Leita í fréttum mbl.is

Hjólið

Í morgun tók ég fram hjólið eftir veturinn, smurði keðjuna og máði ryðið af vírunum og tannhjólunum með sérstökum eðalvökva sem ég fékk úti á bensínstöð. Svo hjólaði ég í vinnuna. Það tók mig 10 mínútur. Ég þurfti ekki að leita að stæði.

Ég uppgötvaði hjólreiðar síðasta sumar. Fann upp hjólið. Fór út um allt á hjólinu, bæði í vinnuna og mér til heilsubótar. Ég mæli sterklega með þessu. Á hjólinu geysist maður hljóðlega fram hjá umferðarhnútunum og þarf aldrei að berja í stýrið og bölva. Höfuðborgarsvæðið opnast fyrir manni, með öllum sínum bakgörðum, fjöruborðum, lækjarsprænum og stígum.

Stígarnir mættu vera fleiri. Mikið fleiri. Það er merkilegt hvað Reykjavík er allt öðruvísi borg en aðrar borgir sem ég hef komið til hvað þetta varðar. Í Amsterdam, þar sem ég bjó, er allt gert fyrir hjólið. Í San Francisco, þar sem bróðir minn býr, eru hjólreiðastígar út um allt. Við hjóluðum eins og vindurinn þegar ég fór í heimsókn til hans síðasta vetur.

Í Reykjavík er eins og aldrei hafi verið gert ráð fyrir því að nokkur myndi hjóla nema kannski Hringur og Árni Bergmann.

Svikryk og mengun er orðið vandamál í Reykjavík. Og við þurfum eins og aðrar þjóðir að grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Hjólreiðar og fleiri hjólreiðastígar eru eitt svar. Til þess málaflokks eru varið eftirfarandi upphæð í hinni 380 milljarða króna samgönguáætlun og haldið ykkur nú:

Kr. 0

Eða kannski öllu heldur:

0.0

Sú tala, sett þannig fram, lítur dálítið út eins og hjól. Það er kannski grínið. Maður veit ekki. En þá myndi ég frekar mæla með því að skrifa upphæðina svona:

0^0

Ef menn vilja vera virkilega fyndnir. 

Þetta er auðvitað átakanlegt. Annað er líka eftir þessu: Efling almenningssamgangna situr líka gjörsamlega á hakanum, en fátt er mikilvægara en öflugar og ódýrar -- helst ókeypis eins og á Akureyri -- almenningsamgöngur til þess að sporna við einkabílismanum og þar með mengun.

Og eitt enn: Hvatt er sérstaklega til innflutnings á bensínhákum (pikk upp bílum) í tollareglum á meðan hybrid bílar njóta engra afslátta.  Þessu komst ég að þegar ég leitaði logandi ljósi að notaðri, umhverfisvænni jeppabifreið fyrir ári síðan, án árangurs.  Endaði með Jeep, sem ég reyni eftir fremsta megni að skilja eftir heima.

Þetta er auðvitað fullkomin brenglun og dæmi um gamaldags hugsunarhátt. Pikk up bílarnir eru skilgreindir sem atvinnutæki. Njóta afsláttar. Og svo var dísilgjald hækkað líka, svona til að kóróna hinn einarða ásetning, sem virðist vera kristaltær: Að auka markvisst mengun.

Þessi viðhorf til umhverfismála sem regluverkið, gjaldtaka og samgönguáætlun endurspegla eru enn einn vitnisburðurinn um nauðsyn þess að koma þessari ríkisstjórn frá.

Hún er úti að aka.

p.s. Þess má geta að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir 840 milljónum í reiðstíga til 2018, fyrir þá sem vilja fara á hestbaki í vinnuna eins og í gamla daga. Nei, ég segi svona. Auðvitað gott mál fyrir hestamenn og það sport. En sýnir að sama skapi svart á hvítu viljaleysið þegar kemur að hjólhestinum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Steinn Guðmunds

Gott mál að hjóla fleiri ættu að taka þetta til fyrirmindar.

Þórður Steinn Guðmunds, 6.3.2007 kl. 16:04

2 identicon

Voruð þið R-listamenn ekki nógu lengi í borgarstjórn til að koma með tillögu um þetta, kannski væri Dagur félagi þinn kannski hæfari um svör við þessari spurningu.

Engu að síður þá er ég gríðarlega sammála og við það eitt að vera undir stýri í borginni verð ég andsetinn og eina lækningin er að drekka geitarblóð og fórna hreinni mey á altari. hjól er málið!

Reynir Svavar Eiríksson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 16:15

3 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

R-listinn lagði, að ég held, hátt í 300 km hjólreiðastíga og lagði á það sérstaka áherslu. Það sem hefur þó verið gert í Reykjavík fyrir hjólreiðamenn var gert í tíð R-listans. En Reykjavík hafði hins vegar ekki úr háum söðli að detta, þannig að miklu betur má ef duga skal.

Ríkið, fjárveitingarvaldið, þarf að fara að sýna áhuga á þessu og setja inn í samgönguáætlanir.

Guðmundur Steingrímsson, 6.3.2007 kl. 16:25

4 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Við erum sosum ekki alltaf samferðamenn í pólitík, Guðmundur nokkur, en þessu er ég fullkomlega sammála - aðbúnaður þeirra sem vilja hjóla milli staða er algerlega tragískur, fullkomlega til skammar.
Ríkið þarf að taka sér tak í þessum efnum - sannkallað Grettistak.

Jón Agnar Ólason, 6.3.2007 kl. 16:43

5 identicon

Skv lögum hafa reiðhjól sama rétt og önnur ökutæki að nota allar akbrautir.

En það er vissulega alger snilld að hjóla um bæinn og kannski sakaði ekki að hafa sérakrein fyrir reiðhjól í stað þess að hafa sérakreinar fyrir strætisvagna eins og nú tíðkast. En strætisvagnar menga einfaldlega allt of mikið.

Svo sakaði ekki að heimila aftur að nota hesta sem faratæki innan borgarmarkanna. Það væri ekki slæmt fyrir utan allt taðið. Þá gæti fólk allavega samt auðveldlega útvegað sér eldsneyti til að reykja matvæli.


Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 17:09

6 Smámynd: Þarfagreinir

Reyndar er núll í núllta veldi aldrei núll - eftir aðstæðum er það annað hvort skilgreint sem einn, eða ekki skilgreint yfir höfuð.

En í guðanna bænum - það er ekki ætlun mín að koma af stað umræðu um það mál hér ... svona er þetta bara skilgreint í stærðfræðinni. Sendið mér póst eða eitthvað ef þið viljið rökræða þetta við mig.

Fyrir virkilega áhugasama þá má lesa nánar um þetta hér:

http://en.wikipedia.org/wiki/Exponentiation#Zero_to_the_zero_power

En að efninu - ég kvitta undir það að  það er oftar en ekki hræðileg reynsla að reyna að hjóla í Reykjavík, og gott að sjá að alla vega einn stjórnmálamaður hefur áhuga á gera þar breytingu til  hins betra.

Þarfagreinir, 6.3.2007 kl. 17:11

7 Smámynd: Tómas Þóroddsson

bwhahahaha nú geta börnin mín farið ríðandi í skólann, eins og afi þeirra gerði.

Tómas Þóroddsson, 6.3.2007 kl. 17:23

8 identicon

Ánægður með að þú skulir nota hjólið. Sturla var eitthvað að reyna að klóra í bakkann með því að segja að hjólreiðabrautir ættu að vera inni í kostnaði við venjulega vegi og þess vegna væri ekki gert ráð fyrir hjólreiðabrautum sérstaklega í samgönguáætlun. 

Annars hefur almenningur ekki áhuga á svona málum fyrir kosningar, sad but true. 

bendi svo á skemmtilega frásögn hjólreiðamanns hér: http://kari-hardarson.blog.is/blog/kari-hardarson/entry/130577/

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 17:36

9 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Sammála við mættum svo sannarlega hjóla þó ekki sé nema til þess að reyna að teygja tærnar þar sem Danir hafa hælana. Ókeypis líkamsrækt, gríðarlega mikilvægt í umhverfismálum enda ætti enginn sannur umhverfisverndarsinni að vera öðruvísi en á hjóli. Hmmm ég verð að fara að kaupa mér hjól... mínu var stolið ... fyrir mörgum árum.

Lára Stefánsdóttir, 6.3.2007 kl. 17:41

10 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Ekki myndi fjölgun dísilbíla minnka mengunina svona í fyrsta kasti. Agnirnar sem sleppa út í loftið við útblaðstur frá dísilbílum eru lífshætturlegar og bana tugum þúsunda manna í Evrópu á ári hverju. Hinsvegar er að taka gildi fljótlega reglugerð frá ESB þar sem skylda verður að setja síur á dísilbíla sem ætti að bæta úr þessu. Þangað til skyldu menn varast dísilbíla.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 6.3.2007 kl. 17:54

11 identicon

sammála því að það þarf að gera úrbætur fyrir hjólreiðamenn á höfuðborgarsvæðinu.... einkennilegt t.d. að ekki sé hjólreiðastígur frá Hafnarfirði til Reykjavíkur, ekki löng vegalengd að hjóla en nánast ómögulegt við núverandi aðstæður (nema ef menn vilja leggja líf sitt í hættu með því að hjóla á akbrautum) þar sem enginn er stígurinn, eða hann týnist e-s staðar í kópavogi (frekar en garðabæ)

Jón (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 17:56

12 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Sammála öllu því sem stendur í þessu bloggi..... eee... nema því að koma ríkisstjórninni frá . Hvet frekar til þess að koma henni í skilning um mikilvægi þessa máls.

Ágúst Dalkvist, 6.3.2007 kl. 18:17

13 Smámynd: Þórdís Bára Hannesdóttir

Halló Suðmundur!  þú ert einmitt maðurinn sem ég vildi skrifa til í kvöld.  Ég er bókstaflega að kafna af allri þessari umræðu um mengun.  Það er ekki talað um annað.  Er ekki mikilvægara að fara að huga að fólkinu sem byggir þetta land? Reyna að ná til láglaunafólksins, fá það til að kjósa Samfylkinguna.  Ræða tungumál sem það skilur, lofa því að afnema verðtrygginguna, banna öll þjónustugjöldin, lofa að láglaunafólk geti keypt sér íbúð á góðum kjörum, eða þá leigt sér íbúð.  Veistu að láglaunafólk fær 130 þús kr. útborgað eftir fullan vinnudag.  Af þeirri útborgun á eftir að borga húsaleiguna.  Veistu að húsaleiga fyrir 3ja herbergja íbúð er oft 110 til 120 þús kr. Veistu að þetta fólk getur ekki keypt húsnæði því launin eru svo lág?.  Afhverju er aldrei talað um það sem skiptir máli?  Eg bara spyr.  Hvað er í gangi?  Mengun mengun virkjun virkjun það apar hver eftir öðrum, allir flokkar eins. Farið nú að finna upp nýtt ,,hjól" 

Þórdís Bára Hannesdóttir, 6.3.2007 kl. 23:24

14 identicon

Flott hjá þér að skrifa um þessi mál og við hljótum að vera ánægðir báðir að það finnast kappar sem borga sér slík laun að skattar þeirra hér á landi borga fyrir margar þarfir þínar og mínar. Sendum báðir þakkarkveðjur til Kaupþings á Íslandi að hafa þessa greifa hér á landi. Takk, takk, Kaupþing.

Kveðja,

Örn Johnson´43, c/o skorriehf@simnet.is (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 00:16

15 identicon

Sæll, Guðmundur og þið öll !

Jú, jú.......................... víst hefði Sturla frændi minn, mátt gera ráð fyrir mun hærri upphæðum, í þessa löngu áætlun; a.m.k. 590 - 600 milljörðum, vegagerð á Vestfjörðum, t.d. er ekki síður knýjandi, en á þínu ágæta höfuðborgarsvæði.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 01:09

16 identicon

Sæll Guðmundur,

 Hvar getum við piparsveinarnir náð í svona pikk-up bíla?

Gott að vita til þess að þeir séu niðurgreiddir, spurning samt hvað veiðist...

Pétur Maack (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 11:27

17 identicon

Komdu sæll

Gæti ekki verið meira sammála. Vildi bara benda á að þó að R-listinn hafi vissulega gert góða hluti í lagningu hjólreiða- og göngustíga um borgina þá vantar upp á að gert sé ráð fyrir hjólum sem farartækjum alla daga. Þeir stígar sem lagðir hafa verið miða meira að sunudags-hjólreiðatúr um borgina en því að fólk komist stystu leið til og frá vinnu o.s.frv.

 Kv. Glóey

Glóey Finnsdóttir (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 12:30

18 Smámynd: Magnús Ragnar Einarsson

Prófaði að fara á hjólinu með krakkana í skólann fyrir klukkan 8, spæna síðan í vinnuna. Pikka krakkana upp á hjólinu, kaupa í matinn, skutla þeim síðan í tónlistarskólann, fótboltaæfingu, allt á hjólinu, spóla heim elda matinn, sækja krakkana, allt á hjólinu, dag eftir dag, viku eftir viku. Er mig að dreyma eða er ekki allt í lagi?

Magnús Ragnar Einarsson, 7.3.2007 kl. 13:42

19 identicon

Ef jörð helst auð jafn lengi í framtíðinni og undanfarna vetur er kannski kominn grundvöllur fyrir því að fleiri ferðist um á léttum bifhjólum.  Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki það sama og að hjóla á reiðhjóli.  Það er hins vegar minn álag á malbikið og mun minni bruni á eldsneyti og minni mengun.  Þetta er líka ágætur kostur fyrir það fólk sem á ekki auðvelt með að hjóla, hefur langar vegalengdir að fara eða hefur t.d. ekki sturtuaðstöðu á vinnustað (fyrir þá sem vilja hjóla í vinnuna).  Tja - kannski að þetta sé bara kostur fyrir letingja eins og mig

ps. áður en þú selur jeppann og kaupir þér Prius eða eitthvað álíka skaltu endilega kynna þér gagnrýni á þessa Hybrid bíla.  Ég hef heyrt því fleygt að þeir standist ekki eyðslutölurnar sem upp eru gefnar og jafnvel þótt þær stæðust að þá fari svo miklu meiri orkar í framleiðslu á þessum bílum en venjulegum bílum að þeir nái aldrei að vinna það upp sjálfir með sparneytnum akstri.  Einnig heyrði ég að þessir bílar geti verið sérlega hættulegir í árekstrum vegna rafmagnsleiðsna oga annars.  Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það.  Ef ég man rétt þá sá ég Prius fyrir utan hús náins fjölskyldumeðlims þíns  - þú getur kannski komist að því fyrir okkur hvernig eyðslan er á Prius miðað við það sem Toyota gefur upp. 

Ra (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 13:53

20 identicon

Umhverfisráð samþykkir ítarlegar tillögur - Spornað við svifryksmengun

ég vil benda á að fulltrúar allra flokka í umhverfisráði samþykktu þessar tillögur, hvergi er minnst á hjólreiðar til að draga úr svifryksmengun. Fulltrúi Vg bendir ekki einu sinni á það eða kemur því ekki inn í þessa samþykkt.

http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_read-5890/

Sad but true

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 14:06

21 identicon

Sjálfstæðismenn hafa verið með samgönguráðuneytið í 16 ár og í dag eru framlög ríkisins til almenningssamgangna -300 milljónir (þ.e. skatttekjur ríkisins af starfsemi Strætó) á meðan öll okkar samanburðarlönd annað hvort styrkja rekstur eða fjárfesta í endurbótum á kerfunum (t.d. nýjum metróleiðum). Veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta þegar maður sér grænan fálka framan á Mogganum með þessa staðreynd í huga...

Baldur (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 15:01

22 identicon

Hér er kort af hjóla og göngustígum á höfðuborgarsvæðinu, http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skjol/svid/umhverfissvid/pdf_skjol/Rvk-Korpulfsstadir-A.pdf  með smá fyrirhyggju kemst maður meira og minna allt á hjólastígum sem maður vill, en ekki alltaf styðstu leið.  Ég kemst frá Álftanesi  í Holtagarða eða vestur á Meli allt á stígum.  Ég kemst einnig úr Mosó suður í Hafnarfjörð allt á stígum.

Magnús (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 15:28

23 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Skrítið hversu margir NN (Nebukadnesar Nebukadnesarsonar) skrifa hjá þé Guðmundur, eins og þú ert venjulega málefnalegur!????

Gott mál með hjólið...bjó sjálf í 6 ár í Danmörk og veit hversu mikill munur er á áherslum þar og hér. Þar eru gangandi númer 1, hjólandi númer 2, og síðan bílandi númer 3! 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 7.3.2007 kl. 23:28

24 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg  mun keyra á minum bil áfram/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 7.3.2007 kl. 23:54

25 identicon

Sæll Guðmundur

Ég hjóla þessa dagana í vinnu úr Vogahverfi inn í Garðabæ.  Þetta kemst ég allt á fínum stígum, nema þegar kemur að Arnarnesinu. Hjólreiðastígurinn þar endar mjög skyndilega við heimreið að húsinu í Þernunesi minnir mig og þar er iðulega bíl lagt við endann á stígnum þannig að það eina sem hægt er að gera er að endasendast á hjólinu yfir grasið og út á götu og krækja svo yfir Arnarnesið eftir götunni eða gangstígum.  Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta er svona á Arnarnesinu? Hjólar ekki efnað fólk eða hefur það meira um það að segja hvar stígar eru lagðir en aðrir? Kveðja Linda Björk Jóhannsdóttir

Linda Björk Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband