Bloggfærslur mánaðarins, október 2006
30.10.2006 | 22:52
Prófkjörsúrslit sjallanna
Ég er viss um að Björn Bjarnason óskar þess núna að Auðunn Blöndal birtist allt í einu og segi honum að hann hafi verið tekinn. Auðvitað tapaði hann ekkert fyrir Guðlaugi Þór. Kannski rýkur Auðunn inn á skrifstofuna á hverri stundu með myndavélar hrópandi: "Þú varst alveg eins og bjáni á svipinn þegar úrslitin birtust, men!" "Trúðirðu þessu?" Og svo myndi Björn segja í lokin á þættinum: "Ég heiti Björn Bjarnason og ég var eeeehh tekinn." Og allt yrði aftur eins og það á að vera. Auðvitað sigraði hann. Auðvitað væri staða hans ennþá sterk. Auðvitað væri hann ennþá innsti koppur í búri Valhallar. En eftir því sem líður á vikuna mun Björn þurfa að sætta sig við að Auðunn Blöndal kemur ekki. Það eru líklega stærstu tíðindin í prófkjöri Sjálfstæðismanna.
30.10.2006 | 21:21
Athyglisvert
Eftirfarandi fyrirsögn las ég rétt í þessu á visir.is: "Fjórir karlmenn í þremur efstu hjá Samfylkingu í NV." Ég gat nú ekki annað en skellihlegið. Helvíti þröngt á þingi þar.
30.10.2006 | 03:03
Fjölmenni á opnun
Á annað hundruð manns komu á opnun kosningaskrifstofunnar á laugardaginn. Það var rífandi stemming. Myndir hér til hliðar.
27.10.2006 | 01:38
Opna kosningamiðstöð - Allir velkomnir
Í dag laugardaginn 28.október (ég er 34 ára í dag, btw) opna ég kosningamiðstöð -- Gummavinnustofu --að Strandgötu 43 í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vill til að þetta er rauða húsið sem Samfylkingin er líka með skrifstofur í. Ég er á annarri hæð, gengið inn baka til. Um er að ræða íbúð sem er tilbúin undir tréverk. Í henni er rafmagn, en að öðru leyti skulum við segja að hún sé eins og Ísland, full af spennandi möguleikum. Boðið verður upp á ljúfar veitingar milli 16 og 19. Frambjóðandi spilar kannski á nikku og heldur ræðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2006 kl. 00:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.10.2006 | 16:15
Villavilla
Athyglisverð innsláttar/hugsunarvilla birtist í fréttaflutningi NFS frá því áðan. Í fréttinni segir: "Það hefur vakið athygli að í Fréttablaðinu, í dag, er heilsíðu auglýsing þar sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, hvetur sjálfstæðismenn til þess að kjósa Vilhjálm Þór Þórðarson, í prófkjörinu um helgina." Vilhjálm Þór Þórðarson? Þetta er skemmtilegt. Hér hefur Villi valdið vissri villu, því að sjálfsögðu er átt við Guðlaug Þór Þórðarson. Fréttin heldur áfram: "Vilhjálmur Þór sækist eftir öðru sæti á lista flokksins, í Reykjavík, eins og Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra." Þeir eru kumpánlegir Guðlaugur og Vilhjálmur í heilsíðuauglýsingunni í Fréttablaðinu í dag. Kannski hefur blaðamaður ekki séð neinn mun. Þeir hafa runnið saman í eitt. Annars er þetta glappaskot hjá Birni að lýsa yfir stuðningi Villa Vill í eigin blaði, og villa þar með um fyrir kjósendum -- þótt líklega hafi hann gert þetta í góðri trú --, mjög athyglisvert og lýsir gömlum sannindum um prófkjörsslagi: Það má aldrei gera mistök. Sá sem gerir mistök tapar. Besta dæmið um þetta var Eyþór Arnalds. Að keyra á staur er þegar orðið hugtak í fræðunum. Hugsanlega keyrði hér Björn á ákveðinn staur. En aðferðin er samt dáldið góð: Að lýsa yfir stuðningi annarra við sig, án þess að spyrja þá. Ólafur Ragnar og Dorrit styðja mig, ég sver það. Vigdís Finnbogadóttir líka.
25.10.2006 | 13:30
Björn
Um helgina kemur í ljós hver staða Björns Bjarnasonar er í íslenskum stjórnmálum. Líklega hefur aldrei verið sótt jafnhart að honum innan síns eigin flokks og núna. Ungir gallharðir menn eru að reyna að olnboga sig framhjá honum til frekari metorða. Ég man þegar fregnir bárust af því fyrst að Björn Bjarnason væri á leiðinni í pólitík fyrir ríflega tíu árum. Ég hafði góða tilfinningu fyrir því. Ég taldi, algerlega að óreyndu, að þar færi víðsýnn maður sem kæmi með nýja strauma inn í íslenska pólitík. Víðlesinn blaðamaður með bloggsíðu. Einn fyrsti bloggarinn á Íslandi. Eftir því sem á leið, hins vegar, komst ég smám saman að raun um það hversu afskaplega pólitískur Björn Bjarnason er. Sem formaður Stúdentaráðs á sínum tíma átti ég einn fund með honum. Hann fjallaði m.a. um fyrirkomulag félagsgjalda að Stúdentaráði. Maður hefði haldið að slíkt mál væri ekki eitthvað sem háttvirtur menntamálaráðherra liti á sem stórmál eða eitthvað til að æsa sig út af. Fundurinn endaði í hálfgerðu karpi. Mér leið eins og ég væri að rífast við stúdentaráðsfulltrúa Vöku niðri í Félagsstofnun. Þetta varð síðasti og eini fundurinn á milli okkar og ég hef oft hugsað um það síðar hversu fáránlegt það var að menntamálaráðherra skyldi ekki getað talað af yfirvegun og án pólitísks skotgrafahernaðar við gutta úr Háskólanum. Eftirmaður minn í embætti, Villi Vill, lenti í svipuðum vanda með ráðherrann. Ráðherrann var í raun fulltrúi Vöku í embætti. Og við vorum í Röskvu. Þessi kynni okkar vinstri stúdentanna við ráðherrann opnuðu augu mín fyrir því að Björn Bjarnason virðist sjá veröldina svart hvíta, svo það sé orðað kurteislega. Í henni eru hann og stuðningsmenn hans, og svo hinir. Mörgum árum síðar hafði ég umsjón með helgarefninu á Fréttablaðinu og Kolla Bergþórs fór og tók við Björn viðtal. Það var ágætt viðtal. Ein yfirlýsing Björns vakti undrun margra, án þess að hún kæmi beinlínis á óvart. Björn sagði að hann hefði aldrei efast um skoðanir sínar. Aldrei. Við settum þetta í fyrirsögn. Ég man að ég hugsaði: Hvernig manneskja þarf maður að vera til þess að efast aldrei um skoðanir sínar? Ég held ég efist á hverjum degi. Þannig hefur Björn alltaf verið ákveðin ráðgáta í mínum huga. Um daginn sá ég svo heimildarmyndina Power of Nightmares eftir Adam Curtis. Þar var m.a. farið yfir feril neo-conservatistanna í Bandaríkjunum, Donalds Rumsfelds og Paul Wolfowitz og þessara gaura. Sýnt var fram á hvernig veröld þeirra er líka svarthvít. Þeir og hinir. Allt gengur út á að eiga óvin. Óvinurinn -- Sovétríkin, Írak etc. -- hefur alltaf þjónað þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirrar eigin íhaldssömu hugmyndafræði heima fyrir. Heimspekilegi grunnurinn að þessu liggur í Heidegger og Leo Strauss. En hvað um það: Ég hugsaði, Björn er nákvæmlega svona stjórnmálamaður. Hann er ný-íhaldsmaður. Þrífst á óvinum. En ef út í það er farið: Ég held reyndar líka að mínar stjórnmálahugsjónir þrífist dálítið á því að hafa menn eins og hann í pólitík-- þó svo ég byggi ekki á því heila hugmyndafræði -- því fáum er ég meira ósammála.
24.10.2006 | 10:36
Hvalveiðar og kjördæmið
Mér finnst Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs ekki beinlínis hitta naglann á höfuðið þegar hann kallar í Fréttablaðinu í dag þá sem mótmæla hvalveiðum öfgamenn. Ég held það sé erfitt að afgreiða ráðherra og ríkisstjórnir í löndum eins og Bretlandi, Sviþjóð og Ástralíu, og þótt víðar væri leitað, einfaldlega öfgamenn. EN HINS VEGAR: Nú vil ég leggja áherslu á það að menn geri hér ákveðinn greinarmun. Ef Paul Watson kæmi hingað og væri með skæting yrði ég meira en til í að deila við þann óprúttna náunga um hans eigin hræsni og yfirgang, og allt það. Auðvitað er andúð margra á hvalveiðum byggð á yfirgengilegri tilfinningasemi, ef ekki einfaldlega misskilningi. En stundum er vitleysisgangurinn svo mikill að það getur verið fífldirfska -- sem er ágætt orð til að lýsa því sem hér hefur gerst -- að fara gegn vitleysunni. Um það snýst málið. Ófaglega er að þessu staðið. Menn eru með allt niðrum sig. Niðurstaða? Menn eru að fara í stríð gegn almenningsálitinu út í heimi fyrir níu óæta hvali sem við megum líklega ekki einu sinni flytja til Japans. Ef David Brent í Office hefði staðið að þessu, hefði ég skilið það. En þá væri hann líka með skítaglott á vörum út af klúðri og kynni að skammast sín. Hitt er svo líka annað: Það blasir við vegna hvers þeir félagarnir Einar Oddur og Einar K. eru að þessu núna. Það eru að koma kosningar og þeir telja að þetta gangi vel í sjómannabyggðirnar á Norðvesturlandi. Kannski til þess að beina athyglinni frá öðrum klúðrum -- a la David Brent -- eins og til dæmis, tja, ýmsum meinbugum á kvótakerfinu. Kannski telja nefnilega Vestfirðingar að þeirra maður hafi hreinlega ekki staðið sig sem sjávarútvegsráðherra. Hvalveiðum er ætlað að bæta ímynd ráðherrans, en því miður er ímynd Íslands fórnað í staðinn. Semsagt: meiri hagsmunum fórnað fyrir minni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.10.2006 | 12:19
Mýrin og Theodór
Í gær fórum við Alexía að sjá Mýrina í bíó. Ég held að þetta sé örugglega ein besta ef ekki besta íslenska bíómyndin sem ég hef séð. Ótrúlega flottur leikur, myndatakan stórbrotin og sagan fjári spennandi. Það var gott að ég var ekki búinn að lesa bókina áður. Punkturinn yfir i-ið kom svo eftir bíóið þegar Theodór Júlíusson leikari og Kópavogsbúi hringdi í mig að eigin frumkvæði og lýsti yfir stuðningi við framboð mitt í prófkjörinu og bauð fram aðstoð sína. Þetta var skemmtileg tilviljun því Theodór leikur einmitt illmennið í Mýrinni, ómennið Elliða. Hann gerir það reyndar með svo sannfærandi móti að ég var eiginlega hálfhræddur að tala við manninn í síma, svona rétt eftir að ég var nýbúinn að sjá hann skalla mann og annan á hvíta tjaldinu með þvílíku orðbragði að maður hefur ekki heyrt annað eins. Ég held ég fái vart öflugri stuðningsmenn en svona þrusuleikara.
23.10.2006 | 02:02
Óprúttnir aðilar
Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega hvernig Geir H. Haarde getur komist að þeirri niðurstöðu að umræða um hugsanlegar hleranir á Íslandi, bæði á kalda stríðs árunum og síðar, hafi beinst eitthvað sérstaklega gegn Birni Bjarnasyni. Ég man ekki eftir því að nokkur hafi gert því skóna að Björn hafi átt þátt í því að hlera símalínur, og því er það svosem í meira lagi athyglisvert -- ef út í það er farið -- að Geir skuli líta svo á að málið snúist um það. Veit Geir eitthvað sem við vitum ekki? Af hverju lítur Geir svo á að yfirlýsingar Jóns Baldvins og Árna Páls Árnasonar um að símalínur þeirra hafi verið hleraðar séu árásir á Björn Bjarnason? "Afar ógeðfelld aðför að Birni Bjarnasyni" er fyrirsögn Moggans í gær. Geir talar um að óprúttnir aðilar hafi reynt að koma höggi á Björn með því að tala um mögulegar símahleranir hér á landi. Tökum nú málið aðeins saman: Það stóð (og stendur enn) upp á Björn að ákveða hvernig eigi að rannsaka þessa mjög svo alvarlegu vitnisburði um hleranir og það vill svo til að menn eru ekki alveg á eitt sáttir um aðferðirnar hvað það varðar. Að þessu leyti hafa spjótin staðið á Birni. Ég á bágt með að trúa að Geir telji þá umræðu -- þar sem Björn hefur vissulega verið gagnrýndur -- vera dæmi um ógeðfellda aðför. Það væri nú aldeilis viðkvæmnin. Og umræðan um hleranir byrjaði með grein frá Þór Whitehead. Varla telur Geir Þór vera einn af þessum óprúttnu aðilum. Ég get satt að segja ekki séð heldur að Jón Baldvin, með því að bæta við frekari upplýsingum um hleranir, sé sérstaklega óprúttinn sem slíkur. Sannleikurinn er sá að ég held að Geir sé að tala hér út í loftið, á mjög gamalkunnan hátt til þess að freista þess að komast hjá því að ræða efnislega mjög alvarlegt mál, sem m.a. er deilt um í hans eigin flokki. Geir finnst ógeðfellt að einhverjir hafi kallað hina dularfullu leyniþjónustu "leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins". En nú stendur upp á Geir að svara slíkum nafngiftum efnislega, en ekki bara atyrða gagnrýnendur. Ástæðan fyrir nafngiftinni "leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins" er ekki bara spé, heldur sú að aðrir stjórnmálamenn, sem ekki eru í Sjálfstæðisflokknum, virðast ekki hafa vitað af þessari leyniþjónustu. Þetta þarf Geir að útskýra. Og almennt hvað varðar "ógeðfelldar aðfarir" og "óprúttna aðila" -- gamalkunn hugtök úr munni Sjálfstæðisforystunnar til margra ára -- að þá vona ég að það renni einhvern tímann upp sá tími á Íslandi að Sjálfstæðisflokkurinn geti einfaldlega rætt pólitík -- þ.e.a.s. efnisatriði máls -- án allrar svoleiðis vænisýki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2006 | 14:44
Hægri grænir
Greinahlunkar þeirra Guðna Elíssonar og Illuga Gunnarssonar, ásamt einni grein frá Dofra Hermannssyni, um umhverfismál í Lesbókinni hafa fangað athygli mína í sumar og haust. Í dag birtist ný frá Illuga, til þess að svara Guðna. Illuga er mjög í mun að sýna fram á að umhverfisvernd rúmist innan lífsskoðana sjálfstæðismanna og íhaldsmanna og ferst Illuga það verkefni svosem ágætlega úr hendi, enda skýr maður hér á ferð eins og ég get staðfest sem samstarfsmaður hans í sjónvarpsþætti og félagi til margra ára. En víkjum að greininni: Ég er alveg sammála því að uppfinningasemi einstaklinganna og fyrirtækjanna er mjög vel treystandi til þess að mæta -- og finna leiðr til að mæta -- vaxandi kröfum almennings um umhverfisvernd og orkusparnað. Besta dæmið um þetta er auðvitað að finna í því hvernig bílaframleiðendur keppast nú við að framleiða sífellt sparneytnari bíla. Gagnrýni mín á hægri umhverfisstefnu eins og hún birtist hjá Illuga, þar sem áhersla er lögð á markaðslausnir, er hins vegar þessi: Hún er of bláeygð. Með öðrum orðum: Þegar öllu er á botninn hvolft er sú mynd sem Illugi dregur upp af hægri umhverfislausnum markaðarins of einföld til þess að vera sönn. Tökum dæmið um sparneytnari bíla. Bílaframleiðendur hafa ekki endilega hafið framleiðslu á sparneytnari bílum vegna þess að þeir og almenningur urðu allt einu svona miklir umhverfisverndarsinnar heldur vegna þess að verð á olíu var orðið alltof hátt. Ástæður sem vörðuðu mun frekar buddu almennings heldur en vaxandi umhverfisverndaráhuga hafa leitt til breyttra áherslna í framleiðslu bifreiða. Af þessum sökum getur það leitt til alltof tilviljanakenndrar umhverfisverndarstefnu ef markaðurinn er látinn einn -- að mestu -- um að ráða þróun umhverfisverndar eða ef of mikið er treyst á hann. Svo ég taki þetta saman: Ég er sammála Illuga að opnu markaðshagkerfi er best treystandi til þess að finna lausnirnar. Gallinn er hins vegar sá að opnu markaðshagkerfi er ekki best treystandi til þesss að sjá vandamálin. Meira síðar.
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 395306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi