Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Samráð um brú

Ég hef fylgst undanfarið með æsispennandi fréttaflutningi Moggans af væntanlegri nýrri brú yfir Öxará. Sú gamla er að gefa sig og það þarf að gera nýja. Þingvallanefnd vill vanda vel til verksins og nokkrar vikur eru síðan greint var frá því í Mogga að nefndin vildi hafa opið og lýðræðislegt samráð við þjóðina um það hvernig brúin ætti að vera. Kynnt var tillaga. Mér sýndist persónulega vera um ágætis brú að ræða. Hægt er að ganga yfir hana. Hún fellur ágætlega inn í umhverfið. Í viðtölum við nefndarmenn kom fram hvað þeir teldu mikilvægt að það myndaðist víðtæk sátt um þessa brú. Í dag er svo greint frá því í Mogga að þau mistök hafi verið gerð við upphaflega kynningu á hinni nýju brú að rangur litur var hafður á henni. Hjálpi okkur Guð! Hún á að vera ryðlituð, en ekki rauðbrún. Þetta er leiðrétt í dag með nýrri mynd. Ég held ég hafi sjaldan fylgst jafn spenntur með nokkrum fréttaflutningi í seinni tíð heldur en af þessu víðtæka samráði um brú. Ástæðan fyrir forvitni minni er ekki síst sú að mér þykir það ákaflega merkilegt að stjórnvald á Íslandi, í þessu tilviki Þingvallanefnd, skuli allt í einu hafa ákveðið að hafa samráð. Gott hefði verið ef sömu viðhorfin til opinnar stjórnsýslu hefðu verið höfð að leiðarljósi þegar t.d. Ísland ákvað að gerast aðili að innrásinni í Írak. A.m.k. hefði mátt leyfa fólkinu í landinu að velja litinn á búninga íslensku hermannanna þar, þó ekki væri meira. Samráð hefði einnig mátt hafa við þjóðina um stórvirkjanir á hálendinu, hvalveiðar og stofnun leyniþjónustu, svo nokkur nærtæk dæmi séu tekin af handahófi. Eitthvað segir mér að samráð íslenskra stjórnvalda við kjósendur takmarkist við valið á brú yfir Öxará.

Sigmund

Sigmund
Í dag náði ég þeim merka áfanga í lífinu að vera teiknaður af Sigmund. Mér sýnist hann ná mér nokkuð vel. Dálítil undirhaka kannski, en að öðru leyti er ég bara sáttur.

Hlerunarmálið

Nú stefnir í það eina ferðina enn að mikilvægt úrlausnarefni fyrir íslenskt þjóðfélag, réttarfar, menningu, sögu og stjórnmál -- í þessu tilviki hlerunarmálið svokallaða -- fjúki út í veður og vind, óleyst og óuppgert. Nýjasta flækjan í umræðunni, sem er til þess fallin að vera smjörklípan sem beinir athygli kattarins (les. okkar) frá aðalatriðum málsins var grein Þórs Whitehead í Fréttablaðinu í gær. Þar kom fram að fyrrum forsætisráðherra og utanríkisráðherra um og upp úr 1989 létu kanna eftir fall Berlínarmúrsins hvort að einhverjir Íslendingar hefðu verið á mála hjá austurþýsku leyniþjónustunni STASI. Semsagt: Kannað var hvort einhverjir hefðu verið á mála hjá tiltekinni erlendri leyniþjónustu. Niðurstaðan var að svo var ekki. Í dag hefur málið tekið á sig þá mynd að Svavar Gestsson er afar undrandi á því að hugsanlega hafi einhver verið að fylgjast með honum með þessum hætti. Nú er semsagt þessi könnun sem slík orðin einhvers konar vitnisburður um leyniþjónustu. Þetta er óttaleg flækja: Það að kanna hvort Íslendingar hafi verið á mála hjá leyniþjónustu er orðið vitnisburður um að menn hafi verið að fylgjast með fólki og þarmeð starfrækt leyniþjónustu. Þetta er guðdómleg hringavitleysa. Það sem þarf einmitt að gera á Íslandi núna er að kanna í alsherjar rannsókn umfang erlendra leyniþjónusta á Íslandi fyrr og síðar. Könnunin á starfsemi STASI hér á landi, ef ég skil það rétt, þjónaði þeim tilgangi. Hún á því í raun að vera okkur til eftirbreytni. Nú ríður á að kanna starfsemi CIA hér á landi. Ég er ekki viss um að sú rannsókn muni leiða til jafn ómerkilegrar niðurstöðu og rannsóknin á umfangi STASI. Í öllu falli: Svona flækja í umræðunni þar sem réttileg og skiljanleg könnun á starfsemi erlendrar leyniþjónustu er gerð tortryggileg, er til þess fallin að a) koma í veg fyrir að svipuð könnun verði gerð á umfangi annarra leyniþjónusta (einkum CIA) hér á landi og b) hleypa umræðunni um raunverulegar hleranir, sem talið er að farið hafi fram á Íslandi um áratugaskeið -- og þar með umræðunni um raunverulega, alvarlega og ólöglega leyniþjónustustarfsemi -- út í móa.

Hvalveiðar

Þegar ég horfði á eftir Hval 9 sigla úr höfn í fréttatíma sjónvarpsins í gær leið mér eins og næsta frétt yrði ábyggilega um það að Mjólkursamsalan ætlaði að hefja sölu á Epla Jóga aftur. Bæði fyrirbrigðin, hvalkjöt og Epla Jógi, eiga álíka mikla framtíð fyrir sér út frá markaðslegum sjónarhóli. Hér stigum við stórt skref aftur til baka. En það er svosem í takt við annað í þjóðfélaginu: Hemmi Gunn er kominn aftur í sjónvarpið, Kristján Loftsson farinn að veiða hval. Hvers vegna ekki að fá Epla Jóga aftur í hillurnar, helst með ríkisstyrk. Ég geri líka ráð fyrir að Paul Watson og Sea Shepherd fari að láta sjá sig fljótlega. Ég skil ekki alveg hvers vegna við nennum, út af engum hagsmunum og út af engri nauðsyn, að fara aftur í deilur við vestrænt almenningsálit og fjölmiðla út af hvalveiðum. Ég efast um að Mr. Gudfinnsson sé reiðubúinn í þann slag. Þess vegna er þessi akvörðun vanhugsuð. Ferðamannaiðnaðurinn mun að öllum líkindum -- nema við sleppum með skrekkinn út af heppni -- þurfa að leggja í heilmikinn herkostnað næstu misserin til þess að koma í veg fyrir mikinn skaða af þessari ákvörðun, og það í þeim eina tilgangi að Kristján Loftsson komist aftur í bisness. Kannski við ættum líka að fara að flytja út aftur maðkaða skreið til Nígeríu? Þá kæmist einhver annar karl í gamlan og úrsérgenginn bisness. Stefna ríkisstjórnarinnar skín í gegn: Nýsköpunarfyrirtæki flýja land út af stóriðju og þensluáhrifum hennar, einokun í landbúnaði hindrar framfarir í matvælaiðnaði og nú mun ferðamannaiðnaðurinn hljóta skaða af hvalveiðum. Allt er á eina bókina lært: Gamla Ísland á kostnað þess nýja. Það er mynstrið.

« Fyrri síða

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband