Leita í fréttum mbl.is

Samráð um brú

Ég hef fylgst undanfarið með æsispennandi fréttaflutningi Moggans af væntanlegri nýrri brú yfir Öxará. Sú gamla er að gefa sig og það þarf að gera nýja. Þingvallanefnd vill vanda vel til verksins og nokkrar vikur eru síðan greint var frá því í Mogga að nefndin vildi hafa opið og lýðræðislegt samráð við þjóðina um það hvernig brúin ætti að vera. Kynnt var tillaga. Mér sýndist persónulega vera um ágætis brú að ræða. Hægt er að ganga yfir hana. Hún fellur ágætlega inn í umhverfið. Í viðtölum við nefndarmenn kom fram hvað þeir teldu mikilvægt að það myndaðist víðtæk sátt um þessa brú. Í dag er svo greint frá því í Mogga að þau mistök hafi verið gerð við upphaflega kynningu á hinni nýju brú að rangur litur var hafður á henni. Hjálpi okkur Guð! Hún á að vera ryðlituð, en ekki rauðbrún. Þetta er leiðrétt í dag með nýrri mynd. Ég held ég hafi sjaldan fylgst jafn spenntur með nokkrum fréttaflutningi í seinni tíð heldur en af þessu víðtæka samráði um brú. Ástæðan fyrir forvitni minni er ekki síst sú að mér þykir það ákaflega merkilegt að stjórnvald á Íslandi, í þessu tilviki Þingvallanefnd, skuli allt í einu hafa ákveðið að hafa samráð. Gott hefði verið ef sömu viðhorfin til opinnar stjórnsýslu hefðu verið höfð að leiðarljósi þegar t.d. Ísland ákvað að gerast aðili að innrásinni í Írak. A.m.k. hefði mátt leyfa fólkinu í landinu að velja litinn á búninga íslensku hermannanna þar, þó ekki væri meira. Samráð hefði einnig mátt hafa við þjóðina um stórvirkjanir á hálendinu, hvalveiðar og stofnun leyniþjónustu, svo nokkur nærtæk dæmi séu tekin af handahófi. Eitthvað segir mér að samráð íslenskra stjórnvalda við kjósendur takmarkist við valið á brú yfir Öxará.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: vorboðinn ljúfi

Þarna finnst mér þú hitta naglann á höfuðið og gangi þér vel í atinu.

vorboðinn ljúfi, 20.10.2006 kl. 13:50

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Þakka athugasemdir og baráttukveðjur. Og nei nei, brúin er ekkert æðislega falleg ég er sammála því. En heldur ekkert ljót að mínu mati. Bara fín. Ég held þetta eigi að vera svona tæknibrú sem getur farið sundur og saman eftir því sem Almannagjá hreyfist. Eitthvað rosaflott. Væri gaman að eiga svona uppi í bústað.

Guðmundur Steingrímsson, 20.10.2006 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband