfólks eins og Lindu Pé... Með tönn um hálsinn.

Hægt var að kaupa íbuð við Hlemm, með bílskúr, á 3.9 milljónir.  Myndir í bíó voru m.a. Coneheads, Kryddlegin hjörtu, Free Willy og Carlitos Way.

Kalli Th. stóð í erjum við Guðrúnu Guðlaugs blaðamann út af nektarmyndum sem Kalli, þáverandi ritstjóri Pressunnar, hafði birt af áðurnefndri Lindu Pé. Kalli bauðst til þess að koma fram nakinn í sínu blaði með rauða slaufu (athyglisvert) gegn því að Guðrún myndi láta birta ekta mynd af sér með pistlum sínum í Mogganum, en ekki skuggamynd eins og hún gerði alltaf.  

Áhugavert debatt. Guðrún birtir enn skuggamynd. Kalli hefur ekki enn komið nakinn fram.  

16 síðna aukablað um hljómtæki fylgdi blaðinu. Svokallaðir "umhverfishátalarar" voru að koma fram á sjónarsviðið, þýðing á "surround". Núna köllum við það bara heimabíó.

Halldór Blöndal sprengdi síðasta haftið í Vestfjarðargöngunum.  Haukur Hjaltason nokkur stóð í vonlausum deilum við tollstjóraembættið vegna innflutnings á kjúklingabringum.

Er ekki kominn tími til að breyta?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

alla vega hætt að nota orðið umhverfishátalarar .... það er þó ein jákvæð breyting

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 23:29

2 Smámynd: Dagbjört Hákonardóttir

Verst er að koma ekki þessum tímamótasigri okkar inn á forsíður dagblaðanna í dag. 

Ég held að ef við höldum rétt á spöðunum sé okkur allt fært í vor. Ég var búin að missa trúna, en bjartsýnin hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.  

En já, Röskva er sannarlega eina hreinræktaða breiðfylking félagshyggjufólks í dag, og skerpir verulega á samkennd okkar á milli. Og ég hef aldrei verið jafn óhrædd við hægrigrýluna. 

Dagbjört Hákonardóttir, 10.2.2007 kl. 03:08

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Breiðfylking Röskvu náði þessu.Gleðifréttir fyrir lýðræðið í landinu.Vonandi vísir að meiri "niðurgangi" íhaldsins.

Kristján Pétursson, 10.2.2007 kl. 13:45

4 Smámynd: Svansson

Sex atkvæði segirðu. Það er ekki alveg hárnákvæmlega rétt hjá þér.

Kosningarnar árið 1994 fóru á þá leið að Vaka, fls., fékk 1008 atkvæði, Röskva fékk 1398 atkvæði, og 3. framboðið (hvað það heitir kemur ekki fram í þeim gögnum sem ég hef við höndina) fékk 395 atkvæði. Það gerir 390 atkvæða mun á Vöku og Röskvu.

Þetta er því misminni upp á 6400%, sem er nokkuð góður árangur í þeirri íþrótt hjá ekki eldri manni. ;) 

Svansson, 10.2.2007 kl. 14:44

5 Smámynd: Gamall nöldurseggur

Valminni er gott fyrir stjórnmálamenn.    Og Guðmundur á arfbera, sterka til margra hæfileika sem prýtt geta afburða stjórnmálamann og framsækinn þingfara. 

Ég vil biðjast afsökunar á nöldrinu í mér í gær um leið og ég fagna grein þinni í dag.   

Það sem ég vil meina er að þið, Dagur séu með frambærilegustu félagsmálaforkólfum þessa lands.    Gísli Marteinn var það raunar líka.        Ég vil gjarnan sjá ykkar veg sem mestan við stjórnartauma.   En ég vil líka sjá fyrir endann á flokkafyrirkomulaginu.     Þú ert ekki samfylkingarmaður, frekar en Dagur.     Þið eruð efnilegir og ákafir ungir frambjóðendur sem eigið hvergi almennilega heima í flokkakerfinu og þess vegna hafnið þið í samfylkingu allra hinna óvissu.   Sem vita það eitt að þeir eru ekki sjálfstæðismenn og þola ekki gamla uppfyllingarflokkinn úr sveitinni.

Það oflof sem ég hafði um BInga stendur en hann stendur fyrir allt það sem mér finnst vera að í íslenskum stjórnmálum í dag.

Það er alveg kominn tími á breytingar.

Inni í okkur öllum býr lítill Frank Zappa sem vill komast út til að tjútta af sér rassinn.

Gangið þér allt hið besta.

Blogg er tímasóun

Gamall nöldurseggur, 10.2.2007 kl. 17:23

6 identicon

Þú getur glaður mætt með blaðið á sigur- og 19 ára afmælishátið Röskvu á morgun (mánudag) á Deco klukkan 20. Ætlunin er að smala saman gömlum og nýjum Röskvuliðum að þessu tilefni.

Vala B (IP-tala skráð) 11.2.2007 kl. 14:49

7 identicon

Ekki myndi ég sjálfur treysta íslenskum blaðamönnum til að segja mér frá tækninýjungum. Hvorki árið 1994 né í dag. 'Umhverfishátalarar' voru hreint ekkert að koma á sjónarsviðið þegar þarna kom við sögu, voru löngu komnir og má deila um hvenær. Snemma á áttunda áratugnum var nú líklega hægt að kaupa svona búnað út í búð á Íslandi. Á mitt heimili var heimabíó komið 2-3 árum fyrir 1994, umhverfishljóð og heimabíó var ekki og er ekki sami hluturinn nota bene heimabíó felur í sér fyrrahugtakið en umhverfishljóð felur ekki í sér hugtakið heimabíó... a.m.k. strangt til tekið.

Sömu sögu má segja í dag að það sem almenningur kallar heimabíókerfi á lítið skylt við bíó... eða kerfi.

Til að trompa neikvæðnina ætla ég líka að lýsa furðu minni á pólitískum framboðum í hin ýmsu hagsmunasamtök, ráð og stjórnir stúdenta. Uppeldiskvíar eru þetta vissulega; en maður óttast að það sé á kostnað hagsmunanna.

En gaman að þessu. 

- Höfundur rekur hljómtækjaverslun og er kverúlant.

Drengur (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 16:43

8 identicon

Hagsmunasamtök tíuþúsund stúdenta við háskóla sem reiðir sig að nær öllu leyti á fjármagn frá ríkinu og lagasetningar Alþingis geta aldrei verið neitt annað en pólitísk. Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli, og það hljóta allir að sjá sem taka sér örfá augnablik í að hugsa málið til enda. Það hvort samtökin eru tengd einhverjum sérstökum þingflokkum er svo allt önnur ella, og líklega er önnur fylking en sú sem ég tilheyri betur til þess fallin að ræða þesslags vensl.

Stígur Helgason (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband