Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Sauðfjármálaráðherra

Enn einn kosningavíxillinn hefur verið sleginn, nú í formi samnings um bætt starfsskilyrði sauðfjárbænda. Yfir sextán milljarða greiðslu til sauðfjárbænda er velt yfir á næstu ríkisstjórn. 

Þetta er óheyrileg upphæð. Út úr korti. Það er af sem áður var, þegar þáverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra sagði "svona gerir maður ekki" þegar ráðherrar slógu álíka - en þó talsvert minni - kosningavíxla áður fyrr.

Aðhald í ríkissrekstri er fokið út um gluggann. Þeir sem halda því fram að hægri menn fari betur með ríkisfjármál hafa engin rök lengur fyrir málflutningi sínum. 

Mér datt satt að segja ekki í hug að 16 milljarða samningur við sauðfjárbændur myndi líta dagsins ljós árið 2007. Ég hélt þetta væri liðin tíð. En svona er þetta: Það er við öllu að búast. Þegar ríkið er meira að segja farið að kaupa prentsmiðjur -- sem er dálítið í anda austantjaldsríkjanna sálugu -- er það líklega alveg í stíl að ríkið taki að sér að ausa fé í einn atvinnurekstur umfram annan, til bænda, eins og árið sé 1950 og ekkert hafi breyst.

Hér er borið fé í fé, beint úr ríkissjóði í ríkissauð. 

Þjóð veit að Guðni Ágústsson er mikið fyrir lambakjöt og beitir því hikstalaust sem röksemd í málinu, eins og það sé góð stjórnmál og viðurkennd að stjórnmálamaður láti matarsmekk ráða fjáraustri. Hitt er merkilegra að fjármálaráðherra skuli spila með, sjálfur fjárgæslumaðurinn. Ríkissjóður stendur galopinn þegar sauðfjárbændur banka upp á. Á meðan er ekki til fé til að sinna málefnum aldraðra svo dæmi sé tekið. Skorið er niður til framhaldsskólanna. 

Ísland er ekki bananalýðveldi. Guðni borðar ekki svoleiðis. Ísland er lambakjötslýðveldi.

Fjármálaráðherra er sauðfjármálaráðherra. Hann fer með ríkis-sauðfjármál og gætir hagsmuna ríkissauðs. 


Hver bjargar Gullfossi?

Mér sýnist á köflum að það sé brostinn á einhvers konar furðulegur metingur eða bara hreinlega keppni í umhverfismálum á Íslandi. Hver er mesti umhverfisverndarsinninn? Hver er hetjan? Einn, tveir og byrja. Þetta er svona Amazing Race. Sá vinnur sem bjargar Gullfossi.

Þetta andrúmsloft er orðið verulega ankannalegt. Vakningin í umhverfismálum er miklu víðtækari og yfirgripsmeiri heldur en margir af háværustu umhverfiserndarsinnunum vilja viðurkenna. Umræðan um einhvers konar einkarétt á umhverfismálum -- og hver sé mesta hetjan -- hefur meira að segja tekið á sig þá mynd, að á flokksráðsfundi VG síðasta haust var því haldið fram að umhverfisverndarsinnar þyrftu nauðsynlega að vera Vinstri Grænir. Annars væru þeir ekki umhverfisverndarsinnar. (Tilvitnun: "Það er ekki hægt að vera grænn án þess að vera vinstri." Svandís Svavarsdóttir). 

Þetta stakk mig og fleiri. Ég hef talað gegn Kárahnjúkavirkjun síðan ég kom heim úr námi 2001, sótrauður af angist, og talið mig gegnheilan umhverfisverndarsinna, en er þó ekki Vinstri Grænn af mörgum ástæðum.  Ég þekki líka mann í Sjálfstæðisflokknum sem er umhverfisverndarsinni (alveg satt). Í könnun Gallup í október 1994 mældist andstaðan við stóra virkjun á Austurlandi -- þótt ótrúlegt megi virðast -- mest á meðal Framsóknarmanna (fylgi sem væntanlega hefur yfirgefið flokkinn síðan). 

Punkturinn er þessi: Umhverfisverndarsinnar hafa alltaf verið út um allt og þeim fjölgar ár frá ári. Í flestum flokkum. Vakningin hefur verið gríðarleg innan Samfylkingarinnar,  sem hefur skynjað takt tímans -- eins og víðsýnum og nútímalegum flokki sæmir -- og tekið fast á þessum málum í sínum röðum. Það er fagnaðarefni.

Við látum kjósa um álver, sem er meira en allir aðrir flokkar geta sagt. Þingflokkurinn hefur tekið afdráttarlausa afstöðu gegn því að jökulár Skagafjarðar verði virkjaðar. Æskilegt væri að aðrir svöruðu  sömu spurningu jafnskýrt. Við viljum virða Kyoto sáttmálann. Við viljum ekki ráðast í neinar stóriðjuframkvæmdir eða virkjanaframkvæmdir fyrr en búið verður að ákveða hvar eigi að vernda og hvar virkja. Náttúran á að njóta forgangs.

Þetta eru skref. Stór skref. Þetta er ein birtingarmynd hinnar víðtæku umhverfisvakningar. En reglulega gerist svo hið undarlega, þegar Samfylkingunni er í raun álasað fyrir það að vakningin var skemur á veg komin fyrir fjórum árum, þegar síðast var kosið til Alþingis. Vissulega greiddi þingflokkurinn mest allur atkvæði með Kárahnjúkavirkjun, en hann myndi ekki greiða atkvæði með sambærilegri virkjun núna. Þannig er það bara.

Önnur vísbending um það hversu skammt vakningin var á veg komin fyrir fjórum árum birtist líka á landsfundi Vinstri grænna í nóvember 2003. Kárahnjúkamálið hafði ekki flogið hátt í kosningabaráttu flokksins þá um vorið og á landsfundinum vísuðu fundarmenn frá, með lófataki, tillögu Kristjáns Hreinssonar um að VG lýsti því yfir í ályktun að flokkurinn harmaði upphaf framkvæmda við Kárahnjúka og að ekki væri of seint að hætta við. Engin stemmning var fyrir því. Kristján sagði sig úr flokknum.  

Án efa fóru þeir sem klöppuðu þessa tillögu burt árið 2003 í fræga göngu Ómars þremur árum síðar. 

Allir eiga sína sorgarsögu. Líka VG, þótt stundum sá sá flokkur í þessum málum dálítið eins og unglingur sem telur sig fyrst hafa byrjað að halda upp á Guns and Roses. Og verður svo fúll þegar aðrir byrja að halda upp á hljómsveitina líka.  

Svoleiðis andrúmsloft er ekki gott fyrir umhverfismál. Stuðningur við þau á að vera sem víðastur, en ekki þröngur og afmarkaður og bundinn einum flokki. 

En ég óttast nú samt að The Amazing Race umhverfishetjanna muni halda áfram af fullum krafti á næstu mánuðum. Þetta er orðið æsispennandi.

Stay tuned for next week´s episode: Framtíðarlandið (The Future Land). 


Ísland bakdyramegin

Samþykkt Rúv frumvarpsins í gær fékk mig til að leiða hugann að ákveðinni aðferð í íslenskum stjórnmálum, sem virðist vera mikið tekin af fagmönnum. Þessi aðferð felst í því að umdeildum málum er einhvern veginn laumað  -- tja, eða troðið, eins og í tilviki Rúv -- í gegnum stjórnkerfið bakdyramegin.

Hér sé ég ekki betur en að verið sé að einkavæða RÚV, bakdyramegin. Umdeildri stefnu er þannig kippt inn að aftan, inn í stjórnkerfið, án þess að hún sé sett hreint og klárt upp á borðið og rædd umbúðalaust. Atburðarásin, sem getur svo auðveldlega leitt til einkavæðingar, er bara sett af stað, svo erfitt verður að stöðva.

Í virkjanamálum er líka farið inn að aftan. Orkufyrirtækin fá fyrst rannsóknarleyfi. Þá bora þau holur og leggja vegi. Svo þegar kemur að sjálfu virkjanaleyfinu eru framkvæmdir hafnar í raun. Og álver fá tilskilin leyfi án umræðu og rísa fyrr en varir. Nema í Hafnarfirði. Þar er málið rætt og kosið um það, enda Samfylkingin við völd. Að öðru leyti hefur stóriðjustefnunni svo til allri verið laumað inn í Ísland bakdyramegin. 

Ójöfnuðurinn eykst án þess að nokkur taki eftir. Bilið á milli ríkra og fátækra vex í krafti skattastefnu sem hyglir hinum ríkari. Sú stefna kom ekki inn um aðaldyrnar. Hún er of óvinsæl.  Hún er óboðin. Frjálshyggjustefnan kom því inn að aftan, laumuleg.

Kvótaframsalið og tilfærsla eigna í sjávarútvegi fór öll fram bakdyramegin, án þess að nokkur fengi rönd við reist. Eitt skref í einu. Jafnvel heil leyniþjónusta virðast vera að laumast inn í stjórnkerfið að aftan og er smám saman að verða til, samkvæmt tíðum og reglubundnum fréttum, án þess að til hennar hafi formlega verið stofnað.

Ákvörðunin um að styðja Íraksstríðið var öll tekin bakdyramegin. Það er líklega frægasta dæmið og augljósasta.  

Í komandi kosningum verða kjósendur að skoða vel hvað hefur komið inn um bakdyrnar í íslenskt samfélag á undanförnum árum, órætt og óboðað.  Það eru boðflennurnar í íslensku samfélagi.


Samfylkingin og Frakkar

Þegar Íslendingar töpuðu fyrir Úkraínumönnum á sunnudaginn var ekki laust við að ég hristi hausinn í vonleysi og hugsaði með mér að nú væri íslenska landsliðið endanlega lagst í aumingjaskap. Daginn eftir burstaði svo landsliðið Evrópumeistara Frakka.

Það var heldur ekkert mergjað á sunnudaginn– á þeim annars frábæra sjötugsafmælisdegi móður minnar – að sjá forsíðu Fréttablaðsins, þar sem sagði frá því að Samfylkingin hefði mælst með 21% fylgi í skoðanakönnun.

Ekki bætti úr skák að ég var óneitanlega eilítið ryðgaður á líkama og sál eftir stórgott gigg með Ske á Akureyri kvöldið áður. Línan mín við fólkið í afmælinu, þegar könnunin barst í tal – sem hún og gerði – var sú, að ég væri að fara í gegnum það í huganum hvort það gæti hugsanlega verið að þetta fylgistap væri út af einhverju sem ég sagði.

Eitthvað sem ég myndi ekki eftir. Hafði ég talað óvarlega einhvers staðar?

Djók auðvitað. Hyper-egócentrísk nálgun. Fólk hló. En reyndar er ákveðið orsakasamhengi hér til staðar, sem er hreint ekki mér í hag: Síðan ég gekk í flokkinn hefur fylgið dalað umtalsvert.

Ég reyni auðvitað sálar minnar vegna að horfa fram hjá þessari staðreynd. Það yrði ákveðinn bömmer ef hér væri hægt að sýna fram á tengsl. Ég sé hins vegar að íbúar bloggheima eru tilbúnir með alls konar kenningar um ýmiss konar ástæður hinnar löku útkomu. Formaðurinn á að hafa sagt eitthvað. Það er stefnan. Það eru hugmyndafræðingarnir.

Ég veit hins vegar bara eitt: Ég gekk til liðs við þennan flokk fyrir nokkrum mánuðum vegna þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að innan raða hans væri fólkið sem ég ætti samleið með. Frjálslynt félagshyggjufólk. Jafnaðarmenn. Mér finnst Samfylkingin vera framtíðarafl. Eitthvað nýtt. Eitthvað sem hægt er að taka þátt í að skapa. Þar er fólkið vakandi, hugsandi og ákveðið í að vinna að umbótum á þjóðfélaginu. Málefnastarfið öflugra en nokkurs staðar annars staðar. Fólk talar saman. 

Umhverfisverndarstefnan er dæmi um þetta. Með henni á ég til dæmis samleið, sem umhverfisverndarsinni. Sú stefna er niðurstaða vinnu. Samræðu innan flokksins. Þannig er Samfylkingin lýðræðisafl. Afl sem skilur hvað er í húfi þegar talað er um opin og lifandi stjórnmál. Hún er ekki gömul stofnun. Hún er ábyrg og þenkjandi, ný og spennandi, nútímaleg, víðsýn, og sama hvað hver segir: Samstíga.

Klisjan um að Samfylkingin sé ósamstæð hjörð er nefnilega orðin einhver leiðigjarnasta bábylja íslenskrar pólitíkur. Gömul plata. Eitthvað sem ég sagði sjálfur fyrir mörgum árum, en hef nú endurmetið enda hefur Samfylkingin tekið gríðarlegum breytingum jafnt og þétt. Ég held að margt fólk eigi eftir að sjá það.

Núna er mótbyr. Vegurinn að kosningasigri verður markaður miklum átökum. En því meira sem ég hugsa um stöðuna - málefnin, fólkið og stemmninguna - er  niðurstaðan þó alltaf sú sama á endanum, þótt vissulega verði verkefnið strembið. Íslenska landsliðið sýndi það:

Við getum vel unnið Frakka.  


Utanríkisráðherra var karl

Ég fagna því að utanríkissráðherra skuli nú geysast fram á sjónarsviðið, svo gustar af pilsfaldi, með þann boðskap að nú skuli leynd aflétt af meðhöndlun varnarmála á Íslandi.

Reyndar er ég ekki viss um að ég hafi séð nokkurs staðar leynd aflétt af núverandi varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna, en mér kann að skjátlast um það efni. Hér hefur a.m.k. leynd verið aflétt af viðaukum varnarsamningsins frá 1951 og margt áhugavert komið í ljós.

Ég hef lengi haldið því fram að leynimakk einkenndi þetta samfélag fram úr hófi, ekki síst í varnarmálum. Leynimakk er andstætt hinum fögru gildum lýðræðisins, þeirri grunnhugsun að stjórnmálamenn séu þjónar fólksins en ekki öfugt. Fólkið á því að búa við opna stjórnsýslu.

Í sjálfu sér er það skrýtið að það þurfi sérstaka aðgerð og að það heyri til tíðinda, að leynd sé aflétt af gögnum frá 1951. Slíkt ætti að vera regla, fremur en undantekning. Mörg þessara skjala eru orðin æði gömul.

Valgerður kennir karlapukri um.  Þær kynjapólitísku forsendur hennar eru athyglisverðar. Hún segir karla hafa verið ábyrga fyrir leynimakkinu í varnarmálunum hingað til. Hún sé hins vegar kona.

Gott og vel. Þótt hafi beri í huga að konur fara nú aldeilis á trúnó og eiga sín leyndarmál oft fram úr hófi, að þá skulum við gefa okkur að þessi kynjamunur hvað varðar leynimakk sé réttur. Þá verður auðvitað að segjast, að þótt Valgerður eigi vissulega prik skilið nú, er mikilvægt að halda því til haga að út frá þessum forsendum hennar hefur hún sjálf ekki alltaf verið kona. Jafnvel langt í frá.

Í iðnaðarráðuneytinu í stjórnartíð hennar var leynimakkið mikið. Orkuverð til álvera er ennþá eitt dýpst grafna leyndarmál Íslands, og varðar þó mikilvæga almannahagsmuni. Ef við notum tungutak Valgerðar sjálfar er niðurstaðan því óhjákvæmileg: Þegar hún var iðnaðarráðherra var hún karl.

Ferill ráðherrans bendir því óneitanlega nokkuð sterklega til þess að hvað varðar leynimakk sé utanríkisráðherra tvíkynja.


Álver á Bakka

Ég sé að því er haldið fram hér á bloggsíðum að Samfylkingin vilji álver á Bakka við Húsavík og að flokkurinn sé þarmeð kominn í mótsögn við sína eigin stefnu, Fagra Ísland.

Það væri nú aldeilis.

Ómar Ragnarsson, sem er kærkominn nýr meðlimur í bloggheimum, gerir þetta meðal annars að umtalsefni á heimasíðu sinni. Ómar bendir réttilega á að Samfylkingarfólk á Húsavík hafi á opnum fundi með formanni flokksins á dögunum samþykkt stuðningsyfirlýsingu við álver á Bakka, enda er þetta mikið áhugamál þar í bæjarfélaginu.

Það er hins vegar rétt að halda því staðfastlega til haga – svo að menn eins og Ómar (og ég) geti andað rólegar – að þrátt fyrir áhuga og þrýsting heimamanna um að drífa í (m)álinu þá veit ég ekki betur en að Ingibjörg Sólrún hafi margítrekað þá stefnu flokksins -- eins og hún gerði á fundinum -- að ekki sé rétt að lýsa yfir stuðningi við slík áform eða önnur ámóta.  

Þetta er alveg kristaltært. Jafn tært og glitrandi bergvatnsá.

Við eigum að samþykkja rammaáætlun um nýtingu og vernd náttúrunnar -- ákveða í sátt hvar eigi að virkja og hvar vernda -- áður en tekin er afstaða til frekari stóriðjuframkvæmda.  Auk þess eigum við að virða Kyoto-sáttmálann.

Það er stefnan. Fagra Ísland.

Og í þriðja lagi eigum við að sýna ábyrgð í efnahagsmálum og gæta jafnvægis. Ekki meira ál á bálið. Það stefnir nefnilega í óefni: Á Íslandi í dag er ekki bara verið að tala um álver á bakka, heldur álver á færibandi. 


Myndum ríkisstjórn, núna!

Ég er einn af þeim sem hef nokkuð gaman af því að spá í ríkisstjórnarmynstur að loknum kosningum og hverjir verði ráðherrar og svo framvegis, ég skal alveg viðurkenna það. Ég reyni þó að segja sjálfum mér reglulega að slíkar vangaveltur séu bull og vitleysa, því hvernig sem á það er litið stendur alltaf eftir sú óhjákvæmilega staðreynd, að við verðum að kjósa fyrst. 

Og svo myndum við ríkisstjórn.

Getur Samfylkingin hugsað sér að fara með Sjálfstæðisflokknum? Mun kaffibandalagið mynda ríkisstjórn? Fara Vinstri grænir með Sjálfstæðisflokknum? Eða verður kannski R-lista stjórn?

Ég veit það ekki. Enginn veit það, skinnin mín. Við verðum víst bara að bíða og sjá. Það er bara svo afskaplega margt í mörgu, eins og konan sagði. Margt getur gerst. 

En eitt veit ég: Ég persónulega, baráttusætismaður fram á vor (urrrr!) hyggst berjast eins og hungraður rakki. Það þýðir að ég mun leggja mig fram við það, í komandi kosningabaráttu, að gera veg Samfylkingarinnar sem mestan. Og hið sama ætla félagar mínir að gera. 

Við segjum eins og Cohen: First we take Manhattan. Svo myndum við ríkisstjórn.  


Nýtt lag með Ske, gjörið svo vel (ókeypis)

Á þessum vetrarlega föstudegi er mér sönn ánægja að bjóða netverjum upp á spánýtt lag með Ske, í hverri undirritaður spilar á hljómborð. Í þágu ódýrara Íslands og lægra vöruverðs er því hér með dreift ókeypis. Megi það sparka fólki -- burtséð frá pólitískum áherslumálum og afstöðu til helstu deilumála -- í stuð fyrir helgina. Lagið heitir Svartur köttur og er titillag á samnefndu leikriti sem Leikfélag Akureyrar mun frumsýna 20.janúar. Hið fyrsta sem hljómsveitin flytur á íslensku... Hössi syngur, Paul er á trommum, Eiki á bassa, Frank og Hrannar á gítara og svo ég. 

Njótið vel.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verðbarin þjóð á norðurhjara

Fyrir jólin var greint frá því í fréttunum að eitt tiltekið barnaleikfang sem bar það fróma nafn Skelfirinn, og er sjálfsagt komið ofan í skúffu á flestum heimilum nú þegar, hafi kostað 15.000 krónur á Íslandi en einungis 3.500 krónur í Danmörku. 

Dæmin um óheyrilegt verðlag á Íslandi eru mýmörg. Verlagið hækkar bara og hækkar. Skelfirinn er bara eitt dæmi um verðlag í skýjunum.  

Tíu prósent tollar og 15% innflutningskostnaður ná að sjálfsögðu ekki að útskýra til fulls svona verð. Virðisaukaskatturinn gerir það ekki heldur. Hér er eitthvað annað og meira að, sem löngu er orðið tímabært að rannsaka ofan í kjölinn.

Leikfangasalar hljóta til dæmis að hafa komist að þeirri niðurstöðu við verðlagninu sína -- þegar þeir margfölduðu heildsöluverðið eftir innflutning með ca 5 -- að Íslendingar væru almennt tilbúnir til þess að borga himinhátt verð, enda rokseldist græjan: Fjarstýrt vélmenni með klær.

Það er alþekkt í bransanum að hár verðmiði getur skapað þá ímyndun í huga neytenda að þar með sé varan verðmæt. Fólk getur af þeim sökum ákveðið að kaupa frekar dýrari hlutinn, jafnvel þótt munurinn á honum og öðrum ódýrari sé enginn. 

Ég held að stór ástæða fyrir háu verðlagi á Íslandi sé sú að stór hópur neytenda hér á landi virðist vera reiðubúinn að borga nánast hvaða verð sem er.   Því hærra því betra. Verðskyn er með öðrum orðum ákaflega lítið. 

Fólk sem fer til sólarlanda segir frá því að sölumenn leðurjakka séu farnir að læra íslensku sérstaklega, vegna þess að þeir geti selt Íslendingum jakkana á þreföldu verði. Þeir tæla þá til sín með því að segja "Góðan daginn" á hinu ástkæra. Könnun í London leiddi í ljós að Íslendingar eyða þar þjóða mest. 

Spurningin sem blasir við er hins vegar þessi: Hvað ætlum við að gera til að ná verðlagi niður? Ekki er hægt að senda þann hluta þjóðarinnar sem hefur lítið verðskyn -- og heldur þar með verðinu uppi -- í sálfræðimeðferð? Það eru líka takmörk fyrir því hvað hægt er að sakast við kaupmenn fyrir að reyna að græða. Ef varan selst nægilega vel á því verði sem þeir setja upp, að þá er það bara þannig. That's the name of the game, eins og Kaninn segir.

Hið ótrúlega er hversu fáir virðast sjá hag sinn í því að bjóða Íslendingum upp á lágt verð. Kannski borgar það sig ekki? Kannski hefði enginn keypt Skelfinn ef hann hefði verið of ódýr? 

Það þarf að ná niður verðlagi. Það er stóra verkefnið á Íslandi í dag. Fátt yrði meiri kjarabót fyrir allan almenning, háa sem lága. Þetta er ekki heimsmet sem við viljum eiga, þótt það sé vissulega eitt af fáum sem við eigum án þess að miðað sé við höfðatölu, sem vissulega er alltaf á ákveðinn hátt tímamót. 

Þetta verkefni er margslungið. Það þarf að lækka tolla og álögur, það þarf að auka verðeftirlit og verðsamanburð af öllu tagi, það þarf að TALA um vöruverð signt og heilagt, benda á verðmiðana, skapa stemmningu í þjóðfélaginu fyrir vörulækkunum. Það þarf að efla samkeppni og síðast en ekki síst: Ísland þarf að verða hluti af stærra markaðssvæði, en ekki eyland sem setur sífellt hærri verðlagsmet í einangrun sinni.

Við erum verðbarin þjóð á norðurhjara. 

Enginn flokkur er betri í íslenskri pólitík til að takast á við þetta stóra verkefni en Samfylkingin, með allri sinni áherslu á lífskjaramál og málefni neytenda. Ódýrara Ísland. Það er markmiðið. Einfalt og augljóst.


Krónan í evruleikum

Núna þegar bankar og stórfyrirtæki eru farin að gera upp í evrum leikur mér hugur á að vita hvenær sá veruleiki gæti knúið dyra, að launþegar hér á landi færu að krefjast þess að fá borgað í evrum.  Þetta er þegar að gerast. Fregnir af Marel bárust fyrir nokkru. Þeir borga sínu fólki að hluta til í evrum. 

Þetta er auðvitað gert vegna þess að launþegunum bjóðast líka húsnæðislán í erlendum gjaldmiðli og með því að fá launin -- a.m.k. sem nemur afborgunum af lánum -- greidd í evrum er allri gengisáhættu útrýmt. Bara þetta felur í sér mikla kjarabót fyrir launþegann og aukið öryggi. 

Það kæmi mér ekki á óvart ef fleiri fyrirtæki með mikla starfsemi erlendis tækju upp þessa launastefnu. Í kjölfarið gæti krafa íslenskra launþega almennt eflst til muna, um að slíkar greiðslur ættu yfir þá alla að ganga.

Og þá held ég að krónan myndi eiga í verulegum evruleikum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband