Leita í fréttum mbl.is

Hvalveiðar og kjördæmið

Mér finnst Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs ekki beinlínis hitta naglann á höfuðið þegar hann kallar í Fréttablaðinu í dag þá sem mótmæla hvalveiðum öfgamenn. Ég held það sé erfitt að afgreiða ráðherra og ríkisstjórnir í löndum eins og Bretlandi, Sviþjóð og Ástralíu, og þótt víðar væri leitað, einfaldlega öfgamenn. EN HINS VEGAR: Nú vil ég leggja áherslu á það að menn geri hér ákveðinn greinarmun. Ef Paul Watson kæmi hingað og væri með skæting yrði ég meira en til í að deila við þann óprúttna náunga um hans eigin hræsni og yfirgang, og allt það. Auðvitað er andúð margra á hvalveiðum byggð á yfirgengilegri tilfinningasemi, ef ekki einfaldlega misskilningi. En stundum er vitleysisgangurinn svo mikill að það getur verið fífldirfska -- sem er ágætt orð til að lýsa því sem hér hefur gerst -- að fara gegn vitleysunni. Um það snýst málið. Ófaglega er að þessu staðið. Menn eru með allt niðrum sig. Niðurstaða? Menn eru að fara í stríð gegn almenningsálitinu út í heimi fyrir níu óæta hvali sem við megum líklega ekki einu sinni flytja til Japans. Ef David Brent í Office hefði staðið að þessu, hefði ég skilið það. En þá væri hann líka með skítaglott á vörum út af klúðri og kynni að skammast sín. Hitt er svo líka annað: Það blasir við vegna hvers þeir félagarnir Einar Oddur og Einar K. eru að þessu núna. Það eru að koma kosningar og þeir telja að þetta gangi vel í sjómannabyggðirnar á Norðvesturlandi. Kannski til þess að beina athyglinni frá öðrum klúðrum -- a la David Brent -- eins og til dæmis, tja, ýmsum meinbugum á kvótakerfinu. Kannski telja nefnilega Vestfirðingar að þeirra maður hafi hreinlega ekki staðið sig sem sjávarútvegsráðherra. Hvalveiðum er ætlað að bæta ímynd ráðherrans, en því miður er ímynd Íslands fórnað í staðinn. Semsagt: meiri hagsmunum fórnað fyrir minni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver eru þín rök fyrir því að andúð við hvalveiðar séu "auðvitað byggð á yfirgengilegri tilfinningasemi, ef ekki einfaldlega misskilningi"??

Hildur (IP-tala skráð) 24.10.2006 kl. 10:47

2 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Jú sæl. Ég segi að "andúð margra" sé byggð á yfirgengilegri tilfinningasemi. Hér er ég semsagt ekki að gera því skóna að andúð allra sé byggð á tilfinningasemi. Sú tilfinningasemi sem ég get ekki tekið undir er til dæmis sú að hvalir séu einhvern hátt æðri öðrum dýrum, geti talað og svo framvegis, og af þeim sökum megi ekki veiða þá. Einnig virðist mér tilfinningasemin oft leiða til þess menn horfast ekki endilega í augu við tölur, byggðar á rannsóknum, um stofnstærðir. Mér finnst til dæmis Paul Watson of mikill tilfinningamaður hvað þesssa umræðu varðar. Það sem ég kalla hræsni í þessari umræðu er bara sú gamla góða, af sama toga og Magnús Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður sýndi okkur með heimildarmynd sinni hér á árum áður. Fólk sem styður dauðarefsingar, Íraksstríð, mannréttindabrot af ýmsu tagi, gengur um í skóm úr krókódílaskinni og keyrir um á Hummer, en er á móti hvalveiðum, ... af fullum krafti. Ég kalli þá alla vega ósamkvæmni. EN ÉG ÍTREKA: Nú er ég bara að tala um málflutning margra, -- alls ekki allra -- eins og hann blasir við mér. Mín almenna skoðun hvað þetta varðar er þessi, svo því sé haldið til haga: Mér finnst fullkominn óþarfi fyrir Íslendinga að veiða hvali -- einkum og sér í lagi í ljósi andúðarinnar og lítilla hagsmuna, markaðar og annars --, mér leið alveg ágætlega sem Íslendingi þegar við gerðum það ekki (líklega betur) og ég held að það sé ótrúlega fífldirfsa að spila svona með hagsmuni annarra atvinnugreina. En svo tel ég líka að við verðum, almennt séð, að standa vörð um rétt okkar til þess að nýta fiskistofna af skynsemi. En þessir níu (óætu, virðist vera) hvalir eru ekki mjög sterkt innlegg inn á þá eilífðarbaráttu, finnst mér. Takk fyrir athugasemdina. Hefði viljað svara þér í styttra máli, en svona er þetta...

Guðmundur Steingrímsson, 24.10.2006 kl. 11:21

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég kaus græna flokkinn í Svíþjóð og ég á eftir að styðja börnin mín ef þau vilja verða grænmetisætur. Ég elska dýr, en get ekki af því gert að ég er kjötæta. Ég tel það nauðsin að við komum vel fram við dýrin sem við veiðum og slátrum. Við verðum líka að sjá til þess að jafnvægið í náttúrunni haldist. Maður getur ekki veit eina sort og sleppt annari bara vegna þess dýrið er með svo "falleg augu".

Mér finnst að ofveiðar er glæpur og á að stoppas, en ég tel ekki Íslendinga vera með græðgi hér. Því hér fjallar veiðin um jafnvægi og kannski stór tap af ferðamönnum sem koma til að skoða hvalinn...

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég get haft rangt fyrir mér... ;)

Gunnar Helgi Eysteinsson, 24.10.2006 kl. 12:03

4 identicon

Takk fyrir svarið. Það getur reyndar vel verið að það séu margir "of" tilfinningasamir varðandi þetta mál, alveg á sama hátt og við á Vesturlöndum erum ef til vill "of" tilfinningasöm í andúð okkar við hundakjötsát í suð-austur Asíu og nautaati á Spáni. Það má alveg halda því fram að maður megi ekki mótmæla einu máli nema maður hafi hreinsað sig af skeytingarleysi yfir öðrum stærri málum, en ef við gerum alltaf þá kröfu þá er ansi hætt við að fæstir megi tjá sig um nokkurn skapaðan hlut.
Annars hef ég ritað tilfinningasemi mína um þetta mál hér http://www.politik.is/?i=19&b=5,1098&expand=1

Hildur (IP-tala skráð) 24.10.2006 kl. 12:15

5 Smámynd: Guðmundur Steingrímsson

Ég verð að taka undir það, að það er auðvitað ekki hægt að gera þá skilyrðislausu kröfu að menn megi ekki mótmæla einu máli nema hafa hreinsað sig af skeytingarleysi yfir öðrum stærri. Ég treysti mér hins vegar til að segja, að miðað við mörg ógnarstór vandamál heimsins (Afríka, svo dæmis sé tekið) þá koma mjög afdráttarlaus mótmæli margra ráðamanna annarra ríkja mér dálítið spánskt fyrir sjónir. Mér finnst þau grunsamleg. Þau lykta af populisma. Hvalveiðar Íslendinga eru vissulega himnasending út frá almannatengslasjónarmiðum fyrir marga stjórnmálamenn. Einar K. skorar á Vestfjörðum. Ástralski umhverfisráðherrann, og fleiri, skora heima fyrir með mótmælum sínum. Og það var nú megininntak greinar minnar: Ísland, hins vegar, kemur illa út úr þessu. Menn eru þegar byrjaðir að afboða ráðstefnur. Ég gæti trúað að ein ráðstefna skilaði meiru í þjóðarbúið en níu óætir hvalir. Veit það samt ekki. Einn punktur að lokum: Almennt séð virðast mér Íslendingar fastir í því að lífsafkoma þeirra verði alltaf að byggja á því að einhverju skuli fórnað. Náttúruperlum, uppbyggingu ferðamannaiðnaðar, jöfnuði. Ég held þetta viðhorf sé í grundvallatriðum rangt, einstrengingslegt, og því þurfi að breyta. Ég held að pólitík á næstu árum muni snúast um það, að benda á leiðir sem fela ekki í sér að við þurfum endalaust að fórna geit til þess að þóknast hagvaxtargoðinu.

Guðmundur Steingrímsson, 24.10.2006 kl. 13:02

6 identicon

Ég er sammála þér varðandi forneskjuleg viðhorf stjórnvalda til hagvaxtar, og að þeir telji alltaf að það þurfi að fórna náttúruperlum fyrir hann. Enginn ágreiningur þar.
Ég er hins vegar ósammála þér varðandi popúlismann í því að andmæla hvalveiðum. Það deilir enginn um þá staðreynd að margt annað er brýnna, til dæmis verndun mannslífa í Darfur og á fleiri stöðum, en það er alls ekki svo að þá séu dýraverndunarmál einhver gervimál. Áhyggjur manna af hvalategundum í útrýmingarhættu og ómannúðlegum veiðiaðferðum eru ekki á lausu lofti gripnar og þó svo að vel megi vera að stjórnmálamenn séu tækifærissinnar þá blasir ekkert frekar við í þessu máli en öðrum að þeir sýni það af sér.
Það er hins vegar rétt hjá þér að við Íslendingar erum að koma illa út úr þessu og ég efast ekki um að það er hluti skýringarinnar af áhyggjum erlendra ráðamanna. Í anarkísku alþjóðakerfi er afar mikilvægt að þjóðir sýni að þær taki ákvarðanir sem brjóta ekki í bága við alþjóðasáttmála sem þær hafa gengist undir. Að því leytinu minnum við á Norður-Kóreu og völdum vonbrigðum.

Hildur (IP-tala skráð) 25.10.2006 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband