Leita í fréttum mbl.is

Hlerunarmálið

Nú stefnir í það eina ferðina enn að mikilvægt úrlausnarefni fyrir íslenskt þjóðfélag, réttarfar, menningu, sögu og stjórnmál -- í þessu tilviki hlerunarmálið svokallaða -- fjúki út í veður og vind, óleyst og óuppgert. Nýjasta flækjan í umræðunni, sem er til þess fallin að vera smjörklípan sem beinir athygli kattarins (les. okkar) frá aðalatriðum málsins var grein Þórs Whitehead í Fréttablaðinu í gær. Þar kom fram að fyrrum forsætisráðherra og utanríkisráðherra um og upp úr 1989 létu kanna eftir fall Berlínarmúrsins hvort að einhverjir Íslendingar hefðu verið á mála hjá austurþýsku leyniþjónustunni STASI. Semsagt: Kannað var hvort einhverjir hefðu verið á mála hjá tiltekinni erlendri leyniþjónustu. Niðurstaðan var að svo var ekki. Í dag hefur málið tekið á sig þá mynd að Svavar Gestsson er afar undrandi á því að hugsanlega hafi einhver verið að fylgjast með honum með þessum hætti. Nú er semsagt þessi könnun sem slík orðin einhvers konar vitnisburður um leyniþjónustu. Þetta er óttaleg flækja: Það að kanna hvort Íslendingar hafi verið á mála hjá leyniþjónustu er orðið vitnisburður um að menn hafi verið að fylgjast með fólki og þarmeð starfrækt leyniþjónustu. Þetta er guðdómleg hringavitleysa. Það sem þarf einmitt að gera á Íslandi núna er að kanna í alsherjar rannsókn umfang erlendra leyniþjónusta á Íslandi fyrr og síðar. Könnunin á starfsemi STASI hér á landi, ef ég skil það rétt, þjónaði þeim tilgangi. Hún á því í raun að vera okkur til eftirbreytni. Nú ríður á að kanna starfsemi CIA hér á landi. Ég er ekki viss um að sú rannsókn muni leiða til jafn ómerkilegrar niðurstöðu og rannsóknin á umfangi STASI. Í öllu falli: Svona flækja í umræðunni þar sem réttileg og skiljanleg könnun á starfsemi erlendrar leyniþjónustu er gerð tortryggileg, er til þess fallin að a) koma í veg fyrir að svipuð könnun verði gerð á umfangi annarra leyniþjónusta (einkum CIA) hér á landi og b) hleypa umræðunni um raunverulegar hleranir, sem talið er að farið hafi fram á Íslandi um áratugaskeið -- og þar með umræðunni um raunverulega, alvarlega og ólöglega leyniþjónustustarfsemi -- út í móa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínn punktur. Það sem vantar á Íslandi er aðferð til að taka þessi mál til umföllunnar, það sem myndir vera sagt á enska tungu 'prósess'. Þetta mætti til dæmis gera með starfsemi rannsóknarnefnda á vegum þingsins eins og Guðmundur benti á í Silfri Egils.
Þetta tíðkast víðs vegar í heiminum, og kannski sérstakleg hér í Bandaríkjunum. Því er stundum haldið fram í umræðum á Íslandi að rannsóknarnefndir þingsins hér í bandaríkjunum séu eitthver 'leikhús´ og er þá til dæmis vitnað til hringavitleysunnar í kringum Monicu Lewinski. Það gleymist þá að þessar þingnefnir eru lang öflugasta – og stundum eina --aðhaldið á framkvæmdarvaldið í Bandaríkjunum. Þetta á til dæmis við um stríðsreksturinn í Írak. Og ástæðan fyrir því að við vitum svo mikið sem raun ber vitni um skaðræðisverk CIA í S-Ameríku á 8. áratugnum, til dæmis, er fyrst of fremst vegna starfa rannsóknarnefnda þingsins sem geta þvingað menn til sagna undir eið, þannig að ef þeir bera ljúgvitni er þeim varpað í fangelsi (og um slíkt eru fjölmörg dæmi). Iran-Contra hneykslið hefði líklega aldrei verið opinberað án aðhalds þingsins á framkvæmdarvaldinu.

Á Íslandi komast menn upp með að drepa alvarlegum málum á dreif með upphrópunum eða með því að skipta um umræðuefni (taka jafnvel uppá því fyrirvaralaust að drepa hvali þegar önnur ráð bresta eða fara að tala um STASI án þess að það komi málinu nokkuð við). Nú bendir margt til að framkvæmdarvaldið hafi verið alvarlega mistnotað á Íslandi. Hver á að rannsaka málið og veita framkvæmdarvaldinu aðhald?. Það er ekki gott að menn sem eru skipaðir af framkvæmdarvaldinu sjálfu, og eigi framgang sinn undir dómsmálaráðherra, sjái um það. Það er til skammar að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra saki menn um að vega að embættisheiðri sýslumansins á Akranesi og ríkissaksóknara bara út af því að bent er á þá augljósu staðreynd að undirmenn eru ekki best til þess fallnir að rannsaka yfirmenn sína. Dr. Condoleezza Rice er líklega ekki best til þess fallin að rannsaka mistök sem George Bush gerði í undirbúningi Írak stríðsins. Með því er ekki vegið að starfsheiðri hennar. Það ætti að vera augljóst hverjum sem er.

Á síðustu árum hafa fjölmörg önnur mál komið upp þar sem margt bendir til að framkvæmdarvaldið hafi verið gróflega mistnotað á Íslandi, til dæmis til skattrannsókna á einstökum fyrirtækjum og einstaklingum sem illa þóknast Sjálfstæðisflokknum. Hver á að veita framkvæmdavaldinu aðhald ef ekki Alþingi Íslendinga?

Gauti B. Eggertsson

Gauti Eggertsson (IP-tala skráð) 19.10.2006 kl. 14:43

2 identicon

Orti ekki Megas um smjörklípuaðferðina: „Svo skal böl bæta, að benda á annað verra.“

Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 19.10.2006 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband