Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
14.3.2007 | 00:50
Ódýr og snjöll hugmynd
Hugmyndir um úrbætur í samfélaginu þurfa ekki alltaf að fela í sér kostnað upp á tugi milljarða. Það þarf ekki endilega að ganga á hólm við náttúruperlur og rústa lífríki til þess að grípa til aðgerða í atvinnumálum, eins og það er kallað. Það þarf ekki alltaf að hjakka í sama farinu þegar vandamál lands og þjóðar eru annars vegar.
Stundum er bara betra að leggja hausinn í bleyti.
Það er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að tala í lausnum í pólitík. Samfylkingin hefur undanfarið beint sjónum sínum að byggðamálum, sem fela í sér eitthvert stærsta og erfiðasta úrlausnarefni íslenskra þjóðmála.
Byggðirnar eru að deyja. Hvað er hægt að gera? Allar lausnir vel þegnar.
Ein slík lausn sem Samfylkingin hefur sett fram auðvitað engin allsherjarlausn á vandanum, en þó ansi drjúg gengur undir heitinu Störf án staðsetningar. Markmiðið er að auka framboð atvinnu úti á landi.
Störf hjá stofnunum og fyrirtækjum á vegum ríkisins eru 25 til 30 þúsund. Þessi störf eru langflest á höfuðborgarsvæðinu, en hins vegar er það ekkert launungarmál að stóran hluta þeirra má vel vinna annars staðar, þar sem háhraðanettenging er fyrir hendi.
Til að mynda þarf einstaklingur sem vinnur við þýðingar fyrir Umhverfisstofnun alls ekkert að vera staddur á höfuðborgarsvæðinu. Hann getur vel unnið verkið á Bolungarvík.
Áætlað er að um 20% opinberra starfa séu svona. Þau má vinna hvar sem er.
Miðað við árlega starfsmannaveltu hins opinbera má gera ráð fyrir að um 300 til 400 svona störf losni á ári hverju. Þau störf má auglýsa með sérstakri hvatningu til landsbyggðarfólks um að sækja um.
Á tíu árum er verið að tala um ca. 4000 störf, og þá er ekki gert ráð fyrir því að ýmsar tækniframfarir geta orðið sem auka að öllum líkindum enn frekar möguleikana á störfum án staðsetningar.
4000 störf út á land er ekkert lítilræði. Sérstaklega þegar slíkt er hægt að gera án fyrirhafnar og án mikilla útgjalda. Bara með skynsemina að leiðarljósi.
Að sjálfsögðu er Samfylkingin búin að leggja fram frumvarp um þetta mál á Alþingi og að sjálfsögðu hefur það ekki enn verið tekið til umfjöllunar.
Til þess að koma svona hugmyndum í framkvæmd og öðrum góðum þarf Samfylkingin að komast til valda.
Annars gerist ekki neitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
13.3.2007 | 12:48
Kvótakerfið kórónað
Ég er ekki viss um að allir átti sig á því að ef stjórnarskrárbreyting ríkisstjórnarinnar, um auðlindir sem sameign þjóðarinnar, nær fram að ganga er að öllum líkindum verið að geirnegla það óréttlæti sem felst í kvótakerfinu, alla þá eignatilfærslu sem þjóðin er búin að vera brjáluð yfir síðan 1983, inn í sjálfa stjórnarskrána.
Frumvarpið hljómar voðalega vel, svona í fyrirsögn: Auðlindirnar eiga að vera sameign þjóðarinnar. Við fyrstu sýn er eins og gamalt baráttumál Samfylkingarinnar sé að verða hér að veruleika, en það er aldeilis ekki.
Í skýringum með frumvarpinu segir nefnilega: "Með ákvæðinu er til dæmis ekki haggað við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem hagnýta jarðir og ýmis fasteignatengd réttindi eða stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda."
Semsagt: Það á ekki að hagga við eignar- og afnotaréttindum þeirra sem stunda fiskveiðar á grundvelli veiðiheimilda.
Semsagt: Ef frumvarpið nær í gegn munu þeir sem sýsla nú með kvótann geta vísað í sjálfa stjórnarskrána ef ríkisstjórnir framtíðarinnar vilja á einhvern hátt draga í efa að þeir eigi þar með fiskinn í sjónum.
Ekki verður annað séð, en hér sé verið að lögfesta í stjórnarskrá rétthærri heimild til nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar en nú er, án nokkurra takmarkana. Líklega er þar með verið að lögfesta varanlegan nýtingarrétt einkaaðila á sameign þjóðarinnar.
Að því gefnu að ákvæðið sé ekki einfaldlega marklaust eins og það er sett fram -- og niðurstaðan verði því stórbrotin réttaróvissa -- að þá verður ekki betur séð en hér sé verið að kóróna óréttlæti kvótakerfisins. Hér er mögulega verið að binda umdeildustu eignatilfærslu íslenskrar nútímasögu í stjórnarskrá.
Stundum er sagt að það sé enginn munur á flokkunum og þeir séu allir að bulla það sama. Slíkar bábyljur eru varasamar, einkum og sér í lagi þegar þær byrgja kjósendum sýn á grundvallaratriði eins og blasa við í þessu máli.
Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur. Samfylkingin hefur alltaf boðað að auðlindir þjóðarinnar , fyrir utan þær sem eru beinlínis háðar einkaeignarétti, eigi að vera í þjóðareign. Þetta á m.a. að gilda um fiskimiðin. Síðan hefur Samfylkingin boðað að jafnræðisregla eigi að gilda þegar ákveðið er hverjir fái heimildir til að nýta þessar auðlindir. Slíkar heimildir séu, með öðrum orðum, veittar á réttlátan og sanngjarnan hátt gegn gjaldi sem rennur til þjóðarinnar. Nýtingarétturinn leiði síðan aldrei til einkaeignar, þó svo hann njóti vissulega ákveðinnar verndar og honum megi ekki breyta nema með góðum fyrirvara.
Bara svo fólk átti sig á þessu: Í þessu máli takast á tvær grundvallarhugsjónir í stjórnmálum liðinna alda, hvorki meira né minna: jafnaðarmannastefnan og einstaklingshyggjan.
Auðlindir í almannaeigu vs. auðlindir í einkaeigu.
Sagði ekki einhver að allar kosningar á Íslandi snérust um fisk?
12.3.2007 | 16:14
Írak
Í morgun heyrði ég vitnað í Hans Blix í fréttum. Nú eru u.þ.b. fjögur ár frá innrásinni í Írak. Blix var að segja það sem hann hefur áður sagt. Það voru aldrei nein gereyðingarvopn í Írak. Núna bætir hann við að hann telji að Bandaríkjamenn og Bretar hafi í raun verið á nornaveiðum þegar ákveðið var að ráðast inn í landið. Staðreyndum var hnikað, óstaðfestum grunsemdum breytt í fullyrðingar. Allt í áróðursskyni.
Við studdum þetta. Davið og Halldór settu þjóðina á stuðningslista. Það verður ekki framhjá því litið.
Í fjögur ár hafa þeir sem bera ábyrgðina á þeirri ákvörðun reynt að flýja gagnrýni með alls konar brögðum. Hér eru nokkur dæmi, í grófum dráttum, til upprifjunar:
- Þeir sem voru á móti innrásinni voru og eru afturhaldskommatittir. (Davíð Oddsson)
- Það er allt í stakasta lagi í Írak. (Davíð Oddsson).
- Við höfum hvort sem er engin áhrif. (Geir Haarde)
- Stuðningurinn var mistök eða rangur. (Jón Sigurðsson á miðstjórnarfundi XB)
- Nei annars, ég meinti það ekki þannig... (Jón Sigurðsson á þingi)
Á máli margra flokksmanna ríkisstjórnarflokkanna má heyra að þeir telji skynsamlegt að beita línunni: "Það er auðvelt að vera vitur eftir á" þegar Íraksstríðið berst í tal.
Þessi lína gengur auðvitað ekki. Um 90% þjóðarinnar voru á móti þessum stuðningi. Hans Blix, SÞ og alþjóða kjarnorkumálastofnunin voru öll að reyna að benda Bush og öðrum herskáum leiðtogum á það að forsendur fyrir innrás væru litlar sem engar.
Í þessu máli var svo auðveldlega hægt að vera vitur fyrirfram. Þetta er líklega eitt stærsta sár sem íslenskir þjóðarleiðtogar hafa veitt þjóð sinni fyrr og síðar. Og það er ennþá opið.
Við Íslendingar höfum nefnilega ekki gert eins og t.d. Spánverjar. Þeir kusu burt þau öfl sem studdu þetta stríð. Jafnaðarmaðurinn Zapatero var þar leiddur til valda og nú er það ekkert vafamál: Spánverjar styðja ekki þennan viðbjóð.
Íslenska þjóðin getur vel tekið svona ákvörðun líka. Það eru kosningar í nánd. Samfylkingin hefur ítrekað lagt til á þingi að Ísland verði tekið af stuðningslistanum. Það hefur aldrei verið samþykkt. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa við þau tækifæri undantekningalaust gripið til þeirra misgáfulegu og sundurlausu varnarviðbragða sem hér að ofan er getið.
Fréttirnar tala sínu máli um nauðsyn þess að Íslendingar geri upp þetta mál: Á hverjum degi deyr fólk í þessu stríði í Írak sem er hvergi nærri lokið. Um 750 þúsund manns hafa dáið í átökum síðan það hófst. Það er ríflega tvöföld íbúatala Íslands.
Sér ríkisstjórnin eftir stuðningi sínum?
Ég get ekki séð það. Þann 20.janúar var t.d. greint frá því í blöðum að Íslendingar hefðu varið 44 milljónum í flutning hergagna til Íraks á síðastliðnu ári. Það er blygðunarlaus stuðningur í formi beinharðra peninga.
Eins og samflokksmaður minn og frambjóðandi í Norðvesturkjördæmi, Sr. Karl Matthíasson, benti á í ræðu sem ég hlýddi á um helgina, að þá er Íraksstríðið og það iðrunarleysi sem stjórnarflokkarnir sýna í því máli næg ástæða, ein og sér -- fyrir utan allar hinar -- til þess að kjósa þessa flokka ekki þann 12.maí.
Það er bara svo einfalt.
9.3.2007 | 15:41
Ræða Björgólfs
Ræða Björgólfs Thors í gær, þar sem hann gerði því skóna að Straumur-Burðarás kynni að fara úr landi með starfsemi sína, ætti auðvitað að hringja viðvörunarbjöllum. Árni Páll Árnason, meðframbjóðandi minn í Suðvesturkjördæmi, hefur einmitt varað við því fyrir þónokkru síðan að breytingar á heimildum fyrirtækja um að gera upp í erlendum gjaldmiðli myndu hafa þessi áhrif.
Hér sjáum við enn og aftur dæmi um það að tilteknu fyrirtæki er gert erfitt fyrir í rekstri sínum með sérstökum aðgerðum af hálfu yfirvalda. Og yfirvaldið heitir Davíð og Geir, að sjálfsögðu. Fyrirvaralaus ákvörðun Sjálfstæðisflokksins um að breyta þessum heimildum var beinlínis sniðið sem skeyti á Straum-Burðarás, og ekkert annað.
Sama hvað mönnum kann að finnast um einstök fyrirtæki, þá liggur það auðvitað í augum uppi að stjórnmálamenn eiga ekki og mega ekki nota reglugerðar- og löggjafarvaldið, svo ekki sé talað um dómsvaldið, til sértækra aðgerða gegn einstökum fyrirtækjum í fljótfærni og eftir skapsveiflum nánast.
Fjölmiðlafrumvarpið var ætlað 365.
Dómskerfinu var sigað á Baug.
Og nú Straumur-Burðarás.
Allir frjálslyndir menn eiga að sjá að svona vinnubrögð ganga ekki. Það er merkilegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli síendurtekið ástunda þau.
Þeir verða kannski góðir saman í stjórn, VG og Sjallarnir. Gjaldeyrishöft, netlögregla, stjórnarskrárbundnir kynjakvótar, takmarkanir á fjölmiðla og þar fram eftir götunum.
Nei, ég segi svona.
Góða helgi.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
8.3.2007 | 19:04
Afnám launaleyndar
Ég fagna því að þverpólitísk nefnd á vegum félagsmálaráðherra undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur hafi lagt til afnám launaleyndar og að ráðherra hafi boðað frumvarp þess efnis. Að vísu boðar hann að frumvarpið verði lagt fram næsta haust, sem mér finnst undarlegt. Það eru jú kosningar í millitíðinni og alls óvíst hver fer með málaflokkinn í nýrri ríkisstjórn.
Hér vakna spurningar um hvort hugur fylgi máli. Bjarni Ben var skeptískur um ákvæði frumvarpsins í fréttum áðan. Kannski er ágreiningur um málið, en leiðin til þess að forðast hann er að boða ekki frumvarpið fyrr en á næsta þingi.
En hvað um það. Afnám launaleyndar er líklega einhver árangursríkasta leiðin sem kostur er á til þess að leggja til atlögu við hina djúpstæðu meinsemd: Kynbundinn launamun.
Misskilnings hefur hins vegar gætt í umræðunni um launaleynd. Sá skilningur er útbreiddur, hef ég orðið var við, að fólk haldi að með afnámi launaleyndar verði öllum gert skylt á einhvern hátt að láta uppi laun sín.
Þetta er alrangt. Afnám launaleyndar þýðir að atvinnurekanda verður ekki leyfilegt að krefjast þess af starfskrafti að hann haldi launum sínum leyndum.
Hann má semsagt segja frá þeim, ef hann kýs svo.
Á þessu er mikill og mikilvægur munur.
Annað í þessu boðaða frumvarpi finnst mér skynsamlegt. Til að mynda tel ég skynsamlegt að þegar ráðherra er falið að skipa í nefndir og ráð, sé gerð sú krafa að umsagnarnefndir tilnefni alltaf eina konu og einn karl, svo ráðherra geti valið þar á milli. Kynjahlutfallið í opinberum nefndum er hið fáránlegasta. Það er full ástæða til þess að grípa til einhverra aðgerða til þess að breyta því.
Svo er auðvitað athyglisvert að í lokin á kjörtímabilinu skuli mál Samfylkingarinnar dúkka upp hver á eftir öðru í formi frumvarpa og yfirlýsinga. Aukið fé til háskólans, afnám launaleyndar, breytingar á fæðingaorlofslögum, auðlindaákvæði í stjórnarskrá (að vísu umdeilanleg útfærsla) og fl
Ríkisstjórnin hefur greinilega ákveðið að geyma það besta þar til síðast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.3.2007 | 23:35
Er eitthvað að?
Ég rak augun rétt í þessu á bloggfærslu Guðbjargar Hildar Kolbeins sem er, að því er ég best veit, kennari uppi í Háskóla. Hún fjallar um Smáralindarbæklinginn sem kom í hús í dag.
Þar er á forsíðu mynd af stúlku að hlæja. Mjög flott mynd og lífleg. Stúlkan er ca 14 ára.
Guðbjörg telur þetta vera klámmynd.
Ég ætla ekki að hafa eftir þau sömu orð og hún notar til þess að lýsa þessari mynd. Það má lesa það hér. Lýsingar hennar eru frá mínum bæjardyrum séð meira lýsing á hugarheimi Guðbjargar sjálfrar heldur en nokkurn tímann myndinni.
Auk þess ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það virðingarleysi sem háskólakennari sýnir hér unglingsstúlku og fjölskyldu hennar.
Hér finnst mér gjörsamlega taka steininn úr í þessu klámumræðurugli. Á að horfa á allt með kámugum klámgleraugum? Má 14 ára stúlka ekki bara vera 14 ára stúlka í friði?
Þetta er yfirgengilegt kjaftæði. Kryppan skýst upp. Mér vaxa vígtennur. Klær. Hár. Þið sjáið mig spangólandi uppi á Vífilfelli ef þetta heldur svona áfram. Ég meika þetta ekki.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (80)
6.3.2007 | 15:44
Hjólið
Í morgun tók ég fram hjólið eftir veturinn, smurði keðjuna og máði ryðið af vírunum og tannhjólunum með sérstökum eðalvökva sem ég fékk úti á bensínstöð. Svo hjólaði ég í vinnuna. Það tók mig 10 mínútur. Ég þurfti ekki að leita að stæði.
Ég uppgötvaði hjólreiðar síðasta sumar. Fann upp hjólið. Fór út um allt á hjólinu, bæði í vinnuna og mér til heilsubótar. Ég mæli sterklega með þessu. Á hjólinu geysist maður hljóðlega fram hjá umferðarhnútunum og þarf aldrei að berja í stýrið og bölva. Höfuðborgarsvæðið opnast fyrir manni, með öllum sínum bakgörðum, fjöruborðum, lækjarsprænum og stígum.
Stígarnir mættu vera fleiri. Mikið fleiri. Það er merkilegt hvað Reykjavík er allt öðruvísi borg en aðrar borgir sem ég hef komið til hvað þetta varðar. Í Amsterdam, þar sem ég bjó, er allt gert fyrir hjólið. Í San Francisco, þar sem bróðir minn býr, eru hjólreiðastígar út um allt. Við hjóluðum eins og vindurinn þegar ég fór í heimsókn til hans síðasta vetur.
Í Reykjavík er eins og aldrei hafi verið gert ráð fyrir því að nokkur myndi hjóla nema kannski Hringur og Árni Bergmann.
Svikryk og mengun er orðið vandamál í Reykjavík. Og við þurfum eins og aðrar þjóðir að grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Hjólreiðar og fleiri hjólreiðastígar eru eitt svar. Til þess málaflokks eru varið eftirfarandi upphæð í hinni 380 milljarða króna samgönguáætlun og haldið ykkur nú:
Kr. 0
Eða kannski öllu heldur:
0.0
Sú tala, sett þannig fram, lítur dálítið út eins og hjól. Það er kannski grínið. Maður veit ekki. En þá myndi ég frekar mæla með því að skrifa upphæðina svona:
0^0
Ef menn vilja vera virkilega fyndnir.
Þetta er auðvitað átakanlegt. Annað er líka eftir þessu: Efling almenningssamgangna situr líka gjörsamlega á hakanum, en fátt er mikilvægara en öflugar og ódýrar -- helst ókeypis eins og á Akureyri -- almenningsamgöngur til þess að sporna við einkabílismanum og þar með mengun.
Og eitt enn: Hvatt er sérstaklega til innflutnings á bensínhákum (pikk upp bílum) í tollareglum á meðan hybrid bílar njóta engra afslátta. Þessu komst ég að þegar ég leitaði logandi ljósi að notaðri, umhverfisvænni jeppabifreið fyrir ári síðan, án árangurs. Endaði með Jeep, sem ég reyni eftir fremsta megni að skilja eftir heima.
Þetta er auðvitað fullkomin brenglun og dæmi um gamaldags hugsunarhátt. Pikk up bílarnir eru skilgreindir sem atvinnutæki. Njóta afsláttar. Og svo var dísilgjald hækkað líka, svona til að kóróna hinn einarða ásetning, sem virðist vera kristaltær: Að auka markvisst mengun.
Þessi viðhorf til umhverfismála sem regluverkið, gjaldtaka og samgönguáætlun endurspegla eru enn einn vitnisburðurinn um nauðsyn þess að koma þessari ríkisstjórn frá.
Hún er úti að aka.
p.s. Þess má geta að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir 840 milljónum í reiðstíga til 2018, fyrir þá sem vilja fara á hestbaki í vinnuna eins og í gamla daga. Nei, ég segi svona. Auðvitað gott mál fyrir hestamenn og það sport. En sýnir að sama skapi svart á hvítu viljaleysið þegar kemur að hjólhestinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
5.3.2007 | 01:44
Ef framsókn vill slíta
Ef framsókn vill slíta stjórnarsamstarfinu á grundvelli stjórnarsáttmálans einhvern veginn, á endaspretti samstarfsins, myndi ég gjarnan vilja benda á eina aðra leið til þess, sem mér finnst hreint ekki síðri en sú sem forysta flokksins hefur þegar stungið upp á...
Í stjórnarsáttmálanum stendur nefnilega í fyrstu grein að ríkisstjórnin ætli "að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar."
Það hefur, eins og alþjóð veit, bara alls ekki verið uppfyllt.
Slíta á því, segi ég.
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 395306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi