Leita í fréttum mbl.is

Heimildaþáttagerð með Hannesi. 10 grunnreglur.

Rakst á tilkynningu í Mogga í dag um að Hannes Hólmsteinn ætli að flytja fyrirlestur um heimildaþáttagerð á morgun. Ofsa spennandi. Ég geri ráð fyrir að mikið fjölmenni mæti í Þjóðminjasafnið í hádeginu, enda er maðurinn vel sjóaður í bransanum, með meistarastykki á CV-inu eins og Maður er nefndur.

Ég þarf hins vegar ekki að mæta. Ég þykist nefnilega þegar vita hverjar eru 10 grunnreglur Hannesar við gerð heimildarmynda. Þær eru þessar:

1. Davíð Oddsson var mesti stjórnmálamaður 20.aldarinnar.
2. Hannes Hafstein var næstbestur og var líka skáld eins og Davíð.
3. Kalda stríðið er búið og Bandaríkjamenn og Davíð Oddsson unnu.
3. Ólafur Ragnar er kommúnisti sem hefðu betur átt að sleppa því að segja að Davíð hefði skítlegt eðli.
4. Jón Ólafsson og Baugur eru glæpamenn. Davíð er góður og reyndi að stöðva þá. Við tónlistarval skal gæta þess að spila alltaf mafíutónlist (Godfather etc) þegar myndir af Jóni og Baugi birtast, en hetjulega eða fagra tónlist (Chariots of Fire) þegar Davíð birtist.
5. Davíð lækkaði verðbólguna þegar hann tók við, með Þjóðarsáttinni, þótt hann tæki reyndar ekki við fyrr en ári eftir að henni var komið á. (Afturvirk stjórnmál).
6. Davíð er hægri maður og góður. Vinstri menn eru vondir, trúlausir, hækka alltaf skatta, afnema eignarétt og borða börn.
7. Stefán Ólafsson og Svanur Kristjánsson hafa alltaf rangt fyrir sér. Davíð hefur alltaf rétt fyrir sér.  (Spila skal viðeigandi tónlist samkvæmt þessu, sbr. lið 4. Til dæmis tékkneska leirkallalagið undir Stefáni og Svani, en Óð til gleðinnar undir Davíð).
8. Davíð kom á viðskiptafrelsi. Innganga í EES kom því máli ekki við. Að hún skuli hafa borið upp á sama tíma er óheppileg tilviljun, sem hefur villandi áhrif á umræðuna (leggja ber á þetta sérstaka áherslu).
9. Tilraunir vinstri manna í gegnum tíðina, til þess að fella ríkisstjórnir Davíðs og Sjálfstæðisflokksins ber að kalla valdarán (Þetta kallar einnig á viðeigandi tónlist, t.d. lag Svarthöfða úr Star Wars).
10. Ingibjörg Sólrún er bæði kona og frekja. Líklega mannæta líka. Slátrar hönum heima hjá sér og drekkur úr þeim blóðið.  (Tónlist: The Exorcist).

Farið verður sérstaklega í svokallaða smjörklípuaðferð við gerð heimildarmynda og uppruni hennar rakinn.

Þátttakendur skulu vera hægri menn, helst með góðan aðgang að Ríkissjónvarpinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá, ég held svei mér þá að stjórnmálaframi þinn verði svipaður og sjónvarpsframi, flopp í einu orði sagt.

Af þessum pistli þínum (og reyndar fleirum) að dæma gæti maður haldið að þú værir 10 ára á leiðinni á þing.................í barnaskóla!!

Alvöru Vinstri maður (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 12:44

2 identicon

Fín grein ágæti Gummi. 

Davíðstíminn var hrikalegur satt best að segja.  Heil þjóð kóaði enda var gjarnan tala um Davíð og kó.  Samfélagið var súrsað í slepjuhætti gangvart foringjanum og fólk þorði ekki að tjá sig af ótta við vandlætingu þess flokks sem kennir sig við Sjálfstæðið og frelsi einstaklingsins.  Það verður spennandi þegar sagnfræðingar framtíðarinnar gera upp þennan óhuggulega tíma í íslenskri sögu. 

Ég hef alltaf haft eitt atriði sterkt á tilfinninguni.  Það tengist meir að segja kvikmyndum.(þó ekki heimildiamyndum a la H.H.Giss).  Ég hef alltaf  á tilfinninguni að Davísdýrkunin hafi lokið all hressilega á gamlárskvöld árið 2003 þegar Opinberun Hannnesar var sýnd á gamlárskvöld en eins og allir vita var D.O höfundur sögunnar og næst bestivinur aðal, leikstýrði meistaraverkinu.  

Þessi mynd olli vissum vatnaskilum í íslensku samfélagi.  Nokkrar ástæður fyrir þvi:  1. þar fór á skjáinn leiðinlegasta bíómynd kvikmyndasögunnar.  2. RÚV var pínt af Sjálfstæðisflokknum til að kaupa þetta rusl á toppverði.  3. Kvikmyndasjóður styrkti myndina með ríkulegum styrk. (að undirlagi Sjálfstæðisflokkisins) 4. Þessi mynd ku hafa kostað 60 miljónir og rök hafa verið færð fyrir því að megninu af þessu fé hafi verið stolið því útilokað sé að "Opinberunin" hafi kostað svo mikið.   Útskýring leiksjórans var að "Hjlóðmyndin hafi verið svo dýr og að mikið hafi verið lagt upp úr einhverju sem hann kallið "reportage"-stíll. (handheld myndavél)

Þjóðin dæsti og furðaði sig á þessu rugli öllu saman.  það  var ekki fyrr en daginn eftir þegar gagnrýnandi á Morgunblaðinu mærði þessa mynd í hástert að "opinberunin" varð öllum ljós.  Þetta var einskonar nútímaútgáfa af Nýju fötum keisarans.  Afhúpun einræðistilburða D.O var alger.  hvaða siðmenntuð þjóð sýnir leikrit efitr forsætirráðherran á gamlárskvöldi? Jú, ég man.  -Norður Kórea.

 Allir  bitlingabarónarnir mærðu þessa vitleysu og það var eins og illa lyktandi skýi hefði verið lift af heilli þjóð.    Eftir stóðu bitlingabarónarnir og undruðu sig á því hvort gömlu reglurnar væru ekki ennþá í gildi? "Ha? þarf ekki að þykjast fíla allt sem Davíð segir?"

 Upp úr þessu fór að halla undan hjá D.O. 

-Sem betur fer.

Khomeni (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 13:51

3 Smámynd: Finnur Torfi Gunnarsson

hehehe mjög gott sprell. Meira svona.

Finnur Torfi Gunnarsson, 5.2.2007 kl. 13:51

4 identicon

Vá, hvað þetta er fyndið og sneddí og úthugsað og kaldhæðið hjá þér, Guðmundur.  Ég er viss um að Hannes Hólmsteinn Gissurarson er hamstola af bræði á skrifstofu sinni í Odda og ráðþrota gagnvart því hvernig bregðast á við svona hnyttnum og hárbeittum pólitískum skrifum.  En hvað um það.

Tvennt sem kemur upp í huga mér við lestur á þessu þrekvirki þínu á ritvellinum; þarna eru 10 reglur fyrir heimildamyndagerð Hannesar, hvað með reglurnar 3 fyrir stefnumörkun Samfylkingarinnar?  Eiga þær reglur ekki að fá sömu athygli þína, þær eru jú bara 3 og miklu fljótlesnari en heilar 10 reglur, svona ef mönnum er umhugað um það að hafa stutta texta að lesa (eins og sumir eru hrifnir af).  Regla 1) Bannað er að tjá sig um nokkurt mál fyrr en Capacent Gallup hefur sýnt með skoðanakönnun að fólk sé "pólitískt undir það búið að fá svona pólitískt mál til pólitískrar umfjöllunar hins pólitískasta flokks á landinu, svona pólitískt séð".  Og ef svo kemur fram könnun sem sýnir dvínandi stuðning við grjótharða stefnu Samfylkingarinnar grundvallaða á reglu 1, þá skal sú stefna látin hverfa hið snarasta og ný stefna tekin upp.  Ennfremur skulu forkólfar Samfylkingarinnar neita því með öllu að hafa nokkurn tíma haft aðra stefnu, og kenna Davíð um að þagga umræðuna í hel (eða snúa út úr, allt eftir því hvað hentar best).

Regla 2) Láta Stefán Ólafsson koma reglulega með skýrslur hverra niðurstöður eiga að vera a) rangar, en b) nægjanlega flóknar til að fólk nenni ekki að hlusta á rökræður.  Helst skal Stefán birtast sem léttskeggjaður fræðimaður, landsföðurslegur að frábiðja sér nokkrum tengslum við stjórnmálaflokka, og tala um að hér séu allir fátækir, nema þær þúsundir milljarðamæringa sem fljúga um á einkaþotum, svo mikið svo að lofthelgi Íslands er myrkvuð flesta daga vegna landlægrar mengunar frá einkaflugvélum hinna illu "fjármagnstekjugreiðenda".  Svo þegar þjóðsögur Stefáns eru hraktar, þá komum við að reglu 3)...... 

Ekkert skal gert sem ekki kallar á sérstaka "úttekt" Sigmundar Ernis, og annara blaðamanna á 85% af miðlum landsins sem draga vagn Samfylkingarinnar.  Enginn má gefa viðtöl sem ekki birtast sem fyrsta frétt í kvöldfréttum stöðvar 2, eða á forsíðu Fréttablaðsins.  Ennfremur má ganga að því sem gefnu að t.d. frjálst fall Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum fær sama sess í fréttahlutum þessara miðla og uppskriftir vikunnar að sauðakjötsbökum.  Regla 3) er fyrst og fremst ætluð til þess að bjarga Samfylkingunni frá sjálfri sér, gefa formanni flokksins og hinum og þessum harmóníkuspilandi vonnabí frambjóðendum verndaðan vinnustað þar sem þeir fá að upplifa sig sem númeró únó og enginn er nálægt til að gagnrýna.

Og þá kem ég að hinu síðara sem skýst óneitanlega upp í hugann þegar ég les svona gullmola eftir þig...... Þú veist að Davíð er hættur í stjórnmálum, er það ekki?  Ég vildi bara vera viss, því Davíð hefur ekki verið í stjórnmálum í nokkur ár, og mér finnst soldið skrýtið, þú afsakar, að þú og fleiri vonnabís séuð stanslaust að slást við Davíð en ekki stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins sem eru í sinni vinnu sem slíkir í dag.  Ég veit vel að þegar Davíð hætti markaði það endalok Samfylkingarinnar, og fylgi flokksins þíns hefur farið niður á við svo til línulega (segi nú ekki expónesíjalt) eftir þann viðburð, en ef þið saknið Davíðs svona mikið og viljið að hann reddi ykkur fyrir horn, þá á bara að segja það.  Ekki vera neitt feiminn við það.  Biddu bara Davíð að koma til baka, og segðu honum sem er að þið í Samfylkingunni séuð gjörsamlega ráðvillt og týnd án hans.  

Annað hvort það, eða þá að þið getið farið að finna ykkur stefnu og staðið við hana, hætt að tala um "þagnarbandalög" þegar aðrir eru hreinlega ekki sammála ykkur, og farið að tala um hluti sem áttu sér stað alla vega innan nútímans.  Það hefur gefist mörgum flokkum vel og engin ástæða til að reikna með öðru en að ef þið prófuðuð það, að það myndi gagnst ykkur líka.  

Heyrðu annars, hvar er evruumræðan mikla sem Samfylkingin ætlaði að koma með sem bombu (bombu, "B-O-B-U") inn í umræðuna?  Af hverju látið þið skoðanakönnun Capacent Gallup slökkva á ykkur eins og næturljósi við sólarupprás?  Má fólk ekki vera ósammála ykkur án þess að þið lúffið og hlaupið í burtu?

Þinn einlægur aðdáandi í heimi bókmennta,

haukur (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 14:00

5 identicon

Hefur frambjóðandi Samfylkingarinnar ekki upp á neitt annað að bjóða en persónuleg skítköst út í einstaka menn? Er þetta það sem koma skal Gummi?

Gisli Freyr Valdórsson (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 14:20

6 Smámynd: Egill Rúnar Sigurðsson

Skemmtilegur pistill.  Það er því miður ekki hægt annað en gera smá grín að Hannesi Hólmsteini.  Ég þekki aðeins til hans þar sem hann kenndi mér nokkur fög í stjónmálafræði uppi í Háskóla.  Maðurinn er ótrúlega einstrengislegur og sér veröldina í svarthvítu, þá er nánast ómögulegt að rökræða við hann.  Hef þó ekkert á móti honum persónulega, ágætis náungi.

Egill Rúnar Sigurðsson, 5.2.2007 kl. 14:55

7 identicon

Blessaður.

Þú segir að Hannes hafi það fyrir reglu (sbr. "reglu 7") að dæma fyrirfram allt sem Stefán Ólafsson og Svanur Kirstjánsson segja. Heldur þú að þessi regla eigi ekki líka við um þig og fleiri? Með því fráviki þó að í ykkar tilviki er það Hannes Hólmsteinn sem getur ekki undir nokkrum kringumstæðum haft rétt fyrir sér.

Hafsteinn.

Hafsteinn Þór (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 15:05

8 identicon

Hvernig kastar maður skít í fleirtölu Gísli?  Er það eitthver heimdallartrix?

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 15:16

9 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Áts!

Heiða B. Heiðars, 5.2.2007 kl. 15:25

10 identicon

Kast er nafnorð sem tekur fleirtölumyndina köst. Það er því vel hægt að tala um t.d. innköst, uppköst, fráköst og skítköst. Það er ekkert því til fyrirstöðu að Guðmundur stundi þetta allt án nokkurrar aðstoðar Heimdellinga.

 hh

hh (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 16:46

11 identicon

Nú komstu heldur betur við kaunin á ákveðnu liði í Sjálfstæðisflokknum,Guðm. Steingríms

Þetta er eins og austurlöndum , að efast um Spámanninn.  Trúarhópurinn fer alveg á límingunum.

Það er gaman að þessu. 

Sævar Helgason,Hafnarfirði (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 17:06

12 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ég er eiginlega hálfhissa hvernig sumir bregðast við léttu gríni. Samt er ég orðinn fullgamall til að eiga yfirleitt að verða hissa á nokkrum hlut ...

Hlynur Þór Magnússon, 5.2.2007 kl. 17:23

13 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Já, það er bara ansi gaman að þessu, Sævar. Ég sé að siðavandir hafa sumir stokkið upp á nef sér og eru hér fljótir til að beita ásökunum um skítkast, jafnvel skítköst.

Það er hins vegar skemmtilegt að segja frá því -- svona fyrir þá sem hafa áhuga -- að allir þessir 10 liðir hér að ofan eru byggðir meira eða minna á staðreyndum úr þjóðmálaþátttöku prófessorsins, þótt vissulega sé fært í stílinn enda mánudagur og öll þörf á því að lyfta sér upp. Getspakir hafa væntanlega þegar lesið á milli línanna.

Smá orðskýringar fyrir hina:

Að Davíð sé mestur stjórnmálamanna á 20.öld, sambærilegur við Hannes Hafstein, hefur lengi verið leiðarminni í sagnfræði prófessorsins og heimildarmyndagerð. Ólafur Ragnar hefur hins vegar lengi verið lítið upp á pallborðið – vægast sagt --, og er skemmst að minnast greinar sem Hannes skrifaði síðasta sumar, þar sem Ólafi var m.a. leynt og ljóst líkt við svín.

Í þeirri sömu grein kom fram athyglisverð skilgreining Hannesar á vinstri manni, sem innihélt m.a. þá skoðun hans – það varð ekki betur séð – en að vinstri menn væru bæði trúlausir og óvinir atvinnulífsins (sem kom úr furðulegri átt miðað við að hann sjálfur þurfti nokkrum mánuðum áður að selja húsið sitt út af meintum meiðyðrum í garð athafnaskálds). Í annari grein í liðinni viku, í Fréttablaði, bætti svo prófessorinn um betur og taldi fyrirséð að vinstri menn myndu gera fjölskyldur og atvinnulíf gjaldþrota og setja verðbólgu í 30% ef þeir næðu völdum. Fyrir þessu vantaði rök, sem er ekki óalgengt úr þessari átt.

Hér vantar í raun bara að Hannes haldi því fram að vinstri menn borði börn og að formaður þeirra sé mannæta. Slíkar eru ávirðingarnar.

Einsleitar túlkanir hans á endalokum kalda stríðsins og meintum sigri kapítalisma hafa lengi slegið mig sem barnalegar og á mörkum þess að vera dæmi um markvissar sögufalsanir, eins og margt annað. Orðið “valdarán” er í færslunni hér að ofan notað af ákveðnum ástæðum. Eftir Borgarnesræðu ISG fyrir síðustu kosningar voru Samfylkingarmenn vændir um það af talsverðum hita af Hannesi og hans líkum, að Samfylkinginn undirbyggi “valdarán”, eins og það var orðað svo smekklega. Annað eins viðhorf til lýðræðislegra kosninga og mögulegra afleiðinga þeirra hef ég sjaldan séð. Andúð prófessorsins á ISG hefur síðan ætíð legið nokkuð augljóslega til grundvallar þátttöku hans – hins herskáa ríkisstarfsmanns eins og ég hef kallað hann -- í þjóðmálaumræðu.

Allmargir hafa orðið vitni að skæruhernaði hans innan stjórnmálafræðiskorar, út í menn eins og Stefán Ólafsson og Svan Kristjánssson, og hefur það meira að segja ratað í  forsíðufréttir.

Notkun tónlistar í heimildarmynd Hannesar um stjórnmál á 20.öld vakti þónokkra athygli á sínum tíma, en í henni spilaði hann einmitt mafíuósalagið úr Godfather undir myndum af Jóni Ólafssyni og Chariots of Fire undir myndum af Davíð Oddssyni. Vangaveltur um tónlistarnotkun eru því hreint ekki úr lausu lofti gripnar.

Það er gaman að því.

Ég veit fyrir víst að þessi sannleikskorn hafa við lestur færslunnar ratað til þeirra sem af þeim vita – sem eru all margir. Hinir mega væna mig um skítkast, jafnvel skítköst, mín vegna, enda grunar mig að það sé helst til vitnis um hið fornkveðna: Sannleikanum verður hver maður sárastur.

Tími Hannesar og Davíðs í íslenskri pólitík er liðinn, sem betur fer. Og þá sögu alla á eftir að skrifa.  Hún verður athyglisverð í meira lagi, eins og leitt er að líkum hér að ofan í ágætri athugasemd. 

Guðmundur Steingrímsson, 5.2.2007 kl. 17:24

14 Smámynd: Bragi Einarsson

Hvernig er það, fær Hannes að skrifa þá sögu? eða ætlar hann að bíða þar til einhver sagnfræðingurinn er búinn að skrifa hana og svo endur-skrifar Hannes söguna og kallar hana sína? Bara spurning!

Bragi Einarsson, 5.2.2007 kl. 17:59

15 identicon

Ef ég hrauna yfir fimmtán manneskjur og engar samtímis heldur hverja fyrir sig á leið minni um vinnudaginn, hef ég þá framið fimmtán skítköst í stað þess að standa í eilífu skítkasti?

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 18:10

16 identicon

"Tími Hannesar og Davíðs í íslenskri pólitík er liðinn, sem betur fer. Og þá sögu alla á eftir að skrifa.  Hún verður athyglisverð í meira lagi"

Sammála sú lesning verður mjög athyglisverð en ég man ekki eftir að að nokkur maður hafi nokkurn tíma haft áhuga að skrifa eða lesa um vonabí stjórnmálamenn.

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 18:31

17 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Sem BA í íslensku -- þá sjaldan að maður fær tækifæri til að veifa þeirri gráðu -- myndi ég segja að fleirtölumyndin skítköst sé fremur óeðlileg miðað við málhefð. Fallegra er að segja eilíft skítkast.

Undarlegar fleirtölumyndir skjóta stundum upp kollinum, eins og þegar menn tala um vinnur. "Ég er í mörgum vinnum."

Þetta er ekki beinlínis rangt (þótt sumir myndu líklega halda því fram, ég er ekki sammála því), en stuðar fagurfræðilega.

"Vonabí" er sletta. Skemmtileg sem slík. Merking óljós.

Guðmundur Steingrímsson, 5.2.2007 kl. 19:38

18 identicon

Ótrúlega ertu einfaldur maður, Guðmundur.

Ekki er Egill Rúnar betri, ég hef líka verið í HÍ hjá HHG. Hann

leyfir ÖLLUM skoðunum að koma fram og tímarnir hjá honum eru

skemmtilegustu tímarnir í HÍ, einfalt mál.

Örn (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 22:01

19 identicon

Bara ein athugasemd: Fyrirlestur Hannesar í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands, "Hvað er sagnfræði? Rannsóknir og miðlun" verður í Þjóðminjasafninu en ekki Þjóðmenningarhúsinu eins og sagði í pistlinum. Komi þeir sem koma vilja etc, öllum að meinalausu. Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins, www.sagnfraedingafelag.net

Guðni Th. Jóhannesson,

formaður Sagnfræðingafélags Íslands

Guðni Th. Jóhannesson (IP-tala skráð) 5.2.2007 kl. 22:17

20 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Já, ég hef heyrt að hann sé fínn kennari, Örn. Ég sagði ekki nokkurn skapaðan hlut um það. Mér finnst hann líka allt í lagi í viðkynningu. Þú verður að átta þig á því að ég er ekki að tala um manninn persónulega. Ég er að tala um ákveðin leiðarminni í þátttöku hans í þjóðfélagsumræðu, sem mér hefur lengi fundist í meira lagi undarleg, einhliða og ósannfærandi svo ekki sé meira sagt.

Ég er ekki einn um að finnast það. 

En alla vega. Mér sýnist ég vera búinn að gera mitt til þess að auglýsa þennan fyrirlestur, Guðni... Vil fá hlutdeild í aðgangseyri, takk!

Hádegisfyrirlesturinn eru aldrei ókeypis.  

Guðmundur Steingrímsson, 5.2.2007 kl. 22:55

21 identicon

Skoðanakannanir eru vísbending um hverning staðan er:

Sjálfstæðisflokkurinn - 45,5%
VG - 22,9%
Samfylkingin - 19,1%
Framsóknarflokkurinn 9,4%
Frjálslyndi flokkurinn 3,1%

Samkvæmt þessu:
a. heldur ríkisstjórnin velli
b. vg næst stærsti flokkur landsins
c. dagar isg í pólitík, þeim fer fækandi :)

Guðmundur er ekki kominn tími á alvörupistil um stöðu sf og fylgishrun hennar eftir að isg tók við flokknum ?

Óðinn Þórisson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 08:29

22 identicon

Eikennilegt að hafa svona mikla minnimáttakennd gagnvart fyrverandi stjórnmálaleiðtoga. Guðmundur þú minnir mig á nafna þinn Andra Thorson sem hafði hann á heilanum í nokkur ár í pistlum sínum. Eftir að hann dróg sig í hlé frá stjórnmálum þá hafið þið ekki á "heilum" ykkur tekið. Rasskellti hann ykkur svona hroðalega?

Gunnar Th. Gunnarsson (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 09:41

23 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég veit ekki betur en að við höfum rasskellt hann hroðalega í síðustu kosningum. Lögðum hann í Reykjavík norður og höfðum af honum 7% fylgi svo hann varð að hrökklast frá völdum upp frá því.

Ekki minnimáttarkennd fyrir fimm aura, Gunnar.

En hvað um það. Nenni ekki að tala um Davíð. Hann er liðin tíð. Það er rétt hjá þér Óðinn, nú þarf að fara að kýla upp fylgið.

Guðmundur Steingrímsson, 6.2.2007 kl. 12:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband