Leita í fréttum mbl.is

Hvalveiðar

Þegar ég horfði á eftir Hval 9 sigla úr höfn í fréttatíma sjónvarpsins í gær leið mér eins og næsta frétt yrði ábyggilega um það að Mjólkursamsalan ætlaði að hefja sölu á Epla Jóga aftur. Bæði fyrirbrigðin, hvalkjöt og Epla Jógi, eiga álíka mikla framtíð fyrir sér út frá markaðslegum sjónarhóli. Hér stigum við stórt skref aftur til baka. En það er svosem í takt við annað í þjóðfélaginu: Hemmi Gunn er kominn aftur í sjónvarpið, Kristján Loftsson farinn að veiða hval. Hvers vegna ekki að fá Epla Jóga aftur í hillurnar, helst með ríkisstyrk. Ég geri líka ráð fyrir að Paul Watson og Sea Shepherd fari að láta sjá sig fljótlega. Ég skil ekki alveg hvers vegna við nennum, út af engum hagsmunum og út af engri nauðsyn, að fara aftur í deilur við vestrænt almenningsálit og fjölmiðla út af hvalveiðum. Ég efast um að Mr. Gudfinnsson sé reiðubúinn í þann slag. Þess vegna er þessi akvörðun vanhugsuð. Ferðamannaiðnaðurinn mun að öllum líkindum -- nema við sleppum með skrekkinn út af heppni -- þurfa að leggja í heilmikinn herkostnað næstu misserin til þess að koma í veg fyrir mikinn skaða af þessari ákvörðun, og það í þeim eina tilgangi að Kristján Loftsson komist aftur í bisness. Kannski við ættum líka að fara að flytja út aftur maðkaða skreið til Nígeríu? Þá kæmist einhver annar karl í gamlan og úrsérgenginn bisness. Stefna ríkisstjórnarinnar skín í gegn: Nýsköpunarfyrirtæki flýja land út af stóriðju og þensluáhrifum hennar, einokun í landbúnaði hindrar framfarir í matvælaiðnaði og nú mun ferðamannaiðnaðurinn hljóta skaða af hvalveiðum. Allt er á eina bókina lært: Gamla Ísland á kostnað þess nýja. Það er mynstrið.

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála því. Ég skil ekki þessa stefnu. Hver er tilgangurinn með þessu annar en einhver einkennilegur rembingur? Nú er fjöldinn allur af fyrirtækjum að reyna að selja vatn, kindur og skyr útá umhverfisvæna ímynd Íslands. Þetta er ekki beint það sem vantar.

Er ekki líka einkennilegt þegar heilu sjávarþorpin eru farin að gera út á hvalaskoðun að sá bisness megi eiga von á, með bátinn fullan af skríkjanid túristum, að Kristján Loftsson bruni inná fjörðinn að skjóta hvali með fallbyssu sem búið er að troða skutli í? Ekki að það sé neitt verra að drepa hvali en aðrar skepnur, en hvaladráp eru líklega sýnu subbulegri en flest önnur dýradráp, og myndskeið af slíku aðförum er ekki beint hugguleg útflutningsvara fyrir land sem er að reyna að telja bandaríkjamönnum trú um að það sé umhverfisvænt svo þeir kaupi vatn, kindur og skyr.

Varðandi Epla Jóga, er ekki líka kominn tími á Súkkó komi aftur í hillurnar?

Gauti Eggertsson (IP-tala skráð) 18.10.2006 kl. 12:29

2 identicon

Það er hreint út sagt hlægilegt að lesa athugasemdir hæstvirts Gauta Eggertssonar svo ekki sé minnst á þær skoðanir sem að höfundur þessar síðu hefur.Ég ætla að hafa þær rækilega í huga þegar ég geng í kaffi hjá Lúlla bæjarstjóra og félögum 4.nóvember og tek þátt í prófkjörinu margfræga.Í fyrsta lagi er það þjóðarréttur okkar íslendinga að nýta þær auðlindir sem er að finna í okkar lögsögu og hefja á ný hvalveiðar.Hvað sem aðrar þjóðir raula og tauta.Það er réttur okkar að halda keppinautum okkar um annan sjávarafla (sem eru fyrst og framst hvalir) í hæfilegri stofnstærð.Til þess einfaldlega að þær éti okkur ekki einfaldlega ekki út á gaddinn.Í raun hefðum við ALDREI átt að beygja okkur undir öflum erlendis frá að leggja þær af.Í öðru lagi er það ljóst að Kristján Loftsson og Co, munu seint sigla inn á fjörð og skjóta þar hval inn á stefni hvalsskoðunabáts, því stefnt er að því að hvalskoðanir og hvalveiðar fari ekki fram á sömu slóðum. Reyndar heyrði ég því hvíslað að eini staðurinn á landinu til að draga hval að landi væri í Hvalfirði og að dýrið yrði að vera komið í land innan við sólarhring eftir að það er veitt.Sem aftur bendir til þess að K.Loftsson og Co, fari nú ekki býsna langt út fyrir suðvesturland í leit sinni að bráð, og komi því lítt við sögu hvalsýningabáta utan þess svæðis.Í þriðja lagi er það ljóst að afleiðingar þess að við fluttum út maðkaða skreið til Nígeríu á sínum tíma varð til þess að mörg þúsund manns liðu ekki skort.Höfundi þessarar síðu liði kannsi eilítið betur ef þessi viðskipti hefðu ekki farið fram og engin Íslendingur hefði hagnast á þeim. Afleiðingin hefði orðið sú að börn dáið þar úr hungri og vannærinu í Nígeríu en það víst allt í lagi því að þá hefðu Guðmundur Steingrímsson og Gauti Eggertsson sofið saddir og ánægðir á koddanum og nuddað á sér kviðinn.

Ennfremur vil ég árétta mína skoðun á því að Hemmi er þrusu góður í sínum nýju þáttum á Stöð 2.Epla Jógi fannst mér þrumugóður og sakna hans virkilega.Og ekki síst ég bíð spenntur eftir því að snæða á ný ljúffengt hvalkjöt.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 22.10.2006 kl. 06:04

3 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Sæll Sigurður. Mér finnst skoðanir þínar ekkert hlægilegar, eins og þér finnst mínar. Hins vegar vil ég benda þér á, að málið í mínum huga snýst ekki um það hvort að við munum útrýma hvölum eða hvort að veiðarnar séu okkar réttur eða ekki, heldur er stóra málið hitt, að hvalveiðar mæta því miður það mikilli andstöðu annarra ríkja að stærri hagsmunum okkar -- í ferðaþjónustu og útflutningi -- verður líklega fórnað fyrir minni. Í ljósi þess að andúð umheimsins er vandamálið sem við er að eiga, en ekki andúð mín á hvalveiðum -- sem út af fyrir sig er lítil sem slík -- að þá skora ég á þig að birta frekar skoðanir þínar í erlendum blöðum og tímaritum. Þú getur t.d. byrjað á breskum, áströlskum og bandarískum blöðum. Ljóst er að framlag þitt til kynningar okkar málstaðar á erlendri grundu yrði mikilsvert, sérstaklega í ljósi þess að ríkisvaldið ætlar ekki svo vitað sé að leggja í neitt slíkt átak. Ég ítreka, að það er á ÞAÐ -- sem og vissulega á hina hugmyndasnauðu og gamaldags atvinnustefnu sem ég tel þetta skref ríkisstjórnarinnar endurspegla -- sem ég er einkum og sér í lagi að deila með skoðunum mínum, sem þú telur hlægilegar. Ég bið að sjálfsögðu að heilsa Lúlla bæjarstjóra þegar þú ferð í kaffi til hans. Ég hef mikið álit á honum.

Guðmundur Steingrímsson, 23.10.2006 kl. 01:27

4 identicon

Það er rétt hjá þér Guðmundur að það er ekki merki um þroska að finnast skoðanir þínar hlægilegar.Þegar ég hugsa það betur þá auðvitað hefur þú fullan rétt á að hafa þína skoðun á hvalveiðum allveg burt séð frá því þó að ég sé þér ósammála.Ég biðst afsökunar á að hafa sagt þær vera hlægilegar.

Við hins vegar erum greinilega algerlega á öndverðum meiði varðandi hvalveiðar og afleiðingar þeirra.Ég hef ekki trú á því að hvalveiðar eigi eftir að hafa merkjanleg áhrif á á aðra atvinnuvegi okkar."Vísindaveiðarnar" eins og þær voru kallaðar sem hófust með hrefnuveiðum sumarið 2003 áttu samkvæmt spám að rústa ferðaþjónustunni hér á landi. Raunin hefur hins vegar orðið sú að ferðamannastraumurinn til Íslands hefur aldrei aukist meira en sl.ár.Mín skoðun er sú að þetta sé stormur í vatnsglasi sem að mun deyja út þegar nýjabrumið er farið af þessu.Ríksstjórnir erlendra ríkja mótmæla að forminu til en almenningur í þessum ríkjum hafur ekki ýkja mikinn áhuga á þessu máli.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 23.10.2006 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband