Leita í fréttum mbl.is

Ertu þá farinn?

cold_weather_maintenance-suellen_in_snowsuit2.jpg
Þegar ég var í morgun að reyna að binda niður ruslatunnuna fyrir utan heimili mitt í þvílíkum nístandi norðanstormi að ég hélt ég yrði úti þá þegar, poppaði upp í heilahvelið eftirfarandi hugsun sem hefur valdið mér þónokkrum ugg síðan: Er Golfstraumurinn farinn? Er það svona sem það gerist? Verða Íslendingar dæmdir til að vafra um í heimatilbúnum snjógöllum (sjá mynd) næstu þúsund árin? Ein kveikjan að því að ég ákvað að vinda mér (viðeigandi orðalag) í prófkjör voru umhverfismál. Ég sá myndina hans Al Gore. Bókin hans er á náttborðinu. Ég hafði líka kynnt mér málið lítillega áður. Þó svo ég efist auðvitað um að Golfstraumurinn sé raunverulega farinn að þessu sinni -- þótt nægur sé andskotans skítakuldinn -- að þá breytir það ekki því að loftslagsbreytingar eru eitt mest aðkallandi, ef ekki bara langmest aðkallandi viðfangsefni sem jarðarbúar hafa staðið frammi fyrir. Ég sá að Kofi Annan var að tala um þetta. Hann lýsir áhyggjum af því að enginn ætli að taka frumkvæðið í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin. Ég held að Íslendingar ættu að gera það. Fimbulkuldinn sem nú ríkir, í nóvembermánuði sem stefnir í að verða sá kaldasti frá því mælingar hófust, ætti að vekja okkur til umhugsunar. Svona viljum við ekki hafa það. Kenningin er skýr, studd afdráttarlausum vísbendingum: Hlýnandi lofthjúpur getur beint Golfstraumnum annað og bingó: Við verðum rennandi á rassinn ofan á íshellu áður en við vitum af. Öllu flugi aflýst. Í alvöru talað: Við eigum að ganga í þetta mál af fítonskrafti. Boða til alþjóðlegra ráðstefna í massavís sem lyktar með raunverulegum niðurstöðum og efna til rannsókna (eins og forseti vor vill og er byrjaður að vinna að) sem miða að því að finna lausnir á þessu vandamáli. Þetta er vel hægt. Að öðrum kosti getum við alveg eins farið að tálga lurkana okkar og safna spreki fyrir væntanlega ísöld. Verst hvað maður er mikill klaufi við að kveikja eld með steinum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil ekki alveg þessa gróðurhúsaumræðu alla.  Fyrir 9000 árum voru engir jöklar á Íslandi - ekki var sú hlýnun af völdum mengunar eða manna - sólin sá alveg um það.  Öræfingar fóru "suður" með því að fara milli jökla, já Vatnajökull var þá tveir jöklar vegna hlýinda frá landnámi líklega fram undir 1300 - sólin sá um þau hlýindi líka. 

Af hverju í ósköpunum geta menn ekki séð að það er fyrst og fremst sólin sem stjórnar hlýnun eða kólnun.  Siggi stormur benti á það um daginn að Golfstraumurinn skipti minnstu máli - við fáum okkar hita að lang mestu leyti með lægðunum sem ferðast hér yfir hafið.

Það var einhver danskur gaur sem sagt var frá í fréttum sem benti á að menn ættu ekki að fara á taugum þótt hitastig á jörðinni hafi hækkað að meðaltali um eina gráðu síðustu 100 ár.  Áhrif sólarinnar eru það sem skiptir máli.  Ég sá grein í tímaritinu Nature sem sýndi eftir miklar rannsóknir á Grænlandsjökli að hitastig á jörðinni síðustu 10 þúsund ár hafi verið lýgilega stöðugt miðað við þær rosasveiflur sem voru næstu 90 þúsund ár þar á undan.

En fréttamenn virðast éta alveg hrátt billegar dómsdagsspár eins og Al Core og fleiri vafasamir pappírar láta frá sér fara reglulega.  Mæli með að blaðamenn skoði þessi mál betur og tali við einhverja aðra en fólk sem er dottið úr öllum tengslum við raunveruleikann. 

Þakka að öðru leyti skemmtilegt blog hjá þér, Guðmundur. 

Einar Karlsson (IP-tala skráð) 16.11.2006 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðmundur Steingrímsson
Guðmundur Steingrímsson
Tölvupóstur: gummisteingrims@gmail.com
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband