1.12.2007 | 13:20
Spurningakeppni
Jæja gott fólk. Í gær var ég beðinn um að vera spyrill á Pub Quiz á Grand Rokk, sem var verkefni sem ég tók að sjálfsögðu að mér með mikilli ánægju, enda er þar um að ræða spurningakeppni sem hefur fest nokkrar rætur í samfélaginu. Eigum við að ekki að segja að þetta sé svona Rotary Pub Quizanna.... Hér eru spurningarnar sem ég samdi. Reynið nú á þekkingu ykkar, kæru vinir, og birtið skorið í athugasemdum. Þetta eru 30 spurningar. Svörin eru neðst. Verðlaun engin nema aukið sjálfstraust, eftir atvikum.
SPURNINGAR:
1. Þann 30.nóvember árið 1872 fór fram fyrsti landsleikurinn í fótbolta. Hvaða þjóðir kepptu?
2. Hver skrifaði bókina Rimlar hugans?
3. Íslendingar mældist þjóða best hvað lífsskilyrði varðar samkvæmt mælingu á vegum Sameinuðu þjóðanna. En við spyrjum: Hvar er, samkvæmt þessu, næstbest að búa og hvar er verst að búa?
4. Hver er aðstoðarmaður samgönguráðherra?
5. Gáta: Hvað er það sem sést með berum augum, er þyngdarlaust, en þegar þú setur það á tunnu, léttist tunnan?
6. Hver er höfuðborg Indlands?
7. Hvað heitir Ungfrú Ísland sem er núna stödd í Kína að taka þátt í Ungfrú Heim?
8. Hver orti og um hvern?
Heimspekingur hér kom einn í húsgangs klæðum.
Með gleraugu hann gekk á skíðum,
gæfuleysið féll að síðum.
9. Hvað heitir forseti Kazakstan?
10. Hver var fyrsti umhverfisráðherra Íslands og í hvaða flokki var hann?
11. Úr hvaða lögum og með hvaða flytjendendum eru eftirtaldar textalínur, sem hér hefur verið snarað á íslensku úr upprunalega tungumálinu. Tvö rétt svör af þremur gefa eitt stig:
a) Jæja, þú getur séð það af göngulagi mínu, að ég er kvennamaður, hef engan tíma til að spjalla.
b) Við erum sigurvegarar, vinir mínir
c) Ég er bara fátækur drengur og saga mín er sjaldan sögð.
12. Það nýjasta í tískuheimi FM-hnakka er brúnkuklefi í Hafnarfirði sem er framar öðrum slíkum klefum. Á hvaða hátt?
13. Við hvaða bæ er morðmálið kennt sem bókin Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson fjallar um?
14. Hvaða uglutegund dvelur reglubundið á Íslandi?
15. Til hvaða kaupstaðar kemur maður fyrst þegar maður keyrir héðan, úr Reykjavík, og yfir Bröttubrekku?
16. Hvaða söngkona syngur með Nick Cave í laginu Where the Wild Roses Grow?
17. Hvað heitir leikarinn sem fékk Edduverðlaun á dögunum fyrir bestan leik í aukahlutverki?
18. Hvar er íslenski bjórinn Kaldi framleiddur?
19. Þann 30. nóvember árið 1874 fæddist maður sem bar millinafnið Leonard. Hann fæddist í Woodstock og móðir hans hét Jennie. Strákurinn stamaði en lét það ekki hindra sig við að tala síðar á ævinni. Sem ungur maður vann hann fyrir sér sem stríðsfréttaritari. Það er stytta af honum á Bond Street í London þar sem hann situr á bekk ásamt einum af ástsælari forsetum Bandaríkjanna. Hver er maðurinn?
20. Hver er leikstjóri sýningarinnar Gosi sem sýnd er í Borgarleikhúsinu?
21. Hvert var algengasta nafn stráka á Íslandi á aldrinum 0-4 ára í árslok 2006?
22. Hvað stendur til að byggja við Laugaveginn þar sem staðurinn Vegas er núna?
23. Edda Heiðrún Backman leikkona var að opna búð í vikunni, hvað heitir hún?
24. Hver skrifaði bókina Tractatus Logico Filosoficus?
25. Úr hvaða íslensku ljóðum og eftir hvaða höfunda eru þessar línur sem ég hef leyft mér að snara hér frjálslega yfir á ensku. Hér þarf þrjú rétt til að fá stig:
a) Over a cold desert sand, alone in the night I wander.
b) One teeny weeny flower with a tear in its eye, that prays to its god then it dies.
c) Those are difficult times, its hard to find a job.
26. Hver leikur doktor Gregory House, í sjónvarpsþáttunum House?
27. Hvað heitir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og frá hvaða landi er hann?
28. Hver var borgarstjóri í Reykjavík á eftir Davíð Oddssyni og hvað gerir sá einstaklingur núna?
29. Hver lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni Escape from New York?
30. Hvað heitir sjónvarpskarakterinn sem notar gjarnan frasann: Sæll, eigum við að ræða þetta eitthvað frekar?
----------------------------
Svör:
1. England og Skotland. Leikurinn fór 0-0 og fór fram í Glasgow frammi fyrir 4000 áhorfendum. Englendingar spiluðu með tvo í vörn og átta í framlínunni
2. Einar Már Guðmundsson.
3. Noregi og Sierra Leone.
4. Róbert Marshall.
5. Gat.
6. Nýja Delí.
7. Jóhanna Vala Jónsdóttir.
8. Hjálmar Jónsson frá Bólu um Sölva Helgason (Sólon Íslandus).
9. Nursultan Nasarbayev.
10. Júlíus Sólnes, Borgaraflokknum.
11. a) Stayin Alive, Bee Gees. Well, you can tell by the way I use my walk, I´m a women´s man, no time to talk.
b) We are the Champions, Queen.
c) The Boxer, Simon and Garfunkel. I am just a poor boy and my story is seldom told.
12. Hann talar við viðskiptavininn.
13. Bæinn Sjöundá við Rauðasand á Vestfjörðum.
14. Brandugla.
15. Búðardals.
16. Kylie Minogue
17. Jörundur Ragnarsson
18. Á Árskógssandi á Ársskógsströnd. Má segja hvort tveggja, sand eða strönd.
19. Sir Winston Leonard Spencer-Churchill. Fæddur í Blenheim Palace í Woodstock í Oxfordskíri. Móðir hans, Jennie Jerome, var dóttir amerísks milljarðamærings, en var betur þekkt undir nafninu Lady Randolph Churchill. Hinn ástsæli bandaríkjaforseti sem situr með Churchill á bekknum á Bond Street er Franklin D. Roosevelt.
20. Selma Björnsdóttir.
21. Jón. Í öðru sæti var Aron, Daníel í þriðja og Alexander í fjórða.
22. Listaháskóla.
23. Súkkulaði og rósir.
24. Ludwig Wittgenstein, heimspekingur.
25. a) Kveðið á Sandi (Yfir kaldan eyðisand), Kristján Jónsson Fjallaskáld.
b) Lofsöngur (Ó, Guð vors lands), Matthías Jochumson.
c) Maistjarnan, Halldór Laxness.
26. Hugh Laurie
27. Ban Ki-Moon, frá Suður-Kóreu.
28. Markús Örn Antonsson. Sendiherra í Ottawa. Nægir að segja sendiherra.
29. Kurt Russel.
30. Ólafur Ragnar. Hér þarf ekki eftirnafn. Að sjálfsögðu eru þættirnir Næturvaktin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2007 | 01:36
Best og verst
Sierra Leone er versta ríki í heimi, Ísland best, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Í Sierra Leone deyja 160 börn af hverjum þúsund við fæðingu, á Íslandi 3.
Sierra Leone búar geta búist við að verða um fertugir. Við áttræð.
Svona mætti lengi telja. Var að skoða staðreyndasíðu CIA.
35% þjóðarinnar í Sierra Leone er læs. 99% hér. Um 10 þúsund hafa internet í Sierra Leone, af sex milljón íbúum. Á Íslandi hafa 194 þúsund af 300 þúsund íbúum netið. Konur eignast að meðaltali sex börn þar suður frá. Íslenskar konur tæplega tvö.
Þjóðarframleiðsla á hvern Íslending var áætluð 2.394.000 kr. í fyrra samkvæmt CIA, en 56.700 kr. á hvern íbúa Sierra Leone. Hins vegar, ef íbúar Sierra Leone væru jafnmargir og Íslendingar (jafnfáir, það er að segja), og allt annað óbreytt, yrði þjóðarframleiðslan um 1.1 milljón krónur á haus þar í landi.
En það er bara höfðatölureikningur út í loftið.
Mér sýnist að við höfum það talsvert betra.
29.10.2007 | 22:35
Linkur
Það sem Gauti Eggertsson skrifar um útgáfu bókarinnar Tíu litlu negrastrákar er eins og talað úr mínu hjarta.
Lesið.
Vonandi vekja þau mistök, sem endurútgáfa bókarinnar er, sem flesta til umhugsunar.
12.10.2007 | 09:13
Yoko
Sagt er að Sjallarnir séu brjálaðir út í Yoko Ono. Fyrst splundrar hún Bítlunum og nú þetta...
Önnur vinkona benti mér á gott grín: Endurgerð 3G auglýsingar Símans. Sjálfstæðismenn samankomnir í Höfða. Við langborð. Villi hringir í Björn Inga. "Blessaður meistari" segir Björn. "Við erum hér, hvar ert þú?" spyr Villi... etc. etc.
Það má hlæja að þessu.
Ég brosi alla vega.
Til hamingju með nýjan borgarstjórnarmeirihluta gott fólk!
Ferskir vindar munu blása í Reykjavík.
9.10.2007 | 02:33
Prinsipp í panik
Ég botna satt að segja ekki mikið í því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn í borginni rýkur allt í einu upp núna með ægileg prinsipp um það að Orkuveita Reykjavíkur megi ekki eiga fyrirtæki -- eða eiga Í fyrirtæki -- sem er í útrás á sviði jarðvarmavirkjana.
Guðlaugur Þór Sjálfstæðismaður átti víst frumkvæðið að stofnun REI fyrir nokkrum mánuðum. Engin prinsipp voru höfð gegn því þá.
Bjarni Ármannsson var ráðinn stjórnarformaður. Enginn sagði neitt.
REI og Geysir Green sameinuðust. Það var almennt talið hið besta mál...
...þar til að kom í ljós þetta með lokaða hópinn sem átti að fá að maka krókinn á þeim viðskiptum. Það hefur blessunarlega verið dregið til baka, enda siðlaust.
Eftir stendur þessi staða: Orkuveita Reykjavíkur á núna hlut í risastóru fyrirtæki sem ætlar í útrás á heimsvísu. Framlag Orkuveitunnar er að stórum hluta til í formi þekkingar og reynslu.
Ég get með engu móti séð, að það sé sérstaklega gott prinsipp að Orkuveitan reyni ekki fyrir hönd borgarbúa og í þeirra þágu, að hámarka -- svo maður noti tískuorðið úr bransanum -- arðinn sem hægt er að fá fyrir þessa uppsöfnuðu þekkingu og reynslu á sviði jarðvarma. Það er eins og Sjálfstæðismenn telji það vera eitthvað sérstakt prinsipp að þessari þekkingu megi alls ekki koma í verð. Samt hafa þeir sjálfir átt frumkvæðið að því að koma henni í verð undanfarið...
Ekki er öll vitleysan eins. Maður er að reyna að vera sammála Sjálfstæðisflokknum hérna, en þá þarf hann endilega að snúast í hring í kringum sjálfan sig...
Þekkingu OR verður best komið í verð í samvinnu við einkaframtakið. Þar höfðu Sjálfstæðismenn rétt fyrir sér. Hið opinbera og einkageirinn eru samtvinnuð hvort sem okkur líkar betur eða verr í þessu máli. Einkageirinn er kominn með áhuga á jarðvarmavirkjunum. Í gerð þeirra er hagnaðarvon auk þess sem þær þjóna umhverfismarkmiðum. Nú er það bara spurningin: Hvort viljum við að einkageirinn einfaldlega kaupi þekkinguna --- starfskraftana úr OR -- og skilji eftir hin opinberu orkufyrirtæki rúin inn að skinni, eða að orkufyrirtækin eins og OR taki þátt í þessu útrásarverkefni, leggi til þekkingu og reynslu, og fái arð í staðinn? Sá arður rennur til borgarbúa.
Ég sé ekkert sannfærandi prinsipp gegn síðari möguleikanum. Og mér sýnist Sjálfstæðismenn ekki heldur hafa séð þau, þar til allt í einu núna. Í einhverri panik út af innri trúnaðarbresti og ýmis háttar klúðri, sem hefði vissulega mátt missa sín, vill Sjallinn hætta við út af prinsippi.
Sjallinn fór í panik út af klúðri og fannst hann sjá prinsipp.
Að sjá prinsipp í panik. Það er aldrei gott.
Verkefnið núna er að anda djúpt og hugsa hvernig hag borgarbúa og nærsveitarmanna -- eigenda Orkuveitunnar -- verður best borgið í þessari stöðu sem er komin upp. Annað er vitleysa.
1.10.2007 | 19:30
Gott gott
Þetta var fínn dagur. Þingsetningardagur.
Forsetinn hafði lög að mæla. Það verður að passa að þjóðin sundrist ekki út af auðmönnum og vaxandi misskiptingu. Þurfum að leggja rækt við ræturnar, passa sérkenni okkar og menningu. Margur verður af aurum api. Það gildir líka um þjóðir.
Mér fannst líka gott að heyra það frá Sturlu að það standi til að gera breytingar á störfum þingsins. Auðvitað er það löngu tímabært. Þingið þarf að starfa lengur yfir árið, umræður þurfa að vera markvissari með styttri og snarpari ræðum, þingnefndir þurfa aukið vægi. Ég myndi líka vilja sjá í þessu breytingu þess efnis, að þingið geti stofnað tímabundnar nefndir til þess að fjalla um ýmis sérstök mál sem þurfa rannsóknar við.
Nú svo var það fjárlagafrumvarpið. Það eru auðvitað ánægjuleg tíðindi að heyra að gert sé ráð fyrir 31 milljarða afgangi í stað 5 milljarða halla, eins og talað var um fyrir ári. Það er vel hægt að sætta sig við það.
Ég yrði alla vega mjög ánægður ef viðsnúningurinn í heimilisbókhaldinu væri hlutfallsleg sá sami um þessi mánaðarmót. Lítið sjóðstreymi hér. Viðvarandi hallarekstur...
Margt hljómar vel í þessu frumvarpi. Þarna er átak í samgöngumálum og átak í málefnum barna og ungmenna. Og aukin fjárframlög til Landspítalans, svo eitthvað sé nefnt, sem og til byggingu hjúkrunarrýma.
Þá er líklegt að það verði svigrúm til þess á komandi árum að efla velferðarkerfið og gera betur við umönnunarstéttir, kennara og aðrar mikilvægar starfstéttir samfélagsþjónustunnar. Þetta er eitt mikilvægasta verkefni komandi ára: Að gera þessi störf aftur eftirsóknarverð. Það markmið næst varla nema með því að færa meira fé eða tekjustofna til sveitarfélaga, sem sjá um þessa þjónustu að miklu leyti.
Hér er ég að hugsa upphátt.
Og þetta leiðir einmitt hugann að öðrum óvissuþáttum, því kjarasamningar eru vissulega einn þeirra. Í þessu fjárlagafrumvarpi er til dæmis ekki gert ráð fyrir stóriðju á komandi árum. Mín vegna má það gjarnan vera þannig. Ég sé ekki að það sé nokkur þörf á stóriðjuframkvæmdum hér á landi miðað við þetta frumvarp.
En það er ekki víst að það standist. Það getur orðið erfitt að koma í veg fyrir 80 milljarða kr. álver í Helguvík. Auk þess virðast aðrar framkvæmdir vera talsverðar á teikniborðinu, a.m.k. hér á Reykjavíkursvæðinu, þó svo Sundabraut hafi verið frestað. Þetta ásamt kjarasamningum getur haft áhrif á hið boðaða jafnvægi. Það verður mikilvægt að halda vel á spöðunum.
En alla vega: Afgangur er betri en halli. Það er lykilatriðið. Þá er hægt að gera hluti. Og sumt er þegar hafið. Mér sýnist þetta vera nokkuð gott frumvarp, með þeim fyrirvara þó að ég á eftir að lesa það...
Þannig að þetta var bara fínn dagur. Og hann byrjaði líka vel. Í morgun fór ég nefnilega í fyrsta tíma í combat conditioning í Mjölni, hvorki meira né minna. Vaknaði kl. 06.00 til þess að fara að lyfta lóðum, boxa, sparka og taka armbeygjur. Var eins og hræ eftir þennan fyrsta tíma, auðvitað. Gat varla beðið um Aquarius, ég skalf svo mikið. En eftir síðasta tímann mun ég verða ég eins og grískur guð. Helköttaður og helmassaður.
Það sem hélt mér gangandi í morgun var einkum það að þjálfarnir settu Guns and Roses á fóninn. Welcome to the Jungle fær mann nú alltaf til þess að djöflast aðeins extra.
Spurning hvort fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi notað það trix til þess að komast úr halla yfir í afgang?
Farinn að sjá Veðramót.
26.9.2007 | 13:16
Hugleiðing um peningamálastefnu
Ég skil eiginlega ekki hvernig er hægt að halda öðru fram en að peningamálastefnan, svokölluð, sé bitlaus. Lítum á:
- Verðbólga hefur í örfáum undantekningatilfellum verið samvæmt markmiðum á undanförnum árum.
- Það er ekkert lát á framkvæmdum. Háhýsin rísa sem aldrei fyrr... (á erlendum lánum væntanlega)
- Skuldir aukast og aukast.
Þetta síðasta þykir mér einna merkilegast. Þrátt fyrir himinháa vexti er ekkert lát á yfirdráttarskuldum. Ef peningamálastefna Seðlabankans ætti að virka einhvers staðar, að þá væri það þar.
Ég er með kenningu um þetta, grófa, sem ég ætla að varpa fram svona rétt til þess að setja eitthvað í púkkið með öllu því sem hefur verið skrifað um málið (áhrif jöklabréfa, hið tvöfalda hagkerfi etc.):
Ég held að vaxtastigið sé að mörgu leyti eins og áfengisverð. Það hefur mun minni áhrif en við viljum að það hafi. Þegar keypt er áfengi, er það vel þekkt að fólk kaupir það sem það þarf, en ekki bara það sem það hefur efni á. Um þetta var dálítil umræða í sumar sem leið. Það þykir marklaust að halda veislu, ef ekki er nóg boðið af veigum.
Að sama skapi held ég að það sé ríkt hjá þjóðinni að taka einfaldlega þau lán sem hún þarf, en ekki bara þau sem hún hefur efni á. Það er engu líkara en að það sé ekki spurt um vexti. Þetta er ein birtingarmynd hins margfræga "þetta reddast"-hugarfarins.
En af hverju "þarf" þjóðin svona mikil lán? Mikil neysla er eitt. Krafan um neyslu er mikil. Kostnaðarvitund er að sama skapi lítil (samanber misheppnaðar virðisaukaskattslækkanir á matvælum). Fólk virðist því kaupa það sem það vill kaupa á því verði sem sett er upp.
Þetta eru kjöraðstæður fyrir banka og kaupmenn.
En ég held hins vegar að þetta sé full einföld mynd af ástandinu og ekki fyllilega sanngjörn. Við erum ekki upp til hópa kaupóðir vitleysingar, þó svo margir séu það.
Ég held að ekki síðri áhrifaþáttur í skuldasöfnun heimilanna á þessum þenslu- og hávaxtatímum sé einfaldlega sá, að laun stórra hópa í samfélaginu eru orðin of lág. Fólk nær einfaldlega ekki endum saman. Laun nægja ekki fyrir föstum útgjöldum, viðhaldi húsa, frístundastarfi barna etc.
Ein birtingarmynd þessa ástands er sú, að fólk er hreint og beint hætt að sækja um afgreiðslu- og umönnunarstörf, sem og kennarastörf. Þau borga sig ekki og leiða einungis til enn meiri skuldasúpu. Fyrsta skrefið fyrir æ fleiri er því að koma sér út úr þeim og í eitthvað annað. Þessi þróun er að gerast fyrir framan nefið á okkur og er ískyggileg.
Til þess að heimilin losni úr skuldasúpu sinni --án þess að fólk þurfi beinlínis að yfirgefa nauðsynleg samfélagsleg störf --, og til þess að peningamálastefnan mögulega virki, þarf stöðvun skuldasöfnunar, svo ekki sé talað um sparnað og niðurgreiðslu skulda, að vera raunhæfur kostur fyrir þennan stóra hóp almennings sem um ræðir. Þannig er það ekki í dag.
Til þess að svo verði, þarf að búa svo um hnútana að þessi hópur sem setið hefur eftir, skuldum hlaðið á lágum launum, hafi úr meiru að spila. Þetta er hægt með 1) launahækkunum, 2) aðgerðum í skattkerfinu, 3) aðgerðum í verðlagsmálum og í framtíðinni, mögulega, 4) evrunni.
Ef ekkert er gert, er hávaxtastefnan ekkert annað en snara um háls þeirra sem síst skyldi.
Eða kannski meira eitthvað svona...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.9.2007 | 23:40
Spegill Ahmadinejads
Ahmadinejad Íransforseti virðist hafa flutt dálítið undarlegan fyrirlestur í Columbia. Kannski var ekki við öðru að búast. Dálítið bil er á milli hans þankagangs virðist vera og hinna frjálslyndari íbúa Vesturlanda, sem ekki síst er að finna í skólum eins og Columbia.
Það eru margar hliðar á þessari uppákomu. Auðvitað eru yfirlýsingar Ahmadinejads, til dæmis, um að í hans landi séu engir hommar lítið meira en hlægilegar.
En spáum nú samt aðeins í þessa yfirlýsingu, þó ekki væri nema bara í þágu hugarleikfiminnar.
Þessi yfirlýsing Ahmadinejad, ef við einskorðum okkur bara við hana -- þótt um margt annað mætti skrifa úr ræðu hans-- leiðir auðvitað hugann að því, að stjórnmál á Vesturlöndum hafa einnig einkennst af alls kyns afneitunum á raunverulegum og sönnum hlutum í gegnum tíðina, mörgum mjög alvarlegum.
Í dag var til að mynda Condoleza Rice að stíga stór skref í því að viðurkenna gróðurhúsaáhrif sem raunverulegt vandamál, en Bandaríkjamenn hafa verið tregir í taumi hvað aðgerðir gegn þeim varðar um langt árabil. Stjórnvöld þar hafa einfaldlega verið treg til að viðurkenna tilvist þeirra.
Hér vil ég taka fram að ég er alls ekki að bera saman homma og gróðurhúsaáhrif.... Punkturinn er hins vegar sá, að hugsanlega fer það okkur Vesturlandabúum illa að hlæja að afneitunum annarra, þegar við sjálf erum sek um að "taka strútinn" eins og það kallast, þ.e. að stinga höfðinu í sandinn, hvað varðar ýmislegt.
"Á Íslandi er engin spilling"
"Á Íslandi eru allir hamingjusamir"
"Á Íslandi er engin stéttaskipting."
Allt eru þetta setningar sem ég gæti vel ímyndað mér að fallið hefðu úr munni íslenskra stjórnmálaleiðtoga á erlendri grundu á undanförnum árum og áratugum, og hafa reyndar fallið nokkrum sinnum innanlands ef ég man rétt. Setning Íransforseta um samkynhneigða -- í ljósi þess að honum líkar greinilega ekki við þá og vill þar af leiðandi ekki að þeir séu til -- lýsir ámóta "wishful thinking" af hans hálfu.
Hvað varðar homma ættu Bandaríkjamenn heldur ekki að hlæja of mikið. Ég veit ekki betur en að kvikmyndin Brokeback mountain hafi til að mynda verið tekin úr sýningu á mörgum svæðum í Bandaríkjunum á þeim forsendum að yfirvöld og íbúar á þeim svæðum viðurkenndu ekki tilvist samkynhneigðra.
Ég skrifaði pistil um þetta á sínum tíma. Ég var nefnilega staddur í Bandaríkjunum. Mér fannst það skrýtið að maður þyrfti að viðurkenna tilvist einhvers til þess að leyfa -- eða njóta -- sýningar á kvikmynd sem fjallaði um það. Hvað með StarWars? Þarf maður að viðurkenna tilvist Loga geimgengils áður en maður horfir á myndina?
En hvað um það. Ég er hreint ekki aðdáandi Ahmadinejads. Mér finnst hins vegar forysta Bandaríkjanna eiga dálítið erfiðan málstað að verja í viðureign sinni við hann, einkum vegna sinnar eigin hegðunar í mannréttindamálum og einnig út af dálitlum órökstuddum blóðugum stríðsrekstri sem átt hefur sér stað á undanförnum árum að hennar frumkvæði, byggðum á ásökunum um kjarnorkuvopnaeign sem engin var.
Þess má líka geta að Ahmadinejad barðist fyrir hönd Írana gegn Írökum á sínum tíma, sem studdir voru með ráð og dáð af Bandaríkjunum í viðurstyggilegu 10 ára stríði sem átti sér stað á milli þjóðanna hér einu sinni. Hugsanlegt er að honum sé ekki vel við Bandaríkin út af þessu.
Þetta er allt saman slæmt. Í viðureignum Vesturlanda við menn eins og Ahmadinejad og aðra þjóðarleiðtoga sem láta sér mannréttindi í léttu rúmi liggja heima fyrir, er gríðarlega mikilvægt að Vesturlönd sjálf geti sýnt gott fordæmi þegar á hólminn er komið og standi á siðferðislegu bjargi lýðræðis og mannréttinda.
Upp á þetta vantar, svo vægt sé til orða tekið.
Ég held það hafi verið gott að Ahmadinejad hafi fengið að tala og einnig gott að hann fékk orð í eyra frá skólastjóranum í Columbia, en sá var ekki að skafa utan af því í kynningu sinni á Íransforseta.
Hið besta við þennan viðburð var auðvitað það að hann var lifandi vitnisburður þess, að þrátt fyrir allt er það hægt á Vesturlöndum sem er ekki endilega hægt í Íran nú um stundir: Að tala saman.
19.9.2007 | 15:28
Á þing í okt.
Í október, nánar tiltekið 8.okt, fer ég á þing og mun sitja í tvær vikur. Árni Páll Árnason fer á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ég leysi hann af.
Ætli maður verði ekki að vera með bindi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.9.2007 | 13:25
Húfuslagur
Þá er löggan byrjuð að láta sjá sig í miðbænum um helgar. Mig minnir að það hafi verið eitt af skilgreindum verkefnum sérsveitarinnar, þegar fjölgað var í henni hér um árið við mismikinn fögnuð, að hún ætti að hlaupa í störf almennrar lögreglu eftir því sem á því væri þörf.
Það var löngu orðin þörf fyrir meiri löggæslu í miðbænum, þannig að mikið var.
Annars voru þetta dálítið fyndnar fréttir af þessari fyrstu nótt sérsveitarinnar í miðbænum. Einhver jólasveinn reyndi að taka húfuna af Herði. Átök í kjölfarið
Minnir mig dálítið á Flataskóla.
Fínt að löggan er komin á svæðið. Ég vona samt að þetta verði ekki eins og í gamla daga þegar það var gerð einhver svona rassía. Þá voru nokkrir vinir mínir á menntaskólaaldri að koma úr bíó. Tveir þeirra fóru að tuskast til um það, í gríni, hvor þeirra ætti að sitja í framsætinu á leiðinni heim.
Löggan kom og stakk þeim báðum í svörtumaríu og upp á stöð.
Lengi í minnum haft. Þetta menntaskólatusk var talið grafalvarlegt mál, alveg sama þótt enginn hafi reynd að taka af neinum húfuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Skarpir pennar
- Ólína Þorvarðar
- Kalli Matt
- Helgi Seljan
- Konur á trúnó
- Árni Páll
- Gauti Egg
- Dagur Egg
- Oddny Sturlu
- Össur Skarp
- Helga Vala
- Gudríður Arnardóttir
- Dofri Hermanns
- Katrín Júl
- Þórunn Sveinbjarnar
- Björgvin Sig
- Róbert Marshall
- Kristrún Heimis
- Mörður Árna
- Helgi Hjörvar
- Steinunn Valdís
- Sigmar Guðmunds
- Ágúst Ólafur
- Bryndís Ísfold
- Örn Úlfar
Hljómsveitin
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- brynhildur
- dolli-dropi
- agnar
- alcandiary
- malacai
- almaogfreyja
- almapalma
- andreaolafs
- ural
- aas
- agustakj
- hof
- asgeirgudmunds
- aslaugs
- heilbrigd-skynsemi
- baldvinj
- bardurih
- bergruniris
- bergrun
- kaffi
- beggipopp
- bergthora
- birgitta
- bjarnihardar
- lubbiklettaskald
- bjorkv
- heiddal
- bleikaeldingin
- eyvar
- gattin
- bryndisfridgeirs
- bryndisisfold
- dagga
- limped
- dabbi
- dofri
- madamhex
- egillg
- saxi
- eirikurbergmann
- eirikurbriem
- elfur
- elinora
- ellasprella
- eirikuro
- skotta1980
- kamilla
- evropa
- disill
- eyglohardar
- eyvi
- ea
- fanney
- fararstjorinn
- feministi
- finnurtg
- finngolfsson
- hressandi
- ulfarsson
- gilsneggerz
- gislihjalmar
- gudni-is
- gudjonbergmann
- mosi
- thjalfi
- hugs
- gudmbjo
- lostintime
- gudrunarbirnu
- ghasler
- zeriaph
- gunnaraxel
- gbo
- laugardalur
- gylfigisla
- halldorbaldursson
- kiddih
- hallurg
- nesirokk
- hannibal
- hhbe
- handsprengja
- skinkuorgel
- 730bolungarvik
- heidistrand
- heidathord
- latur
- heimirthor
- mjollin
- helgadora
- hehau
- 730
- helgisan
- belle
- kjarninn
- hlekkur
- hlynurh
- kolgrimur
- hlynur
- birkire
- hrafnhildurolof
- don
- hrannarb
- hreinsi
- hrolfur
- hvitiriddarinn
- hordurj
- hordur-stefansson
- hoskuldur
- ibbasig
- ingabesta
- ingibjorgstefans
- sarcasticbastard
- jara
- ingisund
- ingo
- ingvarvalgeirs
- id
- irisarna
- bestiheimi
- hansen
- joik7
- skallinn
- jonsigurjonsson
- drhook
- jonthorolafsson
- juljul
- heringi
- kristinnj
- kiddijoi
- killerjoe
- kjarrip
- hemmi
- kerla
- einarsson
- kristjanmoller
- kiddip
- kvenfelagidgarpur
- lauola
- lara
- magnusl
- gummiarnar
- markusth
- matti-matt
- maggabest
- millarnir
- poppoli
- olafursv
- ljosvellingar
- tabergid
- olofyrr
- omarragnarsson
- paul
- pallieinars
- palmig
- doktorper
- perlaheim
- pro-sex
- rungis
- lovelikeblood
- sigfus
- sign
- danmerkufarar
- safi
- siggikaiser
- siggisig
- smari-karlsson
- stebbifr
- fletcher
- geislinn
- steindorgretar
- ses
- manzana
- kosningar
- sunnaros
- svenni
- svenni71
- sverrir
- saethorhelgi
- sollikalli
- tinnaeik
- tidarandinn
- torfusamtokin
- tommi
- truno
- urkir
- sverdkottur
- valdiher
- valdisa
- valgerdurhalldorsdottir
- vefritid
- ver-mordingjar
- tharfagreinir
- kennari
- thorsteinnerlingsson
- thorarinnh
- thordistinna
- toddi