Leita í fréttum mbl.is

Ætlar VG að valta yfir Sigurrós?

Um daginn fór ég ásamt Ske í stúdíó upp í Álafosskvos til þess að taka upp lag. Stúdíóið heitir Sundlaugin og er í eigu Sigurrósar, eins og margir vita. Í einni pásunni stóðum við úti á hlaði í kyrrðinni þarna í kvosinni, þar sem lækurinn rennur í gegnum húsið,  og Biggi upptökumaður benti upp í brekkuna ca 20 metrum frá. 

Þarna á að koma vegur, sagði hann. Ég verð að játa að mig rak í rogastans. Vegur? Þarna? Hvað átti  maðurinn við?

Jú, vegur.

Við skulum hafa þetta alveg á hreinu: Ætlunin er að leggja veg, heila umferðaræð, beint í gegnum miðja Álafosskvos, beint í gegnum friðsælt og fallegt útivistarsvæði, og beinlínis beint við stúdíó Sigurrósar og önnur mannvirki -- flest sögufræg -- sem þarna eru. 

Ekki verður betur séð en stúdíóið -- sem er einstakt og ákaflega vel tækjum búið -- verði óstarfhæft. Enginn tekur upp lag -- í mesta lagi techno -- með heila umferðaræð hinum megin við vegginn.  

Ég hélt satt að segja að menn myndu sjá að sér. Þessi framkvæm er fáránleg. Ástæðan fyrir því að ég hélt að menn myndu sjá að sér er ekki síst sú, að Vinstri Grænir eru í bæjarstjórn í Mosfellsbæ.

Þá fjúka nú umhverfisáherslur fyrir lítið ef minja- og náttúruperlum Mosfellsbæjar skal fórnað í þágu vegagerðar  eins og ekkert sé. Ég læt vera að Sjallarnir standi fyrir því, enda við öllu slíku að búast úr þeirri átt, en Vinstri Grænir?

Auk þess átti ég allra síst von á því að röð atburða myndi leiða til þess að Vinstri grænir myndu í bókstaflegri merkingu valta yfir Sigurrós, hljómsveitina sem hefur lengi verið einn helsti boðberi náttúrudýrkunar og grænna gilda á heimsvísu.

Þeir hafa stundum verið kallaðir álfar í heimspressunni. Það hefur aldrei gefist vel í vegagerð að grafa vegi yfir álfasteina og álfakirkjur.

Hugur minn er allur með mótmælendum. Að sjálfsögðu á að stöðva svona lagað. Það er mín skoðun. Ég leyfi mér í öllu falli að stinga upp á því að Mosfellingar setji svo umdeilt mál í atkvæðagreiðslu, líkt og gert er í Hafnarfirði með stækkun Straumsvíkur. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa.

Ég vona að VG sjái að sér og tali um fyrir Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Framganga VG í málinu hingað til hefur hins vegar ekki gefið miklar vonir um það.  Hér reynir á hvort þeir eru í raun umhverfisverndarsinnar inn við beinið, þegar þeir stjórna.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Guðmundur minn, hvað gengur þér til með þessu?

í skipulags og byggingarnefnd í mosó er 1/5 úr VG

http://mosfellsbaer.is/?Sid_Id=1438&tId=1

Ætlarðu að setja þessa ákvörðun alfarið yfir á VG? Finnst þér það í alvöru réttlætanlegt? Reyndu það vinur að vera pínu málefnalegri í flutningi þínum ef þú ætlar að halda því á lofti að VG sé ekki umhverfis- og náttúruverndarflokkur. Þar ertu á hálum ís.

Andrea J. Ólafsdóttir, 31.1.2007 kl. 19:58

2 identicon

Eru VG ekki í bæjarstjórn og í meirihluta í Mosfellsbæ Andrea?

Eru kannski að segja okkur það að VG hafi greitt atkvæði gegn framkvæmdinni bæði í bæjarstjórn og skipulags- og byggingarnefnd ?

 VG er ekki heilsteyptur náttúruverndarsinnarflokkur frekar en annar flokkur, þar eru skipar skoðanir eins og í öllum öðrum flokkum.

Minni á ágæta grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku þar sem fjallað var um að fulltrúi VG í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur greiddi atkvæði með samkpmulagi við Alcan um sölu á raforku vegna fyrirhugaðrar stækkunar í Straumsvík.

Ámundi (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 20:12

3 Smámynd: Árni Matthíasson

Það er vitaskuld rétt athugað hjá Andreu að VG á aðeins einn fulltrúa í skipulags og byggingarnefnd, en hún gáir ekki að því að sjálfstæðismenn eiga þar tvo fulltrúa af fimm. Gefur augaleið að einfalt væri fyrir einstæðinginn frá VG að mynda nýjan meirihluta í nefndinni og fella þessa geðveikislegu framkvæmd.

Og nei, ég tek ekki mark á því að VG geti ekki fjallað um málið í bæjarstjórn vegna þess að það snerti beint einkahagsmuni oddvita listans (Karl Tómasson býr skammt frá fyrirhuguðu brautarstæði). Hann var ekki einn á listanum.

Árni Matthíasson , 31.1.2007 kl. 20:21

4 identicon

Þar lágu Vinstri grænir í því. Ekki gott svona í upphafi kosningabaráttunnar  ...fyrir þá og þau málefni sem þeir segjast bera fyrir brjósti.

Það sem þeir segjast vera er ekki  alveg það sem þeir eru.

Þetta er smá innlegg í umræðuna 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 20:27

5 identicon

Þarna eru Vinstri græn í nákvæmlega sama hlutverki og Framsókn í ríkisstjórninni eða borgarstjórn - stuðningsfulltrúi Íhaldins.   Enda í meiri hluta samstarfi með því.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 21:04

6 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Svona er að vera hækja íhaldsins ...

Hlynur Þór Magnússon, 31.1.2007 kl. 21:55

7 identicon

Ég hef fulla trú á því að Vg leiði þetta mál farsællega til lykta. Það getur bara ekki annað verið, þeir hafa staðið eins og klettur á móti svona framkvæmdum alls staðar og þykja einstaklega trúverðug í þessum málum. Þetta væri stílbrot.

Vg í Mosó hlýtur að snúa þessari ákvörðun við - eða gefa einhverja verulega góða skýringu á því af hverju þau geta það ekki ef sú er raunin.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 22:27

8 Smámynd: Heimir Hermannsson

Já Guðmundur þetta blæjubandalag sýnir loksins sitt rétta andlit.

Heimir Hermannsson, 31.1.2007 kl. 22:38

9 identicon

Þar kom að því! það er nefnilega stundum erfitt að vera kaþólskari en páfinn í málflutningi sínum og stefnu þegar kemur að ákvarðanatöku þá fer grænkan fyrir litið. Að sjálfsögðu hafa vinstri grænir í Mosó þetta mál í hendi sér en hvað sem verður þá er þessi vegalagning algjört stílbrot í umhverfi sem á engan sinn líkan á Íslandi hvað varðar byggingar og hvernig þær falla að landinu þarna er samfélag sem sést gjarnan í útlöndum.

Helga Elínborg (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 22:47

10 Smámynd: Kristján Pétursson

Ég held að það sé best fyrir alla að halda sig á mottunni þegar verið er að fjalla um náttúruverndarmál.Þó samþykktar flokksmálayfirlýsingar og samþykktir liggi fyrir um heildarstefnur í þessum málafokki hjá VG ,er ekki hægt fyrir nokkurn flokk að bera ábyrgð á gjörðum manna í hinum ýsmu bæjarfélögum.Andrea hafðu engar áhyggjur af vinstri grænum í Mosó,það er heildarstefna náttúrverndarsinna sem skiptir máli,blettir eru misgrænir. 

Kristján Pétursson, 1.2.2007 kl. 00:18

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Gaman væri að fá litla yfirlitsmynd af þessum framkvæmdum.  Er Sigurós komin á  náttúruminjaskrá? Eru hrófatildrin þarna í kvosinni nú orðin sögulegur fjársjóður? Er þetta virkilega heimreið fyrir Karl Tómasson, eða er rökræn ástæða fyrir þessari framkvæmd?

Myndir af þessu, svo fólk átti sig á hvað er í raun verið að tala um. 

Jón Steinar Ragnarsson, 1.2.2007 kl. 01:57

12 identicon

Vinstri grænir, hægri snú!

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 06:35

13 Smámynd: Árni Matthíasson

Ágæti Jón Steinar - um þessi mál hefur talvert verið skrifað í Morgunblaðinu. Bendi þér á greinasafn þess og bíð eftir lærðri útlistun þinni að loknum rannsóknum, þó ýmislegt bendi til þess að þú sért þegar búinn að mynda þér skoðun ("hrófatildrin þarna í kvosinni").

Árni Matthíasson , 1.2.2007 kl. 08:02

14 identicon

Ertu að pæla í að vinna sem fyrirsagnahöfundur á Séð og heyrt eða DV? Það hentar náttúrlega pólitíkinni þinni best að nota svona stórkostlega fyrirsögn. Stilla upp náttúruverndarflokknum VG sem andstæðingi náttúruverndarsinnasveitarinnar Sigurrós. Þá verður VG svo svakalega vondur flokkur. Valtar yfir vini sína. En eins og hefur komið fram er margt fleira en VG og Sigurrós sem koma við sögu þannig að fyrirsögnin er frekar rýr að innihaldi þó svo að greinin sé hins vegar ágæt.

Tryggvi Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 10:38

15 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ég held að við komust ekkert áfram með þessum hártogunum og puttabendingum. Vil minna á að þegar maður bendir á aðra þá snúa slatti af puttum að manni sjálfum. Bendi þér á að skoða hverjir upphaflega samþykktu deiliskipulagið að byggðinni þarna sem þannan veg á að tengja við. 

Hvernig væri nú að hætta þessu tuði og nöldri og fara að einbeita sér að flokknum sem hefur enga umhverfisstefnu aka XD. Þeir eru sjálfsagt ánægðir yfir þessum stormum sem verið er að þeyta upp á milli vinstri flokka, á meðan sitja þeir frjálsir frá allri ábyrgð og geta einbeitt sér að því að hala fólk til fylgis við sig.

Birgitta Jónsdóttir, 1.2.2007 kl. 11:01

16 identicon

Bíddu Tryggvi. Er sannleikurinn ekki nákvæmlega sá að VG ætlar að valta yfir Sigurrós?  Þeir höfðu alla burði til þess að stöðva þessa framkvæmd en gerðu það ekki. Það er bara málið með VG eins og aðra flokka að þar hefur fólk misjafnar skoðanir.

VG hafa verið ansi duglegir að gera lítið úr umhverfisstefnu Samfylkingarinnar þar sem að á Húsavík voru Samfylkingarmenn hlynntir rannsóknum á fyrirhuguðu álveri sem og í Skagafirði.  VG ætti kannski að líta í eigin barm áður en þeir ráðast á samstarfsflokka í stjórnarandstöðinni.  

Einar E. (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 11:04

17 identicon

Merkilegt fyrirbrigði þetta VG - hakkar Samfylkinguna í sig þegar hentar og hefur uppi stór orð um glataða umhverfisstefnu hennar og svik við málstaðinn.  Þegar svo VG verður á í umhverfismálum, verður uppvíst að kærkuleysi eða hiemsku, og þeim er bent á það, eiga skyndilega öll dýrin í skóginum að vera vinir.

Ég gef frat í hræsnispyttinn VG. 

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 11:12

18 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

nei gefum frekar XD færi á okkur... og höldum endilega áfram að munnhöggvast

Birgitta Jónsdóttir, 1.2.2007 kl. 11:30

19 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

ég sé einmitt ekki ástæðu til að vera að nudda XS upp fyrir öll þau umhverfisslys sem þau hafa tekið þátt í að valda í fortíðinni. frekar vil ég vera vinur í skóginum eins væmið og það er heldur en að taka þátt í síendurtekningum á fortíð sem hvort er eð er frekar ömurleg. held að þrátt fyrir allt sé vinstri stjórn betri kostur en XD enn og aftur með stjórntaumana. en kannski er VG bara betur borgið með XD en að þurfa að sitja undir svona árásum.

Birgitta Jónsdóttir, 1.2.2007 kl. 11:36

20 Smámynd: Sigurjon Einarsson

eg ved ad skrifa a halfgerdu morsi, thar sem eg sit ansi fjarri Moso og okkur skylur stort haf. Engu ad sidur er eg upptekin af umraedunni, og mer virdist sem her hljoti ad vera haegt ad malamidla. Thad virdist sem thessi umferdaraed muni raska nokkru sem er svolitid serstakt. Hlutir thurfa ekki ad vera verndunar mikilvaegir bara ef ther eru graenir, eda eru sogulegir. Tharna uppi i kvosinni hefur skapast i seinni tid serstakur menningarlegur reitur i studioi og adstodu theirri sem SigurRos hefur komid upp. Thetta hafa their til og med gert i "rustum" sogufraegrar sundlaugar, og hrodur thessarar adstodu hefur borist um vidan heim. Ef thad er thannig ad thessi vegarspotti getur ordid til thess ad starfsemi og adstada thessi leggist nidur, finnst mer full astaeda til ad endurskoda thessar aaetlanir. Vegaframkvaemdir i graenni natturinni eru avallt natturskemmandi hvar sem thaer leggjast - en ef framkvaemdir sem thessar eiga einnig haettu a ad ganga ad daudri menningarstarfesemi sem her hefur skapast - tha finnst mer vid eiga ad sameinast i ad leita annara lausna. - vona ad this skiljid hrafnasparkid,,

Sigurjon Einarsson, 1.2.2007 kl. 12:09

21 identicon

Einhver bað um myndir af framkvæmdunum og þá má geta þess að bæjarstjórnin lét gera mynd sem birtist í blöðunum þar sem umrædd braut sést sem silkiþráður væri í brekkunni fyrir ofan Álafoss. Væntanlega hefur (þáverandi bæjarverkfræðingur staðið að þessu þar sem hann sagði: „Mun ... ásýnd [brekkunnar] haldast ef frá er talið að vegurinn mun skerast inn í landið“. Svo virðist sem stefna VG í umhverfismálum hafi ekki náð óbreingluð hingað í sveitina, enda búið að loka bókabúðinni fyrir löngu. Oddviti þeirra segir sig of nátengdan umhverfismálum til að geta tekið afstöðu til þeirra og á aðalfundi hestamannafélagsins heyrði ég Ólaf Gunnarsson sem situr í skipulagsnefnd fyrir VG segja að ekki væri vinnufriður í nefndinni fyrir umhverfissamtökum. Á fundi hjá sjálfstæðisflokknum hér fyrir sveitarstjórnarkostningar kom fram það sjónarmið að Álafosskvos væri illa skipulögð og ljót. Bæjarstjórinn klikkir svo út með því að í Blaðinu í dag að segja að mótmælendur, í gær, séu ekki í tengslum við bæjarfélagið um leið og og dregur fjölskyldu syrgjandi fjölskyldu inn í málið á ónærgætinn hátt. Ég er búin að búa hér á annan áratug og það virðist alveg hafa farið fram hjá mér hvað er að vera Mosfellingur, vissi ekki að það væri staðlað. Ég lít á þetta sem einelti. Ég vona að flokkarnir hætti bráðum að að rífast um hver setti silkiþráðinn fyrst inn á skipulag og bæjarstjórnin komi út úr tímavélinni hingað í tuttugustu og fyrstu öldina þar sem hefur komið í ljós að þau eru að skemma eitt mikilvægasta svæði bæjarins varðandi atvinnu- og menningarsögu hans sem þar er auki er okkar heiti reitur í skapandi starfi. Fleira er ket en farin skáld og fræd tjikken.

Kristín Páls (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 12:37

22 Smámynd: Alma Lísa Jóhannsdóttir

Merkilegt hvað Samfylkingin á það til að vera bitur í okkar garð.  Mætti halda að við hefðum slitið eldheitu ástarsambandi við ykkur... Svona upphrópanir finnst mér bara ekki eiga við. Vildi samt að lífið væri svona einfalt, svart og hvítt.

Annars er ég sammála þér um ummæli þín um svæðið, ég vona innilega að eitthvað sé hægt að gera í þessu máli. Það væri mikil eftirsjá af þessu svæði. Hefði gjarna setið með Bryndísi í gær ef ég hefði átt tök á því. Með góðri kveðju Alma

Alma Lísa Jóhannsdóttir, 1.2.2007 kl. 13:22

23 identicon

Varðandi ummæli Ölmu vil ég taka fram að ég hef aldrei verið virk í stjórnmálaflokki og er ekki að verja Samfylkinguna heldur beina spjótum að þeim sem hafa valdið í þessu máli. Það er bæjarstjórn XD og VG. Staðreyndin er sú að flestir sem kusu VG hér í Mosó skilja ekki samhengið á milli stefnu flokksins og framkomu í þessu umdeildasta umhverisslysi, seinni tíma, hér í bæ. Hér hafa þeir tækifæri til að hafa jákvæð áhrif sem þeir hafa ekki nýtt til þessa. Þetta eru allir þeir sem ég þekki og veittu þeim atkvæði sitt sammála um. Ég skrifa hér af því ég þekki málið nokkuð og er í Varmársamtökunum. Ég vona svo sannarlega að það komist upp úr pólitískum skotgröfum og að farsæl lausn finnist, en hún felur ekki í sér myndskreytingu á hljóðmanir brautarinnar, að mínu mati.

Kristín (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 14:06

24 identicon

Já mér brá við fréttirnar um að jafn sögufrægur staður fari undir umferða-æð-i. Álafoss-verksmiðjan með merkari fyritækjum.

Hef sjálfur beiska reynslu á því að eyðileggja náttúru undur, þegar ég fékk í hendurnar jarðýtu sem réði við klettinn, og hugsið ykkur í og við þennan klett lék ég mér ungur drengur, held að vísu í þessum kletti hafi ekki búið huldufólk, en kannski.

Kletturinn hefndi sín á mér, seinna, mörgum árum seinna, búrekstur minn varð nær gjaldþrota við skaðann, sem ég varð fyrir við klettinn , seinna meir fann ég engva aðra ástæðu fyrir skaðanum en niðurbrot klettsins sem var vegna vegagerðar , þá einmitt af mjög lítilli ástæðu.

Jón Aðalsteinn

Gætum okkar, öll náttúra er einstök, í klettum búa huld öb.l

Jón Aðalsteinn Hermannson (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 16:31

25 identicon

Það var mikið að þið hinir svokölluðu ,,umhverfisverndarsinnar af malbikinu" tjáið ykkur um framkvæmdir innan og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Ekki hefur heyrst múkk um Hellisheiðarvirkjun (sem að sjálfsögðu var sett á koppinn af SAMFYLKINGUNNI og VINSTRI GRÆNUM) en svo ætlar allt um koll að keyra ef einhverjum þúfum er velt úti á landi og torfkofarómantík sveitarinnar ógnað vegna þess að fólk úti á landi þarf jú að hafa atvinnu.

 Haldið áfram að taka til í ykkar eigin garði og svifryksmengun og látið okkur landsbyggðarbúa í friði!

Sigrún Lilja Einarsdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 21:55

26 identicon

798. fundur bæjarráðs Mosfellsbæjar.  sjá lið 1.  Skrollið síðan að lið 10. og þá dregur til tíðinda... 

http://www.mos.is/default.asp?sid_id=966&tre_rod=002|002|&tid=4&vef_id=63&ID=8479&Leitar_strengur=

 Til útskýringar: Karl Tómasson í VG hefur nefnt sig vanhæfan að fjalla um tengibrautina sem fer um Álafossveg vegna búsetu sinnar.  Nú, ef svo er af hverju er hann þá að taka til máls í lið 10?  Bílskúrinn umræddur er í næsta húsi.  Ehhh.....sem þýðir hvað? Að það má fjalla um sumt en ekki annað?  Samt er metrafjöldin frá húsi Karls og að umræddu húsi 14metrar og innan þess svæðis sem hann hefur lýst sig vanhæfan til að fjalla um, Álafosskvosina.

Upps...hann gerði þetta aftur....sjá lið 6.

http://www.mos.is/default.asp?sid_id=966&tre_rod=002|002|&tid=4&vef_id=63&ID=8566&Leitar_strengur=

Ef linkar virka ekki þá er þetta inni á www.mos.is, undir fundargerðir bæjarráðs no. 798 og 800.

Hildur Margretardottir (IP-tala skráð) 1.2.2007 kl. 23:47

27 identicon

Skemmtilegt hvað hefur heyrst lítið í Andreu Ólafsdóttur eftir að hún tjáði sig upphaflega um málið og taldi að VG ætti enga sök í málinu þar sem þeir væru einungis með einn mann af fimm í skipulags og byggingarnefnd.

hvað segir Andrea nú eftir ummæli oddvita flokksins í mosfellsbæ ?     

Pokus Malacoskavs (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 09:48

28 identicon

Já, það er vont þegar VG hlaupast undan merkjum, og ljóst að umhverfisástin nær fyrst og fremst til fjallanna blárra í fjarlægðinni, en þegar kemur að eigin bakgarði þá víkja hinar fögru hugsjónir fyrir praktískum raunveruleikanum.

Mér finnst það samt frekar undarlegt að þú skulir vera talsmaður þess að stjórnmálamenn fari að dæmi raggeitanna í Hafnarfirði og skjóti sér undan skyldu sinni að taka erfiðar ákvarðanir.  Það er svo auðvelt að bjóða sig fram til Alþingis/sveitarstjórnar og delegera bara öllu í burtu sem er erfitt og tala um "leggja í dóm kjósenda".  Guðmundur, hvað heldur þú að kosningar almennt snúist um?  Jú, að dæma stjórnmálamenn af verkum sínum, og ef einasta verk stjórnmálamanna er að hlaupa eins og fætur toga undan því sem erfitt er, en baða sig svo í dýrðarljóma þess sem þeir telja jákvætt, þá kallast það pöpulismi og lýðskrum.  Nokkuð sem sumir flokkar virðast aðhyllast umfram aðra, nefni engin nöfn.

Var þetta nógu stutt fyrir þig? 

haukur (IP-tala skráð) 2.2.2007 kl. 10:24

29 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Já kannski finnst sumum merkilegt að ég skyldi ekki tjá mig meira um málið... en ég taldi nú réttast að fara upp í mosó og skoða aðstæður og sjá hvernig landið liggur og kynna mér þá valkosti sem í boði eru. Vissulega finnst mér að það þurfi að skoða málið þegar svæðið er á náttúruminjaskrá - en ég tel ekki við einn mann að sakast í þessu efni. Þessi vegur hefur verið inn á skipulagi bæjarins í yfir 20 ár skilst mér og hefði því verið auðvelt fyrir SFmenn að stoppa framkvæmdir á þeim tíma sem þeir voru í bæjarstjórn, ekki alls fyrir löngu. 

En ég get svo sem vel skilið að oft áttar fólk sig ekki á hvernig hlutirnir koma út fyrr en til framkvæmda kemur.

Ég fór semsagt uppeftir og skoðaði þetta mál. Í fyrsta lagi er ekkert verið að valta yfir Sigurrós, stúdío þeirra er ekki né verður við þennan veg, húsið hans Kalla VG er hins vegar alveg upp við. Eins finnst mér hrikalegt ef að málið á að snúast um Sigurrós, en ekki Varmá sem er á náttúruminjaskrá. 

Valkostirnir í stöðunni voru annars vegar að fara í gegnum nýja Krika og Teiga hverfin, keyra semsagt með umferð í gegnum Reykjalundsskóginn, eða framhjá Reykjalundi þar sem er mikið útivistarsvæði - því umhverfisslysi var afstýrt. Enda hefði vegurinn þar þurft að liggja yfir Varmá.  

Í öðru lagi er hægt að fara með veginn upp fyrir Áslandshverfið, og þá kemur hann svolítið bakatil inn í þetta nýja umrædda hverfi - sem er frá mínum bæjardyrum séð ekkert stórkostlega slæmt - en er aðeins lengra en þessi vegur. 

Ég tel því að mótmælendur og bæjarstjórn þurfi að taka frekar afstöðu með eða á móti þeirri byggð sem verið er að skipuleggja þarna í Helgafellslandinu, því einhver vegur verður að liggja þar inn ef úr byggð á að verða. Mótmælendur geta þá líka látið til sín taka með því að taka upp valkostaumræðuna og ræða það við bæjaryfirvöld á staðnum og mælt þá sérstaklega með þeim valkosti sem þeir sjá farsælastan.  

Ég vona hins vegar að þetta umrædda mál fái farsælan endi sem íbúar svæðisins geta fallist á. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 5.2.2007 kl. 19:26

30 identicon

Sæl Andrea. Ég vil benda á að margir telja bestu leiðina stokk undir Ásland og Vesturlandsveg. Stuttur stokkur og engin ný vegamót. Hugmyndin sem Varmársamtökin köstuðu fram, á stofnfundi, er sú leið sem þú talar um að fari í gegnum Krika-og Teigahverfi. Þar er á skipulagi stofnbraut og umferðaræð nú þegar. Vegurinn þyrfti reyndar að fara yfir Varmá, sem er ókostur, en þegar yfir hana er komið fer hann meðfram iðnararhverfi og sameinast svo stofnbrautinni sem skilur Krika- og Teigahverfi. Það á líka að koma vegur yfir Varmána fyrir ofan Álafosskvos þó að honum sé ekki haldið mjög á lofti. Hér sést hann á teikningu frá skipuleggjenda hverfisins. Aðalmálið er þó að engar af þessum leiðum hafa verið kannaðar, allavega getum við engin gögn fengið um það. Mér sýnist að Varmársamtökin þurfi að fara að skipuleggja skoðunarferðir.

Kristín Páls (IP-tala skráð) 6.2.2007 kl. 16:59

31 identicon

Þessi umræða er öll nokkuð merkileg. Ljóst er að aðkoma að fyrirhuguðu byggingarsvæði hefur verið á skipulagi um mjög langt skeið EN það sem hefur breyst er að græðgin hefur tekið völdin. Þeir sem keyptu landið vilja græða sem mest og til þess varð að þétta byggðina eða allt að sexfalda. Þess vegna þarf að reiknað með 10 þúsund bílum á dag á móti kannski 1500-2000 bílum. Það munar um minna. Og þarna brugðust bæjaryfirvöld íbúum. Gáfu eftir fyrir græðginni. Menn skulu einnig hafa það í huga að skipuleggjandi svæðisins er og hefur verið aðalráðgjafi bæjarins um skipulagsmál síðastliðin 20 ár. Eins er þessu farið með vestursvæði Mosfellsbæjar. Þétting til að græða. Er þetta sveit í borg? Svo vitnað sé í nýlegan kosnigaáróður. Í sjálfu sér er ekki við landeigendur að sakast menn eru jú í viðskiptum til að græða. En við kjósum fulltrúa til að gæta hagsmuna okkar íbúanna í bland við hagsmuni verktakanna. Þétting byggðar er í samræmi við yfirlýstar skoðanir núverandi formanns skipulags- og byggingarnefndar sem fram komu á borgarafundi um vestursvæðið. 

Jón Sævar Jónsson (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband