Leita í fréttum mbl.is

Ísland bakdyramegin

Samþykkt Rúv frumvarpsins í gær fékk mig til að leiða hugann að ákveðinni aðferð í íslenskum stjórnmálum, sem virðist vera mikið tekin af fagmönnum. Þessi aðferð felst í því að umdeildum málum er einhvern veginn laumað  -- tja, eða troðið, eins og í tilviki Rúv -- í gegnum stjórnkerfið bakdyramegin.

Hér sé ég ekki betur en að verið sé að einkavæða RÚV, bakdyramegin. Umdeildri stefnu er þannig kippt inn að aftan, inn í stjórnkerfið, án þess að hún sé sett hreint og klárt upp á borðið og rædd umbúðalaust. Atburðarásin, sem getur svo auðveldlega leitt til einkavæðingar, er bara sett af stað, svo erfitt verður að stöðva.

Í virkjanamálum er líka farið inn að aftan. Orkufyrirtækin fá fyrst rannsóknarleyfi. Þá bora þau holur og leggja vegi. Svo þegar kemur að sjálfu virkjanaleyfinu eru framkvæmdir hafnar í raun. Og álver fá tilskilin leyfi án umræðu og rísa fyrr en varir. Nema í Hafnarfirði. Þar er málið rætt og kosið um það, enda Samfylkingin við völd. Að öðru leyti hefur stóriðjustefnunni svo til allri verið laumað inn í Ísland bakdyramegin. 

Ójöfnuðurinn eykst án þess að nokkur taki eftir. Bilið á milli ríkra og fátækra vex í krafti skattastefnu sem hyglir hinum ríkari. Sú stefna kom ekki inn um aðaldyrnar. Hún er of óvinsæl.  Hún er óboðin. Frjálshyggjustefnan kom því inn að aftan, laumuleg.

Kvótaframsalið og tilfærsla eigna í sjávarútvegi fór öll fram bakdyramegin, án þess að nokkur fengi rönd við reist. Eitt skref í einu. Jafnvel heil leyniþjónusta virðast vera að laumast inn í stjórnkerfið að aftan og er smám saman að verða til, samkvæmt tíðum og reglubundnum fréttum, án þess að til hennar hafi formlega verið stofnað.

Ákvörðunin um að styðja Íraksstríðið var öll tekin bakdyramegin. Það er líklega frægasta dæmið og augljósasta.  

Í komandi kosningum verða kjósendur að skoða vel hvað hefur komið inn um bakdyrnar í íslenskt samfélag á undanförnum árum, órætt og óboðað.  Það eru boðflennurnar í íslensku samfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Er endilega í alla staði slæmt að bilið á milli ríkra og fátækra aukist?

Nú telst ég sennilega með þeim fátækari og fyrir mér virðist þessi umræða stjórnast eingöngu af öfundsýki.

Það er nú bara þannig að í þjóðfélagi þar sem fólk hefur tækifæri á að verða ríkt virkar mjög hvetjandi á almenning sem aftur eykur hagvöxt. Eins er það svo að þegar einhverjir hafa síðan eignast fúlgur fjár þá fara þeir að fjárfesta sem síðan við þessum fátækari getum fengið vinnu við.

Það er löngu sannað að með því að leyfa einhverjum að verða ríkari, þá hafa þeir fátæku það líka betra (ef þeir eru ekki illa haldnir af öfund). Bilið á milli ríkra og fátækra hefur ekki verið að aukast á kostnað þeirra fátæku, þ.e.a.s. að þeir fátæku hafa ekki verið að verða fátækari.

Viljum við meiri jöfnuð sem veldur minnkandi hagvexti, auknu atvinnuleysi og verri kjörum fyrir alla, ríkra sem fátækra?

Ágúst Dalkvist, 24.1.2007 kl. 12:44

2 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Þessi öfundarumræða er svo stórkostlega kjánaleg og ómálefnaleg að ég get eiginlega ekki orða bundist.

Þegar maður spáir í tækifæri til athafna og einkaframtaks er svo sem bara gott og gilt að það sé til staðar ... en málið er nú samt þannig að þeir sem taka sig til og stofna fyrirtæki eða skaffa hinum okkur fátæka lýðnum vinnu mega samt ekki hafa leyfi til þess gjörsamlega að níðast á okkur og halda okkur undir fátæktrarmörkum með laununum sem þeir borga. Auðvitað er það bara sjálfsagt að þeim séu settar reglur um lágmarkið sem þeir mega greiða og það á ekki að vera svo lágt að það geti varla lifað af því! Auðvitað er miklu betra að allir starfsmenn fyrirtækis hafi það bara ágætt þannig að álagið af fátæktaráhyggjum verði ekki of óþolandi því það veldur okkur öllum erfiðleikum líka og jafnvel sjúkdómum - eða heilsukvillum. Það borgar sig einfaldlega fyrir okkur öll að enginn sé fátækur - dregur úr heilsukvillum, dregur úr þjófnaði, dregur úr alls kyns samfélagslegu rugli.

Höldum bara öllum fyrir ofan fátæktina og höfum það öll gott saman! Það er bara allt í lagi þótt stórfyrirtæki græði milljarðinum minna á ári hverju og hugsi almennilega um starfsfólkið sitt! Það á ekki að líta á fólk sem þræla sem eiga að setja meira í vasa hinna ríku. Þannig er það í dag. Hinir ríku eru í raun bara að borga hinum alltof lítið fyrir vinnu sína, sem þó eru að skapa arðinn innan fyrirtækisins. Það er ekki mannvirðing.

Andrea J. Ólafsdóttir, 24.1.2007 kl. 14:50

3 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Góð grein. Þetta á annars við um fleiri þætti RÚV-frumvarpsins því að með því er verið að auka skattlagningu á láglaunafólk en minnka skattlagningu á hátekjufólk sem aðeins hefur fjármagnstekjuskatt.

Allt þáttur í því sem virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar að hækka lágtekjuskattinn en lækka eða fella niður hátekjuskatta.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 24.1.2007 kl. 15:26

4 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Því miður Andrea, öll rök afsanna allt sem þú skrifar í þessari athugasemd hérna fyrir ofan.

1. Það eru færri fátækir í dag eftir að sumir fá að vera ríkir heldur en var fyrir nokkrum árum. Þeir sem hafa lægstu launin hafa það betra núna heldur en þeir sem höfðu lægstu launin fyrir nokkrum árum. Þú vilt leggja þetta af svo þeir fátæku geti aftur orðið fátækari.

2. Ríkið hefur mikið hærri skatttekjur nú en áður. Allir vita hvaða þíðingu það hefur. Þú virðist vilja minnka tekjur ríkissjóðs.

3. Jóhannes í Bónus, ef við tökum hann bara einn sem dæmi, hefur styrkt Barnaspítala Hryngsins um stórar upphæðir. Hann er ekkert einsdæmi. Börnin okkar hafa það mikið betra fyrir vikið. Þú vilt koma í veg fyrir að fólk geti fjárfest og grætt peninga og styrkt land og þjóð.

Að koma á algjörum jöfnuði er einhver besta hugsun sem til er en málið er bara það að mannlegt eðli kemur í veg fyrir að hún geti virkað í raun. Ég vil fólk við stjórnvölinn sem stjórnar með heilanum en ekki hjartanu eingöngu.

Ágúst Dalkvist, 24.1.2007 kl. 18:17

5 identicon

Þetta er skrýtin umræða hér að ofan um innihaldið í pistli Guðm.Steingríms.  Það eru ekki nokkur minnstu tengsl álitsgefenda við það sem pistillinn fjallar um, þ,e það "stjórnkerfi " sem við höfum búið við nú um árabil í tíð núverandi ríkisstjórnar ---- er fólk virkilega svona alveg úti að aka og sljótt að því finnist þessi fullkomlega ólýðræðislegu vinnubrögð í lagi ???      Endilega tjáið ykkur um merg málsins

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 24.1.2007 kl. 18:54

6 Smámynd: Kristján Pétursson

Órökstuddar fullyrðingar Ágústar að fátækum fækki eftir því sem ríkum fjölgar er bara eldgömul íhaldslumma.Allar tölur frá hjálparstofnunum sanna að þeim sem þurfa á fjárhaldslegri aðstoð að halda er sífellt að fjölga.Þú kannski notast enn við formúlu Davíðs Oddssonar,sem sagði:"vilja ekki allir fá matargjafir"Þessir nýríku Íslendingar eru farnir úr landi og stjórna sínum fyrirtækjum frá skúffufyrirtækjum í Karabiskahafinu,sem enga skatta greiða til síns heimalands.Heldur þú virkilega Ágúst að þessir ríku menn fækki fátækum á Íslandi.

Kristján Pétursson, 24.1.2007 kl. 23:15

7 Smámynd: Áslaug Sigurjónsdóttir

Þetta að koma bakdyramegin með sín málefni er ekki gott.  Flokkarnir eiga að koma heiðarlega fram og koma fram með öll gögn sem málið snýst um.

Áslaug Sigurjónsdóttir, 24.1.2007 kl. 23:15

8 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Það er skelfilega augljóst að það er verið að einkavæða RÚV.... ég er nokkuð viss um að "virðulegur" menntamálaráðherra er með kaupanda af öllu heila klabbinu sem býður bara eftir að skrifa undir. Ömurlegt að horfa upp á þessi bananalýðveldis vinnubrögð í hverju málinu á fætur öðru.

Og.. Hvaðan halda menn eiginlega að peningarnir sem enda á trjám þeirra sem mest eiga? Varla heldur fólk að þeir séu prentaðir jafnóðum inn á kontór! Ég hef ekki orðið vör við að vesalingurinn sem væflast um miðbæinn hafi fengið bita af kökunni fínu. Þeim var amk ekki spanderað í úlpu

En ég skil svo sem hvatir íhaldsblaðursins. Ef ég væri blind á siðferðislegt gildi þess að fólk hafi það skítsæmilegt í velferðaþjóðfélaginu Ísland þyrfti ég líka að ljúga mig fulla af svona fagurgala, þó ekki væri nema bara til að geta horft í spegil 

Heiða B. Heiðars, 25.1.2007 kl. 01:13

9 identicon

Komið þið sæl, öll sem eitt !

Ég spyr ykkur hin ? Hvaðan úr sólkerfum alheimsins er þessi hrekklausi drengur, Ágúst Dalkvist sprottinn ? Er hann að gera grín að ykkur, og sjónarmiðum ykkar, eða............ er hann alinn upp á frjálshyggju kámugum hnjám Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Péturs Blöndal ? Hann spyr Andreu hvort hún vilji minnka tekjur ríkissjóðs, ríkið hafi svo miklu hærri skatttekjur nú en verið hafi, og allir viti hvaða þýðingu það hafi !

Ágúst !!!!! Hvaða þýðingu hafa mun hærri tekjur ríkissjóðs, fari þær í allskyns bruðl, sbr. UMSÓKN ÍSLANDS Í ÖRYGGISRÁÐ SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA - AÐILD ÍSLANDS, AÐ HINU AFLEITA EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐI - TUGIR SENDIRÁÐA OG SENDIHERRA, HINGAÐ OG ÞANGAÐ, ÚT UM HEIM - OG MONTÞJÓÐHÖFÐINGJA EMBÆTTI, Á BESSASTÖÐUM !!! Já, mér er andskotans sama, Ágúst minn, þótt þú sigir niður, í stól þínum, við tölvu þína ! Hvað væri hægt að gera; við alla þá milljarða, sem Árni Mathiesen og fyrirennarar hans hafa verið að safna, undir sig; á kostnað almennings í þessu landi ? Er það ekki borðliggjandi;;; Sturlu frænda minn Böðvarsson samgönguráðherra þyrstir í fjármagn, til vegabóta, m.a.; Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra vantar umtalsvert fjármagn, þó ekki væri nema til mönnunar lögregluumdæmanna, já; jafnt í Reykjavík sem og úti á landi !!!! SVO DÆMI SÉU TEKIN !  Ágúst ! sjáðu hvar komið er í heilbrigðiskerfinu, skal fólk detta niður örent, þar sem hnignun spítalageirans er slík, að hið kappsama og metnaðarfulla starfsfólk er að niðurlotum komið, sökum fjárskorts til góðra verka ? Hvernig í fjandanum ætlar þú, að svara þessum spurningum mínum ?

Þakka Guðmundi fyrir að hefja umræðuna, en því miður.......Guðmundur, Ingibjörg stórfrænka mín Sólrún, er ekki, fremur en Steingrímur J. eða aðrir forkólfar flokkanna, í stakk búin að koma skikk á þjóðfélagsmeinin, eru of samdauna einkavæðingar- og frjálshyggjuósómanum, til þess að taka á þessum stórmálum, kannski Ágúst Dalkvist hafi svör á reiðum höndum, til hverra bjargráða grípa skyldi ? Þá væri vel !

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum       

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 25.1.2007 kl. 02:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband