Leita í fréttum mbl.is

VG lét náttúruna ekki njóta vafans

Nú hefur því verið lýst yfir í hádegisfréttum RÚV, af sjálfum lögmanni Umhverfisstofnunar, að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi ekki sett byggingu tengibrautar í gegnum Álafosskvos í umhverfismat, þótt henni hafi verið það skylt.

Bærinn hafi þar með brotið lög. 

Hér fellur gamli skólastjórinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, á bæjarstjóraprófinu. Og það sem verra er: Hér falla Vinstri grænir á umhverfisverndarprófinu. Er það ekki lykilatriði í stefnu umhverfisverndarsinna að náttúran eigi alltaf að njóta vafans? 

Lítum á: Í ágúst lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn fram tillögu um það að tengibrautin yrði lögð í umhverfismat. Sú tillaga var felld af meirihlutanum, bæði fulltrúum Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. 

Í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar sagði af þessu tilefni: “Það er áfellisdómur yfir núverandi meirihluta sjálfstæðismanna og Vinstri- grænna í umhverfismálum að hafa ekki vilja til að rannsaka til hlítar þau umhverfisáhrif sem umrædd framkvæmd hefur.”

Í október gerðu fulltrúar Samfylkingarinnar aðra tilraun til þess að fá upp á borðið öll þau víðtæku áhrif sem þessi braut hefur á náttúru, ferðamannaiðnað og söguminjar í Mosfellsbæ. Þá var lagt til í atvinnu- og ferðamálanefnd bæjarins að óháðum aðilum yrði falið að gera mat á þessum áhrifum, einkum og sér í lagi hvað varðar Álafosskvos. 

Þetta náði ekki í gegn, frekar en hitt.

Ég ítreka: Sjöllunum er trúandi til alls. Ummæli Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á forsíðu Blaðsins í gær og annars staðar sýna svart og hvítu hversu forhert hún er í málinu. En Vinstri grænir eru annar kapituli.  Ég sé einfaldlega ekki betur en að umhverfisverndarstefna þeirra hafi fokið út í buskann í þessu máli.   Hvers vegna samþykktu þeir ekki að brautin færi í umhverfismat? Þeir greiddu beinlínis atkvæði gegn því.  Ætla þeir núna að rökræða við lögmann Umhverfisstofnunar?

Ætla þeir að taka undir með verktakanum, þegar hann segir að brautin liggi ekki í gegnum Álafosskvos, heldur framhjá henni? 

Hún er 14 metra frá.  

VG hefur ekki látið náttúruna njóta vafans. Þá afstöðu sína hafa þeir undirstrikað með skurðgröfum. Í trjálundinum við Álafosskvos er nú hola því til áherslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er slæmt að sjá VG renna svona á bossann í þessu máli, og þeim til mikils vansa.  Þetta er ekki í fyrsta skipti sem VG bakkar í umhverfisofforsi sínu þegar blákaldar staðreyndir blasa við, og menn hafa ekki efni á að vera að hippast þetta upp um allar koppagrundir.

En Guðmundur, það er flakandi sár í viðkvæmri sál náttúru Skagafjarðar, og ókomnar kynslóðir varpfugla og holtasóleyja munu horfa upp á tilvist sína svipta í burtu í einni andrá með virkjanagleði Samfylkingarinnar í því héraði.  Og saklaus börn sem gætu gengið um bakka Jökulsánna á fögrum sumardegi, andað að sér fersku lofti og notið kyrrðar og útsýnis í óspilltri náttúrunni, munu ekki geta það vegna þess að Samfylkingin ætlar að virkja árnar þarna til að veita rafmagni til álvers á Húsavík.  Hvernig getið þið horft í augu barna landins, augu sem eru tindrandi af tárum og ósvöruðum spurningum, og sagst vilja hola niður virkjun í Skagafirði?

Bara vera dramatískur eins og þú, kallinn minn.

Þinn aðdáandi og vinur, Haukur 

haukur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 13:46

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Lestu þetta bara og slappaðu af .

Guðmundur Steingrímsson, 2.2.2007 kl. 13:50

3 identicon

Já þetta fer að minna á R-listann. Þar sátu saman í stjórn Fagra Ísland og vinstriGRÆNIR og samþykktu Hellisheiðarvirkjun, athugasemdalaust þrátt fyrir að ljóst væri að orkan ætti öll að fara í stóriðjuna á Grundartanga og í Straumsvík - Það er ekkert að marka yfirlýsta stefnu stjórnmálaflokka nema þegar þeir eru í stjórnarandstöðu.

A (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 13:52

4 identicon

Skrýtið, ég sem hélt að sveitarstjórnin réði þessu, og sveitarstjórnin væri búin að lýsa sinni skoðun, sem er þvert á yfirlýsingu formannsins.  Eru þá fulltrúar Samfylkingarinnar í sveitarstjórninni að ganga þvert á stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum?  Því sveitarstjórnin hefur víst talað um að halda virkjunum inni á deiliskipulagi.  Ertu nokkuð með hlekkinn þar sagt er hvernig formaður Samfylkingarinnar  stóð upp á fjölmennum fundi á Húsavík og sagði að það kæmi ekki til greina, ef hún yrði forsætisráðherra, að reist yrði álver á Húsavík?  Því það var nefnilega fundur þarna um daginn þar sem samþykkt var að krefjast álvers á Bakka, og formaður Samfylkingarinnar sat þann fund og var á fremsta bekk, og einhverra hluta vegna hefur fréttaflutningur verið rangur, því það stóð ekkert um að Ingibjörg Sólrún hefði staðið upp fyrir fullum sal af Húsvíkingum og sagt: "Hægan, hægan! Það verður sko EKKERT álver byggt hérna ef við í Samfylkingunni komumst til valda!"  Það væri mjög gott að sjá fréttina þar sem þetta, eða eitthvað viðlíka, er haft eftir henni.

Það eru ekki bara Vinstri grænir sem fjúka eins og lauf í vindi þegar kemur að gallhörðum skoðunum í umhverfismálum, því fleiri en þeir hafa fastar skoðanir hvernig umhverfismálum á að vera háttað hjá nágrönnunum, en vilja svo að aðrar reglur gildi í sínum eigin garði. 

haukur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 14:31

5 identicon

þetta sýnir að VG eiga einn og einn punkt:) Ég satt best að segja átti ekki von á að svona skynsamleg niðurstaða kæmi frá þeim og sýnir að þessi tiltekni maður er langt fyrir ofan aðra VG menn í þroska.

Óskar Þór (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 14:33

6 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Lestu þetta, Haukur, og þetta. Ágætis lesefni yfir helgina.

Guðmundur Steingrímsson, 2.2.2007 kl. 14:45

7 identicon

Þetta sýnir að það er mikið af vondu fólki í Mosfellsbænum sem er á móti álfum og huldufólki.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 14:51

8 identicon

Sæll og blessaður Guðmundur.  Ég er nú fljótari að lesa en svo að þetta dugi mér alla helgina.  Þú notar sjálfan þig sem heimild fyrir því að það sem þú segir sé satt?  Af því þú hélst fram að formaður Samfylkingarinnar hefði verið á móti álveri á Bakka um daginn, þá er það rökstuðningur við fullyrðingu þína þess nákvæmlega sama efnis núna?  Ja hérna hér.  Ég veit ekki betur en að ei ómerkari maður en Ómar Ragnarsson hafi verið á þessum fundi og gert athugasemdir við þegjandi samþykki Ingibjargar Sólrúnar við ályktun fundarins.  Það hljóta að vera mistök, því fyrst Fagra Ísland er stefna Samfylkingarinnar, og sjálfur formaður flokksins er á fundi þar sem ganga á þvert á þessa stefnu flokksins, þá hlýtur téður formaður að hafa staðið upp og látið í sér heyra, og staðið þétt að baki stefnu síns flokks.  Er það ekki?  Ekki segja mér að Fagra Ísland sé sett fram með þeim fyrirvörum að það sé stefna Samfylkingarinnar að því gefnu að menn séu staddir í Reykjavík, og ekki á fundi norður á Húsavík, og að Fagra Ísland eigi alls staðar við nema þar sem menn telja alveg knýjandi að fá stóriðju.  Ef eitthvað er að marka Fagra Ísland, Guðmundur, af hverju segir þá ekki bæjarstjórnin í Hafnarfirði einfaldlega "nei" við stækkun álversins í Straumsvík, því það er ekki bara réttur meirihlutans, heldur líka skylda?  Merkilegt að meirihlutinn flýi og feli sig á bak við "íbúalýðræði", rétt eins og kosningarnar í vor hafi bara snúist um hvað allt sé frábært, en ekki hverjum sé treystandi til að taka erfiðar ákvarðanir.  Og núna er Samfylkingin Hafnarfirði, af heigulsskap sínum, búin að stilla hvorum gegn öðrum, fámennum hagsmunasamtökum sem kenna sig við Sól í Straumi, og risafyrirtæki með endalaust djúpa vasa.  Hvor ætli sigri í þeirri kosningabaráttu?  Og hvernig stendur á því að Samfylkingin býður upp á slíkan sirkus?  Ójá, ég man.... það var í nafni lýðræðis og eitthvað meira sem ég hef heyrt.

 Heyrðu, talandi um helgarlesefni, skoðaðu endilega þetta:  http://www.skagafjordur.is/fundargerdir.asp?cat_id=7&mtg_id=1361900109052660

og bónusspurningin er: hvaða sveitarstjórnarfulltrúi var á móti tillögunni (vísbending, hann er hvorki í VG eða Samfylkingunni).

haukur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 15:08

9 identicon

Hér er linkur á þesa frétt af fundinum á Húsavík í janúar, skrifuð af heimamanni. http://www.skarpur.is/gluggi.asp?fID=2605

Dofri vill reyndar meina að ISG hafi einmitt ekki fagnað þessari tillögu en ég hef heyrt annað (var ekki á þessum fundi). Ágætt að það komi fram þarna andstaða gegn virkjun Jökulsáar á Fjöllum. Virkjun Skjálfanda virðist vera opin.

H-listinn (XS og Vg) sem var á Húsavík var mjög fylgjandi Álveri þa. Fyrir síðustu kosningar buðu Vg fram sér og það fór ekkert á milli mála andstaða við þessi álversáform. Samfylking á Húsavík var og er hinsvegar fylgjandi álveri þarna eins og kemur fram í yfirlýsingunni.

ég get reyndar ekki séð að það skipti neinu máli þó samfylkingin hennar ISG sé með eða á móti þessu álveri. Það skiptir svona jafn miklu máli og að einhverjir Húsvíkingar séu á móti álveri í Hafnarfirði.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 15:13

10 identicon

Heyrðu, eitt enn, ég hnaut um þetta á heimasíðu Húsavíkur, fundargerð frá 16. janúar 2007: 

Meirihluti sveitarstjórnar óskar bókað:

Í framlagðri þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að markmið meirihlutans um að uppbygging álvers á Bakka gangi eftir.  Áætlunin sýnir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins breytist með afgerandi hætti til hins betra og þar með styrkur þess til að veita íbúum þjónustu eins og best gerist í landinu.

                        Jón Helgi Björnsson

                        Gunnlaugur Stefánsson

                        Friðrik Sigurðsson

                        Erna Björnsdóttir

                        Aðalsteinn Halldórsson

                        Jón Grímsson

Samþykkt samhljóða að vísa 3ja ára áætlun til síðari umræðu.

http://husavik.is//?mod=news&fun=viewItem&id=871&sport=forsida

Já, það fer ekkert á milli mála hvað Samfylkingin vill á Húsavík. Nó sörrí bob.

haukur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 15:16

11 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég linkaði á mína eigin grein, Haukur, já, vegna þess að þessi umræða sem þú vilta hefja aftur, enn á ný, var þar. Því er þetta gott lesefni fyrir þig yfir helgina. Til upprifjunar. Ég veit ekki til þess að Ómar Ragnarsson hafi verið á þessum fundi á Húsavík. ISG ítrekaði Fagra ísland þar. Það er alveg tært. Enda er þetta ekki flókið. Þingflokkurinn er búinn að samþykkja það sem stefnu. 

Og ef maður hefur stefnu, verður maður að standa við hana. A.m.k. verður maður að gera heiðarlega tilraun til þess í þjóðfélagi samsteypustjórna... Færslan mín hér að ofan, lýsir þeirri skoðun minni að VG hafi ekki gert tilraun til þess. Þeir greiddu atkvæði á móti umhverfismati, for crying out loud. Sátu ekki einu sinni hjá.

Ályktanir (semsagt: orð) einstakra Samfylkingafélaga (og skoðanir einstakra VG manna  reyndar líka) um að álver eigi að koma á Bakka, blikna við hliðina á þeirri aðgerð (semsagt: framkvæmd) að senda beinlínis skurðgröfur og valtara yfir svæði sem er á náttúruminjaskrá. 

Og það án umhverfismats.  

Guðmundur Steingrímsson, 2.2.2007 kl. 15:26

12 identicon

Það er ekki ég sem er alltaf að halda því fram að Samfylkingin sé umhverfisverndarflokkur, en hins vegar sé ég mig knúinn til að leiðrétta þann misskilning þegar hann kemur upp, sem er ansi reglulega.  

En ég held, hins vegar, að þegar þú lætur þyngra vega eitt stykki gröfu sem á að grafa fyrir einu stykki vegi inn í dal, þar sem bara vill til að álfaband er með stúdíó, heldur en ályktun sveitarstjórnar um að óska eftir álveri (þvert á yfirlýsta "stefnu" flokksins), þá máttu það alveg.  Enda veistu jafnvel og ég að Húsavík er svo miklu lengra í burtu fá 101 Reykjavík heldur en Mosó, og það hlýtur líka einhvern veginn að vera miklu auðveldara að vera svakalega hlynntur náttúruvernd þegar maður er að berjast gegn lagningu eins vegar sem ca. 15 manns eru mótfallnir, 8 manns hlynntir, og 299.977 er slétt sama, heldur en að hrópa jafn hátt og snjallt (innan um Húsvíkinga) að þeir fái sko ekkert álver.  Ég er kannski Neikvæð Nellý, en einhvern veginn held ég að það myndi fara öfugt ofan í fundargesti á Húsavík að segja "nei, þið fáið ekkert álver, en þið fáið eitthvað annað..... ég veit ekki hvað, en eitthvað annað bara.  Þetta reddast."  Svona þegar ég spái í því, þá er það tæplega vænlegt til atkvæðaveiða, og því best að vera tvístígandi í því máli, eins og öllum öðrum mikilvægum málum.  En þegar kemur að því að leggja götuspotta í dal í Mosó, by Jove, þá eru sko himinn og jörð að farast! Þá er það orðið mikilvægasta málefni þessarar aldar, og Óðinn má vita hvað.  

Þangað til skoðanakönnun leiðir í ljós að fólki sé a) sama og b) hlynnt götunni, og bara örfáir á móti, þá þagnar Samfylkingin.  Eins og t.d. evru-umræða Samfylkingarinnar sem var á fullu blússi alveg þangað til skoðanakönnun sýndi að fólk var á móti evrunni.  Þá þagnaði þessi evru-kór Samfylkingarinnar á mettíma. 

haukur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 15:45

13 identicon

Hvernig útskýrir þú þetta þá Guðmundur, ef þið eruð svona mikill náttúruverndarflokkur?  

" Stjórn Samfylkingarfélags Húsavíkur og nágrennis samþykkti á dögunum eftirfarandi ályktun sem kynnt var á opnum og fjölmennum fundi á Húsavík í gærkvöldi þar sem formaður Samfylkingarinnar var ásamt núverandi þingmönnum. Forystumenn Samfylkingarinnar fögnuðu þessari ályktun og tóku jákvætt í innihald hennar: ... Stjórnin lýsir fullum stuðningi við fyrirhugaðar álversframkvæmdir á Bakka við Húsavík enda verði orka til versins sótt í háhitasvæði í Þingeyjarsýslum. Framkvæmdir við álver á Bakka munu hafa jákvæð áhrif á búsetuþróun á Norðurlandi og styrkja verulega fjárhag sveitarfélaga á svæðinu. ... "

Frá  http://www.skarpur.is/gluggi.asp?fID=2605

Maður spyr sig: Þetta plagg, Fagra Ísland, inniheldur margt gott.  En hversu gott er þetta plagg þegar forystusauðir Sammfó gjörsamlega ganga gegn því og/eða skilgreina á alveg nýjan hátt, bæði bókstafslega og anda, í hvert skipti sem þeir koma í nýtt póstnúmer?

Davíð Þoddsson (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 16:07

14 identicon

Verður ekki bara að viðurkennast að það er enginn flokkur á Íslandi reiðbúinn í alvöru virðingu við náttúruna, einfaldlega vegna þess að þjóðarsálin er ekki tilbúin í þetta? Enn sem komið er eru allt of fáir sem eru raunverulega tilbúnir í alvöru umræðu um umhverfismál ,eru allt of fastir í hreppapólitík eða atkvæðaveiðum og vilja þess vegna ekki styggja neinn. Þess vegna lenda þeir flokkar sem gefa sig út fyrir að vera með umhverfismál á dagskrá, (S og VG) í þessum pyttum. Það eru bara alvöru virkjanaflokkar eins og sjálfstæðið og framsókn sem koma nokkuð heilstæðir út úr þessari umræðu. 

Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 16:16

15 identicon

Það er næstum því rétt hjá þér Björgvin. Samfylkinging fékk það fá atkvæði að til stóð að leggja hana niður þarna en svo var hætt við það. Slóðin á framboðið er hér á heimasíðu XS.is http://www.xs.is/Forsida/kjordaemi/Nordaustur/Husavikognagrenni/ 

næstum því rétt hjá þér, munaði bara einu félagi. hvort framboðið sé félag eða félagið framboð skiptir ekki máli.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 3.2.2007 kl. 15:24

16 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Hver er stefna Sjálfstæðisflokksins í virkjunarmálum?  Getur einhver sagt mér það?  Vilja þeir virkja allar ár á landinu?  Gott væri að fá þetta á hreint þar sem ekkert heyrist í Geir um þessi mál.

Sigfús Þ. Sigmundsson, 3.2.2007 kl. 16:23

17 identicon

Ég er nú ekki mjög kunnugur þarna, nafni. Hvaða aðrar leiðir koma til greina fyrir tengibraut í þetta fyrirhugaða hverfi ? Hvar vilt þú að hún sé ?

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 4.2.2007 kl. 20:16

18 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Ég taldi nú réttast að fara upp í Mosó og skoða aðstæður og sjá hvernig landið liggur og kynna mér þá valkosti sem í boði eru. Ég segi það sama og Guðmundur Stefánsson hér að ofan, hvar leggur þú til Guðmundur Steingrímsson, að tengibrautin verði.  Vissulega finnst mér að það þurfi að skoða málið þegar svæðið er á náttúruminjaskrá - en ég tel ekki við einn mann að sakast í þessu efni. Þessi vegur hefur verið inn á skipulagi bæjarins í yfir 20 ár skilst mér og hefði því verið auðvelt fyrir SFmenn að stoppa framkvæmdir á þeim tíma sem þeir voru í bæjarstjórn, ekki alls fyrir löngu. 

En ég get svo sem vel skilið að oft áttar fólk sig ekki á hvernig hlutirnir koma út fyrr en til framkvæmda kemur og því eðlilegt að til mótmæla komi nú.

En ég gerði mér semsagt ferð þarna uppeftir og skoðaði þetta mál. Í fyrsta lagi er ekkert verið að valta yfir Sigurrós, stúdío þeirra er ekki né verður við þennan veg og því finnst mér fráleitt að fjalla um málið á þeim forsendum og finnst mér hrikalegt ef að málið á að snúast um Sigurrós, en ekki Varmá sem er á náttúruminjaskrá. 

Valkostirnir í stöðunni voru annars vegar að fara í gegnum nýja Krika- og Teiga hverfin, keyra semsagt með umferð í gegnum Reykjalundsskóginn, eða framhjá Reykjalundi þar sem er mikið útivistarsvæði - því umhverfisslysi var afstýrt. Enda hefði vegurinn þar þurft að liggja yfir Varmá og þá hefði þurft að byggja brú yfir hana.  

Í öðru lagi er hægt að fara með veginn upp fyrir Áslandshverfið, og þá kemur hann svolítið bakatil inn í þetta nýja umrædda hverfi - sem er frá mínum bæjardyrum séð ekkert stórkostlega slæmt - en er aðeins lengra frá því en þessi vegur. 

Í þriðja lagi er það svo vegurinn umræddi. Mér skilst reyndar að umhverfisráðherra sjálf hafi gefið það út að ekki þyrfti að senda þetta í umhverfismat - sem er skv. lögum ekki rétt. Bæjarstjórn hefur líklega látið það ráða ferðinni, semsagt úrskurð umhverfisráðherra. Það er því kannski frekar við umhverfisráðherra að sakast í þessu máli. Hún á að þekkja lögin í kringum þetta betur en aðrir.  

Ég tel að mótmælendur og bæjarstjórn þurfi frekar að taka afstöðu með eða á móti þeirri byggð sem verið er að skipuleggja þarna í Helgafellslandinu, því einhver vegur verður að liggja þar inn ef úr byggð á að verða. Mótmælendur geta þá líka látið til sín taka með því að taka upp valkostaumræðuna og ræða það við bæjaryfirvöld á staðnum og mælt þá sérstaklega með þeim valkosti sem þeir sjá farsælastan.  

Ég vona hins vegar að þetta umrædda mál fái farsælan endi sem íbúar svæðisins geta fallist á. Mér finnst hins vegar svolítið hjákátlegt að horfa upp á Gumma fara fram með slíku offorsi og DV fyrirsögnum.

Ég tel að honum beri skylda til þess sem stjórnmálamanns að ræða valkostina :)

Andrea J. Ólafsdóttir, 6.2.2007 kl. 14:34

19 identicon

Hvenær ætlar fólk að snúa sér að því sem máli skiptir? Það er að fjalla um þá sjálfsögðu kröfu Varmársamtakanna að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ láti meta áhrif tengibrautar um Álafosskvos á umhverfi sitt. Er til sjálfsagðari krafa? Varmá og bakkar hennar eru á náttúruminjaskrá og atvinnustarfsemi í Kvosinni sprottin upp úr því umhverfi sem þarna er til staðar. Flokksmenn Andreu eru í þeirri frábæru aðstöðu að geta haft úrslitaáhrif á allar samþykktir bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. Vægi þeir er gífurlegt í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Í stað þess að framfylgja þeirri stefnu sem flokkurinn á landsvísu gefur sig út fyrir að standa fyrir hafa þeir gert virðingarleysi Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fyrir leikreglum lýðræðisins og umhverfisvernd að sínum. Fulltrúar VG hafa í bæjarstjórn lagst gegn umhverfismati og úttekt á áhrifum framkvæmdanna á atvinnustarfsemi og ferðaþjónustu í Kvosinni en hún er vinsælasti áningarstaður ferðamanna í bænum. VG eiga aðild að því að bærinn hefur nú ráðið sér lögmann sem á að geta sýnt íbúasamtökunum í tvo heimana.

Hvernig getur það verið réttlæting fyrir legu tengibrautar sem þjóna á 1200 íbúða byggð og 10 000 bílum á sólarhring að fyrir tuttugu og fjórum árum var sett safngata sem anna átti umferð frá 200 íbúða hverfi inn á skipulag. Íbúðafjöldi hefur 6 faldast og úr safngötu sem lagar sig að landslagi er orðið heljar mannvirki með stórbrotnum hljóðvarnarveggjum. Hvað er líkt með þessu tvennu?
Í ofanálag hefur allt lagaumhverfi tekið stökkbreytingum og eflaust m.a. vegna eljusemi VG í þessum málaflokki. Búið er að setja lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingalög, náttúruverndarlög, lög um varnir gegn mengun vatns, reglugerð um varnir gegn hávaða o.s.frv. Eigum við bara að láta þessar framfarir réttarríkisins sem vind um eyru þjóta? Og hanga í réttlætingu á einhverju skipulagi sem stangast á við öll þessi lög. Aðalskipulög taka dagfarslegum breytingum og eiga líka að gera það.
Og hvað um þá samfélagsþróun sem orðið hefur í Kvosinni sl. 15 ár? Skiptir hún engu máli? Úr gömlu iðnaðarhverfi sem var í algjörri niðurníðslu er orðið til sérstakt samfélag sem m.a. einn af yfirmönnum Ferðamálastofu segir vera skólabókardæmi um sjálfbæra þróun. Hvað með Ríó?

Er ekki tími til kominn fyrir VG að leggja niður vopn gegn velunnurum íslenskrar náttúru og samfélags í Mosfellsbæ og taka upp umræðu um þessi mál í stað þess að hlaupast undan ábyrgð sinni sem er því miður mikil?

Sigrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband