Leita í fréttum mbl.is

Ódýr og snjöll hugmynd

Hugmyndir um úrbætur í samfélaginu þurfa ekki alltaf að fela í sér kostnað upp á tugi milljarða. Það þarf ekki endilega að ganga á hólm við náttúruperlur og rústa lífríki til þess að grípa til aðgerða í atvinnumálum, eins og það er kallað. Það þarf ekki alltaf að hjakka í sama farinu þegar vandamál lands og þjóðar eru annars vegar.

Stundum er bara betra að leggja hausinn í bleyti.

Það er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að tala í lausnum í pólitík. Samfylkingin hefur undanfarið beint sjónum sínum að byggðamálum, sem fela í sér eitthvert stærsta og erfiðasta úrlausnarefni íslenskra þjóðmála.

Byggðirnar eru að deyja. Hvað er hægt að gera? Allar lausnir vel þegnar.

Ein slík lausn sem Samfylkingin hefur sett fram– auðvitað engin allsherjarlausn á vandanum, en þó ansi drjúg – gengur undir heitinu “Störf án staðsetningar”.  Markmiðið er að auka framboð atvinnu úti á landi.

Störf hjá stofnunum og fyrirtækjum á vegum ríkisins eru 25 til 30 þúsund. Þessi störf eru langflest á höfuðborgarsvæðinu, en hins vegar er það ekkert launungarmál að stóran hluta þeirra má vel vinna annars staðar, þar sem háhraðanettenging er fyrir hendi.

Til að mynda þarf einstaklingur sem vinnur við þýðingar fyrir Umhverfisstofnun alls ekkert að vera staddur á höfuðborgarsvæðinu. Hann getur vel unnið verkið á Bolungarvík.

Áætlað er að um 20% opinberra starfa séu svona. Þau má vinna hvar sem er.

Miðað við árlega starfsmannaveltu hins opinbera má gera ráð fyrir að um 300 til 400 svona störf losni á ári hverju. Þau störf má auglýsa með sérstakri hvatningu til landsbyggðarfólks um að sækja um.

Á tíu árum er verið að tala um ca. 4000 störf, og þá er ekki gert ráð fyrir því að ýmsar tækniframfarir geta orðið sem auka að öllum líkindum enn frekar möguleikana á störfum án staðsetningar.

4000 störf út á land er ekkert lítilræði. Sérstaklega þegar slíkt er hægt að gera án fyrirhafnar og án mikilla útgjalda. Bara með skynsemina að leiðarljósi.

Að sjálfsögðu er Samfylkingin búin að leggja fram frumvarp um þetta mál á Alþingi og að sjálfsögðu hefur það ekki enn verið tekið til umfjöllunar.

Til þess að koma svona hugmyndum í framkvæmd og öðrum góðum þarf Samfylkingin að komast til valda.

Annars gerist ekki neitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er snilldarhugmynd! Í vandaðri útfærslu og með traustri eftirfylgni gæti þetta valdið vatnaskilum í byggðamálum. Það verður þó þrautin þyngri að fá smákóngana í stofnanabákninu til að gúddera þessa leið.

Kristinn Hermannsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 01:25

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Já algjör snildar hugmynd. Hugsaðu þér hvað á margt eftir að breytast þegar dreifbýlið verður orðið virkilegur valkostur. Hvað líf fólksins á eftir að breytast. Hvað það leysist mikill kraftur úr læðungi við þessar aðgerðir.

Svo á þetta líka eftir að spara ríkinu yfirbyggingu sem er ekki síður mikilvægt og er í reynd eitt af stóru málunum sem þarf að hreinsa upp eftir meirihlutann sem nú fer frá.

Tómas Þóroddsson, 14.3.2007 kl. 01:41

3 identicon

Góð hugmynd! Ég er með eina enn rótækari. Gerum Háskóla Íslands að slíkum vinnustað. Við myndum spara Háskólanum yfirbyggingu, menn gætu unnið hvar sem er á landinu, og reyndar í heiminum ef því er að skipta (og sæstrengir til landsins héngju saman). Þetta gæti verið skref í að færa skólann nær því annars óraunhæfa marki að vera meðal 100 bestu háskóla heimsins. Öflugir erlendir fræðimenn eru kannski ekki spenntir að koma til landsins til að setjast hér að, en væru kannski frekar til í að vinna við skólann ef þeir þurfa ekki að flytja og fá fyrir það íslensk laun! Eina sem þyrfti er öflugur fjarfundabúnaður og kannski smá ferðastyrkir til að menn geti hittst einstaka sinnum í eign persónu.

Eyjólfur Magnússon (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 09:07

4 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Bendi á gott framtak sem nú er í gangi:: http://visir.is/article/20070314/FRETTIR01/103140135

Sigfús Sigurþórsson., 14.3.2007 kl. 09:31

5 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Sæll Guðmundur!    Þetta er efalaust sniðug hugmynd veit samt ekki alveg hvort hún virkar en umaðgera að prófa.  En heyrðu!  hefur Samfylkingin engan áhuga á kjörum verkafólks.  Þeirra sem hafa 120 þús kr. útborgað á mánuði.  Ég er ekki að ljúga.  Þetta er rauntala.  Ætlið þið ekkert að reyna að ná til þessa fólks? Þarna hljóta að vera atkvæði.  Hvað er í gangi?

Þórdís Bára Hannesdóttir, 14.3.2007 kl. 10:35

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þið Samfylkingarfólk eruð dugleg við að finna upp hjólið...aftur..og aftur. Þessi hugmynd er auvitað jafngömul internetinu. Mér finnst hugmyndin ágæt og það á alveg að geta verið þverpólitísk sátt um hana.

 En hálf finnst mér það nú aumkunarvert að sjá þegar stokkið er á hvert málið á fætur öðru eins og það sé "The New Truth".

Getið þið ekki hjá Samfó haft PR fulltrúana ykkar frá einhverju krummaskuðinu. Gengið fram með gott fordæmi, farið veginn, ekki bara vísað hann.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.3.2007 kl. 10:53

7 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Vona að það eigi ekki eftir að koma mörg svona blogg frá þér Guðmundur.

Hvar er reiðin út í stjórnarflokkana?

Hvenær fórst þú að koma með hógværar tillögur?

Ef þú heldur þessu áfram gæti verið að þú myndir afla samfylkingunni fylgi

Eins og þú segir þá væri þetta pottþétt lóð á vogarskálarnar en betur má ef duga skal. T.d. þarf að leiðrétta skatta á landsbyggðinni svo þeir séu ekki hærri en á höfuðborgarsvæðinu.

Ágúst Dalkvist, 14.3.2007 kl. 11:08

8 identicon

Sæll Guðmundur

Eins og þú bendir á er þetta er ekki alsherjarlausn. Vek athygli á að Indland byggði upp fjölda af hálaunastörfum í gegnum "internet-tengingu". En þar var þekkingin og fólkið fyrir. Allt svona á að skoða með opnum huga.

Aron Þorf. (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 11:11

9 identicon

Af hverju er alltaf verið að níðast á okkur opinberum starfsmönnum og reyna að pína okkur út á land - þar sem flest okkar hafa engan áhuga á að búa.  Þessi framsóknarmennska  - sem greinilega hefur líka búið um sig í SF er alveg óþolandi.  Af hverju ekki að færa bara Alþingi til Bolungarvíkur.  Það myndi skapa mörg störf.  Látið okkur hin í friði.

Einar (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 13:03

10 identicon

Það er ekkert verið að tala um að flytja þig Einar eitt né neitt.

Miðað við árlega starfsmannaveltu hins opinbera má gera ráð fyrir að um 300 til 400 svona störf losni á ári hverju. Þau störf má auglýsa með sérstakri hvatningu til landsbyggðarfólks um að sækja um.

Lestu þetta betur.

Hlynur (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 13:14

11 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Hvernig á að elda grjónagraut í gegnum netið.

Leifur Þorsteinsson, 14.3.2007 kl. 13:49

12 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Grj'onagrautur, þó hollur sé, er frekar lítill hluti af þessari vinnu.

Þetta er byggt á gamalli hugmynd, sem fæddist með tölvubyltingunni. Það er vel hægt að koma þessu í framkvæmd ef vilji er fyrir hendi þó ég efist um öll þessi stöðugildi.

Annað er trúnaðarmál. Það eru ekki öll gögn sem má fara með af stofunni. Hvernig á að koma í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar komist í rangar hendur? Auðvitað er flest ekkert viðkvæmt, en það geta vel verið allsk uppkast að bréfum ofl sem hægt er að slíta úr samhengi og búa til úr samsæriskenningar etc.

En þetta er ekki vitlaus hugmynd.

Aðalhugmyndin verður þó að vera að reyna að horfa svoldið jákvætt hvað þ.að er frábært að búa í fallegu þorpi í fallegum firði. Það er ómetanlegt nema fyrir einhverja yfirstressaða klikkaða uppa.

Ólafur Þórðarson, 14.3.2007 kl. 14:23

13 identicon

Þetta finnst mér góð hugmynd. Þá verðum við Einar (ríkisstarfsmenn) látnir í friði og ekki reglulega hræddir með því að það eigi að flytja vinnustaðinn okkar út á land. Þó að hugmyndin sé ekki ný er hún ekki verri fyrir það. Það er líka rétt sem bent er á að þetta hefur skapað störf á Indlandi og þar voru þetta aðallega einkafyrirtæki. Þarf ekki bara að opna augun fyrir fleiri svona snjöllum, hógværum hugmyndum, ekki bara hjá opinberum stofnunum heldur einkaaðilum líka? Hætta þessum endalausu hrópum um að færa stofnanir út á land. Er allt í lagi að taka störfin af okkur og færa Bolvíkingum? Reykvíkingar eru líka fólk!

Halldór (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 14:35

14 Smámynd: Þarfagreinir

Sniðugt. Ef ríkið á endilega að vera atvinnumiðlun fyrir landsbyggðina líst mér mun betur á þessa leið en að dæla niður álverum í hvert byggðahorn.

Þarfagreinir, 14.3.2007 kl. 14:39

15 identicon

Ertu kannski genetískur framsóknarmaður!

Nei, ég segi nú bara svona.

Sveinn V. Ólafsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 14:58

16 identicon

Mér þykir nokkuð athyglisvert hversu menn vilja gleyma einu efnislegu og raunhæfu lausininni við að bjarga þessum byggðum sem eru að ,,deyja.''

Þegar landvörnum verður komið í skikkanlegt form á Íslandi verða herstöðvar með miklum skotfæra og vopnabirgðum í öllum fjórðungum landsins. Stærð þeirra færi vissulega að einhverju leiti eftir fjölmenni á hverjum stað en lágmörk þyrfti samt að virða. Að mínu viti þyrfti allavega vélvætt fótgönguliðsundirfylki fjallahermanna á Vestfjörðum (þá staðsett nálægt Bolafjalli), annað undirfylki í Héraði. Annarsstaðar yrði minna lið, en vissulega yrði kjarnin á 
höfuðborgarsvæðinu.

Hundruða manna vinnustöðum sem efnisleg rök eru fyrir að staðsetja á landsbyggðinni er ekki auðvelt að finna.  

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 15:36

17 identicon

 

Gamalt vín á nýjum belgjum?  

 

Ágæt hugmynd að mörgu leyti hjá þér Guðmundur og gott að sjá að þú ert farinn að tala á uppbyggilegu nótunum.  Batnandi mönnum er best að lifa.  :-)

 

Sjálfur hef ég reynslu af fjarvinnslu, bæði innan “veggja” stórs alþjóðlegs fyrirtækis og svo héðan af Klakanum með erlendum fyrirtækjum.  Hefur það reynst í  lang flestum tilvikum vel, sérstaklega þegar um laustengd verkefni er að ræða.  Í flóknari verkefnum, þar sem beita þarf agaðri verkefnisstjórnun, getur þetta orðið erfiðara, sérstaklega þegar farið er á milli menningaheima. 

Þetta fyrirkomulag er ekki óalgengt t.d. í Bandaríkjunum, innan stórfyrirtækja, enda miklar víðáttur þar og gott að hafa sveigjanleika í vinnufyrirkomulagi, án þess að fólk verði stöðugt að flytjast búferlaflutningum (ennþá er reyndar ekki óalgengt að amerísk stórfyrirtæki hafi sérstaka flutningsdeild, sem sér um að flytja búslóðir, kaupa/selja fasteignir og flytja fólk á milli staða).   Fyrir ca 10 árum vann ég með hópi forritara sem hafði aðstöðu í N-Karólínu, en forystuforritarinn vann heiman frá sér, en hún átti heima í Chicago.   Auðvitað hefði verið betra að hafa þennan starfsmann á staðnum, en það sem viktaði meira var að hann hafði sérþekkingu og reynslu sem ekki var til á hverju strái og dýrt að byggja upp í kvikum heimi tækniþróunar.   Sem sagt forsendan var hagræn.

 

Ofansagt er til að undirstrika að ég tel hugmyndina allra gjalda verða.   En...

 

 
Það virðist hafa gleymst hér núna að í kringum 1990 fór heilmikil umræða fram á Alþingi og í þjóðfélaginu um fjarvinnslu út á landi.  Tilraunaverkefni í forsjá Byggðastofnunar fóru í gang og þau klikkuðu – sjá stutta greinargerð hér frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.   Rétt fyrir aldamótin voru stofnuð nokkur einkafyrirtæki með “byggðastyrkjum”, s.k. fjarvinnslustofur – þau eru ekki til lengur, lognuðust útaf uppúr aldamótunum.    Ráðuneyti Davíðs Oddssonar, gaf út skýrslu um málið 1999, en hana má finna hér.

 

Sem sagt þessi “ódýra og snjalla” hugmynd, er hvorki ný né óreynd.   Mín skoðun er sú að þetta gangi  aldrei upp á þeirri forsendu að einhverjir stjórnmálamenn í Reykjavík ákveði að svona eigi þetta að vera.   Það eru margir þættir sem verða að vera til staðar til að þetta gangi upp.   Í innleggi Kolbrúnar Valbergsdóttur hér að ofan kemur fram áleitin spurning sem verður að svara og hjá Dharma hvað sjálfbærnina varðar.  

 

Þá held ég líka að margt landsbyggðarfólk fái grænar bólur þegar bornar eru fram lausnir fyrir það, sem bera yfirbragð ölmusu, eins og mörgum finnst þegar t.d. ektavinur þinn Steingrímur Joð er inntur eftir öðrum lausnum en álveri á Bakka, í kjördæminu hans og hann svarar "opinber störf".    Það þarf ekki að kæla hagkerfið á norðurparti landsins, fólkið þar vill alvöru lausnir.

Og þar að auki held ég að fólki almennt finnist nóg um útþennslu ríkisbáknsins síðustu árin undir forystu "báknið burt" flokksins.

 

Sigurður J. (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 18:24

18 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Þetta er ekki svo vitlaust, að flytja ríkisbáknið í stykkjum út á öræfi. Það ætti ekki að skipta miklu máli, því megnið af opinberum starfsmönnum er statt á annarri plánetu hvort eð er.

Annars eru til mun ódýrari og svinnari hugmyndir sem farið hafa fyrir ofan garð og neðan hjá vinstrimönnum í gegnum tíðina. Hugmyndir á við lögræði og frelsi einstaklingsins.

Rúnar Óli Bjarnason, 14.3.2007 kl. 18:46

19 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Hljómar mjög skynsamlega.

Georg P Sveinbjörnsson, 14.3.2007 kl. 19:44

20 identicon

Þetta er gömul hugmynd, sem reynd var og gekk því miður ekki upp.

Er fólk virkilega búið að gleyma öllum peningunum og umræðunni sem fór í þetta fyrir og í kringum aldamótin síðustu?   Ég efast um að fólkið úti á landi sé búið að gleyma....

María (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 22:39

21 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Sæll Guðmundur og takk fyrir síðast. Ég er sammála, þetta er ótrúlega góð hugmynd. Þetta er ekki gömul hugmynd, þó svo að fjarvinna sé það - þetta er ekki sami hluturinn. Hér er verið að tala um að skilgreina opinber störf (ATH störf á vegum ríkisins - okkar allra - ekki ölmusa á einn né neinn). Það sem vantar á landsbyggðinni er fjölbreyttni og þessi hugmynd getur aukið hana. Við vitum að sjálfsögðu að þetta er ekki lausn allra vandamála á landsbyggðinni en ætti að leggja í púkkið.

Eggert Hjelm Herbertsson, 15.3.2007 kl. 09:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband