Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Breiðavík, Byrgið og heyrnarlausir

Uppljóstranir undanfarinna vikna um misnotkun á börnum og fullorðnum á ýmsum stofnunum á Íslandi í gegnum tíðina eru sláandi. Nú síðast gaf að líta átakanleg viðtöl í Kastljósi í kvöld við fólk sem dvaldist í Breiðuvík á árum áður og var misnotað þar. Þetta fólk var að lýsa helvíti á jörð. 

Breiðavík bætist ofan á aðra vitnisburði um misnotkun. Það er engu líkara en einhvers konar sálfræðilegur leyndarhjúpur, ofinn af kerfisbundinni stofnanaþögn, hafi legið yfir þessum hörmungum um langt árabil. 

Fyrir ári opnaði Thelma Ásdísardóttir augu okkar með átakanlegri bók um kynferðislega misnotkun sem gekk lengi án þess að nokkur fengi það stöðvað. Núna ári síðar höfum við heyrt um misnotkun á heyrnarlausum börnum sem viðhöfðust á skólastofnunum þeirra um árabil. Því næst heyrðum við um Byrgið og núna Breiðuvík.

Hvað skal segja? Hvað er hér á ferðinni? Írar hafa til dæmis þurft að gera upp hryllilega sögu ýmissra stofnanna og skóla fyrir börn, þar sem misnotkun átti sér stað lengi. Þetta má sjá í mynd eins og Magdalene systurnar. 

Mér sýnist að við Íslendingar eigum okkur svona myrka sögu líka, um hryllilegar og stofnanabundnar hörmungar og níðingsverk á saklausi fólki sem mátti sín lítils og hefur borið ör þess ætíð síðan. Eins og við sáum í Kastljósi kvöldsins.

Verkefni okkar er að horfast í augu við þessa sorgarsögu, og draga ekkert undan.  


Heimildaþáttagerð með Hannesi. 10 grunnreglur.

Rakst á tilkynningu í Mogga í dag um að Hannes Hólmsteinn ætli að flytja fyrirlestur um heimildaþáttagerð á morgun. Ofsa spennandi. Ég geri ráð fyrir að mikið fjölmenni mæti í Þjóðminjasafnið í hádeginu, enda er maðurinn vel sjóaður í bransanum, með meistarastykki á CV-inu eins og Maður er nefndur.

Ég þarf hins vegar ekki að mæta. Ég þykist nefnilega þegar vita hverjar eru 10 grunnreglur Hannesar við gerð heimildarmynda. Þær eru þessar:

1. Davíð Oddsson var mesti stjórnmálamaður 20.aldarinnar.
2. Hannes Hafstein var næstbestur og var líka skáld eins og Davíð.
3. Kalda stríðið er búið og Bandaríkjamenn og Davíð Oddsson unnu.
3. Ólafur Ragnar er kommúnisti sem hefðu betur átt að sleppa því að segja að Davíð hefði skítlegt eðli.
4. Jón Ólafsson og Baugur eru glæpamenn. Davíð er góður og reyndi að stöðva þá. Við tónlistarval skal gæta þess að spila alltaf mafíutónlist (Godfather etc) þegar myndir af Jóni og Baugi birtast, en hetjulega eða fagra tónlist (Chariots of Fire) þegar Davíð birtist.
5. Davíð lækkaði verðbólguna þegar hann tók við, með Þjóðarsáttinni, þótt hann tæki reyndar ekki við fyrr en ári eftir að henni var komið á. (Afturvirk stjórnmál).
6. Davíð er hægri maður og góður. Vinstri menn eru vondir, trúlausir, hækka alltaf skatta, afnema eignarétt og borða börn.
7. Stefán Ólafsson og Svanur Kristjánsson hafa alltaf rangt fyrir sér. Davíð hefur alltaf rétt fyrir sér.  (Spila skal viðeigandi tónlist samkvæmt þessu, sbr. lið 4. Til dæmis tékkneska leirkallalagið undir Stefáni og Svani, en Óð til gleðinnar undir Davíð).
8. Davíð kom á viðskiptafrelsi. Innganga í EES kom því máli ekki við. Að hún skuli hafa borið upp á sama tíma er óheppileg tilviljun, sem hefur villandi áhrif á umræðuna (leggja ber á þetta sérstaka áherslu).
9. Tilraunir vinstri manna í gegnum tíðina, til þess að fella ríkisstjórnir Davíðs og Sjálfstæðisflokksins ber að kalla valdarán (Þetta kallar einnig á viðeigandi tónlist, t.d. lag Svarthöfða úr Star Wars).
10. Ingibjörg Sólrún er bæði kona og frekja. Líklega mannæta líka. Slátrar hönum heima hjá sér og drekkur úr þeim blóðið.  (Tónlist: The Exorcist).

Farið verður sérstaklega í svokallaða smjörklípuaðferð við gerð heimildarmynda og uppruni hennar rakinn.

Þátttakendur skulu vera hægri menn, helst með góðan aðgang að Ríkissjónvarpinu.

Samfylkingin í þremur efstu sætunum

Tillögur Samfylkingarinnar um það hvernig best er að efla nýsköpun, frumkvöðla- og þróunarstarfsemi á Íslandi röðuðu sér í þrjú efstu sætin á Sprotaþingi í Laugardalshöll á föstudaginn. Það má vera stoltur af því.  Samfylkingin er nýsköpunarflokkur og hefur alltaf verið.

Hér var flokkurinn að uppskera eftir gríðarlega vinnu í þessum málaflokki. Um 200 fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, samtökum sprotafyrirtækja, fólk í frumkvöðlastarfi og fólk í stjórnmálaflokkum sátu þingið. Allir stjórnarmálaflokkar lögðu fram tillögur, en engar þeirra komust með tærnar þar sem tillögur Samfylkingarinnar höfðu hælana, eftir að fundargestir höfðu greitt atkvæði um það hverjar þeirra væru bestar og líklegastar til árangurs. 

Þau Ágúst Ólafur Ágústsson, Katrín Júlíusdóttir og Dofri Hermannsson lögðu til stóreflingu rannsókna- og tækniþróunarsjóðs, hugmynd um endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði sprotafyrirtækja og að næsti áratugur yrði hátækniáratugur, tileinkaður nýsköpun og þróun. Þessar tillögur með nánari útfærslum, röðuðu sér í þrjú efstu sætin. 

Og hverju stungu hinir upp á? Jú, Jón Bjarnason, til dæmis, úr VG lagði þónokkuð uppúr eflingu strandsiglinga, sem þótti koma spánskt fyrir sjónir í þessu samhengi. Kannski er þetta munurinn á Samfylkingu og öðrum flokkum þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlastarfi?

Við tölum um háhraðatengingar. Hinir tala um strandsiglingar. 

 


VG lét náttúruna ekki njóta vafans

Nú hefur því verið lýst yfir í hádegisfréttum RÚV, af sjálfum lögmanni Umhverfisstofnunar, að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi ekki sett byggingu tengibrautar í gegnum Álafosskvos í umhverfismat, þótt henni hafi verið það skylt.

Bærinn hafi þar með brotið lög. 

Hér fellur gamli skólastjórinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, á bæjarstjóraprófinu. Og það sem verra er: Hér falla Vinstri grænir á umhverfisverndarprófinu. Er það ekki lykilatriði í stefnu umhverfisverndarsinna að náttúran eigi alltaf að njóta vafans? 

Lítum á: Í ágúst lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn fram tillögu um það að tengibrautin yrði lögð í umhverfismat. Sú tillaga var felld af meirihlutanum, bæði fulltrúum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. 

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar sagði af þessu tilefni: “Það er áfellisdómur yfir núverandi meirihluta sjálfstæðismanna og Vinstri- grænna í umhverfismálum að hafa ekki vilja til að rannsaka til hlítar þau umhverfisáhrif sem umrædd framkvæmd hefur.”

Í október gerðu fulltrúar Samfylkingarinnar aðra tilraun til þess að fá upp á borðið öll þau víðtæku áhrif sem þessi braut hefur á náttúru, ferðamannaiðnað og söguminjar í Mosfellsbæ. Þá var lagt til í atvinnu- og ferðamálanefnd bæjarins að óháðum aðilum yrði falið að gera mat á þessum áhrifum, einkum og sér í lagi hvað varðar Álafosskvos. 

Þetta náði ekki í gegn, frekar en hitt.

Ég ítreka: Sjöllunum er trúandi til alls. Ummæli Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á forsíðu Blaðsins í gær og annars staðar sýna svart og hvítu hversu forhert hún er í málinu. En Vinstri grænir eru annar kapituli.  Ég sé einfaldlega ekki betur en að umhverfisverndarstefna þeirra hafi fokið út í buskann í þessu máli.   Hvers vegna samþykktu þeir ekki að brautin færi í umhverfismat? Þeir greiddu beinlínis atkvæði gegn því.  Ætla þeir núna að rökræða við lögmann Umhverfisstofnunar?

Ætla þeir að taka undir með verktakanum, þegar hann segir að brautin liggi ekki í gegnum Álafosskvos, heldur framhjá henni? 

Hún er 14 metra frá.  

VG hefur ekki látið náttúruna njóta vafans. Þá afstöðu sína hafa þeir undirstrikað með skurðgröfum. Í trjálundinum við Álafosskvos er nú hola því til áherslu.


« Fyrri síða

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband