Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

30 dagar

Ég horfði á Morgan Spurlock og spúsu hans áðan á Skjá einum í raunveruleikaþættinum -- já, já enn einn slíkur -- Þrjátíu dagar. Morgan, sem margir þekkja sem manninn sem drap sig næstum því á MacDonalds hamborgara-áti, prófar alls konar hluti og lætur tilraunina vara í þrjátíu daga. 

Fínn þáttur. Núna prófaði hann að lifa á lágmarkslaunum ásamt konu sinni í einhverju krummaskuði í Bandaríkjunum í þrjátíu daga. Niðurstaðan var auðvitað sú að það var ekki hægt. 

Það ætti að gera íslenska útgáfu af þessum þáttum, segi ég. Þáttur um það hvernig einhverjum gengi að lifa á lágmarkslaunum á Íslandi í þrjátíu daga ætti augljóslega erindi og myndi örugglega enda á sömu niðurstöðu og ytra.

Svo þyrfti auðvitað að prófa margt, margt fleira, eins og til dæmis hvernig gengi á þrjátíu dögum að hefja fiskveiðar við Íslands strendur með tvær hendur tómar og engan kvóta, eða hvernig væri að vera á Engey við strendur Afríku í þrjátíu daga, eða hvernig gengi að græða peninga í kauphöllinni á þrjátíu dögum, etc. Vinna við Kárahnjúka. Eða á barnum á Ölstofunni.     

Ég held að margir bloggarar (Egill Helgason þar með undanskilinn) gætu orðið fyrirtaks íslenskir Morgan Spurluck og gætu stjórnað svona þætti af mikilli list. Auglýsi eftir tillögum.


Álverið í Straumsvík

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun um að Alcan íhugi -- eða hafi jafnvel ákveðið (þetta var óljóst í fréttinni) -- að hætta starfsemi álversins í Straumsvík ef það verður ekki af stækkun, styrkti mig enn frekar í afstöðu minni gegn þessari stækkun. 

Ég er semsagt á móti stækkuninni, svo því sé haldið til haga. Álverið í Straumsvík var mjög mikilvægt á sínum tíma -- fyrir fjörutíu árum -- til að skapa störf og fjölbreyttara atvinnulíf. Það hefur síðan verið stór hluti af atvinnulífi Hafnfirðinga og nærsveitarmanna. Ég vil ekki gera lítið úr þessu.  Hreint ekki. En nú er öldin önnur. Hvort það eigi beinlínis að stækka álverið verður að skoðast í samhengi við annað í þjóðfélaginu.

Álverin eru núna orðin nokkuð fleiri á Íslandi. Eitt risa er að rísa á Austfjörðum. Búið er að stækka Norðurál. Húsvíkingar vilja álver. Suðurnesjamenn vilja álver. Heyrst hefur af tilburðum manna á Suðurlandi um að reisa þar álver.  

Nú verðum við einfaldlega að fara að staldra við og draga djúpt andann. Í fyrsta lagi getum við ekki byggt öll þessi álver nema að þverbrjóta Kyotosáttmálann. Í öðru lagi liggur alls ekki fyrir nein sátt um það hvar eigi að sækja orku í öll þessi álver, í þriðja lagi liggur fyrir að atvinnuástandið (sem er gott) kallar ekki á öll þessi störf, í fjórða lagi felst í því mjög óskynsamleg efnahagsstefna á þenslutímum að ráðast í svo gríðarlega stóriðjuuppbyggingu og í fimmta lagi -- og þetta varðar einmitt frétt Fréttablaðsins og það hvernig ég styrktist í afstöðu minni við að lesa hana -- við verðum að gæta þess að verða ekki of háð starfsemi erlendra álfyrirtækja.

Því hvað er einmitt að gerast í Straumsvík samkvæmt þessum fréttum? Álverið vill stækka með tilheyrandi orkuþörf og auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Hvað ef öll álverin á Íslandi vilja stækka eftir 10 til 20 ár með tilheyrandi orkuþörf og útblæstri, en annars fara af landi brott? Og ef við höfum þá gert (eins og blasir við) efnahagslífið of háð þessari álframleiðslu, í hvaða stöðu verðum við þá komin sem "sjálfstæð" þjóð? 

Undir álhæl, segi ég. 

Allt er þetta spurning um skynsemi og ábyrga atvinnu-, efnhags- og umhverfisstefnu. Viljum við/getum við farið lengra í átt að álversuppbyggingu eða eigum við að fara að líta í aðrar áttir? 

Ég segi aðrar áttir. Hikstalaust. Það geri ég bæði sem umhverfisverndarsinni og vegna skoðunar minnar á því hvað sé skynsamleg atvinnu- og efnahagsstefna. Og ég vona þess vegna að hreyfing í þessa nýju átt hefjist með því að Hafnfirðingar noti lýðræðislegt neitunarvald sitt og hafni stækkuninni.

Ég tel mig eiga samleið með Samfylkingunni í þessum efnum, já. Í engum flokki hefur þetta mál -- stóriðja og umhverfismál -- verið jafn kerfisbundið rætt og skýr stefna hefur verið mótuð. Hún heitir Fagra Ísland.


Skaupið etc.

Jæja.

Ég byrjaði árið á tómum flensuleiðindum – þó ekki fuglaflensu -- og hef legið fyrir framan sjónvarpið og sötrað Panodil Hot á meðan helstu ákvarðanir hafa verið teknar í bloggheimum um grafalvarlega hluti eins og það hvort að skaupið hafi verið gott.

Mér fannst skaupið stórfínt. Hló upphátt um og yfir 10 sinnum sem telst mjög gott á mínum bæ. Meðalskaup hjá mér er fjórir hlátrar. Þetta var því nokkuð yfir meðallagi. Baugstrailerinn stóð upp úr. Magnagrín var líka gott og Þorsteinn Guðmunds alltaf fyndinn. Innslag útvarpsstjóra og undrunarsvipur á Pétri Jóhanni og “fjölskyldu”, teiknimyndir og útúrsnúningar úr auglýsingum eins og “Góð hugmynd frá Íslandi” og Orkuveituauglýsingunni var líka allt saman stórfínt. Já og Jón Gnarr líka. Alltaf fyndinn. 

Og meðan ég man: Einn útúrsnúningur á Toyota auglýsingu hefði getið ratað í skaupið líka, í boði vinar míns Arnar Úlfars sem laumaði þessu sposkur út úr undir lok sumars, við nokkra kátínu viðstaddra: "Framsóknarflokkurinn. RisaSmár. Skráið það í orðabókina ykkar." Dáldið fyndið. En það  hefði verið skuggalegt ef höfundar skaupsins hefðu kveikt á þessu líka. Beinlínis skuggalegt. 

 Um önnur mál sem ég hef misst af út af flensu vil ég segja þetta:

- Aftaka Saddams: viðbjóðsleg og gerir illt verra.

- Kryddsíldin: Var fremur dauf þetta árið. Allir að vara sig. Athyglisvert samt hvað leiðtogarnir voru í raun með allt opið varðandi stjórnarmynstur á alla kanta. Þetta verða líklega þar með einna opnustu -- og þar með að mörgu leyti mest spennandi -- kosningar um langt árabil. 

- Alcan: Mega slaka á í gjöfum og sponsi. Nú þarf bara að ákveða kjördag, setja upp fundi, útgáfur, leyfa öllum sjónarmiðum að njóta sín og halda kosningu. Málefnalega.

- Og svo síðast en ekki síst. Umræðuefni í nánast öllum partíium og boðum sem ég hef farið í undanfarið, mér til ómældrar undrunar. Ekki spyrja mig af hverju (hvað er málið með fólk?): Kjóllinn hennar Dorritar á forsíðu Nýs Lífs. Tja, hvað skal segja? Mér fannst hann bara fínn. Stórglæsilegur.

Ekkert út á hann að setja.

 


« Fyrri síða

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband