Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Hugleiðing um peningamálastefnu

Ég skil eiginlega ekki hvernig er hægt að halda öðru fram en að peningamálastefnan, svokölluð, sé bitlaus. Lítum á: 

- Verðbólga hefur í örfáum undantekningatilfellum verið samvæmt markmiðum á undanförnum árum.

- Það er ekkert lát á framkvæmdum. Háhýsin rísa sem aldrei fyrr... (á erlendum lánum væntanlega)

- Skuldir aukast og aukast.

Þetta síðasta þykir mér einna merkilegast. Þrátt fyrir himinháa vexti er ekkert lát á yfirdráttarskuldum. Ef peningamálastefna Seðlabankans ætti að virka einhvers staðar, að þá væri það þar.

Ég er með kenningu um þetta, grófa, sem ég ætla að varpa fram svona rétt til þess að setja eitthvað í púkkið með öllu því sem hefur verið skrifað um málið (áhrif jöklabréfa, hið tvöfalda hagkerfi etc.): 

Ég held að vaxtastigið sé að mörgu leyti eins og áfengisverð. Það hefur mun minni áhrif en við viljum að það hafi. Þegar keypt er áfengi, er það vel þekkt að fólk kaupir það sem það þarf, en ekki bara það sem það hefur efni á. Um þetta var dálítil umræða í sumar sem leið. Það þykir marklaust að halda veislu, ef ekki er nóg boðið af veigum.

Að sama skapi held ég að það sé ríkt hjá þjóðinni að taka einfaldlega þau lán sem hún þarf, en ekki bara þau sem hún hefur efni á. Það er engu líkara en að það sé ekki spurt um vexti. Þetta er ein birtingarmynd hins margfræga "þetta reddast"-hugarfarins. 

En af hverju "þarf" þjóðin svona mikil lán? Mikil neysla er eitt. Krafan um neyslu er mikil. Kostnaðarvitund er að sama skapi lítil (samanber misheppnaðar virðisaukaskattslækkanir á matvælum). Fólk virðist því kaupa það sem það vill kaupa á því verði sem sett er  upp. 

Þetta eru kjöraðstæður fyrir banka og kaupmenn.  

En ég held hins vegar að þetta sé full einföld mynd af ástandinu og ekki fyllilega sanngjörn. Við erum ekki upp til hópa kaupóðir vitleysingar, þó svo margir séu það.

Ég held að ekki síðri áhrifaþáttur í skuldasöfnun heimilanna á þessum þenslu- og hávaxtatímum sé einfaldlega sá, að laun stórra hópa í samfélaginu eru orðin of lág. Fólk nær einfaldlega ekki endum saman. Laun nægja ekki fyrir föstum útgjöldum, viðhaldi húsa, frístundastarfi barna etc. 

Ein birtingarmynd þessa ástands er sú, að fólk er hreint og beint hætt að sækja um afgreiðslu- og umönnunarstörf, sem og kennarastörf. Þau borga sig ekki og leiða einungis til enn meiri skuldasúpu. Fyrsta skrefið fyrir æ fleiri er því að koma sér út úr þeim og í eitthvað annað. Þessi þróun er að gerast fyrir framan nefið á okkur og er ískyggileg. 

Til þess að heimilin losni úr skuldasúpu sinni --án þess að fólk þurfi beinlínis að yfirgefa nauðsynleg samfélagsleg störf --, og til þess að peningamálastefnan mögulega virki, þarf stöðvun skuldasöfnunar, svo ekki sé talað um sparnað og niðurgreiðslu skulda, að vera raunhæfur kostur fyrir þennan stóra hóp almennings sem um ræðir. Þannig er það ekki í dag.

Til þess að svo verði, þarf að búa svo um hnútana að þessi hópur sem setið hefur eftir, skuldum hlaðið á lágum launum, hafi úr meiru að spila. Þetta er hægt með 1) launahækkunum, 2) aðgerðum í skattkerfinu, 3) aðgerðum í verðlagsmálum og í framtíðinni, mögulega, 4) evrunni.

Ef ekkert er gert, er hávaxtastefnan ekkert annað en snara um háls þeirra sem síst skyldi. 

Eða kannski meira eitthvað svona...

T-Rex trampar á húsi

 

 



Spegill Ahmadinejads

Ahmadinejad Íransforseti virðist hafa flutt dálítið undarlegan fyrirlestur í Columbia. Kannski var ekki við öðru að búast. Dálítið bil er á milli hans þankagangs virðist vera og hinna frjálslyndari íbúa Vesturlanda, sem ekki síst er að finna í skólum eins og Columbia. 

Það eru margar hliðar á þessari uppákomu. Auðvitað eru yfirlýsingar Ahmadinejads, til dæmis, um að í hans landi séu engir hommar lítið meira en hlægilegar. 

En spáum nú samt aðeins í þessa yfirlýsingu, þó ekki væri nema bara í þágu hugarleikfiminnar. 

Þessi yfirlýsing Ahmadinejad, ef við einskorðum okkur bara við hana -- þótt um margt annað mætti skrifa úr ræðu hans-- leiðir auðvitað hugann að því, að stjórnmál á Vesturlöndum hafa einnig einkennst af alls kyns afneitunum á raunverulegum og sönnum hlutum í gegnum tíðina, mörgum mjög alvarlegum.

Í dag var til að mynda Condoleza Rice að stíga stór skref í því að viðurkenna gróðurhúsaáhrif sem raunverulegt vandamál, en Bandaríkjamenn hafa verið tregir í taumi hvað aðgerðir gegn þeim varðar um langt árabil. Stjórnvöld þar hafa einfaldlega verið treg til að viðurkenna tilvist þeirra. 

Hér vil ég taka fram að ég er alls ekki að bera saman homma og gróðurhúsaáhrif.... Punkturinn er hins vegar sá, að hugsanlega fer það okkur Vesturlandabúum illa að hlæja að afneitunum annarra, þegar við sjálf erum sek um að "taka strútinn" eins og það kallast, þ.e. að stinga höfðinu í sandinn, hvað varðar ýmislegt. 

"Á Íslandi er engin spilling"

"Á Íslandi eru allir hamingjusamir"

"Á Íslandi er engin stéttaskipting."

Allt eru þetta setningar sem ég gæti vel ímyndað mér að fallið hefðu úr munni íslenskra stjórnmálaleiðtoga á erlendri grundu á undanförnum árum og áratugum, og hafa reyndar fallið nokkrum sinnum innanlands ef ég man rétt. Setning Íransforseta um samkynhneigða -- í ljósi þess að honum líkar greinilega ekki við þá og vill þar af leiðandi ekki að þeir séu til -- lýsir ámóta "wishful thinking" af hans hálfu.

Hvað varðar homma ættu Bandaríkjamenn heldur ekki að hlæja of mikið. Ég veit ekki betur en að kvikmyndin Brokeback mountain hafi til að mynda verið tekin úr sýningu á mörgum svæðum í Bandaríkjunum á þeim forsendum að yfirvöld og íbúar á þeim svæðum viðurkenndu ekki tilvist samkynhneigðra.

Ég skrifaði pistil um þetta á sínum tíma. Ég var nefnilega staddur í Bandaríkjunum. Mér fannst það skrýtið að maður þyrfti að viðurkenna tilvist einhvers til þess að leyfa -- eða njóta -- sýningar á kvikmynd sem fjallaði um það. Hvað með StarWars? Þarf maður að viðurkenna tilvist Loga geimgengils áður en maður horfir á myndina? 

En hvað um það. Ég er hreint ekki aðdáandi Ahmadinejads. Mér finnst hins vegar forysta Bandaríkjanna eiga dálítið erfiðan málstað að verja í viðureign sinni við hann, einkum vegna sinnar eigin hegðunar í mannréttindamálum og einnig út af dálitlum órökstuddum blóðugum stríðsrekstri sem átt hefur sér stað á undanförnum árum að hennar frumkvæði, byggðum á ásökunum um kjarnorkuvopnaeign sem engin var.

Þess má líka geta að Ahmadinejad barðist fyrir hönd Írana gegn Írökum á sínum tíma, sem studdir voru með ráð og dáð af Bandaríkjunum í viðurstyggilegu 10 ára stríði sem átti sér stað á milli þjóðanna hér einu sinni. Hugsanlegt er að honum sé ekki vel við Bandaríkin út af þessu.

Þetta er allt saman slæmt. Í viðureignum Vesturlanda við menn eins og Ahmadinejad og aðra þjóðarleiðtoga sem láta sér mannréttindi í léttu rúmi liggja heima fyrir, er gríðarlega mikilvægt að Vesturlönd sjálf geti sýnt gott fordæmi þegar á hólminn er komið og standi á siðferðislegu bjargi lýðræðis og mannréttinda.

Upp á þetta vantar, svo vægt sé til orða tekið.  

Ég held það hafi verið gott að Ahmadinejad hafi fengið að tala og einnig gott að hann fékk orð í eyra frá skólastjóranum í Columbia, en sá var ekki að skafa utan af því í kynningu sinni á Íransforseta.

Hið besta við þennan viðburð var auðvitað það að hann var lifandi vitnisburður þess, að þrátt fyrir allt er það hægt á Vesturlöndum sem er ekki endilega hægt í Íran nú um stundir: Að tala saman.


Á þing í okt.

Í október, nánar tiltekið 8.okt, fer ég á þing og mun sitja í tvær vikur. Árni Páll Árnason fer á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ég leysi hann af. 

Ætli maður verði ekki að vera með bindi.  

 


Húfuslagur

Þá er löggan byrjuð að láta sjá sig í miðbænum um helgar. Mig minnir að það hafi verið eitt af skilgreindum verkefnum sérsveitarinnar, þegar fjölgað var í henni hér um árið við mismikinn fögnuð, að hún ætti að hlaupa í störf almennrar lögreglu eftir því sem á því væri þörf. 

Það var löngu orðin þörf fyrir meiri löggæslu í miðbænum, þannig að mikið var.

Annars voru þetta dálítið fyndnar fréttir af þessari fyrstu nótt sérsveitarinnar í miðbænum. Einhver jólasveinn reyndi að taka húfuna af Herði. Átök í kjölfarið

Minnir mig dálítið á Flataskóla. 

Fínt að löggan er komin á svæðið. Ég vona samt að þetta verði ekki eins og í gamla daga þegar það var gerð einhver svona rassía. Þá voru nokkrir vinir mínir á menntaskólaaldri að koma úr bíó. Tveir þeirra fóru að tuskast til um það, í gríni, hvor þeirra ætti að sitja í framsætinu á leiðinni heim. 

Löggan kom og stakk þeim báðum í svörtumaríu og upp á stöð.

Lengi í minnum haft. Þetta menntaskólatusk var talið grafalvarlegt mál, alveg sama þótt enginn hafi reynd að taka af neinum húfuna.  


3G og Jesús

Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega þessa viðkvæmni kirkjunnar manna gagnvart nýjum auglýsingum Símans. Þessar auglýsingar eru fantasía, ósköp smekklega gerðar, um það hverju það hefði breytt fyrir gang veraldarsögunnar ef hinir og þessir, eins og Jesús og Júdas, hefðu haft myndsíma.

Þetta er alþekkt form. Svona "hvað ef?" spurningar. Og þetta getur oft verið fyndið og skemmtilegt og leitt til hugleiðinga um veraldarsöguna og hvernig hún hefði getað farið öðruvísi og þar fram eftir götunum. Ég geri ráð fyrir að Síminn ætli sér að koma með fleiri auglýsingar af svipuðum meiði. Armstrong að ganga á tunglinu með myndsíma. "Það er ekki nokkur skapaður hlutur hérna!" Saddam Hussein ofan í holunni. 

Líklega mun Kaninn finna Osama bin Laden á þenna hátt. Hann hringir óvart úr myndsíma.

Annars segi ég nú bara: Mikið var að þetta 3G dót er loksins komið á markað.  Það er búið að vera að tala um þetta síðan um aldamótin. Í öllu þessu fári kringum auglýsinguna, hefur Símanum hins vegar ekki alveg gefist nægilega mikill kostur á því að útskýra fyrir fólki hvað þetta dót er. 

Ég heyrði að fulltrúi frá samkeppnisaðila notaði tækifærið og fór í viðtal til þess að útskýra einmitt það. Þetta er jú gott fyrir svona myndsímtöl, þannig að maður geti sýnt fólki hvar maður er og svona, og svo er þetta fínt til þess að tengja tölvuna við og fara á netið, og svo mun þessi aðili hafa greint frá því líka, heyrði ég, að það væri meira að segja hægt að hringja í ísskápinn sinn úr svona síma.

Ég veit ekki alveg hvernig það fer fram, en það er þá væntanlega til þess að tékka á því hvað er í honum. "Er jógúrt?" "hversu mörg?" "Jarðarberja eða karamellu?" "o.k. bæ"

Hér geri ég ráð fyrir að ísskápurinn hafi ekki rödd -- því það finnst mér hálf óhuggulegt -- heldur svari á einhvern óræðan hátt, en hvað um það.

Mér finnst þetta æðislegt. Mig hefur alltaf langað til þess að hringja í ísskápinn minn. 

Af hverju? Jú, mig hefur alltaf langað til þess að vita hvort það er ennþá ljós í honum eftir að maður lokar.


Að ráðast aðeins á Íran

Hún heyrist reglulega sú hugmynd að vestan að rétt sé að ráðast aðeins á Íran. Núna ku George Bush vera dálítið svag fyrir því að fara í "þriggja daga leifturárás" eins og það er kallað á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Stríð fyrir Bush er eins og borgarferðir fyrir aðra. 

"Ég væri til í að gera smá árás núna um helgina, Laura. Á Íran. Hvað finnst þér?"

Ég veit ekki hvað svona stríð kostar, en það kostar nokkrum dollurum og nokkrum mannslífum meira en helgarhopp. Auk þess sýnist mér að Bush sé nokkuð gjarn á að kaupa bara miða aðra leiðina, eins og þegar hann fór til Írak. Hann ætlaði bara smá að steypa Hussein og koma svo aftur, en ferðin stendur enn. 

Mig minnir að fyrir rúmu ári eða svo hafi hernaðarfræðingar verið búnir að finna það út að það hentugasta fyrir svona helgarinnrás væru svokallaðar staðbundnar, takmarkaðar kjarnorkusprengjur. Svona littlir djöflar sem sprengja bara smá í kringum sig. Sprengjur sem sprengja mikið eru svo rosalega eighties eitthvað. Alveg búnar. 

Lítil kjarnorkusprengja er allt sem þarf. 

Ég veit ekki með ykkur, en ég er farinn að telja dagana þar til George Bush lætur af embætti. Það liggur við að mér sé orðið sama um hver tekur við. Bara að þessi maður hætti.  

Þetta er komið gott.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband